139. löggjafarþing — 120. fundur
 10. maí 2011.
skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, 1. umræða.
stjfrv., 741. mál (afnám greiðslumiðlunar, innheimta félagsgjalda). — Þskj. 1272.

[15:46]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1272, sem er 745. mál þingsins. Um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, lífeyrissjóði og tryggingafélög. Með frumvarpinu er lagt til að veigamiklar breytingar verði gerðar á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Lagt er til að greiðslumiðlun vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga verði aflögð í núverandi mynd en mælt verði fyrir um tiltekið hagræði við innheimtu félagsgjalda til hagsmunasamtaka smábátaeigenda, þ.e. eigenda opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta. Með frumvarpinu er lagt til að allur II. kafli laga nr. 24/1986 falli brott en þar er fjallað um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Ég tel rétt vegna samhengis að gera í fáum orðum grein fyrir þeim ákvæðum. Um er að ræða ákvæði um greiðslumiðlun sem greina má í tvær deildir. Annars vegar er greiðslumiðlun fjár sem nemur 8% af öllu hráefnisverði sjávarafurða stærri báta, skv. 1. mgr. 5. gr. laganna, og hins vegar greiðslumiðlun fjár sem nemur 8,4% af hráefnisverði sjávarafla smábáta, skv. 6. gr. laganna. Líkar reglur gilda um innheimtu greiðslumiðlunarfjár í báðum deildum en það skal inna af hendi innan 14 daga frá því að fiskur er afhentur. Sérreglur eru um umboðssölu sjávarafla, sölu á ísfiski í erlendri höfn og skip sem vinna og frysta afla um borð. Við veðsetningu framleiðslunnar til töku afurðaláns hjá viðskiptabanka ber að tryggja rétt skil á greiðslumiðlunarfé samkvæmt nánari reglum. Réttur til lögtaks eða fjárnáms, án undangengins dóms eða sáttar, fylgir kröfu um greiðslu fjárins.

Greiðslumiðlunarfé stærri báta samkvæmt lögunum kemur á tvo staði. Af því er 80% ráðstafað inn á vátryggingarreikning, sem svo er kallaður, hvers skips hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og fer um nánari ráðstöfun þess samkvæmt lögum nr. 17/1976, um greiðslu vátryggingargjalda fiskiskipa. Lögin mæla fyrir um skyldu Landssambands íslenskra útvegsmanna til að skila andvirðinu, mánaðarlega, til viðkomandi tryggingafélags enda liggi fyrir samkomulag um vátryggingar fiskiskipa og skal endurgreiða skipseiganda eigi síðar við árslok þá greiðslu umfram vátryggingargjald. Þeim 20% sem eftir standa af greiðslumiðlunarfé stærri báta er ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa, sem svo er kallaður, hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Lífeyrissjóðurinn skal skipta þessu fé mánaðarlega í tilteknum hlutföllum milli lífeyrissjóða sjómanna og hagsmunafélaga og útvegsmanna.

Greiðslumiðlunarfé smábáta, þ.e. opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta, skal samkvæmt lögunum ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta, sem svo er kallaður, hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Lífeyrissjóðurinn skal skipta fénu mánaðarlega í tilteknum hlutföllum til lífeyrissjóða sjómanna, greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja og Landssambands smábátaeigenda. Landssamband smábátaeigenda hefur með höndum umsjón með ráðstöfun tryggingarfjárins með líkum hætti og áður var getið varðandi Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Verði frumvarp þetta að lögum verður framangreind greiðslumiðlun í sjávarútvegi vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga hins vegar aflögð og Landssamband íslenskra útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda munu ekki njóta sjálfkrafa lögákveðins framlags samkvæmt lögunum. Enn verði þó gert ráð fyrir tiltekinni valkvæðri greiðsluskyldu til Landssambands smábátaeigenda í formi félagsgjalda. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að nýr kafli bætist við ákvæði laganna sem ber heitið Framlag til hagsmunasamtaka útgerðarmanna með einni nýrri grein sem verði 12. gr. A. Þar kemur fram að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur, svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, skulu greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum, inn á reikning hagsmunasamtaka útvegsmanna, t.d. Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, enda hafi útvegsmaður eða hagsmunasamtök útgerðarmanna fyrir hans hönd óskað eftir því að svo verði gert.

Einnig er þar gert ráð fyrir að hagsmunasamtök útgerðarmanna skuli láta framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum í té skrá yfir þá útgerðarmenn sem hafa óskað þess að greiða gjald samkvæmt greininni inn á reikning þeirra. Enn fremur er í frumvarpinu ákvæði um gerð skrárinnar, heimild til að birta hana á netinu, heimildir útgerðarmanna til að segja sig frá skránni, ráðstafanir sem skal gera við veðsetningu afla o.fl. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sambærileg skylda hvíli á þeim sem taka fisk í umboðssölu. Með framangreindu er stefnt að því að innheimta gjaldsins verði skilvirk og einföld í framkvæmd en áréttað skal að þeir útgerðarmenn sem svo kjósa eru ekki skyldir til að greiða framlagið.

Að lokum er gert ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að heiti laga nr. 24/1986 verði breytt á þann veg að það verði framvegis Lög um skiptaverðmæti, enda er eins og áður segir gert ráð fyrir að ákvæði þeirra um greiðslumiðlun falli niður.

Frú forseti. Eins og gerð hefur verið grein fyrir að framan felst í frumvarpinu að lagt er til að greiðslumiðlun í sjávarútvegi vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga verði aflögð. Með frumvarpinu er þó einnig lagt til að í stað beinnar greiðsluskyldu til Landssambands smábátaeigenda komi ákvæði sem skyldi fiskkaupendur til að greiða hluta af aflaverðmæti til hagsmunafélaga smábátaeigenda sem eiginlegt félagsgjald en sama gildir um þá sem taka fisk í umboðssölu. Um er að ræða valkvæða greiðsluskyldu í báðum tilvikum.

Megintilgangur þessa frumvarps er að tryggja að lög nr. 24/1986 samþýðist réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og rétt til að standa utan félaga. Breytingar á lögunum í þessu tilliti hafa verið til umræðu síðan umboðsmaður Alþingis lét í té álit frá 12. apríl 2002 í máli nr. 3204/2001. Þá má geta þess að Landssamband íslenskra útvegsmanna lagði fyrst til árið 2005 að greiðslumiðlun samkvæmt lögum nr. 24/1986 yrði afnumin. Enn má geta þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið átti aðild að starfshópi forsætisráðherra um gjaldtöku í þágu félagasamtaka sem skilaði ítarlegri skýrslu í árslok 2006. Með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2010 í máli nr. 504/2008 varð enn ljósara en áður að þörf er breytinga á fyrirkomulagi greiðslumiðlunar. Í IV. kafla athugasemda við frumvarpið er nánari grein gerð fyrir tildrögum frumvarpsins með hliðsjón af réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Verði frumvarpið að lögum munu ákvæði laga nr. 24/1986 samþýðast réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda felst í frumvarpinu að greiðsluskylda sem þar er gert ráð fyrir vegna hagsmunafélags smábátaeigenda verði valkvæð. Ekki er með frumvarpinu mælt fyrir um hagræði við öflun félagsgjalda til Landssambands smábátaeigenda enda þykja ekki standa sömu rök til að tryggja því félagi greiðsluhagræði og í tilviki hagsmunafélags smábátaeigenda. Ástæður þess eru þær er að gjaldendur eru mun færri og félagið hefur allt frá árinu 2005 mælst til þess að greiðslumiðlun verði afnumin að öllu leyti.

Ómögulegt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á starfsemi félaganna enda ekki fyrirséð hvort félögum í þeim muni fækka af þessum ástæðum. Þá er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan lög nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, öðluðust gildi í maí 1986. Almenn ákvæði laga á sviði vinnuréttar og tryggingaverndar verða talin geta leyst af hólmi þær sérreglur sem lagt er til að falli brott með frumvarpi þessu.

Í athugasemdum við frumvarpið er m.a. gerð grein fyrir ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en þar er kveðið á um að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sé rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Einnig er í athugasemdunum gerð grein fyrir ákvæðum laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þar sem fram kemur að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins, sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni. Enn fremur kemur þar fram að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum er kjarasamningar greina. Atvinnurekendur í sjávarútvegi falla að sjálfsögðu undir þessi ákvæði.

Þá er í athugasemdunum fjallað um lög nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna, þar sem fram kemur sú meginregla að óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm en skilyrði slíkrar skráningar eru m.a. að fyrir liggi yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um fullnægjandi líf- og slysatryggingu skipverja. Samkvæmt þessu eru ætíð fyrir hendi tryggingar við slys á fiskiskipum og fiskibátum. Ekki eru því nú sömu ástæður og áður fyrir greiðslumiðlun í sjávarútvegi.

Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að sett verði ákvæði í lögin sem geti ýtt undir tryggari heimtur á framlagi til Landssambands smábátaeigenda. Réttlæting þess er það mikilsverða starf sem Landssamband smábátaeigenda hefur unnið á síðustu árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvæði þessi gildi um önnur sambærileg félög útvegsmanna.

Rétt þykir að mæla fyrir um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2012. Með því er gefinn hagkvæmur aðlögunarfrestur vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem felast í lögunum. Til þess að framkvæma þau þarf aðkomu atvinnugreinarinnar, tryggingafélaga, lífeyrissjóða, viðskiptabanka, fisksala og stjórnvalda.

Á fylgiskjali með frumvarpinu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og vísa ég til hennar. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlegar fjallað um einstaka efnisþætti þess og gerð grein fyrir þeim.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.



[16:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það kom berlega í ljós í máli hæstv. ráðherra að hér er fyrst og fremst verið að bregðast við hæstaréttardómi sem féll 18. október 2010 og hæstv. ráðherra fjallaði ítarlega í ræðu sinni um þessi lög sem við erum að ræða um að breyta, þ.e. breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun og að í raun og veru sé nánast verið að fella út greiðslumiðlunarhlutann innan þeirra laga. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það því að sá hluti hefur ekki virkað sem skyldi. Ég fagna því sérstaklega að það sé verið að stíga það skref.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það í ræðu sinni og eins kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu að það eru í raun og veru tryggari heimtur fyrir Landssamband smábátaeigenda sem fylgja þessu frumvarpi. Samkvæmt frumvarpinu munu þeir sem kaupa aflann, annaðhvort beint eða af fiskmarkaðnum sem selja hann í umboðssölu eða þeir sem flytja hann út ferskan, þá greiða 0,5% til viðkomandi félags með leyfi útgerðarmannsins eða þess sem hefur umráðarétt yfir bátnum. Það þykir mér mjög fínt. Mér finnst í raun að það sem haldið er inni úr greiðslumiðluninni sé eingöngu gert til þess að tryggja að það sé gert með þessum hætti.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Kom ekki til tals að sleppa því bara alveg og hafa þá meiri trú á því að menn sem eru í ákveðnum félagsskap, hvort sem hann er Landssamband smábátaeigenda eða hver hann er, standi bara skil á aðildargjöldum sínum?



[16:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, vissulega kom til greina að fella alveg út þau tengsl sem hið opinbera ætlaði þá að hlutast til um. Viðkomandi félag skal halda nákvæma skrá yfir hvaða aðila er um að ræða. Hún skal liggja frammi hjá þeim sem óskað er eftir að gjaldið sé innheimt hjá. Það verður að ríkja traust á því að skráin sé rétt og að fyrir liggi skrifleg ósk viðkomandi um að þetta sé gert með réttum hætti.

Ég tel það vera skynsamlegt í erfiðri stöðu, þröngri stöðu. Ég vil t.d. minna á að Landssamband smábátaeigenda og önnur slík félög sem eru með fjölda manns innan borðs vinna í rauninni með beinum eða óbeinum hætti oft að málum sem snerta almannahag, ekki bara einstakra félagsmanna og hag ríkisins, heldur hag greinarinnar og framkvæmd stjórnsýslumála þó að það sé ekkert skilgreint eða lögbundið hlutverk þeirra á öllum sviðum. Þess vegna er það tillaga mín að þeim valkvæða möguleika sé haldið inni.

Það er afstaða mín, frú forseti, en eðlilega geta verið skiptar skoðanir um það þótt svo það sé lagt til afdráttarlaust í frumvarpinu.



[16:06]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins og ég skil frumvarpið geta menn valið hvort þeir láta fiskkaupandann greiða gjaldið fyrir sig eða hvort þeir borga það sjálfir. Mér finnst það vera mjög jákvætt vegna þess að eins og þetta er nú, svo vitlaust sem það er, þurfa menn að borga 8,4% af brúttóveltu fyrirtækjanna í eitthvert púkk. Svo er greitt þar í lífeyrissjóði, í tryggingafélög og þar fram eftir götunum. Það er allt fullt af óskyldum aðilum sem ávaxta og njóta fjármagns þeirra sem afla þess. Það er vonlaus staða.

Ég vil hins vegar gera smá athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvörum, ég geri mér fulla grein fyrir því að Landssamband smábátaeigenda vinnur starf sitt eins og til er ætlast af félagsmönnum. Það gera að sjálfsögðu önnur félög líka, hvort heldur LÍÚ eða önnur. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni að Landssamband íslenska útvegsmanna hefur bent á það alveg frá 2005 að leggja þetta niður. Ég lít svo á, og ég vil fá það staðfest af hæstv. ráðherra hvort ég skilji það ekki örugglega rétt, að þó að þessi lög taki gildi sé það alveg skýrt að það verður að vera fyrir hendi samþykki þess aðila sem landar fiskinum fyrir því að hann greiði gjald til Landssambands smábátaeigenda. Hann getur líka sleppt því af því að félagsaðildin er frjáls. Ég vil að það komi alveg skýrt fram. Ég held að sé ekki hægt að misskilja það. Ég vil fá það alveg skýrt fram hvort hæstv. ráðherra skilur það ekki nákvæmlega eins og ég.



[16:08]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur fram í frumvarpinu að það er svo. Hins vegar vil ég árétta þau sjónarmið mín að við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm og halda því vel til haga að félagsskapur hóps hagsmunaaðila eða launþegar hvar sem er eigi að njóta lagalegrar verndar frekar. Landssamband smábátaeigenda, sem hér er nefnt af því þessi breyting snertir sérstaklega starfsemi þeirra, og önnur félög sem vinna á viðlíka vettvangi halda utan um réttindi og skyldur og fjölþætta almannahagsmuni viðkomandi greinar. Við eigum heldur að reyna að stuðla að því að svo sé frekar en leggja áherslu á að allir hafi rétt til að standa utan félaga.

Ég vil árétta að það er persónulegt sjónarmið mitt, en í ljósi þeirra dóma, laga og athugasemda sem fram hafa komið varðandi mál af þessum toga verður að flytja frumvarp sem kveður á um þessar breytingar. Þær kveða á um, eins og hv. þingmaður gat um, að þetta sé fellt út en sé það hins vegar alveg óvefengjanleg, skrifleg ósk viðkomandi og viðkomandi félags að þetta gangi svona fyrir sig er heimilt að hafa það þannig.



[16:10]Útbýting:

[16:11]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka sérstaklega undir einn þátt í ræðu hæstv. ráðherra, það varðar það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvörum sínum áðan: Við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm. Nú vildi ég óska þess að hæstv. ráðherra tileinkaði sér það hugarfar sem oftast. Ég vildi óska þess að hann hefði þetta lífsmottó, sem hann setti svona afdráttarlaust fram í andsvari áðan, í huga nú þegar hann er að stauta yfir nýju lagafrumvarpi um stjórn fiskveiða.

Það frumvarp sem við ræðum hér á sér alllangan aðdraganda eins og kemur raunar fram í athugasemdum sem í því eru raktar. Fyrst vakti umboðsmaður Alþingis á því athygli á árinu 2001 að það fyrirkomulag sem verið hefði við lýði varðandi greiðslumiðlun og skiptaverðmæti innan sjávarútvegsins stangaðist á við stjórnarskrána. Hvaða skoðun sem við höfum á því máli að öðru leyti er ljóst að ekki er hægt að veita neinn afslátt frá því. Sé það þannig að lög stangist á við stjórnarskrána er ekki nema tvennt að gera; breyta stjórnarskránni eða lögunum. Við erum löggjafi. Við förum hins vegar ekki með stjórnarskrárvaldið þannig að þá er eðlilegt að farið sé í að skoða hvernig bregðast eigi við þessari ábendingu ef tilefni er á annað borð til. Orð umboðsmanns eru í sjálfu sér ekki lög, þau eru ábending, álit, og þess vegna var á þeim tíma ákveðið að setja niður hóp fólks úr nokkrum ráðuneytum sem málið varðaði til að fara yfir umrætt álit umboðsmanns, skoða hvort það kynni að vera rétt og reyna að átta sig á því hvernig eðlilegast væri að bregðast við.

Við ræðum hér þann afmarkaða þátt sem snýr að lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og það er það mál sem við höfum til umfjöllunar.

Umrædd nefnd skilaði áliti í árslok 2006 og staðfesti það álit umboðsmanns Alþingis að þessi löggjöf færi á svig við stjórnarskrána. Þess vegna var farið að skoða hvernig eðlilegast væri að setja ákvæði í lög sem tæki þá mið af því að við hefðum löggjöf sem væri að fullu í samræmi við stjórnarskrána. Ég ítreka að það er ekki neinn kostur, enginn valkostur eins og stundum er sagt, í stöðunni að setja löggjöf sem væri nokkurn veginn í samræmi við stjórnarskrána. Við verðum að setja löggjöf sem væri þá í samræmi við stjórnarskrána. Það er verkefni okkar þingmanna. Það er það sem við gerum við upphaf þingferils okkar að undirrita heit að stjórnarskránni. Það þarf í sjálfu sér ekki að ræða það.

Ýmis álitamál komu hins vegar upp. Í fyrsta lagi hvernig slík löggjöf ætti þá að líta út. Í öðru lagi var það heilmikið vandamál að reyna að samræma umrædda ábendingu umboðsmannsins og eftir atvikum nefndarinnar sem ég var að vísa til og reyna að verja að til staðar væru alvöruhagsmunasamtök í sjávarútvegi sem ég er sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að er mikilvægt. Fyrir því eru margvísleg rök. Þó ekki væri annað en að horfa til hagsmuna framkvæmdarvaldsins og Alþingis þá skiptir það líka miklu máli fyrir okkur að geta rætt við heildarsamtök sjómanna, útvegsmanna, smábátaeigenda eða annarra þeirra sem málið varðar.

Í þessu ferli varð það niðurstaða sjómannahreyfingarinnar, ef ég má orða það svo — Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambands Íslands, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og LÍÚ — að hægt væri að leggja af þetta fyrirkomulag með öllu og innheimta félagsgjöldin til þessara hagsmunasamtaka sjómanna á annan veg en gert er ráð fyrir í þessum lögum. Í raun var ekki mikill ágreiningur um að það fyrirkomulag að innheimta sérstakt gjald af útgerðinni til að borga í lífeyrissjóðina eða í tryggingafélögin væri úrelt. Að vísu voru uppi sjónarmið um að skynsamlegt væri og gott að gera það með einhverjum miðlægum hætti, en ég get í sjálfu sér ekki fallist á það. Það er lítill vandi fyrir þá sem standa í atvinnurekstri og sjálfsögð skylda að þeir standi skil af lífeyrisgreiðslum og síðan líka til lögbundinna trygginga. Það er bara hluti af því að reka fyrirtæki og í sjálfu sér þarf ekki mikil afskipti ríkisvaldsins til að tryggja að þeir sem gera út borgi lögbundnar tryggingar eða borgi í lífeyrissjóð eins og lög gera ráð fyrir.

Stóra vandamálið var að finna aðferð til að tryggja að við værum ekki að veikja hagsmunasamtökin þannig að þau stæðu nánast óvíg eftir. Það var verkefnið sem menn stóðu frammi fyrir. Eftir stóð þá, þegar sjómannasamtökin og LÍÚ höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þeirra vegna þyrfti ekki að hafa þessa löggjöf, að út af fyrir sig þurfti að takast á við þetta verkefni sem sneri að smábátasjómönnunum. Það er það sem ég hygg að hafi verið verkefni sem menn voru að glíma við og afraksturinn er umrætt frumvarp.

Í sjálfu sér má velta aðferðafræðinni fyrir sér eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi áðan. Ég vil líka árétta þær spurningar sem fram hafa komið. Nú er gert ráð fyrir því, eins og hæstv. ráðherra segir, að þetta sé valkvætt. Það er þá þannig að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur halda eftir ákveðnu hlutfalli af aflaverðmæti og greiða til hagsmunasamtaka útvegsmanna, þ.e. Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, þ.e. hagsmunasamtaka báta sem eru undir útgerðum sem gera út báta undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum. Það vekur athygli í þessu máli að um er að ræða mjög sértæka löggjöf. Hún tekur eingöngu til þessa útgerðarflokks.

Ég hef undir höndum bréf sem Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasamtökin, þ.e. Félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasambandið, auk Samtaka atvinnulífsins, skrifuðu hæstv. ráðherra í byrjun þessa árs, 26. janúar sl., þar sem þeir finna að ýmsu í sambandi við undirbúning málsins og eru ósammála þeirri nálgun sem var í frumvarpinu sem hafði verið kynnt þeim á því stigi málsins. Þeir segja hins vegar líka sem svo, það má kannski segja að það sé ósk þeirra til þrautavara eða vara, með leyfi virðulegs forseta:

„Verði ekki fallist á það“ — þ.e. verði ekki einfaldlega fallist á að fella burtu þessa umræddu grein frumvarpslaganna — „er þess farið á leit að umrædd 3. gr.“ — sem hér er þá væntanlega orðin 2. gr. — „nái með sama hætti til skyldu fiskkaupenda og þeirra sem taka sjávarafurðir í umboðssölu til að greiða hlutfall af samanlögðu hráefnisverði þess afla sem þeir taka við inn á reikninga Landssambands íslenskra útvegsmanna, VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Sjómannasambandsins.“

Nú vaknar þessi spurning: Úr því á annað borð er farið inn á þær leiðir að búa til þetta valkvæða kerfi, sem gert er ráð fyrir að nái eingöngu til báta sem eru undir 10 tonnum eða 10 lestum og krókaaflamarksbáta, hvers vegna var þessi leið ekki farin almennt, að opna þessa heimild almennt þannig að menn gætu þá farið þessa leið gagnvart hagsmunasamtökum sjómanna og öðrum hagsmunasamtökum útvegsmanna? Það má segja sem svo að kannski hafi ekki verið þörf á því vegna þess að það er ekki krafa eða ósk frá þessum hagsmunasamtökum að þetta fyrirkomulag, hálfþvingaða fyrirkomulag, sé til staðar. En ég vil samt sem áður vekja athygli á því að það er dálítið sérkennilegt að búa til löggjöf sem hefur þetta í för með sér, en nær eingöngu til hluta útgerðanna. Af hverju er löggjöfin bara ekki höfð almennari?

Í öðru lagi vil ég segja þetta: Það hefur ýmislegt gerst í þessari umræðu og engin spurning að kröfur í lögfræðilegri túlkun, t.d. á hugmyndinni um félagafrelsi, hafa orðið meiri og segja má að túlkunin hafi orðið þrengri. Á sínum tíma féll hæstaréttardómur sem dæmdi svokallað iðnaðarmálagjald ógilt, en síðan var þessu máli vísað til Evrópudómstóls sem komst að þeirri niðurstöðu að þetta gjald stæðist ekki, ef ég man þetta rétt. Túlkunin hefur með öðrum orðum orðið þrengri.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað af hálfu ráðuneytisins eða lögfræðilegra ráðgjafa þess hvort sú aðferðafræði sem hér er notuð sé í samræmi við þá þröngu túlkun sem orðið hefur ofan á núna upp á síðkastið. Það er enginn vafi á því að ef við hefðum skoðað þetta fyrir 10 árum hefði varla þurft að ræða þetta, þessi túlkun hefði örugglega verið í samræmi við það sem þá var efst á baugi. En spurningin er hvort þetta standist miðað við þá þröngu túlkun sem við þekkjum núna.

Í þriðja lagi langar mig að víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og í orðaskiptum hans og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hér er kveðið á um það þegar framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur taka þessi 0,5% af samanlögðu verðmæti afla og ráðstafa því til Landssambands smábátaeigenda eða annarra hagsmunasamtaka. Setjum dæmið upp.

Ímyndum okkur að einhver útgerðarmaður smábáts undir 10 tonnum eða krókaaflamarksbáts kjósi einfaldlega að gera þetta ekkert og skrifi ekki undir neina beiðni um að þessi 0,5% af aflaverðmætinu séu tekin til þessarar ráðstöfunar. Þá vil ég spyrja: Með hvaða hætti gerist það? Hvað gerist þá? Er það þá þannig að viðkomandi er ekki lengur félagi í einhverjum af þessum félögum eða samtökum? Ef svo er, gerir hann þá einfaldlega beint og milliliðalaust upp við þessi félög og samtök án atbeina þessa sjóðs?

Það er mikilvægt fyrir okkur að átta okkur þessu. Ég velti því líka fyrir mér hvernig þetta muni gerast í praktíkinni. Er það þá þannig að viðkomandi hagsmunasamtök leita til útvegsmanna sem hafa starfað innan þeirra vébanda og óska eftir því að þeir fari fram á slíkt og þá við hvern? Er það þá við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem slík ósk er borin upp? Eða hvernig gerist þetta?

Það má kannski segja að hluta af þessum spurningum fáum við svarað þegar við förum yfir málið í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Engu að síður eru þetta spurningar sem vakna og væri gott ef hæstv. ráðherra gæti á þessu stigi málsins farið einhverjum orðum um þetta.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mikið fleiri orð um frumvarpið. Ég skil vel aðdraganda þess og átta mig á því hvernig það er tilkomið og ég hef farið yfir það í örstuttu máli hver bakgrunnur málsins er. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt í siðaðra manna samfélögum að við höfum bærilega öflug hagsmunasamtök. Hæstv. forsætisráðherra opnar helst aldrei munninn um sjávarútveginn öðruvísi en að uppnefna tiltekin hagsmunasamtök, ég tek ekki undir slíkt. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi tileinkað sér þann leiða sið hæstv. forsætisráðherra og ég er sammála honum um að það er óþarfi að vera með slíka fyrirlitningu í garð hagsmunasamtaka. Ég skil því vel að menn vilji ganga þannig frá málum að hagsmunasamtökin séu bærilega öflug og séu til staðar. Við þurfum að nálgast lagasetninguna í ljósi þess.

Fyrsta spurningin sem við verðum engu að síður að svara, það er stóra spurningin sem við hljótum að fara mjög rækilega yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, og kalla til okkar sérfræðinga á því sviði, er þessi: Erum við örugglega að róa fyrir allar víkur, svo að ég noti nú orðalag hæstv. utanríkisráðherra? Er það örugglega tryggt að með þessu uppfyllum við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um félagafrelsi? Það er það sem við þurfum að gera, jafnframt því að reyna að átta okkur á því hvernig þessi löggjöf á að vera.

Ég ítreka að mér finnst nokkuð sérkennilegt að löggjöfin sé sett fram á þann hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Við fyrstu sýn tel ég eðlilegt að skoða það mjög vel að verði þessi leið farin á annað borð, þessi valkvæða leið, sé heimildin höfð víðtækari og nái þá til fleiri útgerðarflokka.



[16:26]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir greinargott yfirlit, enda hefur hann sjálfsagt þekkt málið enn lengur en ég, einstaka þætti þess. Það er mér ekkert persónulegt kappsmál að ein eða önnur útfærsla verði ofan á í þessu sambandi en við verðum að sjálfsögðu að fylgja þeim leiðbeiningum sem úrskurðir hafa verið kveðnir upp um og varða stjórnarskrána — og ég legg þetta til varðandi Félag smábátaeigenda og aðra slíka sem þar gætu fallið undir.

Það er mitt mat að menn geti orðið aðilar að félagasamtökum og þá bara greitt beint án þess að hafa milliliði í því. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er ekki með neina milligöngu í þessum efnum og hefur ekki verið, og ekki er gert ráð fyrir því í þessu, heldur hefur viðkomandi félag þá sent lista til viðkomandi aðila sem sjá um innheimtu á gjaldinu og hann liggur þar fyrir.

Í öðru lagi varðandi bréf sem hv. þingmaður minntist á að hefði verið sent af hagsmunaaðilum til ráðuneytisins þá var það í tengslum við frumvarpsdrög sem litu allt öðruvísi út í grundvallaratriðum, þá var gert ráð fyrir því að gjaldinu væri haldið eftir nema menn segðu sig frá þessu. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt til verða menn hins vegar að hafa sent inn skriflega ósk eða staðfestingu á að þeir vilji hafa þessa tegund af innheimtu á og aðild að henni. (Forseti hringir.) Það er meginmunur á þessu og ég held að ef það hefði legið fyrir hefðu athugasemdirnar verið með öðrum hætti.

Ég kem seinna að þriðju spurningunni, frú forseti.



[16:28]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir þessi svör. Það vakti einfaldlega fyrir mér að reyna að leiða það skýrt fram hvort um væri að ræða það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra sagði að verið hefði til skoðunar á fyrri stigum málsins en ekki varð niðurstaða um, eða hvort niðurstaðan hefði verið sú að þetta væri þá fullkomlega valkvætt. Þeir útgerðarmenn sem kjósa að hafa það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir verða þá að óska sérstaklega eftir því að það verði þannig. Þeir verða að óska eftir því við þann sem annast milligöngu um meðferð þessa fjár, verða þá að óska eftir því þangað til þess að það fyrirkomulag verði á. Þetta svarar spurningum mínum vel.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að vitaskuld er það það sem við verðum fyrst og fremst að tryggja í þessu, þ.e. að þetta fyrirkomulag, hvernig sem niðurstaða málsins verður eftir yfirferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, verði að fullu og öllu leyti í samræmi við stjórnarskrána.



[16:29]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér af hverju ekki hafi verið veittar opnar heimildir fyrir samtök vélstjóra, samtök sjómanna, sem sagt miklu víðtækari heimildir. Ég vísa til þess að þá þyrfti jú að halda enn viðameiri skrá og persónulegri skrá, eins og hv. þingmaður kom inn á og ég líka í framsögu minni, en nú þegar er fyrirséð með lagaumgjörð sem hefur breyst frá því þessi lög voru sett á sínum tíma, þau lög sem hér er verið að breyta. Sú umgjörð hefur öll breyst. Ég legg áherslu á og treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari gaumgæfilega yfir þessi mál og geri sér grein fyrir þeim atriðum sem geta verið álitamál. Ég vona að þegar þau koma frá hv. nefnd uppfylli þau þessi skilyrði sem verið er að tala um.

Ég legg samt áherslu á að halda utan um félagskerfi almannasamtaka eða hagsmunasamtaka eins og hér um ræðir, t.d. smábátasjómanna, hvaða félag sem þeir síðan skipa sér í, eða önnur samtök. Ég legg áherslu á að hið opinbera styðji frekar, að því marki sem það getur, við að slík samtök séu virk, því að þau standa jú að margþættum verkefnum til almannaheilla, fyrir samfélagið og fyrir hið opinbera, þó að þau séu ekki alltaf tilgreind í lögum. En auðvitað verður að uppfylla kröfur stjórnarskrár og annað (Forseti hringir.) í þeim efnum.



[16:31]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra klappar nú bara gamla steininn um að við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm og ég vil árétta að ég er honum sammála um það. En eins og ég man þetta er málið þannig vaxið að þegar iðnaðarmálagjaldið var kært á sínum tíma var Hæstiréttur þeirrar skoðunar að það gjald stæðist, meðal annars vegna þess að kveðið væri á um að því væri ætlað að standa undir tilteknu, skilgreindu verkefni sem ég held að hafi falið í sér að gæta hagsmuna iðnaðarins. Nú gerðist það hins vegar að mannréttindadómstóll Evrópu, ef ég man rétt, taldi að þetta væri ekki nægilega skýrt og er með öðrum orðum farinn að gera meiri kröfur. Ég var því að velta því fyrir mér í ræðu minni áðan hvort þessi mál hefðu verið skoðuð sérstaklega í því ljósi. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað upp aftur í andsvar, hefur kannski möguleika á að kveða sér hljóðs ef hann svo kýs á eftir, en engu að síður þurfum við að skoða þetta, meðal annars í ljósi þeirrar niðurstöðu sem fengist hefur með iðnaðarmálagjaldið þar sem mér sýnist forkröfurnar vera meiri en áður.

Ég er sammála því að þetta er svolítið vandasöm ferð. Við viljum í fyrsta lagi ekki granda hagsmunasamtökunum. Við viljum að þau séu til staðar til að vinna ákveðin verk sem eru mjög mikilvæg. Um leið viljum við fara sem ítarlegast eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar, það verður þá verkefni okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að reyna að feta þá slóð.



[16:33]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afnám gjalda sem lögð voru á skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegs. Tilefnið er væntanlega dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjaldið sem hann sagði brjóta stjórnarskrá og mannréttindi. Ég man þá tíð hjá Alþingi að nokkrir þingmenn höfðu mikinn áhuga á mannréttindum. Ég man sérstaklega eftir því að þegar dómur féll um öryrkjamálið og annar um kvótamálið komu menn hingað í löngum bunum og höfðu miklar skoðanir á því að ekki mætti brjóta mannréttindi. Að sjálfsögðu ekki, við höfum svarið eið að stjórnarskránni og þessi ákvæði standa þar.

Nú bregður svo við að þó að Mannréttindadómstóll Evrópu sem ætti nú að hafa eitthvert vit á mannréttindum kveði upp úrskurð er það með miklum semingi sem hæstv. ríkisvaldið tekur á sig rögg og gerir eitthvað. Iðnaðarmálagjaldið var ekki einu sinni lagt af eins og hefði verið eðlilegt að gera í hvelli, nei, það var látið deyja út og það með miklum semingi.

Það er sama með þetta hérna. Ef maður les athugasemdir við lagafrumvarpið sér maður að það að vekja upp mannréttindi tekur heilan áratug. Umboðsmaður Alþingis lét í té álit 12. apríl 2002. Það eru komin rúm níu ár. Meðgöngutíminn er ekki níu mánuðir, hann er níu ár. Það er tíminn sem tekur að hræra í þessum málum enda er um að ræða gífurlega hagsmuni, frú forseti. Það er voðalega auðvelt að láta ríkið innheimta fyrir sig félagsgjöld. Það er auðveldasta mál í heimi. Þá er þetta orðinn skattur og menn lifa eins og blómi í eggi og í vellystingum upp frá því.

Hér erum við að fjalla um gjald sem var lagt á útgerðir. Lausnin er alveg stórfurðuleg, menn geta lesið sér til um það í lagafrumvarpinu. Það er alveg stórfurðulegt að ef útgerðarmaður óskar þess — hann verður að óska þess — skuli bankastofnanir innheimta gjald. Er ekki nóg, frú forseti, að senda bankanum bréf um að ef þeir óski eftir því að gjald í eitthvert félag sé innheimt? Það þarf ekki að setja sérstök lög um það á Alþingi. Ég get ekki séð það. Það er sem sagt áfram reynt að taka af útgerðarmanninum þessa greiðslu með einhvers konar þvingun. Nú þarf reyndar að samþykkja það, sjálfálagða þvingun.

Það merkilega við þetta fyrirkomulag var að það var ekki ríkið sem innheimti, ekki skattstjórinn, heldur var bankakerfinu í landinu falið að innheimta. Það var dálítið sérstakt.

Við erum búin að stofna til stjórnlagaráðs og þar er verið að setja nýja stjórnarskrá. Ég held að áður en menn fara að búa til nýja stjórnarskrá ættu þeir að reyna að fylgja þeirri gömlu, bara fara eftir henni. Það á eftir að fella niður mörg gjöld. Ég sé að hæstv. innanríkisráðherra situr hér og bíður spenntur eftir að tala um skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga. Það kemur næst. Hann gat alveg reiknað út að það kæmi næst. Það er nefnilega skyldugreiðsla opinberra starfsmanna til stéttarfélaga sem eru þá opinber stéttarfélög, stéttarfélög sem ríki semur við og mynda BSRB, sem hæstv. ráðherra var einu sinni formaður fyrir í fjöldamörg ár. Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna skulu opinberir starfsmenn greiða í stéttarfélag, hvort sem þeir vilja vera félagar í því eða ekki. Ríkið semur við það stéttarfélag. Nú skulum við hugsa okkur að það sé fátækt fólk sem BSRB hefur ekki samið nægilega vel fyrir eins og á við um flestallar umönnunarstéttir landsins sem eru með alveg óskaplega lág laun, sumar hverjar, og hugsa okkur að þetta fátæka fólk í þrengingum núverandi daga hugsi sér til hreyfings og vilji eins og í árdaga stéttabaráttunnar stofna stéttarfélag. Tökum bara lítinn leikskóla. Þar er fólk með lág laun og það vill fara í stéttabaráttu. Það stofnar stéttarfélag, ekkert bannar stofnun stéttarfélaga. Hvað gerist, frú forseti? Það gerist akkúrat ekki neitt vegna þess að sveitarfélagið neitar að semja við stéttarfélagið á grundvelli þessara laga og segir: Við semjum við opinbera stéttarfélagið sem annast um kjör þeirra sem vinna á leikskólum. Þið skuluð bara sætta ykkur við lágu, góðu kjörin áfram. Verið ekkert að fara upp á dekk og stofna stéttarfélög eins og í árdaga stéttabaráttunnar. Þeir eru nefnilega liðnir, árdagar stéttabaráttunnar, hjá opinberum starfsmönnum. Þeir geta ekki myndað stéttarfélög.

Þetta hefur verið svona ár eftir ár og ég er búinn að flytja um þetta frumvarp aftur og aftur. Það hefur alltaf sofnað í nefnd á Alþingi. Virðingin fyrir stjórnarskránni er ekki meiri en svo, og mannréttindum líka. Þetta er mannréttindabrot eins og Mannréttindadómstóll Evrópu komst að raun um.

Það eru fjöldamörg önnur gjöld sem ég hef margoft nefnt. Hér er eitt í höfn sem betur fer, þetta gengur hægt og rólega. Það virðist alltaf þurfa dómsúrskurði og því um líkt til að menn sjái að sér. Búnaðargjaldið er eitt af þessum gjöldum, fiskiræktargjaldið líka og ýmislegt fleira mætti telja til. Ég hygg að STEF-gjöldin séu líka inni í þessu ef menn fara að skoða það nákvæmlega. Ég hef reyndar ekki skoðað nýjustu útgáfuna, ég held að menn hafi lagað það eitthvað eftir gagnrýni sem kom fram.

Ég held að menn ættu að taka á honum stóra sínum og afnema öll þessi gjöld, afnema 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er afskaplega einfalt. Ég hef lagt fram svona frumvarp en býð mönnum höfundarréttinn að því, ekki spurning, menn mega bara taka það og samþykkja það. Ég reikna með að opinberir starfsmenn vilji borga í stéttarfélögin sín og muni gera það áfram. Ég reikna með því. Ég reikna með að það hafi eitthvert gildi fyrir þá að vera í stéttarfélagi.

Það er mjög athyglisvert sem kemur hérna fram í greinargerðinni um að Landssamband smábátaeigenda leggur áherslu á að það muni ekki geta starfað. Hvað þýðir það? Vilja þá smábátaeigendur ekki vera í landssambandinu? Sjá þeir sér engan hag í því að einhver berjist fyrir hagsmunum þeirra? Ég skil þetta ekki. Auðvitað vilja menn vera áfram í félagi smábátaeigenda sem berst fyrir hag þeirra með oddi og egg og hefur staðið sig mjög vel í því.

Ég hygg að það eigi ekki að vera þörf á að lagaskylda félagsgjöld inn í stéttarfélög eða hagsmunafélög. Þess vegna er nefnilega sett inn í stjórnarskrána að það sé félagafrelsi. Menn eiga ekki að þurfa að ganga í einhver félög sem eru hagsmunafélög sem eiga að berjast fyrir hagsmunum þeirra. Þeir eiga að vera þar af fúsum og frjálsum vilja.

Ég býst við að það séu að myndast fyrstu steinarnir í skriðunni sem er að falla þar sem mannréttindin eru virt. Í þingheimi eru margir sem binda miklar vonir við stjórnlagaráðið og ég legg til að þeir fari eftir stjórnarskránni. Þingmenn hafa svarið eið að henni. Ég legg til að menn fari að framkvæma það sem stendur í henni, virða mannréttindi og félagafrelsið. Þó að einn og einn félagsmaður í BSRB hætti að borga þangað inn er skaðinn lítill. Einu sinni átti ég að borga í það félag og neitaði. Það var aldrei látið reyna á það, ég held að ég hafi aldrei borgað félagsgjald á ævinni. BSRB samdi ekki vel fyrir mig því að ég var með mjög léleg laun sem leiðbeinandi þótt ég væri með doktorspróf í stærðfræði. Ég var leiðbeinandi af því að ég var ekki með kennsluréttindi. Í kjölfarið var ég með léleg lífeyrisréttindi. Þetta bar allt að sama brunni.

Ég styð þetta frumvarp eindregið nema ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar skoði hvort ekki megi strika út 2. mgr. líka þannig að menn geti bara treyst því að þeir sem vilja vera í þessum samtökum hringi í bankann sinn og biðji hann að taka þessa prósentu af veltunni, 0,5% af sameiginlegum verðmætum. Þá er málið leyst og við þurfum enga lagasetningu.



[16:43]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þess umræðu mikið. Í stjórnmálafræði er stundum talað um teoríu og praxís. Þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er mikill teoríteker þegar kemur að mannréttindum og verkalýðshreyfingunni. Ég minnist andlegs, pólitísks skyldmennis hans sem sat við stjórnvölinn í Bretlandi undir lok 8. áratugarins sem lét ekki sitja við það eitt að fylgja teoríunni heldur setti teoríuna í praxís. Hún heitir Margrét Thatcher og var stundum kölluð „járnfrúin breska“ því að hún þótti mjög harðdræg. Þegar hún settist á valdastól í Bretlandi sögðu ráðgjafar hennar, nýfrjálshyggjumennirnir, að fyrsti einokunarhringurinn sem hún ætti að freista að brjóta niður væri verkalýðshreyfingin, vegna þess að það kynni ekki góðri lukku að stýra þegar verkafólk byndist samtökum um að verja kaup og kjör, það væri óþolandi einokun. Hún hófst einmitt handa við þetta verkefni, að brjóta verkalýðshreyfinguna niður og beita sér gegn samtakamætti launafólks. Það var meðal annars gert með því að skerða öll réttindi verkalýðsheyfingarinnar, þar á meðal allt sem sneri að aðild fólks að verkalýðsfélögunum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur viljað innleiða svipað hér og þessi ræða sem hann flutti þinginu áðan er ekki ný af nálinni. Hann hefur flutt hana allar götur með reglulegu millibili frá því að hann settist á þing árið 1995. Vandinn er bara sá að þótt lagt sé upp í þessa för í mannréttindabaráttu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal segist gera, hefur reyndin ævinlega orðið sú að mannréttindin hafa snúist upp í andhverfu sína. Það hefur gerst í Bretlandi, sérstaklega á atvinnuleysistímum. Þá hefur atvinnurekandinn sagt sem svo við verkamanninn sem vill fá vinnu: Já, þú skalt fá vinnu í mínu fyrirtæki en ég set þó eitt skilyrði, að þú sért ekki í verkalýðsfélagi, að þú bindist ekki samtökum við annað launafólk inni á vinnustaðnum.

Þannig gerðist það að mannréttindabaráttan, sem kann að hafa verið í hugum einhverra, snerist upp í andhverfu sína. Það er á þessum forsendum sem ég hef jafnan kvatt mér hljóðs þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur byrjað að kyrja þennan frjálshyggjusöng. Ég vil gjarnan halda þessum rökstuðningi mínum til haga og mér þótti ástæða til eftir að hann fór nokkrum orðum um réttarstöðu opinberra starfsmanna og launafólks á Íslandi.



[16:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eiginlega andsvar við ræðu minni, dálítið langt andsvar reyndar og kannski var þetta þess vegna valið sem ræða.

Það sem gerst hefur er að stéttarfélögin, sem ég tel að hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki í upphafi, gegnt mjög mikilsverðu hlutverki við að rétta kjör þeirra sem verst eru settir, breyttust í stofnanir. Þau eru orðin stofnanir í dag. Maður sér það á því að flestöll verkalýðsfélög höfðu skoðun og áhuga á Icesave, þau voru bara eins og flokkar. ASÍ tilkynnti að við ættum að samþykkja Icesave og aðildin að Evrópusambandinu skiptir félögin líka heilmiklu máli. Þetta er löngu komið út fyrir venjulega stéttabaráttu sem var í árdaga þar sem menn börðust um kaup og kjör, hvað þeir fengju í laun. Menn eru búnir að gleyma upprunanum og það er það sem ég er alltaf að minna á. Ég er að minna stofnanagerða verkalýðsbatteríið á upprunann, hvaðan menn koma.

Stéttarfélög hefðu vissulega mikið hlutverk núna, ég geri ráð fyrir því að margir starfsmenn á leikskólum, umönnunardeildum, spítölum og víðar hefðu virkilega þörf á því að fara í verkalýðsbaráttu í dag. Þeir bara mega það ekki af því að stofnanakerfið er búið að banna það. Þetta er gert að kröfu BSRB, 2. mgr. 7. gr. Það sem við fjöllum um hér er líka gert að kröfu stéttarfélaga eða samtaka útgerðarmanna.

Ég vil að stéttarfélögin muni eftir upprunanum. Ég vil ekkert endilega taka upp kerfið sem Thatcher kom á en hins vegar bjargaði hæstv. ráðherra deginum fyrir mér. (Gripið fram í.)



[16:50]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Upphafsorðum hv. þm. Péturs H. Blöndals er ég sammála. Nauðsynlegt er að halda verkalýðshreyfingunni og öllum félagasamtökum við efnið þannig að þau minnist þess í öllu starfi sínu hvert ætlunarverk þeirra er, hver baráttumarkmiðin eru og til hvers þau eru til, hvers vegna þau starfa. Undir það tek ég.

Ég tek líka undir gagnrýni hv. þingmanns á að Samtök atvinnurekenda og einnig stéttarfélög launafólks hafa stundum farið yfir þau landamerki sem ég tel vera eðlileg. Hann vísaði til Evrópusambandsins og Icesave-deilunnar og ég er sammála honum um það, þarna finnst mér að menn eigi að fara varlega.

En hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í tímans rás gengið miklu lengra en þetta. Hann gagnrýndi verkalýðsfélögin á sínum tíma og sérstaklega BSRB þegar barist var fyrir því að rétturinn til vatns yrði virtur sem mannréttindi og almannaeign á vatni tryggð. Hann gagnrýndi líka harkalega þegar verkalýðshreyfingin — og þar fór BSRB fremst í flokki — vildi standa vörð um velferðarkerfið og andmælti einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þar fannst hv. þingmanni líka of langt gengið.

Við höfum mismunandi skoðanir á þessu og færum einfaldlega rök fyrir máli okkar eftir atvikum en auðvitað á lýðræðisleg samkoma og félagasamtök að taka lýðræðislega ákvörðun um hvar þau beita sér. Ef það er gert er fólki í sjálfsvald sett í þágu hvaða málefna það beitir sér. Ef svo er ekki (Forseti hringir.) og einhver fámenn klíka talar máli fjöldans án lýðræðislegs umboðs gildir annað.



[16:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta, lýðræðislegt umboð, er einmitt það sem menn sem tala við mig varðandi afstöðu til stéttarfélaga kvarta hvað mest undan. Stéttarfélagsgjöldin hafa nefnilega, sérstaklega eftir að skyldugreiðslu í BSRB var komið á og hjá fjöldamörgum stéttarfélögum opinberra starfsmanna, breyst í skatt. Þá er þetta ekki lengur lýðræði, menn skulu bara greiða og ekkert múður. Það er margt, margt miklu verra við það sem ég ætla ekki að koma inn á.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji að allir menn eigi rétt til að drekka ómengað vatn, að það hafi eitthvað með stéttabaráttu launafólks á Íslandi að gera. Ég tel svo ekki vera. Þetta er eitthvað allt annað sem menn eru að berjast fyrir. Það geta verið mannréttindasamtök sem gera þetta en ekki stéttarfélög sem berjast fyrir því að fólk fái laun um næstu mánaðamót, meiri pening í launaumslagið svo það geti borgað leiguna og slíkt.

Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt að ég vilji ekki hafa gott velferðarkerfi, aldrei. Ég legg mikla áherslu á að Íslendingar hafi gott og skilvirkt velferðarkerfi. Því miður er núverandi velferðarkerfi ekki skilvirkt. Það er allt of margbrotið, of flókið og óskiljanlegt, í því eru bæði oftryggingar og vantryggingar, sérstaklega vantryggingar og þær eru sárar þegar maður horfir upp á að við erum með mjög dýrt velferðarkerfi og sumt fólk er skelfilega illa tryggt í því. Ég vil breyta velferðarkerfinu, ég lít svo á að það hafi mjög mikið hlutverk. En að skylda menn til að borga í stéttarfélag, það er bara stofnanagerving á því fyrirbæri.



[16:54]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, ég held að sjónarmiðum hafi verið komið til skila. Síðan geta menn flett upp samsvarandi orðaskiptum í gegnum tíðina í þingtíðindum.



[16:55]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru athyglisverð orðaskipti sem áttu sér stað milli hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Mig langar að vekja athygli hæstv. innanríkisráðherra á því að í athugasemdum með frumvarpinu um tilefni og nauðsyn lagasetningar eins og það er kallað, kemur fram ábending frá þremur stéttarfélögum sem eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag vélstjóra og tæknimanna og Sjómannasamband Íslands. Allt eru þetta mikil og góð og merkileg samtök sem hafa unnið marga sigra í gegnum tíðina. Þau gera athugasemdir við að þau muni ekki sitja við sama borð og þeir aðilar sem hér er fjallað um, þ.e. útgerðarmenn á smærri bátum.

Ég vil líka vekja athygli hæstv. innanríkisráðherra á því að í textanum kemur fram að orðrétt segir í lögunum, sem koma frá ráðuneytinu:

„Þá þykir ekki rétt að mæla fyrir um greiðslumiðlun í þágu launþega […].“

Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við. Ég verð að hvetja hæstv. innanríkisráðherra til að fara betur yfir þetta. Mér þykir í raun og veru dálítið sérkennilegur textinn sem hér er skrifaður inn, eftir ábendingar frá þremur stéttarfélögum, að ekki skuli vera talin ástæða til að gera neitt í þágu launþega. Eins og búið er að fara yfir í fyrri ræðum er gefin sérstök heimild, valkvæð, til einungis eins aðila af þeim sem hafa notið þess hvernig greiðslumiðlunin hefur verið framkvæmd, um að honum standi til boða að fá áfram greitt þannig. Um það fjalla lögin í sjálfu sér. Öðrum stendur þetta ekki til boða. Ég teldi skynsamlegra og eðlilegra, fyrst menn fara í þessa vegferð og fella ekki niður greiðslumiðlunina í heild sinni til að uppfylla þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem dómar hafa fallið um, að hið sama hefði gilt um alla.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hefur komið fram og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nefndi áðan, það er afskaplega mikilvægt að hafa sterk alvöruhagsmunasamtök í sjávarútvegi eins og alls staðar annars staðar. En við verðum líka að átta okkur á því að máli skiptir að aðilar í samtökunum vilji vera þar af fúsum og frjálsum vilja. Ef menn eru með sterk samtök, hvort sem er í þessari grein eða annarri, á aðilum þar innan borðs að líða vel og þar á að vera unnið í þeirra þágu. Hér er alveg skýrt að þetta er valkvætt, menn geta farið út úr samtökunum eða ákveðið að greiða árgjald sjálfir og það hefur mér alltaf fundist vera eðlilegast, að menn greiði gjaldið sjálfir ef þeir eru í einhverjum hagsmunasamtökum. Fyrst menn fara þá leið að taka 0,5% sem greidd eru milliliðalaust til samtakanna sem hér eru talin upp er í raun og veru engin ástæða til annars en að gera slíkt hið sama við hin samtökin, greitt yrði bara til aðildarfélaganna sem launþegarnir tilheyra og samtökin myndu síðan greiða til þeirra til að tryggja mikilvægan rekstur þeirra. Þannig verður það að vera.

Mikilvægt er líka að fram komi í umræðunni að margir hafa á undanförnum árum, eða að minnsta kosti einhverjir, gert athugasemdir við hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þá hefur mönnum verið bent á það að þeir geti sagt sig úr samtökunum en þeir verði samt áfram að borga gjaldið. Þó að þeir séu ekki aðilar að samtökunum verði þeir samt að borga gjaldið. Þetta er náttúrlega algjörlega galið og líka upphæðirnar sem fara í þetta. Hér er reyndar bara talað um 0,5% sem er hluti af þessu greiðslumiðlunarkerfi sem hefur farið til hagsmunasamtakanna en ekki 8,4% af brúttóaflaverðmæti eins og var. Það er náttúrlega fáránlegt, að taka svo mikið af brúttóaflaverðmæti og síðan eru peningarnir í umferð í kerfinu í margar vikur og marga mánuði. Svo réttlæta þeir þetta hver fyrir öðrum þegar þeir gefa skýringar á þessu kerfi og reyna að verja það, að í raun veru sé viðkomandi aðili að ávaxta það, hugsanlega í styttri tíma en einhver annar; fyrst fer það frá fiskkaupanda eða þeim sem miðla fisknum, svo til Sparisjóðs vélstjóra og þaðan í þrjár áttir og svo eru menn alltaf að „víla og díla“ með þetta. Til dæmis þegar menn voru að borga tryggingarnar þá söfnuðu menn peningunum upp áður en þeir endurgreiddu útgerðunum, söfnuðu árgjaldinu allt heila árið. Það var kannski komið snemma árs og menn héldu fénu bara á vöxtum á bókum hjá aðildarsamtökunum og greiddu svo mánaðarlega tryggingar fyrir viðkomandi útgerðir.

Það er líka mjög sérkennilegt að menn segi að þetta séu tryggingar og lífeyrissjóðir. Af hverju ekki alveg eins skattar eða virðisaukaskattur? Auðvitað á hver rekstraraðili að bera ábyrgð á því að greiða sín gjöld. Það er mikilvægt að þessu sé breytt og er mikið fagnaðarefni. Ég geri hins vegar athugasemdir við þennan valkvæða möguleika, mér hefði fundist eðlilegra að hann stæði öllum til boða en ekki einum aðila. Ég hefði talið að jafnræðissjónarmið ættu að gilda. Það er miður að ekki sé hægt að mæla með því að greiðslumiðlun, sem hér er lagt til að eigi við suma, sé í þágu launþega. Þannig ætti það að vera að mínu mati.

Ég vil þó segja að mér finnst þetta klárlega vera skref í rétta átt og fagna því og sérstaklega því, eins og ég sagði í andsvari við hæstv. ráðherra, að alveg er skýrt að menn geta valið hvort sá sem þeir kaupa fiskinn af eða selja hann, eins og fiskmarkaðirnir, borgi beint til aðildarfélagsins sem viðkomandi útgerð er í eða fá bara senda innheimtuseðla og greiða þá sjálfir.

Hæstv. ráðherra nefndi að lögin eigi að taka gildi 1. janúar 2010. Ég vonast til að menn hafi góðan tíma til að vinna þetta áfram og vænti þess að menn fari vel yfir hvort þetta sé nægilegt skref sem þarf að stíga til að bregðast við dómum Mannréttindadómstólsins um félagafrelsið þannig að það sé alveg á kláru. Ég efast að sjálfsögðu ekki um að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd muni gera það.



[17:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún dregur fram þætti sem eru gott veganesti fyrir hv. sjávarútvegsnefnd til að vinna úr, eins og komið hefur fram.

Varðandi orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um hverja er verið að hugsa um vil ég benda á að það er fjöldi einyrkja í atvinnurekstri sem horft er til þar sem oft fara saman bæði persónuleg réttindi og tryggingar og hins vegar réttindi atvinnuvegar eða fyrirtækisins. Það er fyrst og fremst verið að horfa til slíkra aðstæðna. Í stærri fyrirtækjum hefur launafólk ákveðin réttindi í gegnum ráðningarsamninga sína og er ekki með sama hætti nauðsynlegt að það komi hér inn.

Ég vil draga það fram að við erum með einyrkja í sjávarútvegi og reyndar í fleiri atvinnugreinum líka. Við viljum standa vörð um möguleika einyrkjans í útgerð og ég held að við þurfum að huga að þeim þætti sérstaklega þegar við horfum til lagaumgjarðar sjávarútvegsins, að það sé ákveðin hvatning, stuðningur og utanumhald um einyrkjana í útgerð.

Það vildi ég nefna en ég treysti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vel til að fara yfir málið og þau álitaefni sem þar geta verið uppi og að málið fái farsæla afgreiðslu í þinginu. Ég þakka fyrir góða umræðu.



[17:05]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að menn standi vörð um og styðji við bak einyrkja í sjávarútvegi. Ég vildi að fleiri hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn tækju sér til fyrirmyndar það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir hér því að það er ekki alltaf það sama sem menn segja og það sem þeir gera. Allar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar síðan hún tók við hafa stuðlað að því að murka lífið úr einyrkjum. Það eru bara staðreyndir málsins, því miður, þannig að það er ekki nóg að segja fallegar setningar í ræðustól og standa svo ekki við fögru orðin annars staðar. En það er því miður staðreyndin.

Mig langar aðeins að bregðast við því sem hæstv. ráðherra sagði sem var hálfgert andsvar við ræðu minni í sambandi við einyrkjana og tryggingarnar. Ég sé ekkert samasemmerki á milli þess að það þurfi að setja þessa löggjöf með þessum hætti til að koma til móts við það sjónarmið vegna þess að nú er búið að innleiða lögskráningu á bátum undir 12 tonnum. Það er búið að taka á þessu máli, Landssamband smábátaeigenda beitti sér fyrir því að það væri gert þannig að áður en menn fengu haffærisskírteini var nauðsynlegt að leggja fram staðfestingu á því að maður væri með áhöfn og bát tryggð. Það var því í raun þegar búið að bregðast við þeim vanda sem var fyrir mjög löngu síðan. Það er mjög langt síðan Landssamband smábátaeigenda gerði þetta og Siglingastofnun líka til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem gætu fylgt því að menn væru ótryggðir úti á sjó.

Það er engin nauðsyn að setja það inn þessi lög svo menn standi ekki höllum fæti gagnvart tryggingum því að það er þegar búið að bregðast við því.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn.