139. löggjafarþing — 131. fundur
 20. maí 2011.
um fundarstjórn.

umræða um stjórn fiskveiða – ummæli um þingmenn.

[11:09]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér hafa ýmsir menn rætt um störf þingsins og ég tel ástæðu til að ræða í framhaldi af því um fundarstjórn forseta. Það er alveg augljóst að menn vilja komast í umræðu um fiskveiðifrumvörpin. Menn vilja gera það í dag. Það er ljóst að það er meiri hluti á þinginu eftir ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, hv. formanns þingflokks framsóknarmanna, fyrir afbrigðum. Það er ekki ljóst hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill gera en það er samt ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er þegar farinn í ræðustól, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson o.fl., og byrjaður að ræða málið efnislega. Ég sé ekki að okkur sé neitt að vanbúnaði, frumvarpið er komið fram, (Gripið fram í.) meiri hluti tiltækur til að taka málið til efnislegrar meðferðar og sjávarútvegsráðherra alveg akhress á göngum þingsins og reiðubúinn, situr núna virðulegur og fullburða í sæti sínu og reiðubúinn að flytja bæði málin þegar menn óska eftir.

Ég geri það að tillögu minni að eftir atkvæðagreiðslu verði þessum fundi slitið og síðan settur annar með þeirri dagskrá sem meiri hluti þingsins er nú orðinn sammála um að eigi að vera hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:10]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Dagskrá þingsins liggur fyrir og er á vef þingsins.



[11:10]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á því að hafa dregið alla stjórnarandstöðuna undir sömu regnhlífina varðandi afstöðu til þess að ræða frumvörp um stjórn fiskveiða í þinginu. (Gripið fram í.) Ég undanskil þingflokk Hreyfingarinnar í því og biðst afsökunar á mistökunum. Ég veit svo ekkert um afstöðu þingflokks fjarstaddra í málinu.

Varðandi málið sjálft tek ég undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar áðan um það að taka þetta mál á dagskrá í dag. Ég skora á forseta Alþingis að gera dagskrártillögu um að málið verði tekið á dagskrá á eftir og það verði leitað afbrigða meðal þingmanna hvort það sé mögulegt. Þá kemur vilji þeirra í ljós. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:11]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að dagskrá þingsins í dag var ákveðin á fundi þingflokksformanna í gær og hún liggur fyrir.



[11:11]
Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom hér upp og talaði um þingflokk sem ég kannast ekki við að sé á þingi, þingflokk fjarstaddra. Ég mælist til þess að hv. þingmaður komi hingað og útskýri hvað hann á við með þessu og jafnframt hvort hann sé að bera níð í fjölmiðla sem meðal annars birtist á Eyjunni nýlega um að ákveðnir þingmenn, þrír þingmenn sem hér sitja, séu ekki við umræður í þinginu. Er sú sögusögn komin frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni?