139. löggjafarþing — 143. fundur
 7. júní 2011.
um fundarstjórn.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:08]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur nú setið á fundum í um það bil tíu tíma og síðasta fundinum í gærkvöldi lauk í raun og veru þegar nýr dagur hafði heilsað. Fram undan eru mikil fundahöld en það sem liggur þó fyrir nú þegar er að þetta frumvarp er í algjörum tætlum. Ekki einum einasta manni sem komið hefur fyrir nefndina líst á gripinn. Athugasemdir hafa borist við meginstefnumótun frumvarpsins, veigamiklar athugasemdir við útfærslurnar. Það eru athugasemdir við hvert einasta atriði í hverri einustu grein frumvarpsins. Það hefur komið fram að einskis samráðs var leitað við undirbúning þessa máls. Þetta er fáheyrt.

Það hafa verið færð rök fyrir því að frumvarpið stangist á við stjórnarskrána og það hafa verið færð rök fyrir því að það muni stuðla að lækkun gengisins. Samt sem áður virðist eiga að halda þessari vitleysu áfram, jafnframt því sem ég heyri einstaka stjórnarliða koma hér upp og tala um að nú þurfi að fara að bæta vinnubrögðin á Alþingi. (Forseti hringir.) Þetta er forstokkun. Þetta er hræsni og þetta er hneyksli.



[11:09]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að virðulegum forseta er annt um og vill efla virðingu þingsins. Það mál sem við erum núna með til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er þannig unnið að það er útilokað að því verði lokið á þeim tíma sem talað er um. Ég tek undir hvert orð sem kom fram hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni áðan um þetta mál og hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni tek ég undir að þær alvarlegu athugasemdir sem nefndin fær inn á sitt borð núna gera okkur algerlega ókleift að vinna þetta mál á svo skömmum tíma.

Það er því einboðið, virðulegi forseti, að við hvetjum forseta til að beita sér fyrir því að þessu máli verði frestað. Undir þeirri gríðarlegu ólgu sem er á yfirborðinu, undir þeirri kraumandi óánægju sem allir hagsmunaaðilar tjá á fundum nefndarinnar, er sáttatónn í anda þeirrar víðtæku sáttar sem náðist í sáttanefndinni í fyrrahaust. (Forseti hringir.) Það er vilji til þess að vinna þetta mál áfram þannig að þjóðin hafi sem mestan hag af þessari auðlind í framtíðinni. Það er ekkert (Forseti hringir.) verklag á þingi að ætla að ana áfram með þetta mál með þeim vinnubrögðum sem hér á að bjóða upp á (Forseti hringir.) þegar þessi sáttatónn er ríkjandi og við eigum að nota okkur það og klára þetta mál (Forseti hringir.) næsta vetur.



[11:11]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.



[11:11]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Sannarlega þurfum við að vanda hér vel til verka, bæði framkvæmdarvaldið hvað varðar framlagningu mála og þingið að vinna úr málum. Það mál sem hér um ræðir og er núna í vinnslu hjá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var á dagskrá í þrjá sólarhringa áður en því var vísað til nefndar. Ég sá eftir þeim tíma eða hluta þess tíma sem ég hefði viljað verja í nefndastörf. Það hefur verið óskað eftir því að fá fjölmarga gesti til nefndarinnar. Hv. formaður verður við þeim tilmælum og því er eðlilegt að það sé tímaþröng og erfitt að halda sig innan tímaramma.

Ég er ekki að mæla því bót að við höldum ekki þingsköpin. Ég vil að við höldum okkur við góð vinnubrögð, en hv. þingnefnd er vandi á höndum að taka á móti öllum þeim gestum sem óskað hefur verið eftir og hlusta á athugasemdir. Ég minni hv. þingmenn á að málið er í höndum (Forseti hringir.) nefndarinnar.



[11:12]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hann mun funda með þingflokksformönnum fyrir þingflokksfundi um framhald þingstarfanna og telur eðlilegt að sú umræða sem hér fer fram fari fram á þeim fundum þar sem þingflokksformenn fjalla um dagskrána og þingstörfin.

Forseti biður hv. þingmenn um að virða það að vettvangur til umræðu um framhald þingstarfanna er milli forseta og þingflokksformanna.



[11:13]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að það frumvarp sem hefur tafið þingstörfin kom fram löngu eftir að framlagningarfrestur var úti. Þegar við horfum til þeirra markmiða sem voru uppi síðast þegar við gerðum meiri háttar breytingar á þingsköpunum var alltaf ætlunin að þinginu mundi ljúka í lok maí eða byrjun júní. Þetta frumvarp kom fram í lok maí. Við erum að feta okkur áfram í framkvæmd nýju þingskapanna á hverju ári núna og það má ekki verða að fordæmi að ríkisstjórnin komist upp með það tveimur mánuðum eftir að framlagningarfrestur er úti og einmitt þegar þingstörfum á að fara að ljúka að leggja fram umdeild mál og knýja síðan fram framlengingu á þingstörfunum langt inn í sumarið umfram það sem þingsköp gera ráð fyrir. Þá erum við komin aftur inn í gamla (Forseti hringir.) tímann og þá er megintilgangi þingskapalagabreytinganna fórnað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:14]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá öllum af augljósri ástæðu. Það er hægt að taka svo mörg dæmi þess að öll umræðan um að menn vilji vanda þingstörfin er farin að hljóma eins og öfugmæli. Eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við hefur þetta aldrei verið jafnslæmt. Ef einhver er búinn að vera hér svo lengi að hann muni eitthvað annað — það er að vísu hvorugur sá hv. þingmaður — jú, þarna er einn hv. þingmaður sem kannski man það langt aftur að hann geti upplýst okkur um það hvenær vinnubrögðin voru síðast eins og þau eru núna. Í fullri alvöru eru menn að tala um að klára á nokkrum dögum mál í (Gripið fram í.) bullandi ágreiningi. Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson langar til að koma hér upp og ég hvet hann til að láta verða af því. (Forseti hringir.) Við skulum bara hætta að tala um að við viljum vanda þingstörfin ef menn ætla að halda svona áfram.

(Forseti (ÁRJ): Þessi gagnrýni hefur komist til skila til forseta.)



[11:16]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ef það er ætlun meiri hluta þingsins að keyra þetta mál hér í gegn með þeim vinnubrögðum sem hafa verið boðuð er það lágmarkskrafa okkar í sjávarútvegsnefnd að fá vinnufrið. Til þess þarf þá að fresta þingfundum. Það er lágmarkskrafa að við fáum tíma til að vinna þetta mál, fáum að fá til okkar gesti til að fjalla um þetta mál og leyfa þeim að gera grein fyrir þeim alvarlegu athugasemdum sem allir umsagnaraðilar hafa gert, bæði um málatilbúning og efnisatriði málsins.

Það er hægt að bjóða okkur þingmönnum upp á ýmislegt þegar kemur að vinnutíma og ég kveinka mér ekki undan því þó að auðvitað sé full ástæða til að gera við það alvarlegar athugasemdir, en við getum ekki boðið gestum okkar og umsagnaraðilum upp á það að hitta okkur hér seint á kvöldin og fram á nætur eins og raunin varð í gærkvöldi. Það eru ekki boðleg vinnubrögð af hálfu þingsins að bjóða (Forseti hringir.) umsagnaraðilum upp á slíkt fyrir utan þann skamma tíma sem þeir hafa til undirbúnings á þessum fundum. Þessu verður að breyta, virðulegi forseti, og ég hvet (Forseti hringir.) forseta til að beita sér fyrir því að nefndin fái þá vinnufrið til að hlusta á alla þá fjölmörgu aðila sem þurfa að koma að þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti gerir nú fimm mínútna hlé á þessum fundi og boðar þingflokksformenn til fundar við sig í forsetaskrifstofu.)