139. löggjafarþing — 109. fundur
 11. apríl 2011.
bygging nýs Landspítala.
fsp. SF, 631. mál. — Þskj. 1106.

[18:46]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra út í undirbúning byggingar nýs Landspítala og hve mörg störf er áætlað að skapist á byggingartímanum, sundurgreint eftir árum.

Landspítalinn gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar. Þar eru langveikustu sjúklingarnir, þar er boðið upp á sérhæfðustu, viðkvæmustu og flóknustu þjónustuna. Yfir 100 þúsund sjúklingar leggjast inn á spítalann á ári og þar eru framkvæmdar upp undir 15 þúsund skurðaðgerðir árlega. Þetta er líka stærsti vinnustaður landsins. Þarna vinna upp undir 5 þúsund manns í tæplega 4 þúsund stöðugildum. Þrátt fyrir að sjúkrahúsið veiti svona flókna og viðkvæma þjónustu mælist það mjög hátt í trausti, mig langar að draga það fram hér. Gerðar hafa verið skoðanakannanir þar sem 90% svarenda segjast bera mikið traust eða frekar mikið traust til sjúkrahússins og telja að þjónustan sem þar er veitt sé mjög góð. Þessu hafa Björn Zoëga, forstjóri sjúkrahússins, og fleiri haldið á lofti og er ágætt að fólk geri sér grein fyrir því hve þessi stofnun er öflug og mikilvæg.

Um langt skeið hefur verið unnið að því að byggja nýjan Landspítala. Ég ætla ekki að fara fyrir öll rökin sem eru þar að baki en þau eru mörg og mikilvæg og það hefur verið mjög mikil og pólitísk samstaða um að byggja nýjan spítala. Ég vil draga það fram að nokkrir ráðherrar hafa sérstaklega sinnt þessu verkefni. Það eru ráðherrar eins og hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson og sú er hér stendur. Ég vil líka nefna hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, Ögmund Jónasson, Álfheiði Ingadóttur, og núna síðast hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson. Eins og heyrist af þessari upptalningu eru þetta ráðherrar sem koma úr þremur stjórnmálaflokkum, þ.e. Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og VG og sá síðasti núna, hæstv. velferðarráðherra, úr Samfylkingunni. Allir flokkarnir hafa því staðið þétt að baki þessari byggingu með sínum heilbrigðisráðherrum og viljað sjá hana rísa sem fyrst.

Á sínum tíma var staðsetningin endurskoðuð, það var gert þegar hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, var í embætti. Niðurstaðan var sú að byggja ætti á þeim stað sem búið var að ákveða og það sem fyrst.

Lífeyrissjóðir hafa komið að málinu og búið er að endurskoða byggingaráformin og áfangaskipta. Komið hefur í ljós að það verður sparnaður upp á 19 milljarða á núvirði til næstu 40 ára ef farið verður af stað með þessa byggingu og það þýðir að í 1. áfanga sparast 6% af rekstri spítalans eða 2 milljarðar á ári. Hér er um mikilvæga framkvæmd að ræða og því vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staða þessa máls? (Forseti hringir.) Er ekki alveg öruggt að við munum sjá framkvæmdir fara af stað í haust?



[18:50]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spyr hér hver sé staða undirbúnings að byggingu nýs Landspítala. Eins og fram kom í fyrirspurninni hefur verið þverpólitísk samstaða um þessa byggingu og þó að ýmsar athugasemdir hafi komið fram og umræður eins og um staðsetningu og hagkvæmni og um hvort þetta borgi sig o.s.frv. hefur þetta alltaf lifað sem verkefni.

Í svarinu vil ég leiða hugann að því að í nóvembermánuði 2009 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing lífeyrissjóða og ríkisstjórnarinnar um fjármögnun á nýjum Landspítala og í samræmi við lög nr. 64/2010 var stofnað opinbert hlutafélag um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Tilgangur félagsins er að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala með það að markmiði að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingarverktaki hefur lokið umsömdu verki.

Á síðasta ári fór fram samkeppni um forhönnun á byggingu nýs Landspítala og íslenska hönnunarteymið Spítal varð hlutskarpast í samkeppninni. Nú er unnið að forhönnun spítalans, gerð deiliskipulags lóðar og gerð alútboðsgagna samkvæmt samningi við hönnunarteymið. Nýtt deiliskipulag er byggt á vinningstillögu Spítal-hópsins. Deiliskipulagið hefur verið lagt fyrir skipulags- og byggingarráð Reykjavíkurborgar. Stefnt er að auglýsingu á því skipulagi í apríl eða maímánuði. Með nýju skipulagi mun falla úr gildi skipulag landspítalalóðar frá 1976 með síðari breytingum.

Vinnan við forhönnun nýrrar byggingar á landspítalalóð er á áætlun. Í dag starfar fólk í um 30 stöðugildum á beinan hátt við verkefnið. Auk þess koma vinnuhópar, sem skipaðir eru starfsfólki Landspítala, að verkefninu í notendahópum sem rýna teikningarnar. Útboðspakkarnir verða sex og áformað er að þeir verði tilbúnir í september 2011 og febrúar 2012. Útboðsgögn vegna framkvæmda á lóð og alútboðsgögn vegna byggingar sjúkrahótels og bílastæðahúss verða tilbúin í september 2011 og er þá mögulegt að auglýsa útboð með þeim fyrirvara að deiliskipulagið verði þá samþykkt af Reykjavíkurborg. Alútboðsgögn vegna meðferðarkjarna sem m.a. á að hýsa legudeildir og rannsóknarhús verða tilbúin í byrjun febrúar 2012 nái áætlanir fram að ganga. Á sama tíma verða einnig tilbúin útboðsgögn vegna 7.500 fermetra byggingar fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Samkvæmt lögum nr. 64/2010, um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, skal fyrir undirritun samninga að loknu útboði leita samþykkis Alþingis fyrir framkvæmdinni með almennum lögum. Þetta var frágangur sem fjárlaganefnd lagði fyrir þingið og var hluti af lögunum. Að lokinni forhönnun verður gert nýtt kostnaðarmat fyrir framkvæmd verksins. Jafnframt verða aftur framkvæmdir hagkvæmnisútreikningar við að færa starfsemi spítalans á einn stað. Þegar útreikningarnir liggja fyrir verður nýtt frumvarp lagt fyrir Alþingi og ekki verður gengið frá skuldbindandi samningum um byggingu og fjármögnun nýrra bygginga fyrr en samþykkt Alþingis liggur fyrir. Þetta er sú umgjörð sem ákveðin var þar sem mikilvægt þótti að fjármögnunin yrði bókstaflega með þeirri hagkvæmni sem leiddi af því að færa alla starfsemina á einn stað.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: „Hve mörg störf er áætlað að skapist á byggingartímanum, sundurgreint eftir árum?“ Svarið er að fjöldi starfa sem áætlaður er að verði á byggingartímanum er að árið 2011 verði þau 46, árið 2012 160, árið 2013 399, árið 2014 799, árið 2015 798 og árið 2016 554, og loks er reiknað með 11 störfum á árinu 2017. Hvorki er tekið tillit til mannafla vegna byggingar háskólans í framangreindum tölum né mannafla við breytingar eldri bygginga við Hringbraut en það er auðvitað ljóst að þar er töluverður mannafli til viðbótar.

Ég vona að ofangreindar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns. Ég tek undir það sem kom fram í máli fyrirspyrjanda að það skipti mjög miklu máli að við eigum öflugt flaggskip í heilbrigðisþjónustunni sem er Landspítali – háskólasjúkrahús. Þar er unnið gríðarlega gott og mikilvægt starf og það skiptir máli að umgjörðin sé nútímaleg og uppfylli allar nútímakröfur. Ég held að það hljóti að vera markmið að koma því á einn stað og búa þannig um hlutina að hægt sé að veita eins öfluga þjónustu og hægt er.

Í tengslum við Landspítalann eru svo deildir sem verða áfram starfandi, m.a. Grensásdeildin, og það er ekkert launungarmál að það er auðvitað í skoðun hvort hægt er að tengja það þessum framkvæmdum vegna þess að fyrir liggja áætlanir um endurbyggingu á því húsi upp á 1 milljarð. (Forseti hringir.) Ég hef komið því á framfæri að það væri kannski þarft að setja það inn í pakkann ef við ætlum að fara í fjárfestingar á næstu árum.



[18:55]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra og óska honum til hamingju með að vera kominn svona langt með þetta verkefni. Ég heyri ekki betur en að tilbúin séu gögn sem benda til þess að hægt sé að fara í útboð í september 2011, að þá séu tilbúnir ákveðnir útboðspakkar. Það eru einungis fimm mánuðir í september 2011 þannig að þetta er greinilega að bresta á ef hlutirnir ganga fram svona. Svo verða aðrir útboðspakkar tilbúnir í febrúar 2012. Þetta heyrðist mér koma fram í svari hæstv. ráðherra þannig að undirbúningurinn er þá mjög langt kominn.

Miðað við þær tölur sem hæstv. ráðherra fór með um mannaflaþörfina til 2017 eru þetta samanlagt upp undir 3 þúsund störf og það munar gríðarlega um þetta í því atvinnuleysi sem hér er. Ég fagna mjög þessu svari og hvet hæstv. ráðherra áfram í þessu. Það kom líka fram að taka þurfi málið aftur inn til þingsins til skoðunar sem er að mínu mati mjög eðlilegt þegar um slíkar stórframkvæmdir er að ræða. Ég hef engar áhyggjur af því vegna þess að það er mjög mikil pólitísk samstaða um þetta verkefni, enda er alveg gríðarlegur faglegur og fjárhagslegur ávinningur af þessu verkefni og það er miklu dýrara að bíða og gera ekkert en að fara í framkvæmdina. Það er dýrast að gera ekkert, það er mjög merkilegt. Það er langdýrast að gera ekki neitt.

Ég vil líka draga það fram að haldin hafa verið samráðsþing. Byggingarnefnd nýja Landspítalans undir forustu Gunnars Svavarssonar, formanns byggingarnefndar, hefur haldið samráðsþing þar sem þeir sem koma að byggingunni hafa haft tækifæri til að koma og fylgjast með hvað verkið er komið langt. Það er staðið mjög vel að þessu, ég hef sótt þessi samráðsþing og er mjög bjartsýn. (Forseti hringir.) Ég fagna því að ráðherrann treystir sér til að segja að það sé mjög líklegt að við sjáum hreyfingu á þessu strax í september.



[18:57]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög gott að fara yfir stöðuna. Það er ljóst að til þess að þetta verk geti farið af stað síðari hluta árs þarf auðvitað samþykki Alþingis að nýju þar sem menn geta farið yfir áform um hagræðingu sem á að vera fólgin í því að færa alla starfsemina, sem er núna — ég held að ég fari rétt með — á næstum 100 stöðum, að mestu á einn stað og menn geti sýnt fram á að fjárfestingarkostnaðurinn verði að mestu greiddur með einmitt þeirri hagkvæmni sem felst í því að vera einum stað. Hluti af því er auðvitað að bætt aðstaða mun minnka t.d. sjúkdómahættu, minni fjarlægðir og kostnaður við að fara með sjúklinga á milli staða og annað slíkt.

Það er líka rétt að þetta mál hefur verið skoðað mjög og er uppi á borðinu í samningum varðandi fjárfestingaráætlun fyrir ríkið, sem hluti af því með hvaða hætti hægt er að koma hjólum atvinnulífsins betur í gang og stuðla að aukinni atvinnu, sem er gríðarlega brýnt verkefni og ekki hvað síst undir mínu ráðuneyti, velferðarráðuneytinu, þar sem við vitum að kannski er stærsta velferðarmálið að ná að skapa atvinnu. Því eru bundnar miklar vonir við að þetta komist í gang. Ég sagði einnig að til viðbótar væri hugsanlegt að setja lagfæringuna á Grensás undir framkvæmdina og þó að það skili ekki beinni arðsemi með sama hætti og hitt gæti það verið afar hagkvæmt og líka skilað sér fyrr inn í þá þjónustu sem við veitum í dag.

Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði hér að það er bæði fjárhagslegur og faglegur ávinningur af þessu. Það er líka rétt að þarna hefur verið unnið mjög faglega að málum í gegnum árin og ekki hvað síst núna þar sem er hópur sem vinnur mjög skipulega að þessu verkefni. Ég ber auðvitað þá von í brjósti að okkur takist að komast af stað með þessar framkvæmdir sem allra, allra fyrst.