139. löggjafarþing — 130. fundur
 19. maí 2011.
uppsagnir á Herjólfi.

[10:40]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Vestmannaeyingar hafa að undanförnu ekki farið varhluta af því að Eimskip virðist reka einstaklega sérstaka starfsmannastefnu. Það er ekki langt síðan þremur þernum var sagt upp á Herjólfi vegna þess að þær vildu fá að sýna verkalýðsfélaginu sínu nýjan samning um breytt verksvið.

Nú hefur Eimskip tekið sig til og sagt upp tveimur af reyndustu starfsmönnunum í afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því er sú að þær vildu hafa eitthvað um það að segja hvernig þær löguðu sig að breyttum vinnutíma og vildu undirbúa breytingarnar gagnvart fjölskyldum sínum og jafnvel hafa eitthvað um vinnutíma sinn að segja. Í annað skipti á stuttum tíma hefur Eimskip gripið til þess ráðs að segja upp konum sem sinna þjónustu við farþega, bæði um borð og í landi. Ástæðan virðist fyrst og fremst vera sú að þessar konur hafa, að mati stjórnenda, ekki brugðist nógu hratt og vel við hugmyndum um breytt vaktafyrirkomulag.

Það hefur verið alveg geysilega mikið álag á starfsmönnum Herjólfs eins og við höfum fylgst með í gegnum fréttir og oft mikill pirringur gagnvart mikilli óvissu í þessum málum. Þótt ég viti að Herjólfur falli ekki undir hæstv. velferðarráðherra fer hann þó með málefni sem varða vinnumarkaðinn. Ég hefði áhuga á að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því að við fullgiltum samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þá þætti sem eru málefnalegir til að segja fólki upp störfum.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir er 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Að auki flytjum við hana, ég, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Mörður Árnason, Ásmundur Einar Daðason, Þráinn Bertelsson o.fl. Ég bendi líka á að hv. þm. Atli Gíslason lagði á sínum tíma fram frumvarp sem byggði á sömu hugmyndafræði, (Forseti hringir.) um að það þyrftu að vera málefnalegar ástæður fyrir uppsögn, eða rekstrarlegar. Ég á erfitt með að sjá að þessar uppsagnir (Forseti hringir.) mundu uppfylla þau skilyrði.



[10:42]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta mál hefur ekki komið formlega inn á borð í velferðarráðuneytinu, þ.e. þessar uppsagnir eða starfsmannastefnan um Herjólf hjá Eimskipum. Almennt get ég svarað því þannig að ég tek heils hugar undir það sem kemur fram hjá málshefjanda, það skiptir mjög miklu máli að menn byggi starfsmannastefnu sína á málefnalegum ástæðum þegar menn breyta til og endurraða. Þar skiptir mjög miklu máli að lagaumhverfið sé öflugt.

Þegar menn tala um að fullgilda samning Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hef ég verið fylgjandi því að við sæktum styrk í umhverfi eins og í Evrópu í mjög mörgum málum þar sem menn hafa komist lengra en við í sambandi við ýmis réttindi. Við höfum innleitt þetta hægt og bítandi á ákveðnum stöðum en því miður hefur viðskiptalífið í mörgum tilfellum haft forgang að því að innleiða ýmislegt af því sem við fáum frá Evrópu en það gleymist að ræða að margt í neytendamálum og í ýmsum réttindamálum höfum við ekki sótt af sama krafti og við þyrftum að gera til að tryggja rétt starfsmanna. Nokkur mál í þinginu snúa að þessum þáttum og núna er væntanlegur bandormur þar sem komið er inn á aðilaskipti í sambandi við fyrirtæki þar sem verið er að tryggja rétt starfsmanna, að þeir tapi ekki réttindum þegar fyrirtæki lenda í gjaldþroti, að menn geta ekki hreinsað út, lækkað laun, tekið út starfsreynslu o.fl. Allt þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við verðum að verja réttindi starfsmanna án þess þó að takmarka um of möguleikana á því að endurskipuleggja störf fyrirtækja og annað slíkt.

Ég tek heils hugar undir þær athugasemdir sem koma frá málshefjanda um að við eigum að fara gætilega án þess að ég geti með nokkrum hætti tekið afstöðu til þessa einstaka máls um rekstur Herjólfs. Þótt ég hafi átt kost á því að vera í stjórn fyrirtækis sem rak svona ferju, Akraborgarinnar, dugir það mér ekki til að svara þeim hluta spurningarinnar.



[10:44]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað væri best ef einfaldlega væri hægt að treysta fyrirtækjum almennt til að miða við þá þætti sem ég nefndi þegar kemur að ákvörðun um það hvort segja þurfi upp starfsmönnum eða ekki. Svona fréttir og frásagnir eru mjög mikið áhyggjuefni, sérstaklega í því atvinnuástandi sem núna ríkir á Ísland. Við búum við atvinnuleysistölur sem við höfum varla séð frá því í kreppunni miklu. Ég tel að við eigum að taka þetta mál til afgreiðslu í þinginu. Þetta liggur núna í félags- og tryggingamálanefnd og þar er talað um þrjá þætti sem atvinnurekandi þurfi að hafa í huga þegar hann rökstyður uppsögn starfsmanns. Við verðum að bregðast þannig við að við tryggjum öryggi starfsmanna en gætum um leið náttúrlega að þeim sveigjanleika sem fyrirtæki þurfa líka að hafa (Forseti hringir.) upp á hvernig þau haga sínum rekstri. Ég vonast til að ráðherrann taki undir að við afgreiðum þetta mál (Forseti hringir.) á þessu þingi.



[10:45]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er nefnt er hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd eins og komið hefur fram. Sú nefnd hefur starfað gríðarlega vel og mjög gott samstarf verið innan hennar um málefnið. Ég treysti henni fyllilega til að forgangsraða og setja mál fram, skoða þetta mál vel og meta hvort mögulegt er að koma því inn í þingið. Þarna er íhlutun ráðherra ekki öðruvísi en sú að við getum veitt nefndinni þá aðstoð sem þarf til varðandi upplýsingar og slíka þætti þannig að hún geti komið með málið fram en málið er að sjálfsögðu í höndum Alþingis og viðeigandi nefndar.

Varðandi málið sem var rætt varðandi Eimskip og Herjólf þá treystum við líka á að stéttarfélögin okkar standi sína vakt, þau fylgi því eftir að menn fylgi þeim leikreglum sem settar eru í samfélaginu og þá getum við samhliða kortlagt það ef einhverjir veikleikar eru í því regluverki sem þarf að styrkja til að tryggja réttarstöðu starfsmanna. Ég held að við séum sammála um mikilvægi þess.