139. löggjafarþing — 147. fundur
 9. júní 2011.
áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða.

[14:17]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum til meðferðar í þinginu svokallað minna frumvarp um sjávarútvegsmál sem mælt var fyrir í lok maí og hefur verið keyrt á alveg ótrúlegum hraða í gegnum þingið. Það var rifið út úr nefnd óunnið, eða hálfunnið vil ég segja, í gærmorgun.

Þetta er mjög umdeilt mál og hefur vakið hörð viðbrögð allra umsagnaraðila sem tjáð sig hafa um það, bæði þeirra sem nefndin óskaði umsagna hjá og líka annarra, t.d. lagasérfræðinga á þessu sviði, sem sent hafa nefndinni athugasemdir að eigin frumkvæði. Allar eru þær á sama veg, alltaf er varað mjög við afgreiðslu málsins á þessum nótum.

Það vekur athygli að í gögnum með frumvarpinu koma fram mjög alvarlegar athugasemdir frá fjármálaráðuneytinu og er þar ýjað að því að ákvæði í frumvarpinu geti stangast á við stjórnarskrá. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi hvort það hafi ekki vakið athygli hennar og hvort henni hafi þótt eðlilegt að afgreiða í gegnum ríkisstjórn og þingflokka frumvarp sem fylgdu svo alvarlegar athugasemdir frá einu ráðuneytanna.

Í athugasemdum frá öðrum aðilum er sérstaklega tekið fram að menn óttist heildaráhrif frumvarpsins á atvinnugreinina. Hagfræðileg úttekt hefur ekki verið gerð. Hagfræðingar áttu að skila skýrslu í síðustu viku, hún er ekki enn komin. Þá var talað um að hún kæmi fram í lok þessarar viku. Hún er grundvöllur þess að hægt sé að gefa málinu faglega umfjöllun (Forseti hringir.) og fara yfir það. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvað líði þessari skýrslu.



[14:19]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja, af því að ég hef orðið vör við að sá hv. þingmaður sem beinir fyrirspurn til mín kallar þá sem hér stendur friðarspilli og splæsir á hana heilli grein í Morgunblaðið af því tilefni, að mér finnst ég ekki bera þessa nafngift með rentu. Ég hef lagt mig mjög fram um að leita sátta í þessu máli og finna lausn á því sem er til þess fallin að hægt sé að afgreiða málið úr þinginu.

Að því er varðar fyrirspurn hv. þingmanns þar sem hann er að tala um áhrifin á stjórnarskrána og álit fjármálaráðuneytisins í því efni verð ég að segja að þó að álitið komi frá fjármálaráðuneytinu tel ég mjög hæpið að það standist að þessi ákvæði brjóti í bága við stjórnarskrána þó að vissulega þurfi að skoða það. Ég hef minnst á í því sambandi að árið 2007 þegar aflabrestur varð, voru ákvarðaðar 750 milljónir á þremur árum til þeirra sveitarfélaga sem orðið höfðu fyrir aflabresti. Þar var ákveðin skilgreining og það eru þau ákvæði sem fjármálaráðuneytið gerir athugasemdir við, að þetta skiptist misjafnlega milli sveitarfélaga. Þar er miðað við löndunina núna, í hvaða sveitarfélögum er landað, þannig að þeim hluta veiðigjaldsins sem fer til sveitarfélaganna er skipt samkvæmt því.

Ég veit að margir gera athugasemdir við það og mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það mál og ganga alveg úr skugga um hvort það brjóti í bága við stjórnarskrána, en ég tel að svo sé ekki.

Varðandi þau álit sem beðið er eftir hefur það verið á forsjá sjávarútvegsráðherra og ég hef verið að reyna að reka á eftir því eins og hægt er, en þeir aðilar sem vinna að málinu telja sig þurfa þennan tíma. (Forseti hringir.) Eftir því sem ég hef spurnir af átti niðurstaða að koma núna fyrri hluta þessa mánaðar. Þá förum við yfir málin með Samtökum atvinnulífsins, eins og kveðið er á um í bókun við kjarasamningana.



[14:21]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ég hef kallað hana friðarspilli í þessu máli og ég stend við það. Ég legg þar til grundvallar ítrekuð ummæli hennar á opinberum vettvangi í garð þeirra sem starfa í þessari grein og hafa starfað um áratugaskeið. Er þar kannski lítill greinarmunur gerður á smáum og stórum. Eins það hvernig hún hefur oft hagað orðum sínum gagnvart þeim sem unnið hafa af heilindum í sáttanefndinni og komist þar að sameiginlegri niðurstöðu. Þá á ég við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna, hvernig meðhöndlun við höfum fengið frá hæstv. ráðherra í umræðunni undanfarið.

Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því, af því að hún dregur í efa að umsögnin frá fjármálaráðuneytinu standist, hvort hún hafi eitthvert lögfræðilegt álit í höndunum, hvort hún hafi látið framkvæma lögfræðilega úttekt í ráðuneyti sínu á því að þarna sé farið með rangt mál.

Ég vil einnig inna hana eftir því hvort henni finnist eðlilegt að ekki sé búið að vinna þessa hagfæðilegu úttekt. (Forseti hringir.) Enn liggur ekki fyrir hin mikilvæga niðurstaða varðandi hagfræðileg áhrif á málaflokkinn og þar með þjóðhagsleg áhrif. Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að við afgreiðum (Forseti hringir.) málið áður en sú niðurstaða liggur fyrir og menn geta tekið þetta til eðlilegrar málefnalegrar umfjöllunar?



[14:23]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú ofsagt sem hv. þingmaður segir og ég hef heyrt aðra þingmenn segja, að ég hafi kallað þá sem starfa í þessari grein öllum illum nöfnum. Það er ekki rétt. Ég hef bara farið með staðreyndir í þessu máli, ég hef sagt að um langan tíma, tvo áratugi, hafi verið ósætti um fiskveiðistjórnarkerfið. Því er verið að reyna að breyta í þessu máli, m.a. er verið að reyna að koma á meira jafnræði í greininni og koma í veg fyrir að þeir sem hafa aflaheimildirnar fénýti þær og taki himinháa leigu af þeim sem þurfa að leigja aflaheimildir. Það hef ég vissulega sagt. Ég hef kallað eftir meira jafnræði og nýliðun í þessari grein og ég segi ekkert annað en sannleikann í því máli.

Ég hefði talið æskilegt að þessar álitsgerðir hefðu legið fyrir fyrr og hef rætt það við sjávarútvegsráðherra. En þessir aðilar töldu sig þurfa þetta langan tíma í málinu. En ég veit ekki hvort það þarf að koma að sök í þessu máli vegna þess að við höfum frestað stóra málinu (Forseti hringir.) fram á næsta ár þannig að það er einungis hið minna mál sem verið er að afgreiða. Ég tel að það þurfi ekki að hafa nein slæm áhrif á greinina sem græddi t.d. 45 milljarða kr. á árinu 2009.