139. löggjafarþing — 109. fundur
 11. apríl 2011.
framkvæmd heilsustefnu, íþróttamót í framhaldsskólum o.fl..
fsp. GÞÞ, 601. mál. — Þskj. 1020.

[18:33]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta spurningin sem ég kem fram með að sinni. Við erum búin að fara í gegnum markhópana; leikskólabörn, grunnskólabörn og það fólk sem er í framhaldsskólum. Fyrirspurnir mínar í lokin tengjast framhaldsskólum en líka markhópunum sem eru fullorðnir. Það er afskaplega mikilvægur markhópur þó svo að það sé mjög eðlilegt að við leggjum mesta áherslu á ungmenni. Ég ætla aðeins að renna yfir fyrirspurnirnar, virðulegi forseti:

Hvernig hefur gengið að ná fram eftirtöldum markmiðum sem sett eru fram í heilsustefnu ráðuneytisins frá 2008:

a. að koma á fót íþróttamótum í framhaldsskólum í samvinnu við félög framhaldsskólanema, menntamálaráðuneyti og Íþróttasamband Íslands þannig að 100% þátttaka verði meðal framhaldsskóla í lok árs 2009,

b. að í lok árs 2010 hafi þeim fækkað sem nota vímuefni og reykja,

c. að 50 opinberar stofnanir hafi gert áætlun um öryggi og heilbrigði í lok árs 2009 þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan starfsmanna,

d. að allar stofnanir heilbrigðisráðuneytis hafi mótað sér heilsustefnu fyrir árslok 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010,

e. að í lok árs 2009 hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið í öllum landshlutum til að fylgja eftir ráðleggingum um heilsueflingu á vinnustöðum,

f. að í lok árs hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa í öllum landshlutum?

Hér er farið inn á mál fullorðinna og þar ættum við að líta okkur nær. Ábyrgðaraðilar í þessum málum á vinnustöðum eru Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið en heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð bera ábyrgð á stofnunum heilbrigðisráðuneytisins í þessu sambandi, hvort þær hafi mótað sér heilsustefnu fyrir árslok 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010. Það eru hæg heimatökin hjá ráðuneyti heilbrigðismála, nú velferðarmála, að ganga á undan með góðu fordæmi og sjá til þess að þessi markmið séu höfð í heiðri á vinnustöðum. Í rauninni er það eitthvað sem við ættum að gera á Alþingi ef við meinum eitthvað með því þegar við segjumst vilja sjá til þess að fólk stundi heilsusamlegri lifnað.

Í öllum fyrirspurnunum er rauði þráðurinn ekki að vera með boð og bönn heldur er þetta að stærstum hluta hvatning og leiðbeiningar. Hvatningin felst ekki síst í því að þetta er mælt þannig að þeir aðilar sem taka þátt sjá að það skilar sér með einhverjum hætti. Það er hugmyndafræðin í heilsustefnunni. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir svörum hæstv. ráðherra.



[18:36]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er fimmta og síðasta fyrirspurnin um framkvæmd heilsustefnu og eflingu forvarna frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Þar kallar hann eftir upplýsingum um hvernig fylgt hafi verið eftir framkvæmdahluta stefnunnar frá 2008. Þar er í fyrsta lagi a-hlutinn, hvort menn hafi komið á fót íþróttamótum í framhaldsskólum í samvinnu við félög framhaldsskólanema, menntamálaráðuneytisins og ÍSÍ þar sem stefnt var að 100% þátttöku meðal framhaldsskóla í lok árs 2009. Svarið er að menntamálaráðuneytið hefur haft umsjón með íþróttavakningu framhaldsskólanna sem haldið hefur verið tvisvar og verður fram haldið á næsta skólaári en féll niður í vetur. Verkefnið er unnið í tengslum við HOFF-verkefnið sem við minntumst á áðan. Haldin hafa verið íþróttamót og ýmislegt gert til að hvetja til hreyfingar. Yfir 10 þúsund nemendur hafa tekið þátt í þessum verkefnum. Vitað er að margir skólar halda slíka íþróttadaga eða opna daga þar sem menn hafa jafnvel tækifæri til að leika sér saman fremur en að það séu bein íþróttamót. Þar er almenn hreyfing sem skiptir jafnmiklu máli skipulögð hreyfing.

Varðandi b-lið, að í lok árs 2010 hafi þeim fækkað sem nota vímuefni og reykja, er svarið er að þeim hefur fækkað mikið sem reykja, miðað við árslok 2010 en ekki eru til tölur fyrir árið 2009. Tóbakslausir framhaldsskólar eru verkefni sem unnið hefur verið að frá árinu 2007. Ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um tóbakslausa framhaldsskóla hafa verið afhentar og kynntar skólameisturum og forvarnafulltrúum í öllum framhaldsskólum landsins. Kannanir Lýðheilsustöðvar á tóbaksvörnum í skólum benda til að nú þegar noti um helmingur skólanna þessar leiðbeiningar. Þá voru tóbaksvarnir einnig tengdar verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóla þar sem reynt er að nálgast forvarnir á heildstæðan hátt með áherslu á næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

C-liður spurningarinnar var að 50 opinberar stofnanir hafi gert áætlanir um öryggi og heilbrigði í lok árs 2009 þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan starfsmanna. Svarið er að því markmiði hefur ekki verið fylgt eftir en árið 2008 kom út bæklingurinn Ráðlegging um heilsueflingu á vinnustöðum sem var samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Vinnueftirlitsins og hluti af verkefninu Heil og sæl í vinnunni. Eins og kom fram áður hefur því verkefni nú verið hætt.

Lýðheilsustöð er einn af samstarfsaðilum ÍSÍ um Hjólað í vinnuna, eins og áður var bent á. Verkefnið hvetur starfsfólk og vinnustaði ekki aðeins til að nota virkan ferðamáta heldur einnig til að huga almennt að heilsueflingu á vinnustöðum. Velferðarráðuneytið einnig aðili að Lífshlaupinu, sem er afar vel heppnuð áminning um að stunda hreyfingu a.m.k. hálftíma á dag og hefur tekist afar vel.

D-liðurinn var að allar stofnanir heilbrigðisráðuneytisins hafi mótað sér heilsustefnu til ársloka 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010. Svarið við því er að ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um þann þátt og verkefninu hefur ekki verið fylgt eftir af ráðuneytinu, en það er ágæt áminning um að það verði gert nú þegar við erum komin á einn stað með nýtt velferðarráðuneyti. Það hefur verið rætt að við verðum að setja upp áætlun um hvernig við getum búið að starfsfólki þannig að það geti stundað heilsurækt.

Varðandi e-lið, að í lok árs 2009 hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið í öllum landshlutum til að fylgja eftir ráðleggingum um heilsueftirlit á vinnustöðum, vísa ég til svarsins við c-lið. Þeim þætti hefur ekki verið fylgt eftir og verkefninu hætt.

Varðandi f-lið, að í lok árs hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlit boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa í öllum landshlutum, er svarið það að sérfræðingar Lýðheilsustöðvar hafa verið með fræðsluerindi fyrir atvinnulausa hjá Rauðakrosshúsinu. Vinnueftirlitið vinnur fyrst og fremst að heilsueflingu og öryggi á vinnustöðum. Þá verður að nefna að Vinnumálastofnun er að sjálfsögðu mjög virk í námskeiðahaldi fyrir atvinnulausa og sérstakt átak hefur verið í gangi til að virkja ungt, atvinnulaust fólk til þátttöku með verkefninu Ungt fólk til athafna. Auðvitað væri hægt að beina því í auknum mæli í hreyfingu.

Það er rétt sem komið hefur fram, auðvitað skiptir mestu máli að frumkvæði ríkisvaldsins sé hvatning og skýr skilaboð. Auðvitað verða lög og reglur að styðja við eftir því sem við á, það getur varðað t.d. tóbak, áfengi, fíkniefni og annað slíkt. En fyrst og fremst á þetta auðvitað að vera hvatning og það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þar geta mælingar að einhverju leyti stutt við og skipt máli þótt við megum aldrei falla í þá gryfju að þær séu aðalatriðið. Það er fyrst og fremst hið daglega starf sem skiptir máli.



[18:41]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ekki bara fyrir þessi svör heldur öll svörin. Eins og ég nefndi er það ekkert leyndarmál að ég er að þessu til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða og sömuleiðis til að vekja athygli á verkefninu. Þetta er eilífðarmál sem ég mundi telja að væri breið pólitísk samstaða um og það er slæmt að niðurstaðan skuli vera sú eftir að farið hefur verið í gegnum þetta að eftirmenn mínir, hæstv. ráðherrar, hafa ekki fylgt þessu málum eftir og er það mjög slæmt. Ef það er ekki gert með skipulegum hætti bitnar það sérstaklega á börnum og ungmennum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að snúa vörn í sókn því að mörg þessara markmiða eru ekki fjárfrek. Stefnan var endurskoðuð eftir bankahrun, menn tóku tillit til breyttra aðstæðna, en í þessum málaflokki er hægt að setja fjármuni í mjög margt sem skilar sér. Einmitt þess vegna veldur það vonbrigðum að ekki hafi náðst betri árangur en raun ber vitni. Það þýðir að það þarf að gera betur. Ég er ekki að leita að blórabögglum, ég er hér til að hvetja stjórnvöld til dáða. Sumt er þess eðlis að þar eru mjög hæg heimatökin að aðhafast eitthvað og ég varð fyrir miklum vonbrigðum að ráðuneytið skyldi ekki hafa sett þessi markmið fyrir undirstofnanir sínar. Það væri annars frábært fordæmi.

Aðalatriðið er að vinna skipulega að málum með hvatningu og við verðum að mæla árangurinn vegna þess að ef við gerum það ekki vitum við ekki hvort við náum einhverjum árangri. Við vitum þá ekki hvað við erum gera, hvort það skili árangri. Við getum í því sambandi litið á vímuvarnir. (Forseti hringir.) Þar hafa menn unnið skipulega að samstarfi fræðimanna og grasrótarinnar og það hefur hefur gengið vel.



[18:44]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnirnar og tækifærið til að fara yfir þessi mál. Það er alveg rétt að auðvitað verðum við að halda áfram að vinna að forvörnum og hvetja til þess að hlutirnir gangi eftir. Í raun hefði ég átt að vera frá hádegi og í allan dag fram til þessa tíma í stefnumótun með starfsfólki mínu sem unnið hefur að stefnumótun fyrir ráðuneytið. Þar erum við í fyrsta fasa af þremur þar sem verið er að setja heildarstefnu og markmið og reynt að koma skilvirku skipulagi á ráðuneytið til þess að við getum veitt hvað besta þjónustu.

Það er afar mikilvægt að þótt skilaboðin komi ofan frá og við séum með ákveðinn fókus sem kemur frá ráðuneytinu megum við aldrei taka frumkvæðið frá þeim sem eiga að fylgja stefnunni eftir, það eru fyrst og fremst heimilin, skólarnir, einstakar stofnanir sem bera ábyrgð á því að hlutunum sé fylgt eftir og að þeir séu í lagi. Það getum við gert með hvatningu. Það hentar sumum að gera það með mælingum og hvatningu af því tagi sem var í Lífshlaupinu. Það hentar einhverjum öðrum með öðrum aðferðum og ég tel að við eigum að nota sem allra fjölbreytilegastar aðferðir í þeirri vinnu.

Það skiptir líka máli að ýmislegt annað hefur verið gert til að bæta heilsu en akkúrat með hreyfingu. Hér hafa að vísu verið nefnd tóbak og vímuefni. Búið er að vinna mjög mikið varðandi t.d. fíkn eldri borgara, þ.e. ofnotkun á lyfjum, hvernig læknar ávísa lyfjum, hvernig hægt er að minnka notkun á þunglyndislyfjum, svefnlyfjum o.s.frv. Allt er það hluti af því að bæta heilsu og hlúa betur að fólki. Við reynum að hvetja fólk til að kynna sér aðrar leiðir en lyf eða að treysta á að sjúkrahúsin geti rétt það við ef illa fer. Það skiptir auðvitað miklu máli að reyna að beita fyrirbyggjandi aðgerðum frekar en að reyna fyrst að finna einhver úrræði þegar komið er í óefni.