139. löggjafarþing — 104. fundur
 31. mars 2011.
innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 237. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 268, nál. 1097, 1135, 1136 og 1138, brtt. 1098 og 1137.

[18:51]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég sé mig knúna til að koma hingað aftur upp í ræðu eftir að hafa hlýtt á ræðu þingmannsins Magnúsar Orra Schrams þar sem hann var að fjalla um tillögu mína og ég vildi vissulega geta svarað honum í lengra máli en ég kem að í andsvari.

Það mál sem við ræðum finnst mér eitt stærsta málið sem er í þinginu núna og mér finnst mjög slæmt að sjá hve fáir þingmenn sýna því áhuga. Hjá meiri hlutanum finnst mér þetta mál vera hálfmunaðarlaust. Undir álit meiri hlutans skrifa fimm þingmenn en aðeins einn af þeim er í viðskiptanefnd, þingmaðurinn. Skúli Helgason, sem mælti fyrir nefndarálitinu en viðurkenndi að þetta væri eiginlega glatað mál. Eini þingmaðurinn, fyrir utan kannski ráðherra viðskiptamála, sem hefur eitthvað barist fyrir þessu máli, er Magnús Orri Schram sem ég kom eiginlega upp til að svara en mér sýndist vera farinn í dag.

Ég votta honum samúð mína fyrir að þurfa að berjast fyrir þessu vonlausa máli því að hann hefur ekki mjög góðan málstað að verja. Hann sagði hér fyrr í dag að þeir sem hefðu barist gegn þessu máli hefðu ekkert fram að færa eða bentu ekki á neinar lausnir í staðinn. Ég vildi andmæla þessu. Í nefndaráliti mínu er á bls. 3 kafli sem heitir einmitt „Lausn til framtíðar á innstæðutryggingum“. Ef þingmaðurinn hefði lesið aðeins lengra þá hefði hann væntanlega rekið augun í þessa millifyrirsögn sem er feitletruð.

Hér var svolítið fjallað um að afnema þyrfti ríkisábyrgð á innstæðum en þrjár síðustu ríkisstjórnir hafa gefið það út að ríkið tryggi allar innstæður. Þær yfirlýsingar hafa ekkert lagalegt gildi og eru því í raun orðin tóm þó að einhverjir kunni að trúa á þær. Þær virka að vissu leyti eins og innstæðutryggingarsjóður, þær veita falskt öryggi en á meðan fólk trúir á þær verður ekki áhlaup bankanna eða alla vega eru minni líkur á því. Þetta finnst mér vera leikur að eldinum. Það er verið að venja fólk við þá hugsun að heimurinn sé hættulaus og fólk þurfi ekki að hugsa um sín mál, það komi alltaf einhver og bjargi því. En ég ætla aðeins að fjalla um þær lausnir sem mér finnst hafa komið fram í umræðunni og ég hef lagt til í nefndaráliti mínu.

Eitt sem ég sá ekki fyrir, en Pétur H. Blöndal þingmaður hefur talað fyrir, er að byggja á gömlu tilskipuninni frá 1994 sem er enn í gildi og vinna eftir henni vegna þess að sú tilskipun sem við erum að innleiða hefur ekki enn verið tekin inn í EES-samninginn. Þá hefur einmitt verið bent á að við höfum lítil áhrif þar á. En það er bara ekki alveg rétt. Hér í þinginu erum við að temja okkur ný vinnubrögð og í dag sátum við í viðskiptanefnd fund þar sem við í fyrsta sinn nýttum okkur þennan sex vikna glugga til að skoða mál og gera athugasemdir við þau. Við gerðum reyndar í það skipti — það var mál sem fjallaði um einkaleyfi á lyfjum fyrir börn — ekki neinar athugasemdir en ég er alveg viss um að viðskiptanefnd mundi gera athugasemdir þegar þessi tilskipun kemur og við fáum þennan sex vikna glugga. Þá mundum við svo sannarlega flagga og segja: Þetta hentar okkur ekki. Það hentar okkur ekki að tryggja innstæður upp að 100 þús. evrum, við getum ekki gert það með okkar bankakerfi. Ég er því ekki sammála því að við þurfum endilega að ganga í Evrópusambandið til að geta haft einhver áhrif á þá löggjöf sem kemur í gegnum EES-samninginn. Við þurfum bara að fara að vinna vinnuna okkar og vinna þetta með skipulegum hætti. Það er einmitt það sem Alþingi er að reyna að fara að gera.

Þær leiðir sem ég lagði til í nefndaráliti mínu voru í raun og veru tvær. Ég er með frávísunartillögu í nefndaráliti mínu til ríkisstjórnarinnar, henni er falið að leita samstarfs við stærri og burðugri tryggingarsjóð á erlendri grund. Þetta höfum við rætt og það ætti ekki að hafa farið fram hjá þingmanninum Magnúsi Orra Schram. Við höfum einnig rætt þetta töluvert í nefndinni og við höfum rætt þetta við starfsmenn ráðuneytisins og það er eins og þeir fari alltaf undan í flæmingi, að þetta sé feimnismál. Ég lít ekki svo á, ég lít á þetta sem viðskiptahugmynd. Tryggingar eru af öllum gerðum, það er hægt að tryggja nánast allt í heiminum. Ef mig langar að stökkva út úr fallhlíf og vil tryggja mig fyrir því þá kostar það kannski meira en ef ég ætla að fara í strætó upp í Breiðholt. Ef til vill þyrftum við að greiða hærra iðgjald en ekkert er því til fyrirstöðu að við getum keypt okkur tryggingu. Það þarf bara að ganga í það mál og láta á það reyna. Þetta hefur ekki verið reynt.

Hitt sem er mín tillaga — þetta er ekki mín hugmynd heldur hef ég heyrt af þessu frá ýmsum, bæði reyndum bankamönnum og í greinum um innstæðutryggingakerfi — er að hafa forganginn á innstæðum varanlegan. Það hafa einhverjir bent á að erfiðara yrði fyrir bankana að fjármagna sig og þá er kannski lausnin á því að skilja milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þannig að viðskiptabankar yrðu kannski bara góðir og gamaldags og fjármögnuðu sig meira með innstæðum — eins og Icesave var reyndar að gera, við skyldum kannski ekki fara þannig með það fé — og fjárfestingarbankar væru allt aðrar stofnanir sem lytu annars konar lögmálum.

Það er ýmislegt í þess máli sem mér finnst stórhættulegt og lífið er stórhættulegt. Við verðum að átta okkur á því að þeir sem eiga peninga verða að hugsa um hvað þeir eru að gera þegar þeir leggja peningana sína í banka. Við erum með gildandi tryggingarsjóð þótt hann sé gjaldþrota þar sem hver innstæðueigandi er með tryggingu upp á rúmar 20 þúsund evrur. Á móti erum við líka með yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um að ríkið ábyrgist allar innstæður. Ég vil þá yfirlýsingu burt þannig að það sé alveg á hreinu. Ég held að við getum ekki haldið úti, hvorki á Íslandi né í heiminum, 2007-bankakerfi þar sem allt er auðvelt og þeir sem eiga peninga þurfi ekki að hugsa og þurfi ekki að dreifa ábyrgð. Fólk verður líka að átta sig á því hvað gerist þegar það leggur peninga inn í banka. Bankinn setur ekki peningana þína í eitthvert bankahólf, hann lánar þá út. Fólk þarf að fara að velta því fyrir sér hver útlánastefna þess fjármálafyrirtækis sé. Vil ég að mínum peningum sé varið með þessum hætti? Þetta er umræða sem ég held að sé mjög þarft að taka en þetta er viðhorfsbreyting sem sennilega mun eiga sér stað á lengri tíma og það tekur tíma að breyta hugarfari.

Við megum ekki alltaf vera í hlutverki góða foreldrisins sem eyðileggur krakkana sína á dekri með því að forða þeim alltaf úr hættulegum aðstæðum. Bæði bankar og fjármagnseigendur verða að átta sig á því að ríkið getur ekki alltaf hlaupið undir bagga. Einhvern veginn verður að landa þessu innstæðutryggingarsjóðsmáli en það er algerlega óásættanlegt að gera það með þessum hætti. Mér fyndist farsælast að við reyndum að koma okkur í viðskiptasamstarf — við erum ekki að fara fram til að betla — við stærri sjóð. Þær eru úti um allt. Það þarf bara að fara og banka á dyrnar hjá þeim og spyrja: Hvað kostar að vera með hjá ykkur?



[19:02]
Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Magnús Orra Schram um málefnaleg rök fyrir því er varðar þær breytingar á tilskipun Evrópusambandsins sem við eigum við hér. Þetta er ekki einu sinni EES-mál því að það er ekki orðið gilt í EES-samningnum að hækka innstæðutryggingar úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur. Sömuleiðis bað ég hann um málefnaleg rök fyrir því af hverju verið væri að herða orðalagið sem snýr að skyldu viðkomandi ríkja. Til upplýsingar er það túlkun meiri hlutans að ríkinu beri að tryggja að viðkomandi innstæðutryggingarsjóður sé fjármagnaður. Það þýðir með öðrum orðum að ef við yrðum fyrir einhvers konar áfalli, það þyrfti ekki að vera stórt, væri sama hvaða áfall það væri, innstæðutryggingarsjóðurinn þyrfti að taka lán og það lægi þá fyrir að ríkið ætti að sjá til þess að sjóðurinn hefði burði til að taka lánið og það gerir ríkissjóður annaðhvort með því að lána sjálfur eða með því að ábyrgjast lán.

Það er augljóst að þetta er komið út af Icesave-deilu okkar Íslendinga og því máli öllu saman. Þarna er talin þörf á, sem er áhugavert í heildarsamhengi hlutanna, að festa frekar þá skyldu sem sumar þjóðir telja að við höfum núna í deilumáli okkar.

Ef við tölum aðeins um eðli málsins held ég að við séum sammála um að við viljum helst vera nokkurn veginn örugg um peningana okkar í bankanum. Gallinn er bara sá að bankar eru eins og önnur fyrirtæki, þeir geta farið á hausinn og kannski sérstaklega núna þegar við erum ekki búin að vinna okkur út úr þeim vanda, og þá er ég að tala um hinn vestræna heim, sem við erum í núna og þá er ansi mikil hætta á að þeir fari á hausinn.

Spurningin er: Hvað viljum við ábyrgjast mikið? 20 þús. evrur eins og er í lögunum núna eru um 3 millj. kr. en þegar við förum upp í 100 þús. evrur er verið að tala um 15–16 millj. kr. á hvern reikning. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ef einhver á innstæður upp á 3 millj. kr. er mjög eðlilegt að reyna að koma til móts við það, en ég sé ekki málefnalegu rökin fyrir því að hækka þetta eins og raun ber vitni.

Vandinn er sá að framkvæmdarvaldið hefur ekki sýnt neinn vilja til að leysa þetta mál. Það er augljóst eins og við erum búin að fara margoft yfir að þetta hentar ekki fyrir íslenskar aðstæður. Í umræðunni hefur verið upplýst að hæstv. ráðherrar hafa ekki gert neitt við því eða bent á það sem öllum er ljóst sem eitthvað fylgjast með í Evrópu, að við Íslendingar getum ekki staðið á bak við svona innstæðukerfi og þess vegna þarf að nálgast það með öðrum hætti. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir ræddi um samstarf við aðra sjóði. Nú getur vel verið að það sé ekki hægt en við vitum það ekki vegna þess að ekki er búið að kanna það.

Tíma hæstv. ráðherra væri örugglega betur varið í þetta mál en mörg önnur því að það er svo mikið undir. Ef hæstv. ráðherra hefði kannað hver viðbrögð Evrópusambandsins væru við því að finna aðrar leiðir fyrir okkur Íslendinga og það væri með lausnir svipaðar og í þeirri tilskipun sem er í gangi núna kæmi hann hingað og segði: Heyrið, Evrópusambandið ætlar að neyða okkur til að gera þetta þó að það séu augljós rök fyrir því að við getum það ekki. Eða hæstv. ráðherra kæmi hingað og segði. Ég er búinn að tala við flestalla sjóði í nágrannalöndunum eða kollega mína, ráðherrana, og það er ekki vilji fyrir því að vinna saman hvað þetta varðar. Þá mundum við alla vega vita það en við vitum það ekki núna vegna þess að það hefur ekki verið reynt.

Ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að mjög kaldhæðnislegt sé í þessu stóra máli hve lítinn áhuga hv. þingmenn hafa á því, ekki aðeins að þeir hafi tekið lítinn (Forseti hringir.) þátt í umræðunni heldur þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa tekið þátt í umræðunni þá er almenna reglan (Forseti hringir.) sú að þeir hlusta ekki á þær röksemdir sem fram koma og reyna því síður að koma með svör við þeim.



[19:08]
Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Í umræðunni hefur ítrekað komið fram að ábyrgðaryfirlýsingar stjórnvalda hafi í rauninni aldrei verið settar í lög heldur hafi þær fyrst og fremst verið munnlegar, að vísu hafi yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar verið skriflegar en hins vegar hafi sá texti aldrei svo vitað sé til verið settur í lög á Alþingi.

Nú voru að berast svör við fyrirspurn frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni þar sem vísað var í að fjármálaráðuneytið hefði gengist í ábyrgð fyrir skuldabréfi vegna innstæðna sem fluttar voru frá SPRON yfir í Arion banka. Ég spyr þingmanninn hvort það samrýmist að einhverju leyti því sem hefur komið fram í umræðum, að þetta hafi aldrei verið lögbundið heldur hafi fyrst og fremst verið um munnlegar yfirlýsingar að ræða, og hvort þingmaðurinn telji ráðherrann hafa umboð til að gefa út ríkisábyrgð án þess að samþykki liggi fyrir héðan frá Alþingi.



[19:09]
Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að skoða þetta svar rétt áðan og eftir að hafa skoðað það í fljótheitum varð niðurstaða mín sú að þetta þyrftum við að skoða betur. Ég hefði viljað að við færum yfir málið í hv. viðskiptanefnd og mun fara fram á það við formann nefndarinnar (Gripið fram í: … fjárlaganefnd.) af nokkrum ástæðum, m.a. þeim sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi þegar hún benti réttilega á að ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um þetta á þeim stað þar sem ætti að taka ákvörðun um það.

En ég var síðan með fyrirspurn um ábyrgðir í bankakerfinu, fjárframlög, lán og ábyrgðir, og það var ekki minnst einu orði á þau dæmi í svarinu frekar en að talað væri um lán í tengslum við Saga Capital og VBS. Það er svolítið athyglisvert. Ég er búinn að vera með margar fyrirspurnir og svörin eru oft og tíðum út í hött. Þessi fyrirspurn er þess eðlis að hún er mjög nákvæm. Það er hv. þm. Kristján Júlíusson sem spyr. Hann veit líklega mikið um málið því að hún er mjög nákvæm og hann fær svar. Ég get ekki lesið annað úr svarinu en að þar sé staðfest að um ríkisábyrgð sé að ræða.

Ef það er núna svo, sem er einn þátturinn í þessu líka, að hv. alþingismenn þurfi alltaf að hafa svörin þegar þeir leggja fram spurningarnar og geti ekki lengur treyst því að menn segi satt og rétt frá þá erum við í mjög alvarlegri stöðu. Ég var sjálfur ráðherra. Ég las fyrir hvert einasta svar vegna þess að ég vissi að ég bar ábyrgð á því og oft og tíðum þurfti að fara mjög vel yfir það vegna þess að ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki og svörum. En það er eins og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn telji það algjört (Forseti hringir.) aukaatriði.



[19:11]
Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir svar hans. Ég tek undir að þetta er eitthvað sem ekki bara við í viðskiptanefnd þurfum að skoða heldur fellur það að sjálfsögðu undir fjárlaganefnd. Við í viðskiptanefnd þurfum svo sannarlega að kynna okkur það líka og hvernig var staðið að þessu. Kannski er staðan orðin þannig að hægt sé að veita ríkisábyrgð án þess að spyrja Alþingi. Alþingi getur bara framselt þetta vald þó að það komi ekki einu sinni fram í þeim lagatexta sem er verið að vísa til í svarinu.

Það sem ég ætla hins vegar að spyrja þingmanninn frekar út í eru þær ræður sem hann flutti í dag, þó ekki endilega þá ræðu sem hann hélt áðan, og varða samskiptin við Evrópusambandið og innstæðutilskipunina. Ég held að það sé nauðsynlegt að frá svör frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er því miður búinn að yfirgefa okkur sem og varaformaður viðskiptanefndar, um hvað hafi nákvæmlega verið gert til að koma á framfæri þeim upplýsingum og þeirri þekkingu sem við höfum öðlast frá því að bankarnir okkar hrundu í október 2008, um reynslu og þekkingu okkar á því hvað virkaði, hið örfáa sem virkaði varðandi innstæðutilskipunina, og hvað það var sem virkaði ekki, sem var fjölmargt. Menn segja að þetta hafi verið rætt á vinnufundum og ég spyr þingmanninn hvort hann taki ekki undir að nauðsynlegt sé að fá skýr svör frá stjórnvöldum og þá sérstaklega hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hefur átt nokkuð tíða fundi í Brussel undanfarið um hvað hann hafi gert til að koma þessum upplýsingum á framfæri og líka til að afla sér upplýsinga um hvert Evrópusambandið hyggist stefna með innstæðutryggingakerfið í Evrópu.



[19:13]
Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og komið hefur fram hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem við fórum fram á að yrði við umræðuna yfirgefið svæðið og eins og kom fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttir þá ratar hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason til Brussel, það er þekkt. Líka hefur komið fram, ef hann var að segja alla söguna, að hann var ekki að flytja okkar mál eins og við vorum sammála um og í rauninni flestir sem komu að því og fjölluðu um það. Nú gæti einhver sagt: Hví skyldum við gera það? Hér er klifað á því að við séum ekki í Evrópusambandinu og getum ekki haft áhrif. Norðmenn eru að stoppa þetta mál vegna þess að þeir gæta hagsmuna sinna. Þeir vilja að vísu fara í öfuga átt við okkur en þeir hika ekki við að gæta hagsmuna sinna. Ég veit það. Ég var formaður þingmannanefndar EFTA og ég gerði það líka sem ráðherra. Þá gætti maður hagsmuna landsins á þessum vettvangi.

Ég held að það sé góð hugmynd að fara fram á — ég geri það og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála — að við fáum þetta mál á milli umræðna í nefnd. Ég held að það væri vel til fundið að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem er því miður farinn segði hvað honum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fór á milli og á hvað hann lagði áherslu. Ég hefði svo gjarnan viljað fá það í þingtíðindum. Við erum, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á, skólabókardæmi um gallana í þessu kerfi og ættum að geta komið því áleiðis og bent á að það gangi ekki eins og lagt er upp með núna. Það er mjög alvarlegt ef hæstv. ráðherra er ekki að vinna með þeim hætti því að eins og kom margoft fram í umræðunni (Forseti hringir.) er ástæðan fyrir því að við vekjum athygli á þessu og erum að ræða það sú að þetta er svo stórt (Forseti hringir.) mál.



[19:15]Útbýting:

[19:16]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um það frumvarp sem hér er á dagskrá, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, er mjög upplýsandi svo ekki sé meira sagt vegna þess að vandinn í þessu máli er má segja tvíþættur. Annars vegar er vandi þeirra sem tala fyrir þessu máli sá að sú hugmynd og hugmyndafræði sem frumvarpið byggir á um tryggingakerfi fyrir innstæðueigenda og fjárfesta gengur ekki upp. Það hefur verið sýnt fram á það í umræðunni af hálfu hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni að kerfið sem menn ætla sér að byggja upp til að skapa og veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis, eins og mælt er fyrir um í upphafsorðum frumvarpsins, stenst ekki, mun ekki standast. Ég hef óskað eftir því að þeir sem mæltu fyrir þessu máli og hafa lýst stuðningi við það útskýrðu fyrir mér og fyrir þingheimi hvernig í ósköpunum þeir sjá fyrir sér að frumvarpið og sú hugmyndafræði sem það byggir á gangi upp. Ég hef ekki fengið nein svör önnur en þau sem hafa borist frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, varaformanni viðskiptanefndar, og Skúla Helgasyni, þingmanni Samfylkingarinnar, að hér sé verið að stíga ákveðið skref í þá átt að tryggja þessa vernd en þeir hafa ekki getað fullvissað okkur um að frumvarpið nái markmiðum sínum.

Hinn vandinn er svo sá að þeir sem þó taka til máls um þetta mál og reyna að mæla fyrir því og bera í bætifláka fyrir þá tillögusmíð sem við ræðum hér skortir alla sannfæringu fyrir því að með þessu frumvarpi sé verið að stíga skref í rétta átt. Það er auðvitað magnað og merkilegt að fylgjast með því en þeir eru ekki margir sem hafa treyst sér til þess og hafa haft fátt til málanna að leggja. Það er svo sem ekkert skrýtið vegna þess að fylgismenn þessa máls týna hratt tölunni eins og sjá má af nefndaráliti meiri hlutans. Gera má ráð fyrir að a.m.k. tveir af þeim fimm sem mynda meiri hluta viðskiptanefndar séu fallnir frá stuðningi við málið og það hafi gerst um leið og þeir féllu frá stuðningi við ríkisstjórnina. Að minnsta kosti er uppi vafi um það hvort sá stuðningur er enn fyrir hendi.

Það hefur komið til umfjöllunar og verið nefnt í umræðunni um þetta mál að það sé mikilvægt í tengslum við innstæðutryggingarnar að menn dragi lærdóma af því sem fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er ágætt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé nefnd í sömu andrá og frumvarpið vegna þess að stór hluti 5. kafla þeirrar skýrslu fjallar einmitt um innstæðutryggingar og vernd fyrir eigendur innstæðna í fjármálakerfinu. Þar er mjög vönduð yfirferð yfir það regluverk sem finna má í Lagasafni Íslands um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og ekki síður er þar að finna mjög fróðlega útlistun á efni þeirra tilskipana sem um þetta mál fjalla samkvæmt Evrópurétti. Það væri fróðlegt að vita hversu margir af þeim sem mæla þessu frumvarpi bót hafa lesið þá skýrslu og farið yfir þá yfirferð. En það er mikið talað um mikilvægi þess að menn dragi lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir að það er mikilvægt að þingið dragi lærdóma af þeirri skýrslu. En eitt er víst að ráð þeirra sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis voru ekki þau að beita almenningi í landinu blekkingum með sýndarmennsku og bjóða honum upp á falska vernd, að kveða á um það í lögum að eigendur innstæðna, fólk sem á fjármuni í banka sé tryggt og verndað með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar en síðan þegar til kastanna kemur stendur ekki steinn yfir steini.

Mér finnst furðulegt í ljósi allrar þeirrar umfjöllunar sem málið hefur fengið og í ljósi allrar þeirrar vinnu sem þingið og hv. viðskiptanefnd og hv. þingmenn hafa lagt í það að ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna skuli enn þá rembast eins og rjúpan við staurinn við að reyna að keyra málið í gegn þegar fyrir liggur út á hvað það gengur. Það hefur enginn neitað því í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það mun taka þennan sjóð á tíunda áratug, rúmlega 90 ár að safna upp þeim sjóðum sem eiga að tryggja viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna þá vernd sem að er stefnt. Það hefur enginn neitað því, enda liggur fyrir vönduð úttekt frá Talnakönnun þar sem sýnt er fram á þetta og hlutirnir reiknaðir samkvæmt þeim forsendum sem fyrir liggja og fyrir lágu í þessu máli. Þetta er auðvitað til marks um það að frumvarpið nær ekki markmiðum sínum en samt halda menn áfram. Það er algerlega óskiljanlegt hversu mikla áherslu stjórnarflokkarnir leggja á að frumvarp þetta verði að lögum, ekki síst í ljósi þess að frumvarpið byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Það væri eðlilegt ef ríkisstjórn Íslands væri að brenna inni á tíma með innleiðingu þeirrar tilskipunar og ætti yfir höfði sér einhverjar refsiaðgerðir eða aðrar aðgerðir af hálfu Evrópusambandsins ef sú innleiðing ætti sér ekki stað innan einhvers tiltekins tíma. En það er aldeilis ekki svo vegna þess að Evrópusambandið hefur ekkert vald yfir Alþingi Íslands í málinu og þar fyrir utan er Evrópusambandið ekki í neinum færum til að setja á okkur einhvern þrýsting til að klára þetta mál. Ástæðan er sú að tilskipunin sem frumvarpið byggir á hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn og meðan svo er ekki eru Íslendingar ekki í neinni tímapressu til að ljúka þessu máli.

Það væri óskandi að menn litu til þess og reyndu að setjast niður til að finna þverpólitískar lausnir á því með hvaða hætti er best að vernda og tryggja eigur þeirra sem eiga innstæður í bönkum. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess. Ég kannast a.m.k. ekki við það og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Margrét Tryggvadóttir, sem báðar tilheyra öðrum stjórnmálaflokki en ég en þó ekki hinum sama, kannist við mikla viðleitni ríkisstjórnarflokkanna til að reyna að leysa þetta mál með þverpólitískum hætti og þannig að það gangi upp fyrir þann litla markað og það litla hagkerfi og efnahagslíf sem við búum við hér á landi sem er allt annars eðlis en þeirri tilskipun sem hér er verið að innleiða er ætlað að þjóna. Þetta hefur ekki verið gert og það er miður. Ég tel að við hljótum að taka þetta atriði upp milli 2. og 3. umr. þegar málið kemur aftur til meðferðar í hv. viðskiptanefnd.



[19:26]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. En hann kom ekki nægilega vel inn á þetta undarlega svar sem var að berast á þskj. 1232 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.“

Svo stendur áfram:

„Þar sem ríkissjóður lýsti yfir því með almennri yfirlýsingu að hann ábyrgðist allar innstæður í íslenskum bönkum, og þar með talið þessar, var það álitamál hvort sérstaklega skyldi tiltaka ábyrgð á þessum innstæðum ….“

Hér er sagt í svari frá hæstv. fjármálaráðherra: „Þar sem ríkissjóður lýsti því yfir með almennri yfirlýsingu …“ Ríkissjóður sjálfur er búinn að lýsa því yfir og samt stendur í stjórnarskránni að það sé bannað að taka ábyrgð á ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum.

Þetta var yfirlýsing eins ráðherra og ég vil spyrja hv. þingmann sem er lögfræðingur: Hvernig lítur þetta eiginlega út? Hvað er að gerast hérna? Þetta tengist því máli sem við ræðum hérna vegna þess að forsenda þess að menn standa í þessum æfingum er sú að menn trúa því að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi í dag. Hér er verið að framkvæma ríkisábyrgð sem að mínu mati er bara ekki til. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál. Ég vil því spyrja hv. þingmann, auk þeirrar spurningar hvað sé að gerast, hvort ekki væri rétt að ónáða landsdóm sem er nú að störfum og fá hann til að kanna þetta mál.



[19:28]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir hér og talið að ýmsar embættisfærslur ráðherra í núverandi ríkisstjórn réttlæti það að menn velti því fyrir sér hvort þeir sem þar sitja núna, þ.e. í núverandi hæstv. ríkisstjórn, eigi kannski meira erindi fyrir þann dóm en sá maður sem þangað hefur verið leiddur.

Ég hef ekki lesið það svar sem hv. þingmaður las upp en ég hlustaði á hann lesa upp úr svarinu. Hann spurði hvernig mér litist á. Ég verð að segja að mitt svar við þeirri spurningu er: Alveg skelfilega. Ég átta mig ekki á því hvernig hæstv. fjármálaráðherra dettur til hugar að senda slíkan texta frá sér. Það er engin ríkisábyrgð á öllum innstæðum í landinu. Það þarf að tilgreina það sérstaklega í lögum með mjög nákvæmum hætti. Það hefur aldrei verið gert. Ég botna ekkert í því hvað hér er á ferðinni. Ég vona og geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé læs og það sé rétt sem hann hafði eftir upp úr svarinu. En ég bara trúi ekki mínum eigin eyrum, ég verð að segja það, og tek alveg undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta svar virðist vera með algerum ólíkindum og í engu samræmi við gildandi lög í landinu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar á því að enn og aftur er klukkan í ræðupúltinu að stríða okkur, hún gengur ekki rétt en forseti mun gæta að tíma þingmanna.)



[19:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hérna og höfum rætt töluvert lengi gengur út frá þeirri forsendu að það sé ríkisábyrgð á innstæðum eins og þetta svar í rauninni segir, fjármálaráðherra vinnur eins og það sé ríkisábyrgð á innstæðum, og þess vegna þurfi að minnka ábyrgðina með því að samþykkja þetta nýja innlánatryggingarkerfi. Ég tel að það sé engin ríkisábyrgð á innstæðum og ég hef fært fyrir því rök að það samræmist ekki stjórnarskránni að það sé ríkisábyrgð á innstæðum því að hana þarf að tilgreina í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það verður þá bara strax í kvöld að koma með fjáraukalög um að ríkissjóður ábyrgist 1.200 milljarða eða 1.500 milljarða eins og innstæður eru í landinu. Ég vil því enn og aftur spyrja hv. þingmann: Hvernig á maður að túlka svona svar lögfræðilega frá hæstv. fjármálaráðherra ríkisins?



[19:31]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari best á því að hæstv. fjármálaráðherra túlki sitt eigið svar sjálfur vegna þess að ég botna ekkert í því hvernig hæstv fjármálaráðherra dettur til hugar að segja það sem segir í þessu svari, með leyfi forseta:

„Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.“

Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ég hef staðið í þeirri trú að það væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Það er auðvitað í gildi yfirlýsing frá ráðherrum um að innstæður séu tryggðar en það er ekki ríkisábyrgð í þeim skilningi sem við leggjum í þá ábyrgð. Hana þarf að veita með lögformlegum hætti með lagasetningu þar sem ríkisábyrgðin er tilgreind sérstaklega, fjárhæðin o.s.frv.

Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég á mjög erfitt með að útskýra hvað er hér á ferðinni. Ég leyfi mér að halda því fram að á þessu verði ekki byggt vegna þess að hér virðast vera á ferðinni ekki tilburðir til að segja sannleikann, heldur einhvers konar embættisafglöp af hálfu hæstv. ráðherra sem ekki er hægt að taka mark á að mínu mati.