139. löggjafarþing — 105. fundur
 7. apríl 2011.
skuldsetning þjóðarbúsins.

[10:40]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við áttum þess kost í fjárlaganefnd Alþingis í gær að fá hæstv. fjármálaráðherra til viðræðu um nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar og áhrif hennar á fjárlög. Eftir þá umræðu er mér ofarlega í huga að það sé út af fyrir sig ágætt að fá hagspá sem gerir ráð fyrir vexti landsframleiðslunnar og ef við látum hjá líða að minnast á hversu ábyggileg þessi spá er verðum við að hafa í huga að við greiðum ekki af erlendum skuldum þjóðarbúsins með vergri landsframleiðslu.

Þegar það er haft í huga og sú staðreynd að íslenskt þjóðarbú skuldar um 4.300 milljarða má ætla að vaxtagreiðslur af þessari fjárhæð séu um 170 milljarðar á ári í erlendum gjaldeyri. Þá skulum við líka hafa hugfast að afgangur á viðskiptum við útlönd hefur á síðustu árum aldrei verið meiri en á síðasta ári og þá nam hann 160 milljörðum kr. Með öðrum orðum vantar okkur 10 milljarða til að eiga fyrir vöxtum af erlendum skuldum þjóðarinnar. Þetta er alvarleg staða því að þá eigum við eftir að ætla fyrir afborgunum og enn fremur útgjöldum í gjaldeyri ef eitthvað fer að rofa til sem allir eru að bíða eftir.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. fjármálaráðherra um álit hans og mat á því hversu mikið þol þjóðarbúsins sé gagnvart erlendum skuldum miðað við eðlilegan aðgang að viðskiptum við útlönd. Hversu mikla skuldsetningu telur hæstv. ráðherra þjóðarbúið þola?



[10:42]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er augljóst mál að þjóðarbúið réð ekki við þær erlendu skuldir sem á því hvíldu á árunum fyrir hrunið, enda fór það eins og það fór. Það jákvæða í stöðunni er að samkvæmt þeim bestu gögnum sem við höfum stefnir í að eftir að slitameðferð gömlu bankanna lýkur standi íslenska þjóðarbúið að þessu leyti til, hvað varðar erlenda skuldastöðu, miklu betur en árin fyrir hrun. Það þarf sennilega að fara yfir 20 ár aftur í tímann til að sjá erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins sem verður þá lægra hlutfall af áætlaðri landsframleiðslu gangi þessar forsendur eftir og séu þær réttar.

Það er líka jákvætt að það var mjög myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum upp á yfir 10% í fyrra og áfram spáð a.m.k. svipuðum afgangi á vöruviðskiptum næstu tvö árin sem að sjálfsögðu leggst með okkur í þessum efnum. Nettóskuldastaðan bæði hjá ríkinu sem slíku og þjóðarbúinu að lokinni slitameðferð gömlu bankanna verður þar af leiðandi að mínu mati mjög viðráðanleg, líka erlenda skuldastaðan. Það er engu að síður ljóst að við erum og verðum næstu árin verulega háð því hvaða vaxtakjör við fáum á erlendum skuldum, til að mynda þegar þær er framlengdar eða endurnýjaðar þannig að erlendar skuldir orkufyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins eru háðar vaxtaþróun á alþjóðamörkuðum og þeim kjörum sem Íslandi munu bjóðast. Ein af stærstu og mikilvægustu breytunum fyrir okkur á leiðinni út úr erfiðleikunum á komandi missirum og árum er að reyna að fá sem allra best lánskjör, að staða landsins bjóði upp á að sem minnst áhættuálag sé sett á lánin okkar þegar við tökum þau, framlengjum þau eða þjónustum erlendis. Ég geri ekki lítið úr því að sú breyta (Forseti hringir.) er mikilvæg en tölurnar eins og þær líta út og spáin eins og hún er er ekki stærsta áhyggjuefni Íslands hvað varðar það að við ráðum almennt við okkar mál.



[10:44]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Frú forseti. Sú tala sem ég nefni um skuldsetningu í erlendu fé, 4.300 milljarðar, er eftir upplýsingum frá Seðlabanka og Hagstofu og þar er tekið tillit til skulda og búið að færa þær út sem stafa af þrotabúum gömlu bankanna. Það er ekki um það að ræða að þetta sé eitthvað sem liggur fyrir. Þetta birtist okkur ágætlega um þessar mundir, ekki síst í vandræðum Orkuveitu Reykjavíkur sem þarf að fá fjármögnun frá Seðlabankanum til að standa við sitt. Við fáum síðan fréttir af erfiðleikum Hafnarfjarðarbæjar af gjalddaga láns upp á 4,3 milljarða í dag. Þarna birtast erfiðleikar okkar í þessu efni í hnotskurn. Okkur skortir gjaldeyri til að ráða við þessar skuldbindingar.

Forsendan fyrir því að þetta geti gengið eftir er sú að hér verði einhver vöxtur og verðmætasköpun. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvað hann telji (Forseti hringir.) þjóðarbúið þola mikla greiðslubyrði af erlendum skuldum án þess að það komi fram í þrýstingi á krónunni.



[10:45]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það þarf auðvitað ekki að benda hv. þingmanni á það að þegar þessar tölur eru núna skoðaðar erum við að umreikna þær yfir í íslenskar krónur á 20–30% lægra gengi krónunnar en hér hefur verið að meðaltali síðustu 20 árin. Það er rétt að hafa í huga þegar þetta er skoðað.

Hið lága raungengi þýðir á hinn bóginn að útflutningsstarfsemin býr við sterk samkeppnisskilyrði og horfur þar eru góðar þannig að það kemur þá á móti þegar menn reikna háar skuldatölur á núverandi lágu raungengi.

Ég er að sjálfsögðu hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það sem skiptir okkur mestu er að hagkerfið taki við sér og að hér verði vöxtur en það er sérstaklega mikilvægt að sá vöxtur verði í útflutningsdrifinni starfsemi, þ.e. að útflutnings- og samkeppnisgreinar búi við góð skilyrði og verði hér sterkar á komandi árum því að það hjálpar okkur mest í að fóstra og þjónusta okkar erlendu skuldir. Þær voru hins vegar staðreynd. (Forseti hringir.) Hin mikla skuldsetning fjölmargra máttarstoða samfélagsins í efnahagslífinu hjá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og fleirum er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við, og ekki nýtilkomin staðreynd.