139. löggjafarþing — 143. fundur
 7. júní 2011.
rannsóknarnefndir, frh. 3. umræðu.
frv. forsætisn., 348. mál (heildarlög). — Þskj. 944, frhnál. 1497, brtt. 1498.

[11:48]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höldum nú áfram 3. umr. um frumvarp til laga um rannsóknarnefndir en hún hófst hér í gær og ætla ég að taka til við þar sem þeirri umræðu lauk. Hér er tvímælalaust um að ræða eitt af merkari en jafnframt vandmeðfarnari málum þessa þings. Áætlað er að setja almennan lagaramma um rannsóknarnefndir sem Alþingi ákveður að setja á fót til að rannsaka tiltekin mál sem varða mikilvæg opinber málefni.

Eins og við þekkjum hafa slíkar rannsóknarnefndir verið kjörnar af Alþingi á umliðnum árum. Frægasta dæmið er auðvitað rannsóknarnefndin vegna bankahrunsins en fyrir þann tíma má nefna rannsóknarnefnd vegna t.d. meintra brota gegn vistmönnum á vistheimilum, um hleranir og fleira þess háttar. Það hefur verið lítið notað úrræði en þekkist þó og má segja að lagaramminn mótist að nokkru leyti af þeirri reynslu sem komin er á framkvæmdina frá síðustu árum.

Eins og hv. þingmenn þekkja urðu allnokkrar breytingar á málinu milli 1. og 2. umr. Nefndin tók málið síðan aftur til sín milli 2. og 3. umr. og enn eru lagðar fram talsvert viðamiklar breytingar og raunar grundvallarbreytingar í ákveðnum atriðum. Segja má að breytingarnar lúti einkum að orðalagi þeirra ákvæða sem kveða á um gildissvið frumvarpsins annars vegar og hins vegar að rannsóknarheimildum og stöðu þeirra sem rannsókn beinist að. Það er rétt að geta þess að hvað þessi atriði varðar bárust athugasemdir og nefndin átti samræður við einstaklinga sem reynslu hafa af starfi rannsóknarnefnda frá umliðnum árum. Ábendingar þeirra hafa haft áhrif á þær tillögur sem hér eru lagðar fram til breytinga.

Ef við víkjum að gildissviðinu má segja að það sé víkkað út frá því orðalagi sem upphaflega var í frumvarpinu, þ.e. tekin er út tilvísun til þess að rannsókn skuli beinast að meðferð opinbers valds og var samstaða um það í nefndinni að þar kynni að vera of þröngt orðalag sem byði upp á of þrönga skilgreiningu þannig að hætt væri við að einhver atriði, einhverjar hugsanlegar rannsóknir gætu fallið utan gildissviðsins án þess að það væri endilega ætlunin. Í nefndarálitinu er ágætlega gerð grein fyrir þeim vangaveltum sem áttu sér stað um þetta efni. Eftir sem áður stendur, þar sem starf rannsóknarnefndar sem Alþingi velur, að þetta er þáttur í eftirliti Alþingis og eftirlit Alþingis beinist að framkvæmdarvaldinu. Alþingi er ekki almenn eftirlitsstofnun með samfélaginu heldur hefur það það sérstaklega skilgreinda hlutverk miðað við stjórnskipun okkar að hafa eftirlit með framkvæmd opinbers valds og með opinberum málefnum sem heyra undir verksvið framkvæmdarvaldsins. Rannsóknarnefndir eru fyrst og fremst til þess ætlaðar að fylgjast með því hvernig framkvæmdarvaldið hagar störfum sínum.

Inn í slíkt eftirlit geta auðvitað blandast aðrir aðilar og m.a. þess vegna var breyting gerð á orðalaginu til að landamærin yrðu ekki of skörp að þessu leyti því að auðvitað getur rannsókn á aðgerðum framkvæmdarvaldsins snert fleiri aðila, einkaaðila, stofnanir, samtök o.s.frv. Við teljum því ljóst að það sem sannarlega heyrir til meðferðar opinberra mála, þ.e. hinar eiginlegu athafnir framkvæmdarvaldsins sem lúta að reglusetningu, stjórnvaldsúrskurðum, meðferð opinberra fjármuna o.s.frv., falli þarna undir. Við teljum að sú niðurstaða sem þarna er sé ásættanleg í þessu.

Áfram er lögð grundvallaráhersla á það að rannsóknarnefndir eigi fyrst og fremst að setja á fót til þess að rannsaka mikilvæg mál, ekki smávægileg. Það er auðvitað undir mati komið hverju sinni hvað fellur undir þá skilgreiningu en í lagatextanum er áskilnaður um að mál séu mikilvæg og varði almannahagsmuni. Fram hjá því verður ekki komist að þegar einstakar tillögur koma til meðferðar á þingi samkvæmt efni frumvarpsins mun það áreiðanlega verða álitamál í mjög mörgum tilvikum hvort um mikilvæg mál og um almannahagsmuni sé að ræða. Stundum er það augljóst og óumdeilt, í öðrum tilvikum kann það að liggja á mörkunum.

Við frágang almennra laga af þessu tagi verður ekki svo fastlega frá málum gengið að ekki komi slík álitamál upp en tilvísanir til mikilvægra mála og almannahagsmuna eru hins vegar mikilvægar leiðbeiningar að þessu leyti auk þess sem rannsóknarnefndir eiga að vera þáttur í eftirliti Alþingis með framkvæmdarvaldinu.

Ég vísa að öðru leyti til umfjöllunar í nefndarálitinu, til að mynda á bls. 3, þar sem vikið er að sjónarmiðum um skipun rannsóknarnefndar og tiltekin nokkur atriði sem hafa ber í huga þegar tekin er afstaða til þess hvort fara eigi í rannsókn eða ekki. Ég hugsa að þau atriði í nefndarálitinu hljóti að verða mikilvæg leiðbeining þegar kemur að því að taka afstöðu til einstakra tillagna.

Ég ætla að lokum að nefna í þessu sambandi mikilvægi þess að þess sé gætt að rannsóknarnefndir séu því aðeins skipaðar ef ljóst er að önnur rannsóknarúrræði sem þegar eru fyrir hendi í kerfi okkar teljast ekki fullnægjandi. Eins og fram hefur komið margsinnis hafa fjölmargir aðilar á vegum hins opinbera rannsóknarhlutverk. Rannsókn á sakamálum lýtur sérstökum lögum og stofnunum ríkisvaldsins. Rannsókn á málum sem varða fjármálamarkaðinn er í mjög mörgum tilvikum undir Fjármálaeftirlit sett, samkeppnismál undir Samkeppniseftirlit og svo má lengi telja. Við höfum því þegar fjölmargar aðferðir til þess að rannsaka atriði sem eru rannsóknarverð í samfélaginu og við höfum líka aðrar leiðir til að fylgjast með hinu opinbera valdi eða meðferð þess. Þá hefur verið vísað á embætti umboðsmanns Alþingis og á Ríkisendurskoðun auk þess sem þingmenn hafa ýmsa möguleika í þinginu til þess að afla upplýsinga og í raun til að taka upp mál og rannsaka þau án þess að það fari endilega í þann farveg sem hér um ræðir.

Það er rétt að árétta, vegna þess að allir sem að málinu komu í starfi allsherjarnefndar eru sammála um það, hygg ég, að skipun rannsóknarnefnda samkvæmt ákvæðum þessara laga á að vera undantekning. Almennt má reikna með að mál sem upp koma og umdeild kunna að vera og krefjast rannsóknar fari í einhvern annan farveg. En við erum sammála um að það úrræði verður að vera fyrir hendi og við erum sammála um að það sé heppilegt að hafa um það almenn lög, almennar málsmeðferðarreglur, þannig að ekki þurfi að setja leikreglurnar í hvert einasta skipti sem tillaga kemur fram á þingi um að fara út í rannsókn. Það vildi ég almennt segja um þetta.

Hvað varðar rannsóknarheimildir rannsóknarnefnda og tækin sem rannsóknarnefndirnar hafa í störfum sínum er nauðsynlegt að það komi fram að með breytingartillögunum sem koma fram við 3. umr. er gengið lengra en gert var í fyrri útgáfu málsins. Ætlunin er að skýra ákveðna þætti en jafnframt er hert á, ef svo má segja, og eru fyrirmyndir einkum sóttar til lagarammans í kringum rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins. Um það var samstaða og sú var niðurstaðan í nefndinni að réttara væri að gera það jafnvel þó að það væri ekki sjálfgefið enda verða tilefnin til jafnalvarlegra rannsókna vonandi sjaldan fyrir hendi auk þess sem það þarf alltaf að gæta þess að rannsóknarnefndirnar hafi ekki það víðtækar heimildir eða það sterk vopn í höndunum, ef við getum sagt sem svo, að það feli í sér að gengið sé á rétt þeirra sem rannsókn beinist að. En eins og viðurkennt er hvarvetna í löggjöf okkar, þar á meðal í sakamálalöggjöfinni, eiga jafnvel þeir sem ásakaðir eru um alvarlegt athæfi rétt á því að málsmeðferð í málum þeirra fari fram eftir gildum, sanngjörnum leikreglum þar sem þeir hafa tækifæri og möguleika á að gæta réttar síns.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að staldra lengi við þennan þátt að öðru leyti en því að ég ætla að nefna það sem hér er sagt um andmælarétt þeirra sem rannsókn beinist að, þ.e. þeirra sem mega búast við því að niðurstöður muni fjalla um þá eða fela í sér áfellisdóm yfir þeim með einum eða öðrum hætti. Ég held að slíkur andmælaréttur sé afar mikilvægur, það er mikilvægt að hann sé virkur. Það verður auðvitað undir rannsóknarnefndum komið hvernig það verður útfært nákvæmlega en ég vil leggja á það áherslu við þessa umræðu að sá andmælaréttur sé raunverulegur. Þeir sem fá andmælarétt hafi raunveruleg tækifæri til þess að leggja fram sjónarmið sín og að reynslan frá starfi rannsóknarnefndar Alþingis verði nýtt til þess að gera betur að þessu leyti en þar var gert. Ég verð að játa að þó að margt gott megi segja um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og störf nefndarinnar taldi ég og tel enn að taka hefði mátt meira mið af almennum sjónarmiðum um andmælarétt í þeim tilvikum þegar 11 einstaklingar, ef ég man rétt, fengu tækifæri til að koma að andmælum, en það var afar seint í ferlinu. Það er vandséð að tekið hafi verið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í andmælunum og það er auðvitað stór galli að andmælin skyldu ekki vera birt sem hluti af skýrslunni eins og hefði verið eðlilegt í þessum tilvikum. Það þarf að móta í hverju tilviki fyrir sig í framkvæmdinni en ég vil leggja áherslu á að andmælarétturinn er afar mikilvægur.

Ég ætlaði að lokum að nefna í ræðu minni, af því að það bar aðeins á góma í gær, að fyrir þinginu eru allmargar tillögur um rannsóknarnefndir af einu eða öðru tagi. Ég taldi saman níu slíkar tillögur og það er ljóst að þeirri nefnd þingsins, væntanlega allsherjarnefnd til að byrja með, verður mikill vandi á höndum þegar fjalla þarf um hverja tillögu fyrir sig. Ég er sannfærður um að flutningsmenn telja í öllum tilvikum alveg gríðarlega ríka ástæðu til að fara út í rannsóknir. En ég vil ljúka máli mínu, hæstv. forseti, með því að spyrja hv. þingmenn hvort við getum í raun fjárhagslega og miðað við mannafla og annað þess háttar (Forseti hringir.) gert ráð fyrir því að við séum með níu rannsóknir í gangi á þinginu (Forseti hringir.) á sama tíma samkvæmt þessum lagaramma.



[12:04]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir hans ræðu. Jú, vissulega er það svo að oft þegar lögð eru fram frumvörp vekja þau ýmsar spurningar. Ég spyr, eins og hv. þingmaður, hvort við Íslendingar höfum yfir höfuð mannafla og fjármagn til að standa í þeim rannsóknum sem nú liggja fyrir þinginu. Eins og fram kom í ræðu minni í gærkvöldi um þetta sama mál lít ég þannig á, verði frumvarpið samþykkt, að þessum lögum verði ekki beitt nema önnur úrræði þrjóti.

Þingmaðurinn fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig það er, en Alþingi er fyrst og fremst löggjafi og á á hinn bóginn að hafa aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. En nóg um það. Við hv. þingmaður sitjum bæði í allsherjarnefnd og mig langar því að spyrja hann um þá breytingartillögu þar sem lagt er til að starfsgengisskilyrðin séu hert, verði starfsgengisskilyrði héraðsdómara, en í upphaflegu drögunum var einungis talað um að viðkomandi ætti að vera lögfræðingur. Formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, vildi meira að segja hafa þetta enn frjálslegra og ekki gera neinar menntunarkröfur. Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson: Er hann ekki fylgjandi því að nefndin geri þessa breytingu vegna eðlis málsins og þess hversu víðtækt vald er falið í frumvarpinu?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn að því hvernig hann sjái samspil rannsóknarnefnda og fjárlagagerðar til framtíðar, hvernig eigi að koma að þessu ákvæði um að kostnaður við starf rannsóknarnefnda skuli greiðast úr ríkissjóði. Hvernig sér hann það fyrir sér að það komi inn á fjárlög og annað?



[12:06]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að byrja á styttra svarinu, og síðara atriðinu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spyr um, er ljóst að um ákveðið vandamál verður að ræða. Eðli málsins samkvæmt verður ekki alltaf fyrirséð við fjárlagagerð í hvaða rannsóknir verður ákveðið að ráðast á hverju ári. Ég hygg að hin raunverulega lending verði sú, eins og verið hefur, að ef til rannsókna kemur og ef til þeirra er stofnað á miðju ári verði málið leyst með fjáraukalögum og síðan verði reynt að áætla eftir bestu getu við fjárlög næsta árs hvað afgangurinn af rannsókninni á að kosta o.s.frv. Reynslan er sú að þessar áætlanir geta verið talsvert ónákvæmar þannig að ég held að við verðum að vera þess meðvitandi að sennilega er ekki hægt að negla þetta fastar niður en þetta.

Það er ljóst að rannsóknarnefnd Alþingis kostaði mörghundruð milljónir, allt hennar starf. Jafnvel þó að ekki yrði um að ræða jafnviðamiklar rannsóknir er ljóst að kostnaðurinn getur orðið verulegur, og það er auðvitað sjónarmið sem menn þurfa þá að taka tillit til þegar afstaða til hverrar tillögu fyrir sig er tekin hér í þinginu.

Varðandi hæfisskilyrðin var ég eindregið fylgjandi því að gerðar væru auknar kröfur til þeirra sem gegna eiga formennsku í þessum nefndum og ágætt að miða við starfsgengisskilyrði héraðsdómara í því sambandi. Það er ljóst að það er mikið vald sem nefndum af þessu tagi er falið. Það er líka ljóst að það er mikilvægt að þeir sem stýra því starfi hafi grundvallarþekkingu og reynslu á sviði réttarfars og réttarfarsreglna, mannréttinda og þess háttar, þeir eiga að stýra þeim þáttum. Síðan getur rannsóknarnefnd fengið sérfræðinga á öðrum sviðum til að fjalla um sérhæfða þætti, verkfræðinga, endurskoðendur, lækna (Forseti hringir.) eða hvaða sérsvið sem gæti reynt á í hverju tilviki.



[12:09]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því er varðar starfsgengisskilyrði héraðsdómara og ég er jafnframt frekar hlynnt því að það skuli eiga að undanþiggja hámarksaldursákvæðið í lögum um dómstóla því að við gætum svo sannarlega átt mikla lagaspekinga, sem mundu teljast til öldungaráðs í þessum fræðum, sem gætu þá tekið að sér rannsóknir af þessu tagi. Eins og kemur fram í frumvarpinu er í minni rannsóknum gert ráð fyrir að einungis einn aðili geti farið með rannsókn máls ef það er ekki viðamikið.

Þar sem þessum rannsóknarnefndum samkvæmt þessu frumvarpi er falið mjög víðtækt vald til gagnaöflunar, til yfirheyrslna o.s.frv. langar mig að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort honum þyki valdið of víðtækt. Til dæmis eru lagðar til breytingartillögur við 4. gr. sem leiða það af sér að ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi skuli hún tilkynna ríkissaksóknara um það. Er verið að framselja eitthvert vald til nefndarinnar sem óeðlilegt er að sé á hennar borði, því að það að bera fólk sökum er afar þungbært? Og eins þetta ákvæði um það að ef nefndin kemst að því að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur sé því vísað samdægurs til viðkomandi forstöðumanns eða í hlutaðeigandi ráðuneyti.

Ég hef ekki tíma til að spyrja út í ráðherraábyrgðina. En finnst þingmanninum þessi mál vera í eðlilegum farvegi með því að nefndinni sé falið að sakbenda og koma málum til þessara aðila?



[12:11]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst örstutt um aldursskilyrðið sem er afnumið þannig að unnt verði að leita til þeirra sem orðnir eru sjötugir til að hafa þetta starf með höndum samkvæmt frumvarpinu. Ég held að það sé mjög jákvætt. Ég held að almennt sé staðan sú að fólk heldur sem betur fer starfsorku sinni lengur og ég held að það geti einmitt verið fengur að því að fá til verkefna af þessu tagi menn sem lokið hafa störfum, hafa því meira svigrúm og tækifæri til að sinna svona verkefnum en um leið fulla starfsorku. Ég held að það sé mjög gott að við getum leitað til reynsluríkra einstaklinga í þessu sambandi.

Varðandi rannsóknarheimildirnar játa ég að á meðan á málsmeðferðinni í nefndinni stóð hafði ég ákveðnar áhyggjur af nákvæmlega þessum þætti. Þetta er vandmeðfarið. Á annan kantinn þurfa heimildirnar að vera með þeim hætti að þær virki, að þær leiði til þess að rannsóknarnefnd sé kleift að draga saman þær upplýsingar og afla sér þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að komast að sem réttastri niðurstöðu. Ég held að það sé mikilvægt. En á sama hátt er gríðarlega mikilvægt að um sé að ræða ákveðna réttarvörn eða réttindagæslu fyrir þá sem rannsókn beinist að. Ég get fallist á þessa niðurstöðu og sætti mig alveg við hana. Varðandi það að slíkar nefndir geti vakið athygli annarra yfirvalda á brotum þá held ég að það sé bara nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að hafa slíkt ákvæði inni til þess að mál fari þá í réttan farveg, hvort sem er hjá ákæruvaldinu eða (Forseti hringir.) yfirmönnum í skilningi starfsmanna- og stjórnsýslulaga.



[12:13]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka allsherjarnefnd kærlega fyrir þá miklu vinnu sem fór fram milli 2. og 3. umr. og þær breytingartillögur sem verið er að leggja fram hér. Margar af þeim tillögum voru athugasemdir sem m.a. ég kom á framfæri við nefndina ásamt öðrum fulltrúum sem hafa starfað í nefndum og unnið að rannsókn mála eða í rannsóknarnefndum.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli mína í þeim breytingartillögum sem hér koma fram er ákvæðið um vernd uppljóstrara. Þegar ég segi að það veki athygli mína þá tel ég að þetta ákvæði geti orðið mjög gagnlegt. Þetta er ákveðin nýbreytni í íslensku lagaumhverfi og verið er að víkja frá ákvæðum réttarfarslaga um að það eigi að sækja menn til saka fyrir brot. Það sem ég hefði áhuga á að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson um er hvort allsherjarnefnd hafi skoðað að setja almenna löggjöf um vernd uppljóstrara í samræmi við t.d. hina svokölluðu „whistleblower“-löggjöf í Bandaríkjunum, þannig að hægt væri að nota þetta en hérna er þetta afmarkað með því að upplýsingar eða gögn sem tengjast refsiverðu broti þurfi að vera í opinberri stjórnsýslu eða broti á opinberum starfsskyldum. Í okkar litla samfélagi getur oft verið mjög erfitt og jafnvel kostað menn lífsviðurværið að koma fram með viðkvæmar upplýsingar sem varða brot á lögum. Þess vegna hefði ég mikinn áhuga á að heyra frá þingmanninum bæði um þá hugsun sem kemur fram hjá nefndinni með því að leggja til þetta ákvæði og líka hvort rætt hafi verið að setja almenna löggjöf um vernd uppljóstrara.



[12:15]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Það er alveg rétt sem hún kom inn á í upphafi máls síns að athugasemdir sem hún kom fram með við 2. umr. málsins urðu ásamt öðru tilefni til þess að nefndin tók málið til gagngerrar endurskoðunar milli 2. og 3. umr. Ég játa það alveg að sem almennur nefndarmaður í allsherjarnefnd tók ég eftir ræðu hv. þingmanns og taldi ástæðu til að skoða ákveðna þætti sem hún vék að í máli sínu. Síðan kom í ljós að í mörgum tilvikum var fullt tilefni til að taka tillit til þeirra athugasemda sem hún hafði komið á framfæri. Að sama skapi komu fram athugasemdir frá mönnum utan þings sem reynslu hafa af rannsóknarstörfum af þessu tagi sem nefndinni þótti líka ástæða til að leggja töluverða vinnu í að skoða. Niðurstaðan úr þeirri vinnu liggur frammi í þeim breytingartillögum sem hér hafa komið fram.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ákvæðið um hina svokölluðu uppljóstrara er auðvitað óvenjulegt. Það á sér fyrirmyndir í löggjöfinni um rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins og að ég hygg líka í löggjöf um embætti sérstaks saksóknara. Ég þori ekki að segja til um hvort mikið hafi reynt á það í framkvæmd en alla vega var talið rétt í þeim tilvikum að setja slíkt inn í löggjöfina. Við ákváðum í allsherjarnefnd að fara sömu leið núna í ljósi þess að í mörgum tilvikum getur verið erfitt, jafnvel ógerlegt að afla upplýsinga um þau atriði sem máli skipta nema með einhverjum slíkum hætti. En varðandi almenna löggjöf eða almenn ákvæði um uppljóstraravernd hefur slíkt ekki verið tekið til sérstakrar umræðu í nefndinni þannig að það liggi fyrir.



[12:18]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í svari hv. þm. Birgis Ármannssonar er vísað til þess að það sé sambærilegt ákvæði í lögum um embætti sérstaks saksóknara. Það er nú svo að enn sem komið er höfum við ekki fengið miklar upplýsingar um það rannsóknarferli eða þær rannsóknir sem eru í gangi hjá sérstökum saksóknara. Við vitum því ekki enn hversu oft þessu ákvæði hefur verið beitt, það mun væntanlega ekki koma í ljós fyrr en viðkomandi uppljóstrarar þurfa að bera vitni fyrir dómstólum um hugsanlega brot sem þeir hafa sjálfir framið. En leiða má líkur að því að ástæðan fyrir því að ákveðið er að ákæra þá ekki sé sú að rökstuddur grunur sé um að einhver annar hafi gerst brotlegri eða beri meginábyrgðina á viðkomandi broti og hafi kannski jafnvel þvingað starfsmenn sína til að fara gegn lögum og starfsmaður talið, þó að hann hafi vitað að svo væri, að hann hefði ekki val um annað. Við höfum svo sem heyrt að menn hafi fært rök fyrir því að þetta hafi ekki verið ábyrgð þeirra heldur yfirmanna þeirra.

Ég tel nauðsynlegt að við skoðum hvort það eigi að setja þetta almenna löggjöf og þetta varði ekki bara brot í opinberri stjórnsýslu eða brot á opinberum starfsskyldum heldur að ef menn brjóta lög í landinu sé þessi möguleiki fyrir ákæruvaldið og rannsóknaraðila að vega og meta hvort vitnisburður viðkomandi aðila skipti svo miklu máli að ástæða sé til að fella niður kæru eða ákæra viðkomandi ekki.

Ég vil nefna hér líka og spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta kæmi til greina varðandi t.d. brot á lögum um fiskveiðistjórn, því að við höfum haft miklar áhyggjur (Forseti hringir.) af brottkasti og þar er það þannig að sjómenn eru oft í þeirri aðstöðu (Forseti hringir.) að þeir hafa raunar enga möguleika á því, ef þeir vilja vinna áfram í (Forseti hringir.) greininni, að upplýsa um brot sem þeir sjálfir hafa framið.



[12:20]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það komi til álita að setja almenn ákvæði af þessu tagi. Ég held að í mjög mörgum tilvikum geti sú staða verið uppi að brot verði ekki að fullu upplýst nema til komi upplýsingar frá einhverjum sem við getum kallað uppljóstrara. Og það er alveg rétt að jafnvel þó að uppljóstrarinn hafi framið eitthvert brot sem telja má miklu vægara eða minna en sá sem rannsóknin hverju sinni beinist aðallega að getur óttinn við að fá á sig málssókn orðið til þess að menn gefi ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru.

Ég segi því við hv. þingmann: Já, ég tel að þetta komi vel til greina. Þarna er um að ræða viðkvæmt svið að því leyti að löggjöfin og réttarfarið gerir almennt ráð fyrir því að ef menn hafa framið refsivert brot skuli þeir sæta ákæru og eftir atvikum refsingum eða viðurlögum. Þarna er því um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu. En eins og hv. þingmaður kom inn á er auðvitað gert ráð fyrir að þarna fari fram ákveðið mat á brotinu, hvort brot uppljóstrarans sé ekki örugglega mun vægara en það brot sem aðallega er verið að rannsaka og hins vegar hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að þær hafi úrslitaþýðingu við uppljóstrun og rannsókn málsins. Það skiptir líka máli vegna þess að það verður að vera eitthvað sem máli skiptir þannig að menn geti ekki notað þessa heimild til að koma sjálfum sér undan refsingu með því að benda á einhverja aðra. Þetta þarf að vera eitthvað sem raunverulega skiptir máli til þess að leiða okkur til réttrar niðurstöðu í hverju máli. (Forseti hringir.) Um þetta vil ég almennt segja: Já, ég tel að það eigi að skoða (Forseti hringir.) slíka almenna heimild og ég tel rétt að það (Forseti hringir.) verði gert en legg áherslu á að það verði að vanda það verk.