139. löggjafarþing — 99. fundur
 24. mars 2011.
umsóknir um styrki frá ESB.

[10:46]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sé að 13. liður á dagskrá í dag er þingsályktunartillaga um afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég sakna þess mjög að þingsályktunartillaga mín og fleiri um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram eður ei sé ekki líka á dagskrá vegna þess að formaður utanríkismálanefndar var búinn að tala um að þessar tillögur kæmu samhliða inn í þingið til að hægt væri að ræða þær. En það er önnur saga.

Ég var á umhverfisnefndarfundi og mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um styrkjamál Íslands sem umsóknarríkis í aðlögunarferli. Það vill þannig til að margar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið virðast vera komnar af stað með einhvers konar umsóknir eða beiðnir um styrki, en illa gengur að fá svör hjá forstjórum þessara ríkisstofnana um hverjir standi að baki þessum umsóknum. Forstjórarnir fara gjarnan hjá sér og geta ekki sagt þingmönnum hverjir það eru og hvernig styrkumsóknirnar koma til.

Því langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra beint: Hver stendur að þessum umsóknum með sérfræðiaðstoð sem koma á hingað í gegnum TAIEX-styrkina eða IPA-styrkina sem koma í beinum fjárframlögum? Er það ríkisstjórnin? Eru það einstakir ráðherrar? Er það samninganefndin sjálf? Eða embættismennirnir í stofnunum? Hverjir fara raunverulega fyrir þessum styrkumsóknum?



[10:48]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það má skipta þessum styrkjum í tvennt, eins og hv. þingmaður sagði sjálf. Það eru annars vegar þessir TAIEX-styrkir og hins vegar IPA-styrkirnir. Þó má segja að TAIEX-styrkirnir svokölluðu sem eru til að byggja upp þekkingu og afla hennar innan lands og utan falli undir IPA-styrkina.

Eins og ég greindi þinginu frá 3. febrúar eru TAIEX-styrkirnir í fullum gangi, í fullri sátt við alla viðkomandi ráðherra. Þeir eru skilgreindir út frá þörfum samningaferlisins og það er aðalsamninganefndin sem skilgreinir hvaða verkefni þarf til að styrkja umsóknina.

Að því er varðar hina styrkina, IPA-styrkina, er mér ekki kunnugt um að búið sé að samþykkja neinn þeirra. Ég tel að það sé fullt sammæli um að viðkomandi ráðherrar muni taka við slíkum styrkjum ef um er að ræða uppbyggingu þekkingar sem fellur undir svið sem tengist EES. Ég gæti nefnt t.d. matvælalöggjöfina sem við höfum gengist undir. Um aðra styrki er það að segja að sumir þeirra, stærsti hlutinn, koma einungis til þegar þjóðin hefur goldið jáyrði með umsókninni, m.a. til að hrinda þá í framkvæmd ákveðnum breytingum á stjórnsýslu sem þarf þá að ráðast í. Áður en það verður er einungis um það að ræða að leggja fram áætlanir, þarfagreiningar o.fl. Ég hef líka greint þinginu frá því. Þessir svokölluðu styrkir sem eru til að styrkja innviði og grunngerð samfélagsins eru sérstakir. Enginn þeirra hefur verið samþykktur enn þá, ekki heldur af Evrópusambandinu, ferlið hefur ekki náð það langt. Viðkomandi fagráðherrar munu þá þurfa að beita sér fyrir slíkum styrkjum og sömuleiðis þarf til að samþykkja þá sérstaklega að fjalla um þá í ráðherranefnd.



[10:51]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ansi var þetta ruglingslegt svar. Að sjálfsögðu er ekki hægt að sækja um styrki ef skilyrði styrkveitingarinnar er jáyrði þjóðarinnar við því að ganga inn þannig að hæstv. utanríkisráðherra gat sparað sér þau orð. Það sem stendur upp úr í þessu svari er sú staðreynd sem kom fram í hinu litla svari ráðherrans um TAIEX-styrkina að það er samninganefndin sjálf sem skipuleggur og undirbýr styrkumsóknir. Þarna er samninganefndin komin langt fram fyrir umboð sitt sem samninganefnd því að hún á að gæta að hagsmunum Íslendinga fyrst og fremst en ekki sækja peninga til kvalara sinna í leiðinni. Þannig er það.

Þess vegna verðum við að athuga í þinginu, því að við höfum eftirlit með þessari umsókn sem nú liggur inni, hvort ekki sé um hreint valdbrot að ræða að samninganefndin fari fram með þessum hætti. (Forseti hringir.) Samninganefndin er komin langt út fyrir valdmörk sín miðað við það sem hún á að starfa.



[10:52]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það ber stundum við að hv. þingmaður skilur ekki alveg hlutina, a.m.k. ekki réttum skilningi. Eins og ég hef greint þinginu frá og eins og ég hef sagt frá í fjölmiðlum eru TAIEX-styrkirnir þannig að það er samninganefndin sem skilgreinir þarfir samningaferlisins en um styrkina sjálfa er það að segja að það er utanríkisráðuneytið sem kemur þeim bónum á framfæri. Þeir sem vinna í samningunum skilgreina þarfir samningaferlisins.

Að því er varðar aðra styrki sem við getum þá til hægðarauka kallað IPA-styrki er alveg ljóst að þeir þurfa að skilgreinast af viðeigandi ráðuneytum. Það er ekki aðalsamninganefndin sem kemur að því, alls ekki, hvergi. Síðan er farvegurinn sá að þegar búið er að gera það fara þeir í gegnum utanríkisráðuneytið en líka í gegnum síu á milli þar sem ráðherranefndin er og sömuleiðis þurfa (Forseti hringir.) viðkomandi umsóknir að uppfylla forsendur sem Evrópusambandið sjálft setur gagnvart öllum umsóknarlöndum. Þau eiga öll kost á þessu.