139. löggjafarþing — 117. fundur
 4. maí 2011.
Stjórnarráð Íslands, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 674. mál (heildarlög). — Þskj. 1191.

[14:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Býsna góð og gagnleg umræða fór fram í gær um hin ýmsu mál er þingmenn telja að tengist þessu frumvarpi og einstökum greinum þess. Töluvert var rætt um breytingarnar út frá því að þingmenn margir hverjir telja að í þeim felist tilraun til að ná fram þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem stjórnarflokkarnir hafa ekki getað náð hingað til, þ.e. breytingum er lúta að því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Að sjálfsögðu er margt í frumvarpinu, sumt gott en annað getur sá er hér stendur ekki tekið undir með nokkru móti. Það er sérstaklega sá þáttur er lýtur að því að fela forsætisráðherra nánast gerræðisvald yfir því hvernig ráðuneytunum er fyrir komið og að forsætisráðherra geti tekið mál sem er í vinnslu í ráðuneyti ef það hefur ekki verið klárað þar og flutt yfir í annað ráðuneyti til að láta klára það þar. Það er mjög sérkennileg ráðstöfun að mínu viti. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem ég sagði varðandi tengsl þessa frumvarps og breytinganna við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu í þessari ræðu en ég stend hins vegar við hvert einasta orð sem ég sagði um þau tengsl og það mál.

Einnig var umræða um vinnubrögð við framlagningu þessa frumvarps í gær. Mig langar, frú forseti, að minnast aðeins á ræðu sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra flutti hér 13. júní 2007 þar sem hann sem þingmaður og jafnframt formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talaði um hvernig standa ætti að vinnu við slík mál. Í ræðunni vitnar hæstv. núverandi fjármálaráðherra í orð Bjarna Benediktssonar sem vann að því fyrir árið 1969 að endurskoða eða semja lög varðandi Stjórnarráðið. Þá segir hæstv. núverandi fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Hann flutti á Alþingi, þá sem stjórnarandstæðingur, tillögu — um að gera hvað? Að kjósa þverpólitíska nefnd til að reyna að vinna að samkomulagi að breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins. Það var gert. Það var undanfari þess að lög voru sett árið 1969 um breytingar á Stjórnarráðinu sem tóku gildi árið 1970. Arfleifð Bjarna Benediktssonar er því ekki sýndur mikill sómi af núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, þaðan af síður hefðum um að leita þverpólitísks samkomulags um mikilvæg mál af þessu tagi.“

Því hljótum við að auglýsa eftir því hvar hið þverpólitíska samkomulag eða samráð sem sitjandi ríkisstjórn hefur gumað af að ástunda er í þessu máli. Við sem höfum mætt á slíka þykjustusamráðsfundi þekkjum það vitanlega að þeim fylgir því miður ekki mikil alvara. Hér hefði verið kjörið tækifæri til að fá aðila úr öllum flokkum til að semja frumvarp það sem við höfum í höndunum til að reyna að ná einhverri samstöðu í málið í stað þess að koma með það inn í þingið í augljósri andstöðu við stóran hluta þingmanna og marga þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum. Það er mjög merkilegt að fara í þá vegferð, frú forseti. Ég undrast því að sú leið hafi verið valin og farin.

Ég hefði persónulega talið að nær væri að taka einfaldlega út úr þeim lögum er nú gilda þá heimild að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta. Ég held að það sé eðlilegt að Alþingi komi að því, ekki síst til að undirstrika löggjafarvald Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það kann vel að vera að það sé til hægðarauka fyrir forsætisráðherra á hverjum tíma að hafa vald til að dúlla sér við breytingar á ráðuneytunum eins og honum sýnist, en það er ekki til þess fallið að auka veg og vegferð Alþingis. (Forseti hringir.)



[14:42]
Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hann fór ágætlega yfir ýmislegt í tengslum við þetta frumvarp og hvernig hefði verið betra að hans mati að vinna það og hvernig hefði verið betra að málið kæmi inn í þingið.

Það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra í gær að ekki væri meiri hluti fyrir þessu máli meðal stjórnarflokkanna. Það kom líka fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann væri andvígur málinu. Við umræðuna í gær kom fram að hæstv. innanríkisráðherra gerði miklar athugasemdir við frumvarpið en heimilaði að það yrði lagt fyrir þingið.

Hæstv. forsætisráðherra sagði ítrekað í gær að hún teldi að þegar menn færu að skoða þetta mál og sæju hversu jákvætt og gott það væri mundi það njóta stuðnings í þinginu og forsætisráðherra treysti á að stjórnarandstöðuþingmenn mundu veita málinu liðsinni og styðja það.

Hv. þingmaður fór yfir tilurð frumvarpsins, að það hefði ekki orðið til með samráði heldur væri þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra án alls samráðs við stjórnarandstöðuna og fleiri aðila. Þar sem frumvarpið felur í sér mjög róttækar breytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur við lýði hér varðandi hvernig breytingum á Stjórnarráðinu hefur verið háttað langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður telji að mikill stuðningur sé innan stjórnarandstöðunnar við þetta mál eins og það er, hvort hv. þingmaður telji ekki jafnframt að þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við framlagningu frumvarpsins sé verulega ábótavant og hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að vinna úr því þannig að víðtæk sátt náist um málið.



[14:44]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég gagnrýni vinnubrögð við þetta mál. Ég sagði það þegar við ræddum málið fyrst, ég man ekki hvenær það var, að nær hefði verið að hafa samráð milli stjórnmálaflokkanna um að leggja fram breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Það getur vel verið að meginefni þessa frumvarps hefði þá litið dagsins ljós. Það eru hins vegar ákveðnir þættir í því sem ég tel að sé og verði mikil andstaða við.

Við verðum að hafa í huga að árið 2007 voru gerðar talsverðar breytingar á lögum um Stjórnarráðið, ekki nærri því eins veigamiklar og þessar sem eru miklu ítarlegri en þær sem voru gerðar á sínum tíma, þá greiddu þingmenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna atkvæði á móti þeim breytingum. Nú er í rauninni gengið enn lengra. Það er verið að stíga skref sem er að mínu viti miklu stærra en var stigið 2007 og sumum þingmönnum sem ég er búinn að lesa ræður eftir þóttu þá nóg um og greiddu atkvæði á móti.

Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrri hvern einasta þingmann stjórnarandstöðunnar en eins og innihald frumvarpsins er nú og getur vitanlega tekið breytingum í meðförum nefndar — við vitum hvernig það er — þá get ég ekki séð að mikið fylgi sé við þetta mál, ekki síst ef það er sett í samræmi við atkvæðagreiðslu og ræður ársins 2007 þegar málið kom til afgreiðslu. En eins og ég sagði áðan greiddu þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna, þar á meðal þeir þingmenn Vinstri grænna sem mæltu fyrir málinu í gær, atkvæði gegn breytingunum sem þá voru gerðar.



[14:46]
Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það kom líka fram í umræðunni í gær hjá hæstv. forsætisráðherra að frumvarpið væri að einhverju leyti viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis og mundi auka hér skilvirkni og annað því um líkt. Það var mikið gagnrýnt í umræðunni í gær og reyndar víðar að frumvarpið gerði hið gagnstæða, að það ýtti frekar undir foringjaræði. Alþingi hefur til þessa haft vald til að skipa ráðuneyti og fleira. Mér er minnisstætt þegar Alþingi tók síðast út ákveðna þætti sem hæstv. forsætisráðherra hafði lagt til.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta frumvarp, eins og það er uppsett og sú hugsun sem þar býr að baki, vera (Forseti hringir.) viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis og því sem kallað var eftir í henni.



[14:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem ég náði að kynna mér frumvarpið og man eftir tilvitnununum í rannsóknarskýrsluna tel ég að þessu sé öfugt farið. Ef ég man rétt er foringjaræði gagnrýnt í skýrslu þingmannanefndar í kafla 2.4, þ.e. oddvitaræði eins og það er m.a. kallað. Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en með þessu frumvarpi sé verið að stíga skrefið í öfuga átt. Það er verið að undirstrika og auka oddvitaræði eða möguleikann á miklu oddvitaræði með því að fela forsætisráðherra eins konar alræðisvald yfir ráðuneytunum og ekki síst þeim málefnum sem fagráðuneytin hafa haft á sinni könnu og (Forseti hringir.) verður þá að horfa til þess að gert er ráð fyrir að forsætisráðherra geti fært málefni til ef þau hafa ekki klárast.



[14:49]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á nokkuð svipuðum slóðum og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Ég held að við getum reiknað með því, eins og þessi umræða hefur verið, a.m.k. fram til þessa, að í þinginu sé ekki nægur stuðningur við meginbreytinguna sem í frumvarpinu felst. Þar til annað kemur í ljós virðist það vera í kortunum að ekki sé nægur stuðningur við þá breytingu.

Ég heyrði hins vegar á máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þ.e. ég túlka orð hans með þeim hætti að hann telji ekki útilokað að einhverjar aðrar breytingar sem í frumvarpinu felist geti náð fram að ganga. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji — og ég er eiginlega að hugsa upphátt í þessu — að það sé hugsanlega líklegra til árangurs að þingið taki bara ákvörðun um það með einum eða öðrum hætti að ýta til hliðar þeirri breytingu á ráðuneytunum sem umdeildust er, setji hana bara út fyrir eins og gert var með atvinnuvegaráðuneytið í meðförum þingsins á síðasta ári og einbeiti sér í vinnu sinni á næstu vikum að því að laga til hinar greinarnar sem hægt er að byggja eitthvað á, sem eru nýtilegar og möguleiki á að geti náð fram að ganga með auðvitað einhverjum breytingum.

Ég spyr hv. þingmann um afstöðu til þessarar leiðar.



[14:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kannski réttast að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir hér, gefa yfirlýsingar um það strax að ekki verði farið í þær breytingar sem eru hér hvað mest gagnrýndar, þær er snúa að færslu á völdum eða úrræðum til forsætisráðherra, og horfa á aðrar greinar í staðinn og annað innihald frumvarpsins. Það er hins vegar alveg ljóst að býsna margar breytingar sem hér eru lagðar fram ganga út frá þeirri breytingu sem er fremst í frumvarpinu, þ.e. varðandi 2., 3. og 4. gr. sérstaklega. Aðrar breytingar ganga töluvert út á að þær gangi eftir.

Ég held að ástæðan fyrir því að um þetta er svo mikið rætt nú þegar við 1. umr. sé sú að þingmenn hafa mjög sterkar skoðanir á því hvar þessi valdmörk eru milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins og hvaða úrræði framkvæmdarvaldið á að hafa. Ég held að það mótist töluvert af því efnahagshruni sem hér varð, þeim lærdómi sem við drögum vonandi af því og þeirri staðreynd að mörgum þingmönnum finnst, eins og frumvarpið lítur hér út núna, sem ekki sé verið að svara þeim áleitnu spurningum sem þar komu fram. Það er mjög bagalegt að vera hér með 140 blaðsíðna frumvarp, heila bók, og (Forseti hringir.) ekki sé svarað til fulls því sem kallað er eftir í rannsóknarskýrslunni.



[14:53]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þingmanns finnst mér einmitt ástæða til að árétta nákvæmlega þennan þátt, að yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bregðast við efnahagshruninu og því ástandi sem leiddi til þess. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, meginbreyting frumvarpsins rímar afskaplega illa við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöður þingmannanefndar einmitt hvað það varðar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki með mér þeirri skoðun að það sé beinlínis í fullkomnu ósamræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar og þingmannanefndar að leggja nú fram frumvarp sem gengur út á að færa völd frá þinginu til ríkisstjórnar, frá einstökum ráðuneytum og ráðherrum til forsætisráðherra, (Forseti hringir.) auka foringjaræði og minnka formfestu í stjórnsýslunni.



[14:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er akkúrat það sem ég hef verið að segja hér í dag og nefndi í gær, ég tel að farin sé öfug leið. Það er ekki verið að svara því kalli sem fram kom í skýrslunni og við samþykktum að bregðast við. Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að mínu viti á skjön við það sem í raun stendur í því. Mér finnst ekki gæta samræmis þegar yfirlýstur tilgangur er að auka á gagnsæi, auka flæði, auka lýðræði og koma í veg fyrir að gerræðisákvarðanir séu teknar. Mér finnst það bara alls ekki koma hér fram.

Ég held að það sé nær að stíga, eins og ég sagði áðan, skrefið til baka og tengja Alþingi betur inn í það hvernig ráðuneytunum er skipt og þeim skipað. (Forseti hringir.) Til dæmis eru tekin út öll heiti á ráðuneytum í þessu frumvarpi



[14:56]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargott innlegg í málið. Þetta er því miður háð þessu sem við búum nú við, virðulegi forseti, að það er allt í handaskolum í verklagi ríkisstjórnarinnar. Það er handarbakavinna í einu og öllu. (Gripið fram í: Það er nú annað en hjá þér.) Það er alveg sama hvað menn reyna að bera í bætifláka, þetta er því miður staðreynd málsins. Það er unnið í ósamkomulagi, með frekju og yfirgangi og það gengur ekki í svona málum. Öll hefð Alþingis í slíkum málum byggist á því að ná þokkalegu samkomulagi, en það er ekki gert. Það er efnt til ófriðar, og egnt til ófriðar og upplausnar í hverju málinu á fætur öðru.

Ég held að ég hafi heyrt hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir í 57 skipti á síðustu mánuðum að það væri að koma stjórnarfrumvarp í sjávarútvegsmálum, 57 skipti hef ég heyrt. Það er þannig að hæstv. forsætisráðherra er þekktur fyrir það og er sérsvið hans að egna til ófriðar með yfirgangi, geðþótta og tilkynningum út og suður um l langt árabil. Þetta eru stór orð en þau eru væg eins og þau eru sögð. Með því að tala sama máli og kettirnir heldur hæstv. ráðherra hjörð sinni saman, hvað sem það dugar nú til lengdar. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Sér hann einhverjar alvarlegar umbætur í því sem um er fjallað?



[14:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki nógu miklar umbætur, skulum við orða það frekar, ef hugmyndin er að bregðast við rannsóknarskýrslu Alþingis. Ef hugmyndin er sú að gera einfaldlega Stjórnarráðið og allar ákvarðanir í Stjórnarráðinu þannig að þær séu einfaldari eða auðveldari fyrir forsætisráðherra á hverjum tíma má sjálfsagt fullyrða að það komi fram í þessu frumvarpi. En það er vitanlega hægt að gagnrýna þau vinnubrögð sem höfð eru uppi í þessu máli, eins og hv. þingmaður gerði hér.

Ég vitnaði áðan í ræðu hæstv. núverandi fjármálaráðherra frá 2007 þar sem hann gagnrýndi harkalega hvernig staðið var að breytingum á þeim tíma. Það kann vel að vera að það hafi verið réttmætt hjá hæstv. fjármálaráðherra þá, en við hljótum þá að ætlast til þess svona stuttu síðar að formaður Vinstri grænna og sú stjórn sem hann situr í hafi þá lært af því og muni eftir þeirri ræðu.

Við getum líka spurt okkur eins, ágætir þingmenn, af því að það kom hér upp í gær: Hvernig hefðu viðbrögðin orðið hér ef forsætisráðherra sem eitt sinn var og heitir Davíð Oddsson, sá ágæti maður, hefði lagt fram frumvarp sem þetta þar sem verið er að færa forsætisráðherra vald til að ráðstafa ráðuneytum og færa verkefni milli þeirra? Hver hefðu viðbrögð okkar orðið? Ég veit alveg hver mín viðbrögð hefðu orðið. Ég hefði örugglega fengið gæsahúð og talað hér mjög hart gegn þessu máli líkt og ég geri nú. Við getum ekki lagt völd sem þessi í hendur á einum manni, einum embættismanni eða hvað við köllum hann, stjórnmálamanni sem kallast forsætisráðherra á hverjum tíma. Við getum það ekki, við þingmenn verðum að standa í lappirnar núna og halda í þau völd sem við höfum.



[15:00]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir mjög miklu máli í einu þjóðfélagi að menn reyni að stuðla að vellíðan fólksins í landinu, bæði til sálar og líkama. Það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki. Hún er sífellt með kylfurnar á lofti, lemur út og suður og meiðir fólk í alvöru í hvunndagslífi, a.m.k. til sálar. Það á ekki að vera hlutverk hæstv. forsætisráðherra eða ríkisstjórnar hans. Það á ekki að rugga bátnum eins og gert er, það á ekki að auka foringjaræðið og sagan mun, því miður, greina núverandi ríkisstjórn með stóran mínus á bakinu.



[15:02]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hv. þingmaður, kannski nokkuð eðlilega, upptekinn af vinnubrögðunum við framlagningu á málinu. Nú vil ég segja að það kann vel að vera að einhverjir muni segja að þetta sé ekkert óeðlilegt, að málið fari nú til nefndar þar sem fjallað verði um það, tekist á um það og slíkt.

En við höfum dæmi úr nýlegum þingræðum um að þingmenn hafi rætt stór og mikilvæg mál sem ég tel þetta vera — við hefðum til dæmis átt að nota þá aðferðafræði við hið svokallaða Icesave-mál frá upphafi, við hefðum átt að hlusta á öll sjónarmiðin, taka mark á því sem verið er að gagnrýna áður en lagt er út í vegferðina miklu. Það hefur að sjálfsögðu komið í ljós, t.d. varðandi Icesave-málið, að þar höfðu ýmsir rétt fyrir sér.



[15:03]Útbýting:

[15:04]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, betur þekkt sem frumvarp um að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason.

Hvers vegna kemur frumvarp með þennan tilgang til þingsins núna? Það vekur nokkra furðu í ljósi þess að nánast virðist liggja fyrir að ekki sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu. Meira að segja annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gerir mjög alvarlega fyrirvara við frumvarpið sem enn er óljóst hversu langt muni ganga þegar á hólminn er komið og hvort sá flokkur muni yfir höfuð sætta sig við málið, a.m.k. er ólíklegt að allir geri það. Reyndar er þegar orðið ljóst að ekki munu allir innan Vinstri grænna gera það vegna þess að málið var afgreitt úr ríkisstjórn með hætti sem er vægast sagt óvenjulegur, nánast einsdæmi. Einn ráðherra, ráðherrann sem málið varðar kannski sérstaklega eins og ég nefndi í upphafi, Jón Bjarnason hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu í ríkisstjórn. Annar ráðherra, hæstv. innanríkisráðherra, gerði við það verulega fyrirvara. (Gripið fram í.)

Frumvarpið snýst enda um að efla hluta framkvæmdarvaldsins á kostnað annars hluta framkvæmdarvaldsins og þó löggjafans sérstaklega. Það gengur því í raun gegn öllu sem hvað mest áhersla hefur verið lögð á í umræðu um bætur á stjórnkerfinu á undanförnum tveimur árum. Raunar er það svo að fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde er nú fyrir landsdómi, m.a. sakaður um hluti sem beinlínis er ætlast til af forsætisráðherra samkvæmt þessu nýja frumvarpi. Með því er forsætisráðherra falið vald til að færa verkefni á milli annarra ráðherra og ráðuneyta eftir því sem forsætisráðherra hverju sinni telur henta. Þetta er mikið vald, svo mikið að í raun má segja að forsætisráðherra sé orðinn einn yfirráðherra og allir hinir ráðherrarnir séu nokkurs konar aðstoðarráðherrar með það eina hlutverk að framkvæma verkefni sem forsætisráðherra felur viðkomandi á hverjum tíma.

Þannig er í raun vegið að því mikla grundvallaratriði sem sjálfstæði ráðherra hefur verið. Ráðherrar hafa haft töluvert vald yfir málaflokkum sínum en tilgangurinn með því er ekki hvað síst sá að dreifa valdinu, að það þjappist ekki um of saman á einn stað svo að þegar mistök verða gangi það ekki yfir alla línuna. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hafa í huga að fylgjast þarf með því sem hver ráðherra gerir á hverjum tíma svoleiðis að hægt sé að grípa inn í ef einhver ráðherra gerir mistök. Hins vegar er mjög erfitt við slíkt að eiga ef allt þetta vald er komið til forsætisráðherrans.

Það gerir líka að verkum að mjög óljóst er hvar ábyrgðin liggur þegar á hólminn er komið, t.d. ef gerð eru mikil mistök eða ef fylgt er stefnu sem reynist síðan á einhvern hátt mjög röng eða leiðir til óheppilegrar niðurstöðu. Þá er erfitt að átta sig á hvar ábyrgðin liggur, nema að sjálfsögðu hjá forsætisráðherranum sem eðli málsins samkvæmt hefði þá nánast allt vald og þar af leiðandi alla ábyrgð. Þetta væri ákaflega óheppileg þróun og gengur gegn því sem menn hafa reynt að ná fram, að auka valddreifingu og efla sérstaklega vald löggjafarvaldsins enda á valdið að liggja þar samkvæmt stjórnarskránni.

Þetta veldur því líka að forsætisráðherra hefur að mjög miklu leyti vald yfir samstarfsflokknum eða samstarfsflokkunum. Jafnvel þó að gengið sé frá ákveðinni skiptingu þegar ríkisstjórn er mynduð getur forsætisráðherrann í framhaldinu skorist í leikinn og fært verkefni frá ráðherrum samstarfsflokksins til ráðherra eigin flokks. Eða það sem kannski skiptir enn meira máli, fært verkefni og völd frá ráðherrum sem eru á einhvern hátt ekki á bandi forsætisráðherrans og fylgja ekki þeirri stefnu sem forsætisráðherra eða flokkur hans aðhyllist á hverjum tíma, til annarra. Bara með því að þetta vald sé til staðar er forsætisráðherra í raun í aðstöðu til að geta haft aðra ráðherra í bandi, ef svo má segja. Þeir vita að ef þeir ganga á einhvern hátt gegn vilja forsætisráðherrans hefur hann vald til að taka af þeim ábyrgðina sem þeir hafa eða verkefni þeirra. Með öðrum orðum, þessi bók snýst fyrst og fremst um að þjappa saman valdi hjá forsætisráðherranum og tilgangurinn er í fyrstu væntanlega sá að taka allt vald af núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Auðvitað er álitamál hvort svona breyting á stjórnkerfinu sé yfir höfuð æskileg. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hún sé mjög óheppileg, eins og ég hef lýst. Hún er sérstaklega óheppileg þegar við erum með ríkisstjórn eins og þá sem nú situr. Hún heldur því reyndar sýknt og heilagt fram, sérstaklega þegar hún lendir í vandræðum, að hún leggi áherslu á samráð. Við höfum orðið mjög vör við að þegar ríkisstjórnin er í sem mestum vanda er talað sem mest um samráð og að allir flokkar og þingmenn eigi að vinna saman að tilteknum málum. Þá er auðvitað átt við að ætlast sé til þess að allir þingmenn fylgi stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. stefnu hæstv. núverandi forsætisráðherra. Það kemur enda á daginn að þegar menn leggja einhverjar aðrar tillögur í samráðið er lítið gert með þær, raunar ekki neitt.

Við sáum hvaða alvara lá að baki öllum yfirlýsingum um samráð fyrir ekki svo löngu síðan þegar rædd var breytingartillaga hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um búvörulögin. Hv. þingmaður kom með breytingartillögur sem um var nokkurn veginn full samstaða en í lokin, þegar verið var að afgreiða málið, lagði einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, fram breytingartillögu sem hefði falið það í sér, hefði hún verið samþykkt, að kerfinu sem stendur undir einni af grunnatvinnugreinum Íslendinga, landbúnaði, hefði verið rústað. Það hefði gerst með lítilli breytingartillögu sem var sett inn á síðustu stundu algjörlega án samráðs, án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Nei, það átti að rústa heilli atvinnugrein, afkomu hundruða og jafnvel þúsunda manna og eignum með einni lítilli breytingartillögu sem var laumað inn í lokin, algjörlega án umræðu.

Hvað gerðu þingmenn Samfylkingarinnar? Þeir greiddu atkvæði með þessu allir sem einn. Eigum við að treysta þessu sama fólki fyrir því valdi sem á að fela framkvæmdarvaldinu undir forustu hæstv. forsætisráðherra sem studdi þessa tillögu, þessa tilraun til að rústa heilli atvinnugrein með einni lítilli breytingartillögu algjörlega án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu?

Reyndar er ekkert nýtt að hæstv. forsætisráðherra sýni grunnatvinnuvegum landsmanna litla virðingu. Afstaða krata til landbúnaðar er löngu þekkt, frá upphafi 20. aldar. En hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur leyft sér að tala um sjávarútveginn að undanförnu er hins vegar verulegt áhyggjuefni. Sjávarútvegurinn átti að vera sú grein sem drægi vagninn út úr kreppunni. Það er óumdeilt að gera má breytingar á sjávarútvegskerfinu og hvernig þeim málum er stýrt en að forsætisráðherra hæstv. skuli ekki geta talað um þessa atvinnugrein öðruvísi en með níði, með því að uppnefna menn og kalla þá öllum illum nöfnum, fólk sem í langflestum tilvikum vinnur heiðarlega að einni mikilvægustu, hugsanlega mikilvægustu atvinnugrein landsins og grunnstoð byggðarlaga í kringum landið, og ætli síðan að koma með frumvarp sem felur í sér að sama hæstv. ráðherra sé falið algjört vald yfir öðrum ráðuneytum og væntanlega til að byrja með sérstaklega ráðuneyti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er verulegt áhyggjuefni.

Ef frumvarpið yrði samþykkt væri það til þess fallið að auka enn á óstöðugleikann sem einkennir íslensk stjórnmál nú um stundir. Óstöðugleikinn sem landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn hafa búið við að undanförnu hefur kostað þjóðina milljarða á milljarða ofan. Raunar hafa allar atvinnugreinar landsins verið í varanlegri óvissu meðan þessi ríkisstjórn hefur setið að völdum. En ef menn ætla svo að auka enn á óvissuna og óstöðugleikann í stjórnmálunum hefur það áhrif á allt annað og eykur enn á óvissuna og óstöðugleikann. Þegar menn geta ekki lengur treyst því að tiltekinn ráðherra fari með sinn málaflokk er á ekkert að treysta í samskiptum við þann ráðherra eða ráðuneyti hans. Hvað eiga þeir sem starfa í greinum sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti t.d. að gera ef þeir búa stöðugt við það að ráðherrann sem þeir þurfa að eiga samskipti við geti daginn eftir verið búinn að missa málaflokkinn eða hluta málaflokksins frá sér og einhver annar með allt aðra stefnu er tekinn við? Frumvarpið er til þess fallið að skapa og viðhalda varanlegri óvissu og algjörum óstöðugleika í stjórnmálunum á sama tíma og valdi er þjappað saman hjá forsætisráðherra.

Athygli vekur líka að með frumvarpinu er ráðist í mjög breytta túlkun á stjórnarskránni frá því sem verið hefur um áratugaskeið sem hlýtur að vekja töluverða furðu þegar ljóst er að ráðist verður í umfangsmiklar breytingar á henni. Verið er að fara yfir stjórnarskrána á ýmsum stöðum og á ýmsan hátt en á sama tíma er lagt fram nýtt frumvarp um Stjórnarráð Íslands, heil bók, þar sem vikið er frá núverandi túlkun á stjórnarskránni og ný dregin upp rétt áður en menn ætla að ráðast í að endurskoða hana.

Spurningin sem eftir stendur er því sú sem ég nefndi í upphafi: Hvers vegna nú? Hvers vegna kemur frumvarpið fram aftur núna eftir að ljóst mátti verða að engin samstaða ríkti um það? Auðvitað er sérstaklega óheppilegt að ekki skuli vera samstaða um frumvarp um Stjórnarráð landsins. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að um slíkt ríki nokkurs konar samstaða. Hvers vegna nú? Er það eingöngu vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur einsett sér að troða málinu í gegn með góðu eða illu? Eða tengist það umsóknarferlinu og aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og nýlegur fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB virðist gefa til kynna? Það er alveg ljóst að Evrópusambandinu þætti þægilegra að eiga bara við hæstv. forsætisráðherra fremur en að öll mál tilheyrðu hinum ýmsu ráðherrum, þar með talið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svo ekki sé minnst á þingið. Þjóðþing Evrópuríkjanna hafa oft á tíðum gert Evrópusambandinu og embættismönnum þar lífið leitt og ég tala nú ekki um almenning í þeim löndum sem hvað eftir annað hefur skilað niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu eða kosningum sem ekki er í samræmi við það sem ætlast var til af hálfu Evrópusambandsins. Vissulega mundi það auðvelda mönnum lífið í Brussel ef einungis væri við hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að fást enda stóð til að fagna þessum áformum sérstaklega í yfirlýsingu sem svo var dregin til baka en hafði staðið til að samþykkja í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.

Ég held að við þurfum að skoða málið frá grunni, leggja það til hliðar og vinna að breytingum á Stjórnarráði Íslands í sátt og samlyndi, reyna að ná sem víðtækastri samstöðu og að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara með öllum þessum yfirlýsingum sem til þessa hafa reynst innihaldslausar. Hún fær tækifæri núna til að sýna að einhver alvara sé að baki þegar menn segja að þeir vilji ná samstöðu um málið. Ef ekki í þessu máli hvenær þá? Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands ætti að sýna gott fordæmi en ekki að samþykkja illa unnið frumvarp um að efla framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafans. Þvert á móti á að sýna gott fordæmi með vel unnu frumvarpi sem styrkir lýðræðið og eflir stöðu löggjafans á kostnað framkvæmdarvaldsins.



[15:19]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem staðið hefur upp úr í allri þessari umræðu og síðasti ræðumaður hamrar á er tvennt: Í fyrsta lagi að það sé verið að flytja þetta frumvarp að ósk ESB, að það séu skilaboð frá Brussel um að breyta Stjórnarráðinu, og í öðru lagi að hér sé forsætisráðherra að færa sér alræðisvald.

Ég tel að hv. þingmaður sem heldur slíku fram verði að rökstyðja þetta, að hann verði að rökstyðja það, eins og hann hélt hér fram, að þetta mál varðaði hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason. Hann verður að rökstyðja það að hér sé verið að færa verkefni og vald frá öðrum ráðherrum til forsætisráðherra. Hann verður að rökstyðja það að hér sé verið að færa til og frá að vali forsætisráðherra þau verkefni sem hún vill. Ef forsætisráðherra vaknar einn morguninn og dettur í hug að færa einn málaflokk á milli ráðuneyta geti hann það sisvona eða jafnvel tekið ráðuneyti til sín og fært það til sinna ráðherra. Hvers lags bull er þetta, slíkur málflutningur? Þetta er ekki boðlegt í sölum Alþingis, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Og að ráðherra sé að flytja mál þar sem hún hafi alla aðra ráðherra á sínu bandi. Einn þingmaður hélt því hér fram að það væri gengið svo langt að forsætisráðherra væri að skapa sér einræðisvald. Þetta er fjarri sanni og ég skora á hv. þingmann að sanna það sem hann segir hér.

Því er líka haldið fram að hér séu fyrirvarar af hálfu Vinstri grænna. Gott og vel. En hlustaði hann á þá þingmenn Vinstri grænna sem héldu hér tölu í gær og töldu að það ætti að ganga lengra í mörgum tilvikum en frumvarpið gerir ráð fyrir? Staðreyndin er sú að hér er verið að styrkja stjórnsýsluna, skapa þar nauðsynlegan sveigjanleika og betri (Forseti hringir.) stjórnsýslu en við höfum. Þetta er unnið í samræmi við skýrslu meðal annars rannsóknarnefndar Alþingis og ég bið hv. þingmenn að lesa sex töluliði úr þeirri skýrslu sem finna má í frumvarpinu.



[15:21]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra biður um rökstuðning fyrir því að með þessu frumvarpi sé verið að færa aukið vald til hæstv. forsætisráðherra. Það ætti að nægja hæstv. forsætisráðherra að lesa einfaldlega eigið frumvarp vegna þess að þar er útskýrt hvernig verið er að fela hæstv. forsætisráðherra aukið vald, til að mynda er ljóst að ekki þarf að leita til þingsins þegar verkefni eru færð milli ráðuneyta eða ráðuneytin stokkuð upp. Með öðrum orðum, um hluti sem þingið hafði eitthvað að segja áður fær það ekkert að segja um núna. Þetta þýðir að verið er að taka vald frá þinginu og færa það til framkvæmdarvaldsins.

Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að það sé bull að með þessu sé verið að efla framkvæmdarvaldið á kostnað þingsins eða að þetta geti falið það í sér að verkefni verði færð frá ráðuneytunum. Ég vísa þá bara í ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem fór yfir þetta allt hér í gær. Heldur hæstv. forsætisráðherra því fram að ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn sé að bulla, fari með rangt mál, tóma vitleysu? Veit hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kannski ekkert um hvað þetta frumvarp snýst eða aðrir þeir þingmenn sem um það hafa fjallað hér í dag og í gær?

Hæstv. forsætisráðherra hélt því fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefðu komið hér upp í gær, sumir hverjir, og viljað ganga enn þá lengra. Ég veit bara um einn, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Aðrir sem um þetta töluðu gerðu verulega fyrirvara við þetta og raunar komu fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur töluverðir fyrirvarar við ýmsa þætti frumvarpsins þó að hún hafi viljað ganga lengra hvað aðra hluti varðar.



[15:23]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Veit hv. þingmaður að í sjö löndum sem við berum okkur saman við er svipað stjórnsýslu- og stjórnskipunarfyrirkomulag og við erum að koma á hér einmitt vegna sveigjanleika og hagræðingar í stjórnsýslunni og af því að menn telja að þetta sé skynsamlegra og betra fyrirkomulag? Er hægt að segja um lönd eins og Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Bretland, Írland, Þýskaland og Frakkland að þar ráði einhverjir einræðisherrar öllu þó að það sé sveigjanleiki í starfsháttum í stjórnarráði?

Auðvitað er það svo að ef breyta á verkefnum innan Stjórnarráðsins, fækka ráðuneytum eða sameina ráðuneyti, gerir forsætisráðherra það ekki einn. Hann gerir það í samráði við ráðherra í ríkisstjórn, hann gerir það í samráði við þá samstarfsflokka sem styðja hann á þingi. Þetta er auðvitað samráðsverkefni þeirra flokka sem fara með völd hverju sinni. Þannig er það bara (Forseti hringir.) en hv. þingmaður virðist ekki skilja það. Umræðan sem hér fer fram um nákvæmlega þá hluti sem frumvarpið gengur ekki út á er ótrúleg. Sú umræða sem hér fer fram gengur ekki út á efni frumvarpsins. Það er staðreynd málsins.



[15:25]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra nefnir að í sjö löndum öðrum sé við lýði sams konar fyrirkomulag. Ég efast ekki um það. Ég efast ekki um að víða er áhugi á því að færa valdið frá löggjafanum og frá almenningi og þjappa því saman og sérstaklega þó að gera Evrópusambandinu auðveldara fyrir að eiga við stjórnvöld í hverju landi, enda eru sex af þeim löndum sem hæstv. forsætisráðherra nefndi Evrópusambandslönd. Því til viðbótar er talað um Noreg en fyrirkomulagið þar er í veigamiklum atriðum frábrugðið því sem hér er lagt til og felur í sér miklu meiri valddreifingu en hér er verið að innleiða.

Svo nefnir hæstv. forsætisráðherra ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að forsætisráðherra muni að sjálfsögðu gera þetta allt í samráði við samstarfsráðherrana, samstarfsflokkinn. Hver hefur reynslan verið hvað það varðar? Hvað í sögu þessarar ríkisstjórnar gefur okkur tilefni til að ætla að hún muni með þetta vald allt í einu (Forseti hringir.) taka upp á því að fara að stunda víðtækt samráð?



[15:26]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna framsetningu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hefur brýnt til margra góðra atriða í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Það er nú svo að Samfylkingin er einhver versta sending sem lýðveldið Ísland hefur fengið í fangið frá lýðveldisstofnun. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Kveðjurnar til Alþingis og til Íslands á sínum tíma voru kunnar úr Arnarfirði. Nú koma þær úr Dýrafirði úr óvæntustu átt, því að þar hefur venjulega verið mjög gott, skynsamt verkreynt fólk og hlýtt. Það búum við ekki við í dag og þess vegna þarf að nota mannamál til að fjalla hér um ákveðna þætti.

Við viljum hafa leikreglur klárar. Við viljum hafa klárar reglur sem fólk skilur og virðir. Við viljum að málflutningurinn sé skynsamur og taki tillit til þátta. Allt okkar samfélag byggist á samkomulagi, öðruvísi er það ekki samfélag.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að brjóta niður grunninn í stjórnkerfi landsins, sá fræjum óvissu, tortryggni og kvíða. Það er ljóst að alltaf má bæta en þetta fyrirkomulag byggist á því að fjandinn sé laus og það hefur ekki reynst gott í myrkviði okkar fortíðar þegar menn trúðu á drauga og forynjur. Það á að vera liðin tíð.

Ég vil spyrja hv. þingmann um leið og ég deili með honum áhyggjum af trausti á Samfylkingunni: (Forseti hringir.) Er ekkert jákvætt sem hann getur séð við Samfylkinguna?



[15:28]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það má sjá eitthvað jákvætt í öllum og ef hv. þingmaður hefði gefið mér smáfyrirvara hefði ég getað fundið til einhver jákvæð atriði til að nefna um Samfylkinguna eins og aðra. Það sem er áhyggjuefni við þetta frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands er að það er ekki til þess fallið að draga fram það jákvæða í Samfylkingunni eða öðrum. Þvert á móti, það er til þess fallið að ýta undir hið neikvæða.

Það er gamalkunnug setning að vald spilli og að algjört vald spilli algjörlega og því er þetta frumvarp einmitt svo mikið áhyggjuefni. Vegna þess að þegar valdinu er þjappað saman á einn stað er það ekki til þess fallið að draga fram það góða í viðkomandi heldur miklu frekar að ýta undir hið neikvæða.

Ég verð reyndar að gera þann fyrirvara að það getur vel verið að þetta gæti í sumum tilvikum hentað ágætlega. Sumar ríkisstjórnir gætu farið mjög vel með þetta vald og jafnvel, ef ríkisstjórn væri nógu góð, mundi það ýta undir skilvirkni frekar en hitt vegna þess að þá þyrfti ekki að verja jafnmiklum tíma í að hlusta á, hvað eigum við að segja, rangar skoðanir. En við getum ekki hannað kerfi sem gengur út á það að valdhafinn sé alltaf með réttu skoðanirnar og þurfi þar af leiðandi ekkert að hlusta á þær röngu. Við vitum ekki hvort valdhafi hverju sinni er með rangar skoðanir eða réttar, hvað þá í framtíðinni. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að kerfið sé til þess hannað að valdi sé dreift en líka að sérstaklega sé hugað að stöðu löggjafarvaldsins, hinna kjörnu fulltrúa, gagnvart framkvæmdarvaldinu.



[15:30]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra gleymi alltaf eða skilji ekki eða vilji ekki skilja að Íslendingar eru veiðimannasamfélag. Og þó að Evrópusinnarnir hér hlæi í salnum, sem hafa hlotið bakteríuna í Brussel, mega þeir gera það, en þetta er ekkert gamanmál. Íslendingar eru eina veiðimannasamfélagið í Evrópu, það er okkar sérstaða, (Gripið fram í.) eina sjálfstæða veiðimannasamfélagið í Evrópu. (Gripið fram í: Er það gott?) Það eru hlunnindi fyrir okkur, já, og meðal annars sá hv. þingmaður sem hér greip fram í hefur lifað á því og verið dekraður á því kerfi og komist til manns vegna þess að sjávarútvegurinn hefur skilað auði inn í samfélagið til þess að mennta og bæta.



[15:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Johnsen endaði andsvar sitt á að leggja áherslu á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt samfélag. Það ætti náttúrlega að vera óumdeilt. Það er einfaldlega staðreynd sem ætti að blasa við hverjum sem er. Hins vegar gefur ekkert í þessum áformum ríkisstjórnarinnar eða fyrri tilraunum til að losna við ráðuneyti sjávarútvegsins, ég tala nú ekki um hvernig hæstv. forsætisráðherra talar um þessa grein, til kynna að ráðherrann geri sér grein fyrir mikilvægi þessarar atvinnugreinar.

Þó að við viljum að sjálfsögðu auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs verðum við að standa vörð um grunnatvinnuvegina vegna þess að sterkir grunnatvinnuvegir eru forsenda þess að upp úr þeim spretti nýjar atvinnugreinar, ekki hvað síst á sviði (Forseti hringir.) rannsókna og þróunar.



[15:33]
Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég ætlaði að beina fyrirspurn til hans varðandi pappíra sem leggja átti fyrir sameiginlega þingmannanefnd íslenskra þingmanna og Evrópuþingmanna. Í andsvari hæstv. forsætisráðherra var mjög vitnað í að frumvarpið fæli ekki í sér aukið foringjaræði og forræðishyggju og forsætisráðherra kom inn á að það hefði verið unnið mjög faglega af nefndum og þeim sem starfað hefðu undir forsætisráðuneytinu. Í Dagblaðinu 10. maí 2010, fljótlega eftir að ein af þessum skýrslum kom út, ritaði hæstv. innanríkisráðherra, sem hefur lýst efasemdum um frumvarpið, grein þar sem sagði, með leyfi herra forseta, um þessar skýrslur:

„En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forystuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“, aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt; yfirvald beri að styrkja.“

Auðvitað talar þarna maður sem hefur kynnst þessu af eigin raun eftir að hafa verið vikið úr ríkisstjórn vegna Icesave-samkomulagsins.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann finni fyrir því innan Framsóknarflokksins að frumvarpið njóti mikils stuðnings og meðvinds og hvort mikið samráð hafi verið haft við Framsóknarflokkinn og forustu hans eða þingmenn eftir atvikum þegar frumvarpið var samið og hvort hann telji að í frumvarpinu, eins og það er uppsett núna, (Forseti hringir.) sé brugðist við þeirri gagnrýni sem fram kom í rannsóknarskýrslu Alþingis eða ekki.



[15:35]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi hæstv. innanríkisráðherra og greiningu hans á frumvarpinu. Það má taka undir mjög margt af því sem þar kom fram, líklega flest eða allt, og bætist þá ræða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við það sem ég nefndi áðan. Hæstv. forsætisráðherra virtist ekkert kannast við að neitt af því sem hæstv. ráðherrar hafa gagnrýnt væri að finna í frumvarpinu. Þá hlýtur maður að spyrja: Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki kynnt sér eigið frumvarp eða er hæstv. forsætisráðherra að saka eigin ráðherra um að fara með rangt mál, vera að bulla, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það hér áðan?

Hvað varðar samráð um frumvarpið við Framsóknarflokkinn, eða mig sérstaklega, þá hefur það ekkert verið. Það er óneitanlega sérkennilegt, í ljósi allra yfirlýsinganna, bæði fyrir kosningar og síðustu tvö ár, frá ríkisstjórninni og forustu hennar, um að byggja þurfi á samráði og samstöðu. Svo er lagt fram frumvarp um breytingar á sjálfu Stjórnarráði Íslands og gert algjörlega án samráðs við aðra flokka, líklega án samráðs við marga í stjórnarliðinu.

Loks varðandi tilgang þessa frumvarps og hvernig það er sett fram í tengslum við umræðuna um efnahagshrunið og mikilvægi þess að bæta stjórnsýsluna þá þurfum við að hafa hugfast að krísutímar eru alltaf hættutímar í stjórnmálum. Á slíkum tímum þarf að fylgjast alveg sérstaklega með stjórnvöldum, þeim sem fara með valdið, og gæta þess að þeir noti ekki krísuna, vandamálið, sem afsökun fyrir því að innleiða ranga eða óheppilega stefnu. Það er það sem ég óttast að sé að gerast hér, að verið sé að nota krísuna, efnahagshrunið, til að innleiða mjög varasamar breytingar.



[15:37]
Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur þá komið fram hér að ekki hefur verið haft samráð við framsóknarmenn hvað þetta snertir. Það kom fram í umræðunni í gær að ekkert samráð var haft við sjálfstæðismenn hvað þetta mál snertir heldur þannig að lítið fer fyrir því samráði sem talað er um og hefur verið kynnt mjög víða.

Af því að hv. þingmaður kom hér inn á hvað hæstv. innanríkisráðherra hefði sagt um þetta mál og fór síðan að ræða um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá brá manni nokkuð í gær þegar hæstv. landbúnaðarráðherra greindi frá því að hann hefði verið á fundi með samráðherrum sínum í Danmörku og vildi ræða þar landbúnaðarmál en þá hefði mikill vandi verið uppi og hringlandaháttur því að menn höfðu ekki hugmynd um hvar landbúnaðarmálin voru vistuð á þeirri stundu vegna mikilla breytinga.

Er hv. þingmaður ekki sammála því að þegar ráðist er í breytingar sem þessar þurfi að grundvalla þær mjög vel og vinna (Forseti hringir.) þær á lengri tíma og í sátt við alla?



[15:39]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef einhvers staðar ætti að leita eftir samráði og víðtækri sátt hlyti það að vera í málum sem þessum sem snúa að því hvernig stjórnkerfi okkar er byggt upp. Hv. þingmaður nefndi þá undarlegu stöðu sem kom upp í Danmörku þegar enginn virtist átta sig á því hver væri landbúnaðarráðherra. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því reyndar í andsvari hér áðan að ein af rökunum fyrir ágæti þessa frumvarps væru þau að sams konar fyrirkomulag hefði verið innleitt annars staðar, meðal annars í Danmörku. En þar virðist það hafa leitt til þess að það var óljóst hver væri landbúnaðarráðherra og er þó landbúnaður mjög mikilvæg atvinnugrein í Danmörku. Danir flytja út gríðarlega mikið af landbúnaðarvörum, ekki hvað síst smjöri og svínakjöti og eru miklir hagsmunir þar í húfi. En með þessu fyrirkomulagi sem hæstv. forsætisráðherra lofar svo mjög gat sú staða samt komið upp að enginn vissi hver væri landbúnaðarráðherra.



[15:40]Útbýting: