139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.
fsp. BÁ, 765. mál. — Þskj. 1333.

[13:18]
Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Árið 1999 voru samþykkt lög á Alþingi um opinberar eftirlitsreglur. Lögin ná til reglna um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja og var gildissviðið víðtækt. Þó voru undanskilin ýmis svið svo sem almennt stjórnsýslueftirlit, innra eftirlit hins opinbera, löggæsla, tollamál, skattamál og fleira, t.d. atriði er varðar sifjarétt og barnarétt. Markmið laganna var í sem skemmstu máli að stuðla að því að opinbert eftirlit næði tilgangi sínum án þess að það leiddi til mismununar eða takmarkana á athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefðu.

Ég ætla ekki að fjalla um lögin að öðru leyti en vil þó geta þess að þau eru að mínu mati enn í fullu gildi. Þau eiga fyrst og fremst að stuðla að vönduðum vinnubrögðum við setningu laga og reglugerða um margháttaða eftirlitsstarfsemi sem Alþingi og stjórnvöld telja nauðsynlega, en fela í sér mikilvægan áskilnað um meðalhóf í þeim efnum og að upplýsingar um kostnað og áhrif eftirlitsreglna liggi fyrir áður en þær eru samþykktar. Að mínu mati eru lögin því mikilvægt aðhald og um leið liður í því löggjafarstarfi sem fram fór einkum á 10. áratug síðustu aldar sem fól í sér breytingar til að stuðla að betri, formfastari og vandaðri stjórnsýslu.

Forsætisráðherra er falið veigamikið hlutverk í sambandi við framkvæmd reglnanna sem getið er um í lögunum. Þess má geta að meðal þeirra atriða sem kveðið er á um samkvæmt 8. gr. laganna er að forsætisráðherra skuli að jafnaði flytja þinginu skýrslu á þriggja ára fresti um framkvæmd laganna. Það var gert á þingi 2002–2003 og 2005–2006 en síðan ekki söguna meir. Raunar er það svo að um alllangt skeið hefur lítið sem ekkert frést af því hvernig forsætisráðherra hefur fylgt eftir hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Því tel ég, hæstv. forseti, ástæðu til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig þessum málum hafi verið háttað undir verkstjórn hennar undanfarna um 30 mánuði og að hvaða leyti forsætisráðherra hafi beitt sér fyrir því að ákvæðum laganna frá 1999 sé fylgt í framkvæmd.



[13:21]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Lög um opinberar eftirlitsreglur eru einn þáttur af mörgum sem stuðla eiga að góðum undirbúningi lagasetningar en lögin gera ráð fyrir að þegar settar eru reglur á tilteknu sviði, þ.e. opinberar eftirlitsreglur, eigi að meta þörf fyrir eftirlitið, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Þá skal forsætisráðuneytið hafa yfirsýn yfir slíkar reglur og leitast við að tryggja nauðsynlega samhæfingu og hagkvæmni í eftirliti á vegum hins opinbera. Samkvæmt lögunum skal starfrækja ráðgefandi nefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og er hún skipuð til þriggja ára í senn.

Í lok september 2010 samþykkti ríkisstjórnin endurskoðaðar reglur um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa og var þá jafnframt gefinn út nýr gátlisti sem ráðuneytið þarf að fylla út þegar stjórnarfrumvarp er lagt fram í ríkisstjórn. Nýstofnuð skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu fer yfir öll stjórnarfrumvörp áður en þau eru lögð fram í ríkisstjórn og gefur umsögn um hvernig gæðakröfur hafa verið uppfylltar. Þar á meðal fer skrifstofan yfir það hvort frumvarp feli í sér nýjar eftirlitsreglur og vekur athygli á því ef ekki hefur farið fram mat samkvæmt 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur.

Ný ráðgjafanefnd var skipuð 1. júní 2010 en skipunartími eldri nefndar rann út nokkru áður. Nokkurn tíma tók að afla nýrra tilnefninga og formaður nefndarinnar er skrifstofustjóri löggjafarmála í forsætisráðuneytinu. Þar eiga einnig sæti fulltrúar ASÍ, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagsins og hefur nefndin fengið nokkur mál til meðferðar. Í vetur hefur hún fjallað um frumvarp til laga um skeldýrarækt, frumvarp til fjölmiðlalaga, drög að reglugerðum um hámarksmagn transfitusýra í matvælum og merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.

Eins og fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er nú verið að endurskoða þau lög sem fyrirspurnin lýtur að og lögin spruttu tvímælalaust á sínum tíma úr jarðvegi þar sem tortryggni ríkti í garð opinbers eftirlits með starfi fyrirtækja. Bankahrunið hefur auðvitað leitt í ljós að sú hugmyndafræði var á villigötum. Það þýðir ekki að lögin sem slík séu skaðleg enda geyma þau mjög matskenndar reglur og minna fyrst og fremst á að rökstyðja þurfi íþyngjandi reglur fyrir atvinnulífið.

Endurskoðun laganna er vel á veg komin í ráðuneytinu og á vettvangi ráðgjafanefndarinnar. Tvær leiðir hafa þar einkum komið til skoðunar, annars vegar að fella lögin úr gildi og fella gæðastarfið inn í almennt ólögfest gæðastarf á vegum ráðuneytanna undir forustu forsætisráðuneytisins, og hins vegar að skerpa á markmiðum laganna þannig að þau beinist ekki að opinberum eftirlitsreglum sem slíkum, heldur miði að því að hverju sinni sé dreginn fram sá kostnaður og ávinningur fyrir samfélagið sem felst í nýjum reglum er snerta atvinnulífið og jafnvel borgaranna. Eftir sem áður yrði það svo pólitískt mat hvort þau markmið sem að var stefnt með löggjöf réttlæti þann kostnað.

Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns vil ég einnig bæta því við að forsætisráðuneytið mun á næstu vikum fara gaumgæfilega yfir það með öllum ráðuneytunum hvort það gæðastarf sem unnið hefur verið undir forustu skrifstofu löggjafarmála hafi skilað sér og hvernig gera megi enn betur til að tryggja vandaðan undirbúning lagasetningar.



[13:24]
Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég tel í sjálfu sér gott að sú ágæta skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu sem sett var á fót á síðasta ári hafi það hlutverk að fylgjast með því að ákvæðum laga um opinberar eftirlitsreglur sé fylgt eftir. Ég vildi hins vegar geta þess, af því hæstv. forsætisráðherra nefndi þá skrifstofu, að ég tel að enn birtist því miður ekki árangur af starfi þeirrar skrifstofu með nægilegum hætti í þeim lagafrumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi. Ég velti t.d. fyrir mér, af því hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn í salinn, hvort skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu hafi gefið frumvörpum hans um sjávarútvegsmál heilbrigðisvottorð (Sjútvrh.: Að sjálfsögðu.) áður en þau voru lögð fram.

Þá verð ég að segja að eitthvað þarf hæstv. forsætisráðherra að herða á og láta þessa skrifstofu vinna betur því að það er mat flestra ef ekki allra sem um frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa fjallað að þau standist engar kröfur sem gera á til lagafrumvarpa, hvorki hvað varðar undirbúning né framsetningu. Það ætti að vera hlutverk löggjafarskrifstofunnar að koma í veg fyrir eða leiðbeina mönnum um að leggja ekki fram frumvörp sem eru svo vanbúin.

Vissulega spruttu lögin á sínum tíma úr jarðvegi ákveðinnar hugmyndafræði. Ég held að sú hugmyndafræði sé í fullu gildi eins og hún birtist í lögunum þar sem jafnvægi er milli þess að hægt er að setja (Forseti hringir.) reglur í þágu almannahagsmuna. En þegar það er gert þarf að vanda sig og það þarf að upplýsa hver áhrif reglnanna eru.



[13:26]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sem ég nefndi í máli mínu áðan, að við erum að endurskoða lögin, gefi tilefni og færi á því að taka upp ýmisleg álitaefni sem fram hafa komið í umræðunni og lítum til þess hvernig þessi lög eru í nágrannalöndum okkar. Ég held að sé vel tilefni til þess. Ég held að það sé alveg ljóst ef við skoðum hugmyndafræðina í núgildandi lögum að það er eins og allt opinbert eftirlit sé af hinu illa og að þar sé frekar neikvæð nálgun varðandi eftirlitsreglurnar, eins og þær séu bara íþyngjandi, en það er líka ávinningur í eftirlitsreglunum. Nægir þar að nefna Vinnueftirlitið og Vinnuvernd o.s.frv. Þó að það sé kostnaður við það er það til hagsbóta fyrir borgarana.

Það má líka skoða þetta með alþjóðlegum samanburði. Á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Bretlandi er mældur kostnaður af eftirlitinu fyrir atvinnulífið. Ég held að það sé ástæða til þess að skoða það hér líka. Bretar hafa að vísu gengið mjög langt í þessu og þar kveða lög á um að ekki megi leggja nýjar íþyngjandi reglur á fyrir atvinnulífið nema fella aðrar úr gildi á móti sem eru íþyngjandi. Ég held að mönnum þyki það ganga of langt, en meðalhóf í þessu efni er það sem á að gilda. Ég vona að við höfum öll tækifæri til að skoða það á næsta þingi þegar endurskoðað frumvarp um opinberar eftirlitsreglur kemur fram.