139. löggjafarþing — 102. fundur
 29. mars 2011.
störf þingsins.

[14:01]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að mun fleiri hafa óskað eftir því að taka til máls undir þessum lið en munu komast að á þeim tíma sem ætlaður er fyrir umræðu um störf þingsins.



[14:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Á vef Ríkisútvarpsins ruv.is fyrr í dag segir, með leyfi forseta:

„Össur Skarphéðinsson […] sagði á fundi utanríkismálanefndar að hann hefði haft óskorað umboð til að styðja að Atlantshafsbandalagið tæki yfir stjórn hernaðaraðgerða.“

Á Alþingi í gær sagði formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs aðspurður um hvort flokkurinn styddi þá sömu ákvörðun, með leyfi forseta:

„Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“

Það liggur sem sagt fyrir að þegar Norður-Atlantshafsráðið, NATO, tók ákvörðun sl. sunnudag um að taka yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu lét hæstv. utanríkisráðherra samþykkja ákvörðunina án þess að bera hana undir samstarfsflokkinn, Vinstri græn, sem var og er andvígur loftárásunum. „Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“ — Þar með var Vinstri grænum neitað um þann möguleika að ríkisstjórnin beitti neitunarvaldi í Norður-Atlantshafsráðinu sem hefði komið í veg fyrir að bandalagið tæki að sér stjórn hernaðaraðgerðanna. Hvert bandalagsríki hefur klárt neitunarvald. Þannig vinnur NATO. Vinstri græn hefðu getað haft heimssöguleg áhrif á utanríkisstefnu bandalagsins og komið henni á kortið en þau voru ekki spurð. Um leið er ljóst að Samfylkingin er búin að gera Vinstri græn ábyrg án þeirra samþykkis og gegn vilja þeirra fyrir hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Það er sjálfsagt rannsóknarefni hvernig aðdragandinn að þessari ákvörðun gat farið fram hjá bæði formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og formanni utanríkismálanefndar.

En það er ekki bara meðferð Samfylkingarinnar á samstarfsflokknum sem vekur athygli heldur einnig meðferð hæstv. utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar á stjórnskipaninni. Ég vek sérstaka athygli þingsins á því að ráðherrann hafði ekki samráð við utanríkismálanefnd um það hvernig atkvæði Íslands yrði ráðstafað í ráðinu (Forseti hringir.) sl. sunnudag og spyr því hv. formann utanríkismálanefndar: Hvers vegna var það ekki gert?



[14:04]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er stjórnmálahreyfing sem berst fyrir friði, mannréttindum og lýðræði og gegn hvers konar kúgun og ofbeldi og styður baráttu þjóða fyrir sjálfstæði og frelsi undan ógnarstjórnum. Við teljum einnig að Sameinuðu þjóðirnar séu réttur vettvangur til að meta stöðu mála þar sem átök geysa og ákveða og axla ábyrgð á viðeigandi aðgerðum af hálfu alþjóðasamfélagsins til að tryggja öryggi almennra borgara. Í því ljósi styðjum við samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973 sem lýtur einkum og sér í lagi að flugbanni og aðgerðum til að verja óbreytta borgara en einnig að nauðsyn friðarumleitana og hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skipað sérstakan fulltrúa í því augnamiði. Í samþykkt öryggisráðsins er jafnframt áskilnaður um samstarf við ríki Arababandalagsins um allar aðgerðir og án slíks samráðs væri farið út fyrir umboð Sameinuðu þjóðanna.

Færa má rök fyrir því að aðgerðir sem Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar stóðu fyrir í upphafi hafi verið á mörkum umboðs Sameinuðu þjóðanna og jafnvel komnar út fyrir það með loftárásum á borgaraleg skotmörk en slíkt grefur undan vægi Sameinuðu þjóðanna. Vinstri græn eru andvíg hvers konar hernaðarbandalögum og aðild Íslands að NATO, ein íslenskra stjórnmálaflokka, enda þótt á Alþingi hafi jafnan verið meiri hluti fyrir þeirri aðild var þjóðin ekki spurð álits á sínum tíma sem er þó vissulega aldrei of seint að gera. Þrátt fyrir að samþykki öryggisráðsins heimili ekki einungis einstökum ríkjum heldur einnig ríkjabandalögum að framfylgja flugbanninu yfir Líbíu er það sjálfstæð ákvörðun NATO í þessu tilviki hvort það vill taka að sér hlutverk í þessu efni.

Eins og kom skýrt fram af hálfu formanns VG í þinginu í gær styður flokkurinn ekki þátttöku NATO í aðgerðunum í Líbíu og átti ekki þátt í þeirri afgreiðslu þar sem Ísland beitti sér alls ekki fyrir aðgerðum af hálfu NATO en lagðist ekki gegn þeim. Það er staðfest skoðun VG að stríðsrekstur leysi engan vanda heldur sé fremur fallinn til að auka neyð og vanlíðan þeirra þjóða sem í hlut eiga eins og mýmörg dæmi sanna. Við eigum samleið með þeim sem vilja tryggja frið og öryggi almennra borgara, ekki herveldum eða bandalögum þeirra sem oftar en ekki láta stjórnast af efnahagslegum (Forseti hringir.) og pólitískum hagsmunum.



[14:06]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við lesum í blöðum dagsins að ráðleysi ríkisstjórnarinnar sé algert. Það er ekki stjórnarandstaðan sem segir þetta heldur aðilar vinnumarkaðarins. Þeir segja að ráðleysi ríkisstjórnarinnar sé slíkt að ekki sé hægt að klára samninga. Þetta kemur okkur í stjórnarandstöðunni svo sem ekki á óvart. Við vitum hvernig staðan er í sambandi við atvinnumál innan ríkisstjórnarflokkanna. Þar er ósamstaðan og óvissan alger. Menn koma sér ekki saman um eitt eða neitt á þeim vígstöðvum. Við heyrum hæstv. forsætisráðherra segja eitt varðandi skattana á meðan hæstv. fjármálaráðherra hleður skattaskammbyssuna enn og aftur og boðar nýja og hærri skatta. Þannig er hvert málið á fætur öðru.

Nú horfum við fram á að við náum ekki kjarasamningum, m.a. út af því að skilaboð ríkisstjórnarinnar eru mjög óskýr. Framkvæmdapakkinn er mjög rýr í roðinu, segir formaður Samtaka atvinnulífsins, Vilmundur Jósefsson, sem sagði að enn og aftur væri ríkisstjórnin að japla á hlutum sem ekki væri hægt að láta ganga upp.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, sem hefur haft stór orð varðandi uppbyggingu atvinnumála og hefur sýnt ákveðið sjálfstæði ásamt örfáum þingmönnum Samfylkingarinnar í þá veru að vilja byggja upp blómlegt atvinnulíf og leiða ríkisstjórnina á réttar brautir: Hver eru skilaboð hans til ríkisstjórnarinnar til að leysa þetta mál, höggva á hnútinn þannig að við getum komið kjarasamningum frá svo að a.m.k. einni óvissunni verði eytt? Hver eru hans skilaboð til ríkisstjórnarinnar? Hver eru hans skilaboð til atvinnulífsins á þessum erfiðu tímum?



[14:08]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við þurfum á margan hátt að laga til í samfélagi okkar og þar mun LÍÚ-armur Samtaka atvinnulífsins ekki ráða för. Við þurfum mestan part að koma atvinnulífinu enn frekar af stað en gert hefur verið og þar hef ég gagnrýnt kannski manna mest ríkjandi stjórnvöld vegna þess að það ætti að vera okkur næg aðvörun í þeim efnum að horfa framan í atvinnulaust fólk á hverjum degi. Við þurfum að koma atvinnulífinu eins hratt og vel af stað og hægt er.

Við þurfum líka að horfa til komandi kjarasamninga hvað skattkerfið snertir. Þar kemur tvennt til greina sem ég vil að verði skoðað mjög vandlega. Ég hef ekki verið talsmaður mikilla skattahækkana og geld varhuga við að þær leggist af ofurþunga á fjölskyldufólk og fyrirtæki. En ég hef ásamt fleiri samfylkingarmönnum talað fyrir því að beita skattkerfinu hvetjandi á fyrirtæki þannig að þau geti í ríkari mæli tekið við starfsfólki og fái umbun fyrir það í gegnum skattkerfið. Það kæmi svo til baka inn í ríkissjóð með göfugri hætti en annars vegna þess að þá fengju fleiri vinnu. Eins tel ég koma til greina að við komum betur til móts við barnafólk í landinu sem tekur á sig mestu byrðarnar í samfélaginu í gegnum skattkerfið. Skattkerfið er tekjujöfnunarkerfi, mannanna verk sem við getum breytt og á að koma til móts við það fólk sem ber þyngstu byrðarnar á hverjum tíma og er einmitt barnafólk. Ég geld varhuga við því að við göngum inn í sumar og vetur þar sem hópurinn sem líður e.t.v. mest fyrir komandi aðgerðir verður sá breiði hópur barnafólks sem er að koma sér upp fjölskyldu og íbúð í landinu. Við þurfum á því að halda að sá hópur sé mjög traustur (Forseti hringir.) í uppbyggingu landsins.



[14:10]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf væntanlega ekki að rifja upp að þegar Alþingi samþykkti árið 2008 að leggja á gjaldeyrishöft var það gert í trausti þess að þau stæðu einungis í nokkra mánuði. Ég efast um að nokkur alþingismaður hefði samþykkt að grípa til þeirra ráðstafana hefðu þeir vitað að gjaldeyrishöftin ættu að standa í 7–8 ár.

Nú hefur ríkisstjórnin með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í broddi fylkingar kynnt áform sín um að festa gjaldeyrishöft í sessi a.m.k. til ársins 2015. Það eru hrikaleg tíðindi fyrir almenning í landinu en ekki síður atvinnulífið og þau ótíðindi bætast við hærri skatta, hækkað tryggingagjald og almennt átak ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuuppbyggingu. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Fyrirtæki eins og CCP mun hugsanlega neyðast til að flýja land. Við fáum ekkert erlent fjármagn og fjárfestingu inn í landið sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Traustið á efnahagslífið og fjármálakerfið er í lágmarki og allra minnst hjá núverandi ríkisstjórn enda staðfesta áform hennar um að festa gjaldeyrishöftin í sessi vantrú hennar á eigin hagkerfi.

Í stað þess að leysa vandann hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nýtt tímann í að tala niður eigin gjaldmiðil og lýsir framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar opinberlega þannig að gamaldagskrónu og gamaldagsgjaldeyrishöft kalli á gamaldagsatvinnustefnu. Ég spyr: Er ekki kominn tími til að hv. þm. Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar, viðurkenni að í þeirri ákvörðun að festa gjaldeyrishöftin í sessi til ársins 2015 felist alger uppgjöf ríkisstjórnarinnar við að takast á við þau verkefni sem henni hafa verið falin? Er ekki kominn tími til að lýsa því yfir að ríkisstjórninni hafi mistekist sú endurreisn efnahagslífsins sem hún ætlaði sér að ráðast í? Getur hv. þingmaður upplýst fólkið og fyrirtækin í landinu um hvort frekari ótíðinda er að vænta frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarmeirihlutanum? (Forseti hringir.) Eru t.d. tillögur eða hugmyndir í farvatninu um að taka upp opinbera verðstýringu eða aðrar miðstýrðar aðgerðir (Forseti hringir.) til viðbótar því að festa gjaldeyrishöftin í sessi?



[14:13]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa Íslendingar upplifað tvíburakreppu, annars vegar bankakreppu og hins vegar krónukreppu. Bankakreppan var að mestu leyti á kostnað erlendra kröfuhafa, þúsundir milljarða króna en hitti ríkið illa í gegnum endurfjármögnun bankanna og Seðlabanka. Krónukreppan olli miklu meira tjóni hjá fyrirtækjum og heimilum í landinu. Hrun krónunnar rústaði efnahagsreikningum fyrirtækjanna sem misstu allt sitt eigið fé og launafólk og heimili urðu fyrir miklu áfalli við hrun krónunnar en líklega meira við verðbólguskot sem fylgdi í kjölfarið.

Hvað er Seðlabankinn að segja með áætlun sinni um afnám hafta? Hann er að segja að krónuvandinn sé slíkur að við ætlum að reyna að losa snjóhengjuna, jöklabréfin, upp á tæplega 500 milljarða kr. á næstu 2–3 árum. (Gripið fram í.) En við treystum okkur ekki til að losa almennu höftin á krónunni fyrr en þjóðin hefur tekið afstöðu til þess hvort hún treysti sér og vilji ganga í Evrópusambandið. Það er það sem Seðlabankinn er að segja og þeirri spurningu þurfa fleiri en samfylkingarmenn að svara. Hvaða framtíðarsýn ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða heimilum og fyrirtækjum í landinu upp á? Krónu í höftum eða nýja mynt? (Gripið fram í.) Það er veruleikinn sem Seðlabankinn birtir landsmönnum. Því miður er hægt að skjóta sendiboðann, það er hægt að skjóta hann. Því miður eru skilaboðin skýr. Við það þurfa stjórnmálamenn að horfast í augu. Við getum ekki losað höft á krónunni fyrir fyrirtækin eða heimilin í landinu. Við munum ekki búa við krónu nema í höftum. Hvernig ætla menn að komast fram hjá EES-samningnum við slíkt fyrirkomulag? (Gripið fram í.) Ég spyr sjálfstæðismenn: Hvernig ætla menn að komast fram hjá því að brjóta EES-samninginn með því að búa við krónu í höftum? Menn þurfa að horfast í augu við að hér þarf að taka upp nýja mynt (Gripið fram í.) fyrir heimilin og (Gripið fram í.) fyrirtækin. Þetta eru greinilega skilaboð sem fara frekar illa í suma þingmenn en við verðum að horfast í augu við veruleikann (Gripið fram í.) sem Seðlabankinn birtir okkur landsmönnum. Við búum ekki við krónu án hafta til framtíðar. Við þurfum að taka upp nýja mynt (Forseti hringir.) í landinu. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)



[14:15]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er hér með fyrirspurn til formanns utanríkismálanefndar er varðar undarlega endurtekningu á sögunni. Ég er svolítið slegin yfir því að heyra að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki ráðfært sig við ríkisstjórnina áður en ákveðið var að Ísland mundi styðja við NATO-aðgerðir í Líbíu út af því að ég held að það að ríkisstjórnin hafi samþykkt að styðja ályktun öryggisráðsins sé allt annað mál en að styðja aðild Íslands að stríði í Líbíu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort honum finnist þetta góð stjórnsýsla. Það er ljóst að við tölum nú tungum tveim á vettvangi NATO, ein tungan segir já og hin segir nei. Mér finnst jafnframt ástæða til að benda á að strax föstudaginn eftir að þessi samþykkt öryggisráðsins varð að veruleika kallaði ég eftir fundi í utanríkismálanefnd þar sem ég bað um að hæstv. utanríkisráðherra yrði kallaður til nefndarinnar til að fara yfir stöðu mála af því að það var ljóst að hlutirnir voru að gerast mjög hratt. Strax þarna á fyrstu dögum voru komnar upp gagnrýnisraddir, meðal annars frá Arababandalaginu, en stuðningur þess var forsenda þess að styðja við loftferðabann.

Mig langar jafnframt að benda á að við höfum enn ekki fengið fulltrúa frá SHA, Samtökum hernaðarandstæðinga, Sverri Jakobsson, á fund nefndarinnar eins og ég bað um. Ég óska eftir að fá upplýsingar um af hverju hann hefur ekki enn verið boðaður á fund nefndarinnar til (Forseti hringir.) að heyra rödd friðarsinna.



[14:17]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þjóðin gengur að kjörborði eftir nokkra daga og tekur afstöðu til Icesave-samningsins. Seðlabanki Íslands hefur lagt á það mat að nei í þjóðaratkvæði um Icesave þýði veikara gengi, lægri kaupmátt og meiri verðbólgu. Fyrir liggur að afleiðingar á lánshæfi, aðgengi að fjármálamörkuðum og vaxtakjör gætu orðið alvarlegar fyrir Íslendinga en Ísland gæti staðið uppi með dóm um greiðsluskyldu án fyrirliggjandi samnings um vexti, endurgreiðslur eða önnur kjör en ljóst er að sambærilegir eða lægri vextir verða vart í boði.

Með þverpólitískri samninganefnd tókst að lágmarka og festa niður eins og kostur er alla helstu kostnaðar- og áhættuþætti málsins. Vextir eru í lágmarki, höfuðstóll miðast aðeins við lágmarkstryggingu, engin ríkisábyrgð kemur til fyrr en þrotabú Landsbankans hefur gengið upp í skuldbindingar Tryggingarsjóðs, efnahagslegir og lagalegir fyrirvarar vegna stóráfalla eru til staðar og greiðslutími bæði vaxta og uppgjörs miðaður við þarfir og getu Íslands. Fari málið fyrir dómstóla eru allir þessir þættir úr höndum okkar Íslendinga svo að óvissan um endanlegan kostnað og kjör er margfalt meiri.

Virðulegi forseti. Íslendingar eiga að meta eigin hagsmuni og taka þá ákvörðun sem skynsamlegust er fyrir hagsmuni efnahags- og atvinnulífs til skemmri tíma og lengri. Við þær aðstæður þarf að vega og meta kostnað og áhættu af fyrirliggjandi samningi á móti áhættu og mögulegum kostnaði við áframhaldandi átök og dómsmál.

Í ljósi alls þessa er ekki tilviljun að aukinn meiri hluti þingmanna, þar á meðal hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, og allir þeir sérfræðingar sem unnu sleitulaust að lausn málsins á þverpólitískum grunni, mæla eindregið með samningi frekar en dómstólaleið.



[14:19]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þessa greiningu þingmannsins. Það er algjörlega ljóst að þær kosningar sem við erum að fara út í 9. apríl nk. snúast ekki annaðhvort um það að við borgum það sem þarf að borga, ef eitthvað þarf að borga, eða að við sleppum algjörlega undan þessu dæmi.

Þannig er mál með vexti að þessi skuldbinding, sem hljóðar upp á tæpa 700 milljarða, 670–680 milljarða (Gripið fram í: Krafa.) — krafa, hárrétt hv. þingmaður, það er talið að þrotabú Landsbankans muni borga 40% af þessari kröfu á þessu ári, 13% á næsta ári o.s.frv. Nú þegar eru til um 3/4 af því sem á að borga á þessu ári í beinhörðum peningum og það koma inn peningar á hverjum degi, getum við sagt. Talað hefur verið um áhættuna af því að takast á hendur ábyrgð á því sem eftir verður þegar þrotabúið hefur verið gert upp, en ég tel að hún sé af þeirri stærðargráðu að hún sé vel ásættanleg. Ef maður vegur saman ábatann af því að losna við þetta ógeðsmál út úr heiminum og kostnaðinn og áhættuna við að taka þetta á sig þá tel ég að ábatinn af því að segja já sé meiri. Ég hef því verið mjög eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að samþykkja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verður 9. apríl. Ég mun leggja mín lóð á vogarskálarnar til að svo verði.



[14:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Það er stundum sagt í hálfkæringi að ekki megi láta góða kreppu fara til spillis og þetta getur svo sannarlega átt við í húsnæðismálum eins og mörgum öðrum málum. Sennilega hefur flestum orðið ljóst eftir hrunið að sú gegndarlausa séreignarstefna í húsnæðismálum sem hefur verið rekin á Íslandi undanfarin ár sé að stóru leyti gengin sér til húðar.

Víða erlendis er leiguhúsnæði alvöruvalkostur þegar fólk velur sér húsnæði til búsetu til langs tíma en svo hefur í rauninni ekki verið hér á Íslandi. Vandinn hérlendis hefur verið hvað þetta hefur valdið miklum óstöðugleika hjá þeim sem eru að velja sér leiguhúsnæði til íbúðar, meðal annars af þeirri ástæðu að þeir sem eru með íbúðir til útleigu eru ekki með þær á markaðnum til langs tíma. Eigendur leiguíbúða hafa þannig oft notað tækifærið þegar markaðurinn vaknar til íbúðasölu til að selja íbúðir sínar og öryggi leigjenda hefur þannig verið minna en skyldi.

Nú er það svo að margir húsnæðisleitendur eru brenndir af hækkunum á húsnæðiskostnaði þeirra sem hafa keypt húsnæði og eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur því aukist. Ég tel því lag, bæði fyrir stjórnvöld og þar með talið ráðherra, þingið, sveitarstjórnir, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og aðrar lánastofnanir, að nota tækifærið og stuðla að því að leiguhúsnæði verði raunverulegur valkostur í húsnæðismálum til langs tíma eins og séreign og búseturéttur er nú. Þannig tryggjum við fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum og húsnæðisöryggi um leið.



[14:24]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem maður lætur yfir sig ganga á þessum undarlega vinnustað, t.d. fer þessi sérkennilegi hálftímaupptaktur að dagskrá þingsins venjulega í það að maður sér sjálfstæðismenn standa hér helbláa og froðufellandi í ræðustól yfir því að hér skuli ekki vera uppgangstímar og mikil uppsveifla í öllum greinum.

Þetta lætur maður yfir sig ganga en mér blöskar eiginlega þegar haukarnir í Sjálfstæðisflokknum steypa sér yfir okkur, friðardúfurnar í Vinstri grænum, (Gripið fram í.) og kenna okkur um hernaðaraðgerðir og úthellingu á saklausu blóði í Líbíu. Það er alveg splunkunýtt.

Ég ætla ekki að fara í það hefðbundna morfís-pex sem frammíkallarar, og þeir undarlegu menn sem standa hér í ræðustól svo gott sem á hverjum degi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, temja sér. Ég ætla bara að segja ykkur eitt: Allir friðarsinnar viðurkenna tvær grundvallarreglur, tvær, þ.e. hinn heilaga rétt allra manna til að verja líf sitt og í annan stað hina heilögu mannúðarskyldu að koma þeim til hjálpar sem er í lífsháska. Pælið þið í þessu. (Gripið fram í: Vel mælt.)



[14:25]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrir nokkrum dögum komu fulltrúar frá Fjárfestingarstofu á fund þingflokks Samfylkingar og fengum við þar fróðlegt yfirlit yfir þau orkuverkefni sem eru á teikniborðinu og þau eru sem betur fer fjölmörg, snúast um fjölbreytta, vistvæna nýtingu á raforkunni. Má þar nefna kísilverksmiðju ThorSil í Þorlákshöfn, kísílgúrvinnslu í Grindavík, kísilverksmiðjuna í Helguvík, sem hefur verið rætt um og kynnt og undirritaðir samningar um og mun rísa fljótlega. Þá eru ótaldir Þeistareykirnir þar sem fimm aðilar eru taldir keppa um stórbrotna úrvinnslu á raforkunni. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað að senn dragi til tíðinda þar og vonum við að það gangi fram sem kostur er.

Fjölmargir orkunýtingarmöguleikar, sem eru að sjálfsögðu aflvélin út úr samdrætti og atvinnuleysi og inn í nýtt hagvaxtarskeið, eru því á teikniborðinu en mjög miklu skiptir að við höldum utan um og á lífi þeim raforkunýtingaráfanga sem hvað lengst er kominn sem eru álversáformin í Helguvík. Vonandi ræðst það á næstu dögum að HS Orka og Norðurál nái saman, nái að endurnýja orkusölusamning og nái þrætu sinni út úr gerðardómi í Svíþjóð.

En alvarleg tíðindi berast af stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og getu til að standa við sinn hluta raforkuöflunar til álvers í Helguvík. Orkuveitan hefur fjárfest í fimm túrbínum sem eiga að hluta til að standa undir raforkuframleiðslunni í Helguvík auk kísilverksmiðju ThorSil í Þorlákshöfn. Því hafa margir orðið til þess að velta því upp, og einnig sá sem hér stendur, hvort það sé mögulegt og gerlegt að Landsvirkjun komi með einhverjum hætti að álversverkefninu í Helguvík annars vegar með umframorku sinni í kerfinu og hins vegar með aðkomu að verkefnum Orkuveitunnar í Hverahlíðarvirkjun og Hellisheiðarvirkjunarstækkuninni. (Forseti hringir.)

Ég vil því nefna það við hv. formann iðnaðarnefndar hvort nefndin gæti tekið það til umfjöllunar og fengið úr því skorið með forustumönnum Orkuveitunnar og Landsvirkjunar (Forseti hringir.) hvort vilji standi til að gera þetta og hvort það sé gerlegt að Landsvirkjun komi að (Forseti hringir.) orkuskorti til Helguvíkur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk og ljúka ræðu sinni þegar forseti slær í bjöllu.)



[14:28]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni uppbygginguna í Helguvík sem hefur staðið yfir í mörg ár, og hefur verið stopp af ýmsum ástæðum — og ég segi ýmsum ástæðum, jafnt efnahagshruni sem fleiru. Ég velti því fyrir mér sem formaður iðnaðarnefndar hvort við ættum að boða þessa aðila til fundar til að reyna að fá heildarmynd af því sem þarna er að gerast og hvers vegna svo illa gengur að koma þessu verki til áframhaldandi framkvæmda. (Gripið fram í: Það vantar orku.)

Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að sennilega er nú þegar búið að fjárfesta þarna fyrir 20–30 milljarða kr., sem liggja þarna og gefa engan arð á þessum erfiðleikatímum. Mér er sagt að komist þessi framkvæmd þarna áfram — og við skulum líka hafa í huga að talað hefur verið um þessi verkefni af forsvarsmönnum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokka á þann veg að halda eigi áfram með þau — sé hægt að skapa þarna í kringum 2 þúsund störf fjórum til fimm mánuðum eftir að samningar mundu takast um orkuöflun og orkusölu milli aðila, þeirra sem vilja selja og þeirra sem vilja kaupa. Þetta er ekki svo lítið þegar við höfum í huga að í dag ganga 15 þúsund meðborgarar okkar atvinnulausir, sem er eitt mesta þjóðfélagsmeinið um þessar mundir, kostar okkur 30 milljarða kr., skapar engan hagvöxt og er ekkert annað en að vera ávísun á enn meiri vandræði í ríkisfjármálum og öðru sem við eigum eftir að kljást við á þessu ári.

Virðulegi forseti. Já, ég skal beita mér fyrir því að kalla á fund nefndarinnar alla þá aðila sem við getum kallað til og vilja koma til okkar og ræða málin en við skulum auðvitað hafa í huga að stundum er um viðskiptamál að ræða.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður nefndi hér, vegna þess að hann nefndi norðausturhornið, fagna því sem hefur komið frá Landsvirkjun um það sem þeir ætla að gera á norðausturhorninu á þessu ári. Ég fagna alveg sérstaklega ummælum og yfirlýsingum (Forseti hringir.) hæstv. iðnaðarráðherra um að Norðlendingar, íbúar á norðausturhorni, megi fara að búa sig undir stóruppbyggingu á norðaustursvæðinu. Ekki veitir af.



[14:30]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sannarlega að ræða störf þingsins en það er þannig, virðulegi forseti, að okkur þingmönnum ber að sinna ákveðinni eftirlitsskyldu og höfum til þess ákveðin tæki, m.a. fyrirspurnir. Ég hef í tvígang spurt ítarlega um Íbúðalánasjóð og ýmislegt því tengt og ég hvet þingmenn og aðra sem áhuga hafa á málinu að kynna sér svörin, en ég spurði tvisvar sömu spurningar og í bæði skiptin fékk ég engin svör. Virðulegi forseti. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Hverjir veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð á árunum 2000–2008? Í hverju fólst aðstoðin og hversu mikið var greitt fyrir hana?

Þessu var svarað með útúrsnúningi og til að hafa þetta algerlega skýrt lagði ég fram nýja fyrirspurn þar sem þessi spurning kom líka fram:

Hvaða einstaklingar og lögaðilar veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð á árunum 2000–2008? Í hverju fólst sú aðstoð og hve mikið greiddi sjóðurinn fyrir hana, sundurliðað eftir einstökum sérfræðingum?

Það er afskaplega mikilvægt af ástæðum sem munu koma í ljós seinna að svör komi við þessum fyrirspurnum. Ég fékk ekki svar og fékk þess vegna lögfræðiálit, virðulegi forseti, þó að það sé náttúrlega augljóst að þetta er brot á rétti okkar, og þar segir, með leyfi forseta: „Almennt verður að telja að ráðherra sé ekki heimilt að synja alþingismanni um svör við fyrirspurn á þeim grundvelli einum að svarið feli í sér upplýsingar um greiðslu stofnana til einstaklinga eða lögaðila. Til að ráðherra sé fært að synja alþingismanni um slíkar upplýsingar verða a.m.k. að liggja fyrir í hverju tilviki fyrir sig upplýsingar um að greiðslur einstaklinga séu það viðkvæmar út frá almennum sjónarmiðum að þær eigi ekki erindi við allan þorra manna. Í tilviki greiðslna til fyrirtækja og lögaðila verður að liggja fyrir í hverju tilviki fyrir sig að um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna o.s.frv., að það geti valdið viðkomandi tjóni.“ (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að hæstv. velferðarráðherra svari þessari fyrirspurn eins og honum ber þingleg skylda til.



[14:33]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við heyrðum áðan mikla lofræðu milli tveggja hv. þingmanna um mikilvægi þess að samþykkja Icesave-samkomulagið. Það var ágætt að hlusta á þá hv. þingmenn fjalla um þetta þó að ég sé þeim að sjálfsögðu algerlega ósammála, enda eru þeir að mínu viti á miklum villigötum.

Ég vil hvetja hv. þingmenn sem telja að greiða eigi þessar skuldir þegjandi og hljóðalaust, sem mér sýnist að þessir hv. þingmenn vilji gera, að velta því fyrir sér hvernig eigi að mæta því sem fellur á þessu ári þegar kemur að því að semja næstu fjárlög. Á að hækka skatta eða á að skera meira niður til að mæta þeim 26–30 milljörðum sem munu þá verða til þess að íþyngja þjóðinni og okkur sem eru að leita í heilbrigðisþjónustu og annað? Hvernig ætla þessir ágætu þingmenn að greiða þetta?

Ég var að lesa skýrslu Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta og þar stendur í kaflanum Endurmat á skilyrðum fyrir losun gjaldeyrishafta í Viðauka I að lánshæfismatið muni batna ef Icesave-deilan verði leyst. Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Þó verður að hafa í huga að tilvist gjaldeyrishaftanna kann í sjálfri sér að vera hindrun í vegi þess að lánshæfismatið komist í fyrra horf. Því er ekki ástæða til að bíða með að hefja losun haftanna þar til lánshæfismat kemst í fyrra horf, þótt mikilvægt sé að ná lánshæfismatinu tryggilega upp í fjárfestingarflokk“ o.s.frv.

Þessi skýrsla Seðlabankans er nefnilega full af mótsögnum. Það er einfaldlega þannig. Bankinn segir bæði að það sé mikilvægt að samþykkja Icesave út af gjaldeyrishöftunum en segir svo að í sjálfu sér sé yfirlýsing hans um að ætla að halda áfram gjaldeyrishöftunum í fimm ár nægileg ástæða til þess að lánshæfismatið lækki eða í það minnsta hækki ekki. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Það er með ólíkindum að horfa upp á eina helstu stofnun landsins setja málið fram með slíkum hætti.