139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
úttekt á stöðu EES-samningsins.
fsp. ÞKG, 757. mál. — Þskj. 1309.

[13:41]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það liggur fyrir að bæði Liechtenstein og ekki síður Norðmenn hafa farið í mjög umfangsmikla úttekt á EES-samningnum, ekki síst eftir að hafa hlustað á mál Jonasar Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, um að samningurinn sé mjög mikilvægur fyrir Norðmenn í margþættu tilliti. Þess vegna vilji þeir kortleggja um leið hvernig hægt er að nýta það sem kemur fram í samningnum enn betur og hvernig Norðmenn geti þá hugsanlega líka hagað vinnulagi sínu til að gera samninginn sem skilvirkastan.

Ég held að við Íslendingar getum í sjálfu sér tekið undir margar hugsanir og pælingar sem Norðmenn hafa sett fram vegna EES-samningsins. Hann hefur ótvírætt skilað íslensku samfélagi mikilli hagsæld að mínu mati og var mikið framfaraskref þegar hann var samþykktur á sínum tíma. Þó verður að undirstrika að Evrópusambandið hefur líka breyst gríðarlega og kannski helsta apparatið sem var þá hvað valdamest innan Evrópusambandsins, þ.e. framkvæmdastjórnin. Hún hefur í rauninni minnkað vægi sitt. Aðrir þættir innan Evrópusambandsins eins og ráðherraráðið og ekki síst Evrópuþingið hefur fengið aukið vægi. Ekki er tekið tillit til þessa í samningnum sem slíkum.

Ég held engu að síður að þrátt fyrir Evrópusambandsumsóknina sem er í gangi — ég vona að hún verði áfram í fullum gangi þó ég verði að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum mínum yfir því að hæstv. ráðherra hafi ekki nægilega mikinn stuðning innan ríkisstjórnarinnar. Þó að hann sé ötull maður og kraftmikill þá held ég að öllum mönnum sé ljóst að hann hefur ekki eins mikinn stuðning innan ríkisstjórnarinnar og maður hefði óskað til þess að fara af stað í þessa vegferð sem er jafnmikilvæg og að fara í umsóknarferlið gagnvart Evrópusambandinu. Gott og vel. Það er önnur umræða.

Engu að síður verðum við Íslendingar ávallt hverju sinni þrátt fyrir umsóknaraðildarferlið að gæta að hagsmunum okkar. Hagsmunir okkar tengjast ótvírætt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna verðum við að fylgja eftir þeirri umræðu sem hefur verið mjög hér í þingsal, m.a. um það hvernig þingið, hvernig stofnanir í samfélaginu geti reynt að virkja þennan samning enn betur. Hæstv. utanríkisráðherra hefur fram til þessa verið mjög ötull talsmaður þess að það verði gert.

Ég vil því spyrja í tengslum við þetta allt saman hvernig við getum gætt hagsmuna okkar og jafnvel sótt fram enn frekar, hvernig hæstv. utanríkisráðherra líti á EES-samninginn, og ekki síður hvort hann hafi hugsað sér að fara í svipaða úttekt og Norðmenn. Eða ætlar hann sér að bíða eftir því hvað kemur út úr skýrslunni frá Norðmönnum? Það er í sjálfu sér kannski ekki óeðlilegt að það verði gert. En er hæstv. ráðherra reiðubúinn að fara í jafnviðamikla úttekt og Norðmenn hafa gert á EES-samningnum?



[13:44]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er nei. Ég er ekki reiðubúinn til þess að fara í slíka úttekt á þessum tíma. Fyrir því eru ýmsar ástæður, kannski þær helstar tvær að við Íslendingar höfum ákveðið að freista þess að sníða af eða sneiða hjá ágöllum EES-samningsins með öðrum hætti. Hv. þingmaður reifaði það rækilega áðan. Þetta þing hefur tekið ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Þó að ég sé þakklátur fyrir umhyggju hv. þingmanns get ég fullvissað hann um að umsóknarferlið er allt á tímaáætlun. Það er ekkert sem hefur komið upp í samskiptum okkar við Evrópusambandið sem bendir til annars en að bjartsýni okkar í upphafi hafi verið á rökum byggð.

Í öðru lagi er ekki langt síðan nefnd undir forustu þáverandi dómsmálaráðherra skilaði skýrslu, ég átti sæti í nefndinni, um Evrópu og nánari tengsl Íslands við Evrópu og stöðu Íslands. Þar var t.d. farið mjög rækilega yfir þá ágalla sem vissulega er líka að finna á EES-samningnum. Þeir eru enn í fullu gildi. Tíminn hefur ekkert gert annað en að auka þá. (Gripið fram í.) Samningurinn sem var samþykktur á sínum tíma er í reynd, hvað má segja, statískur, þ.e. til þess að breyta meginmáli samningsins þarf samþykki allra landanna sem að honum standa. Það er ekki nokkur vilji til þess. Síðan hefur það gerst að fjórir meiri háttar samningar hafa verið gerðar innan Evrópusambandsins. Það er nokkuð önugt fyrir okkur að hafa af þeim þá ávinninga sem við hugsanlega vildum og alls ekki í gegnum EES.

Hv. þingmaður spurði mig síðan um afstöðu mína til EES-samningsins. Ég hef alltaf verið ákaflega hlynntur honum. Ég studdi hann á sínum tíma andstætt flokki hv. þingmanns en nú vilja allir Lilju kveðið hafa. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að hann hefur orðið okkur mjög til farsældar. Það var nú samt sem áður þannig að áður en sú ríkisstjórn sem að lokum hratt honum til framkvæmda tók við völdum var Sjálfstæðisflokkurinn á móti EES-samningnum.

Í upphafi bentu menn strax á að hann væri á ákveðnu gráu svæði gagnvart stjórnarskrá. Við höfðum ekki beina aðkomu að ákvörðunum. Við höfðum á þeim tíma mótandi áhrif mjög framarlega í ferli ákvarðana nálægt framkvæmdastjórninni. Þetta var strax að mati sérfræðinga talið vera á gráu svæði.

Síðan hefur það gerst að mjög hefur aukist á lýðræðishallann gagnvart Íslandi og EFTA-ríkjunum. Það stafar af því, þó að fjarstæðukennt megi virðast, að innan Evrópusambandsins kom fram hörð gagnrýni á það að Evrópuþingið, sem var kosið af íbúum Evrópusambandslandanna, hefði mjög lítið vægi. Það var einungis ráðgefandi á þeim tíma. Menn hafa brugðist við því á þann hátt að segja má að Evrópuþingið sé núna orðið ný eða ein af þungamiðjunum í ákvörðunum innan Evrópusambandsins. Það gerist æ oftar að mál sem fara í ferli hjá Evrópusambandinu enda hjá þinginu og er stundum gjörbreytt þar án þess að ríki eins og við sem erum í EES og eigum aðkomu í gegnum það höfum nokkra möguleika á því að hafa nokkur áhrif á það.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til þrátt fyrir umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu að gera allt sem við getum til þess að styrkja EES-samninginn og hafa af honum það gagn sem hægt er. Þess vegna hef ég átt orðastað við hv. þingmann um það hvernig þingið og þingflokkarnir gætu haft ákveðna aðkomu að Evrópuþinginu, svipað og Norðmenn, með því að hafa þar skrifstofu, Norðmenn hafa þar tugi manna í dag en við höfum engan. Ég hef líka verið því fylgjandi að þingflokkarnir þiggi boð flokkahópanna á Evrópuþinginu um seturétt í flokkahópum sínum. Ég tel að ef eitthvert mál kæmi til kasta þingsins sem væri andstætt hagsmunum Íslands mundu allir íslensku þingflokkarnir hafa sameiginlega afstöðu í því máli og geta unnið það með þeim hætti. Ég tel hins vegar að það sé miklu betra að við göngum í Evrópusambandið.

Ég er líka þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli séum við að tapa valdi og framselja vald með þeim hætti sem ekki er heimilt. Ég vek eftirtekt á því að ég beindi sjónum þingsins sérstaklega að máli sem ég flutti í krafti EES-samningsins í vetur þar sem ég taldi að það væri algjörlega á mörkunum. Stefán Már Stefánsson prófessor sem veitti umsögn um það taldi að svo væri ekki af því þetta væri á svo þröngu svæði. En í sömu álitsgerð kom það fram, sem ég lét þingið fá, að hann teldi að samningurinn og framsalið væri farið að vera svo víðtækt og með þeim hætti sem hann taldi að væri ekki ásættanlegur lengur.

Þetta vildi ég segja við hv. þingmann.



[13:49]
Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í samningaviðræðunum um EES náðu Íslendingar nær öllum kröfum sínum fram. Það sama var upp á teningnum við gerð fríverslunarsamnings við Evrópusambandið árið 1972 og við aðildina að Schengen. Ríkisstjórn Íslands náði einnig fram samningsmarkmiðum sínum þegar við gengum í EFTA á sínum tíma árið 1970. Það var og er í rauninni stórmerkilegt hvað vel til tókst í öllum þessum tilfellum. Það sýnir okkur hversu við erum megnug, hversu lítil þjóð er megnug ef hún hefur skýr samningsmarkmið og heldur fast á sínu.

Í dag er mikilvægast af öllu að stjórnmálamenn, hagsmunasamtök og félagasamtök sem láta sig Evrópumál varða standi í megindráttum saman um að tryggja góðan aðildarsamning við Evrópusambandið. Í því eru hagsmunir þjóðarinnar fólgnir. Hinn ólýðræðislegi EES-samningur tilheyrir fortíðinni. Kostir hans og gallar liggja þegar fyrir. Hann er táknmynd gamla tímans. Samvinna á jafnræðisgrundvelli við aðrar þjóðir (Forseti hringir.) innan Evrópusambandsins er framtíðin.



[13:51]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar aðeins í byrjun til að ítreka það að ég held að þessi órói og í rauninni litli stuðningur sem hæstv. utanríkisráðherra hefur gagnvart umsóknarferlinu að Evrópusambandinu sé ekki til þess að styðja það ferli allt. En gott og vel. Hæstv. utanríkisráðherra heldur svo sem ágætlega um málið og hefur til þess ágætan stuðning vonandi víða að úr samfélaginu að klára það ferli allt.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra kom inn á og reyndi að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf verið á móti EES en síðan hefði hann komið og samþykkt hann, þá skulum við bara hafa eitt á hreinu. Ég hef sagt það mjög ítrekað, bæði innan flokks míns og annars staðar, að allar stærstu utanríkispólitísku ákvarðanirnar í sögu þjóðarinnar, sem að mínu mati hafa einmitt verið mjög farsælar eins og fram hefur komið, er aðildin að NATO, er samþykktin að ganga í EFTA og síðan að tryggja EES-samninginn. Ekkert af þessu hefði orðið að veruleika nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið að málum. Það er einfaldlega þannig. Það er sama hvað menn hafa verið að segja um fortíðina, þá er þetta nákvæmlega það sem skiptir máli. Ég hefði kosið, og ítreka það sem ég sagði í ræðustól í gær, að þrátt fyrir ólík sjónarmið innan margra flokka gætu menn þó sameinast um það að ná sem hagfelldustum samningi fyrir þjóðina.

Hvað varðar fyrirspurn mína skil ég hæstv. ráðherrann þegar hann segir nei, ég ætla ekki að fara í svipaða úttekt. Mér finnst það heiðarlegt og gott svar. Við erum sammála um það og ég fagna því sérstaklega að þrátt fyrir að vera ekki reiðubúinn í þessa úttekt eigum við engu að síður að vera í startholunum með að rýna skýrslu Norðmanna mjög ítarlega. Ég mæli með því að t.d. utanríkismálanefnd þingsins fari ítarlega yfir þá skýrslu.

Ég fagna því líka sérstaklega sem ráðherra sagði að við eigum að nýta kosti EES-samningsins og nýta það sem hann hefur upp á að bjóða meðan við búum við hann. Það eigum við að gera. Þess vegna verður eftirtektarvert að fylgjast m.a. með því hvað hæstv. forsætisnefnd kemur til með að gera í tillögum sínum (Forseti hringir.) og tillögugerð þegar kemur að fjárlögum næsta árs, hvort þingið ætli sér í raun og veru að nýta þær (Forseti hringir.) heimildir sem það hefur til að fylgja eftir réttindum og hagsmunum Íslands í tengslum (Forseti hringir.) við EES-samninginn.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutíma.)



[13:53]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég dreg ekkert af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að öllum meiri háttar utanríkispólitískum ákvörðunum sem varða lýðveldið Ísland og á hrós skilið fyrir framgöngu sína í því. Þess vegna er það undrunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn skilji núna ekki sinn vitjunartíma þó að stöku menn hafi að vísu á veikum augnablikum horfst í augu við ljós skilnings að þessu. Ég ætla ekki að nefna nein sérstök nöfn en mér kemur auðvitað til hugar þær sex klukkustundir sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gegndi embætti forsætisráðherra, kom þá í Kastljós og sýndist mér þar vera allt annar maður á ferð en stundum talar hér.

Ég er alfarið sammála hv. þingmanni og það hefur margoft komið fram að ég tel að þingið standi sig ekki nógu vel við að gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópuþinginu. Þar ekki spurt um atbeina framkvæmdarvaldsins, það verður Alþingi sjálft að taka til sín. Þetta var ein af þeim tillögum sem komu fram í þeirri skýrslu sem ég vísaði til áðan.

Ég mun alveg örugglega í ráðuneyti mínu fylgjast mjög grannt með niðurstöðum norsku nefndarinnar. Það er mjög athyglisverð vinna sem þar fer fram. Ég er viss um að hæstv. innanríkisráðherra mun ekki síður gera það. Það hefur komið fram í máli hans oftar en einu sinni að þó að hann sé á móti bæði ESB og EES þá telur hann þó ESB illskárri kostinn. En þeir ágallar sem hugsanlega munu koma fram í þeirri skýrslu eru nákvæmlega hinir sömu og við eigum við að kljást.

Svo rifja ég það upp, af því ég verð auðvitað var við sterkan vilja hjá Norðmönnum út af pólitísku stöðunni sem þar er til að ná fram breytingum á EES-samningnum til að gera hann skilvirkari og auðveldara um vik fyrir EFTA-ríkin að taka þátt í nýjungum innan ESB, að þetta hefur verið reynt. Forveri minn einn, Halldór Ásgrímsson, reyndi af miklu afli árið 2002 að ná fram breytingum á EES-samningnum en ekki nokkur vilji var fyrir því. Þannig (Forseti hringir.) er staðan núna.