139. löggjafarþing — 147. fundur
 9. júní 2011.
skattar í vanskilum.

[13:57]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef fengið í hendur svar við fyrirspurn minni til hæst. fjármálaráðherra um áfallna ógreidda skatta, þ.e. skatta í vanskilum. Í lok mars á þessu ári námu áfallnir, ógreiddir skattar, skattar í vanskilum, 127 milljörðum kr., þar af er u.þ.b. helmingurinn vörsluskattar, virðisaukaskattur er stór hluti af því. Fyrirtæki þurfa að vera í verulegum vandræðum til þess að geta ekki greitt vörsluskatta, enda er þar um að ræða peninga sem fyrirtækin halda utan um fyrir ríkið og eru þegar orðnir eign ríkisins. Maður veltir því fyrir sér hvað það segi okkur um stöðu íslenskra fyrirtækja. Þetta er gríðarlega há upphæð, skattar sem ekki hafa innheimst. Er þetta ekki þrefaldur eða fjórfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans?

Að hversu miklu leyti hefur fjármálaráðuneytið gert ráð fyrir þessum ógreiddu sköttum í áætlanagerð sinni? Að hversu miklu leyti skeikar áætlunum um ríkisfjármál og stöðu ríkisins í ljósi þessara upplýsinga?



[13:58]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eftir því sem ég best veit er þetta svipuð tala og rúllað hefur á undan undanfarin ár í þessum efnum, því miður, þannig að það er ekkert nýtt við þetta. Þó að þetta séu háar tölur, það er alveg rétt, hafa jafnan verið talsvert háar fjárhæðir í vanskilum eins og það er skilgreint, gjöld sem ekki hafa verið greidd innan tilskilinna gjalddaga. Núna síðastliðin tvö ár hafa verið afskrifaðir u.þ.b. 9–10 milljarðar kr. á hvoru ári um sig af þessum stabba í lokafjárlögum. Ef eitthvað er horfir kannski heldur til betri tíðar, sérstaklega hvað varðar lögaðila sem eru í vanskilum, vegna þess að aðgerðir til að auðvelda þeim að gera upp ógreiddar eldri skattskuldir hafa skilað heilmiklum árangri og eitthvað á milli 500 og 1.000 fyrirtæki hafa nýtt sér þann möguleika að færa slíkar skuldir yfir á skuldabréf til nokkurra ára og greiða samkvæmt því. Áskilnaðurinn í þeim tilvikum er þannig að fyrirtækin komi samtímagreiðslum sínum í skil og standi síðan í skilum jafnóðum með það sem til fellur og þá er gamla skuldin greidd upp með skuldabréfinu. Ég þekki ekki nákvæmlega fjárhæðirnar sem þar eru í húfi, en það er nokkuð ljóst að sú aðgerð mun án efa skila ríkinu að lokum mun betri endurheimtum úr þessum vangoldnu sköttum en ella hefði orðið.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef „på stående fod“, svo maður sletti nú aðeins dönsku, er ekki að verða mikil breyting á þessu og minni en jafnvel hefði mátt ætla miðað við þá miklu erfiðleika sem atvinnulífið og einstaklingar hafa verið að ganga í gegnum.



[14:00]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta er töluverð hækkun á ógreiddum áföllnum sköttum. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir reyndar að fyrir árin 2009 og 2010 hafi verið afskrifaðir samtals rúmir 19 milljarðar sem bætast þá væntanlega við þá upphæð sem eftir stendur, 127 milljarðana, og ég spyr: Að hversu miklu leyti er gert ráð fyrir þessum 127 milljörðum sem eign hjá ríkinu? Hvað gera menn ráð fyrir að stór hluti innheimtist og hvað gera menn þá ráð fyrir stórum hluta af þessu sem eign í bókum ríkisins? Þetta eru slíkar upphæðir að það hlýtur að þurfa að meta það þegar menn reyna að leggja mat á stöðu ríkissjóðs.

Svo ítreka ég spurninguna um hvað þetta segir okkur um stöðu fyrirtækja þegar til að mynda vangreiddur áfallinn virðisaukaskattur nemur yfir 45 milljörðum kr. Hvaða sögu segir þetta okkur um stöðu fyrirtækjanna? Og að hversu miklu leyti er gert ráð fyrir þessum 127 milljörðum sem eign í bókum ríkissjóðs?



[14:01]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er væntanlega í bókhaldi ríkisins, þetta er fært í bókhald ríkisins og stendur þar þangað til það er afskrifað. Þegar hvert ár fyrir sig er gert upp er að sjálfsögðu eingöngu gengið út frá þeim greiðslum sem hafa verið inntar af hendi. Það er ekkert launungarmál að fyrirtækin hafa mjög mörg átt í miklum erfiðleikum og ýmislegt hefur verið gert til að aðstoða þau í þeim efnum, samanber það sem ég sagði áðan um að greiða upp vangoldna skatta, gera þá upp með skuldabréfi. Sömuleiðis má nefna þá gjalddagaaðlögun sem hefur verið í gangi og tvímælalaust hefur auðveldað fyrirtækjum að vera í skilum þó að þau fái að dreifa gjalddögum umfram það sem áður var. Ég held að það séu ekki eins miklar breytingar að þessu leyti og jafnvel mætti ætla vegna ástandsins sem hér hefur verið síðustu tvö eða þrjú árin og ekkert endilega rétt að menn gefi sér að á komandi árum verði öllu meira afskrifað en það sem þegar hefur verið afskrifað undanfarin ár. (Forseti hringir.) Að vísu hverfa sum fyrirtæki úr rekstri, eru gerð upp og ekkert fæst upp í skuldir. Skattkröfur eru ekki forgangskröfur, því miður, sem menn hefðu betur ekki breytt en þá afskrifast auðvitað í slíkum tilvikum háar fjárhæðir.