139. löggjafarþing — 145. fundur
 8. júní 2011.
almennar stjórnmálaumræður.

[19:51]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir og hefur hver þingflokkur tíu mínútur í fyrstu umferð, sex mínútur í annarri og sex mínútur í síðustu umferð. Þingmaður utan flokka talar síðastur í fyrstu umferð og hefur sex mínútur.

Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum: Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Framsóknarflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Hreyfingin.

Ræðumenn flokkanna verða:

Fyrir Sjálfstæðisflokk tala í fyrstu umferð Bjarni Benediktsson, 2. þm. Suðvest., í annarri Ólöf Nordal, 2. þm. Reykv. s., en í þeirri þriðju Tryggvi Þór Herbertsson, 9. þm. Norðaust.

Ræðumenn Samfylkingarinnar eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, 7. þm. Suðvest., í fyrstu umferð, Helgi Hjörvar, 4. þm. Reykv. n., í annarri, en í þriðju umferð Jónína Rós Guðmundsdóttir, 10. þm. Norðaust.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 8. þm. Reykv. n., í fyrstu umferð, Gunnar Bragi Sveinsson, 4. þm. Norðvest. í annarri, en í þriðju umferð Eygló Harðardóttir, 7. þm. Suðurk.

Fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð tala í fyrstu umferð Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, í annarri Auður Lilja Erlingsdóttir, 2. þm. Reykv. n., en Álfheiður Ingadóttir, 10. þm. Reykv. n., í þriðju umferð.

Fyrir Hreyfinguna tala í fyrstu umferð Margrét Tryggvadóttir, 10. þm. Suðurk., í annarri umferð talar Þór Saari, 9. þm. Suðvest., og Birgitta Jónsdóttir, 9. þm. Reykv. s., í þeirri þriðju.

Ræðumaður utan flokka, Lilja Mósesdóttir, 6. þm. Reykv. s., talar síðust í fyrstu umferð.



[19:53]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Það er afleitt að í landi sem hefur svo margt að bjóða skuli þjóðin þurfa að dragnast með ríkisstjórn afturhalds og hafta, stjórn er lýtur forustu forsætisráðherra sem þrífst á deilum og átökum og dregur fæturna í öllum framfaramálum. Þessi ríkisstjórn nær varla saman um eitt einasta mál. Stjórnarflokkarnir eru ekki samstiga í orkumálum, gjaldmiðilsmálum, utanríkismálum eða yfir höfuð samtaka um mikilvægustu aðgerðir í efnahagsmálum. Allt of mikil orka fer í innbyrðis átök og menn falla fyrir borð einn af öðrum þar til stjórnin hangir á minnsta mögulega meiri hluta, ófær um að koma málum í gegn af eigin rammleik. Svo er gripið til gamalkunnugs stefs, að varpa sökinni á aðra, aðila vinnumarkaðarins eða stjórnarandstöðuna sem nú er kennt um tafir og vandræðagang við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ætli það sé ekki líka stjórnarandstöðunni að kenna að hvorki gengur né rekur í skuldamálum, að einungis 22 af 2.800 umsækjendum hafi fengið greiðsluaðlögun, að einungis lítið brot fyrirtækja sem áttu að komast á beinu brautina hafi fengið úrlausn sinna mála, að kosningar til stjórnlagaþings hafi klúðrast. Samningarnir við erlendu kröfuhafa bankanna eru þannig úr garði gerðir að eftir því sem heimilum og fyrirtækjum gengur betur næstu árin, þeim mun meira rennur beint í vasa erlendu kröfuhafanna, beinustu leið út úr landinu. Hvort skyldi allt þetta vera á ábyrgð stjórnarandstöðunnar eða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar?

Frú forseti. Ég fullyrði að enginn Íslendingur sættir sig við að búa í landi þar sem frumkvæði er drepið niður með aðgerðaleysi. Skattar draga máttinn úr fólki og fyrirtækjum, skuldir sliga heimilin og atvinnuleysi kyndir undir vonleysi. Vissulega þurfti um stund að herða ólina og takast á við erfiðar aðstæður, en reyndin er sú að sá tími er liðinn. Það er ekki endalaust hægt að bera fyrir sig kreppu og bankahrun fyrir tæpum þremur árum þegar við blasa á hverjum degi misnotuð tækifæri til að byggja upp að nýju, skapa störf og bjartari framtíð. Á meðan aðrar þjóðir sem glímdu við sambærilegan vanda, samdrátt og vaxandi atvinnuleysi eru að ná sér á strik sitjum við Íslendingar eftir.

Frú forseti. Undanfarið höfum við lifað tíma efnahagslegs samdráttar og óstöðugleika í stað vaxtar og uppbyggingar á öllum sviðum samfélagsins áður, tíma átaka og upplausnar í stjórnmálum í stað stöðugleika og stefnufestu á Alþingi áður, tíma uppgjörs, reiði og vonbrigða í stað jafnvægis og almennrar lífskjarasóknar áður. Þetta þarf ekki að vera svona deginum lengur, það er lífsspursmál fyrir okkur að brjótast út úr þessu ástandi og hefja kraftmikla lífskjarasókn, nýtt framfaraskeið á Íslandi.

Frú forseti. Við búum í landi sem er ríkt af gæðum. Á síðustu öld öðluðumst við sjálfstæði. Við höfum búið skynsamlega um hnútana í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Við byggðum upp grunnatvinnuvegina og helstu innviði samfélagsins. Óhætt er að segja að allt hafi það gengið framar björtustu vonum forfeðra okkar. Okkur hefur vegnað best þegar Alþingi hefur verið í takt við þjóðina, skynjað á hverju við byggjum lífsafkomu okkar og möguleika til frekari framfara, í hverju sérstaða okkar er fólgin og hver arfur okkar er. En höfum jafnframt hugfast að stóru framfaraskrefin hafa verið stigin þegar meginstofnarnir samfélagsins, Alþingi og ríkisstjórn, hafa staðið traustum fótum. Því miður er því ekki til að dreifa við núverandi aðstæður.

Ákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem þingfest var í gær varð ekki til að auka virðingu og veg Alþingis. Réttarhöldin yfir Geir H. Haarde verða þeim sem um þau véluðu til ævarandi skammar.

Frú forseti. Við erum ekki stór þjóð í samanburði við flestar aðrar. Hér er fámennt samfélag í strjálbýlu landi. Sumir kjósa að líta á þetta sem veikleika og sjá enga framtíð utan Evrópusambandsins. Staðreynd málsins er hins vegar sú að smæðin, einfaldleikinn og sveigjanleikinn ásamt með auðlindum landsins, menningu og mannauði, er okkar helsti styrkur. Mestar framfarir hafa orðið hér á landi þegar áhersla hefur verið lögð á að nýta tækifærin, beisla orkuna, hámarka afrakstur veiðanna við Íslandsstrendur og fjárfesta í menntun og velferð landsmanna. Nú þurfum við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir nýfjárfestingar í orkufrekum iðnaði og skapa þúsundir nýrra starfa. Við höfnum því að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Koma þarf súrefni til atvinnulífsins í landinu.

Landsvirkjun hefur kynnt áætlanir sem gætu komið Íslandi í fremstu röð á ný. Til þess að þau tækifæri og fjölmörg önnur verði að veruleika verðum við að þora að taka ákvarðanir, hafa kjark til að sækja fram og sýna áræði. Einungis þannig náum við vopnum okkar að nýju. Tilhneiging ríkisstjórnarinnar er að vera með puttana í öllum sköpuðum hlutum, hlutast til um hvernig fólk ráðstafar eignum sínum, setja höft og hömlur á fólk og fyrirtæki og leggja bönd á framtakssemi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin er allt að festa í klakaböndum.

2% hagvöxtur sem við horfum fram á segir okkur að hjarta atvinnulífsins slær, en afar hægt og veikt. Við getum ekki látið atvinnulífið fjara út. Án þess er engin velferð og án efnahagslegs sjálfstæðis er fullveldi okkar ógnað.

Góðir landsmenn. Framkvæmdaviljinn og frelsið er ekki það sem varð okkur að falli. Það var skortur á ábyrgð og eftirliti. Látum það ekki verða til þess að við hættum að sækja fram. Stöðnun er ekki svarið. Þvert á móti þurfum við að virkja fólkið í landinu til að koma okkur út úr vandanum.

Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin gumar af því að hér sé allt á réttri leið. En hver er staðan? Verðbólga virðist á uppleið að nýju. Hagvöxtur er langt undir því sem við þurfum á að halda. Ísland er í efnahagslegri kyrrstöðu og atvinnuleysi er í hæstu hæðum þrátt fyrir að þúsundir vinnufúsra handa hafi yfirgefið landið og leitað á önnur mið. Til að bíta höfuðið af skömminni er nú hart sótt að helsta atvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum. Það er ekki gert með aukna hagsæld í huga eða betri lífskjör þeirra hundruða fyrirtækja og þúsunda Íslendinga sem við greinina starfa því að ljóst er að yfirvofandi lög um stjórn fiskveiða munu kosta þjóðarbúið milljarða. Prófessor í hagfræði sagði í viðtali fyrir skemmstu að íslenska kvótakerfið væri eina kerfið sem Íslandi hefði tekist að byggja upp frá grunni sem væri á heimsmælikvarða, við værum fyrirmynd annarra þjóða, kvótakerfið væri merkilegasta framtak Íslands í skipulagsmálum, ekki síst fyrir það að framseljanlegar aflaheimildir hefðu aukið hagkvæmni kerfisins svo mjög en í miðri stórkreppu væri það stefna ríkisstjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarútveginum sem væri helsti lykillinn að efnahagsbatanum. Sjávarútvegurinn er lykillinn. Sjáið nýjustu hagvaxtartölurnar, það er sjávarútvegurinn, grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, sem ber uppi þann litla hagvöxt sem hér mælist.

Frú forseti. Við erum hálfnuð á kjörtímabili þessarar lánlausu ríkisstjórnar. Án breytinga er ekkert annað fram undan en meira af því sama. Lífskjörin munu halda áfram að versna svo lengi sem sama braut er fetuð áfram. Við verðum að snúa af þessari braut og við verðum að spila úr þeim tækifærum sem hvarvetna blasa við. Stærsta hindrunin á þeirri leið er ríkisstjórnin og stefna hennar. Verkstjórnin er ónýt, ófriður ætíð valinn umfram sátt og það erum við, Íslendingar allir, sem greiðum fyrir þessa sjálfshátíð vinstri manna á valdastóli með verri kjörum, lengri kreppu, veikara efnahagslífi og minni velferð.

Ég segi: Hingað og ekki lengra, þessi ríkisstjórn verður að víkja.



[20:03]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við komum saman í kvöld til að ræða þingstörfin og stjórnmálaástandið í lok vetrar og á hálfnuðu kjörtímabili. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur á liðnum missirum unnið dyggilega í samræmi við samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna og miðað vel. Í langflestum málum sem afgreidd hafa verið á yfirstandandi löggjafarþingi eiga flokkarnir fimm sem hér eiga sæti samleið. Síðastliðin tvö ár hafa ekki verið áfallalaus, hvorki fyrir ríkisstjórn né Alþingi og ef til vill ekki við öðru að búast á þeim tímum sem við lifum. Í mínum huga skiptir mestu að í samstarfi missi fólk ekki sjónar á hinum stóru markmiðum og málum og láti dægurþras um smáatriði og hefðbundin leiðindi ekki slá sig út af laginu.

Við erum 320 þúsund sem byggjum þetta land. Við höfum borið gæfu til að standa saman þegar stóráföll hafa dunið yfir — jarðskjálftar, snjóflóð, aflabrestur, eldgos — og þannig sýnt hvað í okkur býr. Reynsla aldanna býr í erfðaminninu. Af formæðrum okkar höfum við lært og af biturri reynslu að búa okkur undir náttúruhamfarir. Hamfarir af mannavöldum eins og hrunið, banka- og gjaldeyriskreppa með tilheyrandi samdrætti í efnahagslífi, kjaraskerðingu og atvinnuleysi hafa hins vegar reynst okkur öllum erfitt viðfangsefni, enda höfum við enga viðlíka reynslu þótt við höfum marga fjöruna sopið í efnahagsmálum.

Það er hollt að hafa þetta í huga þegar hrakspár og bölmóður eru það eina sem fólk hefur til umræðunnar að leggja. Við höfum þrátt fyrir allt náð undraverðum árangri á liðnum tveim árum, árangri sem stjórnvöld og fjölmiðlar erlendis líta til og tala um með virðingu.

Forseti. Það er undursamlegt að fylgjast með frelsisbylgjunni sem nú fer um Miðausturlönd og Norður-Afríku. Í Túnis, Egyptalandi, Líbíu, Barein, Jemen og Sýrlandi krefst hinn almenni borgari frelsis og lýðréttinda eftir áratugakúgun. Harðstjórarnir víkja einn af öðrum. Dagar þeirra eru taldir, líka þeirra sem beita samlanda sína pyndingum og öðru ofbeldi. Í arabalöndunum krefst fólk hinna borgaralegu réttinda sem við teljum sjálfsögð, en auðvitað eru þau það ekki. Skoðana- og tjáningarfrelsi eru að sjálfsögðu efsta krafan. Það vekur athygli mína að rétturinn til þess að stofna stjórnmálaflokk er það líka. Það er umhugsunarvert að þar sem fólk hefur búið við pólitíska kúgun og ríkisofbeldi veit það sem er að stjórnmálahreyfingar og félagasamtök hvers konar eru grundvallarstoðir í öllum lýðræðisríkjum.

Ungur maður sem tók þátt í að rita nýja stjórnarskrá fyrir Túnis sagði sem svo að lýðræðið ætti ekki að ganga út á að sigra með rothöggi, frú forseti. Ég er ekki frá því að umræðuhefð og samskipti stjórnmálamanna hér á landi hafi lengst af farið fram í hnefaleikahringnum, að gera bókstaflega út af við andstæðinginn og niðurlægja hann sé fullnaðarsigur, að samningar og málamiðlanir séu merki um veiklyndi. Okkur er lífsnauðsynlegt að snúa af þeirri braut.

Við sem hingað höfum verið kosin verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við erum enn föst á klafa forneskjulegra þinghefða. Þetta er ekki bara spurning um persónur og leikendur, þá hefði væntanlega allt horfið til betri vegar með 70% endurnýjun í röðum þingmanna á einungis tveim árum. Ég heiti á þingmenn alla að stíga skrefið til fulls og breyta lögum og vinnureglum Alþingis svo að sómi sé að. Það er undir hverjum og einum komið að láta gamlar erjur, jafnvel heift, ekki blinda sig í þeim efnum. Sómi löggjafarsamkomu Íslendinga er í húfi.

Frú forseti. Í lok þessa mánaðar verða kaflaskil í samskiptum okkar við Evrópusambandið þegar eiginlegar aðildarviðræður Íslands við ESB hefjast. Nú ríður á að þing og þjóð standi saman um að ná hagstæðum samningum. Við megum ekki láta það henda að pólitískar deilur innan lands dragi úr samstöðu okkar og sannfæringarkrafti við samningaborðið.

Margt góðra framfaramála hefur verið afgreitt á þessu yfirstandandi þingi. Ég nefni örfá. Fyrstu heildarlög um fjölmiðla voru samþykkt á Alþingi í vetur. Lögin hafa að geyma mikilvæg ákvæði sem treysta stoðir hlutlægrar og faglegrar fjölmiðlunar í landinu í þágu almennings, um sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum, gegnsæi eignarhalds, réttarbætur til handa blaða- og fréttamönnum og vernd barna gagnvart auglýsingum, svo fátt eitt sé nefnt.

Í annan stað var sögulegt skref stigið í vor með samþykkt laga um íslenska tungu og táknmál. Það er í fyrsta sinn tryggð lagaleg staða íslenskunnar sem þjóðtunga landsmanna og jafnframt fær táknmálið langþráða viðurkenningu sem fyrsta mál þeirra sem þurfa á því að halda til tjáningar og samskipta.

Þá vil ég nefna að afar mikilvæg þverpólitísk samstaða náðist um tillögu um menntum og atvinnusköpun ungs fólks sem miðar að því að samþætta menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda að starfsnámi í menntakerfinu. Í samráði við aðila vinnumarkaðarins á að verja 7 milljörðum kr. til átaksins Nám er vinnandi vegur og opna framhaldsskólana frá og með komandi hausti fyrir öllum umsækjendum yngri en 25 ára. Það er án nokkurs vafa besta leiðin til þess að taka á langtímaatvinnuleysi ungs fólks, en við vitum að 75% ungs fólks sem er atvinnulaust og hefur verið atvinnulaust í meira en sex mánuði hefur einungis lokið grunnskólaprófi.

Virðulegur forseti. Við þurfum að opna landið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og erlendum fjárfestingum í öllum atvinnugreinum, ekki bara sumum. Við viljum að umheimurinn viti sem er að Ísland hefur aldrei lent í greiðslufalli, að hrunið var gjaldþrot þriggja banka í einkaeigu og að skuldastaða Íslands er sjálfbær. Áætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins rennur sitt skeið í haust. Nú eru því fram undan þau tímamót að Ísland þarf eitt og sjálft að reisa trúverðugleika hagstjórnar í landinu. Það gerum við einungis með festu, aga og skýrri hagstjórnarstefnu. Það verður ekki vandalaust, en við verðum að herða okkur enn ef duga skal til að koma fjárfestingu af stað í landinu, hindra verðbólguskot og tryggja nýjan hagvöxt í sessi.

Góðir landsmenn. Það er eðlilegt fyrir okkur að horfa til baka til þess hvaða leiðir hafa áður reynst Íslendingum best til að vinna á kreppu og komast fram. Aðild Íslands að EFTA var slíkt skref á sínum tíma. Nú vitum við að aðild að Evrópusambandinu yrði okkur lyftistöng. Það er eðlilegt að margir Íslendingar hugsi til þess af ákveðinni varkárni í heimi sem virðist viðsjárverðari en oft áður. En nauðsyn bætts og styrkari gjaldmiðils fyrir verðstöðugleika og lífskjör í landinu, nánari tengsl við helstu viðskiptaríki og þau tækifæri til nýsköpunar og þróunar innviða, atvinnuvega, sveitarfélaga og samfélagsþjónustu af öllu tagi sem skapast með aðild, eru þess virði að grípa þau. Ísland verður að auka samkeppni og nýsköpun í atvinnulífinu. Við verðum að hugsa og horfa til lengri framtíðar en við erum vön að gera. Við viljum að börnin okkar velji Ísland vegna fjölbreyttra og spennandi starfa, vegna góðrar menntunar, vegna opins samfélags og vegna framsækinnar menningar. Þar stendur valið. Við verðum að hafa viljann til að skapa bjarta og heillaríka framtíð. — Góðar stundir.



[20:13]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra er rétt að horfa fram á við og ræða verkefnin á komandi þingi. Í eldhúsdagsumræðum er hins vegar litið yfir farinn veg. Forsætisráðherra kemst eðli málsins samkvæmt ekki hjá því að halda stefnuræðu forsætisráðherra, en það er athyglisvert að hvorki nú né í fyrra hefur forsætisráðherra treyst sér til að svara fyrir framgöngu ríkisstjórnarinnar við eldhúsdagsumræður. Það er þó skiljanlegt þegar horft er yfir undanfarin ár. Það er æskilegt að líta til baka og ræða hvernig hefur tekist til vegna þess að ef við greinum mistök fortíðar getur það nýst okkur við að leysa vandamál framtíðarinnar. Ég ætla því að byrja á að velta því upp hvernig staðan gæti verið ef skynsamlegar ákvarðanir hefðu verið teknar, einkum á sviði efnahagsmála á undanförnum tveimur árum, en að því búnu mun ég rekja nokkur af þeim fjölmörgu tækifærum sem við okkur blasa enn þrátt fyrir allt.

Það efnahagslega áfall sem reið yfir þjóðina árið 2008 var stórt en eftir stóðu traustir innviðir samfélagsins byggðir upp á heilli öld framfara og einstök tækifæri til að lágmarka tjónið fyrir íslenskan almenning. Framsókn barðist fyrir því á sínum tíma með öllum tiltækum ráðum að nýta þau tækifæri sem gáfust til að létta skuldum af heimilum, fyrirtækjum og íslenska ríkinu. Það vann með okkur að Ísland hafði verið afskrifað efnahagslega og lánasöfn bankanna voru metin á brot af nafnverði. Það lága mat var hægt að nýta til að færa niður skuldir og gera fleiri fyrirtæki fær um að halda eðlilegum rekstri, halda fólki í vinnu, fjárfesta og ráða nýja starfsmenn. Heimilin hefðu öðlast öryggi og verið betur í stakk búin til að halda uppi verslun og þjónustu og þar með atvinnu. Þetta voru aðgerðir sem voru réttlátar, efnahagslega nauðsynlegar, lögmætar og framkvæmanlegar. En eins og fram kemur í nýrri skýrslu fjármálaráðherra um stofnun bankanna voru þau tækifæri ekki nýtt.

Við vöruðum við því að myntkörfulánin kynnu að verða dæmd ólögmæt og lögðum fram útfærða áætlun um hvernig standa mætti að endurreisn bankanna og lágmarka áhættu hinna nýju banka og ríkisins en gera þá í stakk búna til að sinna frá fyrsta degi hlutverki sínu eða lána fjármagn til atvinnuuppbyggingar. Fjárfestingartækifærin voru næg. Fjölmargir innlendir og erlendir aðilar kynntu stór verkefni, enda var Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar eftir efnahagshrunið. Í nánast öllum tilvikum var þó fyrirstaðan sú sama; orkuskortur og pólitísk óvissa, einkum varðandi skattstefnu.

Skattar hafa verið hækkaðir hvað eftir annað og skattkerfið flækt með innleiðingu á gömlum furðuhugmyndum sem hvergi hafa virkað og iðulega dýpkað kreppu þegar þeim hefur verið beitt í efnahagslegri niðursveiflu.

Í febrúar 2009 lögðum við fram tillögur um hvernig vinna mætti á jöklabréfavandanum og afnema í framhaldinu gjaldeyrishöftin. Nú þegar liðið er vel á þriðja ár frá því höftin voru sett á er Seðlabankinn loksins farinn að fikra sig á fram við þær leiðir sem þá voru lagðar til. En um leið boðar ríkisstjórnin austur-þýsku leiðina í gjaldmiðilsmálum. Höft sem gera hversdagslega hluti glæpsamlega, eða hvað kalla menn það þegar kynnt er frumvarp um að fólk geti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir að gleyma að skila þeim gjaldeyri sem ekki var eytt í utanlandsferðinni eða sturtað niður um klósettið í flugvélinni á leiðinni heim svona til öryggis?

Ráðamenn vega svo að gjaldmiðli landsins við hvert tækifæri. Erlendum fjölmiðlum er sagt að krónan sé ónýt og hér verði höft um alla framtíð á meðan krónan er við lýði. Svo er því bætt við að hér muni enginn vilja fjárfesta. Svo undrast menn að þeir sem á þetta hlýða ráðist ekki í fjárfestingu í landinu eða að illa gangi að styrkja gengi gjaldmiðilsins þrátt fyrir mikinn hagnað af utanríkisviðskiptum. Í ofanálag er öllum greinum atvinnulífsins haldið í varanlegri eyðileggjandi óvissu.

Sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnugreinin er sett í algjört uppnám að því er virðist að tilefnislausu með frumvörpum sem allir þeir sem veitt hafa þinginu álit telja stórvarasamt.

Ef tækifærin væru nýtt í stað þess að auka á óvissuna væri öðruvísi umhorfs á Íslandi. Atvinnuleysi færi hratt minnkandi og hagvöxtur væri kominn á skrið. Snarpri kreppu fylgir yfirleitt hraður hagvöxtur um leið og óttinn hverfur en hér ríkir óttinn og óvissan enn.

Hvað skýrir hegðun ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna hafa tækifærin ekki verið nýtt? Hvers vegna er öllu fórnandi til að þóknast erlendum embættismönnum og kröfuhöfum?

Sagan segir að þegar hinn alræmdi landkönnuður Hernando Cortez kom til landsins sem nú heitir Mexíkó hafi hann brennt skipaflota sinn svo að fylgdarmenn hans ættu engan annan kost en að sækja inn í óbyggðirnar í leit að gullborginni; fyrirheitna landið eða dauði. Það hvarflar oft að manni að þessi aðferð Cortezar sé lýsandi fyrir viðhorf Samfylkingarinnar til Evrópusambandsumsóknarinnar. Það eru Evrópusinnar í öllum flokkum og margir óákveðnir, fólk sem lítur á umsókn um aðild að ESB sem einn valkost af mörgum. Í forustu Samfylkingarinnar ríkir hins vegar nokkurs konar Evrópusambandstrú. Ekkert skiptir máli nema málið eina. Það sannaðist nýlega þegar formaður flokksins bauðst til að leggja Samfylkinguna niður og stofna nýjan flokk um það eina markmið að komast í ESB. Öllu er tilfórnandi á Evrópugöngunni, hvort sem það er algjör uppgjöf gagnvart löglausum kröfum erlendra ríkja eða samningar sem fórna einstökum tækifærum til að leiðrétta skuldir almennings. Það sem gerist í jarðlífinu, þ.e. lífinu á Íslandi, skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli er vistin í sæluríkinu.

Í þessu öllu virðist hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, líta á sig sem nokkurs konar verktaka Samfylkingarinnar, verktaka sem fær það að launum að halda ráðuneytum og geta stundað hina sérkennilegu hagstjórnar- og samfélagstilraunir sínar. Það kemur líklega ekki að sök að mati samstarfsflokksins því að það nýtist við að ítreka mikilvægi málsins eina.

Það er sjálfsagt mál að ræða hugsanlega kosti Evrópusambandsaðildar en í millitíðinni verðum við að byggja upp íslenskt efnahagslíf. Það verður að gerast hvort sem menn vilja í Evrópusambandið eða ekki.

Ef við hverfum frá blöndu af sósíalisma og blindri trú á aðeins eina leið út úr vandanum eru tækifærin óþrjótandi. Við þurfum að taka skuldavandann föstum tökum og reka ríkið með aðhaldssömu heimilisbókhaldi. Losa þarf um hið mikla fjármagn sem nýta má til fjárfestingar og draga úr pólitískri óvissu með stjórnvöldum sem veita skýra framtíðarsýn.

Innviðir samfélagsins eru sterkir. Með umhverfisvænni orkuframleiðslu og áreiðanlegu, einföldu og skynsamlegu skattkerfi er ekkert því til fyrirstöðu að þúsundir starfa verði til á Íslandi á skömmum tíma. Auðlindirnar og lega landsins geta þá nýst til að skapa viðvarandi velferð í landi þar sem enginn á að þurfa að líða skort. Það eina sem þarf er áræðni og skynsemi.



[20:21]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ágætu tilheyrendur nær og fjær. Vorið hefur að sönnu verið kalt, ekki síst um norðan- og austanvert landið, en það er samt með ólíkindum að það skuli hafa farið svona algjörlega fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að það er komið vor. Það er svartasta skammdegi og biturt frost í hugarranni hans þegar hann fer yfir svið þjóðmála. Ég hef það á tilfinningunni að hann fylgist ekki nógu vel með fréttum því að hann virðist hvergi sjá neitt sem hægt er að hugga sig við. Ég prentaði að gamni mínu handa honum fjórar fréttir frá því í dag: „Íbúðamarkaðurinn að taka við sér“, „Hagvöxtur tekinn við af samdrætti“, „Jákvæð teikn í fyrsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans“, „Ríkissjóður í startholum með dollarabréf“. Ég gæti tekið einar tíu í viðbót, bara af fréttavefunum í dag, þar sem í raun og veru eru teikn á lofti um betri tíma og bjartari horfur fram undan.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, má þó eiga það að hann er sjálfum sér samkvæmur þegar hann kemur með töfrabrögðin sín, það sem Danir kalla „tryllekunster“, því að hann er með þær kenningar að með einföldum brellum sé hægt að gera allt gott. Það er miklu skemmtilegra að hlusta á það en hina hryllilegu skammdegisræðu formanns Sjálfstæðisflokksins. En veruleikinn er ekki svona. Hann er sá að við urðum fyrir miklu áfalli, hér gengu í garð miklir erfiðleikar og það eru engin töfrabrögð til sem láta það hverfa. Það þarf að vinna sig út úr því, það kostar erfiði og úthald, en það er að gerast. Þannig er það.

Nú eru rúm tvö ár liðin síðan þessi ríkisstjórn tók við, kjörtímabilið hálfnað og það eru tímamót. Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengu skýrt umboð frá þjóðinni til að leiða hana út úr þessum erfiðleikum. Þá lauk tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem er orðinn nokkuð þekktur hér í landi, hefur marga fjöruna sopið og víða komið að óbjörgulegu búi hjá ríkjum í miklum erfiðleikum. Hvað sagði hann þegar hann kom til Íslands? Hann sagði: Hrunið á Íslandi er án fordæma.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom til valda 1991 talaði hann mikið um fortíðarvanda og fékk hann þó í arf þjóðarsáttina og lægri verðbólgu en verið hafði um áratugaskeið. Hafi það verið fortíðarvandi sem Sjálfstæðisflokkurinn tók við, hvaða nafn á þá að gefa búinu sem hann skildi eftir sig? Það þarf alla vega eitthvað sterkara lýsingarorð en uppdigtaðan fortíðarvanda.

Það er fullkomlega eðlilegt að við stöldrum við og spyrjum okkur eftir þessi tvö ár þegar kjörtímabilið er hálfnað og við stöndum á tímamótum bæði pólitískt og efnahagslega: Hver eru þau? Ég tel að tímamótin séu pólitískt þau að ríkisstjórnin stendur traustum fótum hafandi farið í gegnum einhverja erfiðustu tíma sem stjórnvöld á byggðu bóli hafa þurft að takast á við. Efnahagslegu tímamótin eru augljós, þau eru það. Í morgun kom Hagstofan með spá um hagvöxt sem sýnir okkur og staðfestir að hagkerfið er tekið að vaxa, einhverjar hæstu tölur á fyrsta ársfjórðungi sem við sjáum í Evrópu. Gaman væri að bera það saman við málflutning stjórnarandstöðu sem sagði að skattlagningaræði ríkisstjórnarinnar mundi kæfa allt í fæðingu, eða annarra þingmanna sem töldu að aðgerðir í ríkisfjármálum mundu dýpka kreppuna.

Nýlega hækkaði Efnahags- og framfarastofnunin OECD hagvaxtarspá sína fyrir Ísland á sama tíma og hún því miður lækkað hagvaxtarspár velflestra annarra Evrópuríkja. Þannig er það. Fasteignaverð hefur hækkað umtalsvert og veltan aukist mjög. Í maí síðastliðnum var 399 samningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst á móti 192 á sama tíma í fyrra. Það er 108% aukning. Er það hagkerfi á niðurleið? Aukin bílasala og nýskráningar bíla. Í janúar til maí voru nýskráðir 2.200 bílar á móti 997 á sama tíma í fyrra. Er það hagkerfi á niðurleið þar sem nýskráning bíla vex um 120%? Ferðaþjónustan, í maímánuði síðastliðnum fóru 37.200 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð og Íslendingar eru á faraldsfæti í miklu ríkari mæli en fyrr. Er það eitthvað sem er á niðurleið? Nei. Væntingavísitala Gallups fór upp um 11 punkta í síðasta mánuði og hefur ekki mælst hærri síðan fyrir 2008 fyrir utan tvo mánuði. Kortavelta hefur aukist umtalsvert og sendir sömu skilaboð.

Í dag fengum við mjög góðar fréttir — ekki glöddust þeir yfir því hér forkólfar stjórnarandstöðunnar — að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar teiknar til þess að þorskafli verði aukinn um 17 þús. tonn á næsta fiskveiðiári. Það eru 7,5–8 milljarðar í viðbót í þjóðarbúið. Samfara góðum horfum um loðnuvertíð og ágætishorfum um að við fáum mikil verðmæti í gegnum manneldisvinnslu á makríl í sumar má gera sér góðar vonir um að verðmæti úr sjávarfangi fari vaxandi á síðustu mánuðum þessa árs og á hinu næsta.

Mikill árangur hefur náðst í ríkisfjármálum. Skuldatryggingarálag á Ísland fór í dag niður fyrir 200 punkta. Það er lægsta gildi sem við höfum séð síðan 2007. Er þetta allt saman ómögulegt, hv. þm. Bjarni Benediktsson? Er þetta ekki til að gleðjast yfir, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson?

Kjarasamningarnir sem hvorugur forkólfur stjórnarandstöðunnar nefndi á nafn eru auðvitað stórtíðindi og mjög gleðilegt ef við náum að bæta kaupmátt og sérstaklega hinna lægst launuðu og ríkið jafnar það í gegnum bætur almannatrygginga og atvinnuleysis. Umtalsverð kjarabót til tekjulægstu hópar samfélagsins mun vissulega taka í hjá ríkissjóði en það er gleðiefni að takast á við það vegna þess að kjarabæturnar koma til þeirra hópa samfélagsins sem mesta þörf hafa.

Skuldir ríkissjóðs eru að staðnæmast við mun lægra hlutfall en við töldum fyrir tveimur árum. Hreinar nettóskuldir eru rúmlega 40% af vergri þjóðarframleiðslu og brúttóskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum eru 80,5%. Það er akkúrat meðaltal skulda ríkissjóða í Evrópu. Það er ekki verra en það. Hvað segja menn um þetta? Eru þetta vondar fréttir?

Sjávarútvegsmálin hafa eðlilega verið mikið til umræðu. Það er rétt og skylt, þar eru stórmál á ferð. Það er alveg á hreinu að núverandi stjórnarflokkar hafa skýrt lýðræðislegt umboð og stuðning þjóðarinnar til að reyna að ná fram breytingum á því kerfi sem mikið ósætti hefur verið um. Það eru hlutir í því kerfi sem við viljum ekki og engin samstaða verður nokkurn tíma um. Við þurfum í fyrsta lagi að koma því á hreint að þetta sé sameign þjóðarinnar sem auðlind. Við viljum ekki horfa áfram upp á það að einstakir aðilar geti fénýtt aðgang sinn að þessari sameiginlegu auðlind og farið út úr greininni með stórar fjárhæðir og skilið þá sem eftir eru með meiri skuldir til að standa undir. Við viljum heldur ekki að menn geti fénýtt þennan tímabundna aðgang sinn þannig að aðrir þurfi að hafa fyrir því að veiða kvótann þeirra. Við viljum skapa sjávarútvegi traust og góð rekstrarskilyrði, búa vel að okkar sjómönnum. Við viljum tryggja byggðunum meira öryggi en í núverandi kerfi því að það verður aldrei samfélagsleg sátt um það á Íslandi að fótunum sé reglubundið kippt undan einhverri sjávarbyggð þar sem fólk hefur sett sig niður, byggt hús sín og bundið sínar rætur. Það verður ekki þannig. Á þessu þarf að taka.

Frumvörpin sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram fela í sér farveg til að leysa þessi mál. Þau eru grundvölluð á þeirri niðurstöðu sáttanefndar að við göngum frá málinu með nýtingarsamningum til afmarkaðs tíma og síðan hliðarráðstöfunum í pottum eða öðru kerfi. Við þurfum hins vegar að ræða, rökræða og eftir atvikum takast á um útfærslur í þeim efnum. Hvar liggja hófssamleg mörk í formi veiðigjalds, tímalengdar samninga, hlutfalls yfir í potta o.s.frv.? Það er úrlausnarefni til að lenda og við eigum að líta á það sem stóra sameiginlega áskorun sem þjóð að leysa það mál og reyna að láta þeim illdeilum sem staðið hafa hátt í þrjá áratugi linna. Það er hægt og það er farvegur fyrir það í þessum frumvörpum.

Umræðan um stjórnmál og þjóðmál á Íslandi er athyglisverð. Hún er dálítið tvískipt. Annars vegar og fullkomlega eðlilega ræðum við erfiðleikana sem við erum að kljást við og þeir eru til staðar og það er nóg af þeim og það er enginn vandi að fjalla um þá með gagnrýnum hætti. Verra er þegar ákveðin öfl beita kröftum sínum að því að rífa líka niður það sem gengur vel, þar sem við erum að ná miklum árangri, og brjóta okkur þannig niður. Við erum engu nær með slíku. Það eru að vísu að mestu leyti gamlir geðillir fauskar, fyrrverandi þetta og fyrrverandi hitt, sem skrifa og tala á þeim nótum. Við skulum ekki gera þann málflutning að veganesti okkar inn í sumarið. Við þurfum á bjartsýni og kjarki og trú á framtíðina að halda og það er engin ástæða til annars.

Ísland hefur allt sem þarf. Við erum ung, vel menntuð þjóð og eigum sterkt lífeyrissjóðakerfi þannig að aldurssamsetning okkar og lífeyrismál eru í góðum horfum til frambúðar. Við eigum mat, við eigum orku, við eigum vatn, við eigum landrými, við eigum öll þau gæði sem mannkynið mun mest þurfa á að halda á komandi áratugum. Það er bjart fram undan. (Gripið fram í.)



[20:31]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti og kæra þjóð. Þann 4. október sl. flutti forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, stefnuræðu sína. Við það tækifæri safnaðist gríðarlegur mannfjöldi saman á Austurvöll, krafðist siðbóta og raunverulegra lausna. Fólki ofbauð afgreiðsla þingsins á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sá tvískinnungur sem birtist í atkvæðagreiðslu um landsdóm sem nú hefur verið kallaður saman yfir einum af þeim fjórum sem greidd voru atkvæði um. Mörgum ofbauð að þingmenn og ráðherrar sem sátu jafnvel í hrunstjórninni sjálfri tækju þátt í atkvæðagreiðslu um félaga sína. Það þarf verulega firringu til að halda að það séu ásættanleg vinnubrögð.

Annað sem fólki ofbauð var ástandið í skuldamálum heimilanna. Stjórnvöld hrukku í gírinn og skipuðu nefnd. Svo var beðið og beðið, niðurstöðu var að vænta eftir helgi eða í næstu viku og vikurnar liðu án þess að nokkuð gerðist. Það var ekki fyrr en fólk var farið að undirbúa jólin og kaus að hugsa ekki um óbærilegt ástand skulda sinna að fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.

Ef einhver hefði sagt mér eftir þau kröftugu mótmæli sem voru í byrjun þings að í júní árið 2011 sæti enn sama vanhæfa ríkisstjórnin án þess að hafa gert nokkuð til að mæta kröfum skuldsettra heimila annað en að þæfa málið í nefnd, hefði ég talið þann hinn sama eitthvað bilaðan. Hve lengi er hægt að misbjóða venjulegu fólki, fólki sem orðið hefur fyrir stórfelldum eignabruna og þurft að horfa á ævisparnaðinn sem það hefur lagt í heimili sitt fuðra upp í verðbólgubáli?

Fyrir nokkru var hér umræða um skýrslu sem fjármálaráðherra hafði laumað inn í þingið síðasta daginn sem leggja mátti fram þingskjöl til að tryggja að hún týndist nú örugglega í því pappírsflóði öllu saman. Hún fjallaði um endurreisn bankakerfisins og er merkileg heimild um það ferli. Það var verulega ógeðfellt að heyra fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, stæra sig af því að hafa endurreist bankakerfið á kostnað skuldsettra heimila. Ég hef enga trú á því að raunverulegur vilji hafi verið fyrir því í ríkisstjórn Geirs H. Haardes að leiðrétta skuldir heimilanna en sú leið sem valin var í upphafi útilokaði það ekki. Steingrímsleiðin er hins vegar leið kröfuhafanna, leið handrukkaranna.

Hagnaðartölur nýju bankanna eru innblásnar af uppreiknuðum lánasöfnum, enda eru mörg lánin mun hærri nú en þegar þau voru tekin þrátt fyrir allar innborganirnar. Frá hruni segjast nýju bankarnir þrír hafa hagnast um 139 milljarða. Það jafngildir rúmlega 5.500 25 millj. kr. íbúðum. Til samanburðar má nefna að fjárlög ríkisins á þessu ári eru 514 milljarðar og þar af fara 75 milljarðar í vaxtakostnað.

Og enn berast fréttir af misheppnuðum skuldaúrræðum ríkisstjórnarinnar. Nú hafa 2.813 sótt um greiðsluaðlögun en 10 mánuðum eftir stofnun embættis umboðsmanns skuldara hafa aðeins 22 lokið greiðsluaðlögun með samningi. Það er enn ein sönnun þess að hin sértæku úrræði ríkisstjórnarinnar í skuldamálum eru svo sértæk að þau gagnast eiginlega ekki neinum.

Þá hef ég enn ekki minnst á mál þeirra ólánssömu heimila sem voru með gengistryggð húsnæðislán. Jólagjöf þingheims til þeirra voru afturvirk lög sem juku greiðslubyrði sumra lántakenda verulega frá hinni stökkbreyttu martröð. Margra ára vextir upp á allt að 21 prósentustig bættust við höfuðstólinn. 26 millj. kr. lán tekið árið 2004 hækkaði til að mynda um 30 milljónir. Er nema von að útlendingar spyrji hvort hér sé virkilega ekkert fjármálaeftirlit?

Forseti. Við lifum á óvenjulegum tímum. Í hruni felast tækifæri og frelsi til endursköpunar, til að byrja upp á nýtt með hreint borð, ákveða byggingarefnið, hvað skuli byggja, hvernig og með hverjum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur unnið þrekvirki í því að klambra gamla Íslandi saman úr fúnum spýtum.

Í svona ástandi þarf Ísland á hetjum að halda. Nú reynir á fólkið því að stjórnvöld valda ekki hlutverki sínu. Það fylgja því nefnilega ekki aðeins réttindi að vera borgari heldur einnig skyldur og þegar stjórnvöld hafa villst svo af leið sinni að vonlaust er að þau rati heim aftur er það borgaraleg skylda okkar allra að standa upp og knýja á um breytingar með öllum tiltækum ráðum. Og Ísland á hetjur, rétt eins og Túnis og Egyptaland, þótt fleiri mættu láta sig málin varða og láta í sér heyra. Margir hafa staðið upp og sagt: Hingað og ekki lengra.

Venjulegu fólki blöskrar nefnilega sú forgjöf sem fjármálakerfið fær á kostnað okkar hinna og hetjur Íslands vinna að því að gera landið okkar aftur að bærilegum stað til að búa á. Að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir starf þeirra. Ef ekki væri fyrir málefnalegan og vel rökstuddan málflutning þeirra væri staða heimilanna enn verri.

Forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er mikið fjallað um þá þöggun og skort á gagnrýnni hugsun sem var ríkjandi á árunum fyrir hrun. Fæstir þorðu að gagnrýna, benda á að keisarinn væri ekki í neinum fötum. Þeir fáu sem það gerðu voru hrópaðir niður af öllum fjölmiðlafulltrúunum, kynningarstjórunum og auðmönnunum. Ég hef miklar áhyggjur af því að sama meinsemdarástandið sé að taka sig upp. Fjölmiðlarnir eru laskaðir og hafa hvorki mannafl né fjármagn til að kryfja málin til mergjar. Hluti þeirra er í eigu voldugra hagsmunahópa sem hygla sínum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar varð háskólasamfélagið einnig fyrir harðri gagnrýni og of lítið virðist hafa verið gert til að bregðast við því. Undanfarið hafa borist af því fréttir að akademískar stofnanir og sérfræðingar innan háskólasamfélagsins treysti sér ekki til þess að gefa óháð og faglegt álit á þeim málum sem uppi eru í samfélaginu. Sérfræðingarnir eiga nefnilega líka fjölskyldur sem þeir þurfa að sjá fyrir og stökkbreytt húsnæðislán sem þarf að greiða af. Heiðarlegt, óháð álit gæti þýtt að viðkomandi sérfræðingur fengi ekki fleiri verkefni. Um það höfum við séð fjölmörg dæmi. Þá eru enn stöður innan háskólanna kostaðar af hagsmunaaðilum. Því er það engin furða að sérfræðiálit séu oft og tíðum einhliða og lituð af sérhagsmunum. Meðan svo er er erfitt að treysta nokkrum.

Góðir Íslendingar. Tíminn er skammur. Það er okkar að standa saman og krefjast réttlætis. Hugrekki er allt sem þarf.



[20:39]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Í búsáhaldabyltingunni ríkti mikil bjartsýni um að hrunið hefði skapað einstakt tækifæri til að bylta og bæta samfélag sem leiddi yfir okkur eitt stærsta bankahrun sögunnar. Mörg okkar báru þá von í brjósti að hrunið mundi færa okkur réttlátara samfélag, meiri jöfnuð og aukið lýðræði. Fólk fengi að njóta sannmælis í stað þess að þurfa að treysta á fjölskylduna, flokkinn og vini um vegsemd og virðingu. Meiri jöfnuður yrði milli þeirra sem af ýmsum ástæðum standa höllum fæti og hinna sem hafa haft betri forsendur til að ná veraldlegum árangri í lífinu. Lýðræðislegri skoðanaskipti yrðu að veruleika en forsenda þess er að fólki sé ekki refsað markvisst fyrir að tjá hugmyndir sínar um lausnir og óskir um nýtt samfélag.

Nú eru rúm tvö ár frá búsáhaldabyltingunni og bölsýni hefur tekið við af bjartsýni hjá mörgum þeirra sem nú standa hér fyrir utan þinghúsið og berja potta og pönnur.

Mörgum finnst endurreisnin hafa falið í sér uppbyggingu þess sem var en ekki umbyltingu kerfisins og endurnýjun meðal þeirra sem fara með völdin í samfélaginu, umbyltingu sem hefði tryggt að þeir sem standa höllum fæti vegna atvinnumissis, veikinda og eignabruna yrðu ekki helstu fórnarlömb fjármálakreppunnar. Röng efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá hruni hefur kostað mörg þúsund manns vinnuna og aleiguna. Það er efnahagsstefna sem fólst í hávaxtastefnu, gjaldeyrishöftum, of miklum niðurskurði og skattahækkunum.

Hávær krafa hefur verið uppi um að eignatilfærslan frá þeim sem skuldsettu sig á röngum tíma til þeirra sem hafa safnað auði í skjóli innstæðutryggingar og verðtryggingar verið leiðrétt. Aðgerðir sem gripið hefur verið til breyta litlu fyrir venjulegt fólk sem orðið hefur fyrir eignabruna. Nú er aftur farið að bera á því að fólk forðist að taka þátt í skoðanaskiptum í fjölmiðlum sem eru oftar en ekki hápólitískir.

Frú forseti. Hvað fór úrskeiðis eftir hrun? Hvers vegna tókst ekki að umbylta óréttlætinu, ójöfnuðinum og ófrelsinu? Jú, allt of margir eyddu kröftum sínum í eiginhagsmunabaráttu, bæði inni á þingi og úti í samfélaginu, í stað þess að berjast fyrir því að spilin yrðu stokkuð og gefið upp á nýtt.

Við Íslendingar erum treg til að skipta þjóðarkökunni upp á nýtt og höldum sem lengst í vonina um að hægt sé að stækka kökuna eða bjóða upp á nýtt kerfi. Með því að taka ekki á óréttlátri skiptingu þjóðarkökunnar lokum við augunum fyrir því að núverandi skipting kökunnar hefur búið til sigurvegara og tapara. Við vonumst til að eignatilfærsla hrunsins lagist með því að bjóða upp á fleiri valkosti við að fjármagna fasteignakaup og með því að opna leið fyrir þá sem hafa selt sig út úr kvótakerfinu inn aftur. Auður margra á Íslandi er tilkominn vegna þess að þeir voru sigurvegarar í einhverju kerfi.

Frú forseti. Afar brýnt er að mótuð verði ný efnahagsstefna sem hefur það að markmiði að skapa atvinnu og velferð. Grípa þarf til aðgerða sem eru atvinnuskapandi og létta byrðar venjulegs fólks.

Eftir hrun hefur tekist að létta skattbyrði þeirra sem eru með lægstu tekjurnar en skattbyrði annarra hópa, og þá sérstaklega millitekjuhópsins, hefur verið þyngd verulega. Tekjutenging bótakerfisins er hins vegar vandamál þeirra sem eru með lágar tekjur og hana verður að afnema. Við eigum að nota skattkerfið í ríkara mæli til að jafna tekjur milli hópa. Fjármagna þarf lækkun persónuafsláttar, tryggingagjalds og virðisaukaskatts með því að skattleggja útstreymi fjármagns þegar við afléttum gjaldeyrishöftunum, og með skatti á tekjuauka útflutningsfyrirtækja af allt of lágu gengi krónunnar.

40% af eignum lífeyrissjóðanna er ógreiddur tekjuskattur og útsvar. Ávöxtun lífeyrissjóðanna er óviðunandi og því ber að skattleggja iðgjaldagreiðslur. Ríki og sveitarfélög fá þá fjármagn til að efla velferðarþjónustuna, almannatryggingakerfið og til að byggja sjúkrahús og skóla. Snúa verður ofan af eignatilfærslunni með afnámi verðtryggingar (Forseti hringir.) og upptöku nýs eða annars gjaldmiðils á mismunandi skiptigengi.

Kæru Íslendingar. Horfum fram á veginn og berjumst fyrir sameiginlegum hagsmunum okkar.



[20:46]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Við efnum til þessarar umræðu á Alþingi í kvöld í skugga mikilla átaka og deilna um ýmis grundvallarmál. Við höfum tekist á í þessum sal um hvaða leið réttast sé að fara til að ná markmiðum okkar, að við Íslendingar verðum áfram í fremstu röð meðal þjóða. Við höfum deilt fram á nætur um forgangsröðun mála og við höfum gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir að tefla fram málum að því er virðist einvörðungu til að skapa ófrið og ágreining.

Ég hef furðað mig á því hvers vegna ríkisstjórn á svo viðkvæmum tímum lætur sér koma til hugar að ala á óvissu og óróa, ágreiningi og sundurlyndi, að hér skuli sitja ríkisstjórn sem þráast við að segja þjóðinni nákvæmlega hver staða þjóðarskútunnar er, að hér sé ríkisstjórn sem situr föst í fortíðinni eins og ræða fjármálaráðherrans áðan ber glöggt vitni um.

Við þurfum á því að halda, góðir Íslendingar, að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, takast á við fjárhagslega erfiðleika og taka ákvarðanir sem miðaðar eru út frá heildarhagsmunum okkar Íslendinga allra. Við eigum að horfa á þau einstöku tækifæri sem okkur hafa verið gefin og nýta þau og hætta að ala á ósætti.

Öllum er orðið fullljóst hvers konar óstjórn er hér. Það blasir við öllum hvers konar skortur á leiðsögn er hjá þessari ríkisstjórn og það er sorglegt að það skuli vera reyndasti þingmaður á Alþingi sem fer fyrir þeirri ráðherrasveit sem situr hér á bekkjunum fyrir aftan. Öll vitum við hvernig færi fyrir heimili sem svona er rekið, endalaus gauragangur og rifrildi við stóra sem smáa og enginn hefur hugmynd um á hverju blessað fólkið á að lifa.

Hæstv. fjármálaráðherra getur veifað blöðum hér en ekkert af því gengur eftir ef ríkisstjórnin ætlar áfram að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Eða ætlar ráðherrann að þakka sér gott ástand fiskstofnanna og þess vegna sé hægt að auka veiðarnar? Mikil eru þá völd hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Ég býst við að margir spyrji sig að því hvers vegna í ósköpunum þessi átök séu hér í þinginu, hverju þau skili í budduna þeirra, hvernig þau bæti hag þeirra og barnanna þeirra, hvernig þau skili þessari þjóð áfram. Svarið er að þrátt fyrir allt þetta trúum við því öll að Ísland hafi mikla möguleika til að sækja fram og ná hratt og örugglega í fremstu röð á ný. Við trúum því að hér séu möguleikar til að skapa góð lífskjör fyrir landsmenn alla. Við trúum því að hér sé áfram hægt að byggja á fjölbreyttri menntun sem aftur leiðir af sér frjóan jarðveg fyrir öruggan vöxt þjóðarbúsins. Við vitum að okkur voru gefnar gjöfular auðlindir sem við höfum ávallt nýtt með skynsömum hætti og eru sá grunnur sem við eigum að byggja á, en það gerist ekki nema menn fari að hugsa öðruvísi og því miður er enginn slíkur tónn í ræðu hæstv. ráðherra.

Fyrsta skrefið er að gjörbreyta vinnubrögðum hér og viðhorfum til þeirra verka sem bíða. Það verður að láta af þeim fráleitu vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð. Hvað á það að þýða að koma fram með hvert málið á fætur öðru óunnið, óhugsað og óþarft til þess að skapa sér tímabundnar vinsældir og kasta þar með fyrir róða efnahagslegum hag þjóðarinnar? Hvað á það að þýða að þykjast vita allt betur en hinir vísustu menn þegar kemur að því að meta efnahagsleg áhrif aðgerða, t.d. á sviði sjávarútvegsmála, og kæra sig kollótta, og láta sér detta í hug að koma fram með hugmyndir án þess að láta svo lítið að reikna út afleiðingar þeirra? Það er þjóðin sem tapar á þessum ómögulegu og hroðvirknislegu vinnubrögðum og hún á allt annað skilið. Þeir sem svona standa að málum eiga hins vegar að standa reikningsskil gjörða sinna.

Góðir Íslendingar. Þessari þjóð hefur farnast best þegar farið hefur saman langtímahugsun á sviði menntunar og hugvits sem og skynsamleg nýting auðlinda okkar, þegar orkan er beisluð og veiðarnar ganga vel, þegar ríkisafskipti og forsjárhyggja er í lágmarki og ekki síst þegar markmiðið er að leita lausna við úrlausn erfiðra ágreiningsmála, setja niður deilur að hætti siðaðra manna og vanda sig í hverju og einu viðfangsefni sem við er að etja.

Hitt er jafnvíst að með skammsýni er hægt að kippa fótunum undan nýtingu auðlindanna og vega þar með að efnahagslegri hagsæld og velferð þjóðarinnar hvort sem er á sviði menntamála, nýsköpunar eða heilbrigðismála. Allt það hvílir á þessum traustu undirstöðum sem okkur er ætlað að gæta að.

Þetta er erindið, góðir Íslendingar. Ég tala ekki við fólkið hér á bekkjunum til hliðar heldur við ykkur af því að ég veit að framtíð okkar getur verið björt ef rétt er á málum haldið. — Gleðilegt sumar.



[20:52]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Við erum heppin í stjórnarliðinu að hafa haft í vetur góða stjórnarandstöðu. Auðvitað segir hún okkur til syndanna en hún hefur verið venju fremur jákvæð og heldur því á erfiðum tímum til haga hve við búum að traustum innviðum í auðlindum, í lífeyrissjóðum okkar, í menntuðu fólki, í sterkum útflutningsatvinnuvegum. Í verkefnum hversdagsins trúir hún því jafnan að við höfum náð meiri árangri en við í stjórnarliðinu höfum þó talið, því að hún telur jafnan að hægt sé að ganga lengra og gera meira fyrir fleiri og er þannig jákvæð í gagnrýni sinni um það að við getum gert betur.

Gott dæmi um þá jákvæðu strauma sem frá henni koma er nú krafan um það að fyrir jól afnemum við í landinu gjaldeyrishöft. Allir vita að til þess að afnema gjaldeyrishöft þarf að ríkja innan lands og erlendis víðtækt traust á íslensku efnahagslífi. Það er gott að stjórnarandstaðan hefur það traust á íslensku efnahagslífi að hún telji að það megi falla frá höftunum fyrir jól. Það er í raun og veru mikil viðurkenning um þann algera viðsnúning í efnahagsmálum sem orðið hefur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem á undraskömmum tíma hefur stýrt þjóðarskútunni úr hættu á þjóðargjaldþroti í það að allir spáaðilar eru einróma um að hér verði vöxtur í efnahagslífinu í ár. Það er full ástæða fyrir okkur til þess að taka þessi bjartsýnu viðhorf stjórnarandstöðunnar og spáaðila með okkur inn í sumarið.

Við höfum líka fleiri tilefni en stjórnarandstöðuna til þess að vera bjartsýn. Við höfum tölur Hagstofunnar í dag um efnahagsvöxt hér á fyrsta ársfjórðungi ársins. Við höfum tölur um skuldatryggingarálag á Ísland sem fer sífellt lækkandi og ber vott um að við njótum meira trausts erlendis, og við höfum nýjar fréttir frá Hafrannsóknastofnun um aukin og betri aflabrögð í þorskveiðum á næstu árum sem gefur okkur líka tilefni til bjartsýni. En við megum ekki missa okkur, við þurfum að muna að sígandi lukka er best og að kapp er best með forsjá. Hér verður ekki, þó að stjórnarandstaðan gjarnan vildi, hægt að gera allt fyrir alla. Við erum ekki komin yfir erfiðleikana en okkur miðar vel áfram.

Það er sérstaklega fagnaðarefni að kjarasamningarnir nú hafa gefið okkur tækifæri til þess að hækka lægstu launin í landinu og að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur. Það minnir okkur á það í sumarbyrjun hversu mikilvægt það er að félagshyggjuöflin verði ekki bara fengin til þess að moka flórinn heldur líka til þess að láta sjónarmið um jöfnuð og sanngirni ráða för nú þegar vöxtur er að færast í efnahagslífið og við getum deilt ávinningnum af því með okkur.

Við munum ekki geta skapað á allra næstu missirum þau gervilífskjör sem hér var haldið uppi síðustu dagana fyrir hrun, en við getum og við skuldum sjálfum okkur að skapa hér sanngjarnara samfélag, að endurreisa ekki bara það sem var heldur endurreisa betra Ísland. Það er mikilvægt til að skapa aukna sátt í samfélaginu eftir efnahagshrun. Lykilatriði um að auka sátt í samfélaginu eftir efnahagshrunið er að tryggja eign almennings á auðlindum landsins í nýjum auðlindasjóði.

Hvers vegna að efna til þess ófriðar? spyrja hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal. Jú, vegna þess að það er fólkið í landinu en ekki flokksgæðingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem eiga fiskinn í sjónum. Og það er grundvallaratriði að tryggja að það verði líka fólkið í landinu sem eigi hinar miklu orkuauðlindir Íslands en ekki erlendir auðhringir. Það er stærsta pólitíska verkefni okkar samtíðar.

Við þurfum að læra af hruninu. Við þurfum að tryggja það fyrir börnin okkar og fyrir komandi kynslóðir að aldrei aftur verði hægt að veðsetja upp í rjáfur þær auðlindir sem við fengum í vöggugjöf og leika sér með afraksturinn í kauphöllum heimsins og tapa því svo á einni nóttu. Við sluppum núna með skrekkinn en það er skylda okkar að nota þennan lærdóm til að tryggja með lögum á Alþingi Íslendinga að það sé almenningur sem eigi þessar auðlindir.

Það eru hafin mikil átök um fyrstu skrefin í því og þið munuð sjá mikið moldviðri hér frá Alþingi frá sérhagsmunagæslusveit Sjálfstæðisflokksins. Hún mun einskis láta ófreistað í málþófi og ræðum um fundarstjórn forseta, reyna að þvælast fyrir þingstörfum fram og til baka. Látið ekki blekkjast, það er hin gamla glíma sem hér fer fram milli sérhagsmunanna og almannahagsmunanna. Ég heiti á sérhvern Íslending að leggja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lið í þeirri orrustu svo að almannahagsmunirnir megi sigra í þeirri orrustu sem hafin er, orrustunni um auðlindir Íslands.



[20:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Umræðan sem nú fer fram fer fram í skugga glataðra tækifæra, mótmæla, skýrslu um endurreisn bankanna, atvinnuleysis og stefnuleysis og stjórnleysis. Ríkisstjórninni hefur mistekist að skapa trúverðugleika á íslenskum efnahagsmálum, hvort sem er innan lands eða utan. Hótanir um ríkisvæðingu fyrirtækja í orkuframleiðslu eða sjávarútvegi rýra trúverðugleika Íslands.

Umræða um lögfestingu gjaldeyrishafta er nýhafin hér á Íslandi, lögfestingu til fimm ára. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland, efnahaginn, heimilin og fyrirtækin. Án atvinnu verður enginn hagvöxtur til í landinu og sá litli hagvöxtur sem nú mælist er fyrst og fremst kominn til vegna sjávarútvegsins og því er sorglegt að stjórnvöld skuli gera allt hvað þau geta til að skapa óvissu um atvinnuöryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi.

Framtíðarskipulagi sjávarútvegsins verður ekki breytt með einhliða ákvörðun ríkjandi stjórnvalda. Til að sem mest sátt ríki um breytingar og framtíðarskipulag þarf sáttaferli og nú treysti ég á stjórnvöld, svei mér þá, í því að breyta um takt, breyta um vinnubrögð og setja þessa vinnu í sáttaferli.

Umhverfi annarra greina er lítið skárra, vegna skattpíningaráráttu ríkisstjórnarinnar dregur úr þeim þrótt. Við hljótum að spyrja hvers vegna íslensk fyrirtæki eflast ekki meira en raun ber vitni. Svör liggja í skattstefnu ríkisstjórnarinnar og æðisgengnu kapphlaupi erlendra kröfuhafa um að ná sem fyrst til sín þeim fjármunum sem þeir eiga á hættu að tapa vegna áhættulána sinna.

Við höfum séð það á undanförnum tveimur árum að þessi stefna ríkisstjórnarinnar skilar engum árangri. Lausnin liggur þvert á móti í því að skapa jákvæða hvata og auka trú og traust fyrirtækja á því umhverfi sem þeim er skapað. Það hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mistekist.

Frú forseti. Fyrir nokkru var hér umræða um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna. Skýrslan opinberaði ýmislegt um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Í skýrslunni kemur fram að ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun um að breyta frá fyrri stefnu um að heimilin skyldu njóta afskriftanna á lánasöfnum bankanna og ákvað þess í stað að kröfuhafarnir skyldu njóta þeirra. Samið var við kröfuhafana, flokksgæðinga Samfylkingarinnar, á þeim nótum að þeir geta mergsogið heimili og fyrirtæki til að hámarka hagnað sinn. (Gripið fram í.) Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að fórna hagsmunum heimila fyrir hagsmuni kröfuhafa rís nú sem skammarlegt minnismerki um öll innantómu loforðin um að slá skjaldborg um heimilin.

Ríkisstjórnin hefur svikið þau loforð blygðunarlaust og slegið skjaldborgina um kröfuhafa bankanna í staðinn. Samt dirfist hæstv. fjármálaráðherra að halda því fram á flokksráðsfundi Vinstri grænna að venjulegt fólk hafi ekki orðið fyrir eignabruna. Hverjir eru þessir venjulegu, frú forseti, hvaða hópur er það? Ég get upplýst hæstv. fjármálaráðherra um að venjulegir Íslendingar eru margir með íslensk verðtryggð lán sem hafa hækkað upp úr öllu valdi vegna verðbólgu á sama tíma og fasteignaverð lækkaði. Venjulegt fólk hefur á síðustu tveimur árum horft á ævisparnað sinn hverfa í hærri afborganir af lánum, hærra verð á nauðsynjavörum og endalausar skattahækkanir hæstvirts fjármálaráðherra.

Frú forseti. Venjulegt fólk þarf á hverjum degi að sækja sér aðstoð og matargjafir hjá hjálparsamtökum. Er til of mikils mælst að fjármálaráðherra taki nú lyftuna niður úr fílabeinsturninum og stígi inn í íslenskan raunveruleika?

Við höfum séð margar tillögur og framsóknarmenn hafa lagt fram margar tillögur á þingi um lausn á vanda heimila og fyrirtækja, en á þær hafa stjórnarflokkarnir ekki hlustað.

Frú forseti. Icesave þekkja flestir og þá sorgarsögu alla. Íslenska þjóðin hafnaði því að taka á sig skuldir einkaaðila þrátt fyrir að ríkisstjórnin og fjölmargir aðrir fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu beittu sér af mikilli hörku fyrir því að svo yrði. Því var hótað að lánstraust mundi hrynja og skuldatryggingarálag hækka ef þjóðin hafnaði Icesave. Því var haldið fram að erlend fjárfesting mundi stöðvast. Allt hefur þetta reynst rangt.

Lánsmatið hefur þvert á móti batnað, skuldatryggingarálagið hefur ekki verið lægra síðan fyrir hrun og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfesti í vikunni að engar líkur væru á að Icesave hefði áhrif á erlenda fjárfestingu. Það eru aðrir hlutir sem trufla það, þ.e. ríkisstjórnin.

Hvað gekk því fólki til sem hótaði þessum hörmungum að ástæðulausu? Var það vegna Evrópusambandsumsóknarinnar? Og hvenær munu viðkomandi axla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í Icesave-málinu og þeim rangfærslum sem beitt var vísvitandi til að villa um fyrir þjóðinni?

Evrópusambandsumsóknin er rekin áfram af mikilli hörku og stjórnarþingmenn, núverandi og fyrrverandi, hafa sagt að komið sé út fyrir það umboð sem Alþingi veitti. Sé það rétt er ábyrgð ríkisstjórnarinnar mikil, og okkar hinna líka fyrir að veita ekki meira aðhald. Þessu þurfum við að breyta. Við sem höfum það á stefnuskrá okkar að Íslandi sé best borgið utan þessa sambands þurfum að taka höndum saman því að aðlögunin er á fullu.

Frú forseti. Í ár er minnst 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar, helstu sjálfstæðishetju Íslandssögunnar, hetju sem barðist fyrir því að Íslendingar losnuðu undan yfirþjóðlegu valdi. Á sama tíma og þessara tímamóta er minnst er unnið markvisst að því að koma Íslandi aftur undir yfirþjóðlegt vald. Var barátta Jóns Sigurðssonar til einskis?

Góðir tilheyrendur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er komin á endastöð þó að kjörtímabilið sé aðeins hálfnað. Tækifærin fyrir heimilin og fyrirtækin til að rétta úr kútnum hverfa eitt af öðru. Innan skamms verður því miður erfitt að snúa dæminu við og afleiðingar kreppunnar verða þá langvinnar. Þetta eru varnaðarorð sem ég bið ykkur að muna. Færa má rök fyrir því að frjálshyggjan hafi verið orðin of ráðandi í íslensku samfélagi en það er engin lausn að hverfa frá einum öfgum til annarra því að það stjórnarfar hafta og ríkisvæðingar sem ríkisstjórnarflokkarnir predika er síst minni öfgar en þær sem ollu hruninu.

Góðir tilheyrendur. Það verður að fara meðalveginn með skynsemi og rökhyggju að leiðarljósi, vega og meta lausnir út frá virði þeirra en ekki frá hverjum þær koma. Aðeins þannig getum við unnið okkur út úr núverandi vanda og náð að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem blasa við okkur. — Góðar stundir.



[21:05]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti, góðir landsmenn. Það eru væntanlega fáir þingmenn á hinu háa Alþingi sem ekki rökstyðja stjórnmálaþátttöku sína með baráttu fyrir hugsjónum. En hvað eru hugsjónir? Hugsjónir eru ekki bara falleg ímynd eða hugmynd til að halda innblásnar ræður um á tyllidögum. Í hugsjónum felast markmið og sýn hvert skal stefna. Hugsjónafólk á sér þess vegna þá von að hugsjónirnar verði einhvern daginn að veruleika eða að minnsta kosti að sú veröld sem við byggjum færist nær ásættanlegu ástandi. Við komumst ef til vill ekki alla leið í fyrstu tilraun, en hverju skrefi nær hugsjóninni ber að fagna.

Ég man eftir hugsjónakonu sem barðist fyrir umhverfisvernd og var sökuð um að vilja flytja þjóðina aftur inn í torfkofana. Hún lagði áherslu á femínisma og réttindi samkynhneigðra en fékk bágt fyrir. Nú er staðan sú að eitt hennar helsta baráttumál, austurríska leiðin, verður brátt lögfest. Ein hjúskaparlög eru komin á og samkomulag hefur náðst um friðun á Langasjó. Ég vona að fólk átti sig á að við erum að ná þessum árangri vegna áralangrar baráttu Kolbrúnar Halldórsdóttur og annars hugsjónafólks, bæði hér innan þings og utan.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur verið gagnrýnd, og það mjög ómálefnalega á köflum — en fyrir hvað? Jú, fyrir það eitt að leyfa náttúrunni að njóta vafans, fyrir að sinna starfi sínu og sporna við því að ámátlegt jarm í einhæfum stóriðjukórnum ráði för í uppbyggingu samfélagsins líkt og áður.

Ýmsar hugsjónir femínista og umhverfissinna hafa þannig orðið að veruleika á þeim tveimur árum sem félagshyggjuflokkarnir hafa setið í meiri hluta. En hvernig hefur gengið að öðru leyti? Ég ætla ekki standa hér og reyna að búa til óraunhæfa glansmynd. Þessi tími hefur einkennst af þeim aðstæðum sem uppi voru og því erfiða búi sem tekið var við. Engin íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tímann þurft að fást við jafnrisavaxið verkefni. Má þar helst nefna erfiða stöðu ríkissjóðs, atvinnuleysi og síðast, en alls ekki síst, skuldavanda heimila og fyrirtækja sem er þungur baggi.

Ég skil vel að það getur verið erfitt að sætta sig við hve langan tíma sumar aðgerðirnar taka. Ég deili þeirri óþolinmæði á köflum þrátt fyrir að vera sjálf í hringiðu stjórnmálanna. En þrátt fyrir allt hefur náðst ótrúlegur árangur á ekki lengri tíma. Ég er meðvituð um að ýmislegt hefur eflaust mátt fara betur. Það er hins vegar ekki hægt að gera lítið úr þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur á ýmsum sviðum og miðar að réttlátara þjóðfélagi.

Táknmál hefur nú loks verið viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra og heyrnarskertra og því fagna ég svo sannarlega. Róttækar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu til að verja kjör þeirra tekjulægstu og dreifa skattbyrðinni á sanngjarnari máta en áður.

Í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla birtist ný menntastefna sem hefur meðal annars það markmið að styrkja einstaklinga til að vera gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Með þessum nýju námskrám birtist gjörbreytt gildismat.

Þegar austurríska leiðin verður samþykkt má loksins fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu í stað fórnarlambsins. Það er réttlætismál sem ekki má gera lítið úr. Það segir líka ýmislegt um fyrri ríkisstjórnir að málið hafi ekki hlotið brautargengi fyrr en nú. Það hefur verið kallað eftir þessum breytingum í áraraðir. Það segir allt um gildi þessarar stjórnar og þær hugsjónir sem hún heldur á lofti að það er loksins núna sem þessi mál komast í gegn.

En það má þó alltaf gera betur. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er tekið fram að Ísland skuli beita sér fyrir friði og afvopnun. Það er nokkuð sem ég er hjartanlega sammála. Það samræmist ekki því að styðja við aðgerðir árásarbandalagsins NATO í Líbíu. Reynslan kennir okkur að það er sjaldnast hægt að frelsa heilu þjóðirnar með því að láta sprengjum rigna yfir þær. Það eru heldur ekki til sprengjur sem drepa bara vont fólk og valda almennum borgurum hvorki skaða né hörmungum.

Vegna friðarmálanna langar mig að nýta tækifærið og leggja fyrir nokkrar tillögur að aðgerðum um næstu skref ríkisstjórnarinnar. Friðlýsum Ísland fyrir kjarnorkuvopnum, göngum úr NATO og stöðvum heræfingar sem fram fara undir merkjum loftrýmiseftirlits eða varnaræfinga.

Góðir landsmenn. Nú þurfum við að varða veginn til framtíðar. Við vitum öll hvert nýfrjálshyggjan leiddi okkur. Sú samfélagsgerð verður ekki endurreist. Höldum hugsjónum okkar á lofti og byggjum réttlátt, friðsamlegt og sjálfbært þjóðfélag.



[21:10]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ágætu landsmenn. Þegar kemur að því að ræða verk og verkleysi þessarar ríkisstjórnar er af nógu að taka. Þótt sumt hafi tekist vel er annað aðfinnsluvert, eins og gengur og gerist. Nægir þar að nefna t.d. Icesave-málið sem fyrir tilstuðlan þjóðarinnar sjálfrar hefur nú loks fengið farsælan farveg og nákvæmlega þann farveg sem Lee Buchheit lagði til í fyrstu heimsókn sinni hingað til Íslands sumarið 2009.

Önnur mál sem hafa fengið minni athygli en skyldi en koma í beinu framhaldi af hruninu og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og snúa meira að Alþingi sjálfu eru til dæmis frumvörp ríkisstjórnarinnar um rannsóknarnefndir, upplýsingalög, Stjórnarráðið, siðareglur, fullnustu refsinga og breytingar á embætti sérstaks saksóknara.

Sum þessara mála hafa verið samin og framreidd af embættismönnum Stjórnarráðsins sem margir hverjir voru sjálfir í ábyrgðarstöðum fyrir hrunið og höfðu aðkomu að þeirra tíma löggjöf og eftirfylgni hennar. Það hefur komið í ljós að sum þessara frumvarpa eru í litlu samræmi við þá alvarlegu atburði sem gerðust hér fyrir hrun og ollu því, og oft eru þau í mjög litlu samræmi við niðurstöður skýrslna sem frumvarpshöfundar segjast styðjast við. Það er athyglisvert að lesa saman skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrsluna Samhent stjórnsýsla og bera svo innihaldið saman við sum þessara frumvarpa þar sem niðurstöður eru oft mjög útvatnaðar og jafnvel andstæðar niðurstöðum skýrslnanna.

Frú forseti. Hér hefur orðið á alvarlegur misbrestur og þar sem dæmin um þetta eru mörg er mikilvægt að þingið sé meðvitað um að áhrif embættismanna á löggjöf eru miklum mun meiri en æskilegt getur talist. Hér er ekki við ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra að sakast enda erfitt að gera sér í hugarlund að þeir lúslesi frumvörp með skírskotunum til frumgagna og heimilda, enda ekki þeirra verk. Fyrir árvekni þingmanna bæði í umræðum og nefndastarfi hefur hins vegar tekist að laga sum þessara mála.

Ég leyfi mér að nefna nokkur mjög mikilvæg mál sem allsherjarnefnd hefur þurft að taka í yfirhalningu eftir að hafa verið dæmd nánast ónýt af umsagnaraðilum utan embættismannakerfisins. Hér er um að ræða frumvarpið um rannsóknarnefndir, frumvarp til upplýsingalaga, frumvarp um Stjórnarráðið og frumvarp um siðareglur Stjórnarráðsins. Frumvörp þessi komu flest inn í þingið frá ríkisstjórninni og hefðu að óbreyttu leitt til þess að margar ábendingar og tillögur sem komið hafa fram um úrbætur með tilliti til hrunsins hefðu orðið að engu. Það hefur svo eingöngu verið með dyggum stuðningi formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls, sem allsherjarnefnd hefur getað spyrnt við fótum og lagfært frumvörpin.

Oft hefur heyrst að heppilegra væri að gerð frumvarpa færi fram á Alþingi en ekki hjá framkvæmdarvaldinu. Af fréttum af stjórnlagaráði að dæma virðist sem tillögur þess um skarpari aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds innihaldi ákvæði í þessa veru. Mikilvægt er að Alþingi taki einnig þetta frumkvæði og stefni að stóreflingu nefndasviðsins sem hefði þá á sinni könnu gerð allra frumvarpa sem leggja á fram en með samvinnu og samráði við framkvæmdarvaldið og þá sérfræðiþekkingu sem þar er eins og þörf krefur.

Frú forseti. Senn líður að þinglokum þó að allt sé enn óljóst um hvenær þau verða nákvæmlega þegar þessi orð eru töluð. Sá ósiður sem viðgengist hefur á Alþingi undanfarin ár og áratugi að afgreiða löggjöf á færibandi á hvaða tímum sólarhringsins sem er hefur viðhaldist þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um brýnar úrbætur á starfsháttum þingsins. Er skemmst að minnast þess að í gærkvöldi kom þingmaður ekki upp orði fyrir hlátri þegar hann ætlaði að ræða um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Skilaboðin eru einfaldlega enn þau að Alþingi eigi helst að vera mannað fólki sem komið er yfir miðjan aldur og hefur engar eða sem minnstar skyldur við fjölskyldu sína. Vissulega hefur forseti þingsins staðið föst fyrir þegar kemur að því að standa við fyrir fram gefna dagskrá um þinghlé og er það vel, en minna fer fyrir því að staðið sé við áætlanir um framlagningu mála þannig að nægur tími gefist til umræðu um þau. Fyrir lá í lok síðustu viku þegar fjórir þingdagar voru eftir að enn ætti eftir að afgreiða 60 mál sem væri sátt um og 25–30 til viðbótar sem ekki væri sátt um.

Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á lagasetningu með svona aðferðum og stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir því að sum mál eru einfaldlega þannig vaxin að þau þurfa langa og ítarlega umræðu. Grundvallarbreytingar á til dæmis Stjórnarráðinu eða auðlindamálum taka langan tíma og eiga að gera það því að hér þarf að vanda vel til verka.

Frú forseti. Ekki er hægt að taka til máls um störf ríkisstjórnarinnar án þess að nefna það að nú tveimur árum eftir kosningar þar sem allir flokkar gáfu loforð um víðtækar lýðræðisumbætur hefur ekkert orðið um efndir í þeim efnum. Frumvörp ríkisstjórnarinnar um persónukjör hefur í tvígang dagað upp í nefnd og það síðasta sem frést hefur af þeim er að hæstv. innanríkisráðherra ákvað að leggja þau ekki fram aftur á þessu þingi. Engar tillögur eða undirtektir hafa heldur komið fram um aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna. Frumvarp Hreyfingarinnar um það mál hefur verið lagt fram í þrígang en alltaf verið svæft í nefnd.

Brýnt lýðræðisumbótamál sem heldur hefur ekki verið fylgt eftir er breyting á lögum um fjármál stjórnmálaflokka, en enn megum við búa við það að stjórnmálaflokkar mega taka við fjárframlögum frá lögaðilum, ekki er skylt að upplýsa um öll fjárframlög og stjórnmálaflokkum er gróflega mismunað þegar kemur að úthlutun almannafjár til stjórnmálastarfsemi. Í því efni hefur Hreyfingin lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fjármál og fjármögnun stjórnmálasamtaka þar sem gagnsæi er leiðarljósið og lokað er fyrir aðkomu lögaðila, þ.e. fyrirtækja og samtaka þeirra, að fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Þetta er mjög mikilvægt skref, ekki síst í ljósi þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um samspil stjórnmála og viðskiptalífsins þar sem fjöldi þingmanna þáði fúlgur fjár frá fyrirtækjum. Nýjar upplýsingar sem komið hafa fram um fjárstuðning sjávarútvegsfyrirtækja við stjórnmálaflokka gefa tilefni til rækilegrar umhugsunar um það hvaða hagsmuna menn eru hugsanlega að gæta hér á Alþingi og sýna skýrt að kominn er tími til að skera á þessi tengsl. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Að lokum langar mig að nefna það mál sem hvað hæst hefur borið á góma á Alþingi undanfarnar vikur en það eru frumvörp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar okkur í Hreyfingunni varð ljóst að tillögur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum væru að stórum hluta merkingarlausar ákváðum við að leggja fram okkar eigið frumvarp. Frumvörp ríkisstjórnarinnar ganga of skammt, eru of flókin og snúast um að viðhalda víðtækri sérhagsmunagæslu annars vegar og veita ráðherra mikið miðstýringarvald hins vegar.

Frumvarp Hreyfingarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu gengur í megindráttum út á þrennt, sterka byggðatengingu þar sem öllum aflaheimildum er úthlutað aftur til sjávarbyggðanna í samræmi við það sem var áður en framsal aflaheimilda var gefið frjálst, jafnræði og arðsemi þar sem allar aflaheimildir þurfa að fara á uppboð og allir landsmenn geta boðið í heimildir. Sanngirni er svo þriðji meginþátturinn þar sem fjármál sjávarútvegsfyrirtækja eru endurskipulögð og þær skuldir sem til eru komnar vegna kaupa á aflaheimildum eru færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð sem verður greiddur niður með sérstöku tímabundnu gjaldi á sölu aflaheimilda.

Frumvarpið er í anda stefnu Hreyfingarinnar um að allar náttúruauðlindir skuli vera í eigu þjóðarinnar. Það á enginn náttúruna og þær auðlindir hennar sem við búum svo vel að annar en þjóðin öll og það á enginn að fá úthlutað af þessum sameiginlegu auðlindum nema gegn sanngjörnu gjaldi þar sem allir geta staðið jafnt að vígi.

Þjóðin verður að ná saman um þetta grundvallaratriði. Það mun hins ekki gerast nema utan áhrifasviðs sérhagsmunaafla og það verkefni að skera á áhrif sérhagsmunaafla á lagasetningu, svokallaðan lobbíisma, er eitt af þeim mikilvægari sem Alþingi getur tekið sér fyrir hendur. Það þýðir hins vegar að kjósendur verða að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum næstu tíu árin eða svo.



[21:19]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti, ágætu landsmenn. Í kjölfar síðustu kosninga höfðu Samfylking og Vinstri grænir uppi fögur fyrirheit um að öllu skyldi breyta á Íslandi. Auka átti lýðræði og þátttöku borgaranna í ákvörðunum er varða hag þeirra allra. Talað var um „verkstjórann mikla“ sem sprottinn væri úr jarðvegi sanngirni, gagnsæis, jafnréttis, heiðarleika og réttsýni. Hann væri bestur allra til að leiða þjóðina. Umbylta átti Íslandi öllu í átt til norræns velferðarþjóðfélags. Nú yrðu velferðarbrýr reistar yfir hverja torfæru og sérhagsmunir dregnir niður. Nú yrðu hagsmunir hins almenna borgara loksins í forgrunni.

Rúm tvö ár eru liðin frá því að þessi fögru fyrirheit voru gefin. Frá miðju ári 2008 hafa 28 þús. störf tapast á íslenskum vinnumarkaði. Um 14 þús. manns ganga atvinnulaus nánast án framfærslu, önnur 14 þús. hafa flutt af landi brott í leit að atvinnu. Skuldavandamál fólks og fyrirtækja eru að mestu óleyst og lítið bólar á hagvextinum. Erlendir fjárfestar eru fældir frá með tali um þjóðnýtingu og á meðan renna vötnin til sjávar, óbeisluð og engum til gagns.

Framlag ríkisstjórnarinnar til atvinnuuppbyggingar er helst sólpallaverkefnið Allir vinna. Það er í sjálfu sér ágætt að Íslendingar dytti að sólpöllum sínum og byggi jafnvel nýja en það er tæpast neitt sem þjóðin getur byggt á til framtíðar. Ungt vel menntað fólk horfir stöðugt meira til útlanda eftir tækifærum, tækifærum sem ríkisstjórninni hefur mistekist að skapa á Íslandi. Ungt fólk vill byggja eitthvað stærra en sólpalla.

Við almenningi á Íslandi blasir efnahagslíf í öndunarvél, þverrandi kaupmáttur og versnandi lífskjör. Í því andrúmslofti ákveður ríkisstjórnin að ganga enn lengra og kippa stoðunum undan sjávarútveginum og ógna þannig starfsöryggi um 30 þús. einstaklinga sem starfa beint og óbeint við greinina.

Góðir landsmenn. Hugmyndin um að hægt sé að skapa fleiri störf með því að umbylta fiskveiðistjórninni er á miklum misskilningi byggð. Ef vilji stjórnarflokkanna nær fram að ganga mun það festa í sessi óhagkvæmni í útgerð. Það mun færa störf frá einum sjómanni til annars, frá einu byggðarlagi til þess næsta. Það er misskilningur að fiskum í sjónum fjölgi ef horfið er til atvinnuhátta fyrri tíma. Það er ekki mikil stjórnviska að etja fólki saman þegar þjóðarhagsmunir kalla á að fólk gangi í takt. Nú hefur hið stærra frumvarp ríkisstjórnarinnar verið dregið til baka og hið minna ætti að fylgja í kjölfarið. Eftir ætti að óma sá lærdómur aldanna að kapp sé ávallt best með forsjá.

Þá virðist ríkisstjórnin algjörlega hafa gefist upp fyrir því verkefni að afnema gjaldeyrishöftin sem skaðað hafa fólk og fyrirtæki stórkostlega, höft sem átti að afnema vorið 2009. Ríkisstjórnin vill fara austur-þýsku leiðina og loka þjóðina með lögum endanlega á bak við múra hafta. Höftin lengja kreppuna og gera það að verkum að íslenska hagkerfið og um leið hagur fólks og fyrirtækja mun halda áfram að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Ísland er nú í 31. sæti af 50 löndum hvað varðar samkeppnishæfni landa. Það fælir erlenda fjárfestingu frá. Digurbarkalegar yfirlýsingar ráðherra um ónýta krónu hafa ekki bætt úr skák. Gjaldeyrishöftin halda jafnframt niðri kaupmætti og lífskjörum almennings með því að leggja grunn að óðaverðbólgu á Íslandi næstu árin. Vandamálin hlaðast upp handan stíflunnar.

Þótt gjaldeyrishöftin og fiskveiðistjórnin séu alvarleg mál eru þau ekki erfiðasta glíman. „Verkstjóranum mikla“ hefur algjörlega mistekist að veita þjóðinni þá leiðsögn sem hún þarf á þessum óvissutímum. Þjóðin er óörugg um hag sinn og það leiðir til þess að hver höndin er upp á móti annarri. Þjóðin þarfnast framtíðarsýnar. Þessari ríkisstjórn færi best að játa sig sigraða og fela þjóðinni hið fyrsta að velja sér nýja pólitíska leiðtoga í kosningum. — Góðar stundir.



[21:24]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti, ágæta þjóð. Ég man eftir að hafa setið við eldhúsborðið heima í Hafnarfirðinum og hlustað á eldhúsdagsumræður með pabba mínum heitnum. Hann taldi mér ákveðið trú um það með stríðnisglampa í augum að við yrðum að sitja við eldhúsborðið og hlusta, þetta væru þannig umræður. Mér var kennt ýmislegt annað við þetta eldhúsborð, t.d. að ég ætti að vera þakklát fyrir að vera þokkalega vel af guði gerð. Það þakklæti ætti að birtast í virðingu fyrir lífinu og vilja til að berjast fyrir réttlæti öllum til handa um leið og ég átti að gera mér grein fyrir því að ég væri fædd með tvö eyru og einn munn vegna þess að ég ætti að hlusta helmingi meira en ég talaði, en það væri samt ágætt að tala svolítið.

Með þetta veganesti er eðlilegt að skipta sér af því hvernig samfélagið í kringum mann skipast og það gera menn gjarnan með því að blanda sér í pólitík. Hluti af því er baráttan fyrir sem jöfnustum tækifærum fólki til lífsgæða í samskipuðu samfélagið. Það er nefnilega þannig að fólk hefur misgóð tækifæri til að njóta gæða lífsins. Þar getur ýmislegt komið til eins og heilsa, kyn, þjóðerni, búseta og fötlun.

Mig langar til að gera hér að sérstöku umtalsefni þær miklu breytingar sem þingið hefur unnið að í málefnum fatlaðs fólks. Þar ber auðvitað fyrst að nefna þá miklu breytingu sem gerð var um áramótin þegar málaflokkurinn í heild sinni var fluttur frá ríki til sveitarfélaga eftir vandaða undirbúningsvinnu í verkefnastjórn við yfirfærsluna. Við í félags- og tryggingamálanefnd hefðum þó gjarnan viljað fá talsvert lengri tíma til að vinna að lagabreytingum sem nauðsynlegar voru vegna yfirfærslunnar, en samstiga og samhent unnum við að mikilvægum breytingum í góðu samstarfi við fatlað fólk, talsmenn þess og fræðimenn á sviði fötlunarfræða. Við þá vinnu kom vel í ljós hversu illa réttindagæsla þessa hóps stóð og var því lagt til í breytingartillögum nefndarinnar að skammur frestur yrði gefinn til að koma með nýtt frumvarp um bætta réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Það vakti sérstaka athygli mína að þegar þessi lög voru samþykkt rétt fyrir jólin sá enginn fjölmiðill ástæðu til að vera viðstaddur eða greina frá því að verið væri að flytja þennan mikilvæga málaflokk milli stjórnsýslustiga með tilheyrandi tæplega 11 milljarða tilfærslu á fjármagni, hvað þá að greina frá þeirri góðu sátt sem var um málið í nefndinni.

Áhugasvið fjölmiðla væri umfjöllun í aðra og mun lengri ræðu, en til að hún næði eyrunum löngu þyrfti líklega að vera í henni dálítið af orðhengilshætti og góður skammtur af skítkasti í bland við órökstuddar, stóryrtar fullyrðingar um ákveðnar persónur. En við, hinn samstillti hópur í félags- og tryggingamálanefnd, höfum nú lokið umfjöllun okkar um frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks og á þá einungis eftir að greiða atkvæði um það til að það verði að lögum. Þar er réttindagæslunni skipt í þrjú svið, réttindavakt í velferðarráðuneytinu, net réttindagæslufólks vítt og breitt um landið og síðan geta lögráða fatlaðir einstaklingar valið sér persónulegan talsmann. Stórt skref hefur verið stigið í réttindabaráttunni en við erum ekki komin á leiðarenda. Við þurfum að skoða hvar við viljum að mannréttindamálum sé almennt komið fyrir í Stjórnarráðinu og við þurfum að leggja á það mikla áherslu að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem allra fyrst. Við erum á leiðinni að markinu og munum stefna þangað öruggum skrefum.

Annað afar merkilegt skref var stigið í réttindabaráttu á vordögum þegar viðurkennt var með lögum þar um að íslenskt táknmál væri fyrsta mál heyrnarskertra, heyrnarlausra og annarra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar. Þar gladdist hin samstarfsfúsa menntamálanefnd með notendum táknmálsins á tilfinningaþrunginni stundu.

Núna á síðustu dögum hefur þingið samþykkt að atvinnuleitendur fengju sömu kjarabætur og launþegar í júní og desember og að lokað yrði á víxlverkun lífeyris og bóta hjá öryrkjum. Rannsóknir sýna að breytingar á skattkerfinu hafa haft þau jöfnunaráhrif sem þeim var ætlað að hafa svo tekist hefur að lækka skattbyrðina á þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að takast að ná fram jöfnuði og réttarbótum um leið og hún er að byggja upp efnahagslífið og koma íslensku samfélagi á réttan kjöl eftir stærsta efnahagshrun Íslandssögunnar. Sókn er fram undan í menntun ungs fólks í atvinnuleit, áhersla er lögð á samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu, hagvöxtur er kominn yfir 2%, skuldatryggingarálagið niður í 200 punkta, þorskkvótinn verður aukinn um 18% — er þetta ekki bara ágætisupptalning því til sönnunar að þjóðin er sannarlega að rétta úr kútnum efnahagslega og samfélagslega?

En við getum svo sannarlega haldið áfram á þessari góðu vegferð. Við höfum mörg góð verk að vinna. Mig langar þar að vísa sérstaklega til skýrslu þingmannanefndarinnar um Alþingi. Þar er talað um undirbúning löggjafar og hvað þar megi betur fara. Mér hefur fundist dálítið sérstakt að upplifa þessi tvö ár sem ég hef setið á þingi hversu lítið virðist vera leitað til fræðasamfélagsins þegar unnið er að lagagerð um hin ýmsu málefni. Þekkingin sem þar býr ásamt víðtækri reynslu atvinnulífs og hagsmunaaðila hlýtur að vera dýrmæt þegar við erum að móta þá stefnu og þann ramma sem í löggjöf býr. Með þannig samþættingu við heilbrigða skynsemi þingmanna og reynslu ættum við að geta sinnt því hlutverk að taka fyrst og fremst mið af almannahagsmunum í lagasetningu sem eru hið eiginlega hlutverk okkar.

Alþingi á að vera vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta og okkur ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu svo við getum endurheimt traust þjóðarinnar. Það er enn margt fólk úti í samfélaginu sem er biturt og reitt vegna þess hvernig breytingarnar á samfélaginu hafa farið með lífsgæði þess. Við þurfum að horfast í augu við það, ávarpa þetta fólk af virðingu og skilningi og leita lausna til að ná aftur víðtækri sátt í samfélaginu svo bjartsýnin og vonin sem á að móta líf okkar á uppbyggingartímanum sem fram undan er finni sinn farveg. — Góðar stundir.



[21:31]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Nú þegar hillir vonandi undir þinglok og kjörtímabilið er hálfnað getur verið gott að staldra við og horfa um öxl. Við framsóknarmenn getum gert það með stolti. Allt frá efnahagshruninu höfum við lagt fram umfangsmiklar tillögur á fjölmörgum sviðum sem eiga það sameiginlegt að endurspegla sýn okkar á hið nýja Ísland, þetta nýja Ísland sem okkur dreymdi flest um þegar rykið fór að setjast yfir rústum auðhyggjunnar.

Okkar helsta markmið var að tryggja að heimilin í landinu biðu sem minnstan skaða af ofsaakstri útrásarvíkinga og frjálshyggjuplebba sem keyrðu íslenskt hagkerfi beint út í skurð, að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað svo við gætum strax farið að vinna okkur út úr vandanum, að tryggja það að ofurskuldir innantóms bankakerfis lentu hjá þeim sem ábyrgðina bæru, þeim sem voru nógu gráðugir eða vitlausir til að lána peninga inn í spilaborgina, en ekki saklausum skattgreiðendum sem ekkert höfðu til saka unnið nema helst að láta glepjast af gylliboðum bankamanna, syndaaflausnum eftirlitsstofnana og bláeygðum stjórnmálamönnum.

Þannig vildum við koma höndum yfir óskattlagðar eignir íslenskra auðmanna í útlöndum, en stjórnvöld hafa sýnt því einkennilega lítinn áhuga allt frá hruni. Við lögðum fram heildstæðar tillögur í skuldamálum þar sem höfuðstóll húsnæðislána og lán til fyrirtækja yrðu lækkuð um 20% með mögulegu krónutöluhámarki. Tilgangur þess var að tryggja að þær skuldir sem erlendir kröfuhafar höfðu þá þegar afskrifað rynnu til íslenskra skuldara sem sátu uppi með allt tjónið af gengishruninu og verðbólgu.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrr í kvöld um þetta sem töfrabrögð um leið og hann gagnrýndi málflutning stjórnarandstöðunnar. En skoðum hans eigin staðreyndir.

Nýleg skýrsla fjármálaráðherra sem hann reyndi að fela, stinga undir blaðabunka annarra þingskjala, og þær aðgerðir sem bankarnir hafa gripið til á undanförnum vikum sýna að þessi leið var fær. Það er deginum ljósara að draga hefði mátt verulega úr því gríðarlega tjóni sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa orðið fyrir ef gripið hefði verið til þessara aðgerða strax. Í kjölfar þess vildum við grípa til sértækra aðgerða fyrir þá skuldara sem enn yrðu í vanda og lögðum fram frumvarp um greiðsluaðlögun. Sú greiðsluaðlögun átti aðeins að koma til í undantekningartilfellum enda hefur komið á daginn að sú leið er erfið og tímafrek. Það sanna tölurnar, tæpum þremur árum eftir hrun hafa aðeins 22 af rúmlega 2.800 umsækjendum lokið samningum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Enn hefur enginn farið í gegnum allt greiðsluaðlögunarferlið.

Þá vildum við lækka vexti strax og við lögðum fram tillögu þess efnis, auk þess sem við höfum barist af hörku fyrir rétti fólks sem tók gengistryggð lán og, síðast en ekki síst, afnámi verðtryggingarinnar. Verðtryggingarnefndin undir forustu framsóknarmanna hefur sýnt svart á hvítu að nauðsynlegt er að hefja afnám verðtryggingar á lánum heimilanna sem fyrst. Ísland er nefnilega einstakt að því leyti að hér taka heimilin nær alla áhættu af verðbólgunni með lánum sínum. Þeir sem raunverulega geta haft áhrif á verðbólguna og efnahagsmálin, þ.e. stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir, eru hins vegar bæði með beltið og axlaböndin. Þau eru stikkfrí og þurfa aldrei að bíða tjón vegna óábyrgrar hegðunar sinnar.

Við lögðum fram þingsályktunartillögu um hvernig standa ætti að endurreisn bankanna. Við lögðum áherslu á að nýja bankakerfið mundi þjóna hagsmunum íslensks samfélags en ekki öfugt, að stærð þess yrði í samræmi við íslenskt efnahagslíf og að bankarnir yrðu færir um að þjónusta atvinnulífið. Hið opinbera héldi eftir eignarhlut í bönkunum og tryggði þannig að endurreisn þeirra byggði á þörfum íslensks samfélags en ekki erlendra vogunarsjóða sem keypt höfðu kröfur á hendur þeim á hrakvirði og reyndu í kjölfarið að hámarka hagnað sinn á kostnað almennings eins og nú er raunin.

Við höfum lagt fram ítarlega stefnu í atvinnumálum um sköpun 12 þús. nýrra starfa því að við gerum okkur grein fyrir því að vinna er ávallt forsenda velferðar. Atvinnuleysi er einfaldlega alltaf óásættanlegt, hvað þá af þeirri stærðargráðu sem blasir við okkur núna.

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar sem lék lausum hala fyrir hrun skýtur í síauknum mæli upp kollinum innan raða hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Sú hugmyndafræði snýst um að gróði sé fyrir fáa útvalda og að allt snúist um arðsemi, hagkvæmni og hagnað. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp, henni ber að hafna. Það eru launuð störf sem greiða fyrir matinn, húsnæðið, heilsugæsluna, leikskólana og allt annað sem við þurfum á að halda. Við eigum ekki að lifa á brauðmolum af borði hinna ríku, við þurfum einfaldlega góð, vel launuð störf. Verðmætasköpun án atvinnu er einskis virði, það kenndi hrunið okkur.

Ég hef enn þá trú að við getum byggt betra samfélag, frú forseti, betra Ísland. Það er ekkert áhlaupaverk og við verðum að hafa kjark og þor til að takast á um þau grundvallarsjónarmið sem við viljum byggja framtíð okkar á. Ég vil samfélag sem byggir á samvinnu manna þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér og axlar um leið ábyrgð sína á velferð samfélagsins, samfélag þar sem við búum við jafnræði, sanngirni og lýðræði, þar sem við vinnum öll að því að tryggja hagsmuni hvers og eins í samfélaginu frekar en að hámarka hagnað örfárra.

Við framsóknarmenn höfum barist dyggilega fyrir þessum gildum á síðustu tveimur árum. Ég veit að sagan mun sýna að þær tillögur sem við höfum lagt fram um endurreisn Íslands eru ekki aðeins vel ígrundaðar og raunhæfar heldur hefðu þær lágmarkað það tjón sem íslenskur almenningur og íslenskt samfélag hefur beðið í kjölfar hrunsins ef á þær hefði verið hlustað. Um það vitna blákaldar staðreyndir í dag.

Það er ekki of seint að stöðva endurreisn hins gamla kerfis auðvalds og sérhagsmuna. Það er ekki of seint að byggja nýtt Ísland á grundvelli samvinnu þar sem manngildið er ætíð sett ofar auðgildinu.



[21:39]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Á þessu kalda vori erum við óþyrmilega minnt á náttúruöflin sem móta landið okkar og okkur sjálf. Gosið í Grímsvötnum í síðasta mánuði og gosið í Eyjafjallajökli í fyrravor vöktu upp samkennd og samstöðu hjá fámennri þjóð sem er svo heppin að þekkja söguna og geta skilið hvað er í húfi fyrir fólk og fénað fyrir austan. Fjölskyldur sem horfa upp á heimili sitt hyljast svörtu skýi og þungri ösku eiga óskipta samúð okkar og við fyllumst aðdáun á því hvernig menn hjálpast að við hreinsa til, afmá ummerki eldsins og gera klárt fyrir næsta dag og næsta slag. Náttúruöflin hafa þannig kennt okkur að samstaða og samhjálp, þolgæði og bjartsýni sigra mótlæti, sópa burtu sortanum og opna leið fyrir birtuna sem kveikir líf í grasrótinni svo allt geti grænkað á ný.

Þannig bregðumst við við náttúruhamförum en þegar hamfarirnar eru af mannavöldum og viðbúnaðurinn enginn eins og hrunið sem skall á okkur haustið 2008 verða viðbrögðin önnur, eðlilega. Menn misstu vinnu og töpuðu eignum, tækifærum til náms og þroska, sumir jafnvel lönguninni til að taka þátt í að byggja upp nýtt samfélag á rústum hins gamla. Reiði og vonbrigði tóku völdin, eðlilega segi ég aftur, fyrst efnahagskerfið riðaði til falls. Seðlabankinn fór á hausinn, bankarnir hrundu, skuldirnar stökkbreyttust. Tekjur ríkissjóðs féllu á einu bretti, niðurskurður, launalækkun og skattahækkanir blöstu við ofan í kaupið.

Frú forseti. Undir orðræðunni hér í kvöld hefur hugtakið gullfiskaminni leitað á hugann. Mér finnst menn ansi fljótir að gleyma. Eða varð hér kannski ekkert hrun? Er það allt tilbúningur og misskilningur, eitthvað sem Jóhanna og Steingrímur hafa búið til eða almenningur í landinu? Og um hvað var aftur þessi svokallaða rannsóknarskýrsla sem var að þvælast eitthvað fyrir Sjálfstæðisflokknum fyrir örfáum mánuðum?

Hverfum aftur til 2007. Þegar fyrstu fjárlög eftir kosningar litu dagsins ljós boðuðu þau betri tíð með blóm í haga. Nægir peningar í ríkissjóði, 30 milljarða afgangur. Það var stefnt á enn frekari lækkun skatta á hátekjufólk og fyrirtæki á árunum 2008 og 2009 en stórhækkuð notendagjöld fyrir grunnþjónustu. Nýr spítalaskattur var fundinn upp, að ógleymdum áformum um stórfellda einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.

Haustið 2007 bárust líka fréttir af nýju Norðurlandameti, tveir Íslendingar voru hæstlaunuðu stjórnendurnir á Norðurlöndunum gjörvöllum og hafði hvor um sig 800 millj. kr. í árslaun. Aðeins ári síðar var fjárveitingin til Landspítalans ekki skorin niður um 800 milljónir heldur 1.800 milljónir. 6. október 2008 hrundi glansmyndin, góðærið sem hafði byggst á blekkingum og bólu. Gervilífskjörin hurfu.

Aðkoma fyrir nýja ríkisstjórn 2009 var því ekki glæsileg en menn vissu að hverju þeir gengu og voru reiðubúnir að takast á við verkefnið. Það þurfti einfaldlega að byrja á tiltekt eftir veisluna miklu, kertin voru brunnin niður, glösin um koll, stofan rústir einar. Og mörgum finnst ganga hægt en ég verð að segja, frú forseti, að tvö og hálft ár eru ekki svo langur tími til að byggja upp það sem tók 18 ár að rífa niður, sér í lagi þegar hrunverjar hjálpa ekki mikið til en vinna frekar á móti öllu, stóru sem smáu. Þeir hafa valið að berjast á móti endurreisninni vegna þess að hún fer ekki fram á þeirra forsendum, hún tekur mið af almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum.

Góðir landsmenn. Því verður ekki lengur í móti mælt að þrátt fyrir alkul frjálshyggjunnar haustið 2008 er aftur farið að vora í íslensku efnahagslífi og lífsgæðum almennings. Við skulum ekki afneita staðreyndum og við skulum ekki láta blekkjast til þess að rugla saman orsökum og afleiðingu, orsökum hrunsins og afleiðingum hrunsins sem við erum enn að glíma við. Það skiptir máli hverjir stjórna í þessu landi, það skiptir máli hvernig samfélag við byggjum á rústum hins fallna.

Frú forseti. Við stöndum svo sannarlega á tímamótum eins og oft hefur verið bent á í kvöld. Í hálfleik bera liðsmenn venjulega saman bækur sínar og í kvöld, á eldhúsdegi þegar kjörtímabilið er hálfnað, hefur þjóðin fengið að fylgjast með því hér hvernig menn meta frammistöðu sinna manna í fyrri hálfleik og hverju þurfi að breyta í þeim síðari til að ná settu marki. Úr vörn í sókn, heyri ég stjórnarliða segja, og ég tek undir það.

En hvað segir stjórnarandstaðan? Út af með andstæðinginn, það er það sem lagt er til. (Gripið fram í.) Við skulum vera raunsæ en við skulum líka vera sanngjörn. Við höfum margt til að gleðjast yfir en við höfum líka margt til að berjast enn þá fyrir. Og nú þurfum við, vinstri menn innan þings og utan, að snúa bökum saman og nýta síðari hluta þessa kjörtímabils til þess að byggja upp, til þess að treysta velferð og jöfnuð á grunni sjálfbærs atvinnulífs. — Góðar stundir.



[21:45]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Kæru landsmenn. Undanfarna daga hef ég velt fyrir mér hvort við höfum lært eitthvað af hruninu. Ég horfi upp á þá sem bera ábyrgð á þriðja stærsta fjármálahruni sögunnar þvo hendur sínar af allri ábyrgð og bera við einelti og ofsóknum. Þingið sjálft er vanhæft til að taka á þeim veruleika sem blasti við í skýrslu rannsóknarnefndar því að það er ekki nóg að segjast ætla að gera eitthvað, heldur þurfa verk að fylgja orðum. Þjóðin virðist enn á ný ginnkeypt fyrir loforðum um velsæld þó að fjölmargar fjölskyldur hafi glatað öllu sínu vegna ónýtrar stjórnsýslu og vanhæfni ráðamanna fyrr og nú.

Á eftir reiðinni kemur oft afneitun. Mér finnst bæði þing og þjóð vera í þessu afneitunarferli sem og fyrrverandi ráðamenn og fjármálajöfrar. En hvað er til ráða? Ég bar ákveðna von í brjósti þegar hér hrundi allt því að í hamförum eru oft tækifæri til endurnýjunar og gagngerrar uppstokkunar. Mér finnst við ekki mega glata þessu tækifæri til að gera samfélagið okkar betra, breyta um ónýtt kerfi og stjórnsýslu og taka ákvarðanir af hugrekki þjóðinni til heilla.

Mikil átök eru fram undan vegna fiskveiðistjórnarkerfisbreytinga. Mér finnst því eðlilegast að þjóðin fái að kjósa um þær leiðir sem ræddar hafa verið á Alþingi. Mér finnst jafnframt eðlilegt að þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárbreytingar áður en þær fara til meðferðar hér inni. En gleymum ekki að það að breyta stjórnarskrá út frá gildum þjóðar þýðir oft fórnir og umbyltingar kerfis sem ekki lengur þjónar hagsmunum almennings heldur stendur vörð um sig eins og hér er raunin.

Kæru landsmenn. Ég spyr mig oft að því af hverju gott fólk gangi inn í ráðuneyti og umbreytist í eitthvað sem kalla má umskiptinga. Getur verið að þeir sem veita því ráðgjöf hræði það til hlýðni með skelfilegum sögum um málsóknir sem gætu kollvarpað samfélaginu og jafnvel strítt gegn almannahag? Ég veit það ekki, svei mér þá. Ég veit þó að öll stóru orðin sem stjórnarandstaðan svokallaða hverju sinni blæs út í þessum stól virðast koðna niður og verða að ofurlitlu tísti þegar fólk kemst svo til valda.

Þó að þessi ríkisstjórn hafi gert mörg mistök er ljóst að margt gott hefur verið gert og það væri ómaklegt að virða það ekki. Hin stóri sigurvegari umbreytinga er vilji og staðfesta almennings til að fá að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar hagsmuni þjóðarinnar. Ber þar hæst þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og stjórnlagaþing. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að við sem erum hér inni og erum hinir kjörnu fulltrúar til þess að gæta hagsmuna þeirra gerum það best með góðu og þéttu aðhaldi. Því vil ég þakka öllum sem hafa skrifað okkur alþingismönnum bréf, öllum sem hafa staðið fyrir utan þingið og hvatt okkur til að hlusta á sig, öllum sem hafa lagt eitthvað af mörkum til að móta og þróa samfélagið okkar. Ég þakka öllum sem hafa látið sig aðra varða og hvet fólk til að halda áfram að sýna vilja sinn í orði og verki.

Þá finnst mér mikilvægt að benda á þá staðreynd að þingið er endurspeglun þjóðar og að allir þeir sem kusu eiga fullan rétt á að hvetja okkur til góðra og réttlátra verka. Einstaklingar geta breytt mjög miklu ef þeir beita sér í þágu samfélagsins. Ef maður gerir ekki neitt og ætlast til þess að aðrir beri ábyrgð á aðgerðaleysinu er ljóst að maður fær aldrei að upplifa draumasamfélagið sitt.

Enn hefur hrunið ekki verið gert upp. Enn er samþætting fjármálaheims og þingheims of mikil. Enn loðir of mikið af spillingu og sérhagsmunum við þingið og enn vantar mjög mikið upp á gagnsæi og ábyrgð. Enn vantar framtíðarsýn og enn vantar auðmýkt og enn vantar skilning á að það eigi ekki og megi ekki moka yfir fortíðina og láta sem ekkert hafi átt sér stað sem kallar á réttlæti.

Forseti. Fjölmiðlar hafa enn og aftur brugðist og eru orðnir eins og innantómar skeljar sem stunda kranafréttamennsku án allrar gagnrýninnar hugsunar. Það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðla að taka flókna hluti og setja þá í þannig búning að almenningur skilji það sem er í gangi í samfélaginu. Mér hafa fundist samtímafréttir skauta á yfirborðinu og vanta alla dýpt svo fólk geti áttað sig á því hvað gerðist og hvað verður að eiga sér stað svo við getum byggt á traustum grunni úr einhverju öðru en fúnum efnivið þjóðernishyggju og ótta við hið óþekkta. Ég skora því á fjölmiðil allra landsmanna að greiða leið rannsóknarblaðamennsku innan búðar hjá sér og gera því starfsfólki sem kann að kryfja flókna hluti kleift að vinna vinnuna sína og koma niðurstöðunni áleiðis til okkar hinna.

Kæru landsmenn. Ríkisstjórnin hefur oft verið reikul í spori og sýnt af sér fádæma vanhæfni er varðar grunnstoðir samfélags okkar. Að mörgu leyti er það skiljanlegt en mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig hæstv. fjármálaráðherra tókst að láta kúga sig til þess að taka stöðu með vogunarsjóðum í stað þess að slá skjaldborg um heimilin í landinu eins og hann lofaði og er hluti af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Mig langar jafnframt að minna ríkisstjórnina á Magma Energy og þann stóra undirskriftalista sem henni var færður og hefur týnst undir stól einhvers staðar.

Þá langar mig að minna á að það er kraftaverk að hún fái að starfa eftir að hafa margsinnis reynt að kúga ofan í þjóðina Icesave með ógeðfelldum óttaáróðri og hamfaraspám sem hafa ekki gengið eftir. Þjóðin hefur ekki hafnað ykkur enn þá vegna þess að það er ekkert skárra í boði. Það ætti að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að fara nú í það af fyllstu alvöru að berjast með kjafti og klóm fyrir heimilin í landinu og það sem eftir er af velferðarkerfinu okkar. Næsta skref ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera að afnema verðtrygginguna af húsnæðislánum með sama pennastrikinu og notað var til að afnema hana af launum.



[21:51]Útbýting: