139. löggjafarþing — 108. fundur
 11. apríl 2011.
framhald ESB-umsóknarferlis.

[15:23]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður í þinginu að hæstv. utanríkisráðherra sé langbest til þess fallinn að túlka stefnu Framsóknarflokksins og hann slær ekkert af í dag frekar en fyrri daginn.

Hann kom upp í andsvar áðan og sagði að stækkunarstjórinn og annar ónafngreindur embættismaður hjá ESB teldu að atkvæðagreiðslan um helgina hefði ekki áhrif á ESB-umsóknina. En í Daily Telegraph segir í dag að bæði Bretar og Hollendingar muni að öllum líkindum koma í veg fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og að einn ráðgjafi forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni telji að enginn möguleiki sé á því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu eftir að þjóðin hafnaði eftirminnilega Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni — og óska ég öllum til hamingju með það, skynsemi þjóðarinnar.

Framsóknarmenn samþykktu um helgina að hag Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. (Gripið fram í.)

Í kjölfarið á þessu langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða framhald hann sjái raunverulega fyrir sér í aðlögunarferlinu að ESB. Telur ráðherrann ekki glórulaust að halda ferlinu áfram? Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að þessu: Eru ekki mjög miklar líkur orðnar á því að Evrópusambandið slíti sjálft þessum viðræðum?



[15:25]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hv. þingmanni og Framsóknarflokknum til hamingju með glæsilegt flokksþing um helgina og glæsilegt endurkjör forustu flokksins. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum var það annað sem gladdi mig meira. Það gladdi mig ósegjanlega varðandi Evrópumálið að Framsóknarflokkurinn hafnaði því alveg skýrt og skorinort að draga ætti umsóknina til baka. (Gripið fram í.) Sömuleiðis kemur það alveg skýrt fram í ályktun (Gripið fram í.) Framsóknarflokksins, án þess að ég sé endilega besti sérfræðingurinn til að túlka þann ágæta flokk, (Gripið fram í.) að það komi ekki til mála að ganga í Evrópusambandið nema þjóðin fái að greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er alveg hjartanlega sammála Framsóknarflokknum um þetta (Gripið fram í.) eins og reyndar svo margt annað. Ég tel líka að með því að taka þann pól í hæðina hafi flokkurinn hjálpað formanni sínum til að komast undan því sjálfskipaða hlutverki sem hann lýsti í setningarræðu sinni, að flokkurinn hefði til þessa verið pólitískt uppfyllingarefni. Ég vona að það breytist eftir þetta þing þó að auðvitað sé dálítið skrýtið að átta sig á stefnunni. Hver er hún í Evrópusambandinu? Jú, hún er þessi: Það á ekki að samþykkja tillögu um að halda áfram með umsóknina en það á ekki að draga hana til baka. Hins vegar er eitt skýrt: Það á að láta þjóðina ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er bara sammála því. (Gripið fram í.)

Ég held frekar að þetta hjálpi til varðandi aðildarumsóknina. Hins vegar þarf hv. þingmaður ekki að vera hrædd um neitt. Hún er á móti aðild og hún er búin að segja hér í ræðustól að það sé alveg ljóst að umsóknin verði aldrei samþykkt. Gott og vel, látum það koma fram með sama hætti og vilja fólksins varðandi Icesave-samninginn, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það er ég sammála hinum gamla, gróna Framsóknarflokki sem er loksins horfinn aftur til upphafs síns og er opinn í báða enda. (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.]



[15:27]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra heldur áfram að túlka stefnu Framsóknarflokksins og vil ég jafnframt segja honum að því var hafnað með afgerandi meiri hluta að halda þessum viðræðum áfram. Það þarf að segja allan sannleikann í þessu máli eins og öllum öðrum.

Úr því að hæstv. utanríkisráðherra er mjög áfram um að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu liggur nú tillaga fyrir þinginu frá þeirri sem hér talar um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram ekki síðar en 1. september um það hvort ferlinu skuli haldið áfram eða ekki. Miðað við niðurstöðu Icesave-kosninganna sé ég að það er alveg tímabært að við göngum út úr þessu ferli og leyfum þjóðinni að ráða hvort haldið verður áfram á þeirri ógæfubraut.

Ráðherrann svaraði ekki seinustu spurningunni sem ég bar upp fyrir hann. Hún hljóðaði svo: Hverja telur hæstv. utanríkisráðherra vera hættu á því að ESB hætti sjálft viðræðunum við Ísland og gangi út úr (Forseti hringir.) því gerviumsóknarferli sem við erum í?



[15:29]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get glatt Framsóknarflokkinn með því að ég tel engar líkur á því. En ég er til í að gera samning við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur: Af hverju notum við ekki nákvæmlega sömu aðferð við Evrópusambandsumsóknina og Icesave? Varðandi Icesave var ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ætti að semja (Gripið fram í.) heldur var þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn eins og hann lá fyrir. Við skulum gera það sama varðandi Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Við skulum ljúka samningunum og leyfa íslensku þjóðinni að notfæra (Gripið fram í.) sér það sem hv. þingmenn sem hér kalla fram í hafa kallað „helgan rétt“ hennar til að taka sjálf ákvörðun um það. Leyfum þjóðinni að velja.

Ég mun sætta mig við þá niðurstöðu. Ef hún tapast mun ég bíta í skjaldarrendur og gráta svolítið en vakna upp reiður eins og einherjar í Valhöll daginn eftir. En ég held ekki að ég muni ganga í gegnum þá lífsreynslu. (Forseti hringir.) Ég held að þjóðin muni taka hinn skynsamlegri kost og velja Evrópusambandið. (Gripið fram í.)