139. löggjafarþing — 141. fundur
 6. júní 2011.
fjárfestingar í orkufrekum iðnaði.

[10:40]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni á fundi Samfylkingarinnar fyrir skömmu sagði hæstv. forsætisráðherra að við gætum verið að tala um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði tengdum virkjanaframkvæmdum upp á 300–400 milljarða á næstu þremur til fimm árum og því mundu fylgja 6.000–7.000 ársverk á uppbyggingartímanum. Grundvöllurinn að þessum framkvæmdum liggur í því að stefnt verði að að minnsta kosti tveimur umfangsmiklum fjárfestingarverkefnum í orkufrekum iðnaði auk þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þegar eru komnar af stað við Búðarhálsvirkjun, álverið í Straumsvík, kísilverksmiðju í Helguvík, gagnaver á Suðurnesjum, álverið á Reyðarfirði og víðar. Hún sagði einnig að hún reiknaði með að það styttist verulega í að tilkynnt yrði um framkvæmdir í tengslum við orkufrekan iðnað á Norðurlandi. Hún væri orðin mun bjartsýnni en áður á að Norðurál nái að semja við HS Orku og Orkuveituna um nægilega orku til að álverið í Helguvík geti orðið að veruleika með tilheyrandi framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun og Reykjanesvirkjun.

Ég vil biðja hæstv. iðnaðarráðherra að fara aðeins nánar yfir þetta með okkur. Hér er verið að vekja væntingar um stærstu skref í fjárfestingum í tengdum verkefnum sem eiga að slá á það mikla atvinnuleysi sem hér hefur ríkt, og við höfum gagnrýnt mjög í stjórnarandstöðunni að ekki skuli hafa verið farið í, og forsendurnar sem eru gefnar í ræðu hæstv. forsætisráðherra eru að mínu viti verulega hæpnar. Það er frumvarp í þinginu sem kveður á um styttingu á nýtingartíma virkjana af náttúruauðlindum sem mun hafa veruleg áhrif á þetta. En mig langar að heyra aðeins í hæstv. iðnaðarráðherra um það sem hér er á döfinni og skýringar hennar á orðum hæstv. forsætisráðherra.



[10:42]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra var að fara yfir þau fjölmörgu verkefni sem þegar eru farin af stað og líka þau fjölmörgu verkefni sem eru á teikniborðinu. Það er svo ánægjulegt að við erum í þeirri stöðu að samkeppni er að verða um nýtingu á þeirri orku sem framleidd er í landinu og ánægjulegt að segja frá því að eftirspurnin eftir orku frá Landsvirkjun er metin gróflega upp á 1.600 megavött. Auðvitað verður ekki framleitt það mikið af orku á komandi árum en það er ánægjulegt að eftirspurnin skuli vera eins mikil og raun ber vitni.

Hæstv. forsætisráðherra er í ræðu sinni væntanlega að vísa í þá staðreynd að mál eru komin vel á veg á Norðausturlandi. Það er alveg ljóst að á komandi mánuðum verður gert samkomulag við einn eða fleiri kaupendur að orkunni sem til er í Þingeyjarsýslunum. Við vorum að ljúka gerð framlengingar á viljayfirlýsingu við sveitarfélögin á svæðinu þar sem Tjörneshreppur er líka kominn inn. Þar erum við að fara að vinna að því í sameiningu að undirbúa svæðið fyrir þessa atvinnuuppbyggingu.

Síðan ræða hæstv. forsætisráðherra var haldin hafa mál því miður þróast með þeim hætti að HS Orka og Norðurál eru komin með sín mál fyrir gerðardóm þannig að það mál leystist ekki millum aðila eins og vonir okkar stóðu til og þessir aðilar voru líka bjartsýnir um. En það mál mun þá væntanlega skýrast í júlí þegar áætlað er að gerðardómurinn falli.

Virðulegi forseti. Það er mjög fjölmargt á döfinni. Við erum mjög ánægð með það í iðnaðarráðuneytinu að búið er að skrifa undir þrjá nýja fjárfestingarsamninga við fyrirtæki sem eru að fara af stað í framkvæmdir og við erum að vinna að gerð þess fjórða. Töluverð hreyfing er því komin á fjárfestana og við finnum að sóknarþunginn inn í landið er að aukast, eftirspurnin er að þyngjast.



[10:45]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér var ekkert nýtt á ferðinni. Það er eins og áður, fjölmargt á döfinni og fjölmargt í pípunum, en þau vonbrigði hafa orðið að Norðurál og HS Orka eru komin með sín mál fyrir gerðardóm þannig að enn meiri töf er á því.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að rammaáætlun og þar með röðun virkjunarkosta og verndarsvæði og vatnalög verði afgreidd fyrir næsta vetur og á grundvelli þess verði hægt að hefja frekari virkjunarframkvæmdir. Við erum með frumvarp í iðnaðarnefnd frá hæstv. ríkisstjórn þar sem á að stytta verulega nýtingartíma auðlindanna hvað varðar virkjunarkosti. Það hefur komið fram hjá umsagnaraðilum að þetta mun sérstaklega gera jarðvarmavirkjanir mjög óhagkvæmar, þetta mun leiða til hækkandi orkuverðs í landinu og draga úr samkeppnishæfi okkar.

Ég held því, virðulegi forseti, að allar þær bjartsýnisspár sem hér er verið að ræða — fjölmargt á döfinni, nýir virkjunarkostir — séu bara enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin getur (Forseti hringir.) ekki staðið við. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því til hvaða virkjunarkosta hún þurfi að grípa til að geta staðið við þessi fögru fyrirheit, (Forseti hringir.) aðra þá en komnir eru af stað og þá sem þarf að bæta við til að þessi áform geti gengið eftir, þ.e. (Forseti hringir.) til að ríkisstjórnin geti staðið við eitthvað af loforðum sínum og yfirlýsingum.



[10:46]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk



[10:46]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Innantóm loforð, segir hv. þingmaður.

Staðreynd nr. 1: Átta til tíu aðilar eru í viðræðum við Landsvirkjun um kaup á orku frá þeim á Norðausturlandi.

Staðreynd nr. 2: Við erum búin að samþykkja lagagrunn undir rammaáætlun.

Staðreynd nr. 3: Hún mun líta dagsins ljós fyrir næsta vetur.

Staðreynd nr. 4, virðulegi forseti, sorgleg staðreynd: HS Orka og Norðurál náðu ekki saman á viðskiptalegum forsendum um að halda áfram með samninga sín í milli sem hefði þá tryggt að Helguvík hefði farið af stað. Þá staðreynd ræður ríkisstjórnin einfaldlega ekki við þegar menn ákveða að fara fram með þeim hætti að hefja viðskiptasamband á grunni dóms. En það var val þessara aðila, þessara fyrirtækja, því miður.

Við horfum fram á bjartari tíma. Samningar millum fyrirtækjanna, þ.e. orkusalans og orkukaupenda, eru ekki gerðir í þingsölum og þess vegna er það ekki okkar, þingmanna, að standa hér og úttala okkur (Forseti hringir.) um einstaka aðila sem eru í viðræðum við orkufyrirtækin. Þess vegna hljómar þetta mögulega eins og við höfum engar fréttir að færa (Forseti hringir.) en fréttirnar eru þær að góður gangur er í viðræðum milli orkusala og orkukaupenda hér í landinu. (Gripið fram í.)



[10:48]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður um að ekki sé verið með samtöl úr salnum við ræðumann og minnir enn á að menn virði tímamörk.