139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
eyðibýli.
fsp. SDG, 853. mál. — Þskj. 1560.

[14:32]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt eru á þriðja þúsund íslenskra bújarða í eyði. Víða standa eftir eyðibýli, mannvirki sem bera vott um þetta. Á undanförnum árum og áratugum hafa þau hins vegar verið að týna tölunni, mörg verið brennd eða þeim rutt niður með stórvirkum vinnuvélum, en þó að þessar byggingar séu auðar og yfirgefnar í mörgum tilvikum hafa þær þó fjölþætt gildi. Í fyrsta lagi eru þær áminning um stöðu landbúnaðarins. Þær eru áminning um að hlutirnir séu ekki alveg eins og við vildum helst hafa þá og hvatning um að við eflum og byggjum upp landbúnað í landinu. Þær eru líka sögulegar minjar, bera vott um langa og merkilega sögu og gefa umhverfinu aukið gildi.

Ég var í Manitoba í Kanada á slóðum Vestur-Íslendinga fyrir ekki svo löngu. Þar hefur gömlum býlum, eyðibýlum Íslendinganna, verið leyft að standa áfram. Mörg þeirra eru reyndar að hruni komin og sum algjörlega hrunin. Auðvitað þarf að huga að öryggissjónarmiðum, að fólki stafi ekki hætta af býlunum, en það er vel hægt að gera það. Menn leyfa hins vegar þessum mannvirkjum eða mannvistarleifum að standa áfram sem minnismerki um horfna tíð. Það gefur svæðinu aukið gildi að sjá húsin sem Íslendingarnir reistu sér þegar þeir komu til nýja heimsins.

Það sama á við á Íslandi. Þetta gefur landslaginu aukið gildi og vekur athygli bæði innlendra og erlendra ferðamanna. Það er mjög algengt að ferðamenn taki myndir af þessum yfirgefnu húsum og til að mynda í ljósmyndabókum þar sem náttúra landsins er sýnd eru iðulega teknar myndir af þessum mannvistarleifum vegna þess að þessi minnismerki um veru mannsins í náttúrunni og þá sögu sem þar varð til gefa náttúrunni aukið gildi. Fallegt landslag fær aukið gildi með þessari sögulegu tengingu því að þó að víða í heiminum sé að finna mjög fallegt landslag hefur náttúra Íslands aukið gildi vegna þeirrar sögu sem þar hefur orðið.

Því spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Hversu mörg eyðibýli hafa verið rifin, brennd eða fjarlægð með öðrum hætti frá byrjun árs 1990 til dagsins í dag? Á hvaða jörðum og hvenær voru hús fjarlægð á umræddu árabili?



[14:35]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hef mikla samúð með þeim sjónarmiðum hv. þingmanns sem hann reifar hér um eyðibýli og umgengni á þeim. Hins vegar hafa hvorki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið né undirstofnanir ráðuneytisins þær upplýsingar sem spurt er hér um. Helst er þær að finna hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga, en telja verður að sú nálgun falli fremur undir byggingar- og skipulagsmál en landbúnaðarmál. Eins og hv. þingmaður vék hins vegar að getur það samt í vissum tilvikum verið hluti landbúnaðarmála.

Ég get upplýst að í árslok 2009 skráði Hagþjónusta landbúnaðarins í lögbýlaskrá alls 386 lögbýli í eigu ríkisins, þ.e. í eigu ráðuneyta og stofnana þeirra, og af þeim voru 163 lögbýli skráð í eyði. Tekið skal fram að margar af svokölluðum eyðijörðum ríkisins eru í landbúnaðarnotum. Eðli málsins samkvæmt eru þær lendur sem Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins hafa í sinni umsjá ekki nærri alltaf skilgreindar sem lögbýli. Frá og með þessu ári verður skráning jarða, þar með talið lögbýla, hjá Þjóðskrá Íslands.

Hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hefur verið farið mjög varlega í að láta fjarlægja gamlar minjar á eyðijörðum í eigu ríkisins. Í sumum tilvikum hefur verið hreinsað járn og timburrusl úr tóftum án þess að raska bæjarstæðum. Stundum hefur verið reynt að stuðla að enduruppbyggingu gamalla húsa eins og í Selárdal í Vesturbyggð. Einnig geta komið upp tilvik þar sem rétt þykir að leyfa rústum gamalla húsa að standa sem áhugaverðum minjum um liðna tíð. Það er helst í þeim tilvikum þegar um er að ræða ónýtar seinni tíma byggingar sem þær eru fjarlægðar að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld.

Ég get þess til viðbótar að ef við lítum tölulega á hlutina eru á landinu alls skráð 6.562 býli, þar af eru 2.272 skráð sem eyðibýli, en á 4.290 jörðum er búið.

Ef litið er á hverjir eiga þessar jarðir eru í eigu ábúenda 2.326, í eigu ábúenda og fleiri 897, í eigu annarra aðila en í ábúð 714 og í eigu ríkisins 239 eins og ég sagði áðan og 114 í eigu sveitarfélaga. Ef hins vegar er litið á hverjir fara með eignarhald á eyðijörðum eru 2.112 þeirra í eigu annarra aðila þó að þær séu ekki setnar. Stundum eru þær að vísu nýttar af nágrannajörðum, en í eigu ríkisins eru eins og ég sagði 161 eyðibýli. Þeim hefur fjölgað á síðustu árum.

Hitt er alveg hárrétt, eins og hv. þingmaður vék að, að það er mjög mikilvægt að umgengni og frágangur á býlum sem eru komin í eyði sé viðunandi og menningarverðmæti varðveitt. Eins og hv. þingmaður vék réttilega að þekkjum við það að það að land hafi sögu eykur gildi þess er við förum um það og þegar við förum um eyðibýli og eftir standa tóftir er einmitt mjög nærri okkur að rifja upp þá sögu sem stendur að baki. Hún getur verið jafnlifandi fyrir okkur í nútímanum.

Vilji ráðherrans hefur staðið til þess að kannaðar verði allar leiðir til þess að koma eyðibýlum í ábúð og landbúnað. Ég er að láta vinna frumvarpsdrög þar sem ábúðarskylda verður endurskilgreind og hvatt til þess að jarðir sem eru tvímælalaust góðar til landbúnaðarframleiðslu verði nýttar og setnar sem slíkar. Gildir það að sjálfsögðu jafnt um jarðir í opinberri eigu og í einkaeigu. Uppsöfnun á jörðum til að kaupa þær meira eða minna út úr landbúnaði eins og hefur verið á undanförnum árum er bæði hættuleg íslenskum landbúnaði og fæðuöryggi, og líka menningarslys að mínu mati. Það má líta á þessi mál frá ýmsum hliðum en þetta eru þær tölulegu upplýsingar sem liggja þarna að baki.



[14:40]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst töluvert áhyggjuefni að ekki skuli vera haldið utan um þessar upplýsingar og að hæstv. ráðherra geti ekki svarað þessari fyrirspurn. Það er reyndar því miður í samræmi við margt í sögu minjaverndar á Íslandi um áratugaskeið að það er ekki hugað nógu vel að þessum hlutum þó að gildi þeirra sé tvímælalaust mikið, m.a. af ástæðum sem ég rakti áðan um þessi gömlu býli, að þau tengja landslagið við söguna og gefa því aukið gildi. Þau eru nokkurs konar vörður á leiðinni því að oft eru heilu dalirnir komnir í eyði en á meðan minjar standa uppi um þá byggð sem þar var gefur það aukið vægi og varðar leiðina.

Ég lýsi yfir áhyggjum af því að ekki sé haldið utan um þessa hluti. Hins vegar er ég ánægður að heyra að hæstv. ráðherra virðist vera sammála mér um gildi þessarar minjaverndar. Hæstv. ráðherra nefndi að það væru tilvik þar sem rétt þætti að leyfa húsum að standa sem minjum um gamla tíð. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að það ættu að vera meira en tilvik, það ætti í raun frekar að vera reglan? Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að menn haldi betur utan um þessi mál og verndi þessar minjar um sögu landbúnaðar og í raun sögu samfélagsins alls? Það er ekki bara spurning um að vernda söguna, heldur líka efnahagslegt spursmál. Eins og ég nefndi áðan tengist þetta ferðaþjónustunni, gerir það áhugaverðara en ella að ferðast um landið. Við verðum til dæmis vör við mikinn áhuga erlendra ferðamanna á þessu og ekki síður þeirra íslensku. Þetta er liður í að vernda söguna og hefur líka efnahagslegt gildi.



[14:42]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tek mjög afdráttarlaust undir sjónarmið hv. þingmanns um menningarleg verðmæti og gildi mannvistar og húsa á jörðum vítt og breitt um landið. Einn öflugasti þátturinn í uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu hefur einmitt verið að endurvekja og endurgera hús, hvort sem er í þéttbýli, sjávarplássum eða til sveita, og laða fram og kynna söguna að baki. Þetta hefur verið einn mesti aflvakinn fyrir þá atvinnugrein sem hefur kannski vaxið hraðast upp á síðkastið, þessi menningartengda ferðaþjónusta.

Það þarf svo sem að ráða við verkefnin varðandi kostnað og annað. Ég minnist þess eftir setu mína í fjárlaganefnd að þá var einmitt lögð áhersla á að standa við bakið á heimamönnum á svæðunum sem vildu halda til haga, endurgera eða búa út til sýningar slík menningarverðmæti. (BJJ: Undir forustu Framsóknarflokksins.) Ég legg áherslu á að þessu verði haldið áfram. Aflið í heimafólki hvað þetta varðar er mikið, en það þarf bæði fjárstuðning og skilning af hálfu hins opinbera. Ég lagði mitt af mörkum þar og tek þess vegna afdráttarlaust undir sjónarmið hv. þingmanns um að það á að vera á ábyrgð okkar allra að sem best verði staðið að þessum málum.