139. löggjafarþing — 114. fundur
 2. maí 2011.
breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:30]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hef lagt það í vana minn að glugga í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er margt merkilegt í henni. Stundum rekst maður á brandara og það er erfitt að stilla sig um að grípa niður í kaflann um úrlausn á skuldavanda fyrirtækja þar sem stendur: „Markmið ríkisstjórnarinnar er að aðgerðir gagnvart öllum smærri og meðalstórum fyrirtækjum liggi fyrir í síðasta lagi í septemberlok.“ — Hér vantar að sjálfsögðu ártal.

En ég ætlaði ekki að ræða þetta. Ég ætlaði að ræða um kaflann sem heitir Fiskveiðar vegna þess að við bíðum öll eftir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarkerfi. Hér stendur, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Þjóðareign og mannréttindi:

„Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.

Bregðast þarf frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.“

Síðast stendur, í e- og f-lið um endurskoðun laga um fiskveiðar:

„e. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

f. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort það frumvarp sem nú stendur til að leggja fram uppfylli þessi markmið sem sett eru fram í stjórnarsáttmálanum.



[15:32]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, að sjálfsögðu er það ætlunin. Að sjálfsögðu ætla stjórnarflokkarnir ekki að standa að framlagningu frumvarps nema það uppfylli meginlínur þeirra breytinga sem þeir vilja sjá og hafa barist fyrir á þessu kerfi — og hv. þingmaður fór ágætlega yfir ýmis aðalatriði þessa máls og ég þakka fyrir það — þ.e. að ganga frá því í eitt skipti fyrir öll og slá það í gadda, með ákvæðum í stjórnarskrá og skýrri útfærslu í lögum, að um sameiginlega eign þjóðarinnar sé að ræða; að þau réttindi sem menn fá séu tímabundin, afmörkuð afnota- eða nýtingarréttindi en ekki bein eða óbein eign af neinu tagi sem menn geti fénýtt meira og minna án takmarkana eins og viðgengist hefur í núverandi kerfi. Þeim markmiðum ætla menn sér að sjálfsögðu að ná.

Sama gildir um það að koma til móts við þau sjónarmið og auðvitað mörg fleiri sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna tókst á við á sínum tíma, þ.e. aðgengi nýrra aðila að kerfinu, að þetta sé ekki lokaður klúbbur um aldur og ævi. Þegar hefur verið stigið skref í því, t.d. með strandveiðum þar sem allir sem uppfylla tilskilin réttindi, eiga bát með haffærniskírteini og kunna með hann að fara geta þá farið á sjó yfir sumartímann. Með öðrum slíkum og fleiri ráðstöfunum er væntanlega meiningin að opna leiðir inn í kerfið og búa um þróun á því þannig að eðlileg nýliðun geti orðið, endurnýjun, uppeldi á nýjum sjómönnum sem þarf alltaf að vera. Væntanlega gerist það þá í framtíðinni eins og íslenskur sjávarútvegur hefur yfirleitt alltaf þróast, hann hefur þróast neðan frá í gegnum útgerð minni skipa sem síðan verða að stækka í höndunum á dugandi mönnum.

Ég vona að þegar frumvarpið verður komið saman og hingað inn á þing sjái hv. þingmaður að það er verið að reyna, eins og kostur er, að mæta þessum markmiðum. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað flókið og viðamikið mál en ekki stendur til að veita afslátt af þeim grundvallarsjónarmiðum sem hafa verið leiðarljósið í þessari vinnu.



[15:35]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar og vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum með frumvarpið. En ég vil líka fordæma þá leynd sem hefur hvílt yfir þessari vinnu. Það er óþolandi fyrir almenning að pukrast sé með svona mál í skúmaskotum. Ég vil að þetta verði sett upp á borð og að önnur atriði í stjórnarsáttmálanum, gagnsæi og opin stjórnsýsla, verði höfð að leiðarljósi.

Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að standa í lappirnar þegar kemur að löngu tímabærum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og láta ekki „atvinnufrekjudallana“ ráða för í þessum málum. Það er óþolandi að þetta mál sé hengt á gerð kjaraasamninga. Við verðum öll að standa í lappirnar. Ráðherra verður líka að gera sér grein fyrir því að aldrei þessu vant hefur hann nánast alla þjóðina á bak við sig í þessu máli.



[15:36]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál var einmitt unnið á þann veg að það var mjög stór og fjölmenn sáttanefnd, 20 manna eða rúmlega það, sem vann að þessu máli í heilt ár eða meira og náði samkomulagi um ákveðnar meginlínur sem síðan gengu til þess ráðherra sem með málið fer. Á hans forræði hefur verið unnið að útfærslum, tæknilegum útfærslum og lagasmíð eins og hefðbundið er. Síðan kemur auðvitað frumvarp fram á þingi og þar með opnast umræðan og allir fá aðgang að því. Þetta er mjög hefðbundinn farvegur þegar verið er að undirbúa mál til framlagningar á Alþingi og ekki mikið um það að segja.

Sá ráðherra sem með málið fer og þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa, og ætla að bera pólitíska ábyrgð á framlagningu frumvarpsins sem stjórnarfrumvarps, verða auðvitað að geta haft málið í sínum höndum þegar verið er að klára samkomulag um það hvernig það lítur út. Þannig er það. Það má alveg viðurkenna að það hefði verið æskilegt að þessi vinna hefði gengið hraðar þannig að minni tími hefði tapast en betra er seint en aldrei. Við skulum sannarlega trúa því að á þessu þingi, innan ekki mjög langs tíma, komið málið fram.