139. löggjafarþing — 102. fundur
 29. mars 2011.
landlæknir og lýðheilsa, 3. umræða.
stjfrv., 190. mál (sameining stofnananna). — Þskj. 1071, frhnál. 1156, brtt. 1158.

[16:13]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera í gangi ansi lengi og á sér langan aðdraganda. Það er öllum ljóst að eftir bankahrunið dragast tekjur ríkissjóðs mjög saman og það er alveg ljóst að við þurfum að gera meira fyrir minna fé. Svo sannarlega er það, held ég, markmið allra landsmanna að við séum hér áfram með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða þrátt fyrir að við höfum minni fjármunum úr að moða en áður. Að vísu var farið að líta til þess að taka á stjórnsýslu fyrir hrun, þ.e. skoða hvort vinna mætti hlutina betur og með hagkvæmari hætti. Var þá sérstaklega horft til þess, og er ég þá að vísa til þess hvað var gert í minni tíð sem heilbrigðisráðherra, hvernig styrkja mætti þessa þætti, þ.e. forvarnaþáttinn og sömuleiðis, sem er ekki síður mikilvægt, eftirlitsþáttinn.

Það hefur því miður verið afskaplega lítil umræða um eftirlitsþáttinn á Íslandi hvað varðar heilbrigðismálin og mjög margt bendir til þess að þar séu ýmsar brotalamir. Augljósustu brotalamirnar eru þær að upplýsingar um heilbrigðisþjónustu eru ekki samræmdar og hefur lítið þokast í rétta átt hvað það varðar. Ég spurði t.d., virðulegi forseti, hæstv. velferðarráðherra um afköst á heilbrigðisstofnunum, og var þá að vísa sérstaklega í spítalana og hinar ýmsu aðgerðir, og skemmst er frá því að segja að svörin voru fullkomin vitleysa og voru ekki í neinu samræmi við skýrslu sem gerð var nokkrum mánuðum fyrr í heilbrigðisráðuneytinu. Ég spurðist aftur fyrir um það af hverju þetta misræmi væri, það voru ólíkar tölur um sömu aðgerðir sem voru á sama tíma. Þá var svarið eitthvað á þá leið að mikið vantaði upp á að þetta væri samræmt og að stefnt væri að því að svo mætti verða. En ég hef ekki enn fengið rétt svör.

Nú gæti einhver sagt: Hvaða máli skiptir það hvort fyrir liggi einhverjar upplýsingar um fjölda aðgerða? Eru það ekki bara fullkomnar tiktúrur eða eitthvað sem litlu máli skiptir? En það er alls ekki svo. Við erum öll sammála um að við viljum hafa heilbrigðisþjónustu eins og best verður á kosið og við vitum öll að við höfum takmarkaða fjármuni til að gera það. Í raun er alveg sama hversu mikil sveifla er í þjóðfélaginu eða góðæri, eða hvað við köllum það, það er enginn sem hefur úr of miklu að moða til heilbrigðismála. Það er ekki til neinn heilbrigðisráðherra í veraldarsögunni sem hefur sagt: Heyrðu, ég get bara ekki nýtt meiri fjármuni, það er bara ekki hægt að gera meira. Það er alltaf hægt að gera meira í þessum málaflokki.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að við þurfum að móta stefnu sem tekur mið af því að halda uppi ákveðnu þjónustustigi með minni fjármunum. Þá er þetta tæki, eftirlitsþátturinn, mjög mikilvægt, t.d. tölulegar upplýsingar. Það hefur verið vanrækt og í umfjöllun um þessi mál, þ.e. þegar við fengum þetta frumvarp inn, höfum við ekki svo neinu nemi farið yfir þennan þátt mála.

Það skiptir líka grundvallarmáli að menn geti vitað það og treyst því að þegar þeir njóta lækninga og fá heilbrigðisþjónustu á Íslandi séu gæðin mikil. Nú gæti einhver sagt: Það hlýtur að vera, við erum með allt þetta frábæra starfsfólk og höfum fjárfest mikið í þessu á undanförnum árum og áratugum, þetta hlýtur allt að vera í fullkomnu lagi. En virðulegi forseti, það er ekki svo. Það allra versta er að við vitum ekki hvernig staðan er, það er það allra versta. Það er heljarinnar mál og það er flókið og þarfnast yfirlegu og skipulagningar að vera með góðar eftirlitsstofnanir á heilbrigðissviði. Nú höfum við gott tækifæri til að leggja grunninn að því, leggja meiri áherslu á það en við höfum áður gert.

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að það tækifæri erum við ekki að nýta. Hv. heilbrigðisnefnd hefur ekki tekið að sér það hlutverk sem hún ætti að gera, þ.e. að fara faglega yfir þessa hlið mála þannig að við getum verið nokkuð viss um að það sem við erum að gera núna skili sér í því að heilbrigðisþjónustan hér verði betri en hún er og við höfum betri upplýsingar og við fylgjumst betur með því hvernig heilbrigðisþjónustan er í framkvæmd hér á landi. Ég fullyrði það hvar og hvenær sem er að hv. heilbrigðisnefnd nýtti ekki tækifærið til að fara faglega yfir þennan þátt málsins.

Það má auðvitað segja að það liggi engin fagleg úttekt eða skýrsla fyrir, engin. Nú gæti einhver sagt: Það er neyð og við þurfum að flýta okkur. En það eru tvö ár frá því að bankarnir hrundu og það liggur fyrir að fyrir þann tíma voru menn farnir að huga að þessu þannig að menn byrjuðu ekki á núlli. En sú vinna sem unnin hafði verið áður var ekki nýtt. Á síðasta fundi hv. heilbrigðisnefndar spurði ég landlækni að því hvaða faglegu úttektir eða skýrslur lægju til grundvallar. Skemmst er frá því að segja að svarið var mjög einfalt: Ekkert. Ekki neitt. Menn geta haft þá skoðun að þetta verði allt miklu betra þegar ný stofnun er tekin við en það liggur ekkert til grundvallar, ekki neitt. Það var staðfest í umfjöllun hv. heilbrigðisnefndar.

Menn gætu þá sagt: Þá hlýtur að liggja til grundvallar góð úttekt á fjárhagslegum þætti málsins. Það er búið að vinna að þessu í marga mánuði samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum bestar og höfum fengið staðfest af aðilum innan framkvæmdarvaldsins, ekki bara frá því í október síðan við fengum það inn í þingið, ef ég man rétt, heldur löngu fyrir þann tíma. Við hljótum því að hafa einhverjar áætlanir um það hvaða fjárhagslega ávinningi þessi sameining á að skila.

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega engin úttekt á fjárhagslegum ávinningi af þessari sameiningu. Menn segja kannski: Heyrðu, hérna brást framkvæmdarvaldið og löggjafinn, þingið, getur ekkert annað gert en einhvern veginn afgreitt þetta af þessum vanefnum sem er að vísu afskaplega metnaðarlítið sjónarmið en sjónarmið út af fyrir sig, og löggjafinn hefur einfaldlega ekki tæki til að gera neitt í þessu. En þetta er einfaldlega alrangt. Við erum búin að hafa þetta frumvarp í þinginu í fleiri mánuði og ekki hefur verið neinn vilji frá meiri hlutanum til að skoða þessa þætti, fjárhagslega þáttinn og faglega þáttinn. En heilmikið var rætt um nafnið á stofnuninni, og ég á von á því að þingsalurinn ræði það heilmikið, er alveg sannfærður um það. Gott ef það kom ekki breytingartillaga sem við vorum að samþykkja að yrði tekin fyrir hér um nafnið á stofnuninni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er mjög skynsamlegt að hafa gott nafn. En er það markmiðið með þingstörfunum? Er það þess vegna sem hv. fagnefnd á að fara yfir þetta? Er það fyrst og fremst til að fjalla um nafnið þegar við erum hvorki meira né minna en að tala um eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustunnar sem nú á að sameina þeirri stofnun sem á að sjá um forvarnamálin?

Það eru alla vega skilaboðin, virðulegi forseti, frá meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar. Það er það sem hv. meiri hluti ætlar að gera, hann ætlar að klára þetta núna. Maður hefur haft það á tilfinningunni að fyrst og fremst hafi verið litið á það sem einhver óþægindi að þurfa að ræða þetta í nefndinni, því svo sannarlega höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, vakið athygli á þessu aftur og aftur og reynt að fá hv. þingmenn meiri hlutans til að setjast yfir þetta og gera þetta með þeim hætti að sómi væri að. Svo er ekki en við skulum alveg vera sanngjörn, menn verða að eiga það sem þeir eiga. Það er búið að ræða þó nokkuð mikið um nafnið og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Ég á von á því að menn muni örugglega ekki spara sig í því að fara yfir nýjar tillögur um nafnið á stofnuninni.

Virðulegi forseti. Það liggur engin fjárhagsleg úttekt fyrir við áætlun, en svo við spörum okkur ekkert þá var hins vegar til skýrsla um sameiningu stjórnsýslustofnana, sem hét, með leyfi forseta: „Breytt skipan stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins“. Sá sem samdi hana var Stefán Ólafsson sem er prófessor í félagsfræði. Einhverjum mundi finnast það áhugavert að prófessorinn hafi verið fenginn í þetta verkefni en látum það liggja milli hluta. Þetta er, eftir því sem við best vitum, það eina gagn sem liggur til grundvallar. Ég held að flestir sem hlusta á þetta mundu draga þá ályktun að þá hefðu menn nú farið gaumgæfilega yfir skýrsluna og fengið skýrsluhöfund til að útskýra sitt mál úr því að þetta er eina gagnið sem við höfum. Nei, virðulegi forseti. Það var aldrei gert. Það var aldrei farið yfir skýrsluna í hv. heilbrigðisnefnd.

Nú eru til önnur gögn um þessi sameiningarmál og beðið var um að þau yrðu kynnt og að þeir sem komu að þeirri vinnu yrðu kallaðir fyrir hv. heilbrigðisnefnd. En meiri hlutinn var ekki á því. Meiri hlutinn ákvað að það væri fullkominn óþarfi að fara yfir eina gagnið sem var til, það er áhugavert að menn vilji ekki nýta sér það eða tala um það, og því síður að fá upplýsingar um önnur gögn sem hafa verið unnin í tengslum við breytingar á stjórnsýslustofnunum heilbrigðisráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Til að opna augu meiri hlutans fyrir mikilvægi þessa þáttar fengum við á fund okkar Ingibjörgu Hjaltadóttur, báðum um að hún kæmi og kynnti doktorsverkefni sem hún er að vinna varðandi gæði í heilbrigðisþjónustu. Það ber að þakka að hv. formaður heilbrigðisnefndar tók vel í það og við fengum Ingibjörgu Hjaltadóttur til að kynna niðurstöður sínar um hjúkrunarheimili og gera samanburð á þeim og hjúkrunarheimilum í öðrum löndum. Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar voru sláandi, bæði er mjög mikill munur, virðist vera, á hjúkrunarheimilum hér á Íslandi og sum eru ekki með mikil gæði. Þá snýst þetta um líðan fólks, virðulegi forseti, um hættu á slysi á fólki sem eru vistmenn, um lyfjaneyslu vistmanna, tækifæri þeirra til hreyfingar o.s.frv. Ísland kom líka afskaplega illa út í samanburði við það sem gerist annars staðar. Ég verð að viðurkenna að ég vonaðist til þess að þegar við fengjum þessar niðurstöður, svart á hvítu, mundu augu hv. þingmanna meiri hlutans opnast. Ég vonaðist til að þeir segðu: Við skulum ekki láta þetta tækifæri frá okkur fara. Við skulum fara vel yfir þennan þáttinn. Það er það sem skiptir máli að faglegi þátturinn sé góður. Það er augljóst að það eftirlitskerfi sem við höfum haft til þessa virkar ekki eins og við viljum. Núna skulum við ganga þannig frá að við skulum vera viss um að þessi faglegi þáttur, þessi eftirlitsþáttur, sé kominn í betra horf. En það var ekkert verið að ræða slíka hluti, það var ekki verið að taka á málum með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Í þeirri sérkennilegu pólitísku stöðu sem nú er uppi, þar sem varla sá dagur líður án þess að eitthvert hneyksli sé á stjórnarheimilinu, sem mundi sprengja allar aðrar ríkisstjórnir í stjórnmálasögunni — nú þekki ég þá sögu ágætlega — getur vel verið að svona mál fái enga athygli. En þetta er stórmál fyrir alla landsmenn en sérstaklega þá sem þurfa á þjónustu að halda. Þá er ég ekki bara að vísa á hjúkrunarheimilin. Það er algerlega ljóst, það eru í það minnsta líkur á því að ef brotalöm er í eftirliti varðandi þjónustu á hjúkrunarheimilum er jafnlíklegt að slíkt sé til staðar annars staðar, sérstaklega í ljósi þess að við höfum ekki einu sinni samræmdar upplýsingar um þjónustu á heilbrigðisstofnunum landsins. Ég verð að viðurkenna að jafnmeðvitaður og ég er um það að við erum ósammála, hv. þingmenn, og eigum að vera það, það er ekkert að því, í hinum ýmsu málum, þá hélt ég að við gætum náð samstöðu um að vinna þessa hluti. Mig óraði ekki fyrir því að við þyrftum að takast á um það hvernig við vinnum þetta eða réttara sagt vinnum það ekki. Ég átti ekki von á því að þurfa að halda ræðu eins og ég held hér í tengslum við þetta mál. Ég hélt að hv. heilbrigðisnefnd mundi ná saman í máli eins og þessu, í það minnsta um vinnubrögðin.

Nú getur enginn, virðulegi forseti, talað um tímaþröng því að þó að mikið álag hafi verið í mörgum hv. nefndum þingsins þá hefur sú staða ekki verið uppi í heilbrigðisnefnd. Við höfðum allan þann tíma sem við hefðum viljað til að fara vel yfir þetta mál. Við hefðum getum kallað alla þá aðila sem við hefðum viljað til að fara yfir þetta mál.

Virðulegi forseti. Af því að oft koma neikvæðar fréttir frá þinginu þá upplýsi ég það að þó svo maður sé í minni hluta þá er almenna reglan sú að ef maður biður um að fá gesti á fundi nefndar þá er orðið við því, það er almenna reglan. Almenna reglan er sú, og nú hef ég ýmislegt út á ríkisstjórnarmeirihlutann að setja, að þeir sem eru í forustu fyrir hv. nefndir í ríkisstjórnarmeirihlutanum vilja koma til móts við minni hlutann, boða þá gesti á fund sem beðið er um og fara vel yfir málin. En í þessu máli var það ekki gert. Því var hafnað að fá þá aðila sem vísað er til og ekkert var gert með óskir minni hlutans, eða okkar hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um málsmeðferð fyrr en — og það er einn þáttur sem ég á eftir að fara í á eftir — en ábendingar, getum við sagt, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, komu frá starfsmönnum þessara stofnana. En ef þær hefðu ekki komið hefðum við aldrei rætt þann þátt sem snýr að starfsmannamálum en það var sem sagt farið í það, sem er mjög óheppilegt, í ráðningarferli sem var ekki nógu skýrt, ekki var auglýst eftir yfirmönnum og olli það miklum óróa.

Bent var á það í hv. heilbrigðisnefnd af okkur fulltrúum sjálfstæðismanna og það var ekkert með það gert, virðulegi forseti, fyrr en bréf barst frá starfsmönnum landlæknisembættisins þar sem þeir fóru fram á að þetta mál yrði tekið fyrir og farnar yrðu ákveðnar leiðir sem ekki var farið í. Þar voru menn fyrst og fremst að gagnrýna það að í desember var farið í ráðningarviðtöl við ákveðna starfsmenn stofnunarinnar til að vera í sviðsstjórastöðu í stofnun sem var ekki til og er ekki enn þá til og er það ekki í stíl við það hvernig unnið hefur verið í öðrum stofnunum enda mjög hæpið að fara að ráða í stöður í stofnun sem er ekki til. Það veldur eðlilega úlfúð og er gagnrýnt þegar yfirmannastöður eru ekki auglýstar. En því miður, og það er óheppilegt, var ekki nógu vel haldið á þessum málum.

Ég nefndi áðan að engin fjárhagsleg úttekt liggur fyrir. Þó vitum við nokkra hluti. Við vitum að það mun kosta 60 millj. kr. aukalega að sameina þessar stofnanir á þessu ári. Við vitum að í versta falli getur umframkostnaður vegna húsnæðis orðið 450 millj. kr. á næstu 17 árum. Nú vonum við að ekki muni koma til þess en miðað við ástandið í dag bendir ekkert til annars en að umframkostnaður verði verulegur. Þetta er til komið vegna þess að landlæknisembættið er fast í löngum leigusamningi með mjög dýrri leigu og nýtt embætti auglýsti eftir húsnæði, tók ekki lægsta boðinu heldur hærra boði og ekki er búið að finna neinn aðila til að greiða þessa leigu í gamla húsnæðinu. Það eina sem er algerlega öruggt er að það er enginn sem veit hver á að bera þennan kostnað, það veit enginn neitt um það.

Nú er það bara þannig, virðulegi forseti, að það er verið að slást um hverja einustu krónu í heilbrigðismálum. Þetta er viðkvæm þjónusta og þegar menn skera niður þýðir það alla jafna, eða í langflestum tilfellum, að menn verða annaðhvort að skerða starfshlutföll eða segja upp fólki eða hætta við einhver verkefni sem eru í gangi. Það er alveg ljóst að sá kostnaðarauki sem verður af þessari sameiningu mun leggjast á heilbrigðismálin eða félagsmálin. Það er það eina sem er algerlega ljóst en ekki hefur verið upplýst um hvar hann lendir, hvort hann lendir á viðkomandi stofnun þannig að segja þurfi upp fólki þar eða hvort það er sett á einhvern annan þátt, einhverja aðra heilbrigðisstofnun úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að það hafi verið settir aðilar til að stýra þessu verkefni í mars í fyrra og maður skyldi þá ætla að menn hefðu hugsað fyrir jafnaugljósum hlut og þessum á þessum tíma. En það var staðfest fyrir nokkrum dögum í hv. heilbrigðisnefnd að það hefur ekki enn verið gert.

Nú er ég ekki afhuga því að verið sé að sameina stofnanir þegar fyrir því eru fagleg og fjárhagsleg rök. Ef við getum náð sparnaði, t.d. á sviði yfirstjórnar og slíku, en haldið úti þjónustunni þá eigum við bara að gera það jafnvel þó að það séu erfið verkefni. En við eigum að reyna að undirbúa það eins vel og kostur er. Stundum þurfa menn að vinna hratt og fyrir því eru málefnaleg rök. Hér hefur hins vegar lengi verið unnið í þessu máli en grundvallargögnum, sem nauðsynleg eru til að fara í hluti eins og þessa, hefur ekki verið skilað. Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að ég sakna þess virkilega að menn hafi ekki notað tækifærið og skoðað þetta í stærra samhengi, skoðað Lyfjastofnun sérstaklega og lyfjaeftirlitsnefnd. Þar eru menn, sérstaklega í Lyfjastofnun, með ákveðinn eftirlitsþátt í heilbrigðisgeiranum. Þetta var skoðað á sínum tíma og voru augljós samlegðaráhrif þar á milli. Ef menn hefðu nýtt tímann gætum við komið með góða áætlun um það hvernig best væri að þessum málum staðið.

Almenna reglan er sú að forvarnahlutinn og eftirlitsþátturinn eru ekki í sömu stofnuninni. Ef ég man rétt er það bara í Finnlandi sem menn fara þá leið en ekki önnur Norðurlönd. Hugsunin er alltaf sú sama að menn reyna að hafa eftirlitsstofnanirnar einar og sér. Þó getur verið eftirlit með fleiri en einum þætti, stofnunin getur haft eftirlit með hefðbundinni heilbrigðisþjónustu, sem við köllum svo, lyfjamálum og öðru slíku, en það er mjög mikilvægt að stofnanir hafi ekki eftirlit með sjálfum sér. Það er mjög mikilvægt og eðlilega. Ef menn ætla að halda vel utan um hluti þá munu menn þurfa að mæla árangurinn í forvarnamálum. Það er ákveðin hætta á ferð þegar menn eru með þetta í einni stofnun, að þær hafi eftirlit með sjálfum sér. Í það minnsta hafa þær áætlanir sem hafa verið í forvarnamálum fram til þessa verið í höndum og á ábyrgð, mjög stór hluti í það minnsta, Lýðheilsustofnunar.

Virðulegi forseti. Ef frumvarpið verður að lögum, sem allar líkur eru á, þá óska ég starfsmönnum stofnunarinnar vissulega alls hins besta og velfarnaðar í þeim krefjandi verkefnum sem fram undan eru. Þau eru erfiðari og meira krefjandi vegna þess að hv. heilbrigðisnefnd og hv. alþingismenn unnu ekki vinnuna sína eins og þeir hefðu átt að gera — og stend ég við það hvar og hvenær sem er. Í þessu nefndaráliti ásamt öðru eru útskýringar á því, rök fyrir því. Við höfum tekið þessa umræðu nokkuð oft í þingsölum. Hún hefur ekki farið hátt, ekki vegna þess að hún sé ekki merkileg heldur vegna þess að annað skyggir á. En mér þykir mjög miður hvernig menn hafa unnið þetta. Ég vona svo sannarlega að við munum ekki sjá vinnubrögð eins og þessi í þeim málum sem hv. heilbrigðisnefnd mun taka á í nánustu framtíð.



[16:42]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég saknaði örlítið meiri jákvæðni, bjartsýni og kannski uppbyggilegri tillagna um hvað við gætum gert til úrbóta.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um eftirlit og að við þyrftum að safna upplýsingum, það þyrftu að vera til samræmdar upplýsingar svo við gætum haft gott eftirlit með okkar ágæta heilbrigðiskerfi. Ég deili svo sannarlega þeirri skoðun með hv. þingmanni. Mig langar til að fá hann til að skýra fyrir mér í mjög grófum dráttum hvernig hann telji að eftirlitinu eigi að vera háttað og hvort þessi sameining muni koma í veg fyrir bætt eftirlit. Mér fannst ég geta skilið mál hv. þingmanns sem svo að með þessu værum við að hamla eftirlitinu.

Stefnan með sameiningu á heilbrigðissviði hefur verið að búa til breiðar og faglegar, sterkar stofnanir. Mér finnst að slíkar stofnanir hljóti að vera líklegar til að geta safnað þeim upplýsingum sem þarf vegna þess að eftirlit krefst þess að við höfum ákveðnar upplýsingar. Sameiningar- eða samlegðaráhrifin eiga síðan að koma fram með nýtingu stofnþjónustu, svo sem tölvum, afgreiðslu, síma og öðru slíku, þar getum við nýtt samlegðina.

Vegna þess að hv. þingmanni hefur orðið svo tíðrætt um þetta langar mig að inna hann aftur eftir því, ég gerði það líka við 2. umr., hvernig honum lítist á að við búum til virkilega stóra og öfluga eftirlitsstofnun velferðarmála nú þegar við höfum þetta stóra ráðuneyti og getum í raun og veru nýtt samlegðina. Finnst honum ekki að þar geti legið stór og góð tækifæri til að efla eftirlit með allri velferðarþjónustunni?



[16:44]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegt andsvar. Hv. þingmaður velti upp málum sem við ættum að ræða. Ég hefði talið eðlilegt að við ættum að nálgast þetta nákvæmlega svona. Það sem hefur vantað í flesta málaflokka á Íslandi, sérstaklega heilbrigðisþjónustuna og það sem við köllum velferðarmál, er stefnumótun. Í ráðuneyti á Íslandi hefur almennt vantað að unnið væri í stefnumótun. Vel undirbúin stefnumótun skilar sér alltaf. Við sameiningu ráðuneytanna spurðist ég fyrir um hvaða tækifæri væru í þessari samlegð sem talað var um. Hvar liggja þau? Hvað hafa menn unnið varðandi þau? Svörin voru engin. Ef einhver tækifæri eru þar væri gott að það kæmi fram en það hefur ekki enn komið fram. Ég hef spurst fyrir um þetta bæði skriflega og munnlega. Ég veit ekki hvar þau tækifæri liggja og það lá að minnsta kosti ekki fyrir þegar menn sameinuðu ráðuneytin. Það er nákvæmlega þannig sem menn eiga ekki að vinna.

Jákvæðni og bjartsýni. Ég er jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari en hlutverk mitt er að veita eftirlit með meiri hlutanum og ég fer ekki í grafgötur með það, ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum í þessu máli og ég held að við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum reynt allt, bæði með góðu og hörku, til að fá að ræða nákvæmlega þá hluti sem hv. þingmaður nefndi, og fara almennilega yfir þá.

Hvernig á að haga eftirlitinu? Menn verða að hafa sambærilegar tölur. Ef bornar eru t.d. saman aðgerðir milli stofnana verður að tryggja að verið sé að tala um sömu aðgerðir. Eins og kom fram varðandi samanburð hjúkrunarheimila í skýrslu Ingibjargar Hjaltadóttur, verða upplýsingarnar þá miklu betri til þeirra aðila sem þurfa á þjónustunni að halda. Það er jákvæður hvati til að þær stofnanir sem standa sig ekki (Forseti hringir.) geti staðið sig betur.

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessu betur í seinna andsvari en ég fagna þessari umræðu.



[16:46]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á eftirlitsþættinum í velferðarmálum og ég held að við eigum svo sannarlega að ræða hann. Ég sit í hv. félags- og tryggingamálanefnd og við höfum rætt mikið um að aðskilja þurfi eftirlitið frá framkvæmdinni eins mikið og hægt er. Við þurfum að vita hvað við ætlum að skoða. Í málaflokki fatlaðra, þar sem ég sit í samráðsnefnd, erum við t.d. mjög upptekin af því að ekki má bara tala um sambærilegar tölur. Við þurfum líka að tala um gæði og það skiptir mjög miklu máli. Þetta er ekki bara spurning um hvað hlutirnir kosta heldur líka að við séum með sambærilega gæðastaðla.

Ég held að þarna sé ákveðinn samhljómur og við eigum að nýta hann sem allra best. Í þessu tilviki vorum við kannski ekki að tala svo mikið um eftirlit því það var hluti af sameiningarferlinu. Eftirlitið var hjá landlæknisembættinu og fer þar af leiðandi til þessarar nýju stofnunar.

Hv. þingmanni var líka nokkuð tíðrætt um kostnað. Mig langar til að fá hann til að bregðast við einu. Í nefndaráliti hans og hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er talað um óhagstæða leigusamninga landlæknisembættisins vegna núverandi húsnæðis. Nú er það svo að hv. þingmaður þekkir til í ráðuneyti heilbrigðismála. Mig langar því að fá viðbrögð hans við því hvernig standi á að þessir samningar eru almennt til og hvort hann þekki til þeirra. Hvaða leið sér hann til að við getum komist út úr þessu? Þessi samningur er ekkert einsdæmi. Svona óhagstæðir samningar eru til víðar í stjórnsýslunni og voru gerðir á ákveðnum tíma til 25 ára með mjög hárri leigu. Mig langar að heyra hvaða skýringar hann hefur á þessum leigusamningum sem gerðir voru meðan flokkur hans var í ríkisstjórn.



[16:48]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samningana hef ég ekki hugmynd um hvað lá þar til grundvallar, þetta var ekki gert í minni tíð. Ef ég man rétt var einn leigusamningur gerður þegar ég var ráðherra, við Sjúkratryggingar Íslands. Það var afskaplega hófleg leiga þótt samningurinn væri gerður á þeim tíma þegar mikil bólga var á húsnæðismarkaðnum. Ekki var svo sem neitt spreðað þegar kom að húsnæðinu þar eins og allir sjá sem þangað koma. Ég get því ekki upplýst hv. þingmann um þetta.

En hvað átti að gera? Auðvitað hefðu menn átt að reyna að finna einhvern flöt á þessu ef þeir ætluðu að flytja starfsemina, byrja á því að setja einhverja aðra starfsemi þarna inn eða reyna að gera það þannig að hætta væri ekki á því að menn stæðu uppi með autt húsnæði sem þyrfti síðan að borga gríðarlega háa leigu fyrir. Það er ekki hægt að hafa það neitt verra. Þetta er búið að skoða síðan í mars.

Ég er alveg sammála því að aðskilja eigi eftirlitið frá framkvæmdinni. Ég reyndi að gera það í minni tíð sem ráðherra. Allt er það rétt varðandi gæðin sem hv. þingmanni nefndi. Það sem vantar er stefnumótunin. Virðulegi forseti. Ég var ráðherra og það hvarflaði ekki að mér að staðan væri eins og hún kemur fram hjá Ingibjörgu Hjaltadóttur. Við höfðum sérstaka stofnun til að hafa eftirlit með þessu, landlæknisembættið. Það var engin dvergstofnun á íslenskan mælikvarða. Augljóst er að eitthvað vantar upp á stefnumótunina í þessum málaflokki og við eigum að taka á því. Við vitum ekkert. Við erum ekki að vinna þessa vinnu, ekki vann framkvæmdarvaldið stefnumótunarvinnuna. Við erum ekkert annað en afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið þegar kemur að þessu máli., það verður að segjast eins og er. Vonandi gengur þetta stórkostlega en við vitum ekkert um það og höfum ekki lagt nein drög að því. Stór stofnun getur verið góð, slæm og allt þar á milli, þar koma margir þættir inn í. Ég get farið yfir reynslu mína af því. Það er ekkert samasemmerki þarna á milli; þótt við mundum skella öllum stofnunum ríkisins saman í eina stofnun og (Forseti hringir.) gætum hugsanlega sparað einhvern símakostnað í augnablikinu er það engin trygging fyrir gæðum.



[16:51]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðu hans. Í framhaldi af henni langar mig að spyrja um nokkur atriði. Honum var tíðrætt um eftirlitsþáttinn, þ.e. hjá landlækni, og vitnaði m.a. í fyrirlestur sem Ingibjörg Hjaltadóttir doktorsnemi í hjúkrunarfræði hélt fyrir heilbrigðisnefnd.

Nú er það svo og ég gat þess raunar við 2. umr. málsins, að á fjölmörgum stöðum, bæði í lögum um landlækni og lögum um heilbrigðisþjónustu, er skýrt kveðið á eftirlitsþátt embættisins. Ég spurði hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við hvaða greinar þessara laga þeir hefðu athugasemdir eða hverju þeir vildu bæta við. Breytingartillögurnar sem komu frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins við 2. umr. sneru að ráðningum og voru góðra gjalda verðar. Þær voru felldar við 2. umr. en málið kom aftur til nefndar á milli umræðna. Ég innti sérstaklega eftir því hvort þeir hygðust gera breytingartillögur við þessa þætti en svo hefur ekki orðið og engin svör komið um við hvaða þætti ætti að gera athugasemdir.

Varðandi að landlæknisembættið sinni ekki eftirlitshlutverki sínu, ef það er rétt og ég vil leyfa mér að gera fyrirvara við það, er það ekki vegna þess að valdheimildir skorti heldur fyrst og fremst vegna þess að fjármagn skortir. Við í löggjafarsamkundunni þurfum þá að beita okkur fyrir því að (Forseti hringir.) embættið fái frekari fjármuni til að geta sinnt því verkefni sínu.



[16:53]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Gunnarssyni fyrir andsvar hans. Ég er mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður er að vakna, svolítið seint þó. Þetta er nákvæmlega það sem við hefðum átt að ræða í hv. heilbrigðisnefnd. Ég held að ef við læsum lögin, ekki bara í heilbrigðismálum heldur almennt og við vissum ekkert annað, kæmumst við að þeirri niðurstöðu að flest væri betra en það er núna. Það er nefnilega ekki nóg að vera með lög, þau þarf líka að framkvæma.

Hv. þingmaður segir: Það þarf ekki valdheimildir heldur fjármagn. Hvað veit hv. þingmaður um það? Höfum við rætt það í hv. heilbrigðisnefnd? Höfum við kallað eftir upplýsingum um það? Nei. Kannski hefur meiri hlutinn farið yfir þennan faglega þátt á einhverjum sérfundi. En við gerðum það ekki í hv. heilbrigðisnefnd eins og okkur ber skylda til. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Ég er ekki að gagnrýna einn eða neinn, ekki landlæknisembættið eða heilbrigðisþjónustuna. Ég segi bara að við þurfum að gera betur og okkur hv. þingmönnum ber skylda til að vinna að því. Ég tel að við höfum ekki gert það. Við höfðum tækifæri núna og við nýttum það ekki. Ef fjármagn vantar, af hverju í ósköpunum erum við þá að fara í sameiningu sem mun kalla á aukinn kostnað og sá kostnaður mun jafnvel lenda á nýrri stofnun? Hún hefur þá enn minni fjármuni til að sinna eftirliti, ef kenning hv. þingmanns er rétt um að fjármuni vanti til að sinna því. Ef það lendir ekki á viðkomandi eftirlitsstofnun, virðulegi forseti, lendir það á heilbrigðisstofnunum (Forseti hringir.) sem eiga að sinna þjónustunni.



[16:55]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég bjóst svo sem ekki við að þingmaðurinn mundi benda á tilteknar lagagreinar þar sem hann vildi herða á þessum þáttum enda hefur hann eins og við hin haft næg tækifæri til þess í umræðunni en ekki gert það í öðru en að benda á að það vanti meira eftirlit. Það er ekki nema eðlilegt að við hin bendum á það og spyrjum: Er það vegna þess að peninga vanti? Ég ítreka, eins og ég sagði áðan, ég tel að nægar lagaheimildar séu til.

Varðandi fjármagnið hefði ég haldið að útskýringarnar sem hv. heilbrigðisnefnd fékk hefðu átt að duga. Það liggur fyrir, bæði í greinargerð með frumvarpinu og eins hefur það verið margítrekað fyrir heilbrigðisnefnd, að þrátt fyrir sameininguna eiga þessar stofnanir að vera innan fjárheimilda sem fjárlög ársins 2011 segja til um. Hvergi er nefnt í lagafrumvarpinu að auka eigi fjármagn til þessara stofnana vegna sameiningarinnar.

Mig langar hins vegar að inna hv. þingmann eftir því hvort honum finnist að vegna slæms leigusamnings sem gerður var fyrir einum 7 eða 8 árum eigi hreinlega að stoppa alla vinnu við að sameina stofnanirnar. Á það bara að bíða vegna þess einhver vondur leigusamningur sé þarna til staðar? Á að láta stofnunina gjalda þess? Á að láta landlækni og lýðheilsu gjalda þess að þarna á bak við sé slæmur leigusamningur? Ég er alls ekki sammála því að við eigum að gera það. Það þarf vissulega að leysa það mál, ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það, en við megum ekki láta það stoppa sameininguna.



[16:57]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir málflutning hv. þingmanns. Hann segir: Hér kemur engin tillaga um lagabreytingu. (ÓGunn: Við erum búin að ræða málið í þrjá mánuði.) Hver sagði að breyta þyrfti lögunum, virðulegi forseti? Tveir aðilar hafa skoðað þessi mál sérstaklega, Stefán Ólafsson prófessor einhverra hluta vegna og síðan var unnið að þessu í minni tíð sem ráðherra. Nú gæti einhver spurt: Ef skoða á þetta, af hverju kalla menn þá ekki þessa aðila til og fara yfir hvað þeir vita svo við getum unnið úr því og kannski komist að þeirri niðurstöðu að breyta þurfi lögum eða einhverju öðru? En meiri hlutinn bannaði það, stoppaði það, og það er ekki almenna reglan, virðulegi forseti. Sú umræða var ekki tekin, þessir aðilar voru ekki spurðir.

Varðandi að fjármagn vanti, þá þarf ekki meira fjármagn til að samræma upplýsingar um aðgerðir. Þær þurfa bara að vera samræmdar. Þetta var ekkert rætt, virðulegi forseti, ekki orð. Hér kemur hv. þingmaður upp til að upplýsa um að stofnunin þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur, hún þurfi ekki að bera þessar 60 millj. kr. á þessu ári eða hugsanlega 450 millj. kr. á næstu 17 árum, hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Hver þarf þá að hafa áhyggjur af því? Er það spítalinn á Ísafirði? Er það Landspítalinn? Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu? Hver á að bera kostnaðinn? Við erum búin að vera með þetta mál síðan í október í þinginu. Vill hv. þingmaður eða einhver hv. þingmaður koma upp og útskýra það, segja okkur frá því? Búið er að spyrjast fyrir um þetta frá fyrsta degi og svarið er: Eigum við að láta vondan leigusamning koma í veg fyrir sameiningu stofnana? Og hv. þingmaður segist vera sammála því að það eigi að leysa þetta. (Forseti hringir.) Af hverju leysti hv. þingmaður ekki þetta mál og, í það minnsta, af hverju svaraði hann því ekki hvar sparnaðurinn eigi að koma fram?



[17:00]Útbýting:

[17:01]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við þetta frumvarp og vil byrja á að þakka þingmönnum fyrir þátttöku í atkvæðagreiðslu um afbrigði sem varð að fara fram til að þessi breytingartillaga kæmist á dagskrá og hægt væri að ræða hana.

Tillagan tekur heila síðu í þingskjalastærð og er nokkuð viðamikil miðað við efni hennar sem er eingöngu það að tvö orð leysa af hólmi önnur tvö orð í frumvarpinu öllu, nefnilega „embætti landlæknis“ á að koma í stað „Landlæknir – lýðheilsa“.

Samkvæmt eðli máls ætla ég ekki að taka mikinn þátt í þeim harðvítugu umræðum sem voru um frumvarpið áðan. Reyndar kemur manni á óvart svo nöturlegur tónn í þeirri umræðu því að úr fjarlægð virðist það vera hið besta mál að sameina þessar tvær stofnanir og hefði kannski aldrei átt að skilja þær í sundur. En ég ætla sem sagt ekki að taka efnislega þátt í þessari umræðu nema af því að ég sá og heyrði að síðasti hv. ræðumaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, var pirraður yfir að fjallað væri um nafn stofnunarinnar — væntanlega á þeim 12 línum eða svo sem er gert í nefndaráliti meiri hlutans fyrir 2. umr. og þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir — vil ég segja að vissulega er heiti stofnana ekki kjarni málsins en það er heldur enginn hégómi. Heiti stofnana, alveg eins og manna, staða og hvers annars sem við þurfum að nefna með nafni, á sér menningarlegar forsendur, söguleg rök og þegar um vinnustað er að ræða varðar það líka þann brag sem á kemst innan stofnunarinnar og þann starfsanda sem menn vinna sín verk í.

Í 2. umr. um málið beindi ég tilmælum í nokkuð losaralegri og á köflum grallaralegri ræðu til nefndarinnar og formanns hennar sem hér var staddur og þeirra nefndarmanna sem voru viðstaddir um að skoða þetta mál betur. Í því hefur ekkert gerst og ég fer að skilja betur af hverju miðað við þá umræðu sem fór fram áðan. Nefndarmenn hafa kannski haft annað að gera en íhuga þessa hlið málsins. Það er auðvitað þess vegna sem ég flyt sjálfur breytingartillögu án þess að hafa komið við sögu málsins efnislega með öðrum hætti og vonaðist satt að segja til að ekki yrði þörf á því heldur mundi nefndin bjarga þessu máli sjálf. Ástæðan er sú að hvorki upphaflega nafnið í frumvarpinu, embætti landlæknis og lýðheilsu, né það sem við tók, Landlæknir – lýðheilsa, stenst þær kröfur sem mér finnst að menn eigi að gera um nöfn á opinberum stofnunum á Íslandi. Ég tel því rétt að gefa þinginu kost á að velja á milli tveggja nafna sem eru annars vegar Landlæknir – lýðheilsa og hins vegar embætti landlæknis.

Rökin fyrir því nafni sem nefndin valdi, Landlækni – lýðheilsu, eru að þar kemur fyrir orðið lýðheilsa sem er ágætt orð, tiltölulega ungt í málinu, ætli það sé ekki eins eða tveggja áratuga gamalt. Það væri auðvitað heppilegt ef hægt væri að koma fyrir í nafni stofnana öllu því sem þær fást við og standa fyrir. En það er ekki hægt miðað við þá tísku okkar tíma að hafa nöfnin tiltölulega stutt og þá hefð sem ríkir um nöfn á opinberum stofnunum á Íslandi. Við höfum þar á móti ýmis ágæt dæmi um að sameinaðar stofnanir fái nafn sem eigi sér sögulega hefð og lýsi inntaki þess sem gert er.

Menn sem kannast við Veðurstofu Íslands gætu haldið að hún sé hin gamla Veðurstofa ein og sér en svo er ekki því að hún var sameinuð Vatnamælingum Orkustofnunar fyrir nokkrum árum og voru þá uppi miklar bollaleggingar um hvað sú stofnun ætti að heita. Niðurstaðan varð sú að nafn annarrar stofnunarinnar var tekið og sú óánægja sem búist var við að það leiddi af sér hjá starfsmönnum hinnar hygg ég að hafi verið mjög skammæ.

Það sama má segja um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar voru sameinaðar fimm stofnanir sem fengust við íslensk fræði. Það voru Orðabók háskólans, Stofnun Sigurðar Nordals, Íslensk málstöð og Örnefnastofnun Íslands og svo Stofnun Árna Magnússonar. Fyrsti kosturinn við þeim vanda var að leggja til að stofnunin héti Stofnun íslenskra fræða sem mönnum þótti ekki mjög gott. Eftir nokkrar bollaleggingar var ákveðið að láta stofnunina heita Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það var alveg eins búist við því að starfsmenn hinna stofnananna yrðu óánægðir með þetta og kannski urðu þeir það framan af en ég held að sú óánægja sem kann að vera uppi meðal starfsmanna hinnar nýju stofnunar stafi ekki af nafni hennar, sem hefur alþjóðlegan hljóm og minnir viðkunnanlega á hinn mikla frumherja í íslenskum fræðum sem Árni Magnússon var, heldur miklu frekar af því að illa hefur gengið að koma þessari stofnun í eitt lag, m.a. vegna þess að framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu og fjárveitingavaldinu hefur mistekist að standa við það fyrirheit sem þessari nýju stofnun, starfsmönnum hennar og áhugamönnum um það sem hún stundar var gefið í upphafi um nýtt og sameiginlegt húsnæði.

Ég held að þetta dæmi kenni okkur ágætlega að það er ekki nafnið sem skiptir máli heldur hvernig að málum er staðið. Það getur komið upp mikil óánægja með það og hún getur bitnað á nafni eða vali á yfirmanni eða hverju öðru en það er þá yfirleitt birtingarmynd óánægju og ósamkomulags um aðra hluti.

Ég tel í þessu dæmi að embætti landlæknis sé viðeigandi en hef ekki leitað lengi að öðru nafni. Landlæknir er elsti embættismaður þjóðarinnar. Þetta er sennilega elsta opinbera sýsla sem enn er til á landinu. Landlæknisembættið var stofnað árið 1760. Landlæknir hét þá „landphysicus“ að þeirrar tíðar hætti. Það eru 250 ár síðan og kannski má segja að stofnun landlæknisembættis og aðrar framfarir sem urðu í landinu á 18. öld og okkur tókst nokkurn veginn að gleyma í sjálfstæðisbaráttunni þegar við vorum að fást við aðra hluti en höfum betri sýn yfir núna hafi kannski táknað — ég segi ekki upphaf nútímans en a.m.k. lok miðalda. Ég held að við skuldum þeirrar tíðar mönnum og samhenginu í íslenskri sögu það að umgangast heiti og tákn um þessa hluti af mikilli virðingu.

Nútímaorðið lýðheilsa kemur ekki fyrir í nafninu, það er alveg rétt. Á hinn bóginn var hinum fyrsta landphysicusi sem var Bjarni Pálsson, sá sem ferðaðist með Eggert Ólafssyni og settist að þremur árum síðar í hinu nýreista, glæsilega, danskættaða húsi á Nesi við Seltjörn, einmitt ætlað að efla lýðheilsu á Íslandi þótt það orð væri þá ekki til á íslensku og sennilega ekki í dönsku heldur. Friðrik V. sem skipaði Bjarna hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir að það hugtak þyrfti á sérstöku orði að halda, en það var auðvitað grunnurinn og kjarninn í störfum Bjarna Pálssonar landlæknis og þeirra landlækna sem síðar komu og er mikil fylking prýðilegra manna. Það á því ekki illa við að fela þetta hugtak í heiti embættisins.

Meira hef ég í raun og veru ekki um þetta mál að segja, þingheimur ákveður hvað hann vill, nema kannski það að sá siður að kalla fyrirbæri tveimur nöfnum með þverstriki eða bandstriki á milli er auðvitað til, það er ákveðin hefð fyrir því og ég rakti það í 2. umr. Það var einkum í viðskiptalífi fyrri tíma, það er ekki tíska sem tíðkast lengur í viðskiptum. Dæmin eru Sjóvá – Almennar þar sem eignarfallið ætti að vera til Sjóvár – Almennra og ferðafyrirtæki sem eitt sinn var til og hét Samvinnuferðir – Landsýn og varð til úr tveimur fyrirtækjum, eignarfallið væri þá til Samvinnuferða – Landsýnar sem mönnum gekk illa með. Þetta er sem sagt ekki tíðkað mikið lengur í viðskiptalífinu. Önnur dæmi eru úr íþróttum. Við þekkjum lið sem hafa verið slegin saman úr tveimur félögum. Ég fór með nöfn nokkurra þeirra. KR – Grótta var einu sinni til í handboltanum, Leiftur – Dalvík keppti í 3. deild og gekk ekki mjög vel og ekki heldur KR – Gróttu. Nú leika reyndar konur á Akureyri handbolta undir nafninu Þór – KA. Ég held að þeim gangi betur. En þetta sýnir að ekki er um heilsteypt lið að ræða. Má þó minna á að í karlaboltanum á Akureyri — og horfi ég nú framan í hv. þingmann þess kjördæmis sem við á, Jónínu Rós Guðmundsdóttur — gengur betur. Liðið heitir Akureyri handknattleiksfélag og er kallað Akureyri en til þess er leikurinn gerður og gengur mun betur enda nafnið miklu þjálla.

Um þetta gæti ég haft langt mál og hafði reyndar nokkuð lengra en var við hæfi í 2. umr. Minningarnar spretta fram og gaman er að rifja upp íþróttaleiki og gengi liða. Kjarninn er einfaldlega sá að þessi lausn hefur ekki reynst vel og er ekki ástæða til að endurtaka hana í nöfnum opinberra stofnana enda hafa ekki verið nefndar fyrirmyndir að þessu heiti í mín eyru þótt eftir hafi verið leitað. Ég hvet menn til að gera upp hug sinn og hugsa til starfsmanna sem þurfa að vinna í þessari vinnustöð en ekki síður til almennings, sem þarf að skipta við stöðina og lifa með henni, og hugsa einnig til íslenskrar sögu og þjóðlegrar reisnar.



[17:14]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir áhugann á málinu eða eigum við kannski að segja áhugann á nafninu, enda hefur nafnamálið mikla tengst þessu máli fram og til baka. Og nú höldum við áfram að ræða það.

Ég held að í tengslum við þetta mál þurfum við að fara yfir það í huga okkar og hjarta að við viljum á einhvern hátt reyna að sameina það að bera virðingu fyrir hinu gamla og halda í heiðri söguna og gamlar hefðir um leið og við viðurkennum að þróun verður og ýmsir nýir þættir máls koma inn og það getur t.d. komið fram í hugtakanotkun. Þannig finnst mér það skipta mjög miklu máli að í hugtökum eða heitum stofnana sé ákveðið gegnsæi og þess vegna finnst mér það nafn sem við höfum gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun muni nýta, þ.e. landlæknir – lýðheilsa, sem kannski gæti styst í eitthvað annað, vera hið besta mál. Í ljósi þess að við viljum leggja mjög mikla áherslu á lýðheilsuþáttinn, þ.e. forvarnir og heilsueflingu, á meðan landlæknisembætið hefur meira verið tengt eftirliti og starfsleyfisútgáfu og annað slíkt, þá finnst mér það skipta máli. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ekki skipta máli að við sjáum það á nafninu nákvæmlega hvaða hlutverki stofnunin á að gegna.

Hv. þingmanni varð talsvert tíðrætt um brag og starfsanda í upphafi máls síns. Heldur hann ekki að það að lýðheilsuþátturinn kemur inn í nafn stofnunar geti skipt máli fyrir þá starfsmenn sem koma inn frá Lýðheilsustofnun?



[17:17]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, ef nafnið getur lýst inntaki þess sem nafnið ber þá er það gott. Stundum gera nöfn það, stundum ekki. Nafnið Mörður lýsir t.d. á afar takmarkaðan hátt inntaki eða eðli þess hlots sem hér stendur í ræðustól. Knattspyrnufélag Reykjavíkur lýsir hins vegar ágætlega inntaki og eðli nafnbera síns sem þó stundar margt annað en knattspyrnu, þó að knattspyrnan sé bæði aðal þess félags og knattspyrnufélagið aðal íslenskrar knattspyrnu. Þannig má rekja sig úr einu hloti í annað.

Það má líka spyrja: Sinnir Veðurstofa Íslands verr vatnamælingum, og því hlutverki sem hún tókst á hendur við sameininguna, sem Veðurstofa Íslands en undir einhverju öðru nafni? Stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sig verr í orðfræði sem stunduð var á stofnun sem hét Orðabók Háskólans en ef hún héti einhverju öðru nafni? Þar er dæmi um að ómögulegt var að koma fyrir þeim lýsingum sem lágu í nafni stofnananna fimm sem þar voru fyrir. Ég held, svo ég endurtaki það, að skapferli og ánægja starfsmanna fari fyrst og fremst eftir því hversu vel er staðið að sameiningunni og hvernig vinnustaðurinn virkar og hvaða tökum menn ná á viðfangsefnum sínum — ef það er í lagi þá held ég að menn uni þeim mun betur við nafnið sem það er eldra og hefur meiri hefð.



[17:19]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan snýst um ýmislegt og við höfum verið að tala dálítið um íþróttafélög og annað slíkt. Sú íþróttagrein sem stendur mér næst er hestamennska og nú velti ég því fyrir mér hvort hestanöfn almennt séu gegnsæ eða ekki, ég veit það ekki. Ég held að það sé ekki það sem málið snýst um í raun og veru.

Í því tilviki sem hér um ræðir erum við að afleggja ein lög, lög um Lýðheilsustofnun, og breyta lögum um landlækni. Fyrir einhverjum kann það að geta litið þannig út að verið sé að leggja eina stofnun niður og útvíkka aðra. Þess vegna held ég að þetta með nafnið skipti máli og ekki bara það heldur það að við vitum að þessi stofnun á líka að gegna lýðheilsuhlutverki sem í nútímasamfélagi skiptir verulega miklu máli. Forvarnir, heilsuefling og lýðheilsa skipta ekki síður máli en þau hlutverk sem hið gamla landlæknisembætti hefur yfir að ráða.



[17:20]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hverjum þykir sinn fugl fagur í þessu. Ég tel að að einhverjum tíma liðnum hafi landlæknir þann hljóm að menn skilji að honum er annt um lýðheilsu. Ég tel að það hafi verið svo árið 1760 og lengst af þessara 250 ára, þetta hefur staðið í fjórðung þúsaldar, að þá hafi þetta verið svo. Ég nefndi Veðurstofu Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í bæði skiptin var sú tilfinning fyrir hendi hjá hluta starfsmanna að ein stofnun væri að yfirtaka aðra.

En það er ekki nafnið sem ræður úrslitum um það. Það verður heldur ekki nafnið sem ræður úrslitum um það hvort fyrirbærið Vegagerðin, sem nú er verið að ræða í samgöngunefnd, og er gamla Vegagerðin og Siglingamálastofnun og fleiri slíkar stofnanir, nær flugi eða ekki, heldur er það inntak málsins og samstarf starfsmanna sem þar vinna.



[17:21]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason minntist á mig í ræðunni og sagði að ég væri pirraður yfir því að verið væri að ræða nafnið. Pirringur er nokkuð sem hv. þm. Mörður Árnason þekkir ágætlega. Ég skal alveg viðurkenna að mig grunaði að þetta mundi fara svona. En með fullri virðingu fyrir nafninu þá eru aðrir þættir mikilvægari.

Þegar við erum að tala um eftirlitsþátt í heilbrigðismálum þá erum við t.d. að tala um lyfjaneyslu, ofneyslu á lyfjum, t.d. hjá vistmönnum, slysahættu, hegðunarörðugleika o.s.frv. Ég skal viðurkenna að mér finnst nafnið skipta máli en þetta er það sem ég var að vonast til að við mundum ræða í hv. heilbrigðisnefnd og færum yfir hér í þinginu.

Eins og hv. þingmanni þykir mér vænt um nafnið landlæknir. Vandinn er hins vegar sá, og við höfum ekki tæmt það, að við erum að sameina eftirlitsþáttinn forvarnahlutanum og lýðheilsunni, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur. Meiningar eru deildar og svo sem alveg ljóst að staðan gæti verið þannig að hér á landi væru ekki til staðar læknar sem væru t.d. með sérþekkingu í lýðheilsuhlutanum, alla vega fáir. Það eru sérvísindi sem margir eru að mennta sig í en þeir þurfa ekki að vera læknar til þess. Guðjón Magnússon læknir, blessuð sé minning hans, einn allra fremsti sérfræðingur á sviði heilbrigðismála, lagði t.d. mikla áherslu á að ekki yrði bundið í lög að læknir þyrfti að stýra þessari stofnun. Það er einn þáttur í málinu. Hins vegar eru þau rök að halda í gömul og góð heiti, sem hafa sögulega skírskotun í menningu okkar, svo sannarlega málefnaleg rök. En það eru önnur mál sem ég hefði viljað að við færum betur yfir.



[17:24]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni ég hef oft verið pirraður í ræðustól og ég skil hann ágætlega að vera pirraður í þessum ræðustól þegar eitthvað gerist sem honum líkar ekki. Það þarf ekki endilega að vera neikvætt að vera pirraður. Það er hins vegar málflutningurinn sem getur verið jákvæður eða neikvæður í þessu. Mér þótti, og biðst afsökunar á því ef það er rangt, viðhorf hans til þess hvað þetta fyrirbæri héti mótast nokkuð af þeim pirringi sem hann hefur efnislega gagnvart því máli sem hér er til umræðu. Hv. þingmaður mótmælir því þá bara ef það er ekki þannig.

Ég held líka að það sé rétt að vel geti komið að því að yfirmaður þessa málaflokks sé ekki læknir. En gert er ráð fyrir því að hann sé það í frumvarpinu sem við ræðum hér og eðlilegt að hann sé kallaður landlæknir. Ef hann er kallaður landlæknir er eðlilegt að stofnunin heiti einfaldlega embætti landlæknis eða hvað annað sem hæfir því fornfræga nafni. Þegar hv. þingmaður er búinn að búa til nýja stofnun og kemur með frumvarp um það og yfirmaður hennar er með MBA-próf í heilbrigðisstofnanarekstri eða einhverju álíka þá skulum við ræða um það að leggja niður orðið landlæknir og finna stofnuninni eitthvert nafn með margfaldri samsetningu, en svona er þetta núna og þess vegna er tillagan til komin.



[17:26]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í rauninni sýnir þessi umræða að við erum að byrja á öfugum enda. Það er svo sem eins og mig grunaði að þegar við færum að ræða nafnið kæmu menn í löngum röðum í andsvör og umræðu en þegar verið væri að ræða efnisatriði málsins, varðandi faglega þáttinn, hvað þessi stofnun á að gera, hvernig við ættum að ná markmiðunum, yrði minna um umræðuna — ég tala ekki um þegar ræða þarf það hvernig menn ætla að ná fjármunum til að sinna því sem við erum öll sammála um að þarf að gera.

Hins vegar segir það sig sjálft að þessi röksemdafærsla gekk ekki alveg upp hjá hv. þingmanni. Ef pólitískur vilji væri fyrir því þá gæti stofnunin alveg heitið embætti landlæknis án þess að forstjórinn þyrfti endilega að vera læknir. En það er alveg útilokað að meðan það er bundið í lög, sem hefur ekkert með nafnið að gera, að það sé læknir, þá er það auðvitað svo. Það hefði verið æskilegra að við hefðum farið betur yfir þessa þætti. (Forseti hringir.) Það er mjög skiljanlegt að menn hafi sterkar skoðanir á nöfnum en mér finnst einhvern veginn (Forseti hringir.) að innihaldið sé það sem (Forseti hringir.) skiptir mestu máli. Ég held að flestir séu sammála um það ef þeir hugsa það.



[17:27]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er hv. þingmanni algerlega sammála um að það er innihaldið sem hér skiptir máli og nafnið skiptir máli vegna þess að það snertir innihaldið. Ég vil hins vegar mótmæla því að hér hafi ekki verið rætt um efnisatriði málsins. Það var gert mjög vandlega í 2. umr., sem ég vegna nafnaáhuga míns sat og hlustaði á. Þá var hv. þingmaður því miður fjarverandi. Ég veit að honum var það ekki ljúft að vera það og hann hefur að sumu leyti bætt það upp í 3. umr., sem er óvenjulöng og efnismikil af 3. umr. að vera. En ég held, nema hann hafi kynnt sér það sem hér var sagt í 2. umr., að hann ætti að fara varlegar í fullyrðingar sínar um að eingöngu sé um einhvern hégóma eða tittlingaskít að ræða sem menn hafi áhuga á í tengslum við þetta ágæta frumvarp.



[17:28]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir málinu. Hv. þingmaður kom m.a. inn á það að hér er um býsna gamalt og rótgróið embætti að ræða, embætti landlæknis, og ég verð að segja að ég hef sjálfur ekki litið svo á að nafnið á stofnuninni mundi í eðli sínu gjaldfella þetta gamla embætti, landlækni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann óttist að með þessu nýja nafni stofnunarinnar verði vegur embættis landlæknis sem slíks minni, að embættið verði á einhvern hátt gjaldfellt. Eins og ég kom inn á áðan verður titillinn áfram til, það verður áfram landlæknir sem gegnir forstöðu þessarar stofnunar.

Síðan má nefna líka að líkt og hv. þingmaður kom inn á hefur það líklega verið meginhlutverk landlæknis að sinna lýðheilsu og raunar einnig menntun læknanema í árdaga embættisins, þegar það var sett á stofn árið 1760. Núna er verið að slá þarna saman tveimur stofnunum þar sem önnur hefur fyrst og fremst haft þetta hlutverk, þ.e. lýðheilsuhlutverkið, og þá velti ég hreinlega fyrir mér hvort ekki sé tímabært að loksins, eftir 251 árs sögu, sé þess getið í nafni stofnunarinnar.



[17:30]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eftir þennan fjórðung úr þúsöld sem landlæknir hefur verið til á Íslandi hefur það embættisheiti öðlast þetta inntak og þessa merkingu hvað sem síðustu u.þ.b. tíu árum líður. Ég vil svo segja já, ég held að umbúnaðurinn, hvort sem hann er mállegur, formlegur eða felst í húsnæði eða öðrum slíkum hlutum, hafi ákveðið inntak. Það er bara þannig og ég er hræddur um að ef við göngum svona frá hlutunum sem mér finnst vera, og auðvitað á ekki að deila um smekk en ég hef líka fært rök fyrir máli mínu, sé hætta á því að við gjaldfellum að einhverju leyti þetta gamla embætti og umgöngumst það af ónógri virðingu sem ég held að gleðji ekki starfsmenn þess til lengdar eða þá sem hafa við það samskipti.



[17:31]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég velti fyrir mér í tengslum við þá íþróttafélagaumræðu sem kom fram áðan ýmist með bandstrikum eða öðru að til skamms tíma var til sambræðingur íþróttafélaga á Norðurlandi sem hét Þór/KA/KS — en með skástrikum. Ég velti fyrir mér hvort það væri betra að það væri skástrik í nafni þessarar stofnunar. Líklega væri það ekki, en það eru mörg önnur svona nöfn, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, sem eru ekki mjög lýsandi. Ég nefni til að mynda Fimleikafélag Hafnarfjarðar þar sem margar íþróttir eru stundaðar en fimleikar eru ekki hryggjarstykkið í því félagi og ég held að það vefjist kannski fyrir sumum að horfa til þess að það félag heiti því nafni áfram. Ég held að það að bjóða upp á þessa (Forseti hringir.) lausn á nafni geti jafnvel hjálpað til við sameininguna.



[17:33]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get vel skilið að hv. þingmaður reyni að draga Fimleikafélag Hafnarfjarðar inn í þessa umræðu miðað við það kjördæmi sem hann er fulltrúi fyrir á þinginu. Ég vil bara segja um það að meðan Fimleikafélagi Hafnarfjarðar hefur gengið eins vel í meistaraflokki karla og raun ber vitni síðustu árin er engin hætta á því að við í Reykjavík, ég tala nú ekki um vestan lækjar, misskiljum nokkurn hlut með það hvað Fimleikafélag Hafnarfjarðar stendur fyrir og hvar það er sterkast á svellinu.



[17:34]Útbýting:

[17:34]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa miklum vonbrigðum með afgreiðslu málsins milli 2. og 3. umr. í hv. heilbrigðisnefnd. Í raun er verið að bruðla með peninga. Það er verið að henda tugum milljóna í aukahúsnæðiskostnað til að sameina stofnanirnar. Afleiðingin er skýr, það mun þurfa að segja upp starfsfólki til að ná fram þessari hagræðingu, væntanlega konum. Það er niðurstaðan. Þegar menn ræða hér um og deila um það hver muni hugsanlega bera kostnaðinn, hvort það sé stofnunin eða ráðuneytið, finnst mér þessi umræða vera á algjörum villigötum. Það kemur alveg skýrt fram og afleiðingarnar eiga að vera algjörlega fyrirsjáanlegar. Það sem er verið að gera hér er að verið er að bruðla með peninga og ekkert annað og niðurstaðan er sú að fólki verður sagt upp og hér verður meira atvinnuleysi. Það er ekki flóknara en það. Eins og ég sagði hérna áðan verður konum væntanlega sagt upp.

Það er dálítið skrýtið þegar hv. þingmenn ræða um að það sé hægt að réttlæta þessa sameiningu á þeim grunni sem hér er. Ég vísa því algjörlega á bug. Það liggur fyrir að það hefur verið unnið að málinu í heilt ár í þinginu, eða í ráðuneytinu, og það kom inn í október. Ekki enn þá hefur velferðarráðuneytið sýnt fram á fjárhagslega hagræðingu við sameiningu stofnana, ekkert enn þá, ekki nein gögn um það. Ég lýsi miklum vonbrigðum með það og ég leyfi mér að fullyrða að menn eru búnir að gleyma öllum ræðum um þau vinnubrögð sem voru stunduð og menn töluðu um í rannsóknarskýrslu Alþingis að ætti að breyta. Það er fyrirsjáanlegt hvað mun gerast.

Ég sat á fundi í hv. menntamálanefnd í morgun í forföllum annars hv. þingmanns og þar voru skilaboðin dálítið merkileg. Þar komu þrjár ungar konur til fundar við menntamálanefnd, tveir prófessorar og einn dósent, kennarar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Á hvað bentu þessar ágætu konur? Jú, þær bentu á að það væri búið að sauma svo að þessu námi að það gæti hugsanlega, svo ég vitni orðrétt í texta þeirra, haft í för með sér að öryggi sjúklinga yrði ógnað.

Hvað liggur á bak við það sem þessar ágætu konur benda á? Þær benda á að nú þegar sé búið að segja upp fjórum stöðum kennara og óvíst hvort aftur verði ráðið í tvær stöður.

Það vill þannig til að kostnaðurinn við þessar sex stöður við hjúkrunarfræðina í háskólanum sem búið er að segja upp, konum væntanlega, er nánast sá sami og er verið að bruðla með á hverju ári bara í húsnæði þessarar nýju stofnunar. Það finnst mér, frú forseti, algjörlega óásættanleg vinnubrögð. Þetta er ekkert nema bruðl.

Kostnaðurinn er 66 milljónir á fyrsta árinu, þ.e. 24 milljónir í húsaleigusamninginn úti á Seltjarnarnesi, 12 milljónir aukalega vegna stærra húsnæðis en þörf er fyrir undir stofnunina, það eru 36 milljónir. Til viðbótar er áætlað að það kosti 30 milljónir að flytja stofnunina, það kemur fram í skýringartexta með frumvarpinu. Það sem vakti athygli mína þar er að það á að taka af ónýttum fjárheimildum þessara tveggja stofnana. Eftir því sem kemur fram í frumvarpinu áttu þær 79,2 milljónir um síðustu áramót.

Þá langar mig að velta einu upp, nú liggur fyrir að það er ekki búið að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2009. Alþingi hefur ekki afgreitt ríkisreikning fyrir árið 2009. Þar tekur Alþingi ákvörðun um hvort og hvernig megi ráðstafa ónýttum heimildum. Þess vegna velti ég fyrir mér og sagði áðan: Vinnubrögðin hafa ekkert breyst. Ég stórefast um að Alþingi hafi heimild til að samþykkja þetta áður en búið er að samþykkja ríkisreikning vegna þess að það er ekki búið að samþykkja á Alþingi að þessar ónýttu fjárheimildir flytjist með stofnuninni. Samt er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Það sýnir virðingu framkvæmdarvaldsins fyrir Alþingi. Ég hélt, virðulegur forseti, að við ætluðum að breyta einhverju í þessu en það liggur fyrir að það er ekki gert. Það á að halda áfram á sömu braut. Það er boðið upp á að fara í sameiningu og það á ekki að fara yfir fjárhagslegan ávinning þó að fullyrðingin standi frá ráðuneytinu um að svo eigi að gera. Það er vitnað í einhverja skýrslu sem Stefán Ólafsson hefur gert og það kemur fram í framhaldsnefndaráliti frá minni hluta heilbrigðisnefndar að ekki hafi verið farið yfir grunninn að þeirri skýrslu og hvar þetta eigi að liggja. Mér er bara öllum lokið.

Eru hv. þingmenn ekki búnir að átta sig á verkefninu fram undan við að ná jöfnuði í ríkisfjármálum? Ég er ansi hræddur um að margir hverjir vildu heldur nota peningana í að bruðla í eitthvað annað en svona þegar þarf að fara að taka mjög erfiðar ákvarðanir í haust. Hér hef ég eingöngu rætt um það sem mun gerast á einu ári. Skoðum húsaleigusamninginn hjá landlæknisembættinu — sem er ekki því embætti að kenna, það má ekki skilja það á þann veg — það eru 17 ár eftir af honum. Ef maður reiknar hann upp eru það 408 milljónir ef ekki er hægt að endurleigja húsnæðið þannig að við erum að tala um 36 milljónir á hverju ári fyrir utan 30 milljónir í að flytja. Dettur einhverjum í hug að lifa í þeirri sjálfsblekkingu núna að halda að nokkuð annað geti komið á móti til að réttlæta hallann og niðurskurðinn á næstu fjárlögum en uppsagnir starfsfólks? Það er ekkert annað hægt. Hvers konar sjálfsblekking er þetta? Það liggur alveg fyrir að þessar stofnanir munu fá skerðingu á næsta ári eins og allar aðrar og það eina sem þessar stofnanir geta gert er að skera niður starfsmannafjöldann, það eru 70–80% af því sem það kostar að reka þessar stofnanir.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst margir hv. þingmenn lifa í hálfgerðri sjálfsblekkingu miðað við verkefnið fram undan. Það kemur fram í þessu nefndaráliti sem ég er með frá minni hluta heilbrigðisnefndar og það kom líka fram á fundum í hv. nefnd að það væri spurning hvort ráðuneytið ætlaði að taka þennan aukakostnað á sig eða stofnanirnar. Ég verð að viðurkenna að ég undrast það. Það er alveg ljóst í mínum huga að ráðuneytið getur ekki tekið á sig þessar skerðingar. Og það er einn faktor sem menn verða að fara yfir við gerð fjárlaga fyrir árið 2012. Við, fulltrúar í hv. fjárlaganefnd, erum með ábendingar frá fjármálaráðuneytinu um að á árinu 2011, sem er nú að líða, bendi allt til að hjá Sjúkratryggingum Íslands verði 2 milljarða halli. Verkefnin eru aldeilis næg. Svo halda menn að ráðuneytið hafi eitthvert borð fyrir báru. Svo er því miður ekki. Þess vegna er ég mjög svekktur og hef ekki leynt því í þessari umræðu að hér er verið að fækka störfum. Það er ekki hægt að bregðast við þessu með öðrum hætti. Annað er sjálfsblekking.

Í andsvörum áðan tók ég eftir því þegar hv. þingmenn ræddu um eftirlitsþáttinn í nýja embættinu að þeir héldu að það væri hugsanlega hægt að auka hann með því að hafa meira fjármagn. Það getur vel verið að það sé rétt. En fjármagnið til þessarar stofnunar mun minnka vegna þess að það er verið að bruðla með fé í húsnæðiskostnað. Það er hins vegar kannski ekki sanngjarnt gagnvart stofnuninni, ég er ekki að segja það, ég held því ekki því fram, alls ekki gagnvart þessu góða starfsfólki. Það má ekki skilja mig þannig. En það erum við sem tökum ákvörðun um það hvort við ætlum að samþykkja þetta mál og svo koma hv. þingmenn og segja að það sé sparnaður að því sem á að gera við sameininguna. Gott og vel, það getur vel verið að svo sé en ég vil sjá það svart á hvítu. Þegar menn segja að þeir ætli að sameina tvær stofnanir og spara hljótum við sem tökum ákvörðun, hv. þingmenn, að geta fengið þær upplýsingar sem ráðuneytin byggja grunninn á. Það er eðlileg krafa.

Við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem segir að í 85% tilfella þegar stofnanir eru sameinaðar mistakist sameiningin. Af hverju er það? Það er mjög einfalt. Það er vegna þess að undirbúningurinn og markmiðin eru ekki nógu skýr. Þetta er í gegnum áraraðirnar, það er ekki að byrja í dag. Þess vegna finnst mér mjög dapurlegt að við skulum ekki læra af því og gera þetta betur.

Mér finnst mjög sérkennileg krafa hjá heilbrigðisráðuneytinu að vilja klárlega henda 12 milljónum aukalega í húsnæðiskostnað. Það hafði þegar farið fram greining, eða húsrýmisáætlun held ég að það heiti, um hversu stórt húsnæði þyrfti undir nýja stofnun. En þá kvað það vera vegna þess að ákveðið húsnæði sem hér er haft í huga, húsnæði heilsuverndarstöðvarinnar, hefði ákveðna sögu — gott og vel með það — og því væri æskilegt að fara þangað. Það er stærra og dýrara. Fullt af húsum hefur sögu, húsum sem er verið að loka og verður sennilega lokað. Það eru margar heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni og þar fram eftir götunum þannig að rökin fyrir því að fara í þessa vegferð eru engin, finnst mér, a.m.k. mjög lítil vegna þess að áhættan felst í því að ef við bruðlum með peninga í húsnæði verðum við að skera niður einhvers staðar annars staðar. Það er mjög sláandi eins og ég kom inn á áðan að fá bréf frá tveimur prófessorum og einum dósent sem kenna hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands sem benda á staðreyndirnar sem blasa við okkur. Staðreyndirnar blasa við okkur sem og svörin sem við fáum með uppsögnum. Samt á að fara í þessa vegferð.

Maður spyr sig um sparnaðartillögurnar þegar stofnanir eru sameinaðar. Menn benda á símavörslu og annað. Gott og vel, það er ugglaust hægt að spara einhvers staðar en það er hægt að gera það án þess að sameina stofnanir. Ég á reyndar ekki sæti í hv. heilbrigðisnefnd en mér hefur fundist vanta miklu dýpri umræðu um málið. Ég fékk ekki svör, a.m.k. ekki í 2. umr., um hvort það hefði verið skoðað mjög vandlega hvort ekki væri hægt að nota samlegðaráhrif þessara stofnana þótt þær væru hvor á sínum staðnum. Það er hægt að hafa símsvörun hjá einkafyrirtæki og margar opinberar stofnanir hafa þann háttinn á. Það þarf ekki að sameina stofnanir og hafa símsvörunina í stofnuninni sjálfri. Það væri hægt að hafa hana hjá einkafyrirtæki þannig að það eru frekar lítil rök, finnst mér.

Það sem upp úr stendur er að hugsanlega á að samþykkja frumvarp á Alþingi, sem allt virðist stefna í, sem felur í sér bruðl á fjármunum sem nemur á þessu ári 66 milljónum og árlega væntanlega 36 milljónum sem annars eru 12 milljónir í meiri húsnæðiskostnað en þarf fyrir stofnunina, 24 milljónir í húsnæði sem er ekki vitað hvort þarf endilega. Og mér finnst þetta blasa við. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa sér til, og ég efast ekki um að þeir hafi gert það. Það sem ég skil sem varnaðarorð frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er að þar segir einfaldlega að ef valinn verði sá kostur að fara eftir beiðni heilbrigðisráðuneytisins eða velferðarráðuneytisins um að taka stærra og dýrara húsnæði en þörf er á fyrir þessa stofnun kosti það aukalega 2% í niðurskurð. Ef við gefum okkur það, sem er ekki í hendi, það er a.m.k. ekki í hendi enn þá, að búið sé að leigja húsnæði sem önnur stofnun er í eru það 24 milljónir sem þýðir að það verður að skera niður hjá stofnuninni aukalega um 6% út af húsnæðismálunum hvað sem Alþingi gerir svo kröfu á viðkomandi stofnanir um að skera. Engin stofnun mun sleppa við það og við heyrum neyðarópin alls staðar. Það mun engin stofnun sleppa við að skera niður á næsta ári og þá er það til viðbótar þessum 6% sem er þegar verið að bruðla með að mínu mati.



[17:49]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við og var gagnrýninn á fjáraustur.

Við heyrðum reyndar fyrr í dag að það eru loforð um 2 þúsund störf í þjóðfélaginu. Það eru loforð sem við höfum heyrt oft áður og eru svona endurnýtt loforð. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom ekki inn á það: Þegar fólki er sagt upp núna hjá hinu opinbera, og ég er sammála því að maður sparar ekki í ríkisrekstri nema með því að segja upp fólki af því að 70% af kostnaðinum eru laun, hvað gerist með fólk sem er sagt upp í dag? Fær það vinnu hvar sem er aftur þegar það missir vinnuna? Hvað gerist með þetta fólk? Verður það ekki bara atvinnulaust og fer úr einum gjaldapóstinum hjá ríkinu yfir á annan, þ.e. framlög til atvinnuleysistrygginga munu þá aukast við þennan svokallaða sparnað í þessu atriði? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er um húsnæðiskostnaðinn eða húsnæðið, að menn ætla sér að reyna að leigja þetta húsnæði. Telur hv. þingmaður miklar líkur á því og mjög gæfulegt að ætla að fara að leigja húsnæði í dag þar sem alls staðar virðist vera yfirfullt af húsnæði sem er meira og minna ekki notað? Verður einhver sparnaður í þessu?

Svo er það sem er kannski athyglisverðast í þessu að menn ætla sér að spara í húsnæðiskostnaði og að segja í rauninni fólki upp í staðinn og flytja fólk sem er starfsmenn ríkisins yfir í að vera atvinnulaust eða atvinnuleitandi fólk, það á víst að kalla það svo í dag, frá einum kostnaðarlið á annan. Menn þykjast vera að spara á einum póstinum en búa til kostnað annars staðar.



[17:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr um hvað gerist ef fólki er sagt upp. Ég hef miklar áhyggjur af því að það fólk sem er sagt upp í dag gangi ekki hvar sem er í vinnu, þó að ég þekki reyndar ekki mjög vel til hvaða menntun fólk hjá þessari stofnun hefur og hvaða atvinnumöguleikar eru í boði. En miðað við það sem er að gerast og við sáum mjög sláandi tölur um það í svari hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum að í þeim 540 stöðugildum sem hefur fækkað hjá ríkinu voru 470 konur sem flestar væntanlega unnu hjá heilbrigðisstofnunum. Ég hræðist mjög að þetta ágæta fólk geti misst vinnuna og geti ekki fengið vinnu annars staðar.

Hins vegar er það dálítið merkilegt að gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að öllu starfsfólki sem nú er starfandi við þessar góðu stofnanir verði áfram tryggð vinna. Vandamálin munu klárlega verða í byrjun næsta árs þegar farið verður að horfa á árið 2012. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þá þurfi að koma til uppsagna. Væntanlega þarf forstöðumaður þessarar stofnunar að fara mjög vandlega yfir það fljótlega því að eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel tekur ákveðinn tíma að láta uppsagnir virka. Fólk er kannski með uppsagnarfresti svo mánuðum skiptir.

Hv. þingmaður spyr líka um hvort hægt sé að leigja ónýtt húsnæði. (Gripið fram í.) Ónýtt, já. (Gripið fram í: Er það ónýtt?) Já, já, það er ekki nýtt, það er ekki verið að nýta það. Ég tel svo ekki vera vegna þess að við þekkjum öll húsnæðismarkaðinn, það er nóg af húsnæði hér. Það kemur líka alveg skýrt fram í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem þeir benda klárlega á að það þurfi 2% hagræðingu (Forseti hringir.) og meira til viðbótar takist ekki að endurleigja húsnæðið á Seltjarnarnesi og verði það endurleigt verður það væntanlega á mun lægra verði. Varnaðarorðin eru hér í umsögn ráðuneytisins.



[17:54]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og ég taldi mig hafa skilið hv. þingmann að menn eru að fara út í einhverja sameiningu sem í rauninni mun ekki spara neitt. Auðvitað geta menn sleppt því að ráða fólk í vinnu þegar einhver hættir vegna aldurs eða hreyfinga, það þýðir að þá verður ekki ráðið fólk í staðinn og inn á vinnumarkaðinn bætist fólk stöðugt alla daga þannig að þá myndast atvinnuleysi annars staðar. Á endanum stöndum við uppi með það — niðurskurður á kostnaði ríkisins þýðir alltaf minni launakostnað, af því að 70% hans eru laun, sem þýðir það að færri starfa hjá ríkinu og það fólk sem starfar ekki hjá ríkinu fær ekki vinnu annars staðar — á endanum stöndum við alltaf uppi með meira atvinnuleysi en ella sem afleiðingu af þessum sparnaði. Ef það væri rífandi vinna alls staðar horfði málið allt öðruvísi við en með núverandi hæstv. ríkisstjórn er ekki því að heilsa.



[17:55]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það er ljóst að ef menn ætla að draga saman seglin í rekstri opinberra stofnana er það yfirleitt í launakostnaði, það verður að segja upp starfsfólki.

Ég er hins vegar ekki sammála þeirri fullyrðingu hv. þingmanns í lokin að ef það væri rífandi atvinna liti þetta öðruvísi út. Mér finnst það ekki vera þannig. Það sem verið er að gera hér er að bruðla með peninga, að mínu mati. Það er verið að bruðla með peninga með því að fara í aukakostnað út af húsnæðismálum og það mun þýða færri stöðugildi. Ef við rækjum þessa stofnun í miklu góðæri, eins og hv. þingmaður er kannski að láta liggja að, væri það kannski með þeim hætti að við gætum bætt við annars staðar því að þörfin er svo víða, eins og hv. þingmanni er vel kunnugt um, og vandamálin, sama hvar það er í þessum grunnstoðum samfélagsins, heilbrigðisþjónustunni, löggæslunni og fleiri stöðum, það er alls staðar þörf fyrir peninga. Þess vegna finnst mér mjög grátlegt að vera að bruðla með peninga bara til að setja í einhverja sameiningu (Forseti hringir.) sem er ekki víst að skili neinu.



[17:56]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á þessu máli. Við stöndum frammi fyrir því eins og alltaf að auðvitað má oft gera betur en það hefur hvergi komið fram, af því að hv. þingmaður talar mikið um bruðl og að illa sé farið með fjármuni, að það hafi verið ætlunin í raun og veru að sameina þessar stofnanir af öðrum hvötum en faglegum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þeir hvatar ekki líka geta verið allra góðra gjalda verðir.

Síðan langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði um að þetta væri illa undirbúið. Nú hefur undirbúningsferlið verið mjög vel unnið af starfsmönnum embættanna beggja og verið rýnihópur og stýrihópur frá ráðuneytinu. Mig langar til að vita hvað þetta er, á hann fyrst og fremst við fjárhagslega þáttinn eða um hvað er hann að tala þegar hann segir að þetta sé illa undirbúið?

Í sambandi við húsnæðið sem nýrri stofnun er ætlað að fara í, þetta húsnæði er stærra en nákvæmlega það sem þarfagreiningin segir til um. Það er vegna þess að vilji er fyrir því að setja þar inn ný verkefni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig honum t.d. lítist á að almenn eftirlitsstofnun velferðarmála gæti farið inn í þessa stofnun.

Síðan langar mig til að benda á að þegar verið er að sameina stofnanir er það mannahald sem sparast, fyrst og fremst yfirmenn. Þannig verður t.d. hér einn forstöðumaður í stað tveggja. Það hafa verið 14 sviðsstjórar, að ég held, 12 eða 14 sviðsstjórar starfandi í þessum tveimur stofnunum en gert er ráð fyrir að þeir verði fjórir. En eftir sem áður er gert ráð fyrir því að öllum þeim sem þarna vilja starfa áfram verði boðið starf.



[17:58]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir andsvarið. Hér eru nokkrar spurningar sem ég ætla að reyna að komast yfir.

Hv. þingmaður þakkar mér fyrir áhugann á málinu. Já, ég hef mikinn áhuga á þessu máli af því að ég hef verulegar áhyggjur af því að sá aukakostnaður sem mér finnst verið að setja þarna í muni bitna á starfsfólki og það muni kosta störf. Um það snýst áhugi minn á málinu.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ekki megi gera þetta af faglegum hvötum en ekki sem sagt af fjárhagslegum hvötum. Jú, jú, ég er alveg tilbúinn að skoða það en mér finnst hins vegar blasa við að ef farið er í aukakostnað vegna húsnæðismála muni faglegi þátturinn minnka vegna þess að þá verður að segja upp starfsfólki. Mér finnst dálítil þversögn í því að ef hægt er að gera það kosti það færri starfsmenn og ég hræðist það, að það þýði færri starfsmenn og að forstöðumaður þessarar stofnunar muni þurfa að segja upp starfsfólki til að geta haldið sig innan fjárlaga og það muni þá þýða minni faglegheit.

Hv. þingmaður sagði líka að ég hefði komið inn á það í ræðu minni að þetta væri illa undirbúið. Já, ég kom inn á það í ræðu minni að mér fyndist þetta illa undirbúið. Þá átti ég ekki við starf nefndarinnar, ég átti ekki við það sem gert hefur verið hjá stofnunum sem snýr að faglega þættinum. Mér finnst eðlilegt og mjög raunhæf krafa þegar hv. þingmenn fjalla um sameiningu stofnana, eins og í þessu tilfelli og mörgum öðrum, að þá komi ráðuneytið með ákveðnar upplýsingar og segi að af þessu verði faglegur sparnaður, sem ég treysti hv. heilbrigðisnefnd til að fara yfir, og fjárhagslegur ávinningur. Ég vil bara fá það á blaði frá ráðuneytinu til að geta farið yfir það og þá geta menn bara rakið sig niður hvað megi gera (Gripið fram í.) til að ná þessari fjárhagslegu hagræðingu.



[18:00]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að störfum fækki. Í þessu tilviki eru flestir eða ég geri ráð fyrir að mjög margir af starfsmönnunum séu með sérhæfða menntun og það er mjög vont að missa þá starfsmenn út, ef til þess kæmi. En ég minni enn og aftur á að ekki er gert ráð fyrir fækkun starfa, það er gert ráð fyrir því, eins og fram kom í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umr., að nýja embættið verði innan fjárheimilda og það séu ákveðnir möguleikar á að nýja stofnunin gæti verið betur til þess fallin að mæta hugsanlegum sparnaðarkröfum. Þar erum við stödd.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann talar mikið um húsnæðiskostnað, hvað honum finnist um þá húsaleigusamninga sem hér voru gerðir fyrir sjö, átta árum sem var algengt þá að væru gerðir til 25 ára og óuppsegjanlegir.



[18:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvað mér finnist um húsaleigusamninga sem voru gerðir til 25 ára fyrir sjö árum síðan með hárri leigu, a.m.k. miðað við það sem er núna, þá held ég að það hljóti að vera ákveðin mistök sem menn verði að læra af. Hins vegar réttlætir það ekki að við getum farið í þetta. Við erum með fullt af öðrum sambærilegum samningum víða, húsnæðissamninga, og meira að segja samninga sem eru tengdir við erlendan gjaldeyri, þannig að hluti af leigunni er tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla, væntanlega eins og í þessu tilfelli sem ég tel að sé en þori ekki að fullyrða um.

Það kemur líka fram hjá hv. þingmanni að sameinuð stofnun sé betur undir það búin að takast á við hagræðingarkröfu. Ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um það vegna þess að eftir situr þetta óhagræði út af húsnæðismálunum sem stofnunin þarf að leysa úr. Ég öfunda ekki forstöðumenn stofnunarinnar að þurfa að gera það, hugsanlega með þeim hætti að þurfa að segja upp starfsfólki.



[18:03]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna áðan og þann áhuga sem hann hefur sýnt málinu, ekki bara við þessa umræðu heldur líka við 2. umr. Ég upplifi það hins vegar svolítið þannig að með tali sínu ali hann á ótta starfsmanna hjá stofnuninni um að þeim verði sagt upp á næsta ári. Ég held að það sé algjör óþarfi. Eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom inn á áðan er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsmönnum verði sagt upp heldur verður öllum boðin vinna. Við vitum af því að með fækkun yfirmanna hjá nýrri stofnun verður væntanlega einhver hagræðing. Það verður aðeins einn forstöðumaður og með því sparast fjármunir.

Af því að þingmaðurinn nefnir húsnæðið langar mig að spyrja hvort honum hefði þótt skynsamlegra að hafa stofnanirnar áfram hvora í sínu húsnæðinu og standa þannig allri framþróun þessarar nýju stofnunar fyrir þrifum með því að velja ekki frekar að sameina þær á einum stað. Á að láta handónýtan gamlan húsaleigusamning eyðileggja fyrir framtíðarmöguleikum stofnunarinnar?



[18:05]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður segir að skilja megi orð mín á þann veg að ég ali hugsanlega á ótta starfsmanna vegna uppsagna. Það er ekki meining mín að gera það, alls ekki. Ég er hins vegar að reyna að draga hið gagnstæða fram í dagsljósið með því að taka þátt í umræðunni við 1., 2. og 3. umr. og vara einmitt hv. þingmenn við. Taki þeir svona ákvarðanir getur það kallað á uppsagnir starfsfólks. Það gefur augaleið að peningur til að mæta aukaútgjöldum vegna húsnæðis fellur ekki af himnum ofan. Þetta gætu orðið afleiðingarnar af því að fara í þessa vegferð og það er það sem ég vara við í umfjöllun minni. Ég vil alls ekki vekja ótta starfsmanna heldur einungis benda á það sem mér finnst hið augljósa. Því miður erum við alls staðar að segja upp starfsfólki hjá hinu opinbera. Hvort heldur um er að ræða löggæslumenn, heilbrigðisstarfsmenn eða aðra er þetta hinn blákaldi veruleiki.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að hægt hefði verið að hafa tvær stofnanir áfram hvora í sínu húsinu þótt það væri sama stofnunin. Ég tel það ekkert útilokað og hef ekki þá þekkingu sem þarf til að geta kveðið upp úr um það. Ég teldi að a.m.k. hefði verið hægt að skoða það betur. Ég fullyrði ekki að að það hafi verið hægt en minni á að Landspítalinn er, ef ég man rétt, með starfsemi á 17 starfsstöðvum. Við megum ekki gleyma því (Forseti hringir.) að stofnanirnar snúast ekki um húsnæðið, þær snúast um fólkið sem vinnur hjá þessum stofnunum.



[18:07]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að stofnun eins og Landspítali – háskólasjúkrahús er á mörgum stöðum. Ég held að óhætt sé að fullyrða að það hefur ekki orðið stofnuninni til neinnar sérstakrar farsældar að vera á mörgum stöðum, enda hefur hv. þingmaður vafalaust heyrt eins og ég í gegnum tíðina umræðu um að betur færi á því að starfsstöðvum yrði fækkað og meiri hluti starfsmanna væri á einum stað.

Ég vil inna hv. þingmann aftur eftir svari við seinni spurningu minni um það hvort vondir samningar eigi að verða til að hindra framþróun í starfi stofnananna.



[18:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvort vondir samningar eigi að vera fyrirstaða gegn því að sameina stofnanir. Vondir samningar eru bara hinn blákaldi veruleiki sem við horfum framan í og það er alveg sama hvað okkur finnst um það, við komumst ekki frá þeim. Hv. þm. Þuríður Backman, sem er formaður hv. heilbrigðisnefndar, upplýsti mig við 2. umr. um að við kæmumst ekki frá því vandamáli. Það er það sem við þurfum að horfast í augu við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, það er hinn blákaldi veruleiki. Þó að við séum ósátt við samninginn og viljum ekki láta hann stoppa sameininguna verðum við eigi að síður að horfa raunsætt á það.

Hv. þingmaður sagði líka áðan að það væri Landspítalanum svo sem ekki til framdráttar að vera með svo margar starfsstöðvar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, við erum alveg sammála um það, og ég minni á að þegar verið er að tala um að byggja nýjan landspítala er það einmitt hagræðingin sem á að greiða niður kostnaðinn. Það er akkúrat öfugt við það sem verið er að gera hér. Nefnd sem Gunnar Svavarsson stýrir leggur faglegt mat á verkið og forstöðumenn og forstjórar Landspítalans leggja fram nákvæma greiningu á því hvernig á að spara og hagræða með því að færa Landspítalann á einn stað. Það er alveg tilgreint og þau gögn liggja fyrir. Það eru akkúrat þau gögn sem mér finnst að þurfi að liggja fyrir áður en tekin er efnisleg ákvörðun um að fara í þessa sameiningu. Ég hef verið mjög gagnrýninn á það í þessari umræðu að svo hafi ekki verið.

Hv. þingmaður verður líka að átta sig á því að þegar farið verður að skera niður í haust, sem væntanlega verður gert, er ekkert svigrúm hjá forstöðumönnum þessara stofnana frekar en annarra. Það eru uppsagnir eftir, það er búið að skera allt fitulag alls staðar úr öllum stofnunum, það þekkjum við í umræðum (Forseti hringir.) í þinginu. Það þýðir bara uppsagnir, því miður.



[18:11]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst ræða hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar afskaplega góð. Hann kom inn á þætti sem við höfum lítið rætt en eru auðvitað stórmál og snúa að fjármálum. Mér fannst hv. þingmaður hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði að hérna væri nákvæmlega öfugt farið við það þegar menn sameinuðu Landspítalann í eitt húsnæði. Þar ætla menn að ná fram sparnaði með því að setja stofnunina í eitt húsnæði en vegna þess að menn hafa ekki unnið undirbúningsvinnuna, hvorki varðandi húsnæðisþáttinn né fjárhagsleg og fagleg áhrif, þurfa menn að hafa áhyggjur af því hvar þessi útgjaldaauki kemur niður. Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega. Hið eina sem er algjörlega öruggt er að hann mun koma illa niður. Alveg sama hvað okkur finnst um stöðuna í dag til eða frá og einstaka hluti, t.d. húsaleigusamninga, er þetta raunveruleikinn sem blasir við okkur og okkur ber skylda til að vinna úr þessari stöðu eins vel og mögulegt er. En við erum ekki að því.

Hér voru atvinnumálin líka rædd, hvað verður um það fólk sem missir störf. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi bréf frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þar sem menn hafa áhyggjur af því að sameiningin komi í veg fyrir framþróun í hjúkrunarfræði og að við getum mannað hjúkrunarfræðistöður. Um er að ræða tvær til fjórar kennarastöður, ef ég man rétt. Þetta eru ekki stærstu upphæðirnar í fjárlögunum, tvær til fjórar kennarastöður í hjúkrunarfræði, en þetta eru sambærilegar tölur og við erum að tala um að séu útgjaldaaukinn á ári, í það minnsta upp í það ef svo fer fram sem horfir með þessar áætlanir. Það að menn geta ekki ráðið í þessar stöður þýðir að það er ekki hægt að mennta hjúkrunarfræðinga sem þýðir að það kemur niður á gæðum í heilbrigðisþjónustunni. Orsakasamhengið er svo einfalt og þetta er gott dæmi hjá hv. þingmanni því að þarna sér maður að tiltölulega lágar upphæðir geta haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Hv. meiri hluti er að klára mál nákvæmlega eins og á ekki að gera það, engin fjárhagsleg úttekt, engin fagleg úttekt, menn fara út í aukinn kostnað við sameiningu sem á að skila sparnaði, a.m.k. í orði kveðnu endrum og eins. Það mun koma niður á þjónustu sem við viljum öll standa vörð um. Síðan ræddu menn hlut sem skiptir máli en er aukaatriði í þessu samhengi, nafnið á stofnuninni. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í það.

Ef hv. þingmeirihluti keyrir þetta mál í gegn, eins og allar líkur eru á, óska ég stofnuninni velfarnaðar og vona sannarlega að menn geti unnið vel úr þeirri erfiðu stöðu sem stjórnendum og starfsfólki er komið í til að ná fram þessari hagræðingu út af húsaleigukostnaði, eins og hér hefur verið rakið. Ég fer þess á leit við hv. þingmeirihluta í mestu vinsemd að næst þegar við förum í vegferð eins og þessa verði málin ekki unnin eins og hér er gert. Við höfum ekki efni á því í þessu tilviki og við höfum ekki efni á því í verkefnunum fram undan. Ég bið hv. þingmenn að hugsa til þess að við sammæltumst um að breyta vinnubrögðum og læra af reynslunni. Ég held að við séum öll sammála um að það eigi að gera og þá er bara komið að því sem skiptir máli, ekki orðunum heldur efndunum.



[18:16]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Þegar menn hlusta á umræður á Alþingi þessa dagana er eins og þær séu endalaust röfl um gerðir ríkisstjórnarinnar. Hún vinnur sitt starf og stjórnarandstaðan talar af gömlum vana. Það hljómar þannig.

Hér ræðum við frekar lítið mál, alla vega miðað við það sem við höfum verið að ræða undanfarin ár, og samt er það ákveðið sýnishorn af því sem menn eru að gera. Menn fara út í sameiningu, það er ekki neitt lagt til grundvallar, ekkert mat eða neitt slíkt, menn vaða bara áfram eins og í öllu öðru og bæta stöðugt við skuldbindingar ríkissjóðs, auka stöðugt atvinnuleysið, niðurskurðinn á heilbrigðisþjónustunni o.s.frv. og hv. stjórnarandstaða stendur hér og mótmælir, salurinn er tómur og menn taka eiginlega ekki mark á neinu.

Nú býst hv. þingmaður við því að menn læri af þessu. Ég vona svo sannarlega að menn geri það. En við erum nýbúin að samþykkja nánast blindandi og umræðulaust 33 milljarða, þá er ég að tala um 33 þús. milljónir, ekki einn eða tvo tugi heldur 33 þús. milljónir, til Íbúðalánasjóðs. Það var ekki mikið rætt hvort þetta væri skynsamlegt eða óskynsamlegt. Þetta er orðið að lögum og fer meira að segja mest til fólks sem ekki varð fyrir hækkun á gengistryggðum eða verðtryggðum lánum heldur fólks í allt öðrum vanda. Býst hv. þingmaður enn þá við því að hlustað sé á hann? (Forseti hringir.)



[18:18]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður held ég að hv. þm. Pétur Blöndal hafi lög að mæla þegar hann fer yfir stöðuna og hvernig mál hafa þróast. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ákveðin tæki og getum gert hvað við getum, bæði með fortölum og með því að vekja athygli á málum, að koma hlutum á réttar brautir.

Ég vek athygli á því að í umræðum um þetta mál í þinginu hafa í rauninni ekki komið nein mótrök frá stjórnarliðum. Það er ekki einu sinni haft fyrir því. Þeir vita að þeir hafa meiri hluta fyrir málinu og að það vekur enga sérstaka athygli í þjóðfélaginu og þess vegna á bara að renna því í gegn. Þeir hafa ekki svarað neinum spurningum varðandi kostnaðinn og því síður komið með rök, eins og menn sem hafa hlustað vita, en það á að renna þessu í gegn. Því miður er helsta von okkar sú að fólk taki eftir þessu og bregðist við. Í þessu tilfelli brást að vísu fólkið á stofnunum við og kom með málefnalegar athugasemdir. Þó að ekki væri mikið farið eftir þeim þá vakti það í það minnsta athygli á málinu sem gerir það kannski að verkum að við getum fylgt því betur eftir.

Ég skal alveg viðurkenna, virðulegi forseti, svo að ég svari fyrirspurn hv. þingmanns, að ég er ekki fullur bjartsýni á að á morgun, ég tala ekki um á eftir þegar við ræðum mjög mikilvægt mál, sjái menn að sér og fari að vinna með öðrum hætti. En við megum aldrei hætta að reyna. Við erum kjörnir hingað af þjóðinni til að vinna fyrir hana og það skulum við gera þó að stundum virðist það vera erfitt og ekki skila miklum árangri.



[18:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að svona einu sinni í viku falli stjórnin en hangi samt áfram saman. Vinsældir hennar hjá þjóðinni dala hratt en það virðist ekki hafa nein áhrif heldur.

Hér koma fram skynsamlegar mótbárur við ákveðnum hlutum og það gerist ekki neitt, málið er bara keyrt í gegn. Það er verið keyra fjöldann allan af málum áfram. Maður getur haldið endalausar ræður um hluti sem eru keyrðir í gegn án mikillar umræðu, án mikillar yfirlegu, án þess að það sé nokkur hugsun í þeim og það gerist ekki neitt. Þó að ég vilji gjarnan deila bjartsýni hv. þingmanns og ég sé bjartsýnn að eðlisfari, og það þrátt fyrir ríkisstjórnina, þá er staðan þannig að við getum ekki endalaust horft upp á þessi hræðilegu vinnubrögð.

Eftir örfáa daga greiðir þjóðin atkvæði um Icesave, já eða nei. Þar er sama klúðrið, það er búið að vera endalaust. Menn koma alltaf með betri og betri samninga, það munar bara hundruðum milljarða, og samt er enn þá gífurleg áhætta í þessum samningi. Ég vil koma því að að ég mun segja nei í þeirri kosningu.



[18:22]
Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert annað í boði en að vera bjartsýnn og það er ekkert annað í boði en að halda áfram. Það er ekki í boði að gefast upp. Þetta mál hefur þann eina kost að ef menn draga það upp og skoða það er hægt að nota það til viðmiðunar um hvernig fólk á ekki að standa að málum eins og þessu. Það hefur þann eina kost.

Við ræddum alvarleika málsins áðan sem m.a. fólst í því að þegar menn ganga fram eins og raun ber vitni, og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi og ég get tekið undir, eru þeir að bruðla. Það sem hér er gert kemur niður á starfsfólkinu og þar af leiðandi þjónustunni og fólk missir störf sín. Í ofanálag er það blessaða ríkisstjórnin, sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni að miðað við alla eðlilega mælikvarða deyr hún einu sinni til tvisvar í viku en er í ótrúlegri súrefnisvél sem ekki eru góðar fréttir fyrir þjóðina … (Gripið fram í.) Já, ætli við sjálfstæðismenn höldum ekki lífi í henni, við verðum að finna einhverjar leiðir til að hætta því en það er kannski aukaatriði. En í ofanálag með því að ganga fram eins og raun ber vitni hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir að heilbrigðisstarfsfólk fái vinnu. Þessi ríkisstjórn hefur lagt lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að hægt sé að leigja út aðstöðu hér á landi til að taka á móti erlendum sjúklingum. Svokallað Ögmundarbann sem var við lýði og eftir því sem við best vitum hefur verið aflétt af hæstv. velferðarráðherra en skaðinn er skeður og í það minnsta er ekki komin nein slík starfsemi enn þá. Menn ganga ekki aðeins fram með þessum hætti og ógna þar af leiðandi atvinnuöryggi heilbrigðisstarfsfólks heldur hafa þeir með hinni hendinni (Forseti hringir.) komið í veg fyrir að það geti fengið önnur störf.



[18:24]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera úrslitatilraun til að koma — ég veit ekki hvort ég á að segja vitinu, það er kannski ekki tilhlýðilegt — þeim staðreyndum að sem ég tel mikilvægt að koma á framfæri til hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Þetta er síðasta ræðan sem ég get haldið í þessu máli. Hún mun því miður einungis standa yfir í fimm mínútur. [Hlátur í þingsal.]

Ég hræðist það þegar við förum í fjárlagagerðina í haust því að þá þurfum við að skera niður. Það er bara staðreynd og ekki mjög margir hv. þingmenn hafa, að því er mér finnst, miklar áhyggjur af því. Mig langar að minna á það sem gerðist síðastliðið haust; mér er það nefnilega mjög minnisstætt af því að ég sit í hv. fjárlaganefnd og mæti þar á alla fundi. Við tókum til að mynda á móti forstöðumönnum tveggja heilbrigðisstofnana sem fengu kaldar kveðjur frá stjórnarmeirihlutanum við fyrstu fjárlagagerð þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og náðist sem betur fer að snúa það dálítið niður. Upplýsingarnar komu fram í haust. Hver voru viðbrögð þessara forstöðumanna? Þetta eru staðreyndir og við erum í núinu. Á heilbrigðisstofnununum vinna konur með allt niður í 150 þús. kr. á mánuði í laun. Hvað eru þessir forstöðumenn að gera? Þeir sögðu á fundi fjárlaganefndar að þeir væru búnir að skera niður allt sem heitir yfirvinna og allar sporslur og aukagreiðslur sem svo eru kallaðar stundum. Þeir eru meira að segja komnir inn á það grátt svæði að þessar konur, sem hafa ekki litla þýðingu fyrir starfsemi stofnananna, voru hættar að fá greitt fyrir þá yfirtíð sem þær áttu sannarlega samkvæmt kjarasamningum. Forstöðumennirnir voru komnir inn á það grátt svæði að starfsfólk sem var með allt niður í 150 þús. kr. á mánuði í laun fékk ekki greitt þó að það ætti inni hluta af kaffitímanum og hluta af matartímanum. Hvers vegna gerðu þessar konur þetta? Það er vegna þess að það var búið að skera svo mikið niður og fækka svo mikið starfsfólki að þær unnu aukavinnu fyrir stofnunina til að leggja sitt af mörkum. Þarna erum við að tala um nokkra þúsundkalla, en í þessu máli eru þeir hv. þingmenn sem samþykkja þetta mál tilbúnir til að henda 36 millj. kr. bara sisvona. Ég vara við því þegar við förum í fjárlagagerðina í haust að þá munu bíða þau verkefni að skera niður og þá mun þessi tiltekna stofnun ekki komast hjá því frekar en aðrar. Það eina sem forstöðumennirnir geta hugsanlega gert er að segja upp fólki. Það er það sem ég vil draga mjög skýrt fram. Ég tel valið vera á milli þess að bruðla með 36 millj. kr. í húsnæðiskostnað og faglegs starfs stofnunarinnar.

Það fólk sem missir vinnuna á svo sannarlega samúð mína alla. Þegar manni finnst bruðlað í óþarfa með þeim afleiðingum að segja þarf upp starfsfólki getur maður ekki annað en komið því mjög skýrt á framfæri. Ég mun rifja það upp í haust þegar menn ræða fjárlögin og niðurskurðinn og þegar forstöðumenn stofnananna mæta til fjárlaganefndar og fara yfir stöðuna sem þeir eru í. Þá mun blasa við að við erum að bruðla með peninga. Eins og ég kom að í fyrri ræðu, að tveir prófessorar og einn dósent sem kenna hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hefðu bent á það síðast í morgun að ekki hefði verið ráðið í fjórar stöður og tvær yrði hugsanlega ekki ráðið í, er það um það bil sá kostnaður sem verið er að bruðla með. Hverjar eru afleiðingarnar sem þessar ágætu konur bentu á? Þær eru nefnilega þær að hjúkrunarnámið gjaldfellur af því að það verður að velja og hafna hvað þarf að taka út úr náminu og það getur haft í för með sér að öryggi sjúklinga verði ógnað. Það voru skýr skilaboð sem við heyrðum síðast í morgun. En því miður virðist vera nákvæmlega sama hvaða skilaboð koma, það er aldrei hlustað.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja þetta: Ég óska starfsfólki nýrrar stofnunar, ef hún verður að veruleika, eða starfsfólki þessara stofnana velfarnaðar í vandasömum störfum sínum í framtíðinni.