139. löggjafarþing — 109. fundur
 11. apríl 2011.
þjónusta dýralækna.
fsp. SER, 552. mál. — Þskj. 939.

[16:59]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur og hæstv. landbúnaðarráðherra verða seint sammála um ágæti Evrópusambandsins. Reyndar telur sá sem hér stendur að mikil sóknarfæri séu fyrir landbúnaðinn að fara einmitt inn í Evrópusambandið en það er önnur saga.

Mig langar að koma, frú forseti, inn á málefni héraðsdýralækna sem eru að breytast en störf héraðsdýralækna verða lögð niður frá og með 1. nóvember 2011 og skulu þeir hér eftir eingöngu sinna opinberu eftirliti en ekki læknisþjónustu eins og þeir hafa gert til þessa. Töluverð fækkun verður í þeirra ranni fyrir vikið, þeim fækkar úr 15 í sex. Landinu verður skipt í sex svæði og einn héraðsdýralæknir verður á Suðvesturlandi, Vesturlandi, Norðvesturlandi, Norðausturlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Þetta eru sex svæði og hvert þeirra er eðli málsins samkvæmt mjög stórt. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á þjónustu héraðsdýralækna sem hafa verið mjög mikilvægir heima í héraði um langt árabil.

Menn hafa miklar áhyggjur af þessari breytingu og bændur víða um land telja að þetta geti haft minni þjónustu í för með sér. Hér er vitaskuld um mjög mikilvæga þjónustu að ræða og varðar bæði rétt bænda en ekki síður rétt dýranna, ef svo má að orði komast, að þeirra sé gætt með prýði og af fagmennsku og enginn afsláttur sé gefinn af þeirri þjónustu.

Ótti manna er m.a. sá að rekstrargrundvöllur sjálfstæðra dýralækna minnki eða jafnvel að fótunum verði kippt undan þeim víða um land, ekki síst í mjög víðfeðmum og fámennum byggðasvæðum. Eins muni e.t.v. fara svo að bændur muni í auknum mæli reyna að sinna þessu sjálfir ef svo fer að kostnaður við þjónustu dýralækna aukist mjög.

Hér eru því blikur á lofti og mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Að hve miklu leyti mun opinber þjónusta dýralækna úti á landi skerðast þegar störf héraðsdýralækna hjá Matvælastofnun verða lögð niður, samanber boðaðar breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002?

Spurningar mínar eru fleiri svo sem:

2. Verða gerðar undanþágur á því að héraðsdýralæknir megi ekki sinna lækningum með fram opinberum eftirlitsstörfum?

3. Verða gerðar aðrar undanþágur vegna aðstæðna héraðsdýralækna á Íslandi svo sem gert hefur verið með innleiðingu annarra reglugerða frá Evrópusambandinu?

Þetta eru spurningar (Forseti hringir.) sem brenna mjög á bændum víða um land.



[17:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að dýralæknaþjónustan vítt og breitt um landið skiptir miklu máli og mikilvægt að grunnþættir hennar og grunnstarfsemi sé tryggð um allt land eins og hv. þingmaður rakti.

Fyrst ber þess að geta að frá og með 1. nóvember 2011 þegar þessar breytingar taka gildi með nýsettum matvælalögum munu starfa sex héraðsdýralæknar við jafnmargar umdæmisskrifstofur Matvælastofnunar, samanber fyrrgreind lög frá 1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Héraðsdýralæknar munu eingöngu sinna opinberum eftirlitsverkefnum. Ekkert liggur fyrir um að almenn dýralæknaþjónusta úti á landi muni skerðast við þessa breytingu.

Varðandi hvort gerðar verði undanþágur fyrir héraðsdýralækna þá er ráðherra heimilt, samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 66/1998, með síðari breytingum, að fela héraðsdýralækni ótímabundið að sinna almennri dýralæknaþjónustu á tilteknu svæði. Þessi heimild ráðherra fellur úr gildi 1. janúar 2015. Skilyrði fyrir slíkri tímabundinni ráðstöfun er að heilbrigði eða velferð dýra sé stefnt í hættu þar sem enginn dýralæknir fáist til að sinna almennri dýralæknaþjónustu á viðkomandi svæði. Þessari heimild verði því ekki beitt nema í ljós komi að skortur sé á almennri dýralæknaþjónustu og að önnur úrræði dugi ekki til að finna lausn á málum.

Þess ber einnig að geta að ólíklegt þykir að beita þurfi slíkri undanþágu í þeim umdæmum sem nú þegar eru hrein opinber eftirlitsumdæmi, þ.e. í Suðurlandsumdæmi sem verður Suðurumdæmi, Gullbringu- og Kjósarsýslum sem verður Suðvesturumdæmi og Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi sem verður Norðausturumdæmi. Það má í raun segja um hin þrjú nýju umdæmi sem verða Vesturumdæmi, Norðvesturumdæmi og Austurumdæmi að enn liggi ekki fyrir hverjir núverandi héraðsdýralæknar kjósi að starfa á þessum stöðum eða snúa sér að almennri dýralæknaþjónustu. Sú undanþáguheimild sem hér um ræðir á aðeins við um störf þeirra sex héraðsdýralækna sem starfa munu við umdæmisskrifstofurnar. Hafa ber í huga að samkvæmt skipan mála skulu þeir eingöngu sinna opinberum eftirlitsstörfum. Einnig er vandséð að þeir hafi tíma og möguleika á að sinna öðrum starfsskyldum en þeim sem fylgja starfi héraðsdýralæknis. Þeir munu ekki hafa yfir að ráða lyfjalager og heldur ekki þeim búnaði og tækjum sem þarf til að sinna almennri dýralæknaþjónustu. Því er farsælasta lausnin fólgin að finna aðrar leiðir til að tryggja dýralæknaþjónustu í hinum dreifðari byggðum.

Varðandi undanþágur bendir ekkert til að ástæða sé til að gera aðrar undanþágur vegna starfa héraðsdýralækna eftir 1. nóvember 2011. Hafa ber í huga að meginástæða þeirrar breytingar sem nú er að taka gildi er að opinberir eftirlitsaðilar skulu vera óháðir þeim sem eftirlit er haft með. Því er gerð sú krafa með lögum að héraðsdýralæknar sinni eingöngu opinberum eftirlitsstörfum. Eftirlitsdýralæknar sem starfa undir stjórn héraðsdýralæknis muni hins vegar hafa möguleika á að sinna almennri dýralæknaþjónustu og einnig eiga dýralæknar sem starfa við almenna dýralæknaþjónustu að geta sinnt tilteknum opinberum eftirlitsskyldum svo sem eftirliti í sláturhúsi. Matvælastofnun hefur þegar gert áætlun um hvernig verður staðið að þessum málum.

Síðan er það spurningin um hvaða hlutverk landshlutasamtök munu hafa við greiningu og ráðgjöf á breyttri dýralæknaráðgjöf úti á landi. Þá er rétt að taka fram að dýralæknar munu ekki sinna dýralæknaráðgjöf úti um land nema að því marki sem tengist almennri dýralæknisþjónustu á þeirra vegum.

Eins og fram kemur í 13. gr. laga nr. 66/1998 skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun við ákvarðanatöku um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir almenna dýralæknaþjónustu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vinnur nú að tillögum um hvernig tryggja megi dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum í samræmi við 39. gr. laga nr. 143/2009. Verkefnið felst í því að skilgreina hvar þörf er á opinberri aðstoð, hver hún skuli vera og hvernig staðið verði að því að velja dýralækna sem hennar munu njóta. Í athugasemdum með frumvarpinu er einmitt vakin athygli á endurskoðunarákvæðum frá viðauka EES-samningsins um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins.

Varðandi síðustu spurninguna, hvernig fámennum en víðfeðmum landsvæðum verður bætt upp skerðing á opinberri dýralæknaþjónustu eftir breytingarnar, þá hefur enn ekkert komið fram um að breyting á skipan umdæma og störfum héraðsdýralækna muni leiða til skerðingar á almennri dýralæknisþjónustu. Mikilvægt er samt að sem fyrst fáist niðurstaða um hvernig þessu skipulagi verði háttað og (Forseti hringir.) mun ég koma aðeins betur að því í seinni ræðu, frú forseti.



[17:08]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með þeirri matvælalöggjöf sem nú er í gildi var gert ráð fyrir því að reyna að skilja á milli hinnar almennu dýralæknaþjónustu og eftirlitsins. Það er í sjálfu sér ekki óskynsamlegt prinsipp, ef við getum orðað það svo, en þá verður hins vegar að taka tillit til séraðstæðna hér á landi, fámennisins og dreifbýlisins. Það var gert frá upphafi og m.a. gert ráð fyrir því sem nú er búið að leiða í lög að eftirlitsdýralæknarnir fengju leyfi til að sinna almennri dýralæknaþjónustu vegna þeirra séraðstæðna sem við búum við.

Einnig var gert ráð fyrir því að hafa tiltekinn aðlögunartíma sem snerti sérstaklega málefni héraðsdýralæknanna. Hann var settur inn í frumvarpið strax í upphafi og í meðferð málsins á þingi var ákveðið að lengja frekar í þessum aðlögunarfresti. Hins vegar virðist þetta vera túlkað af framkvæmdarvaldinu með öðrum hætti en vakti fyrir okkur sem sömdum frumvarpið á sínum tíma, það þarf örugglega að hyggja að því. Ég legg áherslu á að þessar breytingar sem verið er að gera mega ekki leiða til verri þjónustu dýralækna í hinum dreifðu byggðum (Forseti hringir.) og það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra.



[17:09]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það vantar upp á að framkvæmdarvaldið fullnusti þessa breytingu sem sannarlega kom til vegna þess að við erum að innleiða Evrópusambandstilskipun. Oft á tíðum er erfitt að aðlaga Ísland sem er allt öðruvísi en Evrópa að því kerfi sem þar hefur verið sett upp. Það sem vantar er að framkvæmdarvaldið taki upp það sem við lögðum til í nefndinni um að í reglugerð ætti að koma fram hvernig starfsaðstæður væru vítt og breitt um landið og menn gætu þá valið hvort dýralæknir ætti að setjast að á tilteknu svæði til að þjónusta dýraeigendur. Það hlýtur að vera sameiginleg ábyrgð okkar allra, eins og hæstv. ráðherra lýsti yfir, að menn geti búið vítt og breitt um landið og haft dýr og fengið þá lágmarksþjónustu sem við hljótum öll að kalla eftir.

Framkvæmdarvaldinu ber því að setja þessa reglugerð sem fyrst. (Forseti hringir.) Þá skapast þær aðstæður sem verða í boði og þá kemur í ljós hvort þessi þjónusta verður í boði vítt og breitt um landið eða hvort grípa þurfi til einhverja séraðgerða.



[17:11]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hér hefur skapast um störf héraðsdýralækna hringinn í kringum landið en eins og fram kom mun starf þeirra breytast frá og með 1. nóvember 2011. Mikilvægt er í þessu tilviki að þjónusta dýralækna í landinu skerðist ekki. Þetta er, eins og kom fram í fyrra máli mínu, mjög viðkvæm og mikilvæg þjónusta í héraði og því er ég ánægður að heyra þá bjartsýni sem ríkir í máli hæstv. landbúnaðarráðherra en að hans sögn mun breytingin ekki hafa þau áhrif að þjónustan skerðist og við skulum vona að svo verði ekki.

Umræðan vekur upp mynd af annarri þjónustu sem tengist matvælaframleiðslu úti á landi og reyndar á landinu öllu, það er matvælaeftirlit, heilbrigðiseftirlit og reyndar fleira eftirlit af því tagi sem hefur að mörgu leyti verið mjög miðstýrt. Sérfræðingar að sunnan koma eiginlega út í héruðin til að sinna þessum verkum. Mig langar, frú forseti, að athuga hug hæstv. ráðherra til flutnings þessara verkefna heim í héruð vegna þess að þar eiga þau heima að mati þess sem hér stendur. Búa á til sambærileg svæði og við erum að búa til núna í sambandi við héraðsdýralæknana og treysta heimafólki til eftirlitsstarfanna. Þau eiga ekki að vera langsótt, ef svo má segja, fengin alla leið úr Reykjavík frá stórum stofnunum heldur eiga að vera síkvik heima í héraði. Þess vegna er áríðandi að vita skoðun hæstv. ráðherra á því hvar þessi þjónusta eigi heima til hliðar við eftirlitshlutverk héraðsdýralækna.



[17:13]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst þetta vera bæði góð og þörf umræða. Við eigum að átta okkur á því að við erum í fámennu og mjög dreifbýlu landi, matvælaframleiðslulandi, og við viljum tryggja að ákveðin grunnþjónusta sé í boði um allt land, ekki aðeins til að tryggja velferð dýra, framleiðslu og afurðir gripanna heldur einnig holla og góða matvælaframleiðslu. Við þurfum einmitt að taka mið af því.

Við þurfum náttúrlega líka að horfa til þess að eftirlitið kostar peninga þannig að vega verður þessa þætti saman. Ég deili þeim áhyggjum hv. þingmanna sem hér hafa talað en líka hvatningu þeirra um að það skýrist sem fyrst hvernig skipulaginu verði komið á út frá þeim grunnhagsmunum sem hér hafa verið raktir. Ég tel að það skipti t.d. máli hvernig og hvar við staðsetjum héraðsdýralæknisembættin í heildarmyndinni og einnig hvernig eftirlitsdýralæknaþjónustunni er hagað og tryggður verði sá grunnur sem hér hefur verið rætt um.

Varðandi sjónarmið hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um flutning verkefna á þessu sviði eða við skulum orða það sem svo að uppbygging verkefnanna sé sem næst vettvangi, matvælaframleiðslunni, dýrunum og búrekstrinum o.s.frv., þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Eftirlitsstörfin felast ekki bara í því að koma og vera með eftirlitshnefann á lofti heldur eru þau líka leiðbeining og ráðgjöf og eiga að vera hluti af því samfélagi sem á allt sitt undir þessu. (Forseti hringir.) Þess vegna hljótum við eins og við mögulega getum að tengja þetta sem best saman. Ég deili því þessum sjónarmiðum með hv. þingmanni, frú forseti.