139. löggjafarþing — 147. fundur
 9. júní 2011.
fullgilding Singapúr-samnings um vörumerkjarétt, síðari umræða.
stjtill., 677. mál. — Þskj. 1194, nál. 1527.

[19:26]
Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Singapúr-samnings um vörumerkjarétt.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á Singapúr-samningi um vörumerkjarétt sem var gerður á ríkjaráðstefnu á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar um samþykkt endurskoðaðs samnings um vörumerkjarétt sem haldin var í Singapúr í mars 2006.

Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að markmið samningsins sé að koma á samræmdu alþjóðlegu skipulagi fyrir skráningu vörumerkja. Hér er m.a. tekið tillit til breytinga sem orðið hafa í samskiptum og t.d. er gert ráð fyrir að umsóknir um vörumerki geti verið með rafrænum hætti.

Þetta er í fyrsta sinn sem óhefðbundin merki eru viðurkennd í alþjóðasamningi um vörumerki. Samningurinn tekur þannig m.a. til heilmynda, mynda í þrívídd, litar, staðsetningar og hreyfingar merkja og einnig ósýnilegra merkja, svo sem hljóð-, lyktar-, bragð- og snertimerkja.

Nefndinni er kunnugt um að samhliða þessari þingsályktunartillögu hefur efnahags- og viðskiptaráðherra flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum, og er það til umfjöllunar í viðskiptanefnd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Birgitta Jónsdóttir er með fyrirvara við álitið og sá fyrirvari lýtur að vörumerkjarétti á ósýnilegum óhefðbundnum hlutum eins og bragði, hljóði, lykt og snertingu.

Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara, eins og áður segir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.