139. löggjafarþing — 102. fundur
 29. mars 2011.
stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, frh. 1. umræðu.
frv. iðnn., 624. mál (fyrirkomulag eigendaábyrgða). — Þskj. 1099.

[15:54]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði upphaflega ætlað mér að fara í stutt andsvar við hv. þm. Kristján Möller, formann iðnaðarnefndar, út af frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar, til breytinga á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. En til að greiða fyrir þingstörfum féll ég frá andsvarinu og féllst á að halda þess í stað stutta ræðu um málið.

Með frumvarpinu eins og ég skil það er verið að leggja til að ákvæði laga um Orkuveitu Reykjavíkur verði sambærileg ákvæðum laga um Landsvirkjun komi fram beiðnir um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti á því fyrirtæki, til að tryggja að gerðar séu sömu kröfur um eigendaábyrgð Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.

Málefni Orkuveitunnar hafa mikið verið til umfjöllunar á síðustu vikum, nánast þessa stundina meðan þessi umræða fer fram. Ég veit ekki hverjar lyktir málsins voru en af fréttaflutningi að dæma hefur verið lagt til, a.m.k. í borgarráði, að Orkuveitu Reykjavíkur verði lagðir til 11 milljarðar kr. til að rétta af fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem einu sinni var gullgæs okkar Reykvíkinga. Gagnrýnt hefur verið að borgarstjórinn í Reykjavík hafi haft uppi ummæli um fjárhagsstöðu Orkuveitunnar og lýst stöðunni þannig að Orkuveitan sé á hausnum og menn hafa gert því skóna að slíkar yfirlýsingar frá, hvað eigum við að segja, talsmanni helsta eiganda fyrirtækisins hafi gert það að verkum að lánveitendurnir sem Orkuveitan hefur verið í samskiptum við hafi í kjölfarið ákveðið að halda að sér höndum og verið tregari en ella til að veita fyrirtækinu þá lánafyrirgreiðslu sem því er nauðsynleg. Þetta er út af fyrir sig mjög alvarlegt mál, bæði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og okkur borgarbúa. Ef rétt er að borgarstjórinn í Reykjavík hafi gengið fram með þessum hætti og haft uppi yfirlýsingar sem þessar, held ég að segja megi að slíkar yfirlýsingar frá manni í hans stöðu séu ákaflega ábyrgðarlausar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru.

Vegna þess alls hrökk ég svolítið í kút þegar ég sá þetta frumvarp vegna þess að það varðar atriði sem snýr að eigendaábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur ef fram kemur beiðni um greiðslustöðvun, nauðungarsamninga, eftir atvikum gjaldþrotaskipti, á þessu tiltekna fyrirtæki. Það er kannski ekki mjög heppilegt inn í umræðuna sem verið hefur um málefni Orkuveitunnar og yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík um stöðu Orkuveitunnar að á sama tíma komi fram á Alþingi frumvarp sem mælir fyrir um hvernig haga eigi eigendaábyrgð komi til þess að fyrirtækið verði sett í greiðslustöðvun, nauðasamninga óskað eða fram komi krafa eða beiðni um gjaldþrotaskipti.

Það segir hins vegar í greinargerð með frumvarpinu að með ákvæðinu sé komið til móts við kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA þannig að tryggt sé að Orkuveita Reykjavíkur líkt og Landsvirkjun lúti sömu reglum um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð. Ég vildi bara fá fulla tryggingu og staðfestingu fyrir því að iðnaðarnefnd leggi til þessa breytingu vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA og að lagabreytingin hafi ekkert með fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur að gera eða umræðuna sem hefur átt sér stað í tengslum við fyrirtækið á umliðnum vikum.

Ég tel mjög mikilvægt að slík yfirlýsing komi frá formanni iðnaðarnefndar í ljósi umræðunnar til að slá út af borðinu allar hugsanlegar áhyggjur sem upp kunna að koma um að Orkuveita Reykjavíkur sé hugsanlega að fara þá leið sem frumvarpið fjallar að sínu leyti um.

Ég vildi bara undirstrika þetta og óska eftir því að ef þetta er réttur skilningur hjá mér að framlagning frumvarpsins hafi í rauninni ekkert með fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur að gera heldur lúti fyrst og fremst og eingöngu að athugasemdum sem fram hafa komið frá Eftirlitsstofnun EFTA, þá staðfesti hv. þm. Kristján Möller að svo sé þannig að áhyggjur okkar sem eru töluverðar af þróun mála í Reykjavíkurborg og varðandi málefni Orkuveitunnar séu ástæðulausar.



[16:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér enn eitt furðumálið. Í fyrsta lagi er verið að lagfæra nýlega sett lög og samræma ákveðið ákvæði lögum sem sett voru um Landsvirkjun. Það er reynt að halda í það form að þetta séu sameignarfélög, þó að í tilfelli Landsvirkjunar sé þá um að ræða sameignarfélag þar sem ríkið er eigandi með sjálfu sér, það er bara einn eigandi hjá Landsvirkjun en samt heitir þetta sameignarfélag. Hér eru þó fleiri sameignareigendur, mér skilst að þeir séu þrír, allt sveitarfélög. Og það er verið að samræma þetta við það atriði.

Fyrsta atriðið sem ég vil koma inn á er að þetta er galli í lagasetningu sem verið er að leiðrétta. Það skyldi þó ekki vera að hraðinn á öllum málum hér á hinu háa Alþingi leiði til svona leiðréttinga.

Í öðru lagi er mjög furðulegt fyrirbæri að segja að sameignarfélög skuli lúta sömu reglum og félög með takmarkaða ábyrgð, þ.e. hlutafélög. Í staðinn ætti að kalla þetta hlutafélag þegar það er undir ákvæðum um hlutafélög sem eru miklu nákvæmari. Það er annað furðuatriðið í þessu.

Þriðja er svo, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á rétt áðan, málefni Orkuveitu Reykjavíkur sem eru í alveg geigvænlegri stöðu. Það er ekki gott í þeirri stöðu ef fulltrúi stærsta eigandans, fulltrúi ábyrgðaraðilans, kemur fram og segir að fyrirtækið sé í miklum vandræðum. Maður gerir það ekki, frú forseti, um sama leyti og maður ætlar að biðja um lán, maður kemur ekki til einhvers manns og segir: Ég er gjaldþrota, geturðu lánað mér? Það gerir maður ekki. Maður reynir a.m.k. að þegja, það er betra þegar maður er í miklum vandræðum.

Ég vil benda á að 10 milljarðar — það er rétt aðeins farið að fjúka í hugtökin. Hvað þýða 10 milljarðar? Þeir þýða u.þ.b. 100 þús. kr. á hvern íbúa í Reykjavík. Þetta eru svona 300 þús. kr. á hverja fjölskyldu í Reykjavík. Ef maður reiknar með tveim, þrem í hverri fjölskyldu eru þetta 200–300 þús. kr. Þetta kemur til viðbótar við 400 þús. kallinn sem við settum um daginn inn í Íbúðalánasjóð eins og ekkert væri. Þetta kemur líka til viðbótar Icesave sem þjóðin á að greiða atkvæði um 9. apríl. Hérna hefur aðallega verið talað um hvað gerist ef við segjum já. Þá getur gerst bæði gott og slæmt, og getur sérstaklega gerst mjög slæmt ef allt fer á verri veg, ekki einu sinni versta veg, og þá getum við lent í því að við ráðum ekkert við það að borga þetta af því að Icesave er borgað í gjaldeyri.

Vandi Orkuveitunnar er einmitt sá að Orkuveitan er nákvæmlega í sömu stöðu og einstaklingar sem tóku gengistryggð lán til að kaupa bíl eða eitthvað slíkt, hún tók lán í erlendri mynt og hún er með tekjur í íslenskum krónum. Þetta er vandinn. Þetta er sami vandinn og með Icesave því að ríkissjóður er með tekjur í íslenskum krónum, en Icesave er í erlendri mynt. Það er alveg gífurleg áhætta af genginu.

Hins vegar finnst mér hafa verið talað allt of lítið um hvað gerist ef menn segja nei við Icesave. Mér finnst það mjög góður kostur, í fyrsta lagi eigum við ekkert að borga Icesave og í öðru lagi er hugsanlegt að farið verði í málaferli ef við segjum nei. Það er gott mál því að ef við töpum vitum við a.m.k. að við eigum að borga þetta og þá borgum við kannski eilítið glaðari á brún, en ef við vinnum málið sem ég tel vera töluvert miklar líkur á, verulega miklar líkur, borgum við ekki neitt og endurheimtum æru okkar og virðingu um allan heim. Þá getum við sagt við alla útlendingana að við áttum aldrei að borga þetta. Svo borgum við að sjálfsögðu ekki krónu, hvorki pund né evru, ef það skyldi verða.

Það mál sem við ræðum hérna hefur á vissan hátt ákveðna samleitni við lögin um Icesave sem þjóðin greiðir atkvæði um og ég vonast til að hún segi nei við.

Þetta eru þrjú atriði sem ég tengi hérna saman. Það er galli í lagasetningu. Þetta er furðulegt fyrirbæri, það er verið að láta sameignarfélag líta út eins og hlutafélag. Svo gæti einhver tengt þetta við málefni Orkuveitu Reykjavíkur og ég vil spyrja sömu spurningar og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson: Getur verið að það sé einhver samtenging þarna á milli? Ég vona ekki, en þetta kemur á afskaplega óheppilegum tíma inn í þau vandræði sem þar er um að ræða vegna þess að ef einhver ætlar að lána einhverjum peninga gerir hann það í trausti, hann byggir á trausti. Menn verða að treysta eigendum og öðrum.



[16:06]
Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessum tveim þingmönnum fyrir þá umræðu sem þeir hafa fært hér inn. Vissulega má kalla það kaldhæðni að það skuli koma í hlut okkar í iðnaðarnefnd að flytja þetta frumvarp í dag þegar stjórn Orkuveitunnar situr á fundi og ræðir alvarlega fjárhagslega stöðu. Hún er auðvitað margvísleg en einn þáttur er sá sem hv. þingmaður ræddi um áðan sem er alveg hárrétt, lánin eru í erlendri mynt en tekjur í íslenskum krónum. Hrunið varð og þessi lán stökkbreyttust eins og önnur lán sem aðilar tóku í erlendri mynt. Það er eðlilegt að menn hrökkvi svolítið í kút við þetta. Það er sennilega upp undir hálfur mánuður síðan sú spurning kom til okkar í iðnaðarnefnd hvort iðnaðarnefnd vildi flytja þessa breytingartillögu sjálf sem gerir það þá að verkum að þetta fer hraðar hér í gegn. Við óskuðum umsagnar frá bæði ráðuneytinu og Orkustofnun. Þar var fallist á þetta. Hér er einfaldlega, virðulegi forseti, verið að búa til þessa grein og hafa hana nákvæmlega eins orðaða og er í lögunum um Landsvirkjun.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé galli í lagasetningu vegna hraðans. Ég vil ekki segja það, en hins vegar stend ég í þeirri meiningu að textinn í núverandi lögum, þeim sem við ætlum að breyta nú, hafi verið settur inn eftir beiðni og með samþykki Orkuveitu Reykjavíkur. Engir aðilar gerðu athugasemdir við þann texta. Ég vil ekki kenna hraðanum um, enda vorum við ekki í neinni tímaþröng. Það er erfitt að ræða þessi málefni á þessari stundu vegna þess að staðan er mjög viðkvæm en hins vegar kom fram á fundi nefndarinnar þegar þetta var kynnt fyrir okkur að að Orkuveitan er á fullu við að reyna að skuldbreyta lánum og semja við lánardrottna sína um betri kjör, lengingu o.s.frv. Þá kom fram í viðræðum að ákvæðið „að loknum gjaldþrotaskiptum fyrirtækisins“, guð forði okkur frá því að nokkurn tímann komi til þess, gæti tekið til svo langs tíma. Við þekkjum að það hefur tekið misjafnlega langan tíma að ganga frá gjaldþrotaskiptum fyrirtækja. Upp í huga minn kemur að það tók 15–17 ár að ljúka gjaldþrotaskiptum eins fyrirtæki, ég stend alltaf í þeirri meiningu, en það var nú mjög einstakt dæmi. Erlendu lánardrottnarnir gerðu athugasemdir við að það gæti liðið langur tími og þess vegna er þessu breytt á þann hátt sem hér segir í 1. gr. sem er nákvæmlega sama orðalag og á við um Landsvirkjun.

Mitt mat og allra nefndarmanna var að það væri sjálfsagt að verða við þessu í þessari erfiðu stöðu, en þau ákvæði sem voru inni í gömlu lögunum eiga auðvitað við um lán sem tekin voru áður. Þetta mun þá taka gildi við endurskipulagningu. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu. Eins og ég segi er hún mjög viðkvæm. Það er svolítil kaldhæðni að þetta skuli vera á sama tíma, en ég ætla ekki að blanda mér í það sem sagt hefur verið um eða hvernig komið er fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, eins og hér hefur komið fram, en eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fjallaði um var þetta áður fyrr gullgæs. Þetta er, eins og ég segi, hluti af þessu vandamáli sem við Íslendingar göngum í gegnum með allan okkar rekstur, alveg sama hvort það er fyrirtækjareksturinn á heimilum okkar eða fjölskyldu eða fyrirtæki úti um allt. Þetta er vandamálið og það sem blasir við eru þessar ofboðslegu skuldir. Þetta er afleiðing af því — ég ætla nú ekki að nota orðið sem kom upp í hugann — sem var í gangi hér í fjöldamörg ár þar sem erlent fé flæddi inn í landið og fyrirtæki og almenningur tók lán sem aldrei fyrr í erlendri mynt sem kom svo í hausinn á okkur eins og raun ber vitni.

Það er annars vegar aftur í tímann samkvæmt kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA sem hefur verið sett væntanlega inn í landsvirkjunarlögin á sínum tíma, en það kom bara aldrei upp í nefndinni og engir umsagnaraðilar bentu á að þetta ákvæði væri einhvern veginn öðruvísi orðað með Orkuveitu Reykjavíkur en Landsvirkjun. Þess vegna var samdóma álit iðnaðarnefndar að verða við beiðninni sem kom frá Orkuveitu Reykjavíkur, eins og ég segi, um að hafa þetta ákvæði eins að það var. Því er þetta frumvarp flutt hér.

Ég held að annað hafi ekki komið fram hérna sem ég vildi ræða um. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem fjölluðu um málið. Þetta er auðvitað grafalvarlegt, og kaldhæðið að þetta skuli vera rætt á sama degi. Auðvitað berum við þá ósk í brjósti að aldrei komi til þess að þetta ákvæði taki gildi gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Við skulum vona að sú björgunaraðgerð sem er í gangi dugi, eins og hv. þingmaður gat hér um, m.a. hækkanir til almennings og niðurskurður, að okkur takist bæði með þetta fyrirtæki og önnur sem og landið og fjölskyldurnar í heild að snúa vörn í sókn. Vonandi tekst okkur það þó að við getum verið sammála um að þetta taki dálítið langan tíma, því miður.



Frumvarpið gengur til 2. umr.