139. löggjafarþing — 143. fundur
 7. júní 2011.
störf þingsins.

[10:33]
Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hv. 2. þm. Suðurk., Bjarna Benediktssonar, um Ísland og Evrópumálin. Ein mesta breyting sem orðið hefur á stjórnskipun Íslands átti sér stað með gildistöku samninganna um Evrópska efnahagssvæðið og Schengen. Með samningunum tóku Íslendingar á sig þær kvaðir að yfirtaka stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins án þess að geta haft áhrif á hana nema að mjög svo takmörkuðu leyti, og það nær eingöngu hvað varðar innleiðingu löggjafar.

Spurt er: Hversu lengi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi, og leiðtogi hans að sætta sig við að Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn Íslands og flokkurinn sjálfur hafi nær enga möguleika á að hafa áhrif á þá löggjöf sem landsmenn eru skikkaðir til að fara eftir vegna aðildar að EES og Schengen?

Samningurinn við Evrópska efnahagssvæðið hefur vissulega orðið okkur Íslendingum að mörgu leyti til góðs. Hann er hins vegar engan veginn ásættanlegur fyrir þjóð sem vill telja sig sjálfstæða og fullvalda. Samningurinn er einn ólýðræðislegasti alþjóðasamningur sem nokkurn tíma hefur verið gerður af sjálfstæðri þjóð, ef ekki sá ólýðræðislegasti. Allar aðrar EFTA-þjóðir litu á hann sem skammtímasamning. Þessi skammtímasamningur hefur hins vegar breyst í langtímasamning fyrir okkur Íslendinga.

Ef löggjöf Evrópusambandsins er svo góð að við þurfum ekki að hafa áhrif á hana hlýtur að vera enn betra fyrir okkur að vera innan sambandsins þar sem við getum meðal annars haft frumkvæði að lögum og gert Ísland að stórveldi þegar kemur að sjávarútvegsmálum innan sambandsins.

Sjálfstæðisflokkurinn var eitt sinn mikilvægasti hlekkurinn í tengingu landsins við vestræna samvinnu. Í dag fer vestræn samvinna Evrópuþjóða fram (Forseti hringir.) á vettvangi Evrópusambandsins. Hvað gerðist? Hvað er að óttast? Við hvað er Sjálfstæðisflokkurinn svona hræddur?



[10:36]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í þeirri vinnu sem fram hefur farið á Alþingi við að meta áhrifin af EES-samningnum og mögulegt frekara samstarf við Evrópusambandið hefur niðurstaðan verið mjög ákveðið sú að við á Alþingi séum ekki að nýta þau tækifæri sem okkur gefast í EES-samstarfinu til að hafa þau áhrif sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, þ.e. við á Alþingi höfum ekki nýtt okkur þau tækifæri sem gefast í EES-samstarfinu til að taka þátt í nefndastarfi á því stigi mála þegar engar ákvarðanir hafa enn verið teknar, áður en mál eru tekin upp í EES-samninginn.

Mig langar hins vegar að taka upp þau orð hv. þingmanns að við séum án allra áhrifa við innleiðingu löggjafar og velta því upp hvort hv. þingmaður trúi því í raun og veru að með því að undirgangast fleiri svið Evrópusamstarfsins, t.d. á sviði utanríkismála og fiskveiðistjórnar, öðluðumst við einhver völd. Við ættum kannski 4–6 þingmenn af hátt í 800 og því verður auðvitað ekki haldið fram með nokkrum rökum að þeir örfáu þingmenn í þessu mikla hafi þingmanna í Evrópusambandinu gætu haft einhver áhrif sem máli skiptu.

Þess utan líta menn í Evrópusambandslöndunum á það fyrirkomulag sem Evrópusambandsríkin hafa komið sér upp sem gríðarlegt vandamál og mikinn lýðræðishalla. Það birtist til dæmis í því að kosningaþátttaka til Evrópuþingsins er víðast hvar einungis um 25%. Hér á Íslandi er þróunin öll í átt til meira beins lýðræðis, til íbúakosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna, og Íslendingar eru þess vegna (Forseti hringir.) mjög fráhverfir því, eins og kannanir sýna, að ganga í Evrópusambandið þar sem valdið færist á fleiri sviðum til Brussel, lengra frá fólkinu í landinu.



[10:38]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi gera að umtalsefni vinnubrögðin í þinginu á síðustu dögum fyrir sumarhlé. Við fjölluðum á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í gær um hið svokallaða minna frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra í sjö og hálfa klukkustund, bæði um morguninn og svo langt fram á nótt. Aftur hófum við vinnuna í morgun og til að segja alveg eins og er eru allir umsagnaraðilar sem hafa komið á fund nefndarinnar, við höfum fengið marga gesti, með neikvæð viðhorf í garð þessa frumvarps, telja það vanbúið, brjóta stjórnarskrá og annað í þeim dúr. Það er alveg með ólíkindum, frú forseti, að við séum að fjalla um þetta mál og það sé verið að tala í fjölmiðlum og út í frá um að það eigi að klára það á næstu sólarhringum þegar það er frágangssök að koma nálægt þessu máli. Þetta er ekki hægt. Þetta er ofbeldi framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Við erum ekki að vanda vinnubrögðin. Við stöndum eins og einhver afgreiðslustofnun og hlustum á hvern gestinn á fætur öðrum koma fyrir nefndina og segja okkur að það sé ekki hægt að gera þetta svona, það brjóti stjórnarskrá og skili ekki nokkrum árangri, það sé algjörlega óljóst fyrir hverja verið sé að setja þessi lög og það sé ekkert markmið í þessu frumvarpi, ekki neitt.

Til hvers erum við í svona vinnubrögðum? Er það þetta sem mun skila okkur áfram í endurreisn atvinnulífsins?

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að við á þinginu verðum að taka völdin í okkar hendur. Það er ekki hægt að standa svona að vinnubrögðunum hér inni, það er ekki hægt. (Gripið fram í: Öll völd til ráðamanna.)



[10:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er vitanlega algerlega óþolandi þegar þingnefndir funda með þeim hætti sem gert er núna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, ég held að það hafi verið fundað til kl. 1 eftir miðnætti í gærkvöldi. Gestir eru teknir inn og þetta er allt gert í miklum flýti. Gestir fá sólarhring eða tvo til að skila álitsgerðum um einhverjar mestu breytingar sem verið er að gera á grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Er það þannig, frú forseti, sem við ætlum að vinna í þinginu í framtíðinni? Er það þannig sem við ætlum að láta hlutina gerast, að fara á einhverju hundavaði yfir svo stórt mál sem hér er um að ræða?

Það er vitanlega erfitt og í raun mjög sorglegt að horfa upp á að þegar verið er að semja um frágang á ýmsum þingmálum og reyna að ljúka þingstörfum gefi forsvarsmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar það í skyn í fjölmiðlum að frumvarpið muni klárast á helginni. Virðulegur forseti þarf þá að fara að gera grein fyrir því hvort við ætlum að funda hér á föstudag eða laugardag. Frá því hefur ekki verið gengið og um það hefur í rauninni ekki verið rætt.

Það er algerlega óþolandi, frú forseti, hvernig haldið er á málum, sérstaklega þegar kemur að þessari nefnd sem nú er að störfum. Við hljótum að gera þá kröfu að þá verði unnið faglega og farið vandlega yfir þær athugasemdir sem koma fyrir nefndina. Eins og þingmenn sem eiga sæti í nefndinni lýsa því er tekið við athugasemdum og þær eru allar á einn veg, menn eru á móti þessu frumvarpi og finna því allt til foráttu. Samt sem áður heyrum við í fjölmiðlum að það eigi að gera þetta mál að lögum, það skuli klárast á þessu þingi áður en sumarið gengur í garð. Það er óásættanlegt, frú forseti, og ber vott um það að þingið setur niður þegar kemur að vinnubrögðum.



[10:42]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka upp umræðuna sem hv. þm. Baldur Þórhallsson kom með hingað inn um EES og Evrópusambandið. Evrópusambandið er ágætissamband, það hefur náð sínu markmiði, það hefur ekki orðið styrjöld í 65 ár í Evrópu. Það var markmið Evrópusambandsins. Styrjaldir eru ekkert vandamál á Íslandi.

Og draumur hv. þingmanns um áhrif á löggjöf í Evrópusambandinu er bara draumur. Þar ráða Þjóðverjar nr. 1, Frakkar, Spánverjar og Bretar nr. 2 og svo einhvers staðar lengst aftast eru Finnar. Íslendingar mundu ekki ráða neinu þótt þeir gengju þarna inn. Þeir gætu hins vegar í dag, nákvæmlega eins og þá, haft frumkvæði og komið með snjallar lausnir á lagasetningu. Við höfum lent í innlánstryggingakerfinu sem Evrópusambandið hannaði og við getum bent þeim á galla þess — en það hefur ekki verið gert. Menn hafa ekki einu sinni notað þau tækifæri sem þeir hafa.

Ég hef áður heyrt um drauminn um stórveldið í sjávarútveginum. Þetta heyrðist í útrásinni, þá voru Íslendingar einhvern veginn sérstakir í fjármálum. Ég hugsa að Spánverjar þykist hafa miklu meira vit á sjávarútvegi en Íslendingar. Ég efast ekki um það. Eflaust gætu Evrópuþjóðirnar lært eitthvað af okkar ágæta fiskveiðistjórnarkerfi, en það mundi ekki hindra þá í að breyta því tíu árum seinna þannig að Spánverjar mættu veiða á Íslandi. Nema hvað?

Ég bendi á að Íslendingar hafa 600 ára reynslu af því að vera í sambandi við þjóð í Evrópu. Það var ekki góð reynsla. Samt voru Norðmenn og Danir ekki slæmar nýlenduþjóðir, langt því frá. Það sem gerðist var að valdið var langt frá Íslandi, eins og það verður núna, það verður í Brussel, og þeir sem eru með valdið í höndunum gleyma Íslandi í önnum dagsins.



[10:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðurnar í tengslum við EES og Evrópusambandið. Á umliðnum vikum höfum við rætt nokkuð mikið um Evrópusambandið og EES-samninginn. Það hefur verið mikill samhljómur í þinginu um að þingið eigi að nýta sér betur þau tæki og tól sem það hefur, en hefur ekki nýtt sér í tengslum við EES-samninginn, m.a. að hafa áhrif í Brussel, vera með talsmenn þar. Það höfum við ekki gert en það er nokkurn veginn, eins og ég segi, samhljómur um að það hefðum við betur gert og ættum að gera.

Ef ég væri í sporum hv. þm. Baldurs Þórhallssonar hefði ég meiri áhyggjur af ríkisstjórninni sjálfri hvað viðkemur Evrópusambandsumsókninni. Ég held að hann ætti frekar að beina sjónum sínum að hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar kemur að öllu ESB-umsóknarferlinu. Þar fara menn að mínu mati einfaldlega ekki eftir því sem þingsályktun frá Alþingi kveður á um varðandi umsóknarferlið að ESB. (Gripið fram í.) Það er mín skoðun (Forseti hringir.) að við eigum að fylgja eftir þeirri þingsályktunartillögu, frú forseti, við eigum ekki að vera með neinn hræðsluáróður hér. Þessi stjórnmálaöfl sem hafa ólíkar skoðanir, bæði innan flokka og þvert á flokka, eiga þó að sameinast um að reyna að ná sem bestum samningi við Evrópusambandið þannig að þjóðin geti þegar þar að kemur verið fullviss um (Gripið fram í.) að stjórnmálamennirnir hafi lagt sitt af mörkum til að hún hafi raunverulegt val um það hvað henni sé fyrir bestu þegar fram í sækir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fékk í hendurnar í gær svar frá velferðarráðherra við fyrirspurn minni um Íbúðalánasjóð og sérfræðiaðstoð. Það tók rúmlega níu mánuði að fá það svar, en hæstv. ráðherra hefur til þess tíu daga. Það komu að vísu svör sem voru út í hött og ég þurfti að fá lögfræðiálit til að fá loksins svarið. Það er að vísu ekki fullnægjandi og ég mun fylgja því nánar eftir, þ.e. spyrjast frekar fyrir um þessa hluti og fylgjast grannt með svörunum. Það er mjög athyglisvert sem þar kemur fram og ég mun fylgjast grannt með því hvaða fjölmiðlar sjá sér hag í því að upplýsa hvað þar stendur. Það verður frétt í sjálfu sér líka.

Virðulegi forseti. Út af Evrópumálunum hvet ég hv. þm. Baldur Þórhallsson, sem þekkir þessi mál vel, til að upplýsa almenning og þá sem hann á að upplýsa alla jafna um hvað er hér á ferðinni. Þegar hv. þingmaður heldur því fram að við getum orðið stórveldi í sjávarútvegsmálum, af hverju segir hv. þingmaður ekki frá því að við flytjum sjávarútvegsmálin yfir til Brussel? Hv. þingmaður veit það.

Breskur þingmaður sem ég hitti einu sinni sagði: Vandi minn núna — af því að hann var í sjávarútvegskjördæmi — er að þegar ég er spurður út í sjávarútvegsmál verð ég að segja: Þið verðið að tala við Evrópuþingmanninn. Það er nú allt stórveldið. Menn geta haldið því fram að einhverjar reglur við að ganga inn í Evrópusambandið henti okkur ágætlega núna, en það eru samt reglur þess. Ef einhver er svo bjartsýnn að telja að Íslendingar muni stýra Evrópusambandinu ef þeir ganga þar inn er það eitt almesta ESB-trúboð sem um getur og er nú af nógu að taka eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns. (Gripið fram í.)

Ég held, virðulegi forseti, að hv. þingmaður ætti að snúa sér að sinni eigin ríkisstjórn og hvetja hæstv. ráðherra til að beita þeim öflum sem við höfum, alveg eins og Noregur gerði, (Forseti hringir.) til að hafa áhrif á stórhættulega lagasetningu Evrópusambandsins eins og um innstæðutryggingarnar. Og ég hvet hv. þingmann, af því að hann þekkir þessi mál vel, til að sýna þeim hvernig Noregur hagar sínum málum. (Forseti hringir.) Ef við mundum gera það með sama hætti væri margt betra.



[10:49]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir á tímamörk í þessari umræðu.



[10:49]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Nú fer að styttast í störfum þingsins, a.m.k. ef miðað er við þá starfsáætlun sem ég veit að hæstv. forseti er mjög einbeittur í að standist hér. (Gripið fram í.) Við hv. þingflokksformenn höfum átt marga fundi og mörg góð samtöl við hæstv. forseta sem ég veit að leggur mikið upp úr því að þingstörfum ljúki hér í sátt þannig að við getum staðið vörð um virðingu þingsins og lokið þingstörfum á réttum tíma og í sæmilegri sátt.

Þess vegna kemur mjög á óvart þegar maður heyrir, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, hvernig málum er háttað í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég þarf ekki að rekja þá óvirðingu framkvæmdarvaldsins við þingið að koma með þessi makalausu frumvörp hingað tveimur mánuðum eftir að fresturinn til þess rann út. Svo heyrir maður í hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í útvarpsviðtali í morgun þar sem henni er greinilega slétt sama um það sem hæstv. forseti hefur þó lagt mikla áherslu á, starfsáætlunina.

Hv. þingmaður sagði: Ja, við höfum nú fimmtudag og föstudag, sem ég vek athygli á að er ekki á starfsáætlun og ekkert samkomulag um að nýta til þingfunda, og ef það gengur ekki förum við bara með þetta inn í sumarið. Hún tekur þar með undir hótanir hæstv. forsætisráðherra sem lætur aldrei tækifæri ónotað til að hóta þingi og þjóð með einhverjum hætti.

Ég spyr hæstv. forseta: Hver fer með dagskrárvaldið á þinginu? Er það hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir? Gerir ríkisstjórnin sér ekki grein fyrir því að þetta sjávarútvegsmál er dautt, nákvæmlega eins og þau gáfust upp í gær fyrir stóra málinu? Þau áttuðu sig á því góðu heilli að það mun ekki komast hér í gegn þannig að þau (Forseti hringir.) slúttuðu því fram yfir þinglok. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir því að þetta litla mál er andvana fætt líka? Á ekkert að hlusta á umsagnaraðila í þessu máli?



[10:51]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna sem hófst með ræðu hv. þm. Baldurs Þórhallssonar um Evrópusambandið og þá vinnu sem er í gangi um hugsanlega aðild Íslands að því. Ég vil byrja á að rifja það upp að eins og þingheimi er að sjálfsögðu kunnugt eru skiptar skoðanir um það mál innan stjórnmálaflokka og milli stjórnmálaflokka. Svo er líka í samfélaginu öllu og það er eðlilegt að. Það er eðlilegt að sú rökræða fari fram á hinum pólitíska vettvangi, líka í sölum Alþingis.

Það sem mér finnst hins vegar skipta afar miklu máli í því efni er að Alþingi ákvað sumarið 2009 að við skyldum sækja um aðild að Evrópusambandinu og síðan skyldi þjóðin leiða það mál til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Burt séð frá því hvaða skoðanir við kunnum að hafa á Evrópusambandinu og hvaða afstöðu hvert og eitt okkar mun taka þegar samningsniðurstaða liggur fyrir er mjög mikilvægt að við vöndum til verka í þeirri vinnu sem við erum í (Gripið fram í.) og reynum að skila þjóðinni eins góðri afurð og unnt er. Það eru hagsmunir allra.

Það eru að sjálfsögðu líka hagsmunir þeirra sem berjast gegn aðild að Evrópusambandinu að niðurstaðan sé þannig að þjóðin standi frammi fyrir tveimur góðum kostum, hvort sem hún segir já eða nei. Það er mjög mikilvægt. Það geta ekki verið hagsmunir og það getur ekki verið málflutningur einstakra þingmanna að þeir vonist til þess að niðurstaðan verði vond þannig að ef þjóðin tekur til dæmis samt sem áður ákvörðun um að samþykkja samninginn bíði hennar ekki góð framtíð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Af hverju ekki …?) (Gripið fram í.)

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að við vöndum til verka. Við höfum leiðsögn Alþingis í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar að leiðarljósi í öllum málaflokkum, m.a. í hinum erfiðu og ögrandi málaflokkum sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, og tökum mið af þeirri leiðsögn sem Alþingi hefur veitt í því efni.

Þar sem ég kem mun ég leggja mig fram um að vinna í þeim anda, alveg burt séð frá því hver afstaða mín er svo og míns flokks (Forseti hringir.) til aðildar að Evrópusambandinu þegar það kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu.



[10:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir með þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa komið upp og gagnrýnt vinnubrögð í þinginu, ekki sérstaklega út af því máli sem þau tóku til umræðu, fiskveiðistjórnarmálinu, heldur almennt. Ég tel að eitt af því brýnasta sem við þurfum að gera í þessari virðulegu stofnun sé að taka starfshætti okkar til alvarlegrar endurskoðunar. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Það eru ekki bara fiskveiðistjórnarmálin, alls konar mál fljóta í gegn á síðustu dögum þingsins og það væri ósatt að segja að við hefðum það ráðrúm og þann tíma sem við þurfum til að hugleiða þessi mál. Þessi lenska hefur verið í þinginu um áraraðir. Þetta er nokkuð sem við ætluðum okkur að breyta en höfum ekki gert. Nú er kjörtímabilið hálfnað og ég skora á félaga mína sem styðja ríkisstjórnina til að bæta úr og ég skora á framkvæmdarvaldið að koma fyrr með mál inn í þingið á næsta ári þannig að við höfum tíma til að fara yfir þau og gaumgæfa vel og vandlega það sem við erum að gera hér. Það á væntanlega að standa til langrar framtíðar og þetta er hið alvarlegasta mál.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á Evrópumálin. Ég ætla einfaldlega að segja að ég skil ekki það fólk sem heldur að þjóð skipti ekki máli þótt lítil sé. Það er annað að vera inni í fundarherberginu en frammi á gangi þegar ákvarðanir eru teknar. Við hljótum að sjá það sjálf hér að aðstoðarmenn sem fylgja til dæmis ráðherrum á fundi hafa ekki mikið um það að segja hvað sagt er hér inni þó að þeir geti hvíslað að þeim frammi. Kannski fer ráðherrann ekki eftir því sem honum var sagt, eða henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: … embættismönnum.)



[10:56]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir þá nálgun sem hv. þm. Baldur Þórhallsson var með í Evrópusambandsmálunum áðan og það sem hann sagði um tengsl Íslands við Evrópusambandið. Það sem mest er um vert núna er að áralöng umræða um það hvernig hagsmunum landsins sé borgið í sambandi við Evrópusambandið verði leidd til lykta með lýðræðislegum hætti eins og hérna hefur komið fram, með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir tveimur árum tók Alþingi með fulltingi þingmanna úr öllum þingflokkum ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Núna í júlí eru komin tvö ár. Okkur ber skylda til að gera hvaðeina úr því til að ná sem allra bestum samningi í stað þess að reyna í sífellu að laska ferlið og gera það tortryggilegt eins og lenska er í þjóðfélagsumræðunni í dag. Ég tel sjálfur að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en við það meingallaða fyrirkomulag sem EES-samningurinn sannarlega er. Hann var biðleikur eins og fram kom á sínum tíma, að mörgu leyti baneitraður biðleikur, og það var mikil þjóðarblekking að það væri besta mögulega staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu þegar fram í sækti enda núna liðnir tæpir tveir áratugir frá því að sá samningur var gerður. Sú aukaaðild er um margt óheppileg og gagnast ekki lengur nema að litlu leyti. Því ber okkur skylda til að freista þess að ná sem allra bestum samningi þar sem við tryggjum bæði hagsmuni sjávarútvegsins, landbúnaðarins eins og hérna hefur komið fram ítrekað í umræðunni og hvað varðar upptöku evru í stað krónu.

Viðkvæmasti og erfiðasti málaflokkurinn verður sjálfsagt landbúnaðarmálin. Við þurfum að leggja mikla vinnu í að tryggja sem allra best hagsmuni landbúnaðar eftir að tollvernd fellur niður með auknum beingreiðslum og öðrum slíkum stuðningi. Um þetta þurfum við að ná samstöðu þvert á flokka og ná umræðunni upp úr þeim skotgröfum sem hún gjarnan er sett ofan í á Alþingi og víðar, ræða þetta á málefnalegum forsendum og ná fyrir Ísland sem allra bestum samningi við Evrópusambandið.



[10:58]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að Evrópusambandssinnar haldi því fram að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið til að hafa áhrif vegna þess að stærstur hluti ESB-gerða hafi verið tekinn upp í íslenskan rétt í gegnum EES-samninginn.

Ég lét taka þetta saman fyrir mig í tölum á 131. löggjafarþingi, 2004–2005, og spurði hversu margar gerðir Evrópusambandið hefði samþykkt á árunum 1994–2004. Samkvæmt upplýsingum úr lagagagnagrunni Evrópusambandsins voru þær 38.936.

2.527 þessara gerða höfðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt honum, þ.e. 6,4%. Einungis í 101 tilviki, 0,2% tilvika, kallaði slík innleiðing á lagabreytingu hér á landi. Þetta eru þær staðreyndir sem liggja fyrir í málinu og það er mikilvægt að þeir sem blanda sér inn í umræður um Evrópusambandið og halda því fram að stærstur hluti reglna Evrópusambandsins hafi verið tekinn upp í íslenskan rétt séu með réttar tölur og réttar staðreyndir í málinu. Því var ekki til að dreifa hjá hv. þm. Baldri Þórhallssyni í hans ágætu ræðu áðan.

Ég vil síðan segja það um málið að öðru leyti að ég held að það sé mikið ofmat að Íslendingar verði einhvern tímann stórveldi á sviði sjávarútvegsmála eða í öðrum málaflokkum innan Evrópusambandsins. Við munum fá fjóra til fimm þingmenn af 800 á Evrópuþinginu og það sér hver maður að slík þjóð verður ekki stórveldi á þeim vettvangi. (Gripið fram í.)

Ég vil síðan segja við hv. þingmann að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum í sambandi við Evrópumálin. Örvæntingin er öll hjá Samfylkingunni og ég minnist þess að hún er svo mikil að það er ekki langt síðan að hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) formaður flokksins, bauðst til að leggja Samfylkinguna niður og stofna nýjan flokk með nýju nafni. Formaður stjórnmálaflokks (Forseti hringir.) sem þannig talar til eigin flokksmanna mundi ekki endast út daginn annars staðar.



[11:01]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að blanda mér inn í þessa stórkostlegu Evrópuumræðu sem hefur átt sér stað hér í dag. Hér er talað um að Íslendingar geti orðið stórveldi á sviði sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins. Ég minni hv. málshefjanda, hv. þm. Baldur Þórhallsson, á að við Íslendingar erum stórveldi í sjávarútvegi. Íslendingar eiga 40% af heildarafla Evrópusambandsins þannig að vitanlega erum við stórveldi og hag okkar er best borgið fyrir utan Evrópusambandið því að nú er ríkisstjórnin farin af stað með aðlögunarferli að hinu gamla Evrópusambandi. Ég minni á að árið 2014 verður Lissabon-sáttmálanum breytt sem er nokkurs konar stjórnarskrá Evrópusambandsins og þá tekur við nýtt Evrópusamband. Hér hefur ríkisstjórnin talað fyrir því að hin svokallaða þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram árið 2013. Ef að því kemur koma Íslendingar til með að greiða atkvæði um hið gamla Evrópusamband.

Svo getum við farið yfir það hverju Samfylkingin lofaði þegar þessi mál voru á dagskrá. Það átti að fá hraðferð inn í Evrópusambandið, gengið átti að styrkjast, evran var handan við hornið bara við það eitt að leggja inn umsókn.

Frú forseti. Ekkert af þessu hefur gerst.

Til að leysa málið því að framsóknarmenn eru miklir samvinnumenn og tala fyrir sátt í samfélaginu langar mig til að segja þingheimi að í dag verður dreift í þinginu breytingartillögu með nýrri dagsetningu að þjóðaratkvæðagreiðslu við þingsályktunartillögu sem ég hef þegar lagt fram um að Íslendingar fái að ganga að kjörborðinu strax og greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram með þetta ferli eða ekki. Nú hef ég breytt dagsetningunni í þriðja sinn og stendur í þingskjalinu: (Forseti hringir.) til 1. desember. Ég skora á formann utanríkismálanefndar Árna Þór Sigurðsson að taka málið á dagskrá í utanríkismálanefnd og koma því inn í þingið.



[11:03]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða ástandið á gossvæðunum á Suðurlandi. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, starfandi formanni umhverfisnefndar, hvaða áform séu uppi um uppgræðslu og gróðurstyrkingu til að koma í veg fyrir það mikla öskufok sem er þarna á svæðinu.

Ég kom frá Vestmannaeyjum í gær. Það var brúnt yfir að líta þegar maður horfði í átt að Eyjafjöllunum. Síðan hef ég heyrt úr Skaftárhreppi að þar hafi staðan verið mjög slæm og að það hafi verið mjög hvasst undanfarið. Landgræðslan fékk töluverða fjármuni í fyrra til að vinna að uppgræðslu undir Eyjafjöllunum en hefur núna hins vegar verið í ákveðinni óvissu um fyrirætlanir, bæði varðandi nauðsynlega uppgræðslu undir Eyjafjöllunum og náttúrlega þessa erfiðu stöðu sem er sérstaklega fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fólk þar kallar hreinlega eftir að heyra til hvaða aðgerða stjórnvöld ætla að grípa til að binda öskuna.

Stuttu áður en gos hófst í Grímsvötnum fóru þingmenn Suðurkjördæmis og þingmenn í allsherjarnefnd og heilbrigðisnefnd í heimsókn til þeirra bæja sem fóru verst út úr gosinu undir Eyjafjallajökli. Við stoppuðum mjög stutt við á þessum bæjum, fórum út í 5–10 mínútur og urðum að flýja undan roki, sandi og ösku sem blés þarna um. Við þetta býr fólk dagsdaglega. Staðan er mjög erfið núna í Skaftárhreppnum. Við megum heldur ekki gleyma, eins og ég var að minnast á, hvernig staðan er undir Eyjafjöllunum.

Ég óska hér með eftir að fá upplýsingar. Ég vonast til þess að starfandi formaður (Forseti hringir.) umhverfisnefndar hafi einhverjar upplýsingar frá umhverfisráðuneytinu um það hvað stjórnvöld ætla sér að gera.



[11:05]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga og brýna verkefni. Ég vil byrja á að taka fram að það er auðvitað forgangsverkefni Landgræðslunnar, umhverfisráðuneytisins og stjórnvalda að hefta og græða upp öskuna frá gosstöðvunum í Vatnajökli. Landgræðslan hefur lagt fram áætlun um uppgræðslu á öllu þessu svæði. Mér er ekki kunnugt um hversu háar fjárhæðir þar er um að tefla en sú áætlun er til skoðunar í ráðuneytinu og verður lögð fyrir ríkisstjórn á allra næstu dögum.

Ég vil rifja upp að áætlun Landgræðslunnar sem sneri að uppgræðslu eftir Eyjafjallajökulsgosið hljóðaði upp á um 100 millj. kr. Gríðarlega mikil og góð reynsla fékkst í því verkefni í fyrra en það er rétt sem hv. þingmaður nefndi, það þarf að halda áfram á því svæði líka. Þetta verkefni núna fyrir austan er hins vegar ólíkt því sem var á söndunum fyrir sunnan og í kringum Eyjafjallajökul, þar voru árfarvegirnir vandamálið, kakkstíflaðir af mikilli ösku. Fyrir austan er núna öskulagið hins vegar margfalt þykkara og hættan á foki þess vegna öll önnur.

Ég á von á því að ekki standi á stuðningi stjórnvalda eða ráðuneytisins við fólk fyrir austan með að fylgja þeirri áætlun sem Landgræðslan er nú að kynna. Ég er alveg sannfærð um að þingmenn taka allir undir að þetta er mikið forgangsverkefni.