139. löggjafarþing — 140. fundur
 3. júní 2011.
framkvæmd launastefnu hjá stjórnsýslunni.

[13:38]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. 14. ágúst 2009 gaf ríkisstjórnin út tilmæli til ráðuneyta og stofnana um að lækka laun umfram 400 þús. kr. á mánuði. Stefnt var að því að ná fram 3–10% lækkun með fækkun svonefndra eininga og yfirvinnustunda. Fjármálaráðuneytið átti svo í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti að hafa forgöngu um að útfæra leiðir til að ná þessu markmiði.

Könnun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að fjölmargar stofnanir urðu ekki við tilmælum ríkisstjórnarinnar. Nú hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt þessa málsmeðferð harkalega, sérstaklega hvernig ráðuneytin stóðu að því að kynna og leiðbeina um framkvæmd tilmælanna. Í mánaðaruppgjöri A-hluta ríkissjóðs fyrir apríl 2011, sem er nýjasta uppgjörið, kemur einnig í ljós að laun framkvæmdarvaldsins eru komin tæplega 1,5 milljarða fram úr áætlun. Þetta eru gríðarlega háar tölur og þetta er þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt og þau tilmæli sem hún hefur komið á framfæri.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á þessu, hvort hún geti útskýrt það launaskrið sem virðist eiga sér stað innan stjórnsýslunnar og hvort hún ætli ekki að beita sér fyrir því að efla Alþingi, eins og alþingismenn og löggjafarvaldið eru sammála um, til móts við það vald sem framkvæmdarvaldið virðist taka sér sjálft.



[13:40]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var alveg ljóst að eftir hrunið þyrfti að grípa til margvíslegra og róttækra aðgerða, aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálunum. Þetta var eitt af því sem við samþykktum að fara í, þ.e. að lækka laun í stjórnsýslunni. Ég vissi ekki annað en að eftir því hefði verið farið og það væri samræmi í þessum aðgerðum milli ráðuneyta og ríkisstofnana. Ef svo er ekki er það auðvitað bagalegt og ekki í samræmi við þá ákvörðun sem tekin var.

Ég dreg ekkert í efa að það sé rétt sem hv. þingmaður nefnir, að það komi fram í A-hluta ríkissjóðs að þarna sé framúrkeyrsla upp á mjög háa upphæð sem hv. þingmaður nefnir. Af því gefna tilefni er full ástæða til að skoða hvaða skýringar eru þarna á og hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þessi framkvæmd er á vegum fjármálaráðuneytisins sem hefði þá átt að hafa eftirlit með þessu, en það er alveg sjálfsagt og eðlilegt í ljósi þessara upplýsinga að ég leiti skýringa á þessu, bæði hvort aðgerðirnar hafi ekki verið samræmdar og gengið þá yfir allt opinbera kerfið eins og það átti að gera og hverjar séu þá helstu skýringar á þessu launaskriði.



[13:42]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið en verð samt að viðurkenna að það að forsætisráðherra komi af fjöllum um framkvæmd eigin tilmæla innan ráðuneyta sem hún hefur fullkomna stjórn á er ansi bagalegt, ef ekki bara til skammar.

Við horfum upp á það að ríkisstarfsmenn á sjúkrahúsum víðs vegar um landið hafa þurft að taka á sig skerðingar og fjölda fólks hefur verið sagt upp, þar á meðal konum í heilbrigðisstétt. Ríkisendurskoðun hefur einnig bent á að til þess að fjármagna starfsemi í ráðuneytunum taka þau kostnað af safnliðum sem ætti annars að fara til verkefna úti um allt land til að bæta sér upp það sem þeir fá ekki í staðinn fyrir að færa kostnaðinn á aðalskrifstofu.

Ég fagna því að forsætisráðherra ætli að taka til hendinni (Forseti hringir.) í þessu máli núna en lýsi yfir vonbrigðum með að hún skuli ekki hafa verið betur upplýst um þetta alvarlega mál.