139. löggjafarþing — 146. fundur
 9. júní 2011.
stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, 2. umræða.
frv. BVG, 789. mál. — Þskj. 1399, nál. 1601.

[10:32]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt nefndarálit samgöngunefndar um breytingar á lögum nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

Með frumvarpinu er ætlunin að bæta skýrri eignarnámsheimild við lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir þannig að eytt sé öllum vafa um að félög samkvæmt 1. og 2. gr. laganna geti staðið að lagningu Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi austur fyrir Ölfusárbrú að nýjum gatnamótum á núverandi Suðurlandsvegi og lagningu Vesturlandsvegar frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum, lokið við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Víknavegi, ásamt nauðsynlegum undirbúningi, og staðið að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að óvissa ríki um hvort eignarnámsheimild vegalaga sé fullnægjandi grundvöllur til eignarnáms Vegagerðarinnar þegar slíkt eignarnám er gert í þágu framkvæmda á vegum hlutafélaga sem Vegagerðin hefur stofnað eða tekið þátt í að stofna.

Á fundum nefndarinnar var farið yfir málið. Þar var meðal annars bent á að veiting heimilda til eignarnáms vegna vegagerðar byggist á því að samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að landeigendur verði skyldaðir til að láta af hendi land til þess að orðið geti af gerð vega, eins og kveðið er á um í 37. gr. vegalaga. Þeir hagsmunir geta verið staðbundnir að því gefnu að þeir teljist engu að síður almennir. Var einnig vísað til þess að áskilið væri samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að fullar bætur yrðu greiddar til þeirra sem fyrir eignaskerðingu verða vegna eignarnáms. Þá kom fram að eignarnámsheimild frumvarpsins væri hvað framsetningu varðar í efnislegu samræmi við margar eignarnámsheimildir gildandi laga.

Nefndin bendir á að þær framkvæmdir sem vísað er til í 1. mgr. 1. gr. laganna eru allt framkvæmdir sem hafa um nokkurn tíma verið til umræðu í þjóðfélaginu. Er það mat nefndarinnar að slíkar framkvæmdir hafi í för með sér aukið umferðaröryggi, aukna hagkvæmni og skilvirkni samgangna, styttri ferðatíma, lægri flutningskostnað og jöfnun aðstöðu íbúa byggðarlaga. Þá munu slíkar framkvæmdir efla byggðir landsins og tengja saman aðskilin atvinnu- og þjónustusvæði.

Nefndin telur rétt að tekinn sé af allur vafi um að eignarnám vegna framkvæmda samkvæmt lögum þessum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir geti átt sér stað til samræmis við ákvæði vegalaga og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason, Árni Johnsen og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls, en auk þess sem hér talar skrifuðu undir þetta nefndarálit hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.

Eins og kom fram í máli mínu varð málið fullrætt í samgöngunefnd og samstaða var um að afgreiða það út úr nefndinni með þeim hætti sem kemur fram í nefndarálitinu. Ég sé því ekki ástæðu til að vísa því aftur til nefndar.



[10:35]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir þessa framsögu. Af því að ég sit ekki í samgöngunefnd langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður meti það sem svo að sú þróun sem verður varðandi allar meiri háttar samgönguframkvæmdir — ég er svolítið að fara út á hálan ís, ég er hrædd um að ef ég fer að ræða þetta mál og Vaðlaheiðargöng verði ég strax stimpluð þannig að ég sé á móti þeirri framkvæmd. Ég vil taka fram að svo er alls ekki. Mér þykir mikilvægt að fara af stað með framkvæmdastigið í landinu og þar höfum við allt of mikið dregið lappirnar.

Ég spyr hins vegar hv. þingmann hvort hann meti það sem svo að við séum að varða leið til nýs fyrirkomulags. Er það þannig að Vegagerðin fer af stað og stofnar hlutafélag um allar helstu vegaframkvæmdir, kannski til þess að sneiða fram hjá þunglamalegum reglum annars staðar? Hvernig sér hv. þingmaður þróunina hvað þetta varðar? Er þetta þá það fyrirkomulag sem við munum sjá í auknum mæli til að ýta af stað öðrum framkvæmdum?

Í öðru lagi langar mig að forvitnast um það hvort nefndin hafi sent þetta mál til umfjöllunar og leitað eftir umsögnum hjá öðrum aðilum en eingöngu Vegagerðinni. Hvaða álit voru það þá? Ekki síst er ég með í huga hvort það sé rétt leið að koma inn svona eignarnámsheimild með tilliti til eignarréttar og réttar landeigenda. Fjölluðu aðrir aðilar um þetta en Vegagerðin og hvaða einstaklingar mættu þá á fund nefndarinnar út af þessu máli?



[10:38]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég skil hv. þingmann rétt. Er hv. þingmaður að spyrja hvort það sé rétt leið að setja eignarnámsheimildir í lög eða hvort það sé rétt leið (Gripið fram í.) — í vegagerð? (ÞKG: Já.) Framkvæmd vegagerðar, já, það er kannski annað mál og ekki til umræðu í þessu nefndaráliti og þessu frumvarpi. Hér er ekki verið að fjalla um vegaframkvæmdir eða hvernig eigi að standa að þeim heldur er hér fjallað um eignarnámsheimildir til vegaframkvæmda. Það er í sjálfu sér ekki ný þróun heldur eru tugir ef ekki hundruð slíkra heimilda í lögum fyrri tíðar þannig að það er ekki verið að feta inn á neinar nýjar brautir í því, hvorki varðandi vegaframkvæmdir né aðrar framkvæmdir, að sérstakar eignarnámsheimildir séu settar í lög. Síðustu dæmi um sambærilegar framkvæmdir eru framkvæmdir við jarðgöng undir Hvalfjörð og fleira slíkt á undanförnum árum þar sem sett voru inn í lög sem gilda um slíkar framkvæmdir nákvæmlega sambærileg ákvæði og hér er lagt til að gera.

Varðandi aðra álitsgjafa en fulltrúa Vegagerðarinnar sem komu á þennan fund taldi nefndin ekki ástæðu til að kalla til frekari álitsgjafa. Það komst til tals að kalla til fundarins umboðsmann Alþingis og athuga hvaða afstöðu hann hefði til þess þegar eignarnámsheimildir væru settar inn í lög sem þegar hefðu tekið gildi. Umboðsmaður sagði að það væri utan síns verksviðs að mæta til samgöngunefndar með slíkar álitsgjafir og samgöngunefnd taldi ekki ástæðu til að kalla eftir öðrum gestum. Það komu engar uppástungur um slíkt, heldur ræddi nefndin þetta eingöngu sín á milli og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyllilega í samræmi við það sem áður hefur verið gert og væri nauðsynlegt að gera í sambandi (Forseti hringir.) við breytingar á núgildandi lögum um framkvæmdir.



[10:40]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir situr þá spurningin: Af hverju er verið að breyta lögunum fyrst þetta hefur verið gert svona fram til þessa og er algjörlega sambærilegt við það sem áður hefur verið gert? Ég var einfaldlega að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sæi þetta í auknum mæli þannig að Vegagerðin færi í að stofna hlutafélag og færi þá þessa leið varðandi það að koma til móts við stórtækar samgönguframkvæmdir eins og Vaðlaheiðargöng eru hugsanlega, Sundabraut líka o.fl.

Mér hefur borist til eyrna að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason, þingmenn í samgöngunefnd, hafi verið frekar andsnúin þessu máli. Er það rétt og þá á hvaða forsendum? Hvaða röksemdir settu fram þeir þingmenn sem hafa verið frekar andsnúnir þessu máli en fylgjandi? Getur hv. þingmaður upplýst um þær umræður sem hafa átt sér stað innan samgöngunefndar? Um leið og ég þakka fyrir svarið um þá aðila sem komu á fund nefndarinnar finnst mér miður að menn hafi ekki farið víðtækara yfir það að fara þessa leið og fá álit fleira fólks. Mér þætti vænt um ef það væri hægt að greina frá umræðum innan nefndarinnar um þetta mál og hvort skiptar skoðanir hafi verið um það. Hvaða sjónarmið voru þá uppi af hálfu þeirra þingmanna sem gátu ekki fallist á þessa leið?



[10:41]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég útskýrði áðan með vísan í nefndarálit út af hverju væri verið að bæta þessari heimild inn í núgildandi lög. Það er til þess að taka af allan vafa um heimild til eignarnáms, rétt eins og var með Hvalfjarðargöng og fleiri framkvæmdir, ekki eingöngu í vegagerð heldur varðandi skipulagsmál og fleira slíkt. Þegar Vegagerðin er í samstarfi við aðra aðila er talið rétt að taka af allan vafa um að eignarnámsheimild sé fyrir hendi. Við í samgöngunefnd töldum rétt að taka af þann vafa og þess vegna er lagt til að þetta verði gert svona.

Það voru auðvitað skiptar skoðanir innan nefndarinnar eins og kom fram í nefndarálitinu. Umræðan í nefndinni endurspeglast í því sem kemur fram í nefndaráliti. Ég læt einstöku nefndarmönnum eftir að útskýra sín sjónarmið. Ég útskýrði hér niðurstöðu þeirra samgöngunefndarmanna sem skrifa undir nefndarálitið en biðst undan því að túlka í þessum ræðustóli skoðanir annarra á þessu máli. Einhverjir þeirra eru í þessum þingsal og geta eflaust gert grein fyrir máli sínu á eftir ef þeir telja ástæðu til þess.



[10:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason, sem er varaformaður fjárlaganefndar, hvort sú stefna að einkavæða ríkisvaldið, með því að stofna hlutafélög utan um stofnkostnað í ríkisframkvæmdum, sé stefna Vinstri grænna, að fela útgjöld ríkisins fyrir skattgreiðendum þannig að svo virðist vera sem vissar framkvæmdir — ég minni á Álftaneslaugina — detti af himnum ofan og enginn borgi þær, en að sjálfsögðu kemur það í bakið á mönnum fyrr eða síðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort til greina komi að gera það sama með menntakerfið. Reiknað er með að það kosti milljón kr. á ári að hafa nemanda í skóla og þá sé bara stofnað um kostnaðinn hlutafélag — hlutafélag um framhaldsskólana, hlutafélag um háskólana o.s.frv. og allar framkvæmdir og þá er bara allur kostnaðurinn farinn hjá ríkissjóði, allur stofnkostnaðurinn farinn. Er þetta stefnan? Mér sýnist nefnilega að menn séu á leiðinni út í það hér. Svo ætla menn auk þess að veita þessum hlutafélögum, í gegnum Vegagerðina, heimild til að fara í eignarnám, sem er mjög alvarlegur hlutur og kemur inn á réttindi einstaklinga o.s.frv., varðar eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það á sem sagt að fara að veita Vegagerðinni það mikla vald og hún framselur það væntanlega eða setur það í hluta af samningum við einhver hlutafélög.

Ég dáist að dýrkun hv. þingmanns á hlutafélögum og einkavæðingu.



[10:45]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er upp með mér af aðdáun hv. þingmanns í minn garð og þakka fyrir það.

Ég held að spurningar hv. þingmanns séu á misskilningi byggðar. Það er ekkert í lögum 97/2010 sem heimilar útgjöld ríkissjóðs til þessara framkvæmda. Það er einfaldlega þannig. Lögin heimila ekki frekari útgjöld úr ríkissjóði. Þessar framkvæmdir eiga að standa undir sér með gjaldtöku. Þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín, hvort ég væri þeirrar skoðunar að fara ætti þá leið að fela útgjöld fyrir skattgreiðendum, svara ég því á þann veg að ég er alls ekki á þeirri skoðun, langt frá því. Enda snýst þetta lagafrumvarp ekki um það, hvorki það frumvarp sem ég hef flutt í dag, og samgöngunefnd er einhuga um að verði samþykkt, né þau lög sem það frumvarp sem við ræðum hér snýr að breytingum á, þ.e. 97/2010.

Þetta var talsvert rætt á sínum tíma þegar lögin voru samþykkt hér í fyrra af þinginu, af þingmönnum allra flokka ef ég man rétt, þverpólitísk samstaða um það. Það var talsvert rætt um það. Þá var einhugur um það hér á þinginu. Það var einhugur í samgöngunefnd á þeim tíma og fullur skilningur á málinu rétt eins og kom fram í nefndaráliti þá að framkvæmdir þessar yrðu greiddar með gjaldtöku, ekki með úthlutun ríkissjóðs. Ástæðan fyrir því er sú að ríkissjóður á ekki peninga fyrir þeim útgjöldum sem verið er að fara í. Þetta eru viðbótarframkvæmdir. Þetta eru sértækar framkvæmdir umfram útgjöld úr ríkissjóði. Það er eini möguleiki okkar til að fara í þær framkvæmdir, hvort sem þær eru norðan heiða eða sunnan, að gera það með þessum hætti. Það var undirstrikað af meiri hluta samgöngunefndar sem var allur sammála samþykkt þeirra laga sem voru samþykkt í fyrra og þann skilning sinn á málinu undirstrikuðu þingmenn allra flokka í umræðum um málið síðasta sumar.



[10:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi einhug samgöngunefndar til þessa máls þá eru það fimm af níu sem skrifa undir nefndarálitið, aðrir voru fjarverandi og einn af þessum fimm skrifaði undir með fyrirvara. Þvílíkur er einhugurinn. (Gripið fram í.) Líka þetta, hann sagði þetta væri afgreitt úr nefndinni. Jæja, ókei, ég ætla ekki að vera að ræða við þingmanninn hér, hann getur bara komið í ræðu. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur komið í ræðu og sagt það.

Veggjöld eru eins konar skattur. Hingað til hafa menn á Íslandi getað keyrt ókeypis um vegi nema í gegnum göngin undir Hvalfjörð. (Gripið fram í: Keflavíkurveginn í gamla daga …) Keflavíkurvegurinn í gamla daga, það var líka skattur. Þannig að það þarf að setja lög um veggjöld til þess að það sé heimilt og það er skattur sem ríkið leggur á til að fjármagna þessar framkvæmdir.

Það hefur hingað til verið hlutverk ríkisins að sjá um vegaframkvæmdir um landið. Það má vel vera að það sé heimsmynd hv. þingmanns að breyta því eins og öðru, það mætti til dæmis einkavæða menntakerfið, heilbrigðiskerfið o.s.frv. til að það sjáist ekki í reikningum ríkisins að farið sé í framkvæmdir sem peningar voru ekki til fyrir eins og hv. þingmaður sagði. Það er nefnilega ríkisábyrgð á þessu öllu saman meira og minna. Ef einhver fjármálaráðherra vill í framtíðinni hætta við veggjöldin þá verður hann engu að síður að borga, það er nefnilega skuldbinding í þessu. Ég minni á það að Harpan, hin fína, er hvergi á fjárlögum, hún bara datt af himnum ofan. Það borgaði þetta enginn.



[10:49]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegu forseti. Ég mundi nú hvetja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að undirbúa málþóf sitt betur en hér er gert, því að hér er verið að ræða um allt annað mál. Hv. þm. Pétur Blöndal er að ræða um allt annað mál en er til umræðu. Til umræðu er frumvarp um breytingar á lögum til að heimila eignarnám samkvæmt framkvæmdum sem voru ákveðnar á þinginu síðasta sumar. Ekki er verið að ræða um vegaframkvæmdir. Ekki er verið að ræða um nýjar framkvæmdir með neinum hætti.

Hv. þingmaður spyr mig hvort það sé mín heimsmynd að það sé ekki lengur hlutverk ríkisins að sjá um vegakerfið og leggja vegi um landið. Sú heimsmynd er ekki mín. Sú heimsmynd er hins vegar hv. þingmanns sem spurði þessarar spurningar. En það er afleiðing þeirrar heimsmyndar og hvernig henni var hrint í framkvæmd sem neyðir okkur til að fara þá leið sem hér var farin, vegna þess að ríkissjóður er ekki í stakk búinn til að fara í vegaframkvæmdir eins og ríkinu ber að gera og ríkið á að gera og á að vera hlutverk ríkisins. Þannig er nú komið fyrir íslenska ríkinu í dag og menn geta síðan velt því fyrir sér hvers vegna svo er.

Hér er verið að ræða frumvarp, breytingar á lögum, frumvarp sem snýr að eignarnámsheimild og engu öðru. Ég hef ekki heyrt það, það hefur þá farið fram hjá mér, ég reyndi að punkta helstu atriði í andsvari hv. þingmanns niður á blað hjá mér, en hann hefur ekki enn þá nefnt þetta frumvarp á nafn sem þó er hér til umræðu. Ég hvet því hv. þingmann til að fara hér í ræðu á eftir og ræða um málið sem er á dagskrá og hvet forseta líka til að sjá til þess að menn ræði dagskrárliðina en ekki annað.



[10:51]Útbýting:

[10:51]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi þeirrar orðræðu sem var hér áðan verður að viðurkennast að það er kannski ekki beint til að liðka fyrir þingstörfum að ekki skuli vera hægt að upplýsa nægilega vel hvaða umræða átti sér stað í samgöngunefnd um þetta mál. Það liggur ljóst fyrir að ákveðnir þingmenn höfðu aðrar skoðanir, og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti á að það þyrfti einfaldlega að spyrja þá. Því mælist ég til þess að þeir þingmenn sem um ræðir, eða hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem er þingflokksformaður Samfylkingarinnar, komi hér til þess að gera grein fyrir þeim ólíku sjónarmiðum sem hafa greinilega komið upp innan samgöngunefndar. Mér þætti vænt um að þetta verði rætt hér án þess að menn fari í einhvern vígahug.

Hvað má ekki ræða? Af hverju má ekki ræða þessi mál og fara yfir skoðanir sem við vitum að eru skiptar og blendnar? Ég sit ekki í samgöngunefnd. Ég vil gjarnan fá upplýst hvaða (Forseti hringir.) umræða hafi átt sér stað innan samgöngunefndar. Þess vegna fer ég þess á leit við hæstv. forseta að þingflokksformaður Samfylkingarinnar verði boðaður hingað í þingsal.



[10:53]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir krafðist þess að fá að vita um afstöðu annarra en þeirra sem hér hafa talað. Ég flutti nefndarálit samgöngunefndar. Það er ekkert minnihlutaálit frá samgöngunefnd varðandi þetta mál. Það er ekkert annað nefndarálit frá samgöngunefnd í þessu máli. Það er bara eitt nefndarálit. Í nefndarálitinu endurspeglast sú umræða sem fór fram og hvers vegna nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að samþykkja beri frumvarpið.

Hv. þingmaður hefur hins vegar ekki enn lýst skoðun sinni á frumvarpinu. Hver er skoðun hv. þingmanns á því frumvarpi sem hér er verið að ræða? Áður en hv. þingmaður fer að krefja aðra um skoðun á þessu máli hvet ég hv. þingmann til að koma umsvifalaust í ræðu og lýsa sinni eigin skoðun á frumvarpinu sem er á dagskrá.



[10:54]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti hvetur hv. þingmenn um að halda nú ró sinni ef svo má segja. Lýst er eftir skoðunum og því leggur forseti til að haldið verði áfram eftir mælendaskrá þannig að skoðanir hv. þingmanna geti komið fram. Gerir hv. þingmaður athugasemd við það? (ÞKG: Ég vil fá að ræða áfram fundarstjórn forseta.)



[10:54]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér eru allir pollrólegir. En ég hef engu að síður óskað eftir nærveru einhverra af hálfu Samfylkingarinnar hér í þingsal, og þetta snertir að sjálfsögðu fundarstjórn forseta, til að fara yfir þær ólíku skoðanir sem greinilega hafa verið í nefndinni og eru á milli manna út af þessu máli. Hvað mína skoðun varðar mun ég að sjálfsögðu gera grein fyrir henni í ræðu og það er meira en hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn hafa gert í þeim stóru málum sem við höfum verið með til umfjöllunar. Við fáum bara að heyra um það í fjölmiðlum hverjar eru skoðanir hæstv. forsætisráðherra á útgerðarmönnum og sjávarútveginum öllum. En forsætisráðherra getur ekki komið hingað í þingsal og rætt þau mál hér.

Ég mun fara yfir skoðanir mínar á þessu máli og jafnvel á ýmsum öðrum málum sem tengjast (Forseti hringir.) samgöngumálum og stórum framkvæmdum.



[10:55]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti hefur hlustað á óskir hv. þingmanns og mun koma þeim til viðkomandi aðila.



[10:56]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til að bregðast við því að komið hefur upp óvissa um hvort heimilt sé fyrir einkahlutafélag að beita eignarnámsheimild þó svo að það sé í eigu Vegagerðarinnar. Til að taka af alla óvissu um það er frumvarp þetta flutt af hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Slík heimild var ekki í upprunalegu lögunum sem voru samþykkt þegar ákveðið var að fara í þá vegferð að stofna hlutafélag um þessar framkvæmdir.

Ég verð þó aðeins að bregðast við þeirri umræðu sem fór fram hér á undan áður en ég fjalla efnislega um þetta mál og það er ekkert skrýtið þó að menn staldri aðeins við það sem á undan er gengið. Þegar frumvörpin voru samþykkt í desember um að stofna tvö einkahlutafélög um tvær framkvæmdir, annars vegar þá sem átti að vera um Vaðlaheiðargöngin og hins vegar þá sem átti að vera um Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og Suðurlandsveg, sem átti að vera sér hlutafélag, var lagt upp með það að lífeyrissjóðirnir mundu fjármagna verkefnið. Það upplegg byrjaði með stöðugleikasáttmálanum sem var reyndar farinn út um þúfur þegar þetta gerðist en þá var uppleggið að gera þetta með þeim hætti. Síðan í mikilli panik við afgreiðslu fjárlaga í desember, á síðustu stigum þeirrar umræðu, kom í ljós að slitnað hafði upp úr verkefninu á milli ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna. Það hafði verið skipuð sérstök samninganefnd eða viðtalsnefnd sem átti að semja um þetta við lífeyrissjóðina og fyrir henni fór hv. þm. Kristján Möller fyrir hönd hæstv. innanríkisráðherra. Skýringarnar sem komu voru engar. Af hverju féllu lífeyrissjóðirnir frá þessu verkefni? Þeir féllu frá því vegna þess að verkefnið var ekki nægilega sterkt að þeirra mati eða forsendur þess ekki nægilega sterkar. Var það vegna ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna á því fjármagni sem þurfti að nota í þessar framkvæmdir? Við fengum engin svör við því. Það var bara hent inn 6 milljörðum til að setja í hlutafélögin sem framlag ríkisins vegna þess að þetta hefði dottið upp fyrir.

Það sem mér hefur fundist mjög sérkennilegt í allri þessari umræðu er að ef ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna hefur verið of há að mati þeirra sem voru að semja fyrir hönd ríkisins, það getur vel verið að svo sé, (Gripið fram í.) ég veit það ekki alveg og þá spyr ég þeirrar spurningar: Þegar ríkið gefur út ríkisskuldabréf, hverjir kaupa þá þau skuldabréf? Það eru að sjálfsögðu lífeyrissjóðirnir. Ef ríkið leggur peninga í hlutafélagið til að fjármagna verkefnið og ef ávöxtunakrafan er ekki nægjanleg af hálfu lífeyrissjóðanna er niðurstaðan sú sama að mínu viti vegna þess að þá verður ríkið bara að gefa út skuldabréfið, (Gripið fram í.) sjálft ríkisskuldabréfið sem lífeyrissjóðirnir mundu kaupa. Ég hef ekki fengið botn í þetta og hef haft efasemdir um þetta og það er líka mjög óþægilegt í svona umræðu að fá ekki alveg skýr svör við ástæðunni.

Síðan þarf ég ekki að rifja það upp að mjög margir hafa gert athugasemdir við hugmyndir um veggjöld og kostnaðinn við að gera þessi mannvirki og setja mjög mikla fyrirvara við það. Þar fer fremst í flokki FÍB. Reyndar er það svo að sumir hv. þingmenn í samgöngunefnd hafa lýst andstöðu sinni við þetta mál og sagt að þeir telji að skoða þurfi málið miklu betur áður en af stað er farið.

Ég vil líka rifja upp, af því hv. þm. Björn Valur Gíslason gerir athugasemdir við að menn séu að ræða þetta hér og eigi að ræða bara nákvæmlega eignarnámsheimildina, og segja að þegar málið kom fyrst inn í þingið og fjallað var um það í samgöngunefnd var það með þeim hætti, eins og ég sagði, að það átti að stofna tvö hlutafélög. Fyrst átti reyndar að stofna eitt en síðan var ákveðið að stofna tvö og hver var ástæðan fyrir því? Hún var sú að í tilfelli Vaðlaheiðarganganna, þeirri vegaframkvæmd sem átti að fara fram þar, þyrftu hugsanlega að vera ákveðin skuggagjöld sem kallað er. Á fundum nefndarinnar með heimamönnum kom fram að þeir teldu að eðlilegt að greiða kannski 700–900 kr. eða u.þ.b. 800 kr. í gjald og ef það ætti að standa undir göngunum og gerð þeirra í ákveðinn tíma sem settur yrði upp gæti gjaldið hugsanlega þurft að vera hærra og þá gætu verið ákveðin skuggagjöld.

Það var ákveðin umræða um þetta í samgöngunefnd og þá varð niðurstaðan sú að það gæti verið eðlilegt að gera þetta með þessum hætti á þessu svæði en þá yrði tekið tillit til þess í vegafé þess fjórðungs, þ.e. Norðausturkjördæmis. Þannig var þetta rætt. Síðan var tekin ákvörðun um að stofna eitt hlutafélag til að fara í þrjár vegaframkvæmdir á Suðvesturhorninu; Vesturlandsveg, Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Hver var ástæðan fyrir því? Hún var sú að ef menn ætluðu að fara í þessar framkvæmdir væri eðlilegt að setja skatt á þær leiðir. Við vitum öll að það sem er verið að gera hér er að fjármagna á verkið með notendagjöldum. Það er bara nákvæmlega þannig. Þetta er sérstakur skattur á þær framkvæmdir sem hér er um að ræða. Þannig var sú umræða og þannig var samþykkt þingsins. Það er ekki flóknara en það.

Svo hafa menn haft alls konar skoðanir og efasemdir um það eftir á en það var hins vegar alveg skýrt allan tímann í mínum huga. Ég var mjög lengi að fást til að fara þessa leið vegna þess að við erum að skattleggja umferðina með öðrum hætti, þ.e. með því að taka bensíngjöld og álögur í gegnum það, og þetta er sérstakur skattur á þessar þrjár brautir og líka á Vaðlaheiðargöngin.

Þegar lagt var af stað sögðu menn að þessi verkefni, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, Reykjanesbraut, ættu að bera sama skatt og ástæðan fyrir því var sú að þetta væru stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu. Og ekki nóg með það, þær eru nefnilega mislangt á veg komnar. Það kostar mismikið að klára hverja framkvæmd fyrir sig. Það væri því ákveðið réttlætismál að þessar stofnbrautir yrðu allar í einu félagi og allir sem um þær ferðuðust þyrftu að greiða sama gjaldið. Þá var talað um 160–180 kr. gjald. (Gripið fram í.) Menn ræddu þetta út frá þeim forsendum. Síðan hafa komið fram alls kyns upplýsingar, bæði réttar og rangar og blásnar upp. Ég er því ekkert hissa á að margir hv. þingmenn og sérstaklega þeir sem eiga ekki sæti í hv. samgöngunefnd séu dálítið á reiki í málinu. Við sáum hér hugmyndir um að það þyrfti að vera allt upp í 700 kr. og þar fram eftir götunum. Ég hef fullan skilning á því að margir staldri við og spyrji sig hvort við þurfum við ekki að skoða þetta aðeins betur í því ljósi sem ég rakti hér á undan, því að þegar farið var af stað með frumvörpin, eins og ég rakti í máli mínu, voru forsendurnar með allt öðrum hætti. Í fyrsta lagi hvernig ætti að fjármagna verkin og í öðru lagi notendagjöldin og í hvaða mæli þau ættu að vera.

Hins vegar er það svo og á því leikur enginn vafi að það er samþykkt þingsins hvort menn setja þá eignarnámsheimild sem hér er, og ég tel reyndar persónulega að ef menn ætla að halda áfram með verkefnið í heild sinni og standa að baki því verði menn að standa að þessari aðgerð hér. Öðruvísi eru menn bara að skjóta sér til hliðar og vilja ekki taka þátt í og kannast við það sem búið er að gera. Það vil ég forðast í lengstu lög, alla vega persónulega. Mér finnst þetta verkefni fjalla um það.

Aðeins líka um það sem verið er að gera hér. Ég er með fyrirvara á þessu máli og hann snýr kannski fyrst og fremst að tvennu. Í fyrsta lagi: Af hverju var þetta ekki nægilega tryggt í upprunalegu lögunum, af hverju yfirsást mönnum þetta? Ég spyr að því. Er það ráðuneytið eða fékk ráðuneytið ábendingu frá Vegagerðinni? Var æskilegt að gera þetta með þessum hætti? Ég tel að það hefði átt að vinna málið betur. Það hefði ekki þurft að leggja það á hv. þingmann og formann samgöngunefndar, Björn Val Gíslason, að flytja sérstakt frumvarp um þetta mál, sem hann er að gera. En ef menn vilja klára málið með eðlilegum hætti og það kemur fram í nefndarálitinu og umfjöllun nefndarinnar að það ríkir ákveðin óvissa um málið — það er ekki fullyrðing að svo sé en það ríkir mikil óvissa og það er ástæðan fyrir því og maður mundi frekar halda að menn teldu meiri þörf en minni að hafa þetta inni.

Það er þá líka verið að taka af allan vafa um að þetta félag hafi eignarnámsheimildina. Þá kem ég að því sem mér þykir reyndar líka dálítið óþægilegt og það er að framkvæmdin er ekki farin af stað, í sjálfu sér byrjað að leggja veginn, en það eru hins vegar hafnar viðræður við landeigendur. Menn hafa sest niður af hálfu þessa hlutafélags og reynt að semja við landeigendur um að ákveðið land þurfi að fara undir þessa vegagerð. Það kemur kannski ekki á óvart þó að það sé oft með þeim hætti að þar skilji himinn og haf á milli eins og sagt er, þ.e. að landeigendur telja landið sem þeir þurfa að láta af hendi til verkefnisins margfalt meira virði en það sem þeir sem fara fyrir hönd hlutafélagsins telja. Þá kemur spurningin sem ég get ekki svarað persónulega en hef ákveðna fyrirvara við þar sem ég er ekki löglærður maður en truflar mig: Erum við að grípa inn í eftir að ferlið hófst? Er eðlilegt að löggjafinn grípi inn í eftir á? Ég átta mig ekki alveg á því, ég viðurkenni það bara. Hefur það áhrif eftir að viðræðurnar eru hafnar eins og ef við hefðum gert þetta á fyrri stigum áður en stjórn hlutafélagsins settist niður með landeigendum og fór að semja um verð á landinu sem á að taka undir framkvæmdina? Þetta er nokkuð sem ég átta mig ekki á hvort er með óeðlilegum hætti. Þess vegna er ég með fyrirvara.

Til að undirstrika það líka að þó að þetta félag fái heimild til eignarnáms er heimildin byggð á því að það verður að fara í gang og fer í gang nákvæmlega sama ferli og þegar Vegagerðin beitir eignarnámsheimildinni sem slíkri, þ.e. Vegagerðin sjálf. Það fara af stað ákveðnar samningaviðræður sem taka ákveðinn tíma og ef menn stranda í þeim og komast ekki lengra á þeim punkti eru kallaðir til dómkvaddir óháðir matsmenn sem fara yfir stöðuna og meta hvað er eðlilegt virði. Þetta eru óháðir aðilar. Þetta er bara eins og ferlið er í dag að gera þetta með þessum hætti. Það er enginn vafi um það. Ef Vegagerðin væri að fara í þessar framkvæmdir sjálf væri þetta með þeim hætti.

Það kom hins vegar mjög skýrt fram núna í meðförum nefndarinnar á þessu máli, og hv. þm. Björn Valur Gíslason svaraði því mjög afgerandi áðan í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal, að eins og málið er uppbyggt í dag sé ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður setji neitt fjármagn í verkefnið. En við skulum vera alveg meðvituð um það, a.m.k. er ég það, að ef verkefnið fer illa eftir einhvern ákveðinn tíma eru þarna ábyrgðir sem sannarlega munu lenda á ríkissjóði að mínu mati. Við komumst ekki hjá því. Gangi verkefnið ekki upp, segjum að fimm árum eftir að það fer af stað bresti grundvöllurinn vegna þess að umferð hefur fallið eða einhverra hluta vegna hafi þurft að hækka gjaldið of mikið, þá er tvennt að gera, annaðhvort þarf ríkissjóður að greiða niður gjaldið eins og rætt var í upprunalegum hugmyndum og hafa hugsanlegt skuggagjald eins og er fyrirmynd að til að mynda á mörgum stöðum í Noregi, ellegar að yfirtaka verkefnið. Það þýðir að mínu viti að ef menn setja af stað eitthvert verkefni eins og í þessu tilfelli veglagningu gegnum Vaðlaheiðargöng og ekki reynist sá grunnur undir því sem talinn var, það þarf ákveðna umferð til að ná því, verður ríkið auðvitað að yfirtaka hlutafélagið eða þann hluta sem er þar fyrir utan. Þó að í upprunalegu hugmyndunum sé það alveg klárt og kvitt að þetta sé ekki með þeim hætti að við setjum inn peninga í upphafi er þetta sem ég er að segja hér klárlega með þessum hætti að mínu mati .

Síðan langar mig örstutt í lokin á ræðu minni að fara aðeins yfir það að þegar við fórum af stað með þessar einkaframkvæmdir vissum við alveg hvernig þetta var, við þurfum ekki að tala neitt í kringum það. Það er bara vegna þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði og menn vita að ríkiskassinn er tómur, það þarf ekki að halda langar ræður um það. Getan til að vera í framkvæmdum er metin og samgönguáætlun gerir ráð fyrir því á næstu þremur árum að vera með í kringum 7 milljarða, það byrjar á 7,5 milljörðum og svo var búið að ráðstafa af því árinu á undan þannig að við erum að tala um 6 til 6,5 milljarða í nýframkvæmdir á hverju ári næstu þrjú árin, 2010, 2011 og 2012, reyndar er eitt árið liðið. En þessi framkvæmd eru sérlög. Ef þetta væri öðruvísi væri þetta ekki gert með þessum hætti. Við værum ekki að setja sérlög um þetta verkefni heldur að fjármagna það með öðrum hætti, þá væri þetta verkefni bara í samgönguáætlun. Það þarf engar kúnstir í kringum það.

Það er mjög mikilvægt og ég ætla að ítreka það líka að mér finnst að margir hv. þingmenn hafi verið að segja í umræðunni svona eftir á: Ég skildi þetta ekki þannig að þetta væri einhver sérstakur skattur eða sérstök gjöld, þetta ætti bara að falla inn í heildarmyndina. En það er ekki þannig. Það er alveg skýrt og ég fór mjög vel yfir það í ræðum mínum að þegar til þessa verkefnis var stofnað var alla tíð talað um að þetta yrði sérstakur skattur, rétt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan. Þetta er sérstakur skattur. Það er ekki verið að tala um að draga úr skattlagningu í eldsneytisverði eða neinu á móti þessu. Það var alltaf talað um þetta, þó að menn væru með hálfruglingslega umræðu um að eftir ákveðinn tíma yrði farið að innheimta með GPS-tækjum og þar fram eftir götunum, eins og gert er sums staðar, sem hefði þó ekki orðið fyrr en árið 2015, þá var alltaf talað alveg skýrt um að þessar framkvæmdir í einkahlutafélögunum yrðu alveg sér aflokaðar þegar málið var sett upp, algjörlega. Síðan geta menn auðvitað seinna, það getur enginn tekið löggjöfina af þinginu en á þeim þingum sem koma á eftir geta menn breytt því og sagt að nú vilji þingið greiða inn í þetta til að lækka gjöldin eða þar fram eftir götunum. Það er bara pólitísk ákvörðun á hverjum tíma. En svona var málið sett upp. Mér hefur hins vegar oft og tíðum fundist í umræðum um þetta mál að margir hafi verið að reyna að gera dálítið úr því að þeir hafi ekki skilið þetta alveg svona, og þó að við hæstv. innanríkisráðherra séum ekki oft sammála er það alveg klárt að svona var málið sett upp þannig að það fór ekkert á milli mála hvernig þetta yrði gert.

Síðan geta menn talað um réttlætið í því hvort eðlilegt sé að skattleggja suma veglagningu en ekki aðra — það er allt önnur umræða — hvort það sé eðlilegt að fólk sem býr á þéttbýlissvæðunum og greiðir mestu bensíngjöldin þurfi að borga sérstaklega fyrir það og hvaða áhrif þetta hafi á byggðina til að mynda á Selfossi, í Reykjanesbæ, í Borgarnesi eða á Akranesi þar sem fólk er kannski á einu atvinnusvæði. Margt fólk sem býr jafnvel á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn eða í þessum ramma sem ég nefndi vinnur á stór-Reykjavíkursvæðinu og öfugt. Þá er líka mjög mikilvægt að menn geri sé grein fyrir því, og það kom ekki á óvart, að einmitt þessir aðilar gerðu athugasemdir við þetta vegna þess að þetta kostar stórfé. Fólk sem var búið að setja sig niður þarna sagði: Ég keypti mér ódýrara húsnæði, hugsanlega í Reykjanesbæ, á Selfossi, á Akranesi eða á þessum stöðum, til að geta haldið áfram að vinna í Reykjavík, þar hef ég vinnu, en þetta setur strik í þann reikning. Það er mjög réttlát gagnrýni að koma því á framfæri að þetta sé með þeim hætti. En þannig var þetta alltaf sett upp og þannig verðum við að kannast við það en reyna ekki að hlaupa frá því. Eftir situr þetta.

Mér finnst ekki maklegt eða mér finnst ekki rétt af hv. þingmanni og formanni samgöngunefndar, Birni Vali Gíslasyni, að gera athugasemdir við það þó að menn vilji ekki ræða nákvæmlega þessa einu grein um að það eigi að fara að setja eignarnámsheimild inn, vegna þess að frá því að málið var samþykkt í þinginu upphaflega hefur margt breyst, mjög margt, og margt af því hefur ekki komið nógu skýrt fram í umræðunni í þinginu. Sérstaklega, eins og ég ítrekaði, finnst mér ekki óeðlilegt að þeir hv. þingmenn sem eiga ekki sæti í samgöngunefnd kalli eftir þeim breytum sem þarna eru að verða og vilji reyna að skilja málið betur, því að það er mikilvægast þegar við fjöllum um þessi mál og setjum lög að við séum algjörlega meðvituð um hvað við erum að gera. Mér finnst eftir á að hyggja þegar menn hafa verið að ræða það sem gert var í upphafi við stofnun þessara hlutafélaga hafi menn reynt að skauta einhvern veginn fram hjá því og sagt að þeir skilji þetta ekki með nákvæmlega sama hætti og lögin voru samþykkt og umræðan fór fram í þinginu, en í ræðum mínum benti ég á og fór alveg sérstaklega yfir alla þessa þætti sem ég hef nefnt, þannig að öllum sem hefðu átt að hlýða á umræðuna hefði a.m.k. átt að vera ljóst hvað þeir voru að samþykkja.



[11:16]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir mjög góða ræðu þar sem hann útskýrði marga hluti sem menn hafa verið að spyrja um. Það er auðvitað ekki hægt að aðgreina þetta mál frá því stóra samhengi sem þetta mál snýst raunverulega um, þ.e. samgönguframkvæmdir og hvernig við getum ýtt þeim áfram. Þetta sérstaka mál snýr að því hvernig við getum farið af stað með framkvæmdir á Vaðlaheiði.

Hv. þingmaður hélt hér ræður á sínum tíma í tengslum við umræðuna um gjaldtöku í vegamálum varðandi Reykjanesbraut, Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og síðan Vaðlaheiði og ég spyr hann hvaða nákvæmu skoðanir hann hafi sett fram á sínum tíma. Það er fyrsta spurning. Önnur spurning er hvort hann geti upplýst, a.m.k. mig og þá þingheim líka, hvaða sjónarmið hafi verið reifuð innan samgöngunefndar af hálfu þeirra sem höfðu ákveðnar efasemdir um þessa leið og þetta mál. Gott væri að fá það upplýst.

Skildi ég hv. þingmann rétt í því að ef þessi framkvæmd kemur ekki til með að gefa af sér þann arð og hagkvæmni sem menn gera kannski ráð fyrir í dag geri hann ráð fyrir því að ríkið muni yfirtaka restina af hlutafélaginu og það muni þá hafa í för með sér útlát fyrir ríkissjóð?

Er þetta réttur skilningur hjá mér í þessari þriðju spurningu minni til hans?



[11:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara síðustu spurningunni fyrst. Hv. þm. Björn Valur Gíslason svaraði því mjög afgerandi hér, sem er alveg rétt, að í þessum lögum er ekki gert ráð fyrir útgjöldum ríkisins. Það verður ekkert um það deilt. Eins og ég benti hins vegar á í ræðu minni verðum við að vera meðvituð um það, og ég held að það sé bara ágætt að þessir menn séu þá meðvitaðir um það, að ef verkefnið gengur ekki upp getur tvennt gerst. Ég sé tvennt í fljótu bragði, ég er samt ekkert að spá því að það gerist, það má ekki skilja orð mín þannig. Margt annað getur líka gerst, ég þekki það ekki, en ef verkefnið gengur ekki upp einhverra hluta vegna — ég minni á að umferð hefur dregist mjög mikið saman en við erum auðvitað að tala um þetta verkefni til margra ára eða áratuga og menn mega ekki horfa alveg í núið — er tvennt að gera, annaðhvort verður að greiða aukahlutaféð og eignast meira í hlutafélaginu sjálfu ellegar að menn fara að greiða niður gjöldin sem var rætt um í upphafi, þ.e. að fara svokallaða skuggagjaldaleið. Það er þetta tvennt sem kemur upp í huga mér, eða að félagið fer bara í þrot. Við vitum alveg að það verða engin Vaðlaheiðargöng þarna sem enginn á. Auðvitað mundi þá ríkið yfirtaka framkvæmdina sem er líka hugsunin í framtíðinni, að þegar búið er að borga niður verkefnið lendi það hjá okkur.

Við skulum vera meðvituð um það, ég geri mér að minnsta kosti fulla grein fyrir því að þessu fylgir ákveðin ábyrgð, að við getum þurft að yfirtaka félagið ef illa fer. Ég ítreka þó að ég er ekki að spá því.

Við höfum talað um sérstaka skattheimtu og ég fór mjög vel yfir þær hugmyndir í ræðu minni þegar þetta mál var rætt. Ég var dálítið hugsi, finnst þetta ekkert annað en aukaskattheimta og þá akkúrat á íbúana á þessu svæði. Ég gerði mjög vel grein fyrir því og hafði miklar athugasemdir við það. Þetta var þáttur í því að fara inn í stöðugleikasáttmálann þannig að þetta varð (Forseti hringir.) niðurstaðan.



[11:20]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekki verði hægt að draga dul á það út af gjaldtökunni sem var rætt um vegna stofnæðanna á suðvesturhorninu að hún hefði haft í för með sér gríðarlegan viðbótarkostnað og aukaálag á íbúana suðvestanlands sem meðal annars kemur fram í áliti fjárlagaskrifstofunnar um sjávarútvegsmálin. Meginþunginn er hér í gjöldum varðandi vegamál. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni, við megum ekki tala um að þetta verkefni fari illa. Við vonumst öll til þess og eigum öll að stuðla að því að þetta verkefni gangi vel. Samgöngubætur, hvort sem eru vestan, norðan, sunnan eða austan heiða, skipta máli fyrir allt landið og allt samfélagið. Við verðum engu að síður að vera meðvituð um það hvaða ábyrgðir kunna að falla og hvernig verkefninu vindur fram um leið og við reynum að fara inn í verkefnið með bjartsýni og von í brjósti um bættan hag.

Spurningin sem er eftir sem ég (Forseti hringir.) beindi til hv. þingmanns er: Hvaða sjónarmið voru uppi af hálfu þeirra þingmanna sem höfðu efasemdir í (Forseti hringir.) samgöngunefnd um þetta mál?



[11:21]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af sjónarmiðinu vegna skattheimtunnar skulum við setja hlutina í samhengi. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan erum við að tala um að vera með 6 milljarða í framkvæmdir í vegamálum á hverju ári. Þær framkvæmdir sem við erum að tala um hérna, þessar tvennar framkvæmdir eða þessi tvö hlutafélög, leggja sig á upp undir 40 milljarða. Menn sjá alveg samhengið í hlutunum, það er ekki framkvæmanlegt að gera það inni í þessum hluta. Eins og ég sagði var ég mjög hugsi yfir því að setja sérstakt gjald á íbúa þessa svæðis og það var alveg fyrirséð að auðvitað kæmu mótmæli við því að þeir þyrftu að greiða fyrir það sérstaklega vegna þess að þeir fá þá eðlilega ekki afslátt af sínum öðrum gjöldum, það er ekki framkvæmanlegt.

Þá kemur líka í ljós að forustumenn sveitarfélaganna kalla til að mynda eftir tvöföldun á þessum stofnbrautum. Mér finnst við þurfa að skoða miklu betur hvort það sé nægilegt að gera þannig. Það er ekki bæði hægt að kalla eftir óraunhæfum hugmyndum og vilja svo ekki borga neitt sérstaklega fyrir þær. Við þurfum að taka þessa umræðu (Forseti hringir.) dýpri og meiri að mínu viti.



[11:23]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög þjálfaður í svona málþófsæfingum eins og ég hélt að færu hér fram, en í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem hann eyddi um 13 mínútum af í að ræða um annað mál en það sem er á dagskrá komu þó fram ákveðnar spurningar, m.a. út af hverju ekki hefði verið eignarnámsákvæði í lögunum þegar þau voru samþykkt í fyrra. Það var ekki talin ástæða til þess, það voru vissulega skoðuð fordæmi í sambærilegum framkvæmdum en síðan þegar á reyndi var talið rétt að grípa til þessara aðgerða. Hv. þingmaður var mér sammála um það í nefndinni. Ef ég man rétt var hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það ætti að ganga lengra í þessum eignarnámsheimildarákvæðum og festa þau frekar í sessi en hér er gert þannig að ekki þyrfti að leita sérstakra heimilda í tilfellum sem þessum. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er ekki rétt.

Hv. þingmaður segist sömuleiðis spyrja sig spurninga varðandi það að framkvæmdir eru ekki hafnar en viðræður farnar af stað. Eðli málsins er að viðræður fara af stað áður en framkvæmdir eru hafnar, eða hvað? Er það ekki þannig sem við gerum hlutina? Reynum við ekki að hefja viðræður við landeigendur og semja áður en við förum í framkvæmdir? Ég hélt (Gripið fram í.) að það væri þannig sem hlutirnir gerðust og þess vegna er þetta svoleiðis.

Það sem vakti samt athygli mína og mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort þetta mál, eignarnámsheimild til að fara í þessar framkvæmdir upp á hátt í 40 milljarða kr. sem skipta samfélagið gríðarlegu máli, hafi vakið upp þær efasemdir í huga hans um lagafrumvarpið frá 2010 að hann telji rétt að hætta við þær. Vill hann draga þessar hugmyndir til baka? Það var ekki hægt að ráða annað af máli hans áðan þegar hann sagðist hafa efasemdir um málið, efasemdir um framkvæmdirnar og sagði að vaknað hefðu margar spurningar sem þyrfti að ræða. Er hv. þingmaður sem var eini þingmaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins sem studdi málið á þingi í fyrra hættur stuðningi við þær vegaframkvæmdir sem voru samþykktar á Alþingi (Forseti hringir.) í fyrra?



[11:25]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að svara því síðasta sem hv. þingmaður spurði um, þ.e. hvort ég hefði verið eini hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi frumvarpið. Það er ekki þannig.

Hann segir líka að ég hafi viljað gera eignarnámsheimildina víðtækari. Ég sagði á fundi samgöngunefndar að ef menn ætluðu að setja sérstaka eignarnámsheimild í lögin um Vaðlaheiðargöng, þ.e. inn í annað hlutafélagið, teldi ég að það ætti að skoða að setja þessa heimild inn fyrir bæði hlutafélögin. Það er bara mín skoðun og hún liggur algjörlega fyrir. Ef við ætlum að setja sérstaka heimild til framkvæmdanna við Vaðlaheiðargöng, annað tveggja hlutafélaga, fyndist mér eðlilegra að það væri þá gert við bæði. Það er alveg klárt.

Síðan spyr hv. þingmaður um efasemdir mínar gagnvart þessu frumvarpi hér. Ég fór vel yfir þær í ræðunni. Hv. þingmaður kvartaði yfir tímalengdinni, að hann hafi aðeins misst þráðinn, en skoðun mín er alveg skýr, ef menn ætla að standa að baki þessu verkefni alla leið en ekki stökkva frá borði eftir á eiga menn að samþykkja þetta frumvarp. Það sagði ég mjög skýrt í ræðu minni.

Ég styð frumvarpið með fyrirvara sem ég fór líka yfir í ræðunni.

Hv. þingmaður segir eðlilegt að viðræður hefjist áður en farið er í framkvæmdir. Auðvitað er það alveg rétt hjá hv. þingmanni og hann á ekki að snúa svona út úr. Það sem ég sagði var: Er óeðlilegt að löggjafarvaldið grípi inn í eftir að viðræður hefjast? Því get ég ekki svarað þar sem ég er ekki lögfræðimenntaður, ég veit ekki svarið við þeirri spurningu og þess vegna velti ég henni upp. Það er það sem ég spurði mig og ég hef ekki svarið við þeirri spurningu. Því verða þeir að svara sem þekkja betur til í lögfræði en ég. Það er það sem ég var (Forseti hringir.) hugsi yfir við ákvörðunina.



[11:27]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir snýr ekki að gjaldtöku, ekki á nokkurn hátt, en samt eyddi þingmaðurinn stærstum hluta máls síns áðan og andsvörum í að ræða gjaldtökumál. Hann beitti þeim rökum í málinu að efasemdir hefðu vaknað upp hjá honum varðandi málið í heild sinni. Auðvitað er farið af stað í viðræður um framkvæmdina, veglagningu inn á lönd, í þeirri von að ekki þurfi að beita eignarnámsheimild. Þess vegna eru þær oft settar inn í lög eftir á þegar samningar nást ekki. Eins og hv. þingmaður veit sjálfur eru ótal tugir ef ekki hundruð fordæma fyrir því í lagasafni Íslands sem Alþingi hefur samþykkt og hv. þingmaður á að hafa undir höndum.

Það sem mér fannst samt athyglisvert í ræðu hv. þingmanns er, eins og ég benti á áðan, að hann var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi þetta mál hér í fyrra, eini þingmaðurinn af 16 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er hægt að fá útprentun af því ef hv. þingmaður trúir mér ekki. Það var einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi málið og hann heitir Ásbjörn Óttarsson, hv. þingmaður. Aðrir studdu það ekki.

Þess vegna spyr ég: (Forseti hringir.) Vekur þetta litla mál um eignarnámsheimild þær efasemdir í huga hans varðandi (Forseti hringir.) framkvæmdirnar, og eignarnámsheimildin nær til allra framkvæmda sem lögin ná yfir, að hann telji rétt að hætta við þær? Það er þá frétt.



[11:29]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað skýrar þessum útúrsnúningum hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni sem mér finnst mjög ómaklegar. Í fyrsta lagi, svo það sé á hreinu, stóð ég að þessu nefndaráliti með fyrirvara. Ég gerði ákveðnar athugasemdir við það en mætti þó til þess að taka málið út úr nefnd.

Mig langar hins vegar að fara hér yfir þátttöku tveggja hv. þingmanna Samfylkingarinnar í samgöngunefnd. Þegar málið var á dagskrá var það fyrsta mál á dagskrá fundarins. Þá gerði annar hv. þingmaður kröfu um að málið yrði fært aftast. Formaður varð við því. Þegar málið kom síðan til umræðu síðast á dagskrá nefndarfundarins rauk þessi sami þingmaður á dyr. Annar hv. þingmaður Samfylkingarinnar sem sat fund samgöngunefndar sagði þegar verið var að afgreiða málið út að hann yrði ekki á því og áskildi sér rétt til að berjast gegn því hvenær sem væri og hvar sem væri og segja hvað honum fyndist um málið. Við skulum ekki rukka aðra um að hafa ekki staðið við það sem var sagt í nefndinni þegar þeir eiga það ekki skilið, heldur kannski hugsa um að reka stjórnarliðið inn í hús og reyna að hafa tök á því en ekki vera með einhverjar aðdróttanir hér gagnvart afstöðu minni í þessu máli.



[11:30]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða er til að stilla sig aðeins í þessari umræðu sem er ekki mjög flókin í eðli sínu. Ég vil blanda mér í hana af margvíslegum ástæðum. Fyrst er frá því að segja að afstaða manna til gjaldtöku í þessum efnum er mjög ólík frá Norðurlandi til Suðurlands. Ítrekað hefur komið fram að öll sveitarfélög í kringum væntanleg Vaðlaheiðargöng eru mjög áfram um að fara í þessa aðgerð ólíkt sveitarfélögunum sunnan heiða og almenningur fyrir norðan er líka mjög áfram um þessa framkvæmd (Forseti hringir.) sem eykur mjög umferðaröryggi.

(Forseti (ÁI): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð í þingsal.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Almenningur fyrir norðan er mjög áfram um framkvæmdina þó ekki sé nema vegna öryggisástæðna.

Ég vil líka nefna þau ólíku sjónarmið sem voru á baugi í nefndinni en líflegar umræður urðu um málið. Þrennt höfðu þeir þingmenn sem hér hafa verið nefndir til sögunnar í huga.

Í fyrsta lagi hvort þessi framkvæmd tæki af öðru vegafé. Svo er ekki.

Í öðru lagi hvort hægt væri að beita eignarnámsheimildunum í þessu efni með Vegagerðinni í slagtogi við aðra aðila. Það er hægt og fjöldi fordæma er fyrir því, ekki bara á vegum heldur líka við eignarnám vegna vatnsbóla, ofanflóðahættu o.s.frv.

Í þriðja lagi hvort hér væri verið að grípa inn í eftir á, breyta reglum eftir að ferlið væri hafið. Eins og viðkomandi þingmaður þekkir er fjöldi fordæma fyrir því þegar eignarnám er annars vegar og ljóst að Vegagerðin hefur samkvæmt vegalögum heimild til þess að gera þetta.



[11:32]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður fór yfir að sýn manna er ólík á það hvernig staðið er að tollum eða sérstakri skattheimtu. Ástæðan fyrir því að frumvarpið er flutt hér er kannski sú, og það kemur mjög vel fram í greinargerð með frumvarpinu og nefndarálitinu, að ákveðin óvissa ríkir um hvort einkahlutafélagi eða hlutafélagi er heimilt að taka hluti eignarnámi. Hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu að auðvitað er verið að taka fullt af hlutum eignarnámi þegar það þarf, sem er jú kannski ekki gott, hann nefndi vatnsból og fleira, en þá eru það yfirleitt opinberir aðilar sem gera það, sveitarfélögin eða ríkið, en ekki hlutafélög sem slík.

Það kemur líka mjög skýrt fram að til að fyrirbyggja allan misskilning og vandkvæði sem hugsanlega geta komið upp ef eignarnámsheimildin er ekki nægilega sterk í lögunum, sé betra að gera þetta svona. Þess vegna er frumvarpið flutt. Auðvitað er mjög sérstakt að það sé flutt af hv. þm. Birni Vali Gíslasyni en ekki hæstv. innanríkisráðherra, það er kannski spurning sem menn þurfa að spyrja sig: Af hverju er það gert þannig? Ég geri ekki athugasemdir við það en það er nokkuð sem þyrfti að skoða. Eins er alveg skýrt og kom fram í meðförum nefndarinnar að með eignarnámsheimildinni sem verið er að fella inn í verður ferillinn nákvæmlega sá sami og ef Vegagerðin mundi nýta hana. En við erum að setja lögin eftir að viðræður hefjast og það sem ég kom að í ræðu minni áðan og í andsvörum er sú áleitna spurning sem maður verður að spyrja sig að: Er þetta inngrip? Ég átta mig ekki alveg á því.



[11:35]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Eignarnámsheimildirnar eru mjög víðtækar þegar kemur að almannahagsmunum. Ég vænti þess að ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að almannahagsmunir eru í húfi varðandi þessa framkvæmd. Hér er verið að tala um væntanlegan þjóðveg 1 og þarna er verið að taka burtu mikinn slysakafla á hringveginum sem er út með Eyjafirði og yfir Víkurskarðið sem teppist mjög oft yfir vetrarmánuðina, dagparta og heilu dagana.

Einnig er frá því að segja, frú forseti, að þessi framkvæmd er að meiri hluta í opinberri eigu. Vegagerðin á þetta félag að meiri hluta og því er þetta í sjálfu sér opinber framkvæmd. Þó svo væri ekki og þetta væri fullkomin einkaframkvæmd þá gætu sveitarfélögin í krafti almannahagsmuna líka farið fram með eignarnámsheimild gagnvart þeim aðilum sem eiga land hvorum megin við munnana. Við erum því að (Forseti hringir.) tala um almannahagsmuni, þess vegna geta opinberir aðilar, hvort heldur eru sveitarfélögin eða Vegagerðin, (Forseti hringir.) beitt eignarnámsheimildum (Forseti hringir.) ef á þarf að halda.



[11:36]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við fjöllum hér um almannahagsmuni. Það sem ég sagði áðan er að þetta er að mínu viti klárt inngrip eftir að ferillinn hefst. Löggjafarvaldið er að grípa inn í ferilinn, um það er ekki deilt. (Gripið fram í.) Hvort æskilegt sé að gera þetta svona hef ég ekki nægilega lögfræðilega þekkingu á og hvort það muni hafa einhverjar afleiðingar í för með sér ef menn draga í efa hvort þessi heimild liggi fyrir vegna þess að viðræður eru þegar hafnar milli aðila og hlutafélagsins.

Við megum ekki gleyma því að málið sprettur upp úr því að við erum að fara í ákveðna framkvæmd sem hlutafélag heldur utan um. Það sér um framkvæmdina, það sér um að reka mannvirkið og innheimta gjöldin. Þess vegna kemur þessi áleitna spurning upp. Það gefur augaleið að tilgangur þessara laga er einmitt að eyða þeirri óvissu hvort heimild sé til framlengja sjálfkrafa til hlutafélagsins þá eignarnámsheimild sem Vegagerðin hefur og engar deilur eru um.



[11:37]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er í sjálfu sér tiltölulega einfalt í orðum en flókið í gjörð. Hér liggur fyrir að óskað er eftir eignarnámsheimild til nýstofnaðs hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga. Í rauninni mætti hafa þau orð uppi að málið væri þannig vaxið að það bæri bara að klára það sem fyrst og þar með væri ræðu minni lokið. Svo er því miður ekki því nauðsynlegt er, ekki síst út frá umræðunni sem hér hefur átt sér stað, að hafa um þetta allnokkur orð og ekki síður vegna þess að í 1. umr. um þetta verkefni, Vaðlaheiðargöng, var það liður í að ná samkomulagi um ræður þingflokka og þingmanna að ég fór ekki inn á mælendaskrá og hef ekki gert fyrr um Vaðlaheiðargöng, svo furðulegt sem það er nú þegar haft er í huga að sá sem hér stendur er kannski einn upphafsmaður að þessu máli. Aðdraganda þess að verkefnið er komið í þann farveg sem liggur fyrir má rekja til ársins 1998 þegar bæjarstjórn Akureyrar hóf vinnu við að greina styrkleika og veikleika sveitarfélagsins. Atvinnumálanefnd á þeim tíma fór til verka í samráði við aðila vinnumarkaðarins á Akureyri og ein af tillögunum sem þar komu upp og var síðan borin áfram af bæjarstjórn Akureyrar það ár var sú að bæjarstjórnin ætti að beita sér fyrir því að gerð Vaðlaheiðarganga hæfist og það verkefni yrði svo fljótt sem auðið væri að veruleika.

Frá þeim tíma hefur málið verið borið uppi af sveitarfélögum á Norðausturlandi og raunar einkaaðilum líka á síðari stigum. Þó vil ég geta þess sérstaklega að það var gert og hefur alla tíð verið gert í tengslum við hugmyndir og áform um uppbyggingu á öðrum sviðum, sérstaklega þó atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, ég tala nú ekki um á Bakka við Húsavík. Forsendur fyrir slíku kunna að vera eitthvað breyttar en þetta verkefni er þó þannig vaxið, ég held ég fari rétt með, að á kjörtímabilinu 2003–2007 meðan Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra, voru komin í samgönguáætlun áform um að hefja undirbúning að gerð Vaðlaheiðarganga. Þá höfðu liðið u.þ.b. 5 ár frá því hugmyndin kom fram og þar til þeim áfanga var náð að verkið var nefnt í samgönguáætlun Alþingis.

Í upphafi vil ég geta þess að frá fyrsta degi hefur alla tíð verið rætt um að verkið yrði borið uppi af gjaldtöku. Áherslur sveitarstjórna fyrir norðan á sínum tíma, árið 2000, sem báru þetta verkefni fram, voru þær að ríkið kæmi að hluta til að verkinu með sambærilegum hætti og við Hvalfjarðargöngin en að öðru leyti yrði kostnaðurinn borinn uppi af veggjöldum. Það er því ekkert nýtt að ræða þetta út frá þeirri hlið.

Hugmyndin eins og henni er stillt upp núna er að stofnað verði um þetta hlutafélag þar sem ríkissjóður er í meirihlutaeigu og þessu er kippt út fyrir efnahag ríkissjóðs á þann hátt að félaginu er veitt heimild til lántöku. Ég skal undirstrika það að ég hef alla tíð haft ákveðinn fyrirvara á þeim verkefnum sem þannig er farið með á vegum ríkisins. Nægir í því sambandi að nefna umræðu um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss, tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, vegaframkvæmdir o.s.frv., og svo maður nefni nú nýjasta dæmið sem virðist vera í einhverjum habít á milli hæstv. fjármálaráðherra og innanríkisráðherra sem lýtur að áformum um byggingu fangelsis. Þar skilst mér að ágreiningurinn milli stjórnarflokkanna liggi í því að Vinstri grænir vilji fara með verkefnið í svokallaða einkaframkvæmd meðan Samfylkingin vill fjármagna það af ríkisfé eins og eðlilegt er. (Gripið fram í.)

Bygging Vaðlaheiðarganga sker sig að þessu leytinu til frá þessum verkum að forsendan fyrir þeim er að þau verði borin uppi af veggjöldum. Þá hafa menn sett þann fyrirvara að ef allt um þrýtur og illa gengur þá falli þær skuldbindingar sem félaginu er heimilað að gangast undir á ríkissjóð. Það er vissulega rétt. En í því sambandi minni ég á að nákvæmlega sama staða var uppi varðandi Hvalfjarðargöngin og ekki síður öll umræðan og hrakspárnar sem fylgdu því verki þegar það var í undirbúningi. Muna menn t.d. eftir skrifum sumra fjölmiðla og leiðarahöfunda, sem eru mjög aktívir á blogginu í dag, þar sem þeir spáðu því að mjög illa færi fyrir þeirri framkvæmd? Virtir verkfræðingar lýstu því yfir að þeir mundu aldrei fara um þessi göng því þau hryndu o.s.frv. Þannig hefur oft verið með stórframkvæmdir sem ráðist er í að enginn skortur eða hörgull er á andmælendum þeirra.

Ég er sannfærður um að Vaðlaheiðargöngin eiga eftir að reynast vel. Verkefnið mun ganga vel. Það mun leiða til eflingar atvinnustarfsemi og aukinna möguleika fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu. Alla tíð hafa samgöngubætur sem miða að því að stytta vegalengdir og draga úr kostnaði leitt til einhvers konar margfeldisáhrifa og ég er sannfærður um að Vaðlaheiðargöngin munu með sama hætti gera það gagn sem þeim er ætlað að hafa.

Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt að nefna tengslin við Norðfjarðargöng því þau hafa komið fram í fyrri ræðu. Það liggur fyrir að þingmannahópur Norðausturkjördæmis hefur í vinnu sinni, þegar rætt um samgöngumál, sett það verkefni á oddinn. Eftir stendur að reyna að finna því fjármögnun. Í umræðunni bæði á hinu háa Alþingi og ekki síður úti í kjördæminu hefur borið á þeim misskilningi að eitthvert val sé um hvort farið verði í Vaðlaheiðargöng eða Norðfjarðargöng. Slíkt val er ekki fyrir hendi. Norðfjarðargöngin verða fjármögnuð af ríkisfé. Vaðlaheiðargöngin eru unnin með allt öðrum hætti eins og hér hefur verið lýst, bæði í ræðu minni og þeim ræðum sem áður hafa verið fluttar. Það er allt annað verkefni og ekkert val er um að fá fjármunina sem ætlaðir eru inn í lántökuheimild til hlutafélagsins til að leggja í Norðfjarðargöng. Það er bara þannig. Menn verða að vinna fjárlögin þannig að hægt sé að afla ríkisfjár til þeirra verkefna sem kallað er á.

Það er hins vegar fyrirkvíðanlegt að framlög til samgönguverkefna hafa verið skorin mjög grimmt niður. Í rauninni má segja og fullyrða með nokkrum rétti að bróðurpartur þess niðurskurðar sem þó hefur átt sér stað í ríkisrekstrinum eða ríkisfjárlögum liggi í því að skorið hefur verið niður í vegaframkvæmdum og samgönguframkvæmdum, svo furðulegt sem það nú er. Menn hafa lagt það upp þannig að verið sé að standast þau markmið sem sett hafa verið í áætlunum um að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Nær væri að menn einbeittu sér að því sem var kannski eitt af undirmarkmiðum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem ætlast var til að íslensk stjórnvöld stuðluðu að hagvexti í landinu sem mundi þá draga úr atvinnuleysi, auka kaupgetu fólks o.s.frv. Nær væri nær að ríkisstjórnin hefði einbeitt sér að því að uppfylla þau markmið í stað þess að ganga fram í ríkisrekstrinum eins og raun ber vitni.

Ég vil nefna þetta hér sérstaklega, einfaldlega vegna þess að ég hef töluverðar áhyggjur af því að samgöngumannvirki þjóðarinnar muni líða fyrir þær lágu eða litlu fjárveitingar sem til þeirra er varið um þessar mundir. Ég held að við séum að veikja innviði samfélagsins með því háttalagi sem hæstv. ríkisstjórn hefur stundað í þessum efnum. Tekjumöguleikar, tekjuauki án skattlagningar, þ.e. í gegnum vöxt atvinnulífsins, er það sem við þurfum og að því þurfum við að einbeita okkur.

Það eru vissulega önnur verkefni sem hér liggja undir. Af því ég sé að hv. þm. Kristján L. Möller fylgist áhugasamur í salnum með þessari umræðu vil ég nefna það að grundvallarstefið í umræðunni um samgönguframkvæmdir á að vera stytting vegalengda sem dregur úr heildarkostnaði fyrir þjóðfélagið en eykur möguleika okkur á því að bæta við tekjugrunninn. Enginn skortur er á verkefnum í þessa veru. Vissulega er hægt að grípa til ákveðinna aðgerða á höfuðborgarsvæðinu, þó ekki væri nema til að draga úr biðtíma fólks eða eldsneytiskostnaði, en í mínum huga þarf á því að halda við alla umræðu að sýna fram á ábata samfélagsins af þeim verkum sem við er að glíma.

Í tilfelli Vaðlaheiðarganganna er um að ræða styttingu og einnig samdrátt í eldsneytisnotkun og tímasparnað. Ég sé því ekkert annað en góðar forsendur fyrir því að fyllilega réttlætanlegt sé að ráðast til þessa verkefnis. Það eina sem vantar hins vegar upp á í mínum huga til að fullkomna myndina eru þau áform sem uppi hafa verið í langan tíma fyrir norðan að nýta sem best þá fjárfestingu sem hér er verið að leggja í. Það gerum við einfaldlega með því að nýta þær auðlindir sem búa í jörðu fyrir norðan, þ.e. orkuna, og nota hana til þess að búa til ný atvinnutækifæri þannig að umferðin um göngin verði sem best og réttlætingin á þeim liggi fyrir.

Ég vil líka geta þess sérstaklega, af því að hv. þm. Björn Valur Gíslason gengur hér að og tyllir sér á spjall við hæstv. og virðulegan forseta, og bið hann að taka eftir þeim orðum sem ég segi nú út af umræðunni um þetta. Það er ekkert og skal ekki vera vafamál að Sjálfstæðisflokkurinn, þingflokkur hans, styður þetta verkefni þrátt fyrir þá fyrirvara sem menn hafa sett við það. Það höfum við gert og við erum ekki að bakka út úr því. Við teljum að frumvarpið sem hv. þingmaður ber fram sé liður í því að koma verkinu til enda en fyrirvararnir sem við einstakir þingmenn höfum sett fram í ræðum okkar eru fullgildir og ber að taka fullkomlega alvarlega. Við erum ekki að bakka út frá þessu verki. Það vil ég undirstrika hér og tel að nauðsynlegt sé að það komi fram. Við styðjum verkefnið og höfum staðið heil að baki því.

Vissulega er rétt sem komið hefur fram og ber að ítreka, að forsendur eru breyttar frá því að menn lögðu þetta upp. Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur reynt að skýra það og gengið þokkalega vel en ég skal alveg segja þá skoðun mína hér að oft hefði mátt gera það með öðrum og betri hætti en raun ber vitni. Vissulega er óþarfa hortittur í verkinu sjálfu að þurfa að bera fram þetta frumvarp. Auðvitað hefði þessi heimild átt að vera í upphaflega frumvarpinu. Hún á sér fullt af fordæmum en bara það að þurfa að bera þetta fram svona varpar fremur leiðinlegu ljósi á málið. Því miður.

Ég vil nefna það líka sérstaklega, í ljósi þess að nú gengur hv. þm. Kristján Möller inn í salinn að nýju, að ævintýralega skemmtilegt hefur verið að fylgjast með því hvernig þetta mál hefur þróast á umliðnum árum, allt frá árinu 1998 frá því að hugmyndin kom fyrst fram. Viðbrögð stjórnmálaafla við henni voru mjög misjöfn. Töluvert bar á andstöðu við hana í upphafi meðal margra stjórnmálamanna og sennilega flestra stjórnmálaflokka en í áranna rás og eftir því sem tíminn hefur liðið hafa alltaf fleiri og fleiri séð kostina við að fara þessa leið. Þar á meðal vil ég nefna hv. þm. Kristján L. Möller sem hefur með ýmsum hætti reynt að eigna sér þetta mál og ég vona að hann njóti þess alveg út í ystu æsar.

Þetta hefur oft á tíðum orðið kosningamál í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar og sem betur fer hefur stuðningur við verkefnið vaxið. En best af öllu er þó að skilningurinn á gildi framkvæmdarinnar hefur aukist til muna. Það er sá skilningur sem hefur þjappað Norðlendingum, Austfirðingum og raunar fleiri landsmönnum saman um verkefnið. Árásir hafa komið fram gegn þingmönnum Norðausturkjördæmis og þá sérstaklega þeim einstaklingum sem gegnt hafa starfi samgönguráðherra og gegna, þar á meðal hv. þm. Kristján L. Möller, og þeir setið undir ámæli um að vera dæmigerðir kjördæmapotarar. Það er á margan hátt mjög ómakleg umræða, einfaldlega vegna þess að þetta verkefni, eins og svo mörg önnur sem unnin eru í öðrum kjördæmum en þessu, eru ekki endilega borin uppi af þingmönnum viðkomandi kjördæma með það í huga að hagsmunir kjördæmis þeirra séu ofar öllu. Allt er þetta liður í því að styrkja búsetu í landinu öllu svo að allir hafi sömu möguleika til að leggja sitt af mörkum til farsældar í þessu ágæta þjóðfélagi okkar. Með þeim orðum ætla ég að ljúka máli mínu, forseti, og vænti þess að málið eigi skjóta og örugga leið í gegnum þingið.



[11:54]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ágætt hafi verið að hlusta einmitt á ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, líka þegar hann dró fram Norðfjarðargöngin. Ég held að það hafi verið eðlilegar og skiljanlegar áhyggjur sem Austfirðingar sýndu þegar Vaðlaheiðargöngin voru sett fram með svona afgerandi hætti á dagskrá. Þess vegna fannst mér mikilvægt og eðlilegt að þingmaðurinn hafi dregið fram þann mikla vilja kjördæmaþingmannanna fyrir Norðausturkjördæmi að setja Norðfjarðargöngin í þessa skýru forgangsröð sem mér fannst þingmaðurinn draga réttilega fram. Ég held að það verði líka að tala til þess landshluta.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hv. þingmaður að formaður samgöngunefndar flytji þetta mál? Af hverju flutti ekki hæstv. innanríkisráðherra þetta mál? Getur verið að hann sé á móti þessu hlutafélagi um Vaðlaheiðargöng, kann það að vera? Getur hv. þingmaður gefið mér þær útskýringar af hverju ráðherrann, sem alla jafna flytur ekki breytingartillögu við mál, sem reyndar ráðherrann sat hjá líka, sem er forvitnilegt í ljósi heildarmyndarinnar, flutti ekki þessa breytingartillögu?

Í öðru lagi langar mig líka í ljósi forvitnilegra orða hv. þingmanns um forsögu málsins sem má rekja alveg aftur til 1998 og oft hefur verið talað um að allir vildu Lilju kveðið hafa o.s.frv. Er það þannig að margir hafi múnderað sig upp og ætlað að taka fyrstu skóflustungu, kannski rétt fyrir kosningar?



[11:56]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Nú ískrar töluvert í sumum hv. þingmönnum, ekki þar fyrir að skóflublaðið sé orðið svona ryðgað og lúið, heldur miklu fremur að ég held að suma hv. þingmenn langi mjög til að vera viðstaddir fyrstu skóflustunguna að þessu verki eins og svo mörgum öðrum. (Gripið fram í: Bjóddu þeim norður.) Ég held að ég geti fullyrt að sumir hafi verið í startholunum tvisvar, þrisvar fyrir það verk sem spurt er eftir. En að öðrum skemmtilegri málum.

Um afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til þessa verkefnis vill nú svo einkennileg til að þegar lögin um þetta voru afgreidd sat hann hjá. Ekki man ég þannig að ég geti vitnað til þess af hvaða ástæðum það var. En ef við lítum til afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til þess fyrirbæris sem kallað er einkaframkvæmd getum við í rauninni dregið ályktanir af afstöðu hans í þeim málum og lagt hana við þá niðurstöðu sem var í atkvæðagreiðslunni. Hann treysti sér ekki til að fara þessa leið.

Þess vegna verður mjög forvitnilegt að sjá afstöðu hæstv. innanríkisráðherra og raunar fleiri þingmanna Vinstri grænna til þess verkefnis sem kemur væntanlega inn í haust og er einhver stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar sem er bygging Landspítala – háskólasjúkrahúss þegar hún verður borin uppi. Hún er að vísu kölluð í gögnum Alþingis „samstarfsframkvæmd“ en er í rauninni alveg dæmigerð einkaframkvæmd ef farið væri til hennar með réttum hætti. En það eru átök um það mál, skiljanlega, en byggja miklu fremur finnst mér á prinsippum sem eiga ekki við og eru frekar svona horngrýtispólitík en alvara.



[11:58]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að það kunni að hljóma ankannalega í ljósi þess sem hefur verið að gerast í þingsal á umliðnum dögum og vikum í umræðum tengdum stórum málum ekki síst, eins og sjávarútvegsmálum, þá er afar ánægjulegt að vera þingmaður. Þegar ég var í samgöngunefnd þingsins frá 1999–2003 þá var það sem mér fannst skipta mestu að menn sæju heildarsamhengi hlutanna, að menn átti sig á að mikilvægt er fyrir alla þingmenn, alla landsmenn, að samgöngur séu góðar um land allt. Þá óskar maður eftir gagnkvæmum skilningi á mikilvægum samgönguframkvæmdum úti á landi eins og maður óskar eftir skilningi á því að við sem búum á suðvesturhorninu þurfum að hafa greiðar samgöngur. Hér eru þarfirnar öðruvísi en það þarf að taka tillit til þeirra. Um þetta og inn á þetta ætla ég að fara í máli mínu í ræðu hér á eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef innanríkisráðherra dregur ekki lappirnar allt of mikið í þessu máli eins og öðrum, t.d. framkvæmdum á suðvesturhorninu, hvernig sér hv. þingmaður framvindu málsins? Ég ber ákveðinn kvíðboga fyrir því að ríkisstjórnin dragi lappirnar — af því að ég notaði það orðatiltæki — í framkvæmdum, ekki bara samgönguframkvæmdum heldur framkvæmdum á Norðurlandi, á Norðausturlandi, framkvæmdum á Bakka til að mynda. Ég held að ekki verði hægt að skilja algjörlega í sundur milli þeirrar samgöngubótar sem Vaðlaheiðargöngin eru og þeirra framkvæmda sem eru nauðsynlegar, ekki bara fyrir Norðausturlandið, ekki bara fyrir Húsvíkinga eða Akureyringa, heldur fyrir þjóðarbúið í heild sinni, að fara af stað með. Hvernig sér hann hugsanlega fram á það að framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng kunni að seinka vegna þess að öðrum framkvæmdum miðar ekkert áfram á norðaustursvæðinu?



[12:01]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að á margan hátt megi segja að ríkisstjórnin þjáist af ákveðnum verkkvíða. Ég ber vissulega ákveðinn ugg í brjósti vegna þessa.

Ég vil nefna það sérstaklega vegna þess að hér uppi eru nemendur í háskóla unga fólksins og ég vonast til þess að einhver þeirra eigi eftir að taka þátt í störfum Alþingis þegar fram líða stundir og leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir því að samgöngur um landið geti orðið sem greiðastar. Ég veit til þess að einhver þeirra hafa greitt úr eigin vasa, jafnvel af fermingarpeningunum sínum, til að komast í þennan skóla. Það eitt segir okkur hversu mikið á okkur er leggjandi til þess að bæta samgöngur á landi þannig að kostnaður allra í þjóðfélaginu verði sem minnstur til þess að komast á milli tveggja staða í landinu. Ég vænti þess að þetta ágæta unga fólk sem er framtíð okkar og við byggjum á taki þátt í störfum sem tengjast íslenskum stjórnmálum og læri af þeirri reynslu sem er miðlað innan veggja Alþingis.

Eitt af því sem ég vil leggja til og tengja við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan er að hvetja það ágæta unga fólk sem hefur lagt á sig að komast til þessarar fræðslu til að vera ekki og bera ekki sama verkkvíða í brjósti eins og oft vill einkenna stjórnmálamenn sem standa frammi fyrir stórum verkum. Það eina sem menn geta haft í farteskinu er að trúa og treysta á getu sjálfs síns og annarra til góðra verka og þannig hefur íslenskri þjóð reitt best af í gegnum aldirnar.



[12:03]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram breytingartillögu frá hv. samgöngunefnd sem fjallar um breytingar á lögum sem samþykktar voru á síðastliðnu þingi í júní árið 2010 og tengjast stofnun hlutafélags um vegaframkvæmdir.

Það sem vekur fyrst athygli er að það skuli vera samgöngunefnd þingsins sem flytur þetta mál. Ég hef 20 mínútur til umráða og mun m.a. fjalla um samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu af því að þetta mál tengist samgöngumálum og hefur tekið miklum breytingum. Sú þróun átti í rauninni að vera í samgöngumálum en hefur ekki orðið frá því að upphaflega málið var samþykkt þar til nú að við stöndum frammi fyrir þessari breytingartillögu.

Ég vil óska eftir því að hæstv. innanríkisráðherra verði viðstaddur umræðuna til að bregðast við ákveðnum spurningum sem ég vil beina til hans.

Ég vonast til þess að fá svör við því frá hæstv. forseta hvort hæstv. ráðherra muni koma hingað í hús til þess að fara yfir ákveðin mál sem tengjast samgönguframkvæmdum.

Af hverju var hæstv. innanríkisráðherra ekki flutningsmaður þessa máls? Af hverju kom hann ekki með þá breytingartillögu sem lá nokkuð ljóst fyrir að þyrfti að fara af stað með til að ekki væru einhverjar efasemdir um lögmæti þeirrar kröfugerðar að menn krefðust þess að taka land eignarnámi? Getur það verið vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra hefur verið andsnúinn því fyrirkomulagi? Þá er merkilegt að ráðherrann sjálfur sem var flutningsmaður þessa máls skuli ekki einu sinni hafa greitt því atkvæði. Hann sat hjá fyrir tæpu ári síðan þegar þetta mál kom til atkvæða. Ég tengi það líka, og fer inn á það síðar, af hverju það hefur verið svona mikill silagangur í brýnum samgönguframkvæmdum á suðvesturhorninu.

Ég sakna þess reyndar líka að hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður samgöngunefndar, sem innti mig eftir skoðun minni á frumvarpinu, skuli ekki vera staddur hér. Ég undirstrika að ég skil þessa breytingu í ljósi þeirra laga sem liggja fyrir. Ég skil líka þau sjónarmið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bar fram, að það hefði allt eins átt að ræða það að setja slíka heimild inn í lög sem tengjast félaginu um samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu. Ef það eru efasemdir um eignarnámsheimild varðandi Vaðlaheiðargöngin og norðansvæðið þá er alveg sami efinn til staðar varðandi suðursvæðið.

Það er skiljanlegt að þessi leið sé farin. Engu að síður hefur komið í ljós að það voru skiptar skoðanir innan samgöngunefndar og meðal þingmanna, ekki síst innan stjórnarliðsins, innan Samfylkingarinnar, varðandi þetta mál. Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt áður að það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að horfa á samgönguframkvæmdir í heild sinni. Menn sem búa á suðvesturhorninu verða að skilja að það þarf hlutfallslega aukið fjármagn til samgönguframkvæmda á landsbyggðinni. Þannig er það. En talsmenn landsbyggðarinnar verða líka að skilja að þarfir þeirra sem búa á suðvesturhorninu eru með öðrum hætti en landsbyggðarinnar. Það eru dýrari framkvæmdir sem þarf að fara í á suðvesturhorninu til þess að geta annað allri þeirri miklu og þungu umferð sem hér er.

Ég óska eftir því að menn hætti að tala um þetta mál eins og menn hafa talað um sjávarútvegsmálið, að það sé bara landsbyggðarmál. Ég mótmæli því harðlega. Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og við sem búum á suðvesturhorninu eigum að hafa skoðun á því hvernig kerfinu er breytt. Ég ætla ekki að fara út í mikla umræðu í sjávarútvegsmálum, en við eigum að hafa skoðun á breytingum eins og á þeirri makalausu breytingu sem ríkisstjórnin sem hefur ekki fengist til að ræða, hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra, varðandi þennan grunnatvinnuveg, hvort sem við búum á suðvesturhorninu eða annars staðar á landinu. Það sama gildir að sjálfsögðu um samgönguframkvæmdir.

Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun og ég tel að það sé með fullum rétti hægt að segja að Vaðlaheiðargöng séu mikilvæg og mikil búbót fyrir norðanmenn. Það má líka draga fram þær spurningar hvort við höfum efni á því að fara í slíkar framkvæmdir akkúrat núna. Ég held þess vegna að sú leið sem farin hefur verið hafi verið gerð m.a. til þess að koma til móts við þarfir ekki bara norðanmanna heldur okkar allra til að efla samgöngur, gera þær arðbærari, gera þær hagkvæmari með tilliti til eldsneytisnotkunar og fleira, en líka til þess að fara af stað með framkvæmdir almennt.

Ég spyr mig að því núna þegar niðurstaðan liggur fyrir varðandi Vaðlaheiðina: Hvað líður framkvæmdum á suðvesturhorninu? Ég sat einn fund með innanríkisráðherra og fulltrúum sveitarfélaga á suðvesturhorninu, þ.e. sveitarfélögum suður með sjó, frá Hveragerði, Selfossi og síðan vestur yfir, um hvernig við ætlum að leysa vegamál á suðvesturhorninu. Enn og aftur er málið í nefnd. Menn ætla bara að hlusta. Ráðherrann ætlar að hlusta. Hvergerðingar og aðrir Sunnlendingar komu með mjög áhugaverðar og raunhæfar tillögur um að hefja a.m.k. framkvæmdir. Það er hægt að deila um það og skiptast á skoðunum um hvort við höfum efni á því að fara í tvöföldun eða ekki, hvort við eigum að fara í 2+1 og allt það, en það er hægt að fara í ýmsar breytingar nú þegar til þess að lagfæra veginn. Það kom skýrt fram á fundinum. Af hverju er það ekki gert? Getur það verið út af því að innanríkisráðherra greiddi ekki atkvæði með því fyrirkomulagi sem samþykkt var fyrir ári síðan í þinginu? Getur verið að hann sé á móti því að þessi leið einkaframkvæmdar sé vörðuð? Getur verið að andstaða innanríkisráðherra standi í vegi fyrir framkvæmdum á suðvesturhorninu?

Í tengslum við kjarasamninga var ákveðið — að mig minnir, ég vonast þá til að þingmenn í salnum leiðrétti mig — að hópur sem tengist kjarasamningunum og kjarasamningagerð mundi að hittast til að ræða framkvæmdir í samgöngumálum. Hefur sá hópur hist? Hefur verið reynt að ýta á framkvæmdir? Tæplega sex og hálfur milljarður var eyrnamerktur í framkvæmdir. Af hverju er ekki farið í framkvæmdir? Á meðan eru 16.000 Íslendingar atvinnulausir. Ég ætla ekki að ræða alla þá sem flust hafa úr landi á þessu tímabili athafnaleysis og aðgerðaleysis af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að vaxa út úr vandanum. Við þurfum að reyna að skapa, framleiða og efla grunnstoðirnar og þar undir er m.a. vegakerfið.

Ég vil líka draga fram í tengslum við þetta mál og þennan sex og hálfan milljarð að á árunum 2008, 2009 og 2010 fékk ég þær upplýsingar frá Vegagerðinni að 9,8% af því færu til nýframkvæmda á suðvesturhorninu — 9,8%. Ég er ekki að tala um að fara sömu leið og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn og segja að hluti þess kostnaðar sem falli til á því svæði eigi að fá gjaldið til baka. Meiri hlutinn af því gjaldi sem fæst af bifreiðum og bifreiðagjöldum kemur frá suðvesturhorninu. Ég bið um að menn hugsi um þessi 9,8% sem fara til nýframkvæmda á suðvesturhorninu. Það hefur aldrei farið yfir 20%. Svo situr innanríkisráðherra og gerir ekki neitt og getur ekki einu sinni hugsað sér að flytja frumvarp um breytingu á lögunum af því að hann er ekki sammála aðferðafræðinni.

Okkur sárvantar framkvæmdir í samfélaginu. Það er búið að gera ráð fyrir ákveðnum framkvæmdum. Af hverju er ekki farið af stað? Við á suðvesturhorninu erum margoft búin að sýna fram á og lýsa því yfir að það eru ákveðnar framkvæmdir sem hægt er að fara í og hafa legið fyrir lengi, hafa verið á samgönguáætlun í áraraðir og búið er að hanna og undirbúa ýmsar vegaframkvæmdir sem tengjast gatnamótum á Reykjavíkurveginum. Það er hægt að tala um af hverju t.d. Kjósarskarðsvegurinn hefur ekki fengið brautargengi en hefur samt verið á áætlun. Álftanesvegurinn hefur lengi verið á áætlun en framkvæmdum er alltaf seinkað og svo mætti lengi telja.

Um leið og ég sýni því skilning að menn vilji fara í Vaðlaheiðargöng vil ég líka að menn hugsi um það sem er að gerast hér suðvestanlands. Það er bara akkúrat ekki neitt að gerast í framkvæmdum suðvestanlands. Það er eins ráðherrann búi ekki einu sinni á þessu svæði og skynji ekki vandann sem er á þessu svæði, enda sagði hann að hann missti ekki svefn yfir því hvað færi í nýframkvæmdir á suðvesturhorninu. Það fara innan við 10% í nýframkvæmdir á suðvesturhorninu.

Ég kom inn á það í andsvari áðan við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að um leið og ég sýni þessu verkefni skilning eru efasemdir mínar gagnvart verkefninu fólgnar í því að ég er hrædd um að framkvæmdum á Bakka seinki þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um að það eigi að fara af stað í ýmsar framkvæmdir fyrir norðan. Okkur miðar ekkert áfram. Ég velti fyrir mér: Eru þeir arðsemisútreikningar sem liggja til grundvallar Vaðlaheiðargöngunum byggðir á því að framkvæmdir fari af stað? Ég er sannfærð um að arðsemi Vaðlaheiðarganga muni ekki bara verða þokkaleg heldur góð ef framkvæmdir fara af stað á norðvestursvæðinu. Menn verða að drífa sig. Ég veit satt best að segja ekki hver staðan er á þeim framkvæmdum öllum, bara að það eru einhverjir góðir samningar á leiðinni, gott veður á leiðinni. Ég er búin að heyra það allt svo vikum skiptir frá ríkisstjórninni. Er ekki hægt að biðja um að fólk tali skýrt?

Við þurfum að fara í framkvæmdir, ekki bara samgönguframkvæmdir, við þurfum að fara af stað í margháttaðar framkvæmdir. Við þurfum að gæta að því að við rústum ekki grunnatvinnuvegum þjóðarinnar víða um land. Þá fyrst gæti arðbærni samgönguframkvæmda farið niður á við ef menn ætla að fara þær leiðir sem ríkisstjórnin boðar á sviði sjávarútvegsmála.

Ég sakna þess í tengslum við umræðu um Vaðlaheiðargöngin að ríkisstjórnin segi fullum hálsi: Jú, við erum á fullu og það er að gerast núna, ekki bara einhvern tímann á næsta ári eða þarnæsta ári, og gefa sífellt loforð til okkar allra um að eitthvað raunhæft verði gert. Ég er ekkert að tala um það. Ég er þingmaður suðvesturhornsins. Ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis. En fyrir samfélagið í heild er mikilvægt að samgöngur fari af stað — þær eru reyndar byrjaðar í Helguvík þótt ríkisstjórnin neiti að horfast í augu við það — en ríkisstjórnin þvælist fyrir í því máli sem öðrum, m.a. í því verkefni sem hægt væri að fara af stað með fyrir norðan. Það er ekki hægt að setja þessar byrðar eingöngu á þá sem búa í Norðurþingi eða á Norðurlandi og segja: Þetta er þeirra mál. Þetta er nefnilega mitt mál líka. Við fáum aukinn hagvöxt í gegnum þessar framkvæmdir.

Hvernig ætla menn að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið í kjarasamningnum um 4% hagvöxt ef menn ætla ekki að gera neitt annað en að tala frá okkur erlenda fjárfestingu? Hótanir um þjóðnýtingu? Ef við hefðum ekki sjávarútveginn, ef við hefðum ekki áliðnaðinn, þá fyrst væri hægt að tala um þjóðargjaldþrot. Það eru grunnundirstöðuatvinnuvegirnir í dag ásamt ferðaþjónustunni sem halda okkur á floti. Sem betur fer eru bjartir tímar fram undan í ferðaþjónustunni, sem er náttúrlega þýðingarmikið fyrir okkur öll.

Ég set stórtækar samgönguframkvæmdir í það samhengi að við verðum að sjá hvaða umhverfi er verið að skapa og byggja upp í kringum samgönguframkvæmdir. Ég óska svara við því.

Ég vil líka gjarnan fá að vita hvaða svör hæstv. innanríkisráðherra hefur varðandi fyrirspurn mína um að mæta í þingið.

(Forseti (ÁI): Hæstv. innanríkisráðherra hefur verið gert viðvart um ósk þingmannsins og hefur hann sagst munu reyna að verða við henni svo fljótt sem auðið er.)

Ég vil þakka skjót og góð svör, hæstv. forseti, við spurningu minni þannig að það er ljóst að ef hann verður ekki mættur áður en ég lýk þessari ræðu minni óska ég eftir að verða sett á mælendaskrá að nýju til að spyrja hæstv. ráðherra ákveðinna spurninga sem ekki er hægt að líta fram hjá í tengslum við þetta mál.

Auðvitað voru það réttmætar spurningar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson setti fram í máli sínu áðan: Af hverju var þetta ekki sett fram í upprunalega frumvarpinu þar sem hæstv. innanríkisráðherra var framsögumaður en gat síðan ekki stutt það? Mönnum kann að yfirsjást, það gerist og hefur gerst á bestu bæjum. En mér er enn spurn af hverju hann var þá ekki flutningsmaður þessarar breytingar.

Ég held að ef menn ætla ekki að ræða framkvæmdir á Norðurlandi í tengslum við Vaðlaheiðargöngin verði líklegra en hitt að ríkissjóður þurfi að standa frammi fyrir því að taka yfir allt félagið þegar upp er staðið, en hann á meiri hlutann í þessu félagi, því að arðbærni framkvæmdanna mun ráðast af því hvað gert verður í atvinnumálum á Norðurlandi. Það er bein tenging þar á milli.

Ég hefði gjarnan viljað fá upplýst og hef ekki enn þá fengið svör af hálfu stjórnarþingmanna — ég held að hv. þm. Kristján Möller ætli að koma í andsvar við mig á eftir — og ekki heldur af hálfu formanns samgöngunefndar hvernig umræðan var innan hv. samgöngunefndar.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson dró það fram, og það var athyglisvert, að ákveðnir stjórnarþingmenn báðu um breytingu á dagskrá samgöngunefndar augljóslega til þess að fara út úr herberginu þegar málið yrði afgreitt svo það yrði ekki sýnilegt að ekki væri sátt um það á meðal stjórnarliða. Ég vil gjarnan fá það upplýst. Það getur vel verið að þessir hv. þingmenn hafi haft réttmæt sjónarmið og góðar ábendingar í huga í því sambandi en ég vil gjarnan fá það upplýst. Ef það verður ekki upplýst óska ég eftir því að málið fari aftur til samgöngunefndar á milli umræðna, ég held að það sé alveg ljóst.

Um leið og ég styð þetta verkefni vil ég líka fá allt upplýst í tengslum við það. Það er réttmæt krafa okkar og það er í takt við þá nýju tíma sem við höfum öll talað svo fjálglega um varðandi vinnubrögð á þingi, að við eigum að vita nákvæmlega um hvað málin snúast.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara frekar yfir málið en ég styð þessa breytingu sem gaf tilefni til umræðna um aðrar samgönguframkvæmdir, enda kemur það í rauninni fram í nefndarálitinu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Er það mat nefndarinnar að slíkar framkvæmdir hafi í för með sér aukið umferðaröryggi, aukna hagkvæmni og skilvirkni samgangna, styttri ferðatíma, lægri flutningskostnað og jöfnun aðstöðu íbúa byggðarlaga.“

Það er allt rétt sem dregið er fram hér. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra að koma í þingsal og ég ítreka spurningar mínar til hans. Nú er tíminn að verða búinn en ég mun setja mig á mælendaskrá til að fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra þeirra spurninga sem ég varpaði fram í ræðu minni. Ég styð málið eins og það er lagt fram, en það vekur upp ákveðnar spurningar, spurningar sem ég hef ekki enn þá fengið svarað við af hálfu forustumanna í samgöngunefnd.



[12:23]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf kannski ekki að fara í langt andsvar við hv. þingmann sem hefur verið að reifa samgöngumálin sem oft verða upphaf að mikilli umræðu. Tvö atriði vil ég setja fram vegna þess að þau gætu orðið til að skýra þetta mál og eiga þá um leið að verða til að stytta umræðuna og auðvelda mönnum að gera upp hug sinn. Frumvarpið sjálft, sem ég flutti á sínum tíma sem samgönguráðherra, naut víðtæks stuðnings, enginn var á móti en einhverjir sátu hjá.

Það kom fram hér áðan, og ekki bara hjá hv. þingmanni sem talaði síðast, að sú eignarnámsheimild sem verið er að setja inn með þessu frumvarpi á við bæði félögin, bæði félag sem stofnað verður utan um hugsanlegar framkvæmdir hér á suðvesturhorninu, ef farið verður í þær, samkvæmt 1. gr. laganna, og eins varðandi 2. gr. laganna, þ.e. að Vegagerðinni sé heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags með félögum sem hún fer með eignarleg eða stjórnunarleg yfirráð yfir. Lögfræðingar telja að þessi eignarnámsheimild þurfi að vera í lögum vegna þess að sennilega mun þurfa að beita eignarnámi. Sú aðferð er alltaf númer tvö, við viljum alltaf ná samningi ef þarf að fá land undir veg eða jarðgöng eins og hér.

Hitt atriðið sem er veigamikið, og ég kem betur að því í seinna andsvari mínu, sem svar við spurningu hv. þingmanns, er að verkefnið er sjálfbært og reiknað út frá núverandi umferðarmagni; 90% af því umferðarmagni eru talin fara í gegnum göngin, 10% fram hjá. Þarna er ekki gert ráð fyrir aukningu sem verður vegna framkvæmda á norðausturhorninu, það verður allt plús inn í þetta reiknilíkan.

Virðulegi forseti. Ég kem kannski að því í seinna andsvari að að mínu mati eru ekki lengur deilur um veggjaldið fyrir norðan eftir ágætan fund sem þetta félag átti með FÍB ekki alls fyrir löngu.



[12:25]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að þetta hafi skýrt ansi margt. Ég held að hv. þm. Kristján Möller hafi frekar liðkað fyrir umræðunni öfugt við það sem hv. þingmaður og formaður samgöngunefndar gerði hér áðan. Ég er fegin að heyra að þessi heimild á við um bæði félögin. Þetta voru þá réttmætar athugasemdir og pælingar af hálfu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þegar hann fór yfir þetta mál hér áðan. Mér fannst það ekki koma skýrt fram í svari hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hvað um var að ræða. Þannig að ég held að þetta sé mikilvægt.

Engu að síður er það óheppilegt að þessi heimild skuli hafa verið sett inn eftir að samningaferlið er hafið. Mér finnst það óheppilegt í þeirri mynd sem blasir við. Það kann að vera að þetta virki sem ákveðinn þrýstingur á þá eigendur landsins sem um ræðir og það er ávallt vont þegar leikreglum er breytt eftir á, en menn máttu svo sem gera ráð fyrir því að ákveðin lögjöfnun væri við þau lög sem gilda um Vegagerðina í þessum málum. Ég held því að þetta sé ekkert óeðlilegt þó að þetta sé óheppilegt.

Varðandi umferðarmagnið sem tengist Vaðlaheiðargöngunum þá hafa verið settar fram ákveðnar efasemdir um að þær forsendur standist. Ég ætla ekki að fara út í miklar deilur hvað það varðar. Ég ítreka hins vegar að ég held að mun meiri líkur séu á að þetta verkefni standi undir sér ef framkvæmdir á norðausturhorninu fara af stað. Við verðum að setja þrýsting á það. Það þýðir ekki fyrir ráðherra í ríkisstjórninni að koma með hástemmdar yfirlýsingar á nokkurra daga fresti og síðan gerist ekki neitt í þessum málum. Þar liggja mínar áhyggjur. Ég er hrædd um að ákveðin deyfð færist yfir þennan hluta landsins og það mun hafa samfélagsleg áhrif á landið allt ef ekki verður farið í þessar framkvæmdir. Slíkar ákvarðanir, þ.e. að gera ekki neitt, eins og (Forseti hringir.) manni finnst stundum að ríkisstjórnin ætli sér fyrir norðan, (Forseti hringir.) munu hafa áhrif á (Forseti hringir.) hagkvæmni og arðbærni þessarar samgönguframkvæmdar.



[12:27]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að taka af allan vafa: Auðvitað styð ég og hef alltaf gert framkvæmdir á norðausturhorninu til að nýta þá miklu orku sem þar er.

Varðandi forsendur sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni, sem eru sennilega forsendur sem FÍB lagði fram á fyrstu stigum, þá voru þær kolrangar. Eftir ágætan fund sem stjórn Vaðlaheiðarganga átti með FÍB, þar sem FÍB kynnti útreikninga sína, sagði ég: Í raun og veru þarf ekki að halda fundinum lengur áfram vegna þess að þeir útreikningar sýndu að við vorum algjörlega sammála þegar þeir voru búnir að fá réttar forsendur. Það að framkvæmdirnar séu nauðsynlegar þarf ekki inn í sjálfbærni þessa verkefnis. 850 kr. útreiknað veggjald, miðað við þær forsendur sem við höfum sett inn, mun standa undir framkvæmdinni í 25 ár. Verði umferðarmagnið meira þá styttist tíminn. Verði umferðarmagnið minna þarf að lengja lánstímann. Þetta er sjálfbært og virkilega gott verk sem við þurfum að komast í sem allra fyrst eins og önnur góð verk.



[12:28]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt að heyra. Mér finnst gott að hv. þm. Kristján Möller hefur komið hingað upp til að skýra málið betur. Það er mikilvægt að vinna svona mál í sátt og samvinnu við hagsmunasamtök eins og FÍB, sem eru gæslumenn fyrir bifreiðaeigendur hér á landi og fyrir okkur sem notum vegina. Ég er því fegin að menn eru að ná einhverjum samtóni í þessu máli.

Ef þetta er sjálfbært verkefni, ef menn þurfa ekki að borga neitt úr ríkissjóði í þessa framkvæmd og eru reiðubúnir að fara þessa leið, þá segi ég: Förum af stað. Ég er sammála því. Við eigum að drífa okkur í þessar framkvæmdir. En þetta mál býður upp á umræðu um það hvað er að gerast í samgöngumálum annars staðar á landinu, það bara gerir það.

Ég er því fegin að hæstv. innanríkisráðherra er kominn hingað til að ræða þau mál frekar en undirstrika það að við verðum að fara af stað í þær framkvæmdir sem við getum farið af stað í. Það er þjóðfélaginu öllu til heilla, hvar sem er á landinu.



[12:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði nokkuð mikið um framkvæmdir, taldi nauðsynlegt að örva þær og þar með fjárfestingu, og ég er alveg sammála því. En mér fannst hv. þingmaður horfa of mikið á opinberar framkvæmdir. Nú er það þannig að það vantar fé í ríkissjóð, það er öllum kunnugt og allir vilja ná stöðu ríkissjóðs niður.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki væri rétt að horfa á einkaframkvæmdir, þ.e. hvað einstaklingar og fyrirtæki þeirra gætu fjárfest í atvinnulífinu og af hverju ekki ætti að reyna að örva slíkar framkvæmdir sem yrðu þá ekki á kostnað ríkisins, mundu ekki kosta neinar ábyrgðir eða slíkt og gætu orðið um allt land. Hvernig ætlar hv. þingmaður að örva það? Hvernig á til dæmis þeim 60 þúsund fjölskyldum sem töpuðu hlutabréfum að detta í hug að fjárfesta aftur í hlutabréfum? Það hefur engu verið breytt. Það er alveg hægt að stela og hola fyrirtækin að innan eins og hingað til. Það hefur engu verið breytt í þeim efnum. Hvers vegna ættu menn að vera svo vitlausir að henda aftur peningum í hlutabréf? Af hverju ættu erlendir aðilar að fjárfesta á Íslandi þegar stöðugt er verið að gefa merki um það til útlanda að hér verði einkavætt, lagðir á skattar eftir á og skattar hækkaðir og allt slíkt. Hvernig sér hv. þingmaður möguleikann á að einstaklingar fjárfesti eða sér hann bara að ríkið fjárfesti með sínum takmörkuðu fjármunum?



[12:32]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er góð spurning og svarið er mjög einfalt: Það þarf að skipta um ríkisstjórn. Það er stóra svarið við spurningunni. Ég vil geta þess að ég var einmitt að reyna að draga fram aðrar framkvæmdir sem eru ekki á vegum ríkisins sem er nauðsynlegt að reyna að hvetja til að farið verði af stað með. Ég er að tala um þær opinberu framkvæmdir, upp á 6,5 milljarða, sem nú þegar er búið að gera ráð fyrir í fjárlögum. Ég spyr: Af hverju er ekki farið af stað nú þegar með þær framkvæmdir? Við erum búin að gera ráð fyrir þeim í fjárlögum. Við þurfum síðan að gera allt til að örva einkaframtakið. Það verður ekki gert með þeirri stjórnarstefnu sem er núna, með auknum álögum á fyrirtækin fyrir utan heimilin í landinu, það verður ekki gert með því að hækka tryggingagjaldið lon og don, því að það mun deyfa vilja minni og meðalstórra fyrirtækja til að fara af stað í auknar framkvæmdir og fjárfestingar. Að mínu viti þarf að breyta frá þeirri stjórnarstefnu sem nú er til að örva framkvæmdir. Það á að hætta að tala fjandsamlega til fjárfesta, ekki síst erlendra fjárfesta sem vilja koma hingað inn, og ógna þeim með því að ef þeir hegði sér ekki eins og forsætisráðherra óskar verði farið í ákveðna þjóðnýtingu.

Þannig að fyrsta svarið og augljósast er að skipta um ríkisstjórn. En ef ekki er hægt að gera það, þá er það skylda okkar í stjórnarandstöðunni að tala um fyrir ríkisstjórninni og sýna fram á að það þarf að örva fjárfestingar, við verðum að vaxa, við verðum að framleiða, við verðum að fara í að skapa — það verður ekki gert bara í gegnum opinberar framkvæmdir. Það vitum við manna best, Pétur Blöndal, ég og aðrir, ekki síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Mín ósk er sú að við notum þær heimildir sem við höfum nú þegar í lögum til að fara í einkaframkvæmdir og ekki síður í opinberar framkvæmdir. Um 16.000 Íslendingar eru atvinnulausir. Þeir þurfa að fá eitthvert svar.



[12:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú vitum við að hæstv. ríkisstjórn er mjög límsetin við stólana þannig að ég býst ekki við að það lagist neitt. Við þurfum því að lifa við það að ríkissjóður hafi lítið fé og einkaaðilar vilji ekki fjárfesta. Þá er spurningin: Eiga menn að fara út í æfingar eins og hér er verið að gera, þ.e. að fara út í ríkisframkvæmd án þess að kalla það ríkisframkvæmd, fela framkvæmdina, fela fyrir skattgreiðendum þær ábyrgðir sem í raun eru að myndast?

Varðandi það að skipta um ríkisstjórn, við skulum segja að það gerist, þá vaknar þessi spurning: Hvernig ætlum við að byggja upp traust fjármagnseigenda, einstaklinga, fjölskyldna, sem eiga eitthvert sparifé eða vilja spara, á hlutabréfum?



[12:35]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru réttmætar ábendingar hjá hv. þingmanni varðandi hlutafélagaformið í tengslum við þessar stórvirku framkvæmdir, þ.e. óttinn við þær. Þó að ríkisvaldið setji ekki neitt fjármagn í þetta hlutafélag — Vegagerðin er með 51% eignarhlut og síðan ætla menn að fjármagna þetta með lántökum sem verður síðan greitt af með því veggjaldi sem verður innheimt — þá eru það eðlilegar og réttmætar ábendingar og efasemdir sem koma fram hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar. En ég hef þá trú að ef menn hafa farið markvisst yfir það með þeim hagsmunasamtökum sem hlut eiga að máli, með þinginu og þeim sérfræðingum sem við getum kallað til, og komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að fara þessa leið án þess að það kalli á útgjöld úr ríkissjóði þá eigum við að skoða það. Við eigum að skoða allar þær leiðir sem ýta framkvæmdastiginu af stað aftur. Við verðum að gera það. Við getum alltaf fjallað um það hvaða samgönguframkvæmdir eru (Forseti hringir.) arðbærar og hverjar eru nauðsynlegar og hverjar ekki. En ég held að þetta mál sé þess eðlis og þannig unnið að réttlætanlegt sé að fara í það.



[12:36]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög freistandi að fara í mikla umræðu um þessi mál.

Spurt er: Hvers vegna er ekki farið í að verja þeim fjármunum sem eru á fjárlögum til vegaframkvæmda? Það er verið að gera það. Víða eru framkvæmdir í gangi. Annars staðar eru útboð. Þessum fjármunum verður varið í þessi verkefni og þau eru í góðum farvegi.

Hér kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins og segir: Það eru ekki til peningar í ríkissjóði. Af hverju förum við ekki í einkaframkvæmd? Það er góð hugmynd, segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, förum í einkaframkvæmd. En við megum ekki hafa ríkisstjórn sem leggur endalausar álögur á fólk. Hver á að borga fyrir einkaframkvæmdina? Hver á að borga fyrir þessar framkvæmdir? Það eru að sjálfsögðu notendur. Það eru notendur þessa lands. Notendur þessa samgöngukerfis. Þetta er náttúrlega svo galin og rugluð umræða að hún er varla sæmandi.

Ég er hins vegar kominn til að svara fyrir þetta frumvarp. Þá var spurt, skilst mér, hvort ég sé andvígur frumvarpinu, hvers vegna ég hafi ekki lagt það fram. Ég er samþykkur frumvarpinu, það var í samráði við mig sem formaður samgöngunefndar setti málið fram. Það var gert á þennan hátt vegna þess að menn trúðu því að þannig gengi það hraðar í gegnum þingið. Þetta snýr fyrst og fremst að heimildum Vegagerðarinnar til eignarnáms og þá eru menn að horfa til framkvæmda við Vaðlaheiðargöng og þótti nauðsynlegt að setja málið í gegnum þingið.



[12:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið hingað í þingið er ég ekki endilega viss um að þetta liðki allt til fyrir umræðunni. Ég mun áfram óska eftir því að vera á ræðulistanum hér á eftir.

Galin umræða. Já, ég er sammála því að hún er galin að því leyti hvernig menn nálguðust suðvesturhornið, mér fannst það galin umræða. Það er ekki hægt að segja að það sama gildi um Vaðlaheiðargöngin og um suðvesturhornið af því aðstæður eru aðrar fyrir norðan en hér fyrir sunnan; eina útgönguleið okkar sem búum á suðvesturhorninu er einmitt þessi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hann er búinn að svara einni spurningu: Hefur sá hópur sem átti að hittast í tengslum við kjarasamninga varðandi samgönguframkvæmdir hist? Hæstv. ráðherra segir að það sé farið af stað með framkvæmdir. Gott og vel. Mínar heimildir eru þær að menn séu ekki komnir nándar nærri eins langt og hægt hefði verið. Það getur vel verið að eitthvað sé að fara af stað og það er vel, en menn vilja einfaldlega fleiri framkvæmdir og að menn nýti það svigrúm sem til staðar er innan fjárlaga.

Ég vil síðan ræða sérstaklega þann fund sem ég sat með sveitarstjórnarmönnum og fleirum af suðvesturhorninu, sem hæstv. ráðherra boðaði menn á til að vera í samráði. Það er vel, ég fagna því. En hvað líður því að menn fái ákveðnar lausnir? Þeir sveitarstjórnarmenn sem komu að austan, frá Hveragerði, frá Selfossi, og fleiri bentu á að menn þurfi ekki að bíða eftir því hvort 2+2 eða 2+1 leiðin verði farin, menn geti farið af stað með ýmsar úrbætur nú þegar á Suðurlandsveginum. Af hverju er ekki farið af stað í það? Við vitum að þá var þegar farið af stað með ákveðna tvöföldun. Við erum að ræða um fleiri þætti og fleiri úrbætur á þeim vegi sem mér fannst sveitarstjórnarfólkið rökstyðja mjög vel að hægt væri að fara í.



[12:40]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeim fjármunum sem eyrnamerktir eru til nýframkvæmda í samgöngumálum, 6 þús. milljónum rúmum, verður varið til framkvæmda, það er í góðum farvegi eins og áætlanir stóðu til.

Varðandi nefndina sem ræðir framkvæmdir í tengslum við kjarasamninga þá hefur hún komið saman. Viðræður höfðu farið fram í lok síðasta mánaðar. Sú nefnd hefur komið saman.

Það er vísað í fund með sveitarstjórnarfólki af Suðurlandi og Reykjanesi fyrir fáeinum vikum, við höfum hist í tvígang. Þar kom fram mjög eindregin andstaða við vegtolla á þessu svæði, mjög afdráttarlaus andstaða gegn því.

Af hverju er ekki farið af stað með þessar framkvæmdir? Það er vegna þess að við erum komin frá árinu 2007. Við viljum sjá fyrir endann á fjármögnun á þessum miklu framkvæmdum sem þegar allt kemur saman er um 40 milljarðar kr. — 40 milljarðar á fimm árum, það er það (Forseti hringir.) sem við erum að tala um. Við viljum vita hvernig við ætlum að fara að því að borga fyrir þetta.



[12:41]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum algjörlega sammála um það. Við viljum vita hvernig þetta er borgað og við viljum að menn fari varlega með fjármuni ríkisins. En menn vilja líka framkvæmdir. Og ákveðið fjármagn er eyrnamerkt til nýframkvæmda í samgöngum. Ef hæstv. ráðherra hefði verið hér hefði hann líka hlustað á mig segja — hann hefur reyndar sagt að hann missi ekki mikinn svefn yfir því — að hlutfall nýframkvæmda á suðvesturhorninu 2008, 2009 og 2010, og ef fram heldur sem horfið verður þetta svipað, er innan við 10%. Hlutfallið til nýframkvæmda á suðvesturhorninu hefur reyndar aldrei farið yfir 20%.

Þess vegna spyr ég: Er ekki kominn tími til þess að við reynum að ýta framkvæmdunum af stað ekki síður hér á suðvesturhorninu alveg eins og annars staðar á landinu? Hér eru þarfirnar með ákveðnum hætti. Þær eru öðruvísi en annars staðar, en þeim verður að mæta. Það er hæstv. ráðherra ekki að gera.



[12:42]Útbýting:

[12:43]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. samgöngunefnd um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sem snýst aðallega um eignarnámsheimildir.

Fyrst langar mig að spyrja hæstv. forseta hvernig matarhléi verður hagað. Ég sé að flutningsmaður málsins formaður samgöngunefndar er ekki viðstaddur umræðuna. Ég hygg að hann sé í mat. Það er spurning hvort hægt sé að halda slíkri umræðu áfram þegar menn bregða sér í mat og hlýða ekki á umræðuna?

(Forseti (ÁI): Forseti vill geta þess að hv. formaður samgöngunefndar er í húsinu og á þess vegna kost á að hlýða á umræðuna.)

Jú, umræðan fer sem sagt fram í matsalnum líka. Þá vil ég byrja á því að tala um …

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því að í matsal er einnig hægt að fylgjast með umræðum í þingsal.)

Já, ég gat þess.

Ég hef margoft sagt það í gegnum tíðina að vegaframkvæmdir séu fyrir allt landið. Ég skil ekki þetta hagsmunapot og kjördæmapot og landsbyggðarpot og allt það. Ég nota jarðgöngin úti á landi og held að ég hafi notað þau öll, frú forseti. Og ég veit ekki betur en landsbyggðarfólkið bregði sér í bæinn. Það vill svo til að ríkisvaldið er statt í Reykjavík og þá þurfa landsbyggðarmenn að koma til Reykjavíkur. Ég veit ekki betur en þeir noti þá vegaframkvæmdir okkar Reykvíkinga, bæði sem ríkið fjármagnar og Reykjavíkurborg. Ég vil að menn hefji sig upp úr þeim hjólförum að tala alltaf um landsbyggð og kjördæmi o.s.frv. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar og við eigum að finna út úr því hvað er skynsamlegt að gera á hverjum stað.

Eitt af því fyrsta sem við horfum til í sambandi við vegaframkvæmdir er öryggið. Öryggið skiptir verulegu máli. Það er peningalegur kostnaður af slysum, svo að maður tali nú ekki um dauðsföll, og þau eru líka heilmikið persónulegt tap sem við verðum að koma í veg fyrir.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur nokkuð fjallað um þessi mál. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að vísa til eða lesa upp úr þeirra fréttum en þeir virðast óttast veggjöldin mjög mikið, að bifreiðaeigendur verði látnir borga veggjöld til viðbótar við þá skatta sem þeir borga í gegnum bifreiðagjöld, tolla og vörugjöld á bíla og síðan bensíngjöld og olíugjöld og alls konar gjöld sem lögð eru á umferð og hafa hækkað mikið og umtalsvert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Menn óttast að til viðbótar komi skattlagning sem ekki hefur verið hér hingað til. FÍB bendir líka á að þær áætlanir að 90% muni keyra í gegnum göngin geti verið varasamar, sérstaklega á sumrin þegar fallegt er að keyra Víkurskarðið og horfa fyrir Eyjafjörð, fyrir utan að veggjaldið er ansi hátt og ósköp lítið sparast, ég held að það séu níu mínútur sem sparast á því að keyra göngin. Þau verða myrk og dimm og ekkert voða skemmtileg þegar maður er í skemmtiferð. Ég hugsa að mjög margir velji að keyra Víkurskarðið, ég mun alla vega gera það. Áætlanir gætu að einhverju leyti verið rangar og þá getur verið að forsendur fyrir framkvæmdunum standist ekki.

Rætt var í hv. efnahags- og skattanefnd mjög ítarlega fyrir mörgum árum, þegar breyting var gerð á skattlagningu olíugjalds og bensíngjalds, að taka upp kerfi sem mér skilst að Evrópusambandið ætli að taka upp innan ekki langs tíma, sem byggir á GPS og SMS-skilaboðum þar sem verður mæld notkun bíla á hverjum stað. Það breytir náttúrlega mjög miklu í svona framkvæmdum, t.d. innheimtu gjaldanna sem kostar umtalsvert. Mér skilst að í Hvalfjarðargöngunum kosti 40–50 milljónir á ári að innheimta gjöldin. Það fellur niður vegna þess að þessi tækni mælir sjálfkrafa þegar menn fara í gegnum göngin. Það getur vel verið að framkvæmdir sem eru ekki arðbærar við núverandi stöðu verði arðbærar þegar slíkt kerfi er komið. Menn þurfa að skoða það líka í þessu samhengi. Ég hef ekki heyrt neinn koma inn á það í þessari umræðu.

Ég nefndi áður og legg mikla áherslu á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin eru sameiginlega að reyna að ná niður halla á ríkissjóði. Af hverju, frú forseti? Af hverju má ekki hafa bara halla á ríkissjóði og miklar skuldir og annað slíkt? Það er vegna þess að eftir því sem hallinn vex þá vex vaxtabyrði ríkissjóðs bæði innan lands og erlendis. Það kemur að þeim punkti í skuldasöfnun, eins og sum heimili hafa því miður kynnst, að menn ná ekki að borga niður vextina og skuldirnar aukast vegna þess að alltaf þarf að bæta vöxtum við höfuðstólinn og menn lenda í vítahring. Það verður með öllum ráðum að hindra það, jafnvel með mjög sársaukafullum niðurskurði, jafnvel með mjög sársaukafullri skattlagningu, sem ríkisstjórnin hefur farið í, eða með því að stækka kökuna eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki þreyst á að benda á. Í staðinn fyrir að flæma fólk til útlanda, sem er því miður gert í stórum stíl og ég held að sé eiginlega það hræðilegasta sem er að gerast núna, er hægt að stækka kökuna og skapa atvinnutækifæri fyrir þetta fólk með öllum mögulegum ráðum. Þess vegna nefndi ég einkafjárfestingar og hlutabréf og annað áðan. Þetta er nokkuð sem þarf að gera. Mér finnst að ríkisstjórnin sé í vaxandi mæli að plata skattgreiðendur. Það er jafnvel talað um að háskólasjúkrahúsið eigi að fara í einhvers konar hlutafélag þannig að það komi hvergi fram, það detti ofan af himnum og verði bara þarna og menn noti það og borgi svo leigu og síðan verði það vandamál framtíðarfjármálaráðherra hvernig það verði borgað. Þetta er að sjálfsögðu skuldbinding.

Ég vil líta á allar framkvæmdir þannig að ef fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar eða næsta árs vill hætta að borga viðkomandi gjöld, hvort sem það er leiga af Keflavíkurvelli eða hvað það nú er, þá megi hann gera það án þess að þurfa að borga skaðabætur. Ef það er dæmið er þetta allt í lagi. En mér sýnist einmitt með Vaðlaheiðargöng að svo sé ekki. Menn geta ekki hætt allt í einu við og sagt: Nú verða engin gjöld á þessu. Löggjafinn kemur ekkert að málinu. Við viljum hafa frelsi til að leggja á þá skatta sem okkur dettur í hug án þess að taka tillit til þessarar framkvæmdar — en þá gengur hún ekki upp. Menn munu ekki borga 1.000 kr. inn í þessi göng ef þeir geta í staðinn keyrt þá 16 km sem sparast.

Mér sýnist að verið sé að plata skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar og fleiri, og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem ég hef svo sem ekkert voðalega mikla samúð með en það er ljótt að plata fólk. Þetta er víðar. Ég benti áðan á að við gætum þess vegna sett allt menntakerfið í hlutafélag og tekið svo skuggagjöld af nemendum framtíðarinnar. Þá hyrfi það bara út úr ríkisreikningnum og þar sæjust engar framkvæmdir og ekki neitt, voða gaman. Þetta gengur náttúrlega ekki upp. Ég skil ekkert í því að menn skuli leyfa sér að tala svona.

Við erum að tala um eignarnámsheimildir. Eignarnámsheimildir Vegagerðarinnar, sem hún hefur samkvæmt lögum, á hún að geta framselt með samningi eða gert það fyrir hlutafélög sem hún hefur samið um. Þetta finnst mér vera mjög alvarlegt því að í 72. gr. stjórnarskrárinnar — ég les alltaf stjórnarskrána öðru hverju, frú forseti, mér til hugarhægðar til að halda í eitthvað — stendur, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Það er einmitt það sem er verið að gera, það er verið að segja að það sé almenningsþörf. Það er það fyrsta sem þarf að liggja fyrir. Er almenningsþörf á þessum göngum? Í öðru lagi þarf að koma fullt verð. Það höfum við rætt í umræðunni, að menn eru byrjaðir að semja við landeigendur og þá eru allt í einu sett lög á Alþingi um að eignarnámsheimildum skuli beitt í gegnum hlutafélög. Mér finnst það mjög varasamt.

Það sem mér finnst líka varasamt við þetta allt saman, þar sem hæstv. innanríkisráðherra gengur hérna fram hjá pontunni, er öll sú einkavæðing ríkisins sem felst í þessu frumvarpi. Gaman væri ef hæstv. ráðherra hlustaði á það af því að hann hefur ekki verið beint hrifinn af einkavæðingu hingað til. Kannski er hann ekkert hrifinn af þessu frumvarpi. Kannski greiðir hann atkvæði gegn því aftur eða situr hjá.

Þetta var um eignarréttinn og einkaheimildina. Þá er spurning um það sem framsögumaður málsins og meira að segja sá sem flutti það upphaflega gat um í umræðunni til að byrja með, hv. þm. Björn Valur Gíslason, að við værum í málþófi. Ég fór í andsvar. Það hefur nú ekki hingað til þótt neitt voðalega mikið málþóf að fara í andsvar þegar maður getur talað í tvær mínútur. Ég minnist þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði einu sinni í sex klukkutíma, klukkan sex um morguninn komst ég í andsvar við hann. Þá voru reglurnar öðruvísi og þótti ekki mikið að því að fara í ekta og raunverulegt málþóf. Nei, nei, ég er að tala um þetta mál af því ég hef mikinn áhuga á því og ég vil skilja það. Ég sit ekki í hv. nefnd sem um það fjallar og ég hef ekki heyrt í þeim gestum sem komu til nefndarinnar. Þess vegna veit ég ekkert hvernig stjórn þessa fyrirtækis er háttað, ég hef heyrt af því að einn hv. þingmaður sé þar í stjórn sem er fulltrúi svæðisins þess utan, þar séu sveitarfélögin líka með fulltrúa. Ég hef ekkert heyrt í þessum gestum. Ég hef heldur ekki getað heyrt í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um efasemdir þeirra o.s.frv. Það er svo langt frá því að þetta sé málþóf að ég á bara ekki orð, frú forseti. Mér finnst ég hafa talað mjög málefnalega og ég kemst varla yfir það sem ég ætla að segja.

Svo gat hv. þingmaður frekar en endranær ekki látið hjá líða að minnast á hrunið. Í hans huga er nefnilega hægt að afsaka allt með hruninu, allar þær vitleysur sem hæstv. núverandi ríkisstjórn gerir er hægt að afsaka með hruninu og það skal gert áfram vegna þess að hæstv. núverandi ríkisstjórn ber ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er bara þannig. Það er búið að klúðra kosningu til stjórnlagaþings. Það er búið að klúðra hinu og þessu. Það er búið að kæra ráðherra. Það ber enginn ábyrgð, aldrei nokkurn tímann. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Nú vill forseti spyrja hv. þingmann hvort hann eigi …)

Ég á mjög lítið eftir, frú forseti.

(Forseti (ÁI): Nú vill forseti spyrja hv. þingmann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni þar sem einn hv. þingmaður hefur óskað eftir að fara í andsvar og fyrirhugað var að halda hádegishlé milli klukkan eitt og hálftvö.)

Já, ég spurði einmitt að því áðan. Ég á mjög lítið eftir. Ég held meira að segja að ég sé nánast búinn, nema ég á einn punkt eftir. Það er það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi, að menn skyldu ekki hafa verkkvíða. Auðvitað eiga menn ekki að hafa verkkvíða, en menn eiga að hafa verkkvíða þegar þeir ætla að eyða peningum sem þeir eiga ekki, þá eiga þeir virkilega að skoða hug sinn og velta hlutunum fyrir sér: Bíðið nú við, er rétt að fara í þessar framkvæmdir sem ég á ekki fyrir? Á ég bara að vaða endalaust í einhverjar framkvæmdir og hafa ekki verkkvíða? Það er kannski það sem einkenndi útrásina um of að menn höfðu ekki verkkvíða. Þeim var alveg sama þótt allt væri gert með lánum.



[12:57]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mikið hefði ég óskað þess að fleiri hefðu verið í salnum til að hlýða á ræðu hv. þingmanns. Hann kemur með mjög skiljanlegar athugasemdir og efasemdir varðandi þetta frumvarp. Ég byggi afstöðu mína til framkvæmdarinnar á Vaðlaheiðargöngum m.a. á þeim útreikningum sem liggja fyrir og því að framkvæmdin muni ekki hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Ég treysti útreikningunum. Þess vegna var ég að reyna að draga fram hvaða aðrir þættir gætu hugsanlega haft áhrif á arðbærni þessara ganga, eins og annað framkvæmdastig á Norðurlandi o.s.frv.

Allt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni var fullgilt og þess eðlis, ekki síst í tengslum við eignarnámsheimildina sem slíka, að maður spyrji sig: Af hverju voru ekki fleiri, eins og stjórnskipunarfræðingar, sem fóru yfir þetta til að við séum trygg hér í þinginu? Það kom fram í svari hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan að eingöngu Vegagerðin hefði mætt á fund nefndarinnar. Af hverju voru ekki aðrir fengnir til að veita umsögn um þetta mál eins og FÍB og fleiri? Það hefði ekki tafið málið. Það yrði til þess að við gerðum það sem við erum öll sammála um, ynnum verk okkar betur.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hann sammála mér um að hv. samgöngunefnd eigi að taka málið aftur til sín á milli umræðna til að fara yfir athugasemdir hv. þingmanns sem og annarra sem hafa talað í þessari umræðu?



[12:59]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því. Ég gleymdi að nefna að auðvitað þarf hv. samgöngunefnd að ræða þetta mál og fara sérstaklega í gegnum það hversu miklar líkur séu á því að eitthvað falli á ríkissjóð af kostnaði fyrir þessa framkvæmd, sem nú er kominn að því er sumir telja upp í 20 milljarða. (Gripið fram í: Hvaða framkvæmd?) — Vaðlaheiðargöng. Ég hef heyrt þá tölu að með vöxtum verði kostnaðurinn 20 milljarðar en grunnkostnaðurinn 10 milljarðar. Ég vil endilega að menn spyrji að því — frú forseti, ég truflast dálítið af þessu …

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að halda einn fund hér í salnum og hlýða á mál þess sem er í ræðustól.)

Þakka þér fyrir, frú forseti.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt í öllum þeim framkvæmdum sem menn eru að fara út í þar sem einkavæða á ríkisvaldið, þ.e. þessi velferðarstjórn, vinstri stjórn, er að einkavæða ríkisvaldið, að þeir skoði hvað miklar líkur eru á því að kostnaður falli á ríkissjóð. Ef það hefði verið gert með sundlaugina á Álftanesi hefðu menn nánast strax getað sagt: Þessi fjármögnun mun lenda á sveitarfélaginu — og þá hefði átt að hætta við. Nákvæmlega eins þarf að gera með hverja einustu framkvæmd. Hvað eru miklar líkur á því að þessar áætlanir standist ekki og allt það? Oft eru þetta draumaáætlanir heimamanna. Hve miklar líkur eru á að þær lendi á ríkissjóði? Þetta verða menn að gera svo að þeir standi ekki upp eftir 10, 15, 20 ár voðalega hissa á að af himnum detti skuldbinding sem enginn vissi af, enginn skildi og enginn mundi eftir.