139. löggjafarþing — 148. fundur
 10. júní 2011.
nálgunarbann og brottvísun af heimili, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 706. mál (heildarlög). — Þskj. 1225, nál. 1628, brtt. 1629.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:19]

[11:13]
Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það var skrifað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að taka upp hina svokölluðu austurrísku leið sem felur í sér að ofbeldismaður er fjarlægður af heimili sínu til að vernda aðra heimilismenn. Fórnarlömb ofbeldis þurfa því ekki lengur að flýja heimili sín, en það er nöturlegur veruleiki sem sumir, því miður, hafa þurft að búa við. Þetta er mikið framfaraskref og mikil réttarbót fyrir brotaþola sem í þessu er fólgin og jákvæður áfangi. Ég þakka þann þverpólitíska stuðning sem verið hefur við þetta mál á þinginu.



[11:14]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í dag getum við sýnt þá staðreynd að við stöndum með þeim sem beittir eru ranglæti og viðurkennum að réttur þeirra sem búa við ofbeldi á heimilum sínum hljóti að vega þyngra en réttur þeirra sem beita ofbeldi. Hér kemur fram sú mikilvæga sýn að heimilisofbeldi er ekki einkamál heldur alvarlegt mein sem varðar samfélagið í heild og nauðsynlegt er að bregðast við. Hér er um verulegt réttlætismál að ræða sem ég fagna að nú lítur allt út fyrir að nái loksins fram að ganga eftir margra ára baráttu ýmissa aðila jafnt hér á þingi sem og ýmissa hagsmunasamtaka utan þings.



[11:15]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég segi bara loksins, loksins, loksins, og ég segi já.



[11:15]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis fagna þessum áfanga og samstöðu um að afgreiða þetta mikilvæga mannréttindamál sem ákvæðið sannarlega er. Evrópuráðið hefur rannsakað og borið saman árangurinn af mismunandi aðferðum í þessum efnum og þar á meðal og ekki síst austurrísku leiðina svonefndu og niðurstaða af rækilegri skoðun þar, bæði í mannréttindanefnd Evrópuráðsins og nefnd um jafnan rétt og jafna möguleika karla og kvenna, var að hvetja aðildarríki til að fara þessa leið og fyrir því höfum við, mörg hver hér, barist lengi.

Ég fagna þessu sérstaklega. Þetta kostar ekki peninga og er kannski ekki stórt mál í hugum margra en í mínum huga er það mjög stórt og bætist við mörg önnur góð mál á sviði mannréttinda- og jafnréttismála sem þokast hafa í rétta átt á þessu kjörtímabili.



[11:16]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem við erum að afgreiða á rætur sínar nokkur ár aftur í tímann. Það er rétt sem fram hefur komið að hér hafa um nokkurt árabil verið flutt þingmannafrumvörp, m.a. af hálfu hv. þáverandi þingmanns, Kolbrúnar Halldórsdóttur o.fl., sem urðu til að koma þessu máli á dagskrá. Árið 2008 var málið tekið til gagngerrar umræðu í allsherjarnefnd og í lok þeirrar vinnu var hv. dómsmálaráðuneyti, þáverandi, falið að vinna tillögur sem skila sér í því frumvarpi sem hér lítur dagsins ljós. Þær eru vel unnar og vel útfærðar og allsherjarnefnd hefur náð góðri samstöðu um meðferð þeirra og er full ástæða til að fagna þeirri lagasetningu sem nú er að verða að veruleika á þessu sviði.



[11:17]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna sérstaklega því stóra framfaraskrefi sem menn eru að taka hér. Einhvern tíma verður sagt: Það er undarlegt að þetta skuli ekki hafa verið orðið að lögum löngu fyrr. En það var ekki sjálfsagt mál þegar Kolbrún Halldórsdóttir hóf þessa baráttu í þingsölum ásamt þingmönnum úr öðrum þingflokkum. Nú er um þetta þverpólitísk samstaða, framfaramál sem allir fagna. Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn, Kolbrúnu Halldórsdóttur og öðrum þingmönnum.



 1. gr. samþ. með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AMG,  ALE,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BaldÞ,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HuldA,  ÍR,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  JRG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SER,  SIJ,  SKK,  SkH,  SJS,  SSv,  TÞH,  VBj,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
15 þm. (AtlG,  ÁJ,  GLG,  GStein,  HöskÞ,  ÓÞ,  ÓN,  SDG,  SII*,  SF,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að honum láðist að styðja á hnapp í atkvgr.; sjá greinargerð með atkvæði.]

1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að lögfesta enn eitt mannréttindamálið í stjórnartíð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég fagna því að við erum nú, Alþingi, að ákveða að þolendur í ofbeldi í nánum samböndum njóti friðhelgi einkalífsins. Í stað þess að búa við þann ótta að þurfa að fara út af heimili með börn, jafnvel um miðjar nætur, geta nú þolendur ofbeldis fengið að vera á sínu heimili en gerendurnir eru fjarlægðir út af heimilinu.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði eru þetta löngu tímabær mannréttindi til handa þolendum ofbeldis og ég fagna því að fá tækifæri til að taka þátt í að segja já við þeirri lagasetningu.



 2.–3. gr. samþ. með 49 shlj. atkv.

Brtt. 1629,1–6 samþ. með 49 shlj. atkv.

 4.–20. gr., svo breyttar, samþ. með 47 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AMG,  ALE,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BaldÞ,  BirgJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HuldA,  ÍR,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  JRG,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SER,  SII,  SIJ,  SKK,  SkH,  SJS,  SSv,  TÞH,  VBj,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
1 þm. (KÞJ*) greiddi ekki atkv.
15 þm. (AtlG,  ÁJ,  BÁ,  GLG,  GStein,  HöskÞ,  ÓÞ,  ÓN,  SDG,  SF,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að hann studdi á rangan hnapp í atkvgr.; ætlaði að segja já.]

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.