139. löggjafarþing — 142. fundur
 6. júní 2011.
orkuskipti í samgöngum, síðari umræða.
stjtill., 403. mál. — Þskj. 640, nál. 1544, brtt. 1545.

[18:55]
Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá iðnaðarnefnd um tillögu til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Erlu Gestsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Valorku ehf. og Vegagerðinni.

Samkvæmt tillögunni felur Alþingi iðnaðarráðherra að vinna að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa og orkusparnaði. Tillagan byggist m.a. á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að móta eigi heildstæða orkustefnu sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.

Í tillögunni kemur einnig fram að stefnt skuli að orkuskiptum í samgöngum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst að hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Unnið verði að stefnumótun, markmiðssetningu og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að núverandi verkefnishópur skal skila tillögum fyrir 1. nóvember næstkomandi. Nefndin leggur því til þær breytingar að stefnumótun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020 skuli liggja fyrir 1. janúar 2012.

Í athugasemdum umsagnaraðila kemur fram að flestir eru jákvæðir gagnvart tillögunni og styðja hana í megindráttum. Hins vegar er bent á nokkur atriði sem nefndin telur vert að skoða betur. Í tillögunni er lagt til að Ísland verði í forustu við notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum í heiminum. Nefndin telur nauðsynlegt að markmiðssetning sé skýr en að auki þurfi markmiðin að vera raunhæf og í samræmi við raunverulega getu stjórnvalda og almennings til að ná þeim. Leggur nefndin til breytingar á tillögunni þessu að lútandi. Nefndin bendir jafnframt á að þrátt fyrir að mikil þekking sé hér á landi á endurnýjanlegri orku þá sé sú þekking meiri erlendis. Því sé mikilvægt að auka alþjóðlegt samstarf til að nýta alla þá þekkingu sem er til staðar, hvort sem hún er hérlendis eða erlendis.

Nefndin fjallaði um jafnræði landsmanna þegar kemur að umhverfisvænum ökutækjum. Bendir nefndin á að í tillögunni komi fram að m.a. þurfi að auðvelda aðgengi að almenningssamgöngum og fjölga hjólastígum til að stuðla að breyttri hegðun fólks. Auk þess er í tillögunni fjallað um skattalegar ívilnanir fyrir kaupendur ökutækja með enga skráða losun koltvísýrings og kaupendur ökutækja sem eingöngu geta notað endurnýjanlega orku. Ljóst er að við orkuskiptin verður nauðsynlegt að leggja áherslu á breytta hegðun fólks og hvetja almenning til nýta sér almenningssamgöngur. Að mati nefndarinnar er hins vegar mikilvægt að tekið sé tillit til mismunandi möguleika fólks til að nýta sér almenningssamgöngur eða kaupa sér bíla sem nýta endurnýjanlega orkugjafa. Á landsbyggðinni er staðan oft sú að þörf fólks fyrir notkun einkabílsins er meiri en þörf þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningssamgöngur eru betri. Þar að auki eru ferðir á landsbyggðinni oft lengri og um verri vegi að fara en á höfuðborgarsvæðinu, og því þörf á öflugum stórum bílum. Leggur nefndin áherslu á að skattalegar ívilnanir skekki ekki búsetuskilyrði í landinu og jafnræði allra landsmanna verði ávallt haft í huga.

Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um framtíð Íslands í orkugjafamálum. Nefndin fagnar því að Ísland hafi verið leiðandi á sviði vetnisverkefna og rannsókna á vetni en bendir jafnframt á möguleika á sviði annarra endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. notkun rafbíla, metaneldsneytis og lífdísilolíu Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að skoða notkun endurnýjanlegra orkugjafa með heildstæðum hætti og að orkustefna Íslands taki mið af þeim möguleikum sem til staðar eru hér á landi þar sem ljóst er að framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis hér á landi muni hafa í för með sér bætt lífsgæði, tækifæri til atvinnu- og nýsköpunar og gjaldeyrissparnað. Nefndin bendir hins vegar á að bílaframleiðendur og innflutningsaðilar hafi mikið að segja um það hvað sé í boði á markaðnum hverju sinni. Náið samstarf við þá er grundvöllur þess að vel takist til með orkuskipti í samgöngum. Með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis verður efnahagskerfið minna háð verðsveiflum á eldsneytismörkuðum erlendis

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali, þ.e. þskj. 1545.

Virðulegi forseti. Málið var afgreitt úr iðnaðarnefnd 25. maí sl. Auk þess sem hér stendur, formanns og framsögumanns nefndarinnar, skrifa undir nefndarálitið hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, Gunnar Bragi Sveinsson, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Þráinn Bertelsson, Magnús Orri Schram og Jón Gunnarsson, með fyrirvara.



[19:01]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. formanni iðnaðarnefndar, Kristjáni L. Möller, starfið í nefndinni gekk vel og nokkuð mikil samstaða var um þetta mál. Ekki verður mælt á móti því að Ísland hefur haft ákveðið forustuhlutverk í nýtingu á endurnýjanlegri orku þar sem við höfum verið í fremstu röð í heiminum af því að við notum jarðvarma til húshitunar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu gríðarlega mikilvægur áfangi það er hjá okkur að vera með allan þennan mikla fjölda, ætli það séu ekki yfir 90% heimila í landinu þar sem jarðvarmi er notaður til húshitunar. Sú þekking sem hefur skapast á þessum vettvangi hefur sett okkur í fremstu röð meðal þjóða.

Ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vorum með fyrirvara við þessa þingsályktunartillögu. Það sneri kannski fyrst og fremst að því háleita markmiði sem þar er að Ísland verði í framtíðinni í forustu við að nýta endurnýjanlega orkugjafa til samgöngumála. Við teljum að eðlilegra sé að setja sér raunhæf markmið í þessum efnum og þarna munum við ekki ein geta ráðið för. Það verða auðvitað framleiðendur farartækjanna sem ráða miklu um það hvað verður í boði á þessum vettvangi og við munum fylgja í kjölfarið. Þegar er hafin ákveðin þróun á breytingum í bílaflota landsmanna í þessa átt.

Einnig hefur verið hvatt til þess að við förum mismunandi leiðir í því að reyna að framleiða okkar eigin eldsneyti. Við þurfum að móta okkur ákveðna stefnu um það hvert skuli horfa í þeim efnum og kannski er eðlilegast til lengri tíma litið, ef við ætlum að horfa til þess að sem flestir geti nýtt sér farartæki sem nota endurnýjanlega orku, að horft verði til raforkunnar. Menn hafa verið að ræða mikið um framleiðslu á repju til að framleiða repjuolíu og breyta annarri ræktun í landinu jafnvel í þá átt en matvælaframleiðsla verður að vera trygg og hafa ákveðinn forgang þannig að horfa verður til þess af ákveðinni varúð.

Í tillögunum er hvatt til aukinna almenningssamgangna og það er auðvitað vel að hvetja til þess og reyna að þróa almenningssamgöngur með þeim hætti að þær verði áhugaverðari valkostur fyrir okkur í framtíðinni. En við megum heldur ekki gleyma því að við erum fámenn þjóð í stóru landi og það er ekki nema ákveðinn hópur landsmanna sem getur raunhæft náð þessum markmiðum að einhverju gagni. Við verðum að horfa til þess að á landsbyggðinni verður fólk bundnara einkabílnum en kannski víða á þéttbýlli svæðum eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er því aftur mikilvægt að taka tillit til hinna dreifðu byggða þegar við skoðum möguleika okkar og þær leiðir sem við veljum í þessum málum.

Í dag höfum við verið að hvetja til endurnýjunar á bílaflota okkar með skattalegum ívilnunum. Við erum að gefa skattafslátt af því eldsneyti sem framleitt er og notað á bifreiðar sem byggist á endurnýjanlegri orku og við höfum verið að fella niður aðflutningsgjöld af bifreiðum sem fluttar eru inn og hefur verið breytt á þann veg að þær geta nýtt þetta eldsneyti og af bifreiðum sem eru fluttar inn nýjar eða ónotaðar og verður þá breytt fyrir það eldsneyti. Þarna verðum við einnig að huga að því að aðgangur landsmanna að þessu eldsneyti verður mismunandi. Ekki er raunhæft að ætlast til þess að þeir sem stunda sölu og dreifingu á endurnýjanlegu eldsneyti muni fara inn á fámennari markaði á landsbyggðinni og við þurfum að huga að samkeppnisstöðu allra landsmanna þegar kemur að þessu.

Það er líka mjög mikilvægt að horfa til þess að við skattleggjum vegnotkun okkar í dag með eldsneytissköttum og notum góðan hluta af því fé til samgönguframkvæmda. Við verðum að fara að horfa til þessa og breyta áherslum okkar. Við verðum að jafna kostnað þeirra sem nota vegakerfið hvernig bifreiðum sem þeir aka. Augljósasti valkosturinn er að við tökum í framtíðinni upp einhvers konar veggjöld og þar þurfum við að horfa til fjöldans þannig að það komi sem jafnast niður á öllum landsmönnum. Ég hef gagnrýnt það að nú þegar við erum með hugmyndir um eflingar í vegagerð, og það er svo mikilvægt sem raun ber vitni að efla atvinnulíf — nú þegar eru verkefni tilbúin til framkvæmda en stjórnvöld hafa horft til þess að ekki verði hægt að stíga þau skref fyrr en búið er að ákveða með þessa framtíðarskattlagningu. Þannig hefur ráðherra samgöngumála lagt til að samhliða því að taka ákvörðun um frekari framkvæmdir verði tekin ákvörðun um veggjöld sem eigi að fara að innheimta eftir fimm ár. Ég hefði viljað horfa öðruvísi á þessi mál, virðulegi forseti, og fara strax af stað í þessar framkvæmdir á meðan við nýtum tímann til að endurskoða það hvernig við ætlum að skattleggja vegnotkun í landinu. En það þurfum við einmitt að gera með tilliti til þessa frumvarps, þ.e. með tilliti til þeirrar framtíðarsýnar sem við höfum með endurnýjun á orkugjöfum til samgöngumála. Við þurfum ekki síður að horfa til þeirra staðreynda að nýjar bifreiðar sem fluttar eru til landsins eru miklar eyðslugrennri en bifreiðar hafa verið þannig að þessir skattar munu, miðað við eldsneytisnotkun, skila okkur miklu minna í framtíðinni. Ég held að þessi endurskoðun þurfi að fara fram samhliða þeim háleitu markmiðum sem eru í þeim tillögum sem hér er talað um, og þar verði að horfa sérstaklega til þess að allir landsmenn sitji við sama borð.

Eins og ég sagði áðan erum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sammála og skrifum undir nefndarálitið en fyrirvari okkar nær til þess að við teljum mikilvægt að setja sér raunhæf markmið en ekki láta sér detta í hug að Ísland geti orðið í forustuhlutverki á þessum vettvangi í heiminum.



[19:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræður sem hafa verið fluttar varðandi þessa tillögu. Ég er aðili að þessu nefndaráliti án fyrirvara en tek hins vegar undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það er mikilvægt að setja sér raunhæf markmið. Við þekkjum það ágætlega, af sögu háleitra markmiða, að þau hafa því miður ekki alltaf gengið eftir og er þá mikilvægara að setja sér markmið sem eru raunhæf og vinna að því að ná þeim fram.

Hér segir að stefnt skuli að orkuskiptum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst af hólmi. Nú er það þannig að innlendir orkugjafar, í það minnsta í dag, eru einna helst rafmagn. Við þekkjum síðan metanstarfsemina og meðal annars er hægt að keyra metanbíla á höfuðborgarsvæðinu. Gerðar hafa verið tilraunir með vetnisstrætó og vetnisbíla og síðan er það lífdísill svo að eitthvað sé nefnt.

Það er mjög mikilvægt að við höldum vöku okkar og reynum að ná því markmiði að minnka útblástur frá samgöngutækjum, ekki síður en öðrum farartækjum. Þá vil ég taka inn í það almennan akstur, fiskiskip, flugvélar og þess háttar en það verður að sjálfsögðu að vera raunhæft.

Ég hef líka haft töluverðar áhyggjur af því að þrátt fyrir mjög góð markmið og eðlilega sýn á framtíðina, að reyna að búa til orkugjafa innan lands, svo sem eins og lífdísil, er mjög mikilvægt að fórna ekki í slíkt landsvæði eða landi sem við þurfum að nýta til matvælaframleiðslu. Það þarf að forgangsraða í þessu þegar kemur að skipulagsmálum. Ég vil segja það, frú forseti, að það er mjög mikilvægt að höfðað sé til þeirra sem fara mjög framarlega í baráttunni fyrir því að búa til lífdísil á Íslandi, til dæmis með því að rækta repju eða eitthvað slíkt, að huga að því hvort landsvæði sem tekin eru undir þá ræktun séu til þess fallin að rækta matvæli í einhverju formi. Ég er alls ekki að gera lítið úr því að tilraunastarfsemi þessi er mjög mikilvæg og við eigum að prófa hvað við getum framleitt af repju og slíku til að búa til orkugjafa hér. En ég vil hins vegar vara við því að land sem hægt er að nota til beitar eða matvælaframleiðslu sé lagt undir það án þess að áætlanir um hitt liggi fyrir.

Í nefndarálitinu eru lagðar til ákveðnar breytingar sem hugnast mér mjög vel, þ.e. að draga úr þeim yfirlýsingum sem í þessu eru án þess að gera neitt lítið úr markmiðinu. Einnig er lögð til breyting á viðmiðunarmarkmiði því sem er sett fram, þ.e. hvernig Evrópusambandið ætlaði að haga sínum hlutum enda lá ekki ljóst fyrir hvernig það hefði gengið þegar á hólminn var komið því að tölurnar sem hér eru inni eru viðmiðun 2010, hvað Evrópusambandið ætlaði að vera búið að koma sér í þá.

Ég vil líka ítreka það sem kemur fram að skattaílvilnanir og hvati í kerfi því sem er smíðað nái til allra landsmanna. Það er vitanlega ljóst að hægt er að gera ákveðna hluti í þéttbýlinu sem ekki er hægt í dreifbýlinu eins og þegar kemur að almenningssamgöngum og þess háttar. Það verður að horfa til þess að mörg landsvæði á Íslandi bjóða ekki upp á þann valkost að breytt verði úr öflugum og kröftugum bílum yfir í litla sparneytnari bíla, hreinlega út af aðstæðum. Þess vegna verður að horfa til þess að þessum aðilum verði ekki mismunað. Það er kannski erfitt en í það minnsta er hægt að hvetja til þess að það verði ekki gert.

Ég vil, frú forseti, koma því á framfæri að við ræðum um orkuskipti í samgöngum á sama tíma og svar berst inn í þingið við fyrirspurn sem ég lagði fram um jöfnun raforkuverðs. Ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér það svar því að þar kemur fram, af því að við tölum hér um orku, að við eigum töluvert langt í land með að jafna búsetuskilyrði landsmanna og það vantar helming, það þarf að tvöfalda þær upphæðir sem eru notaðar í niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði að ekki sé talað um jöfnun á flutningskostnaði.

Ég hefði viljað sjá að við værum með háleitt markmið sem hægt væri að ná varðandi þessa jöfnun. Á sama tíma og við setjum okkur þau góðu markmið að skipta út orkugjöfum sem menga er eðlilegt að krefjast þess að ríkisvaldið setji fram áætlun um hvernig ná eigi jöfnuði meðal landsmanna þegar kemur að notkun á hinum hefðbundnu orkugjöfum sem eru í dag á Íslandi, rafmagni, heitu vatni og þess háttar.

Frú forseti. Þetta eru ágæt markmið sem hér eru sett fram. Nefndin leggur til ákveðnar breytingartillögur sem miða að því að gera þessi markmið raunhæfari en þau eru í dag. Að öðru leyti vil ég lýsa því yfir að hugmyndafræðin í þingsályktunartillögunni er mjög góð en ég hvet til þess að raunsæis sé gætt og horft sé til fleiri þátta þegar við ræðum orkumál hér á landi.