139. löggjafarþing — 147. fundur
 9. júní 2011.
samningsmarkmið í ESB-viðræðum.

[14:10]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eftir á hef ég skilning á því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkingin börðust svo mjög fyrir því að breytingartillaga sú sem ég flutti við ESB-umræðuna yrði felld. Hún fól í sér að skilyrða ætti samningsmarkmið Íslendinga gagnvart sambandinu. Það var unnið vel og lengi á bak við tjöldin að því að þetta yrði ekki að veruleika þar sem ég lagði til að þau skilyrði sem Íslendingar ættu að standa vörð um færu inn í beinan þingsályktunartillögutexta.

Hv. formaður utanríkismálanefndar taldi það óþarft vegna þess að skilyrði Framsóknarflokksins kæmu fram í greinargerð með þeirri tillögu sem síðar var samþykkt. Þessu var ég alltaf mótfallin enda hefur komið á daginn að hæstv. utanríkisráðherra virðist vera að fara með þetta umsóknarferli langt út fyrir heimildir Alþingis, meira að segja út fyrir það sem stendur í greinargerðinni sjálfri, en ekki er talað um skilyrði í þingsályktunartillögutextanum sjálfum.

Mig langar til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Er verið að vinna að einhverjum alvarlegum samningsmarkmiðum sem á að setja fyrir sjávarútveg og landbúnað í þessu aðlögunarferli? Eru fleiri skilyrði í landbúnaðarmálum en þau sem Bændasamtökin settu? Hefur ráðherrann verið beittur þrýstingi af hæstv. utanríkisráðherra í þessum málaflokkum? Að síðustu langar mig til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvað líði þessu regluverki um tollakerfið sem á að setja upp. Er enn á borðinu að það verði styrkt af Evrópusambandinu upp á 4 milljarða eða kemur íslenska ríkið til með að borga það, eins og hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra hefur hótað?



[14:12]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég minni í þessu sambandi á að í nefndarálitinu og greinargerð sem fylgdi samþykkt þingsályktunartillögunnar um að senda inn umsóknaraðild að Evrópusambandinu stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar.“

Síðan eru rakin fleiri af þessum atriðum í nefndarálitinu. Þá vil ég og vitna til þess sem stendur líka í nefndarálitinu um skilyrt umboð. Áherslan í nefndarálitinu er eins og þar stendur:

„Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Þess vegna tel ég alveg óyggjandi, eins og hv. þingmaður víkur að, að það verði tilgreint hverjir meginhagsmunir Íslands eru varðandi þessar aðildarviðræður. Auðvitað stillum við þeim upp og að sjálfsögðu víkjumst við ekki undan þeim nema það komi þá aftur inn til Alþingis.



[14:14]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum góð svör. Ég var spurð hvernig hægt væri að vera í óundirbúnum fyrirspurnatíma þegar ráðherra kemur með skjölin og les upp. Ég get ekki að því gert hvað leynist í bunka ráðherrans, en tek fram að þetta var svo sannarlega óundirbúin fyrirspurn úr því að samfylkingarþingmenn hafa áhyggjur af því. (Gripið fram í.)

Staðan virðist þá vera sú, eins og ég vissi, að ráðherrann stendur fast í fæturna gegn þessu aðlögunarferli, m.a. vegna þess sem stendur í þessari þingsályktunartillögu og eins vegna lífsskoðana hans og kosningaloforða. Það sem mig langar til að fá nánar í ljós hjá hæstv. ráðherra er í hvaða ferli ráðherrann sjái málið nú fara þar sem samninganefnd Evrópusambandsins lét hafa eftir sér að Íslendingar mundu ekki breyta Evrópusambandinu og það væri komið að leiðarlokum þess. Ég er að vísa í frétt sem birtist í Bændablaðinu um að nefndin mundi jafnvel hætta viðræðum ef ekki yrði gefið eftir. Sér ráðherrann (Forseti hringir.) eitthvað fyrir sér að sá dagur gæti verið að renna upp?



[14:15]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það að ég þekki málið varðandi þessa fyrirspurn. Hins vegar eru ákveðin atriði sem ég geng alltaf með á mér. Það eru ákveðin grundvallaratriði til þess að hæstv. utanríkisráðherra — honum dettur aldrei í hug að beita mig þrýstingi. Við vitum nákvæmlega um skoðanir hvor annars í þessu efni og hann vinnur það út frá sínum forsendum og ég mínum. Það er skýr skilningur milli okkar tveggja í þessum efnum. Við förum þar eftir samþykki Alþingis, eins og hv. þingmaður minnir á, og pössum hvor upp á annan í þeim efnum.

Varðandi aðildarferlið eða umsögnina um landbúnaðarkaflann á Evrópusambandið eftir að „opna“ kaflann eftir rýnivinnuna og meta síðan (Forseti hringir.) framhaldið í þeim efnum. Evrópusambandið er í þessum málum á sínum forsendum og við á okkar.