139. löggjafarþing — 113. fundur
 15. apríl 2011.
stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl., 2. umræða.
frv. ÁÞS o.fl., 87. mál (stjórnarformaður, kynjahlutfall í stjórn). — Þskj. 92, nál. m. brtt. 1131, nál. 1165, brtt. 1166.

[16:57]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög.

Með frumvarpinu er stefnt að samræmi við lög nr. 13/2010, um breyting á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög.

Með þessu frumvarpi er mælt fyrir um tvenns konar breytingar á áðurnefndum lögum. Annars vegar er lagt til að tryggt verði að formaður stjórnar í umræddum félögum taki einungis að sér verkefni sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, með öðrum orðum að viðkomandi sé ekki í reynd starfandi stjórnarformaður. Rökin eru m.a. sótt í álit nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi en þar lagði meiri hluti nefndarinnar til sams konar tillögu með þeim rökum að óæskilegt væri að stjórnarformenn væru í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags, enda væri það eitt af helstu hlutverkum stjórnarformanna að stýra eftirliti stjórnar með rekstri félagsins. Starfandi stjórnarformaður væri því settur í þá stöðu að vera í reynd beggja vegna borðsins, þ.e. að eiga að hafa eftirlit með framkvæmdastjórn sem hann væri í reynd sjálfur hluti af. Tilgangur þessa ákvæðis er því að minnka líkur á hagsmunaárekstrum. Verði ákvæðið óbreytt að lögum mun stjórn félagsins þó geta falið stjórnarformanni afmörkuð verkefni fyrir stjórnina.

Hin megintillaga frumvarpsins lýtur að miklu þjóðþrifamáli, þ.e. að auka jafnrétti kynjanna í stjórnun félaga og fyrirtækja. Lagt er til með þessu frumvarpi að í lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði kveðið á um jöfn kynjahlutföll í stjórn fyrirtækisins en hún er skipuð sex einstaklingum. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að þar sem hér er um jafna tölu stjórnarmanna að ræða fari best á því að kveða á um jafnan hlut kynjanna í stjórn. Hins vegar verði kveðið á um að hlutfall hvors kyns verði ekki lægra en 40% í þeim félögum þar sem fjöldi stjórnarmanna er oddatala, svo sem í Landsvirkjun þar sem stjórnarmenn eru fimm talsins.

Meiri hlutinn leggur til minni háttar breytingar á 6. gr. frumvarpsins sem lúta að dagsetningum einstakra ákvæða greinarinnar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum.

Undir álitið rita Lilja Mósesdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, og sá sem hér stendur.



[17:00]
Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég mun fara betur í málið í heild sinni sem er kannski ekki mjög stórt, en úr því að það er komið á þennan stað í þingstörfunum tel ég að við ættum að gera á því breytingar sem skipta virkilega máli. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. viðskiptanefnd, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, leggjum til að sá þáttur verði tekinn út úr hlutverki orkuveitunnar sem fór inn eftir litla umræðu á sínum tíma eftir því sem ég best veit, þannig að orkuveitan, þetta stóra og öfluga fyrirtæki, gat farið í allra handa starfsemi sem var ótengd kjarnastarfsemi hennar.

Um það urðu miklar deilur á vettvangi borgarstjórnar og orkuveitan fór í fjarskiptarekstur, hún fór í Línu.Net og Tetra Ísland og síðan átti að fara í sumarbústaðarekstur sem var að vísu stöðvaður af okkur sjálfstæðismönnum. Farið var í risarækjueldi, ljósmyndabanka og hörverksmiðju og allt milli himins og jarðar sem ég held að hvarfli ekki að neinum manni í dag að halda fram að hafi verið skynsamlegt. Mér heyrist vera samstaða um það innan núverandi borgarstjórnar að hverfa frá þessu og einbeita sér að kjarnastarfseminni. Það ættu því að vera hæg heimatökin að samþykkja tillögu okkar, fulltrúa sjálfstæðismanna.

Ég vil gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns um hvernig honum líst á tillöguna.



[17:02]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kynnt mér þá breytingartillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vísar til og það er hárrétt hjá þingmanninum, hún svarar ágætlega þeim fyrirætlunum sem núverandi stjórn orkuveitunnar hefur miðað að, þ.e. að þrengja starfsemi þessa mikilvæga fyrirtækis utan um kjarnastarfsemina.

Aftur á móti er í raun horft í allt aðra átt en menn ætla að fara í því tiltekna frumvarpi sem við erum með til umfjöllunar. Það fjallar um þessi tvö atriði, varðandi starfandi stjórnarformann annars vegar og hins vegar jafnrétti kynjanna í stjórnum fyrirtækja og það eru hvort tveggja afar mikilvæg mál. Ég tel að þetta sé áhugaverð hugmynd en hún þyrfti að fá sérstaka skoðun og meðhöndlun sem slík og verðskuldar það að mínu mati.



[17:03]
Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er málið þannig statt að þingið þarf að taka afstöðu til þess. Meiri hluti hv. viðskiptanefndar hefur metið það þannig að ekki eigi að bíða eftir því að stjórn orkuveitunnar og borgarstjórn komi fram með stefnumótun sína varðandi þá þætti sem tilgreindir eru í tillögunni þrátt fyrir að það muni breyta litlu í sjálfu sér miðað við stöðuna í orkuveitunni í dag. En við erum hins vegar komin á þann stað að það þarf að taka afstöðu til þessarar tillögu. Ég held að þó að það sé sjálfsagt að ræða málið frekar sé ekkert í því sem fólk þekkir ekki. Hvert mannsbarn þekkir sögu orkuveitunnar hvað þetta varðar.

Það liggur alveg fyrir að ríkisstjórnarmeirihlutinn þarf að taka afstöðu til þessarar tillögu. Við leggjum hana fram og þess vegna kalla ég eftir afstöðu hv. þingmanns til tillögunnar því að um hana verða greidd atkvæði. Ef eitthvað er óljóst eða ef hv. þingmaður vill koma einhverjum sjónarmiðum á framfæri er kjörið fyrir okkur að taka þá umræðu hér og mikilvægt að fara yfir málið. Þetta er mjög skýr tillaga. Ég hef flutt hana áður á þinginu og beitt mér á öðrum vettvangi fyrir því að þessi leið verði farin. Að mörgu leyti tókst það og það bjargaði ýmsu en hefði betur tekist alveg. Það hefði verið ódýrara fyrir borgarbúa og betra fyrir fyrirtækið. Þess vegna vil ég vita hvernig hv. þingmaður og hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætla að bregðast við þessari tillögu.



[17:06]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu. Þetta er tillaga sem kom fram eftir að við höfðum lokið meðferð og umræðu um málið í hv. viðskiptanefnd. Ég get því ekki talað fyrir munn nokkurs manns nema sjálfs mín varðandi viðhorf til tillögunnar.

Ég tel að tillagan hefði þurft að fá almennilega umræðu í nefndinni og að við hefðum þurft að fara í gegnum kosti og galla hennar og tengja hana þeim atriðum sem frumvarpið sjálft fjallar um, þ.e. starfandi stjórnarformönnum og kynjajafnrétti. Þetta lýtur að allt öðrum þáttum og þar af leiðandi held ég að það sé ákveðnum vandkvæðum bundið að samþykkja tillögu sem þessa í raun að óathuguðu máli.



[17:07]
Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða þetta mál í beinu framhaldi af orðaskiptum mínum og hv. þm. Skúla Helgasonar sem talaði fyrir hönd meiri hluta viðskiptanefndar. Það er einhver misskilningur hjá honum að þetta hafi ekki verið rætt í nefndinni því að um leið og frumvarpið kom fram tilkynntum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að við mundum koma með þessa tillögu ef breyta ætti lögum um orkuveituna.

Við höfum flutt þá tillögu sem liggur fyrir sem sjálfstætt frumvarp og eins hefur verið mikil umræða um Orkuveitu Reykjavíkur. Það sjá allir núna sem menn sáu ekki þá að það var óheillaspor að fara þá leið sem þáverandi meiri hluti, R-listinn, fór á sínum tíma en á grundvelli þessarar lagaheimildar, að fara mætti í viðskipta- og fjármálastarfsemi, var farið í fjárfestingar sem valdið hafa fyrirtækinu gríðarlegu tapi og eiga ekkert skylt við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Ég hef aðeins verið að blaða í þessu því að fólk er fljótt að gleyma. Um málið voru mjög harkalegar pólitískar deilur og varð ég fyrir miklum árásum fyrir að gagnrýna framgang samfylkingarmanna, vinstri grænna og framsóknarmanna við stjórn fyrirtækisins og var kallaður ýmsum nöfnum í tengslum við það. En menn hefðu betur hlustað og sleppt því að fjárfesta svo milljörðum skipti í alls ótengdum rekstri.

Ég nefndi net- og fjarskiptafyrirtæki, fiskeldi, risarækjueldi, hörverksmiðju og ljósmyndabanka en því miður gleymi ég örugglega ýmsu því að maður þarf að fara í örlitla sagnfræðirannsókn, þó að það sé kannski ekki svo langt síðan þetta var, til að rifja upp alla þá þætti sem málinu tengdust. Sem betur fer kom ég í veg fyrir að orkuveitan fjárfesti í 400 sumarbústöðum í kringum Úlfljótsvatn, eins og hugmyndin var, og sömuleiðis kom ég í veg fyrir að grunnnet Símans væri keypt á 22,5 milljarða kr. árið 2006. Menn geta ímyndað sér hvernig staðan væri ef menn hefðu farið þá leið.

Ef hv. þingmenn meiri hlutans — þeir eru allir farnir úr salnum að undanskildum hv. þm. Kristjáni Möller sem tekur kannski þátt í umræðunni — telja sig ekki hafa nægilegar upplýsingar og ekki hafa rætt tillöguna nægilega mikið er tækifærið núna. Ég held að það sé alveg kjörið að fara yfir þessi mál því að ef það eru einhver rök fyrir því að hafa hlutverk orkuveitunnar það vítt að hægt sé að fara í alls óskyldan rekstur skiptir máli að það komi fram. Ef ekki þá er sjálfgefið að samþykkja tillöguna.

Ég legg til að tillagan fari aftur til viðskiptanefndar á milli umræðna þannig að við höfum þá tækifæri til að fara yfir hana aftur ef einhver hv. þingmaður í viðskiptanefnd telur að málflutningur okkar frá fyrstu mínútu frá því að tillagan kom fyrir nefndina hafi ekki verið nógu skýr og að kalla þurfi eftir einhverjum upplýsingum. Þær liggja allar fyrir og er ekki eftir neinu að bíða að breyta til betri vegar hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að tillagan fari til nefndar milli umræðna og sömuleiðis að ef menn telja eitthvað vera óljóst eða ekki standast hvað varðar tillögugerðina að þeir fari yfir það núna. Við höfum prýðilegan tíma, virðulegi forseti, til að fara yfir þetta stórmál. Þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir Reykvíkinga og alla þá sem njóta þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur.