139. löggjafarþing — 104. fundur
 31. mars 2011.
umræður utan dagskrár.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:12]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við bankahrunið stóðu Íslendingar frammi fyrir gífurlegum ógnunum en að mínu mati líka tækifærum. Við höfðum, held ég, ólíkt öllum nágrannaþjóðum okkar sem hafa átt í erfiðleikum með sitt bankakerfi, tækifæri til að búa til nýtt bankakerfi. Í staðinn hafa stjórnvöld, að mínu mati, unnið ötullega án stefnu og án áætlunar að því að endurreisa hið gamla. Það skýrist væntanlega mjög af því sem ég nefndi áðan að ekki hefur verið mörkuð nein stefna af þessari ríkisstjórn, hvort sem hún var í minni hluta eða meiri hluta, varðandi endurreisn bankakerfisins.

Ef skoðuð er samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur fram að ætlunin er að kveða á um hvernig eignarhaldi bankanna skuli hagað. Það er ætlunin að leggja fram stefnu um það hvernig eigi að endurreisa íslenska bankakerfið. Hins vegar hefur sú stefnumörkun aldrei komið í raun og veru inn fyrir fyrir dyr Alþingis. Við höfum séð þess vott í fjárlögum þar sem upphæðir hafa verið að breytast sem var ætlunin að leggja í endurreisn bankakerfisins en að það hafi komið fram áætlun, skýr stefna um hvers konar bankakerfi við viljum hafa til að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar, það hef ég ekki séð.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hvort væri alla vega að lágmarki búið að útbúa viðbragðsáætlun við bankaáfalli eins og ályktað var um í skýrslu þingmannanefndar Alþingis, því að fyrir bankahrun lá fyrir að það var engin viðbragðsáætlun, kom fram að hún mundi koma fram á næstu mánuðum, vonandi í apríl, en við höfum ekki enn séð votta fyrir henni.

Þegar unnið var að endurreisn bankakerfisins bárust ýmsar fréttir úr fjármálaráðuneytinu sem fór með það starf sem virtist að mestu leyti vera þannig að upphæðirnar voru að breytast en aldrei þannig að við fengjum eitthvert tækifæri til að tjá okkur um hvers konar bankakerfi við vildum. Við framsóknarmenn höfðum miklar áhyggjur af þessu því að við töldum að eitt af meginmarkmiðunum við endurreisn Íslands væri einmitt að stuðla að því að við yrðum með öflugt bankakerfi sem mundi þjóna hagsmunum Íslands. Þess vegna lögðum við fram þingsályktunartillögu þar sem við töldum að sú tillaga sem Fjármálaeftirlitið kom fram með, ekki stjórnvöld heldur Fjármálaeftirlitið, í október 2008 um að stærð nýju bankanna ætti að miða við útlán en ekki innlán, væri röng stefna. Það ætti að endurreisa hér minna bankakerfi sem væri meira í takt við landsframleiðslu og upphæð innlánanna. Þar með hefði ekki verið nauðsynlegt að gefa út skuldabréf á milli gömlu og nýju bankanna. Það hefði verið vel hugsanlegt að Fjármálaeftirlitið hefði þá haft lægri eiginfjárkröfu á bankana vegna þess að lánasöfnin hefðu verið betri, gæðin á þeim hefðu verið betri, og það hefðu þá verið meiri möguleikar á að því að einkavæða eða selja bankana í staðinn fyrir það sem við horfum upp á núna, að við erum með hrúgöld, sem meira að segja sjálfur ráðherra bankamála hefur talað um, með allt að því 60% vanskil í hinum ýmsu formum á lánum bankanna.

Bankarnir eru allt of stórir. Meðalgæðin eru of lág. Þeir hafa reynst illa samstilltir, hvort heldur horft er til gjaldeyris- eða verðtryggingarþáttarins. Þessir bankar munu seint fá hátt lánshæfismat og þeir verða seint einkavæddir. Áhætta Seðlabankans af viðskiptum við banka sem eru sligaðir af vanskilalánum er einnig mikil og peningastefna hans þar af leiðandi mjög óvirk. Gjaldþrota bankar, við verðum að horfast í augu við það, bankar sem eru í eigu þrotabúa munu seint geta stutt við fyrirtæki landsins og stuðlað að endurreisn þeirra.

Að lokum vil ég minnast á þá miklu hagsmunaárekstra sem eru til staðar hjá ríkinu sjálfu. Ríkið er nefnilega í mörgum hlutverkum. Það er í hlutverki hluthafa, kröfuhafa og eftirlitsaðila með sjálfu sér. Ég hef líka lagt mikla áherslu á að við drögum úr samþjöppun. Núna horfum við upp á það að bankarnir þrír eru með í kringum 90% markaðshlutdeild á Íslandi þannig að samþjöppun hefur bara aukist. Ég hef líka kallað eftir stefnu um það hvernig við tryggjum samkeppni á bankamarkaði og hvernig við tryggjum fjölbreytni, að fólk hafi í raun og veru eitthvert val um hvers konar fjármálastofnanir það á í viðskiptum við. Ég hef hvatt til þess að horft sé til þess að eignarhald sé fjölbreytt og gagnsætt, þar sem ríki, einkaaðilar og svokallað samfélagslegt eignarhald sjái sér hagsmuni í því að koma (Forseti hringir.) að rekstri fjármálafyrirtækja. Því vildi ég gjarnan fá svör frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það hvers konar plan eða áætlanir hann hefur varðandi endurreisn fjármálakerfisins.



[11:18]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur enn hv. þingmenn til að virða tímamörk.



[11:18]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Endurreisn fjármálakerfisins var auðvitað stærsta verkefnið eftir hrun þess, stærsta verkefnið í efnahagslegri endurreisn Íslands. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, það verkefni er auðvitað enn þá til úrlausnar og því hefur ekki verið lokið.

Í reynd má segja að verkefnið greinist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi var sá hluti sem fólst í endurreisn og endurfjármögnun fjármálastofnana og lagabreytingum sem beinlínis var ætlað að grípa inn í og leiðrétta ágalla sem í ljós höfðu komið fyrir hrun. Þessum hluta er núna lokið. Inn til Alþingis hafa komið frumvörp um fjárveitingar vegna eiginfjárframlaga inn í bankakerfið. Alþingi veitti heimildir til slíks á grundvelli neyðarlaganna á sínum tíma og þó að hv. þingmaður nefni hér þann galla sem felst í því að hafa samið við kröfuhafa með þeim hætti að eignirnar séu ekki aðskildar í góðan banka og slæman banka felst líka í því mikill ávinningur að ljúka málum í sátt við kröfuhafa með þeim hætti að þeir eigi hlutdeild í endurreisn íslensks efnahagslífs og hagnist á því ef vel gengur í íslensku efnahagslífi héðan í frá.

Enn fremur hafa komið inn fjölþættar lagabreytingar á grundvelli þeirrar skýrslu sem Kaarlo Jännäri gerði á sínum tíma og lúta að því að styrkja lagagrundvöll á fjármálamarkaði, auka heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngripa og aðhalds. Það er of langt mál að þylja allar þær lagabreytingar upp en þær hafa komið hér inn og verið samþykktar.

Annar hlutinn stendur núna yfir. Hann felst í því að við vinnum úr þessu fjármálakerfi og komum því á traustari grunn. Í fyrsta lagi þarf að endurmeta regluverkið áfram til að tryggja hagkvæmara bankakerfi og draga úr áhættu. Við munum kynna hugmyndir þar um í skýrslu til Alþingis sem við náum inn vonandi á vorþingi. Við þurfum að hvata það ferli að bankarnir lagi sig að þeirri stærð sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda og þolir til lengri tíma litið. Þetta er umbreytingaferli sem óhjákvæmilega tekur einhvern tíma.

Í annan stað þurfum við með öllu regluverkinu að styðja við þetta ferli eins og við mögulega getum, þ.e. að rekstrarkostnaður bankakerfisins lækki og það verði í því hagræðing. Það er óhjákvæmilegt að fækka verulega störfum í fjármálakerfinu ef þetta á að ganga eftir og að bankarnir verði hér eftir minni, og meira í samræmi við það sem geta heimila og fyrirtækja stendur undir að borga í kostnað af fjármálakerfinu.

Í þriðja lagi þurfum við að vinna áfram í þessari skuldaúrvinnslu sem er grundvallaratriði til að efnahagsleg endurreisn geti átt sér stað þannig að bankarnir lækki hlutfall vanskilalána og að við beitum regluverki eins og mögulegt er til að flýta fyrir þeirri þróun þannig að það verði mjög dýrt og óhagkvæmt fyrir bankana að drolla við það verk. Við vinnum að því núna hörðum höndum. Það eru eiginlega þessar þríþættu breytingar; endurmat á regluverkinu til að draga úr áhættu og tryggja betur fjármálastöðugleika, hagræðing í kerfinu og nýting regluverksins til að knýja á um hana og í þriðja lagi skuldaúrvinnslan og hreinsun efnahagsreikninga bankanna, sem er grundvallarverkefnið þessi missirin. Markmiðið er að eftir einhver missiri, vonandi eins stuttan tíma og mögulegt er, stöndum við eftir með heilbrigt fjármálakerfi og að endurreisn fjármálakerfisins verði þá sannanlega lokið. Slíkt fjármálakerfi verði þá samkeppnishæft í alþjóðlegu tilliti og innheimti ekki þjónustugjöld sem eru úr samræmi við það sem tíðkast í öðrum löndum. Það fjármálakerfi þarf að þola afnám gjaldeyrishafta og það þarf líka að geta staðið undir því að innstæðutryggingakerfið virki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þeirri löggjöf sem er núna til meðferðar á Alþingi og við getum afnumið forgang innstæðna fram yfir aðrar kröfur í fjármálafyrirtækjum. Þetta ferli gæti gengið yfir í þremur þrepum. Markmiðið er að eftir standi heilbrigt fjármálakerfi sem sé fært um að þjóna íslensku atvinnulífi og heimilum með fullnægjandi hætti án óbærilegs tilkostnaðar.



[11:23]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Því miður njóta íslensku bankarnir ekki trausts. Það eru kannski þrjú meginvandamál sem við erum að glíma við í landi okkar í dag; ríkisstjórnin, bankarnir og fjölmiðlar. Við erum núna að fjalla um bankana sérstaklega og þar var valin sú leið sem kom fram í ræðu hv. frumflytjanda, það var tjaslað upp á gömlu rústirnar. Því miður sjá menn enn mörg sömu andlitin í bönkunum, sömu andlitin og lokkuðu fólk til að ganga villt vegar í þágu fjármagnseigendanna og síðan á þetta sama fólk að vekja trúnað á ný í bankakerfinu þegar búið er að hafa af öldnum sem yngri stórkostlegar fjárhæðir.

Vandamálið er fyrst og fremst það að stjórnvöld láta reka á reiðanum og eftir höfðinu dansa limirnir. Það er grundvallaratriði að setja tímamörk á að afgreiða þá uppsöfnun sem hefur átt sér stað og þar hefur hæstv. ríkisstjórn ekki staðið í stykkinu. Það er enn þá verið að mismuna fyrirtækjum og heimilum og taka geðþóttaákvarðanir í bankakerfinu sem eru gjörsamlega óþolandi þannig að báturinn ruggar og ruggar og ruggar. Það verður að tryggja sem fyrst að réttur heimilanna og fyrirtækjanna gangi fyrir, en ekki réttur fjármagnseigendanna eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra á undan.



[11:26]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Endurreisn íslenska bankakerfisins er nú orðið skólabókardæmi og kennsluefni við virtustu hagfræðideildir háskóla í heiminum öllum. Það tókst, sem var með ólíkindum, að verja allar innstæður í öllum fjármálastofnunum og það tókst, eftir fullkomið hrun sem engin dæmi eru um í lýðræðisríkjum áður, að endurreisa bankakerfi með nánast engum tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Vissulega tóku erlendir kröfuhafar skellinn, 6–8 þús. milljarða kr., en ríkið hefur lagt fjármálakerfinu til, bæði með eiginfjárframlagi og lánum, 184 milljarða kr. sem er 250 milljörðum minna en áætlað var.

En við skulum ekki gleyma því að það kemur eign á móti þessu framlagi. Spurningin er hvernig með þá eign skuli farið. Ég vil, frú forseti, taka skýrt fram að við vinstri græn teljum mikilvægt að hafa öflugan ríkisbanka og nú er ég að tala um til frambúðar, bæði í núverandi ástandi og eins þegar fram í sækir, kannski ekki til eilífðarnóns, en þó tel ég nauðsynlegt að ríkið eigi og fari með virkan hlut í bankakerfinu, u.þ.b. þriðjungshlut svipað og Norðmenn hafa gert. Hvers vegna? Jú, til að tryggja að þó að einkaframtakið með alla sína banka fari aftur á 2007-brautina verði áfram til banki sem þjónar fólki en ekki fjármagni, styður við atvinnulíf landsmanna og heimilin í landinu og þykir fengur að því að hafa þau í venjulegum bankaviðskiptum. Þannig bankakerfi þurfum við að hafa.



[11:28]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu um endurreisn bankakerfisins og vil byrja á að velta upp spurningunni: Fyrir hvern er bankakerfið? Mér hefur fundist íslensk stjórnvöld vera að endurbyggja kerfið úr fúnum spýtum í allt of svipaðri mynd og það var áður. Nú finnst mér við sitja uppi með lasið kerfi sem þjónar hvorki heimilunum né fyrirtækjunum. Við upplifum að við getum okkur hvergi hreyft án þess að það sé hætta á öðru hruni. Okkur er sagt að fyrningarleiðin sé ófær því að þá falli Landsbankinn. Stjórnvöldum er talin trú um að ekki sé hægt að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að bankakerfið riði til falls. Til hvers erum við með kerfi sem vinnur gegn fólki og fyrirtækjum, kerfi sem sýgur til sín fjármagn og orku og heldur öllu í járngreipum? Ég spyr: Er ekki kominn tími til að endurskoða það sem við erum að gera? Er ekki kominn tími til að laga kerfið að íbúunum og láta það þjóna heimilum og fyrirtækjum í stað þess að stór hluti íslensku þjóðarinnar sé þrælar fjármálafyrirtækja? Er ekki kominn tími til að stöðva gegndarlausa og siðlausa eignaupptöku fjármálafyrirtækjanna? Er ekki kominn tími til þess að við lærum af mistökunum og förum í róttækar breytingar?



[11:30]
Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. frummælanda og þakka henni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Bankakerfið var endurreist í nánast óbreyttri mynd í þágu kröfuhafa, fjármagnseigenda, og í þeirri von að geta staðið undir ábyrgðaryfirlýsingum um að tryggja innstæður í bönkunum. Vonandi gengur það eftir en upplýsingar sem við fengum í viðskiptanefnd á fundum hafa ekki veitt manni traustan grunn til að álykta að svo verði, því miður.

Það var einn ríkisbanki og tveir í einkaeigu og við endurreisnina féll Vinstri hreyfingin – grænt framboð frá þeirri skoðun sinni og stefnu að þriðjungshluti í bönkunum yrði í eigu ríkisins. Hluta bankakerfisins er verulega ógnað og þá á ég við starfsgrundvöll sparisjóðanna. Af þeim hef ég verulegar áhyggjur ef ekki verða þegar í stað gerðar úrbætur, ráðstafanir um samstarf o.fl. eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík féll. Það er mjög nauðsynlegt að komið verði upp sameiginlegri millibankaþjónustu, tölvukerfi og öðru slíku, ella eru starfandi sparisjóðir í mikilli hættu. Falli þeir er það þvert á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég vil nefna að viðskiptanefnd fékk á fund sinn talsmenn bankanna, bankastjóra, forstjóra og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Þær upplýsingar sem þar komu fram, eða upplýsingaleysið, varð ekki til að létta af mér þeim áhyggjum sem ég hef af framtíð bankakerfisins. Það olli mér líka miklum vonbrigðum að hvorki Fjármálaeftirlitið né Seðlabanki Íslands og aðrir hafi farið eftir tillögum og tilmælum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem Alþingi samþykkti samhljóða. Þar á ég við samstarf Seðlabankans við mat á eignum, forsendur mats á eignum, rafrænan úrlestur úr upplýsingum frá bönkunum og margt fleira og enn hefur ekki verið undirbúin áætlun varðandi þá vá sem kann að steðja að bankakerfinu.



[11:32]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Hún fór í ágætu máli yfir aðdragandann að stofnun nýju bankanna. Mér hefur fundist, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, mikill skortur á gagnrýninni hugsun innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í umræðunni þegar kemur að svo umdeildum málum sem endurreisn bankakerfisins er. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi hefur stefnumótunin nær algjörlega farið fram hjá Alþingi. Eigum við ekki að læra eitthvað af hruninu? Það er kannski þess vegna sem við, nokkrir þingmenn, þar á meðal sá sem hér stendur, höfum beðið Ríkisendurskoðun um að gera úttekt á gjörningum framkvæmdarvaldsins frá hruni. 183 milljarðar hafa farið inn í stóru bankana þrjá, tugir milljarða hafa farið inn í aðrar fjármálastofnanir og tryggingafyrirtæki og það er mikilvægt að Alþingi standi sig í stykkinu þegar kemur að því að skoða þessi mál. Við megum ekki falla í það far, eins og í aðdraganda hrunsins, að samþykkja allt sem framkvæmdarvaldið hefur verið að gera, leggja blessun okkar yfir það og loka augunum, heldur verðum við að vera gagnrýnin í hugsun og fylgjast grannt með framkvæmdarvaldinu þegar kemur að þessum hlutum. Það er hlutverk þingsins.

Þá langar mig aðeins að tala um framtíðina. Ég hef áhyggjur af þeirri fábreytni sem mér sýnist að muni að öllu óbreyttu verða á íslenskum fjármálamarkaði ef ekkert verður að gert. Við munum horfa upp á bankakerfið þar sem þrír risar munu ríkja á markaðnum, stóru viðskiptabankarnir þrír, og sparisjóðirnir, verði ekkert að gert, munu því miður hverfa í þá hít. Það er ekki mín framtíðarsýn, eða okkar í Framsóknarflokknum. Ég hvet hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til að svara spurningum um það hver framtíðarsýn hans er gagnvart uppbyggingu fjármálakerfisins þegar við horfum til sparisjóðanna sem eru svo mikilvæg eining í fjármálakerfi landsins.



[11:34]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við erum sammála um að bankakerfið okkar er of stórt, það er visst óhagræði til staðar í rekstri þess en slíkt leiðir til of mikils vaxtamunar. Hvers konar bankakerfi viljum við hafa hér á landi? Hvers konar stefnu ætlar ríkið að framfylgja?

Ríkið hefur tvær leiðir og alþingismenn um leið. Ríkið getur gengið fram fyrir skjöldu í eigin bönkum og gætt að því að hagræði sé í rekstrinum, að ríkisbankinn sé vel rekinn. Ríkið getur svo, og alþingismenn, nýtt regluverkið til að móta starfsemina og laga hana að þörfum atvinnulífsins. Til dæmis þarf að dýpka umræðuna um hvort aðskilja beri einkabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Eigum við að setja lög þar um eða ekki?

Ég held að við verðum að gæta okkar í að tala málefnalega um bankakerfið í landinu. Það er rangt sem hefur verið fullyrt í þessari umræðu, að bankakerfið hafi verið endurreist í þágu fjármagnseigenda. Það hefði verið ákjósanlegt ef við hefðum getað endurreist bankana eins og við hefðum helst viljað og haft þá minni í umsvifum, en gætum að því að valkosturinn var sá að annaðhvort endurreistu erlendir fjármagnseigendur bankana sem þrotabú, sem sínar rekstrareiningar, eða ríkið yfirtæki þá með kostnaði upp á um 200 milljarða kr. fyrir skattgreiðendur í landinu — það hefði verið lakari kostur í þessu tilviki. Ég tel að rétt hafi verið farið að með því að endurreisa bankana undir stjórn erlendra kröfuhafa.

Ég held að samþætting starfsemi Landsbankans og sparisjóðakerfisins sé jákvætt skref í að laga bankastarfsemina að þörfum atvinnulífsins. Rekstur sparisjóðanna var erfiður fyrir hrun, styrkleiki þeirra liggur í framhlið starfseminnar en veikleikinn baka til, þ.e. kostnaðarmegin. Nýta ber þá styrkleika sem sparisjóðakerfið hefur í samþættingu þeirrar starfsemi við aðra starfsemi sem ríkið hefur undir höndum. Við þurfum að aðlaga bankakerfið á Íslandi að stærð og þörfum atvinnulífsins. Við þurfum að stilla saman strengi atvinnulífsins og bankakerfisins. Þannig náum við fram hagræðingu og ekki síður öflugri bankastarfsemi á Íslandi.



[11:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég beið svolítið spenntur eftir yfirlýsingu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann talaði eins og hrunið hefði verið fyrir nokkrum dögum en ekki fyrir tveimur og hálfu ári. Hann talaði um hluti sem þarf að taka á. Eftir tvö og hálft ár er það ekki enn þá búið.

Við horfum upp á, virðulegi forseti, að það á eftir að svara grundvallarspurningum um fjárfestingar- og viðskiptabanka. Viljum við aðskilja þá starfsemi? Hvert er markmið bankakerfisins? Hver er áhættugreiningin? Hvar liggur það fyrir? Við kláruðum lög um fjármálastofnanir og spurðum þessara spurninga — og það átti að fara í það seinna. Við gengum frá lögum um sparisjóðina og öllum spurningum um þá átti bara að svara seinna. Síðan er búið að setja 250 milljarða í fjárframlög og víkjandi lán. Það er ekki enn þá búið að svara þessum grundvallarspurningum. Í dag ræðum við innstæðutryggingakerfið. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki hunskast til að fara til Brussel til að gæta hagsmuna Íslendinga í því máli. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég beið eftir því. Hann hefur tækifæri á eftir til að lýsa því yfir að hann ætli að ganga í það verk sem er búið að biðja um í rúmlega tvö ár núna.

Virðulegi forseti. Það dugar ekki að koma hingað upp og fara með sömu ræðuna og er búið að fara með í tvö og hálft ár. Það vita allir hver verkefnin eru. Það er alveg sama hvernig menn endurraða ræðunni, aðalatriðið er að við þurfum að taka á þessum málum. Vandinn er augljós og hann er miklu meiri vegna þess að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, ásamt fyrirrennurum sínum, hafa ekki tekið á þessum augljósu (Forseti hringir.) málum.



[11:39]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti hvetur hv. þingmann til að gæta að virðingu sinni og þingsins við orðaval í ræðustól Alþingis.



[11:39]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu. Mig langar að koma aðeins inn í umræðuna. Það er í rauninni hægt að segja um bankakerfið að markmiðið sé í sjálfu sér, eins og ég sé það, ekkert endilega að endurreisa það heldur endurmóta það. Það er ekki eftirsóknarvert að endurreisa bankakerfið sem hrundi og það hefur varla nokkur maður á dagskrá sinni að endurreisa það í óbreyttri mynd, eða ég vona ekki.

Við hrun var áætlað að stærð kerfisins væri á að giska tíföld landsframleiðsla. Það er náttúrlega fáheyrð stærð á bankakerfi. Ljóst varð að ekki væri hægt að standa að baki slíku kerfi og því skynsamlegt að reyna það ekki. Það eru margir sem horfa til Íslands og benda á skynsemi þess að hafa ekki farið þá leið að reisa það í óbreyttri mynd, eins og sumar aðrar þjóðir hafa gert. Má í því sambandi til að mynda benda á reynslu Íra sem við fengum fréttir af síðast í morgun að hefðu lent í stórfelldum vandræðum með þá leið sem þeir ætluðu að fara.

Virðulegi forseti. Félagslega ábyrgir bankar í umhverfis- og samfélagslegu tilliti eru kannski það sem við eigum að horfa til. Í því sambandi má minna á að í fyrra fengu þrír bankar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, þ.e. sænskur, norskur og danskur banki. Þessir bankar hafa að leiðarljósi að efla sjálfbærni á sviði umhverfis- og félagsmála til lengri tíma litið. Þeir fjármagna þannig framtíðina, svo sem lífræna matvælaframleiðslu, endurnýjanlega orkugjafa, byggingar sem eru hannaðar á loftslagsvænan hátt, menningar- og menntunartilboð o.fl. Allt þetta gera bankarnir, þ.e. Ekobanken sænski, norski Cultura Bank og danski bankinn Merkur Andelskasse, með því að skila hluthöfum sínum arði. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag þarf á svona hugsun að halda og ég held að við eigum að horfa til þess að (Forseti hringir.) bankakerfið þróist í þá átt þannig að það komi önnur hugsun inn en var hér ríkjandi fyrir hrun.



[11:42]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vekur athygli á því að klukkan í púltinu er biluð en tímamæling fer fram hjá forseta.



[11:42]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum endurreisn bankakerfisins. Það hrundi vegna ákveðinna vinnubragða, vegna eftirlitsleysis og vegna þess lagaumhverfis sem Alþingi bjó því. Sá hugsunarháttur að peningar og græðgi væri upphaf og endir alls góðs réð ferðinni. Því miður er það svo að sama fólkið hefur að stórum hluta endurreist bankakerfið og lét það hrynja, sömu embættismenn, sömu bankamenn og að hluta sömu ráðherrar og þingmenn. Það er því ekki von á góðu.

Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings virðast hafa ráðið ferðinni og ráða henni enn ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hagsmunir viðskiptavina hafa mátt mæta afgangi, eins og skuldir heimilanna bera með sér.

Við búum við þá stöðu tveimur og hálfu ári eftir hrun að bankakerfið og fjármálakerfið er allt of stórt og allt of skuldsett og þar af leiðandi mjög brothætt, eins og t.d. ábyrgðir fjármálaráðherra til Íslandsbanka og Arion banka upp á 141 milljarð bera með sér. Það var ekki einu sinni gerð grein fyrir þeim ábyrgðum í fjárlögum eins og átti að gera.

Það er margt að í endurreisn bankakerfisins, of margt til að hægt sé að láta það ganga áfram þegjandi og hljóðalaust. Sú stefna ásamt algjörlega ógagnsæju eignarhaldi á Íslandsbanka og Arion banka sem og, að því er mér virðist, sömu hugmyndafræði og leiddi til hrunsins er ávísun á ótrúverðugleika. Slík stefna er klárlega ávísun á annað áfall og jafnvel annað hrun nema stórfelld niðurfærsla skulda eigi sér stað. Ég held að það sé tími til kominn að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra geri sér grein fyrir þessu og viðurkenni það og endurmeti stefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum.



[11:44]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil þakka honum kærlega fyrir þann fund sem við áttum í viðskiptanefnd þar sem hann fór í gegnum sama mál, endurreisn bankakerfisins, og að mínu mati svaraði hann mjög heiðarlega þeim spurningum sem nefndarmenn báru upp. Ég held að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að mjög margt er óunnið í endurreisn bankakerfisins. Ég tel að hann geri sér grein fyrir því að það hefur verið unnið á síðustu árum án þess að hafa raunverulega áætlun um það hvers konar bankakerfi við ætlum að vera með í raun.

Hann nefndi nokkur atriði sem hann taldi mikilvægt að við ynnum að. Ég mundi vilja bæta aðeins við það, ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að sú nefnd sem Alþingi samþykkti að yrði sett á stofn á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, þar sem yrði einmitt unnið að því að svara spurningum um hvers konar bankakerfi við viljum hafa, verði sett af stað sem allra fyrst. Ég tel líka að við þyrftum hreinlega að setja lög um það að ráðherrar legðu fram áætlun hér á Alþingi um það hvers konar bankakerfi eigi að vera til staðar, að það sé skýr stefnumörkun frá framkvæmdarvaldinu um fjármálakerfið. Skýrsla er alls ekki nóg. Við höfum verið að vinna hér Alþingi jafnréttisáætlun, allar nefndir þingsins hafa tekið þátt í þeirri vinnu og ég verð að segja að ég tel að endurreisn bankakerfisins eigi alla vega að njóta sömu vinnubragða og virðingar og jafnréttisáætlun hér á Alþingi. Ég hvet ráðherrann til þess.

Markmiðið hlýtur að vera að við séum með bankakerfi, séum með banka sem munu aldrei aftur verða of stórir til að falla. En staðan er hins vegar ekki þannig í dag.



[11:46]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þeirri spurningu var beint til mín hvernig ég sæi fyrir mér uppbyggingu fjármálakerfisins. Eins og ég rakti í upphafi máls tel ég að fjármálakerfið verði að vera í samræmi við getu heimila og fyrirtækja til þess að standa undir kostnaðinum við það. Við verðum þar af leiðandi að ætla okkur í samræmi við það hvað við erum tilbúin að leggja á heimili og fyrirtæki í kostnaði. Þar komum við einmitt að sparisjóðunum. Ég er ekki tilbúinn að endurreisa sparisjóðakerfi ef það þýðir aukaútlát fyrir heimili og fyrirtæki. Annaðhvort eiga sparisjóðirnir sér raunverulegar rekstrarforsendur á grundvelli sérstöðu sinnar eða ekki. Og ef þeir eiga það ekki er engum til góðs að halda áfram að tala um þá eins og goðumlík fyrirbæri. Þá eru þeir bara orðnir skurðgoð. Þetta mat verður bara að fara fram með mjög köldum og einbeittum hætti. Við verðum að leggja mat á það hvort þessar rekstrarforsendur séu fyrir hendi eða ekki. (Gripið fram í.) Sparisjóðir sem eiga þessar rekstrarforsendur eiga auðvitað að lifa, en það er mjög erfitt að ætla almenningi og fyrirtækjum að halda þeim uppi, með því þá að borga hærri vexti eða hærri gjöld hjá þeim en öðrum fjármálastofnunum, eða að ríkið reki þá með einhverjum hætti.

Hér spurði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson um innstæðutryggingar. Ég hef haldið fram sjónarmiðum Íslands hvað varðar innstæðutryggingakerfið á alþjóðlegum vettvangi og ég hef gert það í Brussel. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að innleiða það innstæðutryggingakerfi sem kveðið er á um í frumvarpi og það er mikilvægt að það frumvarp verði að lögum. Neytendavernd skiptir miklu máli og þar er gætt að öllum þeim sjónarmiðum sem mestu skipta.

Hér hefur nokkuð verið talað um að stefnumótun hafi farið fram hjá þinginu. Það er ekki rétt, engin stefnumótun hefur farið fram hjá þinginu, þvert á móti hef ég veitt til þess fyrirheit að hingað komi skýrsla þar sem við getum þá rætt málið. Ég vil ekki loka þessa vinnu inni í einhverri lítilli nefnd heldur vil ég eiga þessa umræðu við þingið, að hingað komi skýrsla um framtíðarkosti í uppbyggingu fjármálakerfisins. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta ágætishugmynd hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur líka (Forseti hringir.) að það komi þá áætlun í kjölfarið með svipuðum hætti og jafnréttisáætlun. Ég er alveg til í að koma hér með uppbyggingaráætlun (Forseti hringir.) fjármálakerfisins í kjölfarið. En við skulum byrja á að taka greiningarvinnuna og vinna hlutina í réttri (Forseti hringir.) röð.