139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.
fsp. EKG, 758. mál. — Þskj. 1310.

[13:56]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Við þekkjum öll að fram hefur farið mikil umræða á öllum tímum um ráðgjöf fiskifræðinga um heildaraflamark. Þær umræður eru því ekki nýjar af nálinni og þær eiga örugglega eftir að standa líka í framtíðinni. Fyrir allmörgum árum var sett niður svokölluð aflaregla sem gildir um veiðar úr þorskstofninum. Hugsunin var sú að reikna út stærð viðmiðunarstofns sem Hafrannsóknastofnun gerir á hverjum tíma og taka síðan ákvörðun um hversu mikinn hluta viðmiðunarstofnsins, sem er þorskur fjögurra ára og eldri, skuli veiða. Niðurstaðan var sú að veiða tiltekið hlutfall úr þessum stofni. Síðan hefur aflareglan tekið nokkrum breytingum. Í dag er hún þannig að reiknað er út hlutfall af viðmiðunarstofninum, fjögurra ára fiski og eldri, og sú tala er síðan lögð saman við afla á yfirstandandi ári, deilt í með tveimur og niðurstaðan er sá afli sem lagður er til grundvallar þegar útgefinn er kvóti.

Árið 2007 við mjög erfiðar aðstæður, þegar fyrir lá að þorskstofninn var minnkandi og fyrir lá líka að fram undan gætu verið mögur ár, var tekin sú erfiða ákvörðun — ég tók hana sjálfur — að lækka veiðihlutfallið niður í 20%. Þetta hafði í för með sér 63 þús. tonna lækkun á þorskkvótanum. Nú sjáum við að þetta er að bera þann árangur að þorskstofninn er í mjög miklum vexti og er núna kominn upp úr því að vera rúm 500 þús. tonn í nærri því milljón tonn. Þetta er sannarlega árangur. Við sjáum að þorskstofninn er að braggast.

Mikil deila hefur staðið um það hvernig þessi aflaregla eigi að vera útfærð í framtíðinni. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 14. október sl., fyrir átta mánuðum, að hann væri að skipa starfshóp til að fara yfir þetta og sá starfshópur eða samráðsvettvangur ætti að ræða þetta mat á grundvelli núgildandi reglu og móta síðan nýjar tillögur ef þörf krefði. Þetta er út af fyrir sig fínt og hæstv. ráðherra skipaði í þessa nefnd prýðilegt fólk sem ég er viss um að hefur unnið vel og vandlega að þessu verkefni. Nú ber hins vegar vel í veiði í orðsins fyllstu merkingu. Við erum að ræða þetta mál einmitt þann dag sem Hafrannsóknastofnun er að kynna tillögu sína um 177 þús. tonna aflaaukningu, sem að vísu fer því miður meira og minna fram hjá aflamarksskipunum vegna afskipta hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er önnur saga. Ég leita þess vegna svara hjá hæstv. ráðherra um hvað störfum þessarar nefndar líði og hverjar séu tillögurnar sem nefndin hafi kynnt fyrir hæstv. ráðherra.



[13:59]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg hárrétt að haustið 2010 setti ráðherra á fót samráðsvettvang sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi um nýtingu helstu nytjafiska. Verkefni hópsins var að meta núverandi nýtingarstefnu og aflareglu fyrir þorsk og kanna hvort rétt væri að leggja til breytingar þar á eða hvort bæta þyrfti enn frekar fræðilegan grunn þeirra. Þessi nefnd hefur verið að störfum síðan. Ég vil ekki eyða tímanum hér í að rekja hverjir eru í henni en hún er undir forustu Skúla Skúlasonar, rektors Háskólans á Hólum.

Þessi samráðsvettvangur skilaði áliti fyrir örfáum dögum og er álitið núna í skoðun og yfirferð í ráðuneytinu. Stefnt er að því að hópurinn kynni það sérstaklega og í framhaldi af því verði farið í víðtæka umræðu um ýmsa þætti sem samráðsvettvangurinn leggur til. Ég vil nefna hér sérstaklega og vitna í skýrsluna en þar segir orðrétt:

„Strax í upphafi vinnuvettvangsins var ljóst að aflareglan og forsendur hennar njóta takmarkaðs skilnings meðal hagsmunaaðila og almennings og oft heyrast gagnrýnisraddir í hennar garð. Sú gagnrýni stafar ekki síst af takmörkuðu samráði við mótun hennar og skorti á kynningu á henni. Mikilvægt er að bæta úr þessu. Lagt er til að breytt verði fyrirkomulagi við mótun og endurskoðun nýtingarstefnu og aflareglna í framtíðinni með mun nánari samvinnu hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnvalda. Slíkt er í raun forsenda þess að hægt sé að móta trúverðuga nýtingarstefnu sem sátt er um. Náið samráð styrkir á margvíslegan hátt gildi þeirra ákvarðana sem teknar eru, þar með talið að tryggt sé að byggt sé á víðtækum þekkingar- og reynslugrunni þeirra sem að málinu koma. Í skýrslunni eru einnig settar fram tillögur um skipulag vinnuferlis samráðsstjórnarinnar.“

Þetta eru tillögur hópsins. Hins vegar er það líka mat hópsins á kostum aflareglunnar að í fyrsta lagi endurspegli hún vilja til að tryggja að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi við ákvörðun aflamarks í stað skammtímahagsmuna eingöngu. Í öðru lagi sé hún einföld og gagnsæ. Í þriðja lagi virðist hún samkvæmt niðurstöðum stofnmats bera árangur hvað snertir uppbyggingu þorskstofnsins. Og í fjórða lagi styður hún við markaðsstarf fiskútflytjenda á erlendri grundu þar sem æ meiri áhersla er lögð á að hægt sé að sýna fram á að um fullkomlega sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar sé að ræða.

Ég vil þó leggja áherslu á að ákvörðun um að taka upp nýtingarstefnu til langs tíma ásamt aflareglu fyrir einstaka stofna er að mínu viti stór ákvörðun og það er ákvörðun sem krefst mikillar umræðu og samráðs við aðila bæði innan og utan sjávarútvegsins. Þetta er líka ákvörðun sem krefst mikillar umræðu á vettvangi stjórnmálanna.

Mín skoðun er sú að ef við ákveðum að feta okkur áfram þennan veg, sem ég tel reyndar rétt og nauðsynlegt, sé jafnframt unninn við það víðtækur stuðningur og skilningur í þjóðfélaginu. Til þess þarf, eins og ég sagði áður, að fara fram víðtæk kynning á málefninu og að því mun ég standa. Einn þáttur þess var einmitt að stofna til þessa samráðsvettvangs.

Varðandi svo að öðru leyti mat á á aflareglunni í þorski er það álit starfshópsins að það sé byggt á bestu vísindalegu þekkingu og grunni sem við höfum til að taka slíka ákvörðun en lögð er áhersla á að við kynningu og endanlega ákvörðun á aflamarki sé haft víðtækara samráð. Sérstaklega verði lögð áhersla á kynningarferlið og ekki hvað síst á hinum pólitíska vettvangi sem verður jú að axla ábyrgð á þessari ákvörðun sem er gríðarlega mikilvæg og vandasöm.



[14:04]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel ákaflega mikilvægt að við setjum okkur langtímanýtingarstefnu og aflareglur um sem flestar tegundir og tek þar af leiðandi undir með hæstv. ráðherra. Það er líka mikilvægt, eins og kom fram hjá ráðherra, að um það sé samráð við sem flesta og kannski í anda þess sem maður gæti kallað fagráð um einstakar greinar þar sem kæmu saman hagsmunaaðilar, pólitíkusar og vísindamenn. Það er þó eitt sem mér hefur fundist vanta í þessari umræðu — þegar ráðherra tók ákvörðun upphaflega um 20% aflareglu í þorski fór ekki fram mikil umræða í þinginu, þetta var ákvörðun hæstv. ráðherra eins og ríkisstjórnarinnar en þingið kom þar hvergi að og engin umræða var í samfélaginu — og mér finnst enn skorta á það. Gæti til að mynda verið um einhverja sveigjanleika að ræða í aflareglunni, gæti hún t.d. kannski verið 20–22%? Í þessum sveigjanleika gæti hæstv. ráðherra við útgáfu hennar (Forseti hringir.) jafnframt tekið tillit til efnahagslegra þátta á hverjum tíma.



[14:06]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á svar hæstv. ráðherra vantaði bara að hann tæki upp sömu siði og eru hér hinum megin við götuna í Ráðhúsi Reykjavíkur hjá ákveðnum borgarfulltrúum og segði bara: Djók! Hér er verið að tala um samráð. Er þetta svipað samráð og var haft í sáttanefndinni sem var hraunað yfir, valtað yfir þá niðurstöðu? Er þetta svipað samráð og var haft í sjávarútvegsnefnd í gærkvöldi þar sem frumvarpið var tekið út með töngum? Meira að segja stjórnarþingmenn sögðu að umræðan hefði ekki verið mikil. Nei, þrátt fyrir eflaust góðan vilja hjá hæstv. ráðherra er þetta bara húmbúkk. Þetta er bara yfirklór, þetta eru bara orð á blaði. Þegar kemur að því hjá hæstv. ríkisstjórn að gera eitthvað í sátt, reyna að vera í samráði við hagsmunaaðila, er ekkert um það að ræða. Það er ekki einu sinni í boði. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að tala um samráð þegar hann býður ekki einu sinni upp á það. Það hefur alltaf verið samráð hjá hæstv. ráðherrum í fyrrverandi ríkisstjórnum við aðila í sjávarútvegi. Það má eiginlega segja að verið sé að brjóta í blað hvað það varðar núna að það er ekkert (Forseti hringir.) samráð haft, heldur er verið að fara gegn öllum tillögum sem koma frá hagsmunaaðilum og stokka upp og í rauninni fokka upp því sjávarútvegskerfi sem nú er.



[14:07]
Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég staldraði líka við, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði, þetta samráð sem hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði hér um. Hann talar um samráð um framtíðarnýtingarstefnu, um framtíð aflareglunnar og hvort taka eigi hana upp í fleiri tegundum eða hvernig þetta eigi að vera. Samráð við hagsmunaaðila. Það eru sem sagt sömu hagsmunaaðilar og fengu sólarhring til að gera athugasemdir við frumvarp um stjórn fiskveiða sem er til umræðu hér eða er í vinnslu eða var í vinnslu hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég er ekki viss um að þessir aðilar séu kátir og glaðir með orð hæstv. sjávarútvegsráðherra af því að samráð í hans huga er algjörlega nýr skilningur á því orði. Samráð við hagsmunaaðila er sem sagt að leyfa þeim að tala, fá sólarhring, (Forseti hringir.) og berja svo í borðið og segja: Við tökum þetta út en við höfðum samt samráð.



[14:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um aflaregluna. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin og sjávarútvegsráðherra og ráðuneytið hafa túlkað eða leikið sér með þessa aflareglu í raun. Í því frumvarpi sem nefnt var áðan var allt þar til í gær ákveðið eða sú túlkun var í frumvarpinu að það ætti að fara út fyrir aflaregluna. Það kom hins vegar ný túlkun í gær hjá nefndinni og það sést á umsögnum þeirra fjölmörgu sem sendu inn umsagnir að þeir túlkuðu þetta með sama hætti og ráðuneytið gerði þangað til í gær.

Ég vil þó segja, frú forseti, að það er mikilvægt að aflaregla sé til staðar en það þarf að vera sveigjanleiki í henni. Það þarf að vera sveigjanleiki til að geta brugðist við efnahagsástæðum en það hefur núverandi ríkisstjórn algerlega mistekist eins og við vitum.

Að endingu vil ég segja, frú forseti, að þegar hæstv. ráðherra kallar hér fram í að ákvörðun um aflareglu hafi verið tekin af ráðherra og ríkisstjórn hlýtur hið sama gilda um aðrar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar líkt og árásina á Líbíu.



[14:10]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og svör hæstv. ráðherra svo langt sem þau ná en ég verð að játa það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Hæstv. ráðherra segir okkur að nú liggi fyrir skýrsla frá þessum samráðsvettvangi um aflaregluna. Þá hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherra hefði greint okkur frá hverjar séu hinar beinhörðu tillögur samráðsvettvangsins ef þær eru til staðar varðandi aflaregluna. Vill samráðsvettvangurinn hverfa frá aflareglunni? Það heyrðist mér ekki. Vill samráðsvettvangurinn gera breytingar á þessari aflareglu? Það kom ekki fram. Vill samráðsvettvangurinn t.d. við þær aðstæður sem eru núna auka veiðihlutfallið úr viðmiðunarstofninum? Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra. Ég verð að fara fram á það í mestu vinsemd við hæstv. ráðherra að hann greini okkur frá því, greini þinginu og þjóðinni frá því hvort í þessum tillögum samráðsvettvangsins sé að finna einhverjar tillögur í þá áttina að það eigi að gera beinar breytingar á sjálfri reglunni.

Það eru engin ný tíðindi fyrir mig sem gamlan ráðherra og fyrrverandi formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að haft sé samráð þegar verið er að taka ákvarðanir um heildaraflamark. Sem ráðherra kallaði ég t.d. alltaf fyrir mig fulltrúa allra hagsmunasamtaka, átti mjög langar viðræður við þá og bað um tillögur og hugmyndir þeirra um hvernig standa ætti að málum.

Aflareglan er eins og við þekkjum og ég rakti áðan. Ég vil vita hvort stendur til að gera einhverjar breytingar þar. Ég vil sömuleiðis inna hæstv. ráðherra eftir hugmyndum um að taka upp aflareglu í fleiri tegundum.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að svör hæstv. ráðherra lutu ekki að því að upplýsa okkur um hverjar væru raunverulegar tillögur þessa vettvangs, þessarar nefndar, um það hvernig aflaregla í þorski í þessu tilviki ætti að líta út í framtíðinni. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra allra náðarsamlegast um að greina þinginu frá því hvað þarna er að finna.

Ég óska síðan eftir því formlega að á mitt borð verði á eftir lögð þessi skýrsla. Ég á rétt á því sem þingmaður og upplýsingalög sem við höfum sett á Alþingi (Forseti hringir.) kveða á um að þessi skýrsla sé gerð opinber. Ég óska hér með formlega eftir því að ég fái hana tafarlaust í hendur.



[14:12]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það gætti ákveðins misskilnings hjá sumum hv. þingmönnum, ekki hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, um ákvörðun á heildaraflamarki sem ráðherra tekur sem er annars vegar á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og hins vegar að fengnu áliti hinna ýmsu aðila og viðræðum við þá sem tengjast greininni beint. Sú ákvörðun er tekin að fengnum þeim viðræðum.

Hitt er að aflaregla gildir fyrir þorsk. Hún var, eins og hv. þingmaður og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra gat réttilega um, lengi í mótun og lengi í vinnslu og hefur verið stuðst við hana undanfarin ár þó að hún hafi svo formlega verið samþykkt í ríkisstjórn líklega 2008 og að henni yrði fylgt til fimm ára. (Gripið fram í: Það var 2009.) Já, 2008 og 2009.

Varðandi aflareglu í öðrum fisktegundum er Hafrannsóknastofnun að vinna að nauðsynlegri gagnaöflun og mati á því hvernig það mætti gerast og er í sjálfu sér tilbúin í þá umræðu. Ég tel að áður en það skref verður stigið þurfi að fara í nánari umræðu um það og upplýsingagjöf um það og taka pólitíska umræðu um málið áður en sú ákvörðun er tekin. Ég tel brýnt að hún fari fram sem allra fyrst og vil gjarnan hafa samráð við hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í þeim efnum því að þetta er gríðarlega mikið atriði.

Varðandi einstök atriði í skýrslunni þá hef ég ekki tíma til að koma inn á það, þar er málið fyrst og fremst reifað á vísindalegum grunni og forsendum og þar er einmitt minnst á þetta sem hér var komið inn á að (Forseti hringir.) þá aflareglu sem núna er stuðst við skorti sveigjanleika til að takast á við hin ýmsu atriði.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um skýrsluna skal tekið fram að það stendur til að hún verði sett á netið alveg á næstunni og hún komi þar. Það er ekkert að fela í þessari skýrslu og hún er mjög góð. (Gripið fram í.)