139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
erlendir fangar.
fsp. SDG, 838. mál. — Þskj. 1506.

[16:45]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hefur við því miður orðið vart við að skipulögð erlend glæpasamtök hafi náð fótfestu á Íslandi. Í því sambandi hafa menn orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með Schengen-samstarfið, enda opnast með því greiðari leið á milli landa en áður var fyrir eftirlýsta menn. Danir hafa nú ákveðið að ganga í raun mjög langt í átt að því að efla landamæraeftirlit vegna þess að þeir hafa áhyggjur af slíkri þróun í heimalandi sínu og um það ríkir góð samstaða milli flokka í danska þinginu. Hins vegar hafa Danir fyrir vikið lent upp á kant við félaga sína í Evrópusambandinu sem telja þá í raun brjóta gegn ákvæðum Schengen-samningsins. Það deilumál er óleyst, en Danir leggja mikið upp úr því að þeir hafi rétt á því að verja landamæri sín gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Nú eru flest eða öll fangelsi landsins full. Eitt af því sem var rætt varðandi þetta Schengen-samstarf var að þegar erlendir afbrotamenn væru handteknir í tilteknu landi yrðu þeir í flestum tilvikum sendir til heimalanda sinna til afplánunar. Ég velti fyrir mér hversu vel það hafi gengið eftir. Nú virðist hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum vera mun hærra en það var áður en Schengen-samningurinn tók gildi og jafnframt er í sumum tilvikum um að ræða menn sem tilheyra þessum skipulögðu glæpasamtökum og eru meðal annars að mati fangavarða mun hættulegri en þeir afbrotamenn sem þeir hafa fengist við lengst af.

Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra:

Hversu margir erlendir ríkisborgarar eru vistaðir í íslenskum fangelsum nú? Hvernig hefur það hlutfall breyst frá árinu 2001, þ.e. frá því áður en Íslendingar urðu aðilar að Schengen-samkomulaginu?

Ég held að gagnlegt sé að fá þessar upplýsingar af þeim ástæðum sem ég rakti. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort Schengen-samstarfið eins og það er núna veitir okkur þá vernd sem við ættum að geta haft eða hvort við þurfum að velta fyrir okkur sams konar aðgerðum og Danir eru núna að fást við. Eins þurfum við að velta fyrir okkur þessu með framsalið, hvort það hafi gengið eftir eins og ráð var fyrir gert.



[16:48]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir sitthvað sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hvað varðar Schengen og erfiðleika sem Schengen-aðildin skapar Íslendingum, t.d. hvað varðar einstaklinga sem hefur verið vísað úr landi. Eftir að þeir gerast brotlegir við íslensk lög er erfitt að koma í veg fyrir að þeir komi aftur til landsins einmitt vegna Schengen-aðildarinnar.

Hann spyr hversu margir erlendir fangar hafi verið vistaðir í íslenskum fangelsum í byrjun maí 2011.

Þann 1. maí 2011 voru 30 erlendir fangar í íslenskum fangelsum, þar af 11 sem ekki voru búsettir á Íslandi. Þann 13. maí 2011 voru erlendu fangarnir hins vegar 35 talsins, þar af 15 fangar sem ekki eru búsettir á Íslandi. Eins og sést á þessum tölum er fjöldi erlendra fanga mjög mismunandi eftir dögum og getur fjöldinn breyst á stuttum tíma. Rétt er að geta þess að erlendum ríkisborgurum sem dæmdir eru í óskilorðsbundið fangelsi tók að fjölga árið 2001 og fjölgaði jafnt og þétt til ársins 2008, en fjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur frá árinu 2008.

Hann spyr einnig hversu hátt hlutfall fanga í íslenskum fangelsum hafi verið erlent í byrjun maí 2011 annars vegar og hins vegar í byrjun maí 2001.

Þann 1. maí 2011 var hlutfall erlendra fanga 19% og þann 1. maí 2001 var hlutfall erlendra fanga 8%. Sé hins vegar miðað við 13. maí 2011 er hlutfall erlendra fanga 22% og 13. maí 2001 er hlutfall erlendra fanga 10%. Með öðrum orðum hefur hlutfallið aukist verulega, en eins og ég gat um í svari við fyrri spurningunni getur skipt máli hvaða dagsetningar eru hafðar til viðmiðunar því að fjöldinn er nokkuð breytilegur.



[16:51]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar, þá sérstaklega fyrir að svara í raun meiru en var spurt beint um. Ráðherrar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar því að eins og hæstv. ráðherra benti sjálfur á hefur það ákveðið skýringargildi að bera saman ólíkar dagsetningar með aðeins tveggja vikna millibili og sýnir að fjöldinn er talsverðum sveiflum háður. Engu að síður er gagnlegt að fá þessar upplýsingar og meðal annars þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra vísaði til um að erlendum föngum hefði farið fjölgandi frá árinu 2001, árinu sem Íslendingar urðu aðilar að Schengen, og fram til ársins 2008. Þetta er innlegg í þá umræðu sem við þurfum að fara í um Schengen-samstarfið, hvort hægt sé að bæta það með einhverjum hætti eða hvort það hafi ekki staðið undir væntingum. Íslendingar voru ef ég man rétt eina eyþjóðin í Evrópu sem varð aðili að Schengen-samstarfinu á sínum tíma og Evrópusambandslönd eins og Bretland, Írland og Kýpur ákváðu að standa utan Schengen vegna þess að aðstæður þessara ríkja til að verja landamæri sín voru allt aðrar og betri en landa á meginlandinu.

Auðvitað viljum við nýta okkur til hins ýtrasta þá möguleika sem við höfum á því að verja landið gegn skipulagðri erlendri glæpastarfsemi, ekki síst fíkniefnasölu.

Einnig er mikilvægt að verja þá erlendu innflytjendur sem hingað hafa komið á undanförnum árum fyrir ágangi afbrotamanna úr heimalöndum þeirra. Því miður hefur það tíðkast, og meðal annars gerst á Íslandi, að afbrotamenn (Forseti hringir.) hafa níðst á löndum sínum í (Forseti hringir.) nýja búsetulandinu.



[16:53]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessar áherslur í málflutningi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er mjög mikilvægt að við vöndum okkur í þessari umræðu því að eins og hann bendir réttilega á verður friðsamt fólk af erlendu bergi brotið sem hér er búsett iðulega fyrir áreiti þessara aðila.

Nú kynni einhver að spyrja: Er glæpahneigð ríkari í röðum þessa fólks, erlends fólks, sem hingað kemur en íslensks fólks sem hér hefur verið? Svo er ekki, alls ekki. Málið snýst ekkert um það. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, við erum að tala um erlend glæpagengi sem ryðjast til Íslands og inn í okkar samfélag. Þar kemur til kasta Schengen og möguleika okkar til að fylgjast með þeim sem hingað koma. Við erum að tala um ágang af erlendum skipulögðum glæpahópum sem hingað sækja og eiga ekkert skylt við þá friðsömu, heiðvirðu borgara frá þessum löndum sem hér starfa og eru velkomnir hér.