139. löggjafarþing — 151. fundur
 11. júní 2011.
stjórn fiskveiða, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 826. mál (strandveiðar, aflamark, veiðigjald o.fl.). — Þskj. 1474, nál. 1692, 1709 og 1710, frhnál. 1761, brtt. 1693 og 1762.

[09:32]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er allsérstakt bæði að innihaldi og efnistökum. Það liggur í rauninni fyrir að í hvert sinn sem það er tekið til umfjöllunar tekur það einhverjum breytingum í þinginu. Svo furðulegt sem það er boðuðu þeir stjórnmálaflokkar sem hlutu meiri hluta í kosningum vorið 2009 gagngera endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og settu þau ákvæði í stjórnarsáttmála sinn að gera þær breytingar þar á, ef ég man rétt, sem tækju gildi við upphaf næsta fiskveiðiárs eftir að stjórnin var mynduð. Fyrir utan það að síðan eru liðin tvö ár hafa þessir tveir stjórnmálaflokkar allt frá upphafi haft fullt tækifæri til þess að leggja fram breytingar, vel grundaðar breytingar á kerfinu og fá til þess umboð kjósenda að gera þær ef þær féllu þeim í geð. Þrátt fyrir það hefur þeim ágætu stjórnmálaflokkum ekki enn tekist að koma þeim breytingum til framkvæmda sem þeir segjast hafa staðið fyrir að gera fyrr en nú í formi þeirra tveggja lagafrumvarpa sem í rauninni bera þess merki að hið svokallaða stóra frumvarp er mál Samfylkingarinnar og hið svokallaða minna frumvarp er mál Vinstri grænna.

Nú liggur fyrir að stóra frumvarpinu hefur verið velt áfram til næsta þings. Þar er boðin heildarendurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni og þá væntanlega í meira samráði en fram til þessa hefur verið, því það var raunar með ólíkindum að horfa til þess hvernig fór um þá breiðu samstöðu sem náðst hafði um að ólíkir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálaöfl, ólíkir hagsmunaaðilar, ætluðu sér að leggja saman í þá vegferð að vinna að setningu nýs fiskveiðistjórnarkerfis. Það verk náði þeim áfanga að endurskoðunarnefndin skilaði af sér áfangaskýrslu en við skil hennar slitnaði upp úr þegar formaður nefndarinnar yfirgaf starfið fyrir hönd Samfylkingarinnar og sagði öllum öðrum stríð á hendur með frekara samráð. Það gekk ekki eftir og afraksturinn af þeirri óeiningu sem það skapaði birtist okkur í þeim óvönduðu lagafrumvörpum sem lögð hafa verið fram í framhaldinu.

Eins og ég nefndi áðan liggur fyrir hið svokallaða minna frumvarp, frumvarp Vinstri grænna með þeirra áherslum. Maður skyldi ætla miðað við hvernig stjórnarflokkarnir hafa talað á undanförnum árum að gríðarleg gleðibylgja hefði gripið um sig meðal þjóðarinnar þegar frumvörp þeirra komu fram. Svo undarlegt sem það er eru viðbrögð þeirra sem vinna í sjávarútvegi beint og í afleiddum störfum, um það bil 30 þúsund Íslendinga, þ.e. sjómanna, ASÍ, félaga útgerðarmanna, félaga fiskvinnslufólks víða um land, sveitarstjórna og þannig mætti lengi áfram telja — allir þessir aðilar gjalda varhuga við þeim málum eins og þau eru lögð upp.

Það er ekkert skrýtið vegna þess að eins og þetta liggur fyrir er sama verklaginu haldið áfram og hefur í rauninni skapað mestu óeininguna um sjávarútveginn á undanförnum árum, þ.e. auka það sem ég vil kalla millifærsluréttinn hjá stjórnmálaöflum landsins til þess að hlutast til um og grípa inn í atvinnugreinina. Svo virðist vera að ekki sé hægt að ná samstöðu um þá aðferð, því verði að bregðast við með einhverjum öðrum hætti.

Ég skynja alls staðar mjög mikla andstöðu við það frumvarp sem liggur fyrir í þeirri mynd sem það hefur verið kynnt almenningi og þeim sem áhuga hafa á, hvort heldur þeir hafa beina afkomu af greininni eða eru einskærir áhugamenn um sjávarútveg.

Reglan sem reynt er að styrkja í sessi í frumvarpinu og innleiða í stjórn fiskveiðimála er millifærsla vandamála með útkomunni enn stærri mínus fyrir alla heldur en áður var. Um þetta millifærslukerfi eiga stjórnmálamenn að véla, eins og við höfum séð á síðustu sólarhringum hér í þinginu, þar sem mikill ágreiningur hefur verið uppi í öllum þingflokkum um það hvernig eigi að taka á þeim viðfangsefnum sem uppi eru.

Í umræðunni um sjávarútveginn hefur oft og tíðum farið mikið fyrir því sjónarmiði að kappkosta verði að sem flestir geti fengið að veiða, nýliðun í útgerðinni sé svo bráðnauðsynleg og ekki ætla ég að gera lítið úr því, alls ekki. En kerfið sem við höfum byggt upp gerir þeim sem eiga best færin til þess, í ljósi þess hvernig þeir hafa hagað sér í sjávarútvegskerfinu, að koma sér inn sem nýliði á þeim grunni sem ég kalla millifærslukerfi vandamálanna, þ.e. þegar stjórnmálamennirnir eru með puttana á púlsinum í þessu og geta úthlutað takmörkuðum gæðum eins og þeim sýnist.

Ég vil hins vegar benda á í þessu sambandi þegar við ræðum sjávarútvegsmál að eitt er veiðar en annað er reynsla og hið þriðja er markaðssetning þeirra afurða sem þetta skapar. En sjónarhorninu og fókusinum er oftast nær í umræðunni fyrst og fremst beint að réttinum til þess að róa út á sjó og draga fisk á land. Ef við lítum yfir sviðið og íhugum breytingarnar í íslenskum sjávarútvegi á síðustu árum, þá eru á þessari hlið málsins ekki miklar breytingar í sjálfu sér að finna. Grundvallaratriðin eru enn fyrir hendi, þ.e. menn róa til sjávar, sækja fisk úr sjó og draga hann að landi. Stærstu breytingarnar í sjávarútvegi lúta að vinnslu aflans og markaðssetningu.

Í umræðunni um breytingar á fiskveiðistjórninni virðist mér oft að menn sýni ekki nokkurn einasta áhuga né hafi neinar áhyggjur af því. Í það minnsta hef ég aldrei heyrt neinn minnast á að bráðnauðsynlegt sé að stuðla að nýliðun í fiskvinnslu eða nýliðun í markaðssetningu. Þetta snýst alltaf um öngulinn og árina. Sjávarútvegur er bara allt annar atvinnuvegur í dag en hann var fyrir fimm árum, hvað þá 10 eða 20 árum.

Ég fordæmi þær aðfarir sem gerðar eru að fyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í því að leggja saman alla þessa þrjá meginþætti í atvinnugreininni. Í umræðunni hér hefur borið í mínum huga allt of lítið á þeim áherslum sem lúta að því að gefa fólki skjól sem starfar í atvinnugreininni vítt um land, ekki til sjós, heldur í fiskiðjuverum og í öflugustu markaðsfyrirtækjum landsins. En í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er því ágæta fólki kastað til og frá, ekki hafðar neinar áhyggjur uppi í þeim efnum og því síður eru menn að hugleiða hvað störf þess, fagþekking, leggur til þess að búa sem mestan arð úr þeim afla sem dreginn er úr sjó. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr sjómennskunni, langur vegur frá. Það stæði síst á þeim sem hér stendur að gera slíkt.

Ég veit að í því verki sem hér liggur fyrir eru flestir sem að því hafa komið með hundshaus. Það er engin almenn ánægja með þær tillögur sem liggja fyrir. Það er hins vegar eitt sem sameinar þá sem að þessu hafa komið, þ.e. að allir eru sammála um að gera þurfi einhverjar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. En flestir eru sammála um að þær tillögur sem hér liggja fyrir séu þess eðlis að engin sátt sé um þær. Við höfum þó á þessum tímapunkti náð þeim áfanga að þokkaleg sátt virðist vera um það og samkomulag að við ætlum okkur að gera breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við undanfarin ár, en þá þarf að gæta allra sjónarmiða í því. En því miður hefur borið á því að það hefur ekki verið gert.

Ég nefndi það í andsvari í gær við hv. formann í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að það væri raunar einkennileg staða sem uppi væri ef maður lítur til umræðunnar eins og hún hefur verið á undanförnum árum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í þessum pólitíska slag málsins, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sagður helsti varðstöðumaður LÍÚ sem hefur verið svona ímynd alls hins versta af andstæðingum grunnreglunnar í fiskveiðistjórnarkerfinu, þá háttar svo til að sú breytingartillaga sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar mælir fyrir lýtur að því að LÍÚ sé gefin heimild til þess að vinna með beinum hætti að framkvæmd þess frumvarps sem formaðurinn mælti fyrir um í gær.

Ég fullyrði, forseti, að aldrei í margumræddri og átakasögu fiskveiðistjórnarkerfisins hefur komið fram önnur eins tillaga á Alþingi frá nokkrum stjórnmálaflokki með þeim sama hætti og hér birtist, að LÍÚ sé falið tiltekið verk við stjórn fiskveiða. Það er raunar alveg stórkostlegt að horfa upp á þetta og sérstaklega þegar það kemur úr þeim ranni sem raun ber vitni. Maður hefði frekar búist við, miðað við hvernig umræðan á undanförnum árum hefur verið og áróðursstríð, að slík tillaga ætti að koma úr allt, allt annarri átt en raun ber vitni um.

En það sem vil ég segja um þessi mál undir lok máls míns er að það ber allt of mikið á því í umræðunni, þegar ólíkir hópar setja fram hugmyndir eða einstaklingar eða hvað eina, að menn eru ekki með heildarhagsmuni þjóðarinnar undir í þeim efnum. Þetta er rifið og tætt í sundur á grundvelli átaka sem byggja á misþröngum hagsmunum. Við höfum séð það ágætlega í átökum síðustu daga hvernig m.a. útgerðarflokkar hafa tekist á. Við höfum séð hvernig einstaka landshlutar hafa verið að takast á, og fleiri aðila gæti ég nefnt. Þetta er ekki boðlegt lengur. Atvinnugreinin í heild sinni líður fyrir þetta. Þjóðin líður fyrir þetta.

Ég stóð í þeirri meiningu að samkomulag væri orðið um það að allir þeir aðilar sem tengjast þessu með beinum eða óbeinum hætti hefðu gert með sér samkomulag um að reyna að vinna að framgangi breytinga með öðru móti en raun ber vitni. Sá friður var rofinn með þessum frumvörpum. Þetta er gríðarlega illa unnið verk ef maður getur komist svo að orði. Það leggur ekki fyrir neitt einasta mat á því hvaða áhrif þetta muni hafa, hvort heldur er á atvinnugreinina sjálfa, þjóðina sem heild eða afkomu þjóðarbúsins eða hvernig við ætlum með þeim breytingum sem mælt er fyrir að auka hagsæld þjóðarinnar. Þegar við erum að ræða grundvallarstoð íslensks atvinnulífs getum við ekki leyft okkur að umgangast hana með þvílíku virðingarleysi. Ég vænti þess að hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd geri breytingar á milli umræðna á þessu máli.



[09:48]
Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur. Ég var stödd í Vestmannaeyjum í sól og blíðu og það ríkir alltaf sérstakur andi á sjómannadaginn fyrir okkur í sjávarbyggðunum. Menn eru glaðir og stoltir af árinu. Það er gleði yfir því að allir hafi komið heilir heim en þennan sunnudag var eitthvað undirliggjandi. Það voru óttinn og óvissan og óöryggið sem hafa aldrei verið meira í kringum greinina en nú. Þessi svokallaða sáttanefnd lagði af stað inn í veturinn með ákveðinn ramma um hvernig hægt væri að nálgast hlutina og hvernig hægt væri að gera þá til þess að ná sæmilegri sátt. Það hefur verið yfirlýst markmið þessarar ríkisstjórnar að ná sæmilegri sátt um sjávarútveginn.

Ég hef ekki enn þá getað fundið neitt sem segir að það muni takast, að þetta sé að koma, að þetta sé akkúrat sú vegferð sem lagt var í og það hafa ekki heldur þeir stjórnarliðar sem komið hafa að þessu máli og framlagningu þess í þinginu og á kynningum. Þeir eru ekki sáttir. Það á að berjast áfram. Það á að breyta og gera eitthvað og það skiptir engu máli hvað kemur út úr einhverjum hagfræðilegum úttektum, þetta skal vera svona af því að það er mín skoðun.

Síðan í september hafa fæðst tvö frumvörp; samfylkingarfrumvarpið, stóra frumvarpið svokallaða, sem sett var í endurvinnslu og veitti ekki af. (Gripið fram í: Þú veist ekkert um hvað þú ert að tala.) Það var tekið út úr þinginu af því að það var algjörlega á hreinu að það kæmist ekki í gegn í því formi sem það var.

Við ræðum hér VG-frumvarpið, litla frumvarpið, og það er ekki sátt um það. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) talar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn í því máli.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég veit nú ekki betur en að komið hafi fram í máli nánast allra sem talað hafa í þessu máli að í öllum þingflokkum séu skiptar skoðanir um þessi mál og sérstaklega þetta litla mál þar sem það er til umræðu. (Gripið fram í: Samanber nefndarálitið.) Samanber nefndarálitið.

Það verður ekki deilt um að þær athugasemdir sem komið hafa við litla frumvarpið eru nánast allar á sama veg; það er mjög gagnrýnt. Vinnubrögðin við frumvarpið eru gagnrýnd. Vísa ég þá til þeirra umsagna sem Sjómannasambandið, Helgi Áss Grétarsson, ASÍ og fleiri gáfu um það.

Heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu er það sem er sátt um að gera. Það þarf að breyta kerfinu. Við erum öll sammála um það. En það þarf að leggja í það vinnu. Það þarf að leggja mat á þær aðgerðir og þær breytingar sem gera þarf áður en farið er af stað með þær.

Hv. þm. og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, mælti fyrir nefndaráliti í gær. Í andsvörum kom fram að hún væri ekki sátt við niðurstöðuna, hún hefði viljað ganga lengra. Hún talaði um að þetta væri ísbrjótur og að hún færi með það sem út úr frumvarpinu kom sem veganesti inn í þá vinnu sem fara á fram í sumar gagnvart heildarendurskoðuninni. Mér fannst engin sérstakur sáttatónn í hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það hræðir mig að við getum ekki reynt að koma á vinnulagi — þrátt fyrir að ákveðnir hv. þingmenn hafi verið að kalla fram í ræðu mína — þegar við ætlum að taka ákvarðanir um breytt skipulag á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það skapar ekki meiri sátt en er um kerfið í dag að fara fram með þeim hætti sem gert var núna.

Komið hefur fram í máli þeirra sem mælt hafa fyrir nefndaráliti meiri hlutans að í þessu frumvarpi séu pólitískar áherslur. Ég deili því ekki. Þetta eru pólitískar áherslur. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur lagt mikla áherslu á atvinnusköpun með strandveiðum og verndum sjávarbyggða. Það hefur verið tónninn í ræðum hennar. Ég hefði gjarnan viljað hafa hana hér í salnum af því að mig langar að vita hvaða sjávarbyggðir hún er að tala um. Mig langar að vita hvaða atvinnutækifæri hún skapar með því að færa vinnu frá einum til annars. (Gripið fram í: Hvar er formaður nefndarinnar? …)

Að auka pólitískar útdeilingar á pottum og að auka vægi ráðherra við ákvarðanatöku og breytingar og reglugerðasetningar í kerfinu er ekki til þess fallið að auka sátt um kerfið, það gengur bara ekki. Það á að gera breytingar á kerfinu að vel athuguðu máli en þær þarf að gera. Það á að setja það inn í stjórnarskrána. Það er samkomulag um að auðlindirnar séu í þjóðareigu og að það eigi að vera algjörlega á hreinu, það er ekki deilt um það. Það er heldur ekki deilt um að það eigi að gera nýtingarsamninga. Það er ekki deilt um að á auðlindum landsins eigi að vera einhvers konar skattlagning.

Það er heldur ekki deilt um að það þurfi að vera einhvers konar samfélagslegar aðgerðir eða samfélagslegir pottar til að koma á móts við áföll. Það þarf líka að vera arðsemi í greininni svo hún geti skilað einhverju til þjóðarinnar. Á því á að byggja og það á líka að byggja á því að hagfræðileg úttekt sé gerð á þeim breytingum sem gera á á kerfinu og lagt af stað eftir að sú úttekt liggur fyrir.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni áðan að við höfum svolítið gleymt í allri þessari umræðu um sjávarútveginn og um það hverjir fá að sækja sjóinn og hvernig, að ræða vinnsluna og markaðssetninguna, sem hlýtur að vera hluti af sjávarútveginum, sem hlýtur að vera hluti af því hvernig við ætlum að fá tekjur og arðsemi af greininni. Það getur bara ekki annað verið en að við viljum hámarka það sem við fáum út úr greininni.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvort búið sé að taka á þeim alvarlegu athugasemdum öllum sem eru í frumvarpinu varðandi stjórnarskrána í ljósi þess að mikið er rætt um að búið sé að gera breytingar á frumvarpinu sem verði til þess að meiri sátt verði um það. Það kom ekki fram í gær. Það kom að mínu mati heldur ekki fullnægjandi skýring á því hvers vegna frumvarpið er ekki dregið til baka, það unnið betur og það sett inn í heildarpakkann sem gera á og sem er, að held ég, nokkuð góð sátt um.

Mig langar að enda þetta á jákvæðum nótum. Sjávarútvegurinn er fjöreggið okkar. Við lifum á því. Hann gengur vel í augnablikinu. Við verðum að muna að þetta er atvinnugrein sem 30 þúsund manns hafa atvinnu af. Þjóðin lifir á henni. Við þurfum að fara varlega þegar við gerum breytingar á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og það á ekki að ákveða í lokuðum herbergjum eða skrifa aftan á servíettur hvernig þær eru framkvæmdar og útfærðar.



[09:58]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst lítils virði þegar fólk kemur í ræðustól, talar um sættir og eindrægni og að það þurfi að vinna málin málefnalega o.s.frv. en gerir sig svo sekt um að fara með vægast sagt ónákvæma hluti, ef ekki bara ósannindi, (Gripið fram í: Segir …) og tala niður til pólitískra andstæðinga. (Gripið fram í: Það er komið …) Hér kallaði hv. þingmaður stóra frumvarpið, sem við eigum reyndar ekki að vera að ræða hér, um breytingar á framtíðarfiskveiðistjórn, samfylkingarfrumvarpið sem hefði farið í endurvinnslu. Hefði þingmaðurinn hlustað á ræður samfylkingarþingmanna þegar það frumvarp var til umræðu hér hefði hún áttað sig á því að til dæmis varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, sem hér stendur, er með fyrirvara við átta greinar þess frumvarps.

Það er kannski rétt að það komi fram í þessari umræðu að það er mikið ofmæli að kenna það frumvarp við Samfylkinguna. Samfylkingin hefði gengið mun lengra og allt öðruvísi til verks við að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu hefði það frumvarp verið samið eingöngu á forsendum stefnuskrár Samfylkingarinnar. Hins vegar höfum við líka látið koma fram að það eru ákveðin lykilatriði í þessu frumvarpi og góðar breytingar sem það gerir ráð fyrir sem við viljum ekki standa í vegi fyrir og ætlum þar af leiðandi að reyna að leggja því gott til.

Síðan sagði þingmaðurinn að það væri sátt um að breyta kerfinu, það væru allir sammála um það, taldi upp nýtingarsamninga, potta, samfélagslegt mat, skattlagningu og veiðigjald, og sagði að um þetta væru allir sammála. (Gripið fram í.) Ef svo er skil ég ekki hvers vegna þetta írafár er uppi á Alþingi Íslendinga þegar við ræðum þessi mál því að margt af því sem þingmaðurinn sagði efnislega hefði getað verið tekið upp úr mínum eigin ræðum og blaðaskrifum.

Ég spyr þá hv. þingmann: Hvaða breytingar vill hún sjá (Forseti hringir.) á fiskveiðistjórnarkerfinu, og þá kannski ekki síður á þessu frumvarpi?



[10:01]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að tala niður til neins úr þessum ræðustól, hv. þingmaður, hvorki pólitískra andstæðinga né neinna annarra í samfélaginu. Ástæðan fyrir því að ég kallaði þetta frumvarp samfylkingarfrumvarp er einfaldlega sú að hv. þm. Helgi Hjörvar gerði það hér í ræðustól. Ef hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vill ekki kannast við að þetta sé samfylkingarfrumvarp, hafi marga fyrirvara við það og hafi verið ósátt við það kemur það mér á óvart.

Þú talar um að ég hafi sagt að sátt væri um veiðigjald og annað. Það þurfa allir að hlusta, hv. þingmaður. Ég sagði að sátt væri um gjald á auðlindir landsins. Ég talaði um að að fólk skildi að sátt væri um skattlagningu á auðlindir landsins. Það er sátt um rammana, hv. þingmaður, en útfærsluna á að vinna í sameiningu. Ég ætla ekki að standa hér í ræðustól og segja hvernig útfærslan á að vera. Hana á að vinna í sátt við greinina, eins mikilli sátt og hægt er. Það verða aldrei allir ánægðir. Ég held að við séum löngu búin að átta okkur á því. Þetta á að vinnast í sátt við greinina, en ekki ákvarðast í bakherbergjum eða í ræðustól á Alþingi.

Mér finnst áhugavert í máli þingmanns að hún gerði stóra og mikla fyrirvara við stóra málið, eins og hún sagði í átta atriðum. Var málið tilbúið til framlagningar að mati hv. þingmanns?



[10:03]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er vön að svara beint þegar ég er spurð. Var frumvarpið tilbúið til framlagningar? Það var alveg á mörkunum, en það slapp.

Þingmaðurinn segir og bendir á að það sé sátt um rammana í fiskveiðistjórnarkerfinu, útfærslan eigi hins vegar að vinnast í sátt. Áttar þingmaðurinn sig ekki á allri þeirri áreynslu sem átt hefur sér stað og allri viðleitninni til að ná sátt í þessu máli eða vill hún ekki kannast við það að í tvö heil ár hefur staðið yfir samráðs- og sáttaviðleitni við hagsmunaaðila í atvinnugreininni?

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að auðvitað þarf greinin að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika. Það hljóta allir skynsamir menn að sjá. Í tvö ár hefur þetta samráð átt sér stað en gleymum því ekki að útvegsmenn sjálfir, heildarsamtökin, Landssamband íslenskra útvegsmanna, hlupu frá því sáttaborði og létu ekki sjá sig þar í átta eða níu mánuði. Maður hrópar ekki og öskrar eftir sáttum, maður rekur ekki fólk til sátta. Maður getur bara boðið upp á þær. Síðan verður mótaðilinn að meta hvernig og hvort hann vill taka í þá hönd sem rétt er fram. Við skulum halda þessu til haga.

Hins vegar tek ég algjörlega undir að svona mál eiga ekki að ákvarðast í einhverjum hrossakaupum með einhverjum „dílum“ sem skrifaðir eru aftan á servíettur þegar menn sitja á hljóðskrafi. Ákvörðunin hlýtur engu að síður að vera Alþingis Íslendinga, ekki hagsmunaaðilanna. Það er ekki okkar að ganga erinda sérhagsmuna, okkar hlutverk er að vega og meta þá hagsmuni sem uppi eru. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera okkar hlutverk að gæta heildarhagsmunanna.



[10:05]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu pínir maður engan til sátta. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. Mig langar hins vegar að velta öðru upp: Voru einhverjir sem ekki vildu þá halda áfram vinnunni þegar sáttanefndin skilaði af sér? Er það ástæðan fyrir því að það var tekið átta mánaða hlé?

Mig langar að grípa niður í greinargerð Sjómannasambands Íslands um litla frumvarpið, með leyfi forseta:

„Eins og að framan er rakið fær frumvarpið mjög neikvæða umsögn hjá Sjómannasambandi Íslands og er það ekki samið í sátt eða samráði við sambandið. Því er mælst til þess að frumvarpið verði ekki að lögum.“

Sjómannasambandið hafði fullan hug á því allan tímann að fá að koma einhvern veginn að málinu, en að sjálfsögðu er ákvörðunin Alþingis Íslendinga. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Hv. þingmaður hlustaði greinilega ekki á fyrri ræðu mína um þessi mál, ég komst reyndar ekki að til að tala í stóra málinu, en í litla málinu talaði ég um og hrósaði hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa komið á sáttanefnd í þessu starfi. Ég gladdist mjög yfir því af því að mér er mjög mikið í mun að hér sé sú sátt sem þó getur náðst. Við vitum að aldrei verða allir glaðir og allir brosandi, það verður ekki þannig, en það þarf að ríkja sátt. Það er ekki neitt hjóm, það er ekki eitthvað sem ég segi bara hér. Ég er sjómannskona, ég finn titringinn á eigin skinni og hvað þetta er erfitt. Það er ekki gott að búa við þetta. Við þurfum á þessari atvinnugrein að halda og við þurfum á henni að halda í standi.



[10:07]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram umræðu um hið svokallaða litla mál sem ég reyndar mótmæli og hef mótmælt í ræðum mínum hér um sjávarútveginn að sé kallað svo. Mér finnst það vera öfugmæli. Núna eru rétt um tíu dagar síðan bæði þetta frumvarp og hitt frumvarpið sem hefur nú verið geymt til haustsins, sem betur fer, voru lögð fram. Ég held að það sé með ólíkindum, af því að við erum að ræða breytingar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, að við skulum hraða okkur svona með það í gegnum þingið, ekki síst þegar enn liggja ekki fyrir nein efnahagsleg áhrif, útreikningar eða neitt, hvorki af þessu frumvarpi né hinu. Þá hlýtur maður að spyrja sig þegar fyrir liggur að það er samkomulag um að bíða með stóru heildarmyndina: Af hverju er ekki hægt að bíða með þetta mál fram til haustsins? Af hverju liggur svona á þessu máli? (Gripið fram í.) Það er bara eitt svar við því, það að stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um þetta mál frekar en annað þannig að hvor flokkur um sig þurfti að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Vinstri grænir þurftu að fá aðeins í byggðapottana og Samfylkingin eitthvað táknrænt í tengslum við veiðileyfagjaldið. Þannig er þetta.

Sáttanefndin náði niðurstöðu allra hinna pólitísku flokka og það er rétt að geta þess að eingöngu LÍÚ fór gegn því sem var samið um í sáttanefndinni. Allir stjórnmálaflokkarnir sammæltust um að byggja á því kerfi sem nú er við lýði, fara í að skoða lengd nýtingarsamninganna sem að mínu mati verða að vera til lengri tíma en skemmri til að tryggja rekstraröryggi sjávarútvegsins, gegn ákveðinni endurskoðun á veiðigjaldi sem og því að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Um þetta eiga menn að geta sammælst.

Vegna þess að menn geta ekki beðið til haustsins vegna pólitísks metnaðar einstakra óþreyjufullra þingmanna þarf að troða þessu frumvarpi í gegnum þingið á lokadögunum. Það er enginn bragur á því þegar við upplifum hér að það eru settir tíu dagar til verksins, mál tekin út með töngum og ekki einu sinni í samkomulagi stjórnarmeirihlutans. Eins og þingmenn í stjórnarandstöðu sögðu varð enginn meiri hluti í sjávarútvegsnefnd út af þessu máli. Af hverju skyldi það vera? Af því að það er enn bullandi ágreiningur um þetta mál.

Af hverju er ekki hægt að bíða með þessi mál til haustsins til að fara yfir þau í sátt, til þess að fara yfir bæði hvernig við getum náð sem breiðastri sátt um sjávarútveginn, sem er nauðsynlegt, og ekki síður hitt að við fáum að vita hvað þetta kostar? Það er enginn sem getur sagt það, ekki einu sinni hv. þm. Kristján Möller sem er alla jafna nokkuð flinkur í sínum útreikningum, hann getur ekki sagt mér hver efnahagslegu áhrifin af þessu frumvarpi verða. Enginn getur það.

Það er óumdeilt að sjávarútvegskerfið sem við búum við hefur farið í gegnum erfiðar breytingar. Sjávarútvegspláss á landsbyggðinni sem og hér í þéttbýlinu hafa þurft að fara í gegnum sársaukafulla hagræðingu allt frá 1990. Þetta vitum við. Sjávarútvegskerfið sem við búum við, sem er vel að merkja ekki ríkisstyrkt eins og önnur kerfi sem tengjast fiskveiðistjórn, er ekki gallalaust en hefur sýnt fram á að það er arðbært, hagkvæmt og þjóðhagslega rétt. Ég spyr því: Af hverju er vaðið af stað til að þjóna óþreyjufullum þingmönnum og ráðherrum um stundarsakir með þetta mál?

Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Írisar Róbertsdóttur áðan um að menn væru að henda á milli sín hugmyndum, hugsanlega á servíettum, til að reyna að ná einhverri niðurstöðu um ákveðnar greinar á þessu frumvarpi. Ég mótmæli því verklagi. Ég var reyndar spurð áðan þegar ég kom hingað í pontu hvað suðvesturþingmaður væri að vilja upp á dekk. Mín krafa þegar kemur að sjávarútveginum er að ekki bara íbúar og þingmenn landsbyggðarinnar geti tjáð sig um sjávarútvegsmál, það er ekki þannig, ekki frekar en að íbúar Stavangers, olíubæjarins mikla í Noregi, eigi einir að geta tjáð sig um breytingar á olíustarfseminni í Noregi. Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, hann varðar alla Íslendinga og það hefur sýnt sig að það kerfi sem við búum við núna hefur leitt af sér margfalda hagræðingu innan greinarinnar og ekki bara það, heldur er stuðlað að því að svonefndur sjávarklasi, klasi fyrirtækja tengdum sjávarútvegi, hefur stóraukist og vaxið. Við sjáum fram á aukna nýsköpun, fjölda sprotafyrirtækja sem aldrei fyrr í tengslum við það að við erum með arðbært sjávarútvegskerfi sem hefur skilað því að núna starfa fleiri við greinina en áður. Þeim hefur vissulega fækkað sem tengjast veiði og vinnslu eingöngu en ef við tökum öll þau störf sem tengjast beint eða óbeint þessum svonefnda sjávarklasa eru þau 30 þús. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að allar breytingar á sjávarútveginum þýða að þetta snertir meira og minna alla landsmenn. Það er ekki boðlegt með fullri virðingu fyrir þingmönnum í Norðaustur-, Suður- eða Norðvesturkjördæmum að þeir taki þessi mál í sínar hendur og „víli og díli“ um þau.

Mín krafa er að sjávarútvegurinn sé arðbær og þjóðhagsleg hagkvæmur. Út frá því verðum við að miða. Þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir í dag eru þær að það á að draga úr markaðslegum áhrifum, þeim jákvæðu áhrifum sem sjávarútvegskerfið hefur í dag, og fara meira í pólitíska miðstýringu, ekki síst stýringu á borð við þá sem sjávarútvegsráðherra boðar. Þetta er vond þróun og hana verður að stöðva. Hún er ekki byggð á sáttanefndinni. Ég held enn þá að við höfum tækifæri þrátt fyrir þá óbilgirni sem er að finna hjá stjórnarflokkunum, sérstaklega einstökum þingmönnum, til að ná sátt um þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Það eru engar umsagnir sem mæla með þessum breytingum á sjávarútvegsmálum. Ég hef ekki enn þá fengið svar frá stjórnarþingmönnum við spurningu minni: Af hverju er verið að hraða þessu máli í gegn? Við vitum samt, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að þetta er til þess að hvor stjórnarflokkurinn fái sína dúsu í þessu máli. En það er ekki miðað við hvaða áhrif þetta hefur á sjávarútveginn, aldeilis ekki.

Við sjáum að sú óvissa sem er í sjávarútveginum hefur stuðlað að því að fjárfestingar frá því að vinstri stjórnin tók við stjórnartaumunum hafa minnkað. Þær hafa hins vegar verið gríðarlega miklar í gegnum árin. Á síðustu missirum hefur fjárfestingum innan greinarinnar fækkað vegna þeirrar gríðarlegu óvissu sem vinstri flokkarnir hafa stuðlað að. Það er mikill ábyrgðarhluti að henda í loft og í rauninni sprengja allt það kerfi sem við höfum búið við og þá festu sem við höfum unnið að í gegnum tíðina á sársaukafullan hátt. Við sjáum hvernig byggðirnar hafa breyst en í heildina séð hefur samfélagið allt, þjóðfélagið allt, haft gríðarlega mikinn ávinning af þessu fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég er ekki með þessu að segja að það sé óumbreytanlegt, síður en svo. Við sjálfstæðismenn höfum í gegnum tíðina, og það má gagnrýna það, meðal annars reynt að koma til móts við þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst vegna sjávarútvegsmálanna. Línuívilnun hefur verið komið á, krókaaflamark aukið og byggðakvóti settur á. Allt er þetta umhugsunarvert, hvort þetta hafi leitt til þess að við höfum enn arðbærara kerfi í dag eða ekki. Hvaða afleiðingar hafa allar þessar breytingar haft á fiskveiðistjórnarkerfið? Það er umhugsunarefni hvort það hafi stuðlað að því að við höfum öðlast meiri hagkvæmni og arðbærni út af fiskveiðistjórninni, en á móti kemur að það varð líka að hlusta á þá gagnrýni sem hefur verið hávær um fyrirkomulag fiskveiða, ekki síst á landsbyggðinni.

Ég segi aftur, þetta er ekki einkamál landsbyggðarinnar. Þeir þingmenn sem tilheyra landsbyggðinni hafa ekki einir rétt á skoðunum í þessu máli. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er, held ég, eini talsmaður þessa máls eins og það er núna, a.m.k. eini þingmaðurinn sem var ekki með fyrirvara í þessu máli, en það er ekki þannig að við á suðvesturhorninu höfum ekki leyfi til að tjá okkur um málið. Ég ítreka að krafa mín er sú að fiskveiðistjórnarkerfið sé arðbært, þjóðhagslega hagkvæmt og stuðli að auknum samfélagslegum ávinningi fyrir allt þjóðfélagið. Það er ekki hægt að nota sjávarútvegsmálin sem einhvern spilapening á leikborði stjórnmálanna eða á milli byggðarlaganna. Það er ekki þannig og þess vegna fannst mér þessi spurning sem ég fékk frá einum stjórnarþingmanni áður en ég fór upp í púlt, þó að hún hafi verið sett fram í kerskni, hvað við á suðvesturhorninu værum að vilja upp á dekk og tjá okkur um sjávarútvegsmál, lýsa ákveðnu viðhorfi sem hefur ríkt allt of lengi.

Mér finnst ágætt að spyrja aftur spurningar sem ég hef ekki fengið svar við fyrst hv. þingmaður og formaður sjávarútvegsnefndar er í salnum: Af hverju má ekki bíða með þetta mál þegar svo til enginn mælir með breytingum á því og samþykkt þess núna? Það eru tíu dagar síðan málið var lagt fyrir þingið. Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég skil ekki enn þá af hverju þetta má ekki bíða þar til stóra málið hefur fengið umfjöllun. Ég skil það ekki. Það verður áfram umræða um veiðileyfagjaldið í stóra málinu. Það verður áfram umræða um byggðakvóta. Af hverju má þetta ekki bíða til haustsins þegar fjallað verður um sjávarútvegsmálin í heild sinni? Ég skil það ekki, síst núna þann þrýsting sem hefur verið á að reyna að afgreiða málið á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Menn hentu á milli sín einhverjum hugmyndum í gærkvöldi og langt fram eftir nóttu um hvernig hægt væri að leysa meðal annars 2. gr. Það á bara að vísa þessu öllu til haustsins og láta alla stjórnmálaflokka vera ábyrga fyrir því að koma með stefnu sem sátt getur ríkt um. Vel að merkja, allir stjórnmálaflokkar komu að í því í sáttanefndinni að byggja upp ákveðinn ramma. Þetta er ekki sá rammi sem endurspeglar sáttanefndina, síður en svo.

Við erum með fiskveiðistjórnarkerfi sem aðrar þjóðir líta til sem fyrirmyndar, m.a. ESB, ekki bara aðildarþjóðir innan ESB heldur aðrar þjóðir, og þá er mjög vanhugsað að fara út í breytingar sem menn geta ekki einu sinni sammælst um í einum litlum minni hluta á þingi. Stjórnarflokkarnir gátu ekki komist að samkomulagi, einn hv. stjórnarþingmaður gat ekki skrifað undir álitið og þess vegna varð enginn meiri hluti í sjávarútvegsnefnd.

Þess vegna ítreka ég það sem ég hef sagt, það hefur ekki verið reiknaður út efnahagslegur ávinningur og áhrif af þessu frumvarpi. Það á að keyra þetta í gegn vegna þess að ákveðnir þingmenn eru hér óþreyjufullir, vilja setja mark sitt á breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þess vegna er verið að setja þetta í gegn í staðinn fyrir að bíða, átta sig á hvaða áhrif þetta muni hafa á greinina, hvaða áhrif á samfélagið allt. Þetta skiptir okkur öll máli, það er til þess að stuðla að betra samfélagi sem við höfum hér öflugt fiskveiðistjórnarkerfi.

Þetta mál er vanhugsað. Það er ekki bara vanhugsað, heldur lýsir þetta frumvarp þeirri firringu að mínu mati sem einkennir stjórnarsamstarfið allt. Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til þess að tjónið er mikið af þeirri firringu sem ríkir við stjórnarborðið, firringu sem hefur leitt til tjóns fyrir samfélagið allt. Það verður að stöðva slíkt.



[10:21]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki mætti bíða með frumvarpið til haustsins. Ég tel rétt að gerðar séu þær breytingar sem eru boðaðar á þessu vori. Það er beðið eftir því víða um land að hægt sé að fá aflaheimildir bæði á þessu ári og næsta ári í gegnum strand- og byggðakvóta vegna þess að afleiðingar þess kvótakerfis sem við búum við hafa verið á þá leið að víða er mjög erfitt í sjávarbyggðum að skapa vinnu í kringum sjávarútveg. Aflaheimildir hafa þjappast saman og við erum að reyna að bregðast við því af því að við vitum að þörfin er til staðar. En vissulega eru stóru breytingarnar í stóra kerfinu, þær verða ræddar áfram. Ég skil það þannig að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni reyni eðlilega að berjast fyrir afkvæmi sínu sem er það kerfi sem núna er, og vilji ekki sjá neinar breytingar á því. Það er bara staðreynd.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvaða breytingar vill hún sjá á því kerfi sem er núna við lýði? Vilja menn yfir höfuð sjá einhverjar breytingar eða telja þeir kerfið vera það gott að ekkert megi lagfæra þar?

Flokkar hafa mismunandi stefnu. Núverandi stjórnarflokkar hafa á stefnuskrá sinni þá stefnu að það megi gera breytingar á því kerfi sem er við lýði. Við erum bara að framfylgja þeirri stefnu og erum trú okkar sannfæringu og stefnu í þeim málum. Við munum ekki láta reka okkur til baka með einhverjum hræðsluáróðri í þeim efnum, ekki Sjálfstæðisflokk, hagsmunaaðila eða neina aðra því að við erum kosin til að breyta þessu kerfi til góðs.



[10:24]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að koma hingað upp og svara, það hafa ekki allir stjórnarþingmenn gert í þessu máli. Ég er meira og minna búin að hlusta á allar ræður bæði í þessu máli sem og því sem hefur verið til umræðu og bíður haustsins.

Hv. þingmaður segir að það verði að fara af stað með þetta frumvarp af því að beðið sé um það um allt land. Hvernig stendur þá á því að enginn getur sagt mér enn þá hvaða áhrif þetta hefur á byggðirnar? Af hverju er allt þetta rót fram eftir kvöldi og fram eftir nóttu? Það er út af því að enginn getur sagt nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á byggðir landsins. Af hverju er ekki hægt að bíða þangað til við sjáum efnahagsleg áhrif þessara breytinga? Af hverju liggur mönnum svona mikið á? Ef menn segja að það skipti máli til að auka enn frekar strandveiðar — allt það sem við sjálfstæðismenn sögðum varðandi strandveiðar er rétt; það hefur sýnt sig að aukinn þrýstingur er að sá kvóti verði aukinn, ekki síst til þeirra einstaklinga sem hafa selt sig út úr greininni. Hvaða réttlæti er það? Hvaða nýliðun er það? Auðvitað er það engin nýliðun.

Það er enn og aftur það sem einkennir umræðuna og svör hv. stjórnarþingmanna fjalla um að þeir vilja fjölga störfum. Við höfum lýst viðhorfi þeirra með myndlíkingu: Hættum að binda heyið í rúllur, við skulum fara að nota orf og ljá aftur. Þannig á að fjölga störfum. Það er ósköp einfalt. Við heyjum, við náum heyinu inn kannski á fimm dögum í staðinn fyrir tveimur í dag með rúllunum. Störfunum fjölgar jú og fleiri hendur vinna þau en arðbærnin og hagkvæmnin er ekki sú sama.

Hvað viljum við sjálfstæðismenn? Við höfum margoft sagt að við erum reiðubúin með auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það á að endurskoða veiðigjaldið. Það er í samræmi við það sem m.a. sumir þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað um, á nákvæmlega á sömu nótum.

Menn vilja ekki láta reyna á sáttina. (Forseti hringir.) Og var haft samráð við okkur sjálfstæðismenn eftir að sáttanefndin hafði skilað? Nei, síður en svo.



[10:26]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að strandveiðar skili ekki miklu í þjóðarbúið og að þær séu ekki hagkvæmar. Hún líkir því við að menn heyi með orfi og ljá. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún styðji einstaklingsframtakið, af því að strandveiðar eru í raun það sem lýsir einstaklingsframtakinu best, að einstaklingurinn geti skapað sér vinnu á eigin forsendum. Margfeldisáhrif smáútgerða hafa sýnt sig og fyrir liggja skýrslur í þeim efnum. Það eru mjög mikil margfeldisáhrif af því. Litlar byggðir hafa ekki tök á því að slá saman í eitt stykki togara fyrir einhver hundruð milljóna króna eða jafnvel milljarða. Það er möguleiki fyrir einstaklinga í litlum byggðum að byrja smátt, skapa sér atvinnu, hafa möguleika á að sjá sér og sínum farborða með þessum hætti, framtaki einstaklingsins, kaupa sér bát og fara að róa. Ef hv. þingmaður er andvíg því að einstaklingurinn geti dregið sér björg í bú með þessum hætti og gerir lítið úr því er ég bara ekki sammála hv. þingmanni. Ég styð fólk í því að vera sjálfbjarga, að það geti ákveðið hvers konar vinnu það vinnur, og þess vegna finnst mér smábátaútgerð vera bara einn af mörgum góðum kostum í allri heildarflórunni. Auðvitað á stórútgerð að þrífast og allt þar á milli, en ég get ekki hugsað mér að á Íslandsmiðum séu t.d. átta togarar sem taki allan afla. Þeir gætu það en ég vil ekki sjá slíkan verksmiðjubúskap. Mér finnst að fjölbreytnin eigi að ráða ríkjum. (Forseti hringir.)



[10:28]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo innilega sammála hv. þingmanni um að fjölbreytnin eigi að ráða ríkjum. En hvaða fjölbreytni er það? Fjölbreytni sem hæstv. sjávarútvegsráðherra ræður hverju sinni. Það er fjölbreytnin af því að hið pólitíska afl á að ráða. Hið pólitíska afl á að ráða hverju sinni, það ræður sem hentar hverjum sjávarútvegsráðherra hverju sinni. Það hafa ekki sést frumvörp í áraraðir sem líta út eins og þau frumvörp sem lögð hafa verið fram af hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi valdheimildir til ráðherra.

Ég skil vel að stjórnarþingmenn vilji hafa hér mikla fjölbreytni ef það er á þeirra forsendum, ekki annarra. Það er eins og þingmenn stjórnarflokkanna hlusti ekki á það sem forustumenn okkar í sjávarútvegsmálum hafa sagt í gegnum tíðina. Þeir hafa einmitt komið með breytingar sem komið hafa til móts við gagnrýnisraddir og fyrir vikið hafa þeir að mínu mati hugsanlega farið út í of miklar breytingar á kerfinu sem ekki hafa stuðlað að nægilega mikilli arðbærni kerfisins. Af hverju byggðakvóti? Af hverju línuívilnanir? Allt er þetta gert á vakt okkar sjálfstæðismanna til að komast til móts við sjávarbyggðir landsins.

Það sem skiptir máli í þessu er að verið er að fara úr markaðsdrifnu kerfi sjávarútvegsins sem er arðbært. Þetta er eini sjávarútvegurinn sem vitað er um sem ekki er ríkisstyrktur. Þó að fækkað hafi í veiðum og vinnslu skilar klasinn sem slíkur, sjávarútvegurinn, meira í þjóðarbúið en hann hefur nokkurn tímann gert. Við fáum ekki aðeins meira fyrir hvert kíló af þorski í dag en fyrir 20 árum, það verða líka til störf í sprotafyrirtækjum í nýsköpunarfyrirtækjum og ég held að það séu góðar og jákvæðar afleiðingar þess kerfis sem byggt hefur verið upp.



[10:30]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Raunar held ég að í hinum afleiddu störfum í sjávarútvegi, sem eru mikils virði, hafi vissulega átt sér stað þróun, held reyndar að sú nýsköpun gæti verið mun meiri en raun ber vitni, en það er annað mál.

Af hverju eigum við ekki að vísa þessu til haustsins? spyr hv. þingmaður. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fór ágætlega yfir það að um er að ræða umtalsverða aukningu inn í strandveiðar og byggðakvóta sem skiptir máli fyrir lífsafkomu fólks. Þetta snýst náttúrlega um lífskjör og lífsafkomu fólks.

Strandveiðar eru sennilega elsti atvinnuvegur í landinu fyrir utan landbúnað. Upp af strandveiðum hefur sprottið sá útvegur sem við sjáum í stórútgerðinni í dag og einyrkinn verður auðvitað að fá að þrífast við hliðina á stóratvinnurekandanum. Við verðum að sjá fyrir okkur atvinnulíf þar sem lággróðurinn hefur sitt rými en skógurinn líka. Það er mjög átakanlegt að heyra talsmenn Sjálfstæðisflokksins koma í röðum upp í ræðustól og tala gegn því frumkvöðlastarfi og því einkaframtaki sem strandveiðar í eðli sínu eru.

Svo eru menn að tala um vald sjávarútvegsráðherra, að ekki hafi sést annað eins og í þessu frumvarpi. Menn ættu þá að lesa núgildandi fiskveiðistjórnarlög, kerfið sem sjálfstæðismenn sjálfir komu á, þar sem sjávarútvegsráðherra er gefið gríðarlegt vald sem menn hafa ekki kvartað undan að hafa meðan þeirra eigin menn hafa setið á stóli sjávarútvegsráðherra.



[10:32]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína var ég einmitt að draga það fram að efast má um allar þær breytingar sem hafa verið gerðar á kerfinu til að koma til móts við þá gagnrýni sem hefur verið á kerfið í gegnum tíðina, hvort sem það er í formi byggðakvóta eða öðru, hvort þær hafi allar verið réttar og hafi stuðlað að þeirri arðbærni og þjóðhagslegu hagkvæmni sem er nauðsynleg fyrir okkur til að hafa sjávarútvegskerfið í lagi.

Mér finnst svo makalaust að hlusta á þær raddir hér af hverju ekki megi bíða með þetta til haustsins. Við viljum öll fjölbreytni. Við viljum öll að hinar dreifðu byggðir fái að blómstra, en við verðum líka að horfast í augu við það, ekki nema menn ætli að fara að breyta því, að þetta er takmörkuð auðlind. Við erum að veiða núna — væntanlega hækkar þorskaflinn — 130 þús. tonn. Kakan stækkar ekki, (Gripið fram í: 160 þúsund.) 160 þús. tonn. Kakan er ekki að stækka, það er ekki þannig.

Þegar við fórum úr 190 þús. tonnum niður í 130 þús. tonn — ég var með það í huga — á sínum tíma árið 2007 þegar sjávarútvegsráðherra þurfti að taka þá sársaukafullu ákvörðun til þess að byggja upp m.a. þorskstofninn, sem hefur verið aukning í núna sem betur fer, þá var það tekið af þeim sem áttu fyrir og höfðu aðganginn fyrir að kvótanum. Menn gerðu ráð fyrir að menn tækju því og menn voru tilbúnir í slíka sársaukafulla hagræðingu af því að menn vissu að þegar þorskstofninn færi upp að nýju gætu þeir haft aðgang að því að veiða meira. Það er verið í raun að taka það allt af mönnum í dag.

Það má bíða en enginn, ekki hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir eða hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, eini þingmaðurinn sem styður þetta mál fyrirvaralaust, getur sagt mér hver efnahagsleg áhrif þessa máls eru. Það er ekki búið að reikna það út. Og ætla menn bara að hunsa það, horfa fram hjá þeim umsögnum sem hafa verið um þetta mál? Öðruvísi mér áður brá.

Ég tel þetta vera vanhugsað. Ég tel enn, því að ég er bjartsýn þrátt fyrir þau ummæli sem hafa (Forseti hringir.) verið látin falla, að hægt sé að ná mun meiri sátt um sjávarútveginn en menn vilja vera láta.



[10:35]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Menn tala mikið um það að hér hafi engin tilraun verið gerð til þess að meta efnahagsleg áhrif af strandveiðum og byggðakvótum. Mér finnst menn gera fulllítið úr þeirri ágætu úttekt sem gerð var af Háskólasetri Vestfjarða veturinn 2009–2010 um samfélagsleg áhrif strandveiðanna á byggðirnar og sjávarplássin og flokksbróðir hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, bæjarstjórnarmaður á Ísafirði, sem stýrði því verki. Sú úttekt sem var vel unnin og vandvirknislega gerð byggði reyndar bara á þeim 3.400 eða 4.000 tonnum sem voru í strandveiðipottinum það árið, en sýndi engu að síður umtalsverð jákvæð áhrif sem sú tilraun sem þá var gerð og við erum að tala um að bæta og auka við núna, hafði einmitt á sjávarbyggðirnar, sérstaklega þær byggðir sem höfðu farið verst út úr núverandi kvótakerfi.

Þingmaðurinn bendir á að sjálfstæðismenn hafi tekið þátt í því að koma á byggðakvótum og spyr hvers vegna við séum að því. Við erum jú að reyna að bæta mönnum upp ýmislegt sem hefur orðið fyrir skerðingu. Það er nefnilega málið. Allar þessar plástraaðgerðir sem hefur verið gripið til á síðustu árum eru til þess að bæta fyrir skaðleg áhrif núverandi kvótakerfis. Þau skaðlegu áhrif sem hafa valdið þeirri gríðarlegu byggðaröskun sem við erum að verða vitni að, sem við sjáum m.a. í þorpum eins og Flateyri þar sem núna er 46% atvinnuleysi, bein afleiðing af kvótakerfinu ágæta sem sjálfstæðismenn standa svo dyggan vörð um og vilja að því er virðist ekki sjá neinar breytingar á.

Auðvitað verðum við að horfa á þetta mál af einhverju raunsæi. (Forseti hringir.) Það verða fleiri að fá þrifist í þessu landi en stórútgerðarmenn.



[10:37]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega alveg makalaust að heyra hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur segja að við sjálfstæðismenn viljum ekki breytingar á kerfinu. Það er eins og hv. þingmaður hafi bara aldrei verið inni í þingsal (Gripið fram í: Nei.) hlustandi á ræður, það er eins og hún hafi ekki hlustað á einn né neinn eða vilji ekki hlusta. Það er bara þannig.

Varðandi þá úttekt sem gerð var á strandveiðunum þá var gott að slík úttekt var gerð en hún mat ekki heildarefnahagsleg áhrif á samfélagið. Það var metið mjög þröngt. Það hefur enginn getað sagt mér enn þá hvaða áhrif þetta hefur á suðvesturhornið, norðausturhornið, sunnanmenn eða norðanmenn. Ekki neinn. Enginn stjórnarþingmaður getur sagt: Já, Þorgerður mín, hér eru áhrif þessara breytinga á frumvarpið. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Þetta er ekki boðlegt. (Gripið fram í.) Menn geta komið hér og þóst gera einhverjar velviljaðar breytingar, en það er enginn sem kemur hingað — hvorki hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir né aðrir — og segir: Við viljum auka strandveiðarnar. Hvaðan á þá að taka þetta? Það á að taka þetta af þeim sem hafa keypt sig löglega í gegnum kerfið.

Það er ekkert mál að vera stjórnmálamaður sem ætlar bara að víla og díla og reyna að vera alltaf miskunnsami samverjinn hvar sem hann kemur, en það þarf að segja líka hvaðan menn ætla að taka kvótann, hvaðan menn ætla að taka það sem þeir ætla að færa öðrum.

Það er nákvæmlega svona birtingarmynd, sem mér hugnast ekki, sem verið er að koma hér upp. Það á að skófla þessu öllu á borð sjávarútvegsráðherra. Það er verið að auka pólitískt vald. Það er ekki það sem ég vil berjast fyrir í þessum málum. Þó að sjávarútvegskerfið núna sé ekki gallalaust og það er vel hægt að gera breytingar á því, þá vil ég ekki þessa pólitísku íhlutun sjávarútvegsráðherra, hverju nafni sem hann kann að nefnast hverju sinni. Það er vond þróun og hún er ekki þjóðhagslega hagkvæm, ekki fyrir einn eða neinn.



[10:39]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefði verið indælt ef þeir sem komu núverandi kvótakerfi á hefðu haft fyrir því að sýna þau vönduðu vinnubrögð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talar svo ákaflega um núna. Það hefði verið ágætt ef menn hefðu einhvers staðar á þeirri leið farið í það að gera efnahagslega úttekt á áhrifum þess kerfis. Hins vegar sjáum við reynsluna af því. Það þarf ekki stórkostlegar úttektir eða djúpa hagfræði, það þarf ekki mikið annað en fara inn á vefsíðu Hagstofunnar til að átta sig á þeirri byggðaröskun sem átt hefur sér stað og sjá hvað er að gerast.

Núna er það þannig að sjávarpláss og lítil byggðarlög víða um landið eru komin að þeim mörkum að þau þola ekki meir. Það er nefnilega svo að þegar byggðum byrjar að blæða út þola þær það upp að vissu marki, svo kemur mjög krítískur punktur. Sá punktur, þeim þröskuldi, höfum við nefnilega náð varðandi margar byggðir núna. Það má því ekki dragast lengur að reyna að leiðrétta þetta óréttlæti og reyna að koma á einhverju samfélagslegu skikki á þetta mál.

Ég kvaddi mér hljóðs, frú forseti, til að ræða það frumvarp sem liggur fyrir hér og hefur verið lagt til umræðu, litla frumvarpið svokallaða um strandveiðar og byggðakvóta, aðallega til þess að gera grein fyrir fyrirvörum mínum við framhaldsnefndarálitið og þær breytingartillögur sem liggja fyrir og mælt var fyrir í gær.

Fyrirvarar mínir lúta kannski fyrst og fremst að tvennu. Annars vegar að þessari svokallaðri 2. gr. sem lýtur að framlagi uppsjávargeirans inn í byggðapottana á móti bolfiskvinnslunni. Gert er ráð fyrir því að ákveðið hlutfall af úthlutuðum aflaheimildum renni inn í þennan pott. Það er gert með jafnræðissjónarmið í huga vegna þess að bolfiskgeirinn hefur þurft að taka á sig miklar skerðingar á undanförnum árum, við vitum það. Þegar komið hefur til aflaskerðingar hefur það náttúrlega lent á bolfiskvinnslunni. Þegar við erum hins vegar að tala um það núna að leggja inn í þennan samfélagslega pott þá er komin fram sú eðlilega krafa að uppsjávargeirinn leggi inn í hann til jafns við hinn geirann.

Upp af þessu hafa sprottið vangaveltur og deilur auðvitað vegna þess að uppsjávargeirinn hefur ekki hug á að koma að þessu með þeim hætti sem þar er lagt til. Í því samhengi má minna á að í sáttanefndinni svokölluðu, sem hæstv. núverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, stýrði á sínum tíma og oft hefur verið vitnað til, var fullkomin sátt um að svona skyldi að þessu staðið. Báðar útvegsgreinar skyldu leggja inn í þennan pott. Síðan hafa Landssamtök íslenskra útvegsmanna ályktað um þetta fyrir nokkrum árum og gott ef það hefur ekki verið áréttað síðan. Það er því samkomulag, að því er virðist, og hefur verið í greininni um þetta fyrirkomulag.

Hins vegar greinir menn á um það hvernig best skuli að þessu staðið. Ég tel að það gæti verið fyrirhafnarinnar virði að skapa ákveðna aðlögun í þessu efni, kannski að þetta verði gert á tveimur, þremur árum og að ákvarðanir vegna næstu fiskveiðiára, þ.e. 2012 og 2013 og síðan árið þar á eftir, verði endurskoðaðar í ljósi reynslunnar, hugsanlega að liðnu ári. Þetta finnst mér að gæti vel komið til greina.

Í nefndarálitinu er í sambandi við þetta talað um skiptinguna — eða eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Eftir að ráðstafað hefur verið í potta því sem kemur inn af þorski, ýsu, ufsa og steinbít verður aflamagni í öðrum tegundum skipt í þessar tegundir eins og mögulegt er. Það mun fara fram á sérstökum skiptimarkaði sem eftir atvikum verður settur á laggirnar af Fiskistofu og/eða af samtökum í útgerð.“

Þarna er augljóslega verið að vísa til þess skiptimarkaðar sem samtök í útgerð hafa reynslu af að starfrækja. En ég tel hins vegar óheppilegt og tek ekki undir það að þarna sé verið að tiltaka samtök í útgerð, útgerðarsamtök og teldi ekki eðlilegt að það færi inn í lagatexta. Mér finnst alveg nægilegt að Fiskistofa taki að sér einhverja framkvæmdaþætti á þessu í umboði ráðuneytisins en mundi vilja láta þar við sitja. Auðvitað hefur Fiskistofa síðan sjálfdæmi um það til hverra hún leitar um það og við hverja hún tekur upp samstarf. En ég tel ekki eðlilegt að við setjum það inn í lagatexta eða sem einhvern vilja þingsins að samtök í sjávarútvegi hafi ábyrgð á þessu í umboði ráðherra.

Síðan hefur verið nokkuð rætt um það sem kemur fram á bls. 3 í nefndarálitinu. Þar er verið að tala um ráðstöfun ákveðins hlutfalls tekna af veiðigjaldi og talað um að það renni til sjávarbyggða á grundvelli fjárstjórnarvalds við samþykkt fjárlaga og vakin sérstök athygli á því að þarna sé gert ráð fyrir ráðstöfun til sjávarbyggða en ekki einstakra sveitarfélaga. Ég tel eðlilegt í þessu samhengi að miðað sé við ráðstöfun til sveitarfélaganna. Öll sveitarfélög í landinu, held ég að ég fari rétt með, hafa sjávarbyggðir innan sinna vébanda, þeim væri það þá í sjálfsvald sett að úthluta eða ráðstafa þessu frekar til sjávarbyggðanna. Mér finnst ekki eðlilegt að við einskorðum það að þessu sinni við sjávarbyggðirnar eingöngu því að þetta lýtur að ráðstöfun tekna, tekna af veiðigjaldi. Við erum ekki að tala hér um úthlutun aflaheimilda.

Fyrst við erum að tala um samfélagslega uppbyggingu og samfélagsleg not á annað borð, þá held ég að eðlilegt sé að taka upp ákveðna valddreifingu og að gera sveitarfélögunum kleift að hafa þar umsýslu ásamt með ráðuneytinu.

Þetta eru þær helstu athugasemdir og þeir helstu fyrirvarar sem ég vildi gera grein fyrir, frú forseti. Að öðru leyti árétta ég það sem hefur komið fram í máli mínu fram að þessu, að ég held að mikilvægt sé að við afgreiðum málið fyrir þinglok. Sjávarbyggðirnar og strandveiðiflotinn allur á mjög mikið undir því að við klárum það með þeim hætti sem lagt er til í nefndarálitinu. Það er raunverulega búið að vísa öllum breytingum sem lúta að framtíðarskipulagi fiskveiðistjórnar inn í stóra frumvarpið og til þeirrar vinnu, þannig að við leggjum þann ágreining til hliðar eins og málið stendur núna, en leyfum þó þeim þáttum sem er brýnast að komist til framkvæmda og varða strandveiðarnar og byggðakvótann í sumar sérstaklega, að fá sinn framgang hér núna. Það eru ótalmargir sem eiga undir því. Mér finnst að sá hópur eigi það skilið að njóta vafans en gjalda ekki fyrir það þó að einhver meiningarmunur sé um framtíð fiskveiðistjórnar í sínu víðasta samhengi. Þetta mál varðar verulega hagsmuni og ég tel mikilvægt að það fái framgang.



[10:48]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði hér um þá byggðaröskun sem hlotist hefur af því að fara inn í kvótakerfið. Það var skýrt markmið þáverandi stjórnarflokka sem komu kvótakerfinu á og þeirra flokka sem settu framsalið á 1990, sem hv. þingmaður er meðal annars meðlimur í, að það skyldi fara fram mikil hagræðing í greininni. Meðal annars ræddu virðulegir hæstv. ráðherrar sem sitja nú í ríkisstjórn mikilvægi þess að það ætti sér stað samþjöppun í greininni, það yrði að minnka fiskiskipastólinn og það yrði að draga úr kostnaði við sókn á hverja einingu. Það væri grundvallaratriði til að þjóðin gæti farið að hafa meira út úr þessari auðlind.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ósammála því að þessi hagræðing hafi leitt til góðs fyrir atvinnugreinina og fyrir land og þjóð og hvort það geti verið að stjórnvöld hafi brugðist í því að byggja upp annað atvinnulíf samhliða þessum markmiðum sínum sem sé þá ástæðan fyrir þeirri byggðaröskun sem við höfum séð, (Forseti hringir.) að ekki var gætt að því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu úti um land (Forseti hringir.) þegar þessi markmið voru sett.



[10:49]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur átt sér stað mikil samþjöppun og hagræðing í íslenskum sjávarútvegi. Sú hagræðing hefur að mörgu leyti náttúrlega komið greininni til góða, þó ekki eins mikið til góða og ætla mætti vegna þess að menn hafa ekki alveg farið vel með arðinn af veiðunum. Ég fagna því hins vegar ef menn eiga þess kost að hagræða og auka arðsemi greinarinnar, en það má ekki gerast án þess að það eigi sér stað ákveðin þjóðhagsleg hagkvæmni.

Byggðaröskunin er staðreynd. Blóðtaka sjávarbyggðanna er staðreynd. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd og bregðast við henni. Ég er ekki sammála því að sú hagræðing sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi undanfarin 20 ár hafi eingöngu leitt til góðs. Hún hefur líka haft mjög alvarlegar afleiðingar sem við megum ekki loka augunum fyrir.



[10:50]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að Ragnar Reykás hefði ekki getað gefið mér betra svar við þessu. Þetta hljómaði svona: Að sjálfsögðu eigum við að hagræða og það er gott að hagræða og það er gott að það hafi náðst hagræðingarárangur í greininni sem óumdeilt hefur leitt til þess að við rekum afkomubesta sjávarútveg í heimi, um það er ekki deilt. En á sama tíma mátti það ekki vegna þess að það varð að halda lífi í byggðunum. Það var ekki hægt að fara báðar leiðir. Vandinn liggur auðvitað í því, eins og ég sagði áðan, að stjórnvöld brugðust í því að efla önnur atvinnutækifæri úti um land.

Af því að ég hef stuttan tíma vil ég koma með eina aðra spurningu til hv. þingmanns. Hún fjallar um að það er fjöldi manns sem hefur ekkert gert af sér annað en að spila eftir settum reglum í þessu kerfi, reglum sem núverandi stjórnarflokkar áttu meðal annars stóran þátt í að setja. Þetta fólk á ekki núna, samkvæmt hugmyndum stjórnarflokkanna, að njóta arðs af því þegar fiskstofnarnir vaxa. Það á að skilja þetta fólk eftir með skuldir sem það hefur stofnað til þegar það spilaði eftir þeim leikreglum sem voru settar en taka af því þá aukningu sem það var búið að kaupa nýtingarheimildir á. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um stöðu þessa fólks?



[10:52]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þær breytingar sem verið er að mæla fyrir um framtíðarfiskveiðistjórnina lúta að því að bæta rekstraröryggi greinarinnar, auka fyrirsjáanleika hennar og minnka fjárfestingarþörfina, gefa mönnum fyrirsjáanleika upp á 15 ár til að gera áætlanir. Um leið og fjárfestingarþörfin fer frá aflaheimildunum og yfir á fastabúnað, skipakost o.þ.h. minnkar fjárfestingarþörfin svo mikið að það hlýtur að muna um það í rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þetta mál snýst ekkert (Gripið fram í.) um það að menn hafi ekki gert neitt af sér og hér sé verið að refsa mönnum fyrir að hafa spilað eftir reglunum. (Gripið fram í.) Það var vitlaust (Forseti hringir.) gefið, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) og arðurinn af greininni hefur ekki skilað sér með þeim hætti sem hann átti að gera til samfélagsins í heild sinni. Greinin er byggð upp með þátttöku sjávarplássanna, með þátttöku þess fólks sem núna á um sárt að binda vegna þess hvernig röskunin hefur átt (Forseti hringir.) sér stað sem bein afleiðing af kvótakerfinu.



[10:53]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vekur athygli á því að samkvæmt þingsköpum geta andsvör ekki staðið lengur en 15 mínútur. Þegar ræðutími er styttur í eina mínútu í báðum umferðum hljóta hv. þingmenn að leyfa þeim sem í ræðustól er hverju sinni sjálfum að nýta þann tíma.



[10:53]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hérna eitt við hv. þingmann sem er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Fyrir ári var frestað með bráðabirgðaákvæði gildistöku sem snýr að hámarksprósentueign í krókaaflamarki sem er í dag 4% í þorski en til viðmiðunar er það 12% í stóra kerfinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það með mér að skynsamlegt væri að fresta þessu um eitt ár og vísa því þá inn í heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða sem á að fara fram í haust. Þetta ákvæði snýr einungis að einu fyrirtæki á Suðurnesjum og mundi hafa alvarlegar afleiðingar að mínu viti. Væri hv. þingmaður tilbúin að taka það upp í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og beita sér fyrir því að bráðabirgðaákvæði yrði sett inn til að fresta gildistökunni? Ekki mundi standa á mér að styðja hv. þingmann í því.



[10:54]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sá þingmaður sem hér stendur er alltaf tilbúin að skoða mál og veita fresti svo framarlega sem ekki er um að ræða einhverja vitleysu, tafir og útþynningu mála, svo framarlega sem markmiðið er ekki eingöngu að setja mál í útideyfu.

Mér finnst ekki óeðlilegt að miða við ákveðna hámarksprósentueign, t.d. í krókaaflamarkinu og líka varðandi eignarhlutann almennt í kerfinu, en hvort því er frestað um tvo, þrjá mánuði er bitamunur en ekki fjár. Ég geri engan ágreining við þingmanninn um það.



[10:55]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni viðbrögðin. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að í lögunum eins og þau eru í dag er gert ráð fyrir 4% hámarkseign í krókaaflamarkinu. Það eru 12% í stóra kerfinu, svo við höfum viðmiðunina. Þetta fyrirtæki sem um ræðir á Suðurnesjunum, þar sem er mesta atvinnuleysið, er ekki mjög stórt á mælikvarðann sem við tölum um, þetta er bara meðalstórt fjölskyldufyrirtæki. Mín skoðun er sú að það væri eðlilegra að taka þetta inn í heildarendurskoðunina á lögunum sem verður farið í í haust og fresta þessu gildistökuákvæði. Ég fagna því að hv. þingmaður deili þeirri skoðun með mér að það sé skynsamlegt að gera það. Eins og ég sagði er þetta bara meðalstórt fyrirtæki og ákvæðið snýr nánast að einu fyrirtæki sem var komið upp fyrir þessa prósentu þegar það var sett fyrst inn í lögin. Þetta væru ekki góð skilaboð á einmitt það svæði þar sem er mesta atvinnuleysið. Þá þyrfti þetta fyrirtæki að selja frá sér heimildir eitthvað annað og þá mundu enn aukast vandræði þessa svæðis. Mér hefur skilist á hv. þingmanni að hún vilji tala um reynsluna á öðrum stöðum í sambandi við það.



[10:56]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég hef ekki miklu við þetta að bæta, en vil hins vegar benda hv. þingmanni, af því að hann nefndi að það væru 12% í stóra kerfinu en einungis 4% í litla kerfinu, á að eignahámarkið helgast náttúrlega af fjölda fyrirtækja. Það eru fleiri sem verið er að reikna eignahlutfallið út frá í krókaaflamarkskerfinu en í stóra kerfinu. En tveir, þrír mánuðir skipta auðvitað engu máli. Varstu að tala um eitt ár? Eitt ár, hvíslar þingmaðurinn hér. Ég væri tilbúin að fresta þessu í tvo, þrjá mánuði og leyfa því að bíða átekta stóra málsins. Ég mun ekki beita mér fyrir því en ég mun hins vegar ekki leggjast gegn því.



[10:57]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti minnir þingmenn á að beina orðum sínum til forseta.



[10:57]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur verður tíðrætt um það að byggðunum blæði og það sé komið að einhverjum krítískum punkti. Það væri ágætt að fá upplýsingar um matið á því hvar hann liggur og sérstaklega með tilliti til þeirra breytinga sem leiða af þessu frumvarpi eins og það liggur hér fyrir, t.d. um það með hvaða hætti á að leggja inn í allar útgerðir þennan sameiginlega pott samkvæmt 2. gr. Hvaða mat hefur farið fram fyrir þessar krítísku byggðir og sjávarbyggðirnar á áhrifum reglu sem þar er innleidd og hvaða byggðir eru og kunna sérstaklega að vera í hættu vegna þess ákvæðis sem þar er um að ræða sem liggur fyrir að muni færa til heimildir milli fyrirtækja, milli landshluta o.s.frv.? Það væri ágætt að heyra hvar krítískustu punktarnir liggja í byggðum að þessu leytinu til, sérstaklega vegna þekkingar þingmannsins á því.



[10:59]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert leyndarmál að til dæmis sjávarbyggðum á Vestfjörðum blæðir mjög. Ég var að skoða tölur sem var varpað upp á glæru á ráðstefnu sem ég sat fyrir nokkrum vikum sem sýndi að þar fækkar um mörg hundruð manns á örfáum mánuðum. Frá 1. desember sl. fram í apríl held ég að hafi fækkað um 175 manns bara í plássum á hinum svokallaða Vestfjarðakjálka.

Hvaða mat hefur farið fram á efnahagslegum áhrifum sem gætu hlotist af þessum strandveiðum og byggðaaðgerðum? Háskólasetur Vestfjarða hefur unnið þá margnefndu úttekt sem ég gat um í máli mínu áðan á áhrifum strandveiðanna á sjávarbyggðir. Sú úttekt sýndi mjög jákvæð samfélagsleg áhrif. Hafi ég misskilið þingmanninn að einhverju leyti á hann þess kost að koma hér upp aftur og kveða fastar að orði.



[11:00]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, hv. þingmaður misskilur mig. Ég var að spyrja um áhrifin af innleiðingu reglu samkvæmt 2. gr. á þær byggðir þaðan sem við vitum að aflaheimildir fara. Það væri ágætt að heyra það.

Í annan stað fagna ég því að hv. þingmaður tekur undir þær athugasemdir sem hafa komið um þetta ofboðslega framsal heimilda frá ráðherra til Fiskistofu. Ég hjó eftir því að hún gerði engu að síður ráð fyrir því að Fiskistofa þyrfti að semja við einhvern í framhaldinu. Á þá bara að fela þetta með því að taka heimildina út og gera svo ráð fyrir því í greinargerð eða annarri vinnu að Fiskistofa muni semja við LÍÚ um að útfæra þetta?

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig er þessi tiltekna prósenta fundin, 5,3%, og hvernig er reikningurinn á bak við þessa reiknireglu fundinn? Hvernig á að búa til þetta verð í skiptum á bak við þessa reglu?



[11:01]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að beina þessum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem er flutningsmaður frumvarpsins. Ég sagði að ég hefði fyrirvara við þessa grein og sá fyrirvari stendur. (Gripið fram í.) Hins vegar varðandi það hvort ég hafi hugleitt hvaða áhrif innleiðing 2. gr. mundi hafa á byggðirnar hef ég gert það. Ég geri mér grein fyrir því að í hvert einasta skipti sem talað hefur verið um að breyta einhverju í íslenskum sjávarútvegi hefur greinin risið upp og hrópað hrun yfir greinina, fullyrt að hér færi allt á hausinn, menn yrðu reknir, svo og svo margir mundu missa vinnuna, gott ef menn hafa ekki sýnt óundirrituð uppsagnarbréf máli sínu til stuðnings.

Eins og sakir standa gef ég ekki mikið fyrir þennan málflutning eins og hann er fram settur og hefur verið. Hins vegar finnst mér sjálfsagt að fara betur yfir þetta mál. Eins og ég sagði finnst mér eðlilegt að hafa aðlögunartíma til þriggja ára og endurskoða málið eftir ár í ljósi reynslunnar. Reynslan er besti kennarinn.



[11:02]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í einni almennri umsögn um frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Óhætt er að segja að almennt hafi umsagnir og ummæli umsagnaraðila um málið verið nokkuð neikvæðar og óvægnar. Þannig kom ítrekað fram að umsagnaraðilar teldu frumvarpið óvandað, m.a. þar sem það innihéldi nýjar tillögur sem ekki hefðu fengið mikla umfjöllun í þjóðfélaginu.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað meiri hluti nefndarinnar, hún er á þessu áliti án fyrirvara — (Gripið fram í: Ha? … fyrirvara.) þetta er það fyrra. Ertu með fyrirvara á því líka? (Gripið fram í: Ég … nefndarálit.) Fyrirgefðu, þú varst í Færeyjum, fyrirgefðu, hv. þingmaður, en mig langar til að spyrja hvort þú takir undir þetta álit þá um að umsagnirnar séu óvægnar, ég skil þetta þannig að þær séu neikvæðar.



[11:03]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að árétta það var ég ekki á því nefndaráliti sem hv. þingmaður vísaði til, en ég skal svo sem taka afstöðu til þess. Reyndar vildi til dæmis Landssamband smábátaeigenda taka það fram á síðasta fundi með sjávarútvegsnefnd að hin meinta neikvæðni þess í garð frumvarpsins væri oftúlkuð og það vildi að það kæmi fram að það væri jákvætt gagnvart fjölmörgu í frumvarpinu. Hins vegar er þetta mál svo hagsmunatengt, það vill enginn missa spón úr aski sínum og allir sem hugsanlega sjá að þeir missi eitthvað af sinni köku senda að sjálfsögðu inn neikvæðar umsagnir. Við verðum að geta tekið öllu slíku með fyrirvara.

Ég tek undir eitt, frumvarpið hefði mátt vera betur úr garði gert. Það hefur líka komið til kasta hv. sjávarútvegsnefndar að lagfæra frumvarpið og vísa til framtíðarvinnunnar varðandi stóra frumvarpið þeim málum sem eru umdeildust og erfiðust í meðförum þannig að það sem eftir stendur samkvæmt nefndarálitinu er hryggjarstykkið í málinu. Og með því stend ég. (Forseti hringir.)



[11:04]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að hann standi með hryggjarstykkinu í málinu. Mig langar að vitna aftur í það sem hefur komið fram og hv. þingmaður hefur tekið undir, að það sem eftir standi af frumvarpinu eigi að fara í gegn. Hagsmunaaðilar, þeir sem óneitanlega eru hagsmunaaðilar eins og hv. þingmaður bendir á, hafa gagnrýnt að ekki liggi fyrir mat á afleiðingunum. Hefði ekki verið betra að það lægi fyrir einhvers konar mat á þeim afleiðingum? Þó að það sé búið að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu hefur verið gagnrýnt að ekkert liggi til grundvallar þeim breytingum sem verið er að gera, þar er ég að tala um mat á efnahagslegum áhrifum og afleiðingum frumvarpsins.



[11:05]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við getum reiknað okkur norður og niður. Við getum gert ótal úttektir og reiknað og reiknað. Það er vísasti vegurinn til að komast að fyrir fram gefinni niðurstöðu, að byrja bara að reikna, reikna hluti út af borðinu, reikna hluti inn á borðið o.s.frv.

Mikilvægasta vitneskjan sem við fáum er reynslan. Ég ætla að upplýsa hér að fátt hefur glatt mig meira í pólitík eftir að ég byrjaði sem stjórnmálamaður en að upplifa reynsluna af strandveiðunum þegar ég sá lífið færast í byggðirnar í mínu kjördæmi þar sem ég var á ferð sumarið 2009, karlana káta niðri á bryggju, spriklandi fisk í körum og lífið var komið í hafnirnar aftur í deyjandi byggðum. Það er þessi lífsneisti sem ég vil vernda og hlúa að. Það þarf engar hagfræðiúttektir til að segja mér það sem brjóstið finnur í þessu máli.



[11:07]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á því sem ég var að fjalla um í andsvörum við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur áðan. Ég fagna því sem fram kom í mál hennar, að hún telur mikla þörf á að skoða þetta. Þó að hv. þingmaður vildi kannski ekki beita sér fyrir því mundi hún ekki standa í vegi fyrir því. Það skiptir að mínu mati ekki höfuðmáli hvort fresturinn stendur í tvo, þrjá mánuði eða hugsanlega í eitt ár. Aðalatriðið er að því verði vísað inn í heildarendurskoðunina á lögunum sem hefjast á í haust. Ef ég skil þetta rétt gildir það ákvæði fram í desember á þessu ári og ef sú endurskoðun verður búin í febrúar eða mars er það í fínu lagi. Aðalatriðið er að það taki ekki gildi fyrr en menn eru búnir að fara yfir það í heildarendurskoðun á lögunum. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður, formaður sjávarútvegsnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, vildi koma í andsvar og reifa það aðeins við mig.

Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað í nefndinni, sérstaklega í ljósi þess að þótt það sé ekki eðlilegt að hafa sambærilega tölu í krókaaflamarkinu eða aflamarkskerfinu, eins og ég benti á áðan, sem er 12% í aflamarkinu en 4% í krókaaflamarkinu, geta verið ákveðin rök fyrir því. Það sem mér finnst vert að skoða, og ég skora á hv. sjávarútvegsnefnd að gera það milli 2. og 3. umr., er að setja bráðabirgðaákvæði þar sem þessu ákvæði yrði vísað í heildarendurskoðun á lögunum eins og gert var í fyrra þegar menn ætluðu að vera búnir að fara í þá vinnu. Hún tafðist og þess vegna tel ég eðlilegt að brugðist verði við því og sett inn bráðabirgðaákvæði um að því verði frestað.

Það blasir við að það mun einungis hafa áhrif á eitt fyrirtæki á Suðurnesjunum. Það væri mjög dapurlegt ef við mundum ekki framlengja þetta ákvæði því að þá gæti staðan orðið sú að fyrirtækið yrði að selja frá sér heimildir sem einhverjir stórir hákarlar mundu þá væntanlega kaupa. Við vitum alveg hvernig ástandið er í greininni, á fjármálamörkuðunum, hjá fyrirtækjunum, þannig að það væru þá ekki einhverjir litlir aðilar í Grindavík sem keyptu þá, það yrðu hugsanlega einhverjir stórir sem keyptu þá út af svæðinu. Það væri ekki gott þar sem atvinnuleysið er mest á Suðurnesjunum, eins og við vitum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta verði tekið inn í endurskoðun á heildarlögunum. Ég hvet hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að skoða það sérstaklega. Mér láðist að vekja athygli á því í fyrri ræðum mínum og þar sem ég á ekki sæti í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd beini ég því vinsamlega til þess ágæta fólks sem þar situr.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að fjalla frekar um það sem snýr beint að frumvarpinu sjálfu. Ég vek athygli á einu, ég var að lesa í gærkvöldi varðandi þingskapabreytingarnar sem fyrirhugaðar eru og búið er að leggja fram drög að þar sem þingskapanefndin svokallaða hefur fjallað um hverju sé mikilvægast að breyta. Nefndin fjallar þar ítarlega um framlengingarfrestinn og telur að betur fari á því að hafa hann á skilum vetrar- og vorþings en þó eigi síðar en 1. apríl, frekar en að miða hann við einn ákveðinn dag. Þá er rætt um það þegar ráðherrar koma með stór og umdeild mál inn í þingið eftir að framlengingarfresturinn er liðinn með það fyrir augum að fá málin tekin fyrir, þau rædd og jafnvel afgreidd á skömmum tíma. Slík vinnubrögð séu ekki til þess fallin að auka gæði lagasetningar.

Síðan langar mig að vitna í sömu grein á öðrum stað varðandi það sem kemur fram í meðförum þingskapanefndarinnar. Þetta er gert til að lagafrumvörp og þingsályktunartillögur frá ríkisstjórninni komi það tímanlega inn í þingið að hægt sé að fjalla um þau með eðlilegum hætti. Það er einmitt það sem við erum að vinna að á hinum endanum, þ.e. hvernig við eigum að breyta vinnubrögðunum í þinginu. Það verður að segjast eins og er að það er ekki til eftirbreytni hvernig þetta mál kemur inn í þingið. Það kemur hér mörgum vikum eftir að fresturinn er liðinn og er ítrekað í þingskapanefnd að það sé ekki til fyrirmyndar.

Síðan skulum við fara aðeins yfir að haft var samband við umsagnaraðila um frumvarpið seint á föstudegi, jafnvel á föstudagskvöldi, þegar sjómannadagurinn var að ganga í garð og hátíðahöldin byrjuð á mörgum stöðum og þeir beðnir að skila álitum um frumvarpið og mæta til fundar við nefndina á mánudagsmorgni. Það eru vinnubrögð sem við eigum ekki að viðhafa og það er ekki hægt að bjóða umsagnaraðilum upp á þau. Það kemur í ljós að þegar við fjölluðum um þetta mál og þegar búið var að mæla fyrir því, fór það fyrst í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þar voru þrír af fjórum nefndarmönnum stjórnarinnar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar og Róbert Marshall, með fyrirvara á málinu og í raun breytist það í að vera fyrsta minnihlutaálit af því að það er einungis hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, sem er ekki með fyrirvara á málinu og flytur nefndarálitið hér.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði grein fyrir fyrirvara sínum og væntanlega gera hinir tveir hv. þingmenn það líka.

Það sem hefur gerst í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er settar hafa verið fram tillögur og síðan fór málið aftur til nefndar og var skorið enn þá meira niður. Í raun hafa verið sniðnir agnúar af frumvarpinu í meðförum nefndarinnar eins og eðlilegt er. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég fagna flestum þeim breytingum sem búið er að gera á málinu í nefndinni. Til að mynda er búið að draga úr hækkun á veiðigjaldinu, úr 70% í 40%. Ég tel það jákvætt. Það er búið að taka út þriggja tonna ákvæðið sem mér finnst mjög jákvætt, sérstaklega út frá öryggismálum sjómanna. Það er búið að minnka pottana úr um það bil 11 þús. í 4.500 tonn og það er búið að breyta sérstöku ákvæði um tegundatilfærslu í löngu og keilu. Það tel ég vera spor í rétta átt. Það er líka jákvætt að búið er að koma inn að tegundatilfærslu er líka breytt í þá veru að nú mega ekki vera 2% í hverri tegund fyrir sig, heldur er það minnkað niður í 1,6% til viðbótar á móti þessum 30% sem útgerðunum er heimilt að gera tegundatilfærslu innan hverrar tegundar. Ég tel það jákvætt til þess að bregðast við þeim vandamálum sem verða þegar einstakar tegundir eru mikið notaðar í tegundatilfærslu.

Það eru ekki stórar deilur um þetta. Hins vegar er ég mjög ósáttur við, og ég leyni því ekki, hvernig 2. gr. hefur verið í sérstöku niðurskurðarferli, nánast í ákveðinni útvötnun í nefndinni. Ég er ekki sáttur við það vegna þess að í upprunalega frumvarpinu frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði að ákveðin jöfnun kæmi í pottana, samfélagslegu pottana eða byggðalegu pottana eða hvað sem við köllum þá. Í dag eru einungis fjórar tegundir settar inn í það allt saman og ekki er spurt að því hvort þessar tegundir verði skornar niður eða ekki, menn skulu alltaf þurfa að borga gjaldið í pottana. Við fórum með þorskkvótann úr 190 þús. tonnum niður í 130 þús. tonn, samt skulu þeir sem eru með bolfiskinn greiða í pottana, í hina samfélagslegu potta eins og við köllum þá stundum, en hinir sitja frítt fyrir utan.

Það var ákveðin jöfnun og það er líka mikilvægt að rifja upp að það er sátt innan greinarinnar um að ekki verði farið í þessa jöfnun, þ.e. að allir þeir sem starfa og eru með kvótabundnar tegundir muni leggja sitt af mörkum til að bregðast við því sem við ræðum hér, hvaða nafni sem við kunnum að kalla það. Það er hins vegar búið að útvatna þannig að það verði 1/3, það eru nýjustu tölurnar sem ég heyri, og taki gildi á þremur árum. Það er kannski rétt að fagna því að þá verði búið að stíga fyrsta skrefið, það er jákvætt, en ég hefði hins vegar viljað gera það öðruvísi. Ég ætla ekki að draga neina dul á það, svo það fari ekkert á milli mála, að þetta er umdeilt innan allra flokka, svo það sé alveg skýrt. Ég ætla ekki að fegra neitt í því sambandi, það er mikilvægt að menn tali um hlutina eins og þeir eru en reyni ekki að koma því á aðra.

Ég sagði áðan að í þessu frumvarpi væri í raun verið að auka við pottana um 4.500 tonn plús þessi 1.500 eða 1.900 tonn, hvað það verður, í strandveiðum á þessu ári, sem er ætlun hæstv. ráðherra að gera, sem hann á reyndar í fyrningum, eins og hann orðar það. Auðvitað er það ekkert öðruvísi en svo að hægt er að leggja það við vegna þess að þá væri hægt að úthluta því til annarra sem hafa aflahlutdeildina í dag.

Ég held að það sé dálítið mikilvægt að rifja það upp í þessari umræðu að ýsukvótinn er búinn að fara úr 100 þús. tonnum á rúmu ári, þ.e. á tveimur fiskveiðiárum. Nú kemur Hafrannsóknastofnun með tillögu um að hann fari úr 55 þús. tonnum niður í 37 þús. tonn. Enn kemur högg á bolfiskvinnsluna í landinu. Það er líka ágætt að rifja það upp að þegar við skoðum heildarsamhengi hlutanna er afkoma greinarinnar mjög fín, sem betur fer, en áberandi best hjá þeim fyrirtækjum sem láta minnst í hina samfélagslegu potta. Það eru bara blákaldar staðreyndir. Sem betur fer gengur þeim vel, ég fagna því, en eigi að síður er þetta svona.

Það vekur líka athygli mína að það er búið að ná sátt innan greinarinnar um hvernig þetta skuli gert og afgreiða það þar en samt sem áður ætla menn að þynna þetta út í 1/3 á þessu ári. Ég er ekki sáttur við að það sé gert en geri þó ekkert lítið úr því. Ég tek undir að það er þó búið að stíga fyrsta skrefið og það hefur ekki áður tekist. Fyrir það ber að þakka.

Mig langar líka aðeins að benda á, því að menn mega ekki rugla þessu saman, að sumir tala oft um að þetta sé eingöngu gert í uppsjávarveiði. Það er ekki svo, fjórar tegundir eru settar inn í þetta í dag; þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Mest er skerðingin í þorskinum, en það eru 20 aðrar tegundir sem setja ekkert og það eru ekki bara uppsjávartegundir, það eru karfi, grálúða og hitt og þetta, rækja, humar — reyndar er rækjan komin út úr því núna, en allar kolategundir og þar fram eftir götunum. Það er því ekki eingöngu verið að tala um uppsjávartegundirnar. Það eru bara þær tegundir sem eru þarna fyrir utan og þess vegna er ég mjög ósáttur við að það sé gert en virði þó að þetta er fyrsta skrefið í rétta átt.

Það er mjög athyglisvert að skoða það ef menn hefðu farið upprunalega leiðina, af því að menn tala um að mikil færsla sé á milli. Hefði upprunalega hugmyndin verið valin sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði til — ég held að það hafi verið eina greinin sem ég var virkilega sammála um að væri í frumvarpinu, enda búinn að flytja frumvarp um það af því að mér finnst það vera jafnræðismál, sanngirnismál — hefðu samt sem áður þessar fjórar tegundir sett inn tæp 12 þús. tonn, en úr hinum 20 tegundunum hefðu komið um 6 þús. tonn, þ.e. úr 20 öðrum tegundum, þannig að þær settu inn 1/3.

Nú er það þannig að þeir setja 2 þús. tonn í staðinn fyrir 6 þús., þeir fá þriggja ára aðlögunartíma. Það geta verið ákveðin rök fyrir því þó að ég sé ekki sáttur við það, ég ítreka það enn og aftur. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög sérkennilegt og það hefur verið upplýst í þessum stóli að forustumenn greinarinnar hafa sagt að þetta væri það sem þeir væru með. Í aðalfundarályktunum til fjölda ára, stjórnarsamþykktum, hefur verið lagt til að gera þetta svona, en síðan þegar á reynir virðist ekki vera hægt að fylgja því eftir.

Ég fagna því sem gert er. Ég fór vel yfir það í fyrri ræðum mínum við 1. umr. um málið að ég var rosalega hugsi yfir skiptingunni á veiðileyfagjaldinu. Það komu reyndar mjög afgerandi athugasemdir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem menn töldu þetta hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. En hvað um það, það er búið að taka það út úr þessu frumvarpi og setja það inn í almennt ákvæði. Ég er ekki viss um að það hafi verið skynsamlegt, í fyrsta lagi vegna þess að þá væri kannski ekki þjóðarsátt um greinina. Við þurfum að ræða það, þó að ég komi úr sjávarplássi, hvernig við ætlum að skipta gjaldinu út frá aðgangi að auðlindinni. Auðvitað er eðlilegast að því sé skipt jafnt á milli allra, en þá verður það líka að gerast samhliða þessu. Margir hv. þingmenn hafa tekið undir það með mér að þá verða allir að borga auðlindagjald af þeim auðlindum sem þeir nýta á hverjum stað, t.d. þeir sem fá að nýta heita vatnið í Reykjavík. Það er þjóðarauðlindin og þá vil ég eiga jafnmikið í þeirri auðlind og til að mynda þeir sem búa á þessu svæði eiga í sjávarauðlindinni. Þá greiða allir eðlilegt gjald fyrir notkunina eða aðganginn að auðlindinni og þá getum við ekki skipt því upp með þessum hætti. Mér finnst til dæmis sérkennilegt að við tökum bara einn landshluta, þá er misskipt á milli byggðarlaga þótt það séu kannski ekki nema nokkrir kílómetrar á milli þeirra. Kannski er eitt byggðarlagið með iðnaðarstarfsemi sem heldur við sjávarútveginum í hinu byggðarlaginu, en þá er því skipt svona af því að það er annað sveitarfélag.

Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég held líka að það hefði verið fyrirséð, af því að við erum með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, að hann hefði brugðist við og rétt þetta af. Við værum þá hugsanlega að búa til eitthvert vandamál sem yrði leyst á öðrum vettvangi og yrði jafnað út. Ég tel að það sé betra að gera það svona og taka þá af allan vafa um að þetta stangist á við stjórnarskrána.

Þá langar mig aðeins að koma inn á eitt mál á síðustu mínútunum í ræðu minni og hvetja hæstv. ráðherra, hv. þingmenn, varaformann og formann nefndarinnar, sem tekið hafa undir gagnrýni mína í umræðu um þessi mál sem snýr að strandveiðunum.

Skiptingin í dag er mjög óréttlát, það er ekkert hægt að deila um það. Á svæðunum er mjög mismunandi hversu miklu er hrúgað inn á þau. Við sjáum bara á fyrsta mánuðinum að á einu svæði fá menn að róa í fimm daga og á öðru svæði ná þeir ekki kvótanum, eiga jafnvel um 30% eftir af honum. Það er vitlaust gefið. Til að mynda eru á svæði B 85 leyfi, þar er úthlutað 355 tonnum. Á svæði C eru 86 leyfi, þar er 231 tonn. Búið er að ræða mikið í morgun um áhrif kerfisins á Vestfirði. Mér finnst ekkert réttlæti í því að þeir Vestfirðingar sem eru á strandveiðum fái að róa í fimm daga þegar aðrir fá að róa allan mánuðinn. Þess vegna vil ég beina því góðfúslega til þeirra sem um málið véla að mismunurinn verði leiðréttur því að þetta er mjög ósanngjarnt. Verði þetta að lögum er mikilvægt að það verði skoðað í heildarsamhenginu þegar bæta á við strandveiðarnar.

Því til viðbótar er mikilvægt að rifja upp, en það gleymist í öllu þrasinu og arginu og garginu, að þegar strandveiðarnar voru settar á árið 2009 var ákveðið að setja 4 þús. tonn af þorski. Strandveiðarnar voru reyndar settar á seinna á tímabilinu, þær byrjuðu seinna vegna þess að menn náðu ekki að klára málið fyrir maímánuð. Þá var tekin ákvörðun um að helmingurinn færi úr byggðakvótanum, þ.e. 1.955 tonn. Ég held að ég muni þessa tölu alveg rétt, það voru um 50%. Ég held að við þurfum líka að skoða það betur þegar búið verður að búa til byggðapottana og enn verið að bæta í þá — ég veit að menn hafa talað um að skoða áhrifin af því, af því að það er töluvert um að þessu sé smurt í þunnu lagi yfir alla þannig að það náist að eyða nánast öllum þessum kvóta. Ég tel mjög mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði sérstaklega hvernig þetta er gert. Það er mikilvægt, mínu viti, að hafa ákveðinn pott til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem upp geta komið á einstaka stað. Það hefur alla tíð verið skoðun mín, það er mjög mikilvægt að það sé fyrir hendi. En við megum ekki þynna það út eins og gert hefur verið.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég las fyrir örfáum dögum á bb.is nokkuð sem ég hafði grun um, þ.e. að þeir sem eru á strandveiðunum séu 40% af þeim sem selt hafa frá sér varanlegar heimildir. Ég held að það sé ekki pólitískur ágreiningur um það í þessum sal að það var ekki tilgangurinn með því sem ákveðið var. Það eru hins vegar staðreyndirnar sem blasa við og er nokkuð sem verður að skoða. Ég held hins vegar að það sé erfitt að bregðast við því héðan af, það var hugsanlega hægt fyrsta árið. Ég held að það sé mikilvægt að menn skoði þetta í heildarsamhenginu. Ég hvet hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fara sérstaklega yfir þá hluti sem ég hef nefnt, sérstaklega það sem snýr að þessu eina fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu á Suðurnesjum.



[11:27]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á hvort hægt væri að skoða frestun á ákvæði um að krókaaflamarksbátar væru með aflahlutdeild að 4% í kerfinu. Ákvæðið rennur út 1. september 2011. Ég tel rétt að sú tillaga, ef hún kemur fram, verði skoðuð með opnum huga í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég er alveg tilbúin til að gera það. Mér finnst málið vera þannig að menn hljóti að skoða það með réttsýni í huga fyrst ekki er búið að endurskoða lögin eins og menn reiknuðu með að væri ef til vill búið að gera á þessum tíma.

Ég vil aðeins ræða jöfnun í potta, samfélagslega potta. Nú hefur það verið mikið í umræðunni að allt mundi fara á hvolf ef uppsjávargeirinn greiddi með sama hætti og útgerðir í bolfiski gera í samfélagslegu pottana. Þess vegna var nú bakkað með upphaflegar hugmyndir út úr frumvarpinu en ég studdi þær vegna þess að með þeim var þessum sjónarmiðum mætt.

Telur hv. þingmaður að það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins ef þessi hluti flotans greiddi með sambærilegum hætti í samfélagslegu pottana og þeir sem eru í bolfiskveiðum hafa gert í 20 ár? Hver er skoðun hv. þingmanns á því?



[11:29]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vera mjög fús til að skoða sérstaklega ákvæðið sem snýr að þessu eina fyrirtæki á Suðurnesjum og fresta gildistöku þess þar til heildarendurskoðun á lögunum fer fram, hvort sem það er eftir tvo, þrjá eða fimm mánuði — það er auðvitað í höndum þingsins að klára það mál. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður taki undir þetta sjónarmið og það gerði reyndar varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, líka.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að við jöfnun úr pottunum fari allt á hvolf og hvort það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir byggðarlögin. Mín skoðun er að það mun ekki hafa alvarlegar afleiðingar. Alls ekki. Ég stend keikur á því. Þegar menn kalla eftir því að það verði skoðað sérstaklega, og æskilegt væri að það yrði gert, ég dreg ekki úr því, verða menn líka að svara spurningunni: Hefur verið gerð úttekt á því hvaða áhrif fyrirkomulagið hefur haft undanfarin 20 ár? Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki séð þá úttekt. Þeir sem kalla eftir því að þetta verði skoðað sérstaklega verða þá að svara því af hverju ekki er búið að skoða það sem gert hefur verið síðustu 20 ár.

Ég minni enn og aftur á að við erum ekki bara að tala um uppsjávarveiðar heldur veiðar á 20 tegundum þar sem ekkert er sett í samfélagslegu pottana í dag. Þetta er ekki bara uppsjávarfiskurinn heldur miklu fleiri tegundir. En stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins setja minnstu prósentuna í þessa tölu. Það er bara svoleiðis. Það eru staðreyndir. Við skulum bara ræða þær eins og þær eru, það þýðir ekkert að fara í kringum þær.

Mín skoðun er alveg skýr: Þeir sem segja að ekki sé búið að skoða afleiðingarnar af þessu, af hverju hafa þeir ekki barist fyrir því að skoða þær afleiðingar sem það hefur haft fyrir þær byggðir sem eru miklu frekar bundnar við bolfiskinn, að skaffa inn í pottana sem alltaf eru að stækka?



[11:31]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það áðan í málefnalegri ræðu, ég vildi bara nefna það og þakka fyrir það, að ekki væri mikið jafnræði í úthlutun í strandveiðum og hvernig þeim væri skipt upp í svæði, og nefndi hugmyndir um að endurskoða það. Ég hef lýst því áður að ég vil gjarnan skoða hvernig því verði fyrir komið þegar fram fer endurskoðun á heildarlögunum. Ég tel að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti, jafnvel þannig að landið verði allt eitt svæði og fundin verið út reikniregla miðað við magnið sem fer til strandveiða og fjölda báta og deila þessu á tímabil með einhverjum hætti, t.d. tvær vikur. Ég held að það kæmi miklu betur út. Þá er ekki verið að ýta á að litlir bátar fari í alls kyns veðrum í kapphlaup við stærri báta eins og stundum hefur gerst, sérstaklega fyrst á vorin.

Hv. þingmaður talar um það allir eigi að greiða inn í jöfnunarpotta og það muni ekki hafa afleiðingar fyrir þær greinar sem greiða ekki í pottana í dag. En hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að það geti haft fyrir greinarnar sem greiða í pottana núna ef þær taka á sig enn hærri eingreiðslu ef aðrir koma ekki inn í myndina, ef á þær bætist að greiða í samfélagspottana og hinir koma ekki inn? Einnig vil ég spyrja hvort hv. þingmaður telji að þörf sé á þessum samfélagslegu pottum miðað við reynslu síðustu 20 ára.



[11:33]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara síðustu spurningunni fyrst af því ég þykist vita að hv. þingmaður vilji fyrst og fremst heyra svarið við henni. Ég tel þörf á þeim, já. Ég rakti það í ræðu minni áðan. Maður má ekki vera blindur þegar upp koma þær aðstæður að bregðast þarf við, þá tel ég mjög mikilvægt að þeir séu fyrir hendi. En ég vara hins vegar við því hvernig þetta hefur þróast á undanförnum árum, við höfum sett of mikið inn í þetta að mínu mati, allt of mikið, og svo erum við einhvern veginn að þynna þetta út. Það er nú einu sinni þannig að sumar byggðir og svæði eru alltaf að setja inn í pottana en geta aldrei tekið út úr þeim. Við verðum að ræða þetta á þeim grunni og auðvitað þarf miklu dýpri umræðu en við höfum tíma til hér í andsvörum. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu hvenær sem er og hvar sem er. Sum sveitarfélög leggja mikið inn í þetta en hafa aldrei fengið neitt út úr því. Við erum núna að færa til og það er mjög mikilvægt.

Okkur hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur greinir ekki mikið á um hvernig menn þurfa að skoða og læra af strandveiðireynslunni. Ég held að það sé mikilvægur þáttur sem komið hefur fram í umræðunni, að við skoðum þær einmitt út frá öryggismálunum. Við skulum gera það, við megum ekki gleyma þeim þætti. Sem betur fer var þetta annað árið, síðan land byggðist væntanlega, að minnsta kosti sem vitað er um, sem allir sjómenn komu heilir í höfn. Því ber að fagna. Engin stjarna var á fánanum. Við þurfum að vera meðvituð um að það er ekki sjálfgefið. Maður áttar sig ekki á því fyrr en maður er sleginn hastarlega utan undir annað slagið að ekki er sjálfgefið að allir komi heilir heim. Við skulum því vera meðvituð um það.

Hv. þingmaður spurði líka hvaða áhrif það hefði ef menn bættu í pottana. Ég held að mikilvægt sé að hv. þingmaður hugsi það eins og ég. Ég benti á í ræðu minni að nú erum við að minnka ýsukvótann úr 100 þús. niður í 37 þús. tonn eins og tillagan hljóðar upp á, væntanlega niður í 40 þús. tonn. Hvaða áhrif hefur það á bolfiskvinnslurnar hringinn í kringum landið? Þær eru ekki bara í einu kjördæmi, þær eru um allt land. Þetta mun auðvitað hafa alvarlegar afleiðingar vegna þess að þær eru alltaf að borga meira í pottana og verða líka fyrir skerðingum. Þetta gefur því augaleið og ég hef miklar áhyggjur af þessu.



[11:35]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að það er ríkur samhljómur í málflutningi hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og mínum og þeim áherslum sem ég hef viljað leggja í þessu máli, sérstaklega varðandi svæðaskiptinguna í strandveiðunum sem ég hef oft gert að umtalsefni áður. Ég velti því fyrir mér og vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann hafi hugleitt hvaða fyrirkomulag annað væri hægt að hafa á svæðaskiptingunni í strandveiðunum. Hvort hann taki þá hugsanlega undir þær hugmyndir sem reifaðar hafa verið um að miða þetta jafnvel bara út frá einni strandveiðilandhelgi og vera ekki með svæðaskiptingu þannig að menn bara sæki fiskinn þangað sem er styst að sækja hann og ráði hvar þeir landa honum. Svo má jafnvel hugsa sér að einhver löndunarskylda sé bundin við heimahafnir eða eitthvað því um líkt. Hefur þingmaðurinn hugleitt það?

Síðan varðandi framlagið af uppsjávargeiranum með bolfiskvinnslunni inn í samfélagspottinn. Eins og ég sagði áðan er ég tilbúin að skoða þriggja ára aðlögun að því og það verði endurskoðað í ljósi reynslu að ári, en þingmaðurinn nefndi að honum fyndist það of mikil útþynning. Ég vil taka það fram að ég skil það sjónarmið. Ég sé ekki ástæðu til þess að sú útþynning eigi sér stað en mér finnst hins vegar allt í lagi að taka þátt í þeirri aðlögun ef það má verða til þess að leiða til sátta í málinu og verði þá til þess að þetta verði gert þó að það taki aðeins lengri tíma.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Sér hann hugsanlega einhverja aðra sáttaleið í þessu máli?



[11:38]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það í ræðu minni áðan að við skyldum bara tala um hlutina eins og þeir væru. Ég hef haft þá skoðun, í mörg ár, um að það þurfi að jafna í pottana, sérstaklega í ljósi þess að sumir þeirra eru alltaf að stækka en setja þarf inn í þá sem eru skornir niður. Mér finnst það bara óréttlæti. Ég minni bara á að fólk í greininni er sammála um það. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því og viðurkenni það bara. Ég sagði í ræðu minni áðan: Nú er verið að stíga þetta fyrsta skref þótt ég hefði viljað hafa það stærra. Það er þó verið að stíga það, það ber að virða, ég geri það. Ég verð líka að horfa á staðreyndir. Staðreyndirnar eru þessar: Þetta var ekki gert meðan minn flokkur var í stjórn, það er bara staðreynd. Það þýðir ekkert annað en að viðurkenna staðreyndirnar þegar þær blasa við manni. Þetta var ekki gert þá. Nú er verið að stíga fyrsta skrefið. Menn hafa náð ákveðnu samkomulagi þvert á flokka. Það er fyrsta skrefið. Það ber bara að virða og ég geri það.

Hvað varðar skiptinguna á strandveiðunum höfum við rætt það, ég og hv. þm Lilja Rafney Magnúsdóttir, á fyrri stigum málsins. Það er að ég held hlutur sem við verðum að skoða í rólegheitunum. Ég held hins vegar að menn gætu hugsanlega deilt þessu niður á fjölda leyfa á hverju svæði. Menn þyrftu hugsanlega að skoða hvort hægt væri að hafa eitt svæði. Ég tel það möguleika vegna þess að veiðarnar byrja að sunnanverðu, svo færast þær til, þannig að það er spurning hvort það væri góð lausn. Það eru bara hugmyndir. Aðalatriðið er að ná fram jöfnun og því sem er verið að gera, hvort það er gert með þessum hætti eða einhverjum öðrum. Hugsanlega mætti ræða að setja einhverja fasta daga fyrir menn. Þá yrði það að vera alveg á hreinu að það mætti aldrei framselja þá og aldrei mætti koma upp hagræðingarkrafa um að sameina dagana. Það verður að vera alveg skýrt frá fyrstu tíð. En það er bara hlutur sem við verðum að þróa og ræða og læra af reynslunni.



[11:40]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það, við þurfum að læra af reynslunni varðandi svæðaskiptinguna í strandveiðunum og hvernig strandveiðarnar hafa reynst yfir höfuð. Reynslan er, eins og ég sagði áðan, besti kennarinn. Ég er að bara að velta því fyrir mér hvort hv. þingmaður vilji þá taka höndum saman með mér og öðrum sem höfum áhyggjur af þessari svæðaskiptingu og vinna með okkur að því að gera tillögur til hæstv. sjávarútvegsráðherra um það hvernig þessu verður best fyrir komið. Ég held að það væri mjög gott ef menn gætu teygt sig yfir flokkagirðingar og skotgrafir og reynt að finna lausn á þessu máli. Það er auðvitað ekkert vit í því þegar eitt svæði klárar að veiða það sem fellur í þess hlut á innan við viku. Það eru kannski fjórir túrar á meðan aðrir geta verið í rólegheitum og allsnægtum að dóla sér á sínum strandveiðum einhvers staðar sunnar, t.d. við Suðurland, það er auðvitað nokkuð sem þarf að leiðrétta.

Aðeins í sambandi við uppsjávarfiskinn og framlagið í samfélagspottana, svo ég haldi mig aðeins við það; eins og hv. þingmaður nefndi og ég var reyndar búin að nefna líka í ræðu minni var sátt um það innan greinarinnar að gera þetta eins og upphaflega var lagt til í frumvarpinu. Getur þingmaðurinn svarað því af hverju sú sátt rofnaði? Veit þingmaðurinn það?



[11:42]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samráðið held ég að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því að allir eru tilbúnir til sátta og samstarfs um að gera ákveðna hluti, eins og hv. þingmaður bendir á varðandi strandveiðarnar. Ég hef sagt það í mörgum ræðum að ég telji mjög mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vinni að sátt. Þeir fulltrúar okkar sem sitja þar, hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, eru ekki síður til þess fallnir en sá sem hér stendur að vinna að einhverjum sáttum. Aðalatriðið er að menn ræði málin efnislega, málefnalega og setji sig niður og læri af þessu.

Svo ég klári þetta með strandveiðarnar held ég að við þurfum bara að læra af þeirri reynslu sem orðið hefur, líka af öryggissjónarmiðum. Við vitum að ráðherra er búinn að færa til eina línu eftir að þetta gerðist. Mér virðist það vera til heimabrúks, þ.e. hann færir þarna inn á ákveðnu svæði. Það væri mjög gott ef hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoðaði það.

Hv. þingmaður spyr mig um sáttina og hvað gerðist í því rofi sem varð í ferlinu. Ég veit ekkert um það. Ég veit bara að ég sit ekki í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það kom tillaga frá meiri hluta hennar að fara þessa leið. Mönnum hefur kannski fundist þetta vera of bratt eða að það þyrfti að skoða þetta og gera þetta á lengri tíma. Eflaust liggur eitthvað svoleiðis að baki því. En ég ítreka það að þetta er þó fyrsta skrefið. Þó að ég hefði viljað stíga stærra skref er þetta fyrsta skrefið og fyrir það ber að þakka. Ég geri það að minnsta kosti vegna þess að mér finnst það vera réttlætismál.

Það kemur líka fram, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði áðan, að fyrirkomulagið verði e.t.v. endurskoðað þegar reynsla verður komin á það. Ég tel það ekkert vandamál. Menn hafa bent á í umræðunni að ígildin séu vitlaus. Þau eru þá akkúrat í þá átt sem er hagkvæmari fyrir þessar greinar en hinar. Það eru ekki uppsjávartegundirnar, það eru þessar 20 tegundir aðrar sem eru þar fyrir utan. Það er mjög mikilvægt að við gleymum því ekki.



[11:44]Útbýting:

[11:44]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við vinnum að breytingum eins og við gerum nú í sjávarútvegsmálunum hlýtur það að vera eitt meginatriðið að við gerum okkur grein fyrir því hvert þær breytingar eiga að leiða okkur, hvert við stefnum með breytingunum. Þegar við á sínum tíma settum kvótakerfið í sjávarútvegi á voru sett skýr markmið um það hvert við ætluðum að stefna. Þegar framsalinu, sem er kannski það umdeildasta í fiskveiðistjórnarkerfi okkar í dag, var komið á árið 1990 var markmiðið alveg skýrt, það var alveg skýrt hvernig menn töluðu þá. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á þeim tíma ekki verið í ríkisstjórn og ekki greitt atkvæði með framsalinu er það óumdeilt í dag að það er eitt besta skrefið sem stigið hefur verið til að hagræða í sjávarútvegi. Þáverandi sjávarútvegsráðherra tók það sérstaklega fram, í ræðum sínum um þessi mál, að þetta mundi leiða til samþjöppunar, þetta mundi leiða til fækkunar í fiskiskipaflotanum og að við fengjum hagkvæmari sóknareiningar í lokin. Þannig að markmiðin voru alveg skýr og þau hafa gengið eftir. Þau hafa leitt til þess að við rekum óumdeilanlega einn hagkvæmasta sjávarútveg í heimi. Það hefur verið farið yfir það áður hvað aðrar þjóðir eru að borga með sjávarútvegi sínum, að þær eru með allt of stóran fiskiskipaflota. Við sjáum að Evrópusambandið er til að mynda með 300 milljarða, að ég held, á ekki löngu tímabili sem þeir ætla að nota í úreldingarsjóð fiskiskipa, eitthvað sem við létum greinina sjálfa taka á sig í okkar kerfi, þá eru þeir að greiða þetta niður.

Ef við ættum að styrkja sjávarútveg okkar, fyrir utan þennan úreldingarsjóð, á sama hátt og gert er í Evrópusambandinu, þyrftum við að borga um 100 milljarða á ári með sjávarútveginum.

Þessar breytingar hafa óumdeilanlega orðið til góðs fyrir samfélagið, þó að vissulega séu á því neikvæðar hliðar sem voru fyrirséðar. En segja má að stjórnvöld hafi brugðist því hlutverki sínu að efla atvinnustig á umræddum stöðum í öðrum greinum samhliða þessari þróun. Þegar við förum í breytingar verðum við að vanda til verka. Markmiðin verða að vera skýr. Við getum ekki haft þetta eins flausturslegt og málin hafa verið lögð fram nú. Það er allt of mikið í húfi fyrir okkar samfélag.

Um þetta þarf að ríkja víðtæk sátt í samfélaginu. Til þess að sú sátt náist þurfa þeir sem standa í forsvari á hverjum tíma, stjórnvöld og stjórnmálamenn, að tala málefnalega og yfirvegað um þessa hluti. Það er það sem hefur skort, það er það fyrst og fremst. Ég held að ábyrgðin liggi mjög mikið í pólitíkinni á því hvernig ástandið er í þjóðfélaginu, þ.e. sú óánægja sem hefur náð að grassera. Upphrópanir um kvótagreifa, sægreifa — auðvitað höfum við öll horft upp á það að menn hafa nýtt sér aðstöðuna og farið út úr greininni með miklum hagnaði, selt fyrirtækin sín og fengið óeðlilegan hagnað. Það má segja að það hafi verið ein af mistökunum, kannski stærstu mistökin, að við skyldum ekki skattleggja það með einhverjum hætti þannig að ríkið fengi af því tekjur. En við misstum þann vagn fram hjá okkur og það er erfitt að ná honum, hann er farinn og við verðum að taka næsta vagn. Við getum ekki gert það með þeim hætti að refsa þeim sem hafa farið að leikreglum.

Það er alveg sama hverjir skoða sjávarútvegskerfi okkar, hið mikilvæga samspil útgerðar, vinnslu og markaðssetningar er alltaf grundvallaratriðið. Það eru þessi atriði sem hafa sett okkur í fremstu röð í heiminum. Við erum að ná hærra afurðaverði hér en gengur og gerist. Það er mikil fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi. Ég er ekki sammála hv. þingmanni og formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þegar hún talaði um það hér áðan að fjölbreytnin væri ekki til staðar í kerfinu. Það er bara alls ekki rétt. Það er alveg gríðarleg fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi, bæði í sjósókn og vinnslu. Við höfum til dæmis séð þvílíka þróun verða í smábátaútgerð á landinu að það er algjör bylting, hvernig aðstæður manna hafa breyst um borð í þessum bátum, hve öflug verkfæri eru komin til sögunnar, hvað aðstæður og meðferð afla hafa breyst og öll þessi vitund sem við þurfum að hafa til að reka hagkvæman sjávarútveg.

Það lofaði góðu þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði af stað í þessa vegferð. Maður bar þá von í brjósti að fyrsta skref hans, þegar hann setti sáttanefndina á laggirnar, yrði til þess að við næðum einhverjum raunhæfum markmiðum og eins víðtækri sátt og hægt væri að gera. Það var mjög eðlilegt að í þeirri sáttanefnd væri tekist á. Þarna voru allir hagsmunaaðilar og þarna voru mismunandi pólitísk sjónarmið innan borðs við sama samningaborðið. Og menn hlupu út og skelltu hurðum og komu svo aftur eftir einhverja mánuði og settust að samningaborði. Þetta er eins og gerist í kjaraviðræðum og í samningaviðræðum almennt. Ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér, mismunandi skoðanir. En á endanum náðum við niðurstöðu. Við náðum niðurstöðu um meginleiðir, hvernig við ættum að fara í breytingaferli á fyrirkomulagi okkar í sjávarútvegi. Það voru allir sem skrifuðu undir þessar megintillögur að undanskildum fulltrúum Hreyfingarinnar og fulltrúa Sambands fiskframleiðenda og útflutningsaðila; allir meginaðilar voru sáttir við að halda áfram.

Hvað gerðist þá? Málið var tekið úr þeim sáttafarvegi sem það var komið í og sett inn til ríkisstjórnarflokkanna og fljótlega fór að rjúka úr þeim eldi sem kviknaður var. Í átta mánuði í augljósum ágreiningi komst ráðherra ekkert áfram með málið. Skipaðar voru þingmannanefndir og ráðherranefndir innan ríkisstjórnarflokkanna sem komust ekkert áfram. Niðurstaðan varð sú að leggja fram frumvörp sem eru algerlega í henglum. Það þurfti ekki einu sinni að fara í umsagnarferli til að sjá það, það sást um leið og afurðin leit dagsins ljós. Þetta var í algerum henglum. Þetta kemur inn í þingið fyrir um það bil 10 dögum og það á að rífa þetta út með miklum látum og klára þetta í sumar.

Mjög fáir stjórnarmenn hafa tjáð sig um málið og það er slæmt að við skyldum vera hér ein, stjórnarandstaðan, aðallega hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tjáðum okkur og viðruðum skoðanir okkar í þessu máli án viðveru fjölmargra þingmanna stjórnarflokkanna sem að öðru leyti hafa tjáð sig um þessi mál á opinberum vettvangi.

Vinnubrögðin í framhaldinu voru algjörlega óboðleg af hálfu Alþingis — hringt var í menn með stuttum fyrirvara. Þeim gefinn sólarhringur til að skila umsögnum og síðan var hafist handa við að funda í sjávarútvegsnefnd. Gestum var boðið upp á að koma á fundi seint um kvöld og fram á nætur. Og þegar kom að því að við mættum hér einn morguninn, þingmenn í þessari nefnd, til þess, að við héldum í stjórnarandstöðunni, að hitta fleiri umsagnaraðila þá lá bara nefndarálit á borðinu. Málið skyldi rifið út. Það var að mati meiri hluta nefndarinnar fullrætt og þurfti ekki frekari vitnanna við. Þetta var gert þrátt fyrir hina eindregnu niðurstöðu umsagna sem við höfðum fyrir framan okkur. Varnaðarorð hvert sem litið var, frá sjómönnum, landverkafólki, útgerðarmönnum og sérfræðingum sem af eigin hvötum sáu sig knúna til að senda álit til nefndarinnar. Algjöra falleinkunn. Takið þetta til endurskoðunar. En þá þurfti málið ekki frekari vitnanna við af hálfu meiri hluta nefndarinnar.

Hvað hefur gerst síðan? Nefndin hefur tekið málið til sín tvisvar eða þrisvar eftir það. Það er ekki einu sinni að verða eftir stofn af frumvarpinu, það er varla hægt að kalla það stofn því að flestar greinarnar eru farnar. Við finnum líka fyrir þessum skjálfta í stjórnarflokkunum vegna eigin ábyrgðarleysis. Þegar þeir þurftu að fara að horfa í augun á fólki, umbjóðendum sínum, út um allt land og fengu þessi hastarlegu viðbrögð, sem hefði verið hægt að segja þeim fyrir fram, þá kikna menn í hnjánum. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti. Þetta er ósómi fyrir Alþingi að standa að svona vinnubrögðum.

Niðurstaðan er sú að hér er orðið eftir frumvarp sem tekur einungis til mjög lítils hluta af því sem lagt var af stað með. Eftir stendur að láta hæstv. ráðherra hafa 4.500 tonn í potta, hækka veiðigjald um 40% í stað 70% og síðan er 2. gr. inni með breyttri útfærslu.

Ég vil gera hana að umræðuefni vegna þess að hún er í mínum huga sanngirnismál. Það er eðlilegt að hagsmunaaðilar bregðist við þegar breytingar af þessu tagi eru kynntar. En meginniðurstaðan er samt alveg skýr, það er sátt um þetta í greininni. Ég hef átt samtöl við fólk víðs vegar að af landinu í mismunandi útgerðarformum nú á síðustu dögum. Ég hef ekki heyrt annað frá forsvarsmönnum uppsjávarfyrirtækjanna en að þeir séu sáttir við að fara þessa leið. Fulltrúar þeirra sem komu fyrir þingnefndina sögðu að þeir væru sammála því að dreifa þeim byrðum sem félagslegir pottar eru á kerfinu. En menn greinir á um útfærslu. Þess vegna höfum við mildað fyrsta skrefið til að menn geti aðlagað sig þessu, til þess að hægt sé að þróa þetta. Því verður engan veginn haldið fram að með því skrefi sé verið að setja einhver fyrirtæki eða einhverjar byggðir í uppnám. Það er ekki hægt að halda því fram. Þegar þetta er komið niður í 30% af upphaflegri hugmynd, eða um 2 þús. tonn í heildina inn í pottana. Fyrir þessi stóru öflugu sjávarútvegsfyrirtæki og þá staði er það engin ógn. Það þarf ekki að velta því fyrir sér.

Við getum tekið til samanburðar að hæstv. ráðherra hefur sett um 10 þús. tonn í pottana á þessu kjörtímabili. Hann hefur sett um 10 þús. tonn á ársgrundvelli. Og hvaðan hafa þeir pottar verið teknir? Þeir hafa verið teknir af bolfiskfyrirtækjunum. Á ársgrundvelli eru það 6% af heildaraflanum — sex prósent. Ég er viss um að einhvers staðar hefði nú heyrst hljóð úr strokki. Þær útgerðir eru því á þessu kjörtímabili búnar að taka á sig hlutfallslega meira, mun meira, miklu meira en við erum að bjóða upp á í fyrsta skrefi til uppsjávarfyrirtækjanna. Gangi það eftir að þessir pottar verði settir á fyrir haustið og þetta veiðigjald, fellur reikningur á gjalddaga 1. september, sem útgerðin í landinu þarf að borga. Í mínum huga snýst þetta um að það verði ekki bara bolfiskútgerðirnar sem þurfa að borga þann reikning, það verði allir að koma að því að borga hann.

Það er síðan umhugsunarefni, og alveg sjálfstætt verkefni, að fara yfir þetta pottakerfi okkar. Auðvitað hefði átt að skoða þessa hugmynd um strandveiðar miklu betur en gert var. Nú erum við búin að koma þessu kerfi af stað. Fólk er búið að fjárfesta í þessum strandveiðum. Við erum að bæta inn í þetta. Ráðherrann hefur hugmyndir og gefur fólki væntingar um enn frekari aukningu á þessum vettvangi. En við höfum enga úttekt um það hversu hagkvæmt þetta er.

Þó að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tali hér um þá skýrslu sem gerð var fyrir vestan um þetta þá veit hún vel að sú skýrsla er ekki víðtæk. Hún tekur ekki til samfélagslegra áhrifa af þessum veiðum eða hversu hagkvæmar þær eru í heildina þó að þær geti verið á einhverjum vikum eða mánuðum hagkvæmar fyrir einhver einstök byggðarlög. Við megum ekki horfa svo þröngt á málin þegar við fjöllum um málefni sjávarútvegsins. Við höfum ekki efni á því.

Það er kannski eitt af því góða sem við höfum þó fengið út úr þessu strögli hér síðustu daga að stjórnarflokkarnir eru búnir að samþykkja að láta gera úttekt á þessu pottakerfi okkar svo að menn geti þá farið að bregðast við á annan hátt. En það verður erfitt að vinda ofan af strandveiðum. Krafan er strax farin að koma um meiri afla, meiri aflaheimildir, daga jafnvel, jafnvel kvóta, jafnvel að binda þetta, og þær munu aukast þessar kröfur eftir því sem á líður.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan að búið væri að vísa öllum meginmálum til haustsins. Eigum við þá ekki að hugsa okkar gang? Væri þá ekki skynsamlegast að stoppa hér og nú? Ef öll meginmál, allt sem skiptir máli, ef stjórnarliðar eru sammála um það, er komið út úr þessu, eigum við þá bara ekki að stoppa hér og nú? Eigum við ekki að hætta þessu? Hætta að bjóða þjóðinni upp á þessa vitleysu? Hætta að bjóða hagsmunaaðilum upp á þessa óvissu og fara í þetta mál af einhverri skynsemi? Er það ekki orðið tímabært? Höfum við ekki lært lexíu um það hvernig viðtökur eru þegar vinnubrögð eru á þann veg sem raun ber vitni? Væri þá nokkur skömm að því, fyrir hæstv. ráðherra, að segja bara: Heyrðu, ég ætla að taka tillit til þeirra ríku sjónarmiða sem hér hafa komið fram? Ekki bara hjá umsagnaraðilum heldur einnig hans eigin flokkssystkinum eftir að þau þurftu að fara að horfast í augu við sína umbjóðendur þá er þetta ekki boðlegt. Eigum við þá ekki að vanda vinnubrögðin? Eigum við ekki að láta þetta verða upphaf þess, virðulegi forseti, að fara að vanda vinnubrögðin í þinginu? Ég held að við komumst ekki neðar í lágkúrunni en í þessu máli? Ég held að þetta sé eitt það allra versta sem Alþingi hefur tekið þátt í, sem okkur þingmönnum er boðið að taka þátt í af stjórnvöldum. Þetta skamma ferli, þessi skammi umsagnartími gagnvart fólkinu í landinu, það uppnám sem við setjum kerfið í — er ekki ágætt að stoppa hérna við? Ég held við förum ekkert neðar. Eigum við ekki að fara að varða leiðina upp á við í vinnubrögðum okkar aftur?

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan að við gætum reiknað okkur norður og niður. Það er alveg rétt. Auðvitað sýna reikningar þá niðurstöðu sem forsendur eru gefnar fyrir. Það er hægt að fá mismunandi niðurstöðu eftir því hvaða forsendur þú setur inn í dæmið, hvaða breytur. En við getum líka gert eins og við erum að gera í þessu máli, virðulegi forseti, og farið út og suður. Við getum bara farið út og suður og ekkert vitað hvert við erum að stefna og haldið öllu í óvissu.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður nefndarinnar, sagði áðan að mikilvægt væri að ljúka því sem eftir er af frumvarpinu vegna strandveiðipotta. Ég skal taka þátt í því með henni og stjórnarliðum að ráðherra geti bætt aðeins í strandveiðina í sumar. Hann á fyrningar í öðrum pottum til að nota inn í þá (Forseti hringir.) viðbót sem hann telur sig þurfa í sumar. Við skulum láta staðar numið við það. Við skulum láta staðar numið við það og hefja vinnu af einhverri skynsemi aftur í haust.



[12:05]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar grannt er hlustað á ræðu hv. þingmanns finnast þar eiginlega engar efnislegar athugasemdir í sjálfu sér við þær greinar sem frumvarpið kveður á um enda eru þær einfaldar og ekki margar. Sumar eru sjálfsagðar og mikilvægar leiðréttingar og endurbætur sem ég veit að allir eru sammála um. Það er alveg hárrétt sem sagt var um 2. gr. þar sem fjallað er um hvernig útgerðirnar í heild leggi til í þær samfélagslegu hlutdeildir sem þegar eru til staðar og einnig þær sem gætu komið inn.

Ég heyrði ekki heldur í máli hv. þingmanns að hann væri andvígur því að þessar samfélagslegu hlutdeildir væru til staðar. Að sjálfsögðu er alveg hárrétt að endurmeta tilgang þeirra og stöðu eins og allt annað í sjávarútveginum en ekki að þær séu ekki til. Ég held að við séum hjartanlega sammála um það.

Ég vil spyrja hv. þingmann um 2. gr. Næsta fiskveiðiár hefst 1. september. Það sem á að koma til framkvæmda fyrir 1. september þarf að afgreiðast núna sem lög. Er hann ekki sammála mér um að það sé í raun mikilvægt að fyrsta skref í þessum aðgerðum sé stigið nú, að allar útgerðir komi saman að þessum hlutdeildum, svo við getum hafið þá vegferð þegar nýtt fiskveiðiár hefst 1. september? (Forseti hringir.)



[12:07]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri að sjálfsögðu efnislegar athugasemdir við margar greinar frumvarpsins. Ég tel til að mynda, eins og kom fram í máli mínu, að á meðan við höfum ekki gert á því hagfræðilega úttekt hvaða afleiðingar félagslegi þáttur kerfisins hefur haft, á meðan við höfum ekki skoðað það, eigum við alls ekki að efla hann enn frekar vegna þess að það er svo erfitt að fara til baka. Hvernig ætla menn að vinda ofan af strandveiðunum ef það kemur nú í ljós eftir að við gerum úttekt á strandveiðunum að þetta er tóm vitleysa og skilar sér ekki eins og talið er? Ef sú staðreynd er rétt sem kemur fram hjá Fiskistofu og ég efast ekki um, að 40% af þeim sem eru í þessu hafi áður selt sig út úr kerfinu, þá hefur þetta ekki náð neinum markmiðum.

Við þyrftum því að skoða 2. gr. dýpra út frá áhrifum á fyrirtækin og byggðarlögin sem um ræðir. Auðvitað væri eðlilegt að við skoðuðum þetta til að geta tekið meðvitaða ákvörðun um áhrif þess sem við ákveðum. Við erum aftur á móti, eins og ég lýsti áðan, að milda áhrifin með því að taka þetta í svona stuttum skrefum og gefa mönnum aðlögunartíma og við getum þá líka breytt stefnunni á leiðinni ef þarf.

Ég held reyndar, virðulegi forseti, og vil segja það vegna spurningar hæstv. ráðherra að best væri að stoppa hér og nú. Þó að ég taki klárlega undir mikilvægi þess að 2. gr. þurfi að fara í gegn eru heildarhagsmunir greinarinnar þeir að stoppa núna, hætta þessari óvissu og taka ákvörðun um að hefja vinnu í haust á grundvelli niðurstöðu sáttanefndarinnar. (Forseti hringir.) Í þeirri vinnu voru menn sammála um 2. gr. Í mínum huga verður sú niðurstaða að koma inn.



[12:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta og taka undir með hv. þingmanni að ein af stærstu réttlætiskröfum og ábendingum sem komu fram í endurskoðunarhópnum um stjórn fiskveiða var einmitt að þessi jöfnun kæmi sem allra fyrst til framkvæmda. Hversu hratt er stigið í þeim efnum er þingsins að ákveða. Í ljósi þeirra miklu áherslna sem komu fram bæði þar og hjá samtökum allra sem tengjast útgerð á að þessi skref væru stigin og að menn voru sammála því að þessi vegferð yrði hafin fannst mér bæði rétt og skylt að bregðast við því og leggja fyrir Alþingi að við mundum stíga þau skref eins hratt og fljótt og nokkur kostur væri og þingið samþykkti. Þess vegna legg ég þetta afdráttarlaust til og tel eins og hv. þingmaður að hefja eigi þessa vegferð strax. Það væri best og sanngjarnast gagnvart öllum aðilum. Því er það lagt til. Ég heyri að hv. þingmaður er mér í raun sammála um þetta.

Hitt skiptir líka máli sem hv. þingmaður minntist á að byggðakvótinn var nýttur á síðastliðnu ári. Það er alveg hárrétt. Það var gert til að koma til móts við sjávarbyggðir landsins og treysta atvinnuástand þar. Ég fullyrði að í mörgum sjávarbyggðum ræður hann úrslitum um hvort hægt sé að halda uppi atvinnu, útgerð og fiskvinnslu þannig að byggðarlagið standi af sér erfiðleika og geti nýtt sér auðlindina.

Strandveiðiflotinn og (Forseti hringir.) úttektin á strandveiðunum á síðastliðnu ári lýsti mjög jákvæðum atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiðanna og ég vil því (Forseti hringir.) árétta hvort tveggja, frú forseti.



[12:12]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að í öllu tilliti þurfum við að gera ráð fyrir einhverjum hluta aflahlutdeilda til félagslegra ráðstafana. Við þurfum að geta brugðist við gagnvart byggðum sem eiga í tímabundnum vanda og byggðum sem þurfa lengri aðlögun til að geta byggt upp fyrirtæki sín og til að viðhalda starfsemi á viðkvæmum svæðum og byggt hana upp. Við höfum séð sorgleg dæmi sem við viljum ekki að endurtaki sig. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það. En í því sambandi held ég að mjög mikilvægt sé að þetta verði ákveðið hlutfall af heildarfiskveiðiheimildunum, eins og komist var að niðurstöðu um í sáttanefndinni, svo menn viti að hverju þeir ganga til lengri tíma og ekki sé alltaf verið að krukka í þetta eins og gert hefur verið.

Mér er mjög til efs að skynsamlegt hafi verið að ráðstafa þeim tonnum sem sett hafa verið í strandveiðarnar eins og gert hefur verið. Ég held að miklu skynsamlegra hefði verið að geta markað skýrari stefnu um hvert ætti að fara heldur en að dreifa þessu svona um allar trissur. Þetta er óhagkvæmar veiðar.

Mér fyndist mikilvægt að ljúka við 2. gr. og jöfnunarúrræðin á milli útgerðarflokka um framlag í félagslegu pottana á þessu þingi. Ég skal viðurkenna það. Ég væri tilbúinn að leggja því lið. En mér fyndist skynsamlegt að hætta við málið eins og ég fór yfir áðan. Ég sagði að ég væri tilbúinn að leggja því lið að hæstv. ráðherra gæti fengið fyrningarnar sem hann ætti í strandveiðarnar. Við skulum bara bæta inn í tilboðið að klára 2. gr. (Forseti hringir.) með mildri leið eins og við mörkuðum okkar með (Forseti hringir.) niðurstöðu nefndarinnar.



[12:14]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér hið svokallaða minna frumvarp um stjórn fiskveiða. Menn hefur greint talsvert á um það, enda ber að líta á mörg sjónarmið og til margra hagsmuna, sem eru ólíkir eins og nærri má geta. Við tökumst enda á um hagsmuni einnar helstu og elstu atvinnugreinar landsmanna sem setur rækilegt mark sitt á atvinnulíf hringinn í kringum landið.

Ég hef verið talsmaður þess að breyta meginleiðum í þessu kerfi sem varðar að miklu leyti meginfrumvarp fiskveiðistjórnarbreytinganna. Þegar kemur að hinni svokölluðu samfélagslegu hlutdeild í þessu máli, pottunum sem notaðir eru til félagslegra úrræða við fiskveiðar hringinn í kringum landið, þá hef ég gert ýmsar athugasemdir við þann lið breytinganna. Ég tel að fullhratt sé farið í pottavæðinguna einfaldlega sakir þess að efnahagsleg og hagræn úttekt á þeirri leið liggur ekki fyrir og þar af leiðandi tel ég það á vissan hátt óábyrgt að taka ákvörðun um það efni áður en áhrifin á helstu sjávarbyggðir landsins liggja fyrir. Ég tel rétt að spyrja fyrst og skjóta svo, ef svo má að orði komast.

Ég tel reyndar að það sé ágæt reynsla af rómantískum veiðum víða um land. Ég þekki dæmi þess að víða á landinu hafa strandveiðar tekist með ágætum og fráleitt er ég á móti þeim í grundvallaratriðum. Ég tel hins vegar að við eigum að fara okkur hægt í aukningu strandveiða, hægt og ef til vill örugglega, vegna þess að fyrst og síðast þurfum við að hugsa um arðsemi greinarinnar sem fullburða atvinnugreinar á viðskiptalegum forsendum.

Strandveiðarnar hafa komið sér mjög vel fyrir fjölda byggða hringinn í kringum landið. Ég get nefnt Breiðdalsvík sem dæmi. Þar voru tekjur af höfninni óverulegar, mældust nánast í tugum þúsunda fyrir nokkrum árum en eru nú farnar að mælast í milljónum. Afli á land nam einhverjum tugum tonna fyrir nokkrum árum en er nú farinn að mælast í hundruðum tonna. Þetta eru ekki stóru stærðirnar í þessari mikilvægu atvinnugrein á Íslandi, en engu að síður er að kvikna líf í höfnum landsins sem hafa verið svo að segja dauðar um langt árabil. Það er einhver versta afleiðing af núverandi kvótakerfi sem menn þekkja, nefnilega það að útgerðarmenn hafa sjálfdæmi um það hvort og hvenær þeir yfirgefa heimabyggð sína og skilja íbúa landsins, íbúa byggðanna, eftir án lífsviðurværis. Þetta er einhver skelfilegasta birtingarmynd núverandi kerfis sem menn þekkja. Fyrir vikið hefur fjöldi hafna hringinn í kringum landið verið líflaus og þess vegna er ég talsmaður þess að við fikrum okkur áfram í strandveiðum. Menn getur hins vegar greint á um það hversu langt við eigum að seilast inn í þetta kerfi sem lýtur að félagslegum úrræðum og þeirri hlutdeild er varðar samfélagslegar leiðir í þessari grein.

Ég hef verið talsmaður þess að við færum okkur hægt í þá átt en förum ekki í stórum stökkum inn í þessi félagslegu úrræði, að minnsta kosti ekki fyrr en fyrir liggur hvaða hagrænu og efnahagslegu áhrif það hefur á fyrirtæki sem skila mesta arðinum í þessari atvinnugrein. Ég er fyrst og fremst talsmaður þess að þessi grein, rétt eins og farið er með aðrar auðlindir landsins, skili mesta arðinum til þjóðarbúsins. Þar af leiðandi þurfum við fyrst og fremst að reka greinina á viðskiptalegum forsendum, hagrænum forsendum, þannig að hún skili miklum og góðum fjármunum aftur til þjóðarbúsins. Á þeim forsendum getum við farið í byggðalegar aðgerðir, aukið atvinnustig o.s.frv.

Frú forseti. Ég hef jafnframt goldið varhuga við því að við séum að breyta kerfinu þeim sem farið hafa út úr kerfinu til góða, en þeim sem hafa verið að þreyja þorrann innan greinarinnar til tjóns. Ég tel það á margan hátt varhugavert að farið sé fram með óskilyrtum hætti inn í hina svokölluðu strandveiðipotta, að þeir sem hafa selt sig einu sinni, tvisvar, þrisvar, jafnvel fjórum sinnum, út úr greininni hafi óhindraðan aðgang að þessum pottum. Ég tel það ósanngjarnt. Ég tel að til greina komi að aðgangur manna að þessum strandveiðipottum sé á einhvern hátt skilyrtur og tel það vera sanngjarnt. Af hverju eru menn á annað borð að selja sig út úr greininni? Er það til þess að fara aftur inn í hana? Ég tel ósanngjarnt að menn sem eru að fénýta þessa þjóðarauðlind aftur og aftur séu þeir sem eru helst verðlaunaðir þegar kemur að breytingum á kerfinu. Minna frumvarpið gerir það að mörgu leyti. Þó að ég sé í sjálfu sér ekki andvígur því í heild sinni þá eru þarna óskilyrtar leiðir fyrir þá sem hafa selt sig mörgum sinnum út úr greininni til að komast aftur inn í hana og ef til vill fénýta hana að nýju á næstu árum.

Nýliðun í greininni má ekki vera þannig að þeir einir komist inn í hana og hafi til þess burði í tækjum og tólum sem hafa skilið við hana í talsverðum gróða. Það er þetta sem þjóðinni hefur sviðið á undanliðnum árum, annars vegar það að fyrirtæki hafa getað selt sig frá byggðarlögunum fyrirvaralaust og hins vegar að menn geti fénýtt hana á þann veg sem ég nefndi.

Mér finnst það því vel þess virði að sú leið verði skoðuð að aðkoma þeirra manna sem hafa selt sig út úr greininni margsinnis sé skilyrt og að menn fari ef til vill alla leið og hún verði bönnuð. Þó að það kunni að hamla atvinnufrelsi manna að einhverju leyti tel ég það vel þess virði að skoða ýmsar leiðir í þeim þætti málsins. Það verður að minnsta kosti með einhverju móti að taka á þessum hlutum sem svíður undan.

Ég hef jafnframt goldið varhuga við 2. gr. minna frumvarpsins sem lýtur að því hvernig við færum afla í hina samfélagslegu hlutdeild. Þar er kveðið á um að bolfiskurinn og uppsjávarfiskurinn skili sínu inn í þessa hlutdeild sem í grundvallaratriðum er eðlilegt og réttmætt; að það sé tekið af báðum þeim flokkum aflabragða við Ísland. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við það. En reiknisstuðullinn er hins vegar rangur, reiknistuðullinn hvað það varðar er ósanngjarn og bitnar mjög misjafnlega á fyrirtækjum hringinn í kringum landið og felur einfaldlega í sér tilfærslur á milli byggðarlaga og aftengir þar af leiðandi þrjár meginforsendur breytinganna, sem er að efla byggð, efla atvinnu og tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar. Sú leið sem farin er við að úthluta úr þessum tveimur flokkum, uppsjávaraflanum og bolfiskaflanum, aftengir þessar meginforsendur breytinganna sem eru innbyggðar í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt.

Ég held því að menn verði að setjast niður og breyta þessum reiknisstuðli þannig að menn fari inn í pottana með jöfnum hætti, stuðlarnir verði leiðréttir, þannig að jafnt sé tekið af mönnum þegar kemur að fjárútlátum. Það er jú sitthvað pund og peningar í þessu efni og ber að horfa mjög rækilega til þessara þátta.

Ég vil, frú forseti, almennt segja um þessar breytingar að þær eru fyrst og fremst gerðar til að leiðrétta nokkrar meginmeinsemdir kerfisins sem ég hef rakið hér. Þær mega ekki verða til þess að verðlauna skussana í greininni og verða hinum sem hafa þurft að þreyja þorrann, og að mörgu leyti staðið sig vel innan laga og reglna greinarinnar, til tjóns. Þær mega ekki verða til þess að minnka vinnu, fækka í byggðum og skapa ótraustan rekstrargrundvöll. Þar af leiðandi vil ég taka á þessum þáttum í breytingunum og hlúa að meginforsendunum sem eru þær að efla byggð, efla atvinnu og tryggja rekstrargrundvöll. Það eru þessi atriði sem ég geri stóra fyrirvara við og mun, ef það breytist ekki á síðustu metrunum, greiða atkvæði gegn því að farið verði í 2. gr. frumvarpsins á þann hátt sem virðist vera uppi á borðum af þeirri einföldu ástæðu að ég vil ekki fara fram með breytingar í þessari viðkvæmu atvinnugrein hringinn í kringum landið sem skilja eftir sig hagræn áhrif sem enginn hefur séð fyrir.



[12:27]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi spyrja hann að tveimur atriðum. Hann talaði um réttlæti og um að mörgum hafi sviðið. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni þegar aðilar selja sig út úr greininni. Það þýðir þá jafnvel að sá kvóti fer úr viðkomandi byggðarlagi. En jafnvel þó að sú sé ekki raunin finnst mönnum ósanngjarnt að menn geti selt sig út með hagnaði.

Frumvarpið sem við ræðum hér gengur út á það að þeir aðilar sem hafa selt út með hagnaði geta komist ókeypis inn í kerfið aftur. Þeim aðilum sem hafa keypt og vilja halda áfram í útgerð, vilja safna sér aflaheimildum, er refsað á kostnað þeirra sem eru búnir að taka út hagnaðinn í greininni.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta vera réttlæti. Þetta er fyrsta spurningin.

Við sjáum öll hvað er í gangi. Þetta mál kemur inn löngu eftir þann frest sem gefinn er til þess að hægt sé að vinna það vel og málefnalega. Það er úrskurðað fullkomlega vanbúið af öllum umsagnaraðilum og við erum að ræða um undirstöðuatvinnuveginn, hvorki meira né minna. Eins og hv. þingmaður veit hafa menn verið hlaupandi hér í öllum bakherbergjum í einhverjum hrossakaupum að breyta þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar og við vitum ekkert hvernig staðan er núna. Við vitum ekkert hvað verður samþykkt og við vitum ekkert hvaða afleiðingar það hefur.

Hvað finnst hv. þingmanni um þessi vinnubrögð? Er hann tilbúinn til að styðja mál (Forseti hringir.) sem unnið er með þessum hætti?



[12:29]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég styð meginleiðir þessa frumvarps, meginbreytingarnar, og tel þær vera til heilla fyrir atvinnugreinina, til heilla fyrir landsmenn. Það þarf að ná sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein, menn verða að setja niður deilur og ná saman. Betur hefði farið á því að hv. fyrirspyrjandi hefði hlustað á fyrri hluta ræðu minnar vegna þess að ég talaði þar um ósanngirni þess að menn væru að selja sig út úr greininni og fara beint inn í hana aftur. Ég varði drjúgum hluta ræðu minnar í það óréttlæti og þá ósanngirni og tók sérstaklega fram að undan því sviði. Ég tel að í þessu felist helsta óréttlæti þeirra breytinga sem við ræðum hér.

Varðandi framlagningu þessa máls hef ég sagt það hér, og segi það enn, að við eigum auðvitað að virða þingsköp, við eigum að virða vinnureglur Alþingis. Þetta mál kom of seint fram, það vita allir. Þetta mál kom fram á að giska ófullbúið. Ég tel það ekki til eftirbreytni. Við erum hér að fjalla um helstu og elstu atvinnugrein landsmanna sem varðar margar viðkvæmustu byggðir landsins og þess vegna verðum við að fara fram af varúð, þess vegna verðum við að spyrja fyrst og skjóta svo. Ég tel mjög mikilvægt að margir hlutar þessara breytinga verði teknir til endurskoðunar. Það lýtur ekki síst að útreikningum í hina samfélagslegu aflahlutdeildarsjóði eða potta. Það lýtur ekki síst að því hvernig við sköpum eðlilega nýliðun í greininni. Hún má ekki vera fyrst og fremst á þann veg að þeir sem hafa selt sig oftast út úr greininni komist þar fyrst inn aftur.



[12:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður aldrei sátt um þessi hrossakaup, bara svo að það sé sagt. Þetta frumvarp sem hv. þingmaður ætlar að styðja gengur út á það fyrst og fremst að þeir aðilar sem eru búnir að selja sig út úr greininni komist ókeypis inn. Út á það gengur þetta mál. Ef hv. þingmaður ætlar að styðja þetta mál þá er hann að styðja það. Ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann var sú að ég hlustaði á hann tala gegn þessum sjónarmiðum áðan. Ég vil fá að vita röksemdina fyrir því af hverju hv. þingmaður ætlar að styðja breytingar sem eru á þann veg að þeir aðilar sem eru búnir að selja sig út, taka út hagnaðinn, fái meiri hagnað á kostnað þeirra sem hafa keypt. Þetta frumvarp gengur út á það að þeir sem eru búnir að selja sig út fá að koma inn ókeypis. Út á það gengur málið. Hv. þingmaður ætlar að styðja þetta mál, en talaði gegn þessu, að ég hélt, áðan. Ég vil fá röksemdirnar. Af hverju ætlar hann að styðja þetta?



[12:32]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að ég styð meginleiðirnar við þær breytingar sem hér eru í húfi, en það eru mörg atriði þarna inni sem ber að skoða betur og ég tel að taka eigi á í meðförum þingnefndar, þar á meðal það hvernig þeir sem hafa selt sig út úr greininni eru að komast aftur inn í hana. Ég lagði áherslu á það í ræðu minni að ég er tilbúinn að ganga jafnvel alla leið og taka fyrir það að menn geti komist aftur inn í greinina hugsanlega tímabundið, hugsanlega til eilífðarnóns, hafi þeir selt sig út úr greininni einu sinni, ég tala nú ekki um oftar.

Þetta þarf að taka fyrir í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á komandi vikum og mánuðum. Ég hef sett mína digrustu fyrirvara við þetta atriði og eins hitt hvernig farið er með misjöfn fyrirtæki inni í hina samfélagslegu hlutdeildarsjóði. Þetta eru fyrirvarar mínir. Ég mun (Forseti hringir.) greiða atkvæði eftir þessu eins og síðar mun koma fram.



[12:34]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á ræður þingmanna úr stjórnarflokkunum held ég að öllum sé ljóst að málið er að verða svolítið vandræðalegt fyrir þá. Og ekki bara svolítið. Það er ekki bara vandræðalegt fyrir stjórnarflokkana heldur er það líka vanbúið. Tíu dagar eru síðan þessi stóru mál, risastóru mál sem snerta sjávarútveginn, komu inn í þingið og nú er eiginlega verið að taka annað þeirra út úr þinginu með töngum. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar er alveg ljóst að hann setur fram ákveðna og mjög skiljanlega fyrirvara í máli sínu.

Augljóst er að það er ekki bara áherslumunur á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra um sjávarútvegsmálin heldur líka gríðarlegur ágreiningur. Mín tilfinning er sú að í þessu máli sé bara verið að ýta tveimur atriðum áfram, þ.e. annars vegar pottunum til að fullnægja kröfum frá sjávarútvegsráðherra svo hann geti farið í einhverja pottagaldra í haust og hins vegar veiðileyfagjaldinu því að Samfylkingin verði að fá eitthvað táknrænt út úr þinginu á þessu þingi í staðinn fyrir að bíða með breytingarnar sem væri það eina skynsamlega.

Spurning mín til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar snertir einmitt það: Tekur hann undir það með mér að réttara hefði verið að bíða með málið sem við ræðum núna, ekki bara af því að efnahagslegur ávinningur þess liggur ekki fyrir né kostir og gallar heldur líka vegna þess að gríðarlegur meiningarmunur er á milli svo margra innan þingsins um útfærslu á frumvarpinu? Það birtist best í því að ekki er einu sinni meiri hluti í sjávarútvegsnefnd fyrir málinu heldur getur aðeins einn þingmaður úr stjórnarliðinu stutt það fyrirvaralaust. Ber þetta ekki vott um að við hefðum átt að flýta okkur aðeins hægar og taka málið allt saman til endurskoðunar í haust? (Forseti hringir.) Ég held að styttra sé á milli manna en menn halda eftir allar þessar umræður, frú forseti.



[12:36]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við eigum að vanda okkur í lagasetningu. Við eigum að vanda okkur sérstaklega vel þegar kemur að því sem varðar landsmenn og lögin sem þeir eiga að fara eftir. Meginskylda okkar þingmanna er að vanda vel til þeirra verka sem hér eru gerð og varða lagasetningu.

Umræðan hefur þó skilað þeim árangri að menn eru að verða æ meira sammála um meginbreytingarnar sem þarf að gera í fiskveiðistjórnarkerfinu og lúta að tímabundnum afnotarétti, veiðigjaldinu og ákveðnum leiðum í þessum pottagöldrum sem hv. þingmaður nefndi svo. Ég tek ekki endilega undir nafngiftina sem slíka en hef hana eftir hv. þingmanni.

Ég hef viljað fara hægt fram í strandveiðum, byggðapottum og félagslegum aðgerðum í breytingunum sakir þess að efnahagslegar afleiðingar þeirra og efnahagsleg áhrif liggja ekki fyrir. Ég tel í sjálfu mjög eðlileg viðbrögð að slá mörgu af þessu á frest. Ég hef þar t.d. nefnt 2. gr. minna frumvarpsins sem ég tel eðlilegt að fresta og taka með inn í umræðuna um meginfrumvarpið vegna þess að þar er um að ræða kerfisbreytingu og meginfrumvarpið fjallar meira um kerfisbreytingar en minna frumvarpið. Mér finnst því ekkert athugavert við að menn staldri við og hægi á ýmsu í þessu ferli.

Við erum að ná saman um meginleiðir. Það sem út af stendur þarf að skoðast betur. Þetta er mjög flókið í útfærslu og hefur mismunandi áhrif (Forseti hringir.) á byggðir og því tel ég mjög eðlilegt að við förum okkur hægt. Ef við erum ekki sátt við útfærslur sem hafa mjög mikil (Forseti hringir.) áhrif á fólk og fyrirtæki eigum við að fara okkur hægar en hraðar.



[12:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir svarið sem mér fannst heiðarlegt. Mér fannst það bera vott um umhyggju gagnvart undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Við eigum nefnilega að flýta okkur hægt. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að á þessum tíu dögum hefur að mínu mati komið í ljós, fyrir utan bullandi ágreining á milli stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna, að styttra er á milli manna og þvert á flokka en menn grunar til að ná sameiginlegri sátt um þann grunnatvinnuveg sem sjávarútvegurinn er.

Mín skoðun er að menn eigi að gefa þinginu ákveðið svigrúm og tækifæri til að fara yfir þá þætti sem snerta kerfisbreytingar. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að hinar greinarnar snerti ekki ákveðnar kerfisbreytingar í heild sinni, ég held einmitt að svo sé. Þær greinar sem við ræðum núna hljóta líka að verða undir þegar við tökum heildarfrumvarpið um sjávarútveginn til umræðu en vonandi verður það ekki.

Þess vegna segi ég: (Forseti hringir.) Er ekki eðlilegt að bíða með þessar breytingar þar til stærra frumvarpið, eins og það er oft er kallað, (Forseti hringir.) kemur til umræðu?

Ég hefði gjarnan viljað koma inn á strandveiðarnar en það bíður betri tíma.



[12:40]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo vel til að við höfum nú þegar borð fyrir báru í úthlutun strandveiða í sjóðum ráðuneytisins þannig að hægt að fara þá leið per se og auka eitthvað við þær án þess að hreyfa við sjálfri kerfisbreytingunni. Ég hef í auknum mæli horft til þess.

Almennt vil ég segja og tek að öðru leyti undir með því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í seinna andsvari sínu, að mikilvægasti partur umræðunnar snertir þá auknu sátt sem er að verða um meginkerfisbreytinguna. Útfærslurnar eru flóknar og fyrir vikið eru þær erfiðari partur umræðunnar og á einhverjum tímapunkti verðum við að hægja á og hugsa málið betur.

Ég vek líka athygli á mörgum orðum háttvirtra útgerðarmanna í þessu efni á síðustu dögum og vikum. Þeir tala í auknum mæli fyrir sátt og sjálfri kerfisbreytingunni. Það er mjög vel að allir aðilar málsins séu farnir að átta sig á því að (Forseti hringir.) þjóðinni er fyrir bestu að fara leið sáttar í þessu efni en staldra ekki einvörðungu við misklíðina.



[12:41]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Málið sem hér um ræðir og málatilbúnaðurinn minnir orðið um margt á stórkostlegt ljóð sem heitir Skarphéðinn í brennunni eftir Hannes Hafstein og hefst þannig: „Buldi við brestur, brotnaði þekjan. Reið niður rjáfur og rammir ásar.“

Atlagan að sjávarútvegskerfinu sem gerð hefur verið og tilraunin til að endurskapa það er ágætlega dregin saman í þessum ljóðlínum. Þegar maður varð vitni að framsöguáliti formanns sjávarútvegsnefndar hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur í gær minnti það dálítið á lýsinguna af Skarphéðni í brennunni þar sem hann glotti við tönn og stóð einn. Hún var ein án fyrirvara á nefndaráliti meiri hluta stjórnarinnar á þessu máli. (Gripið fram í: Sáttin.)

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef töluverðar áhyggjur af þessu því við vitum öll hvernig fór fyrir Skarphéðni þótt hann glotti við tönn og stæði einn. Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki náð þeim markmiðum sem allir hafa gefið í skyn að þeir hafi við að endurskapa og ná sátt um kerfið, því vinnubrögðin og sundrungin valda því að allir falla.

Fram hefur komið frá varaformanni sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að hún líti svo á að málið sem við ræðum sé vart þingtækt. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem ég veit að hefur fullan skilning á þessum sjónarmiðum öllum, hvort við getum verið sammála um að betur færi að við legðum saman og fyndum leiðir til að skapa tíma til að vinna málið betur en raun ber vitni.



[12:43]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala einmitt fyrir því að þeir þættir málsins sem eru kannski viðkvæmastir og kannski ófyrirséðastir, ef svo má segja, þurfi nánari skoðunar við. Þetta lýtur ekki síst að 2. gr. sem er að mörgu leyti ófullburða og ég er einfaldlega ósammála í grundvallaratriðum. Best færi á því að fresta gildistöku 2. gr. Ég hef sagt og ítreka þá skoðun mína að efnahagsleg áhrif hennar liggi ekki fyrir og þegar þessi grein er annars vegar getum við ekki farið fram með þeim hætti að skjóta fyrst og spyrja svo. Áhrif hennar, ef af verður, verða að mörgu leyti óafturkræf.

Hafandi sagt þetta trúi ég því hins vegar að ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem komum úr sama kjördæmi þó það skipti í sjálfu sér ekki öllu máli í þessu efni, séum sammála um að grundvallarbreytingin varðandi hina samfélagslegu potta eigi að taka til bæði uppsjávarfisks og bolfisks. Það er reikningsstuðullinn, útfærslan og ójafnræðið sem fer í taugarnar á mér og ég er andvígur. Þess vegna tel ég að menn þurfi að staldra lengur og betur við þann part málsins því við getum ekki farið fram á hendur greininni með rangindum.

Ég er jafnaðarmaður og trúi því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sé það í eðli sínu líka þegar kemur að lagasetningu. Við verðum að koma að málinu með almennum hætti en ekki sértækum hætti sem bitnar meira á einu fyrirtæki en öðru. (Forseti hringir.)



[12:46]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir þennan vinkil á umræðuna með hv. þingmanni. Vandinn við að fresta eingöngu 2. gr. eða taka hana eingöngu út úr þessari frumvarpsómynd er sá að aðrar greinar frumvarpsins hanga á henni og þá lenda menn í vandræðum. Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni af því þetta er svona hipsum haps og einhvern veginn hlunkað út án þess að með nokkrum hætti sé búið að gera grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á tilteknar byggðir í plús eða mínus o.s.frv. Þannig hefur verið unnið að flestum breytingum í þessu kerfi allt frá árinu 1991. Ég var svo auðtrúa að ég hélt að komin væri sátt um að þannig ætluðum við ekki lengur að vinna.

Ég spyr að lokum hv. þingmann hvort honum þyki ekki nauðsynlegt að við fáum úttekt á kostum og göllum strandveiðikerfisins, byggðapottunum og félagslega kerfinu áður en við förum að úthluta einhverju fleiru eða stækka jafnvel þessa potta.



[12:47]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákall þjóðarinnar og ákall skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að við bætum vinnubrögðin. Auðvitað á Alþingi að taka sér tak í þessu efni sem öðru og endursenda eftir atvikum frumvörp heim í hérað. Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að frumvarpið er að mörgu leyti, svo sem ég hef nefnt, það brogað að undir eðlilegum kringumstæðum ætti að endursenda það, a.m.k. hluta þess, til ráðuneytisins.

Við eigum að temja okkur ný vinnubrögð. Við eigum ekki að vera færibandaafgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið eins og verið hefur um árabil, sennilega áratugaskeið. Við eigum að taka okkur tak og þegar frumvörp koma seint, og ég vil segja að mörgu leyti illa gerð, til þingsins eigi að fara með þau eins og Elvis Presley sagði (Forseti hringir.) í góðkunnu lagi, með leyfi forseta: Return to sender.



[12:48]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að íslenska er tungumálið í þingsal.



[12:48]Útbýting:

[12:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á orðum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem staðfesti hið augljósa, að hér er mjög vanbúið mál á ferðinni sem snertir grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Ef Alþingi hefur einhvern tímann í sögu þingsins verið færibandastofnun fyrir framkvæmdarvaldið er það nákvæmlega núna. Við stöndum hér í dag og eftir því sem ég best veit eru hvorki meira né minna en allir helstu hæstv. ráðherrar mættir í hús til þess að stunda hrossakaup með undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Það er að vísu mikið um hrossakaup hjá stjórnarliðunum í öllum bakherbergjum. Það eina sem er alveg ljóst, sama hver niðurstaðan verður í frumvarpsdrögunum — það sem við ræðum núna, það sem er búið að vera til umræðu, er svo sannarlega ekki sjálfgefið að verði niðurstaðan — er að við vitum ekki hvaða afleiðingar þetta hefur á sjávarútveginn. Af hverju, virðulegi forseti? Vegna þess að það hefur ekkert verið skoðað. Jafnvel þótt við mundum samþykkja frumvarpsdrögin eins og þau eru núna er algjörlega óljóst hvaða afleiðingar það hefur. Það er kaldhæðnislegt að hæstv. ráðherrar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafa talað gegn því kerfi sem þau settu á laggirnar fyrir 20 árum síðan, samfleytt nokkurn veginn, þegar þau komu framsalinu inn í aflamarkskerfið og festu það, að þau skuli koma núna með frumvarp — ég held að einhver hafi nefnt að hafi komið inn fyrir 10 dögum síðan — sem er jafnvanbúið og illa unnið og afgreitt af held ég öllum umsagnaraðilum. Ég er ekki búinn að heyra um einn einasta umsagnaraðila sem hefur verið sáttur við þetta frumvarp sem fullkomlega ónothæft fyrir undirstöðuatvinnuveginn.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að við erum með ákveðnar reglur. Í stuttu máli þarf að leggja fram frumvörp fyrir 1. apríl. Af hverju? Til þess að menn geti unnið málin vel og vandlega. Þetta er m.a. það sem kallað hefur verið eftir lengi. Menn vísa í rannsóknarnefndarskýrsluna eins og bókstafstrúarmenn vísa í biblíuna. Í rannsóknarnefndinni var mikið lagt upp úr því að vanda ætti betur vinnubrögð þingsins. Ég mundi því ætla þegar kemur að undirstöðuatvinnuveginum, jafnmikilvægt mál það nú er, að menn héldu sig við frestinn, 1. apríl, þannig að hv. þingnefnd gæti farið vel yfir málið. Nei, virðulegi forseti, ég held það hafi verið lagt fram tveimur mánuðum eftir að sá frestur rann út, það var samþykkt með afbrigðum og síðan á að keyra það í gegnum þingið á ógnarhraða. En í millitíðinni þegar það er að renna upp fyrir hv. stjórnarliðum hvers konar óskapnaður það er sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hlaupa menn á milli herbergja í hrossakaupahugleiðingum, hugsanlega til að reyna að bjarga einhverju eða ná einhverjum markmiðum sem henta einhverjum aðilum, hvort sem þeir eru innan þings eða úti í bæ. Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Það sem ég veit hins vegar er að þessi vinnubrögð eru fullkomlega fyrir neðan allar hellur. Og þeir sem bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum eru þeir sem eru í forustu fyrir þessari ríkisstjórn, hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Þetta fólk skal aldrei — aldrei — tala aftur um fagleg vinnubrögð eftir að vera búin að vinna með þessum hætti í svo mikilvægu máli. Það er fullkomlega fráleitt að þau skuli svo mikið sem minnast á fagleg vinnubrögð aftur.

Ég verð að viðurkenna að það er einn kostur við þetta. Hann er sá að hér er einn hv. þingmaður, góður drengur, prófessor í stjórnmálafræði, sem verður vitni að þessu, sér þetta með eigin augum og kemur inn sem varaþingmaður. Þeim sem þekkja til í stjórnmálum hefur fundist álitsgjöf í fjölmiðlum og annars staðar, t.d. hjá akademíunni, vera ansi sérstök, en nú þegar prófessorinn er búinn að sjá það með eigin augum hvernig vinnubrögðin eru getur hann borið þær fregnir inn í akademíuna og ég efast ekki um að hann geri það. Við munum því örugglega sjá álitsgjöf sem ekki verður svo mörkuð af óskhyggju en meira af því hvernig kaupin gerast raunverulega á eyrinni.

Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn sem notar alls konar faguryrði þegar hún lýsir eigin störfum og starfsháttum er fyrst og fremst í því að „lobbíera“. Hún er í hrossakaupum með flesta hluti og sérstaklega þá hluti sem mestu varða fyrir íslensku þjóðina. Í þessu tilfelli eru það sjávarútvegsmálin.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að menn fari vel yfir sjávarútvegsmálin. Jafnvel þó að við höfum náð góðum árangri, svo góðum að aðrar þjóðir líta til okkar þegar þær skoða stjórnkerfi fyrir takmarkaðar auðlindir, ekki bara vegna sjávarútvegsins, erum við nú að lögfesta kerfi í loftslagsmálum sem er sambærilegt aflamarkskerfinu í sjávarútvegi. Það var ekki þannig að við höfum lagt upp með það, við erum hér að innleiða loftslagsmarkaðskerfi Evrópusambandsins sem tekið er upp á EES-svæðinu. Þar er sama grunnhugmynd, menn eiga hér við sameiginlega auðlind. Í því tilfelli er það andrúmsloftið, ef þannig má að orði komast. Menn eru að reyna að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda en í sjávarútveginum erum við með takmarkaða auðlind sem er fiskurinn í sjónum og þar erum við að reyna að ná markmiðum í náttúruvernd. Við viljum ekki veiða og ganga um of á stofna, við viljum hafa sjálfbærar veiðar og viljum hafa þær arðbærar því að ef sjávarútvegur er ekki arðbær á Íslandi er virkilega illa fyrir okkur komið.

Til að setja það í eitthvert samhengi hefur hv. þm. Jón Gunnarsson bent á að framlög Evrópusambandsins til sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins séu 300 milljarðar kr. á ári — 300 milljarðar. Ef við reiknum það yfir á íslenskan sjávarútveg, þ.e. ef við mundum borga jafnmikið bara miðað við stærð, greiddi íslenska ríkið, ríkissjóður, 100 milljarða með íslenskum sjávarútvegi.

Þarna er gríðarlega stór munur á, annars vegar erum við með sjávarútveg sem skilar arði á Íslandi og hins vegar erum við með í raun félagslegt kerfi fyrir heila atvinnugrein eins og er hjá Evrópusambandinu. Það er því ekki að undra að Evrópusambandið líti til Íslands þegar kemur að stjórnkerfi fiskveiða. Ég tek það fram ef einhver sem á þetta hlustar heldur að það sé góð sátt um sjávarútvegsmálin í Evrópusambandinu, að mönnum þykir fiskveiðistjórnin vera réttlát, ef einhver heldur að umhverfissamtök séu ánægð með stjórnina, er það allt saman misskilningur. Það eru miklar deilur um sjávarútvegsmálin á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur skiptir máli innan Evrópusambandsins. Umhverfissamtök eru svo sannarlega ekki ánægð með það fiskveiðistjórnarkerfi sem er í sjálfu Evrópusambandinu.

Það er gaman að sjá (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra Jón Bjarnason og hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson ganga í salinn þegar ég ræði Evrópusambandið því að báðir eru þeir áhugamenn um það bandalag (Gripið fram í.) og báðir eru þeir í ríkisstjórn sem sótt hefur um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvorki meira né minna. (Gripið fram í.) Það er nú þannig …

(Forseti (RR): Forseti biður hæstv. ráðherra að gefa ræðumanni hljóð.)

… í öðrum löndum að ef menn eru ósammála í grundvallaratriðum þeirri hæstv. ríkisstjórn sem situr segja þeir sig úr henni en hér dandalast menn með þrátt fyrir að farið sé gegn sjónarmiðum þeirra í grundvallaratriðum.

Út á hvað gengur þetta mál, virðulegi forseti? Hvað er verið að gera? Menn segjast vera að auka réttlætið í sjávarútvegsmálum. Ég held að óhætt sé að halda því fram að mörgum hafi fundist það ósanngjarnt að hægt væri að selja sig út úr greininni. Það er eitt af því sem er fylgifiskur þess frjálsa framsals sem leiðir í eðli sínu til hagræðingar, en þetta gerir það að verkum að það er hægt að selja sig út úr greininni og margir hafa hagnast á því.

Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í því? Jú, hún ætlar að sjá til þess að þeir einstaklingar sem hafa selt sig út úr greininni geti komið sér ókeypis inn í greinina aftur og umbunar þeim sérstaklega sem hafa selt sig út úr greininni á kostnað þeirra sem hafa keypt sér aflaheimildir vegna þess að þeir vilja standa í útgerð og fá meiri aflaheimildir á þá útgerðarstaði sem þeir gera út frá. Það hefur alla jafna þótt vera jákvætt og verið stuðningur við að menn starfi við greinina og styrki byggðarlög sín.

Ríkisstjórnin ætlar í nafni réttlætis að umbuna sérstaklega þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni. Út á það gengur málið.

Ég veit ekki hvort almenningur áttar sig á því að það er stóra málið. Það er stóra atriðið í málinu að koma þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni ókeypis inn í hana aftur og hegna þeim sem eru búnir að kaupa sér aflaheimildir.

Síðan er hitt að það á að auka vald stjórnmálamanna, nánar tiltekið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það á að stórauka vald hans til að geta skipt sér af greininni og haft áhrif á fólk sem þar starfar, byggðalög og fyrirtæki. Það er mikilvægt að mönnum verði það ljóst að verið er að færa vald til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun meira vald en við höfum séð svo áratugum skiptir.

Á tyllidögum þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru í góðu skapi tala þeir um að þeir séu nútímalegir jafnaðarmenn.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið síðan ég heyrði þetta síðast en ég vil bara vekja athygli á því að væntanlega felst í því að vera nútímalegur jafnaðarmaður að færa völd, að færa lífsafkomu heilu byggðarlaganna yfir til stjórnmálamannanna. Það er væntanlega það að vera nútímalegur jafnaðarmaður en á sama tíma vilja menn setja heimildir í lög sem gera það að verkum að fólk sem gleymir að skila evrunum eða dollurunum sínum getur átt fangelsisvist yfir höfði sér.

Það er nú nútímamennskan í jafnaðarmennskunni þegar á reynir og sýnir okkur svo ekki verður um villst að Samfylkingin er fyrst og fremst Alþýðubandalagið endurborið, en það er ekki (Gripið fram í.) auðvelt, jafnvel fyrir færustu vísindamenn, að finna leifar af gamla Alþýðuflokknum í Samfylkingunni — lái mér hver sem vill að hafa ruglast á þessum tveim flokkum. Það væri þá helst að menn gætu fundið einhverjar slíkar leifar í hv. þm. Kristjáni Möller ef menn leituðu.

Hvað sem því líður er erfitt að tala efnislega um mál sem allir á þinginu vita að tekur sífellt breytingum í bakherbergjum. Enginn álitsgjafi er kallaður til. Ekki er farið yfir umsagnirnar sem komu frá fagaðilunum og reynt að koma til móts við þær. Nei, virðulegi forseti, í bakherbergjunum eiga sér nú stað allra handa samningaviðræður milli stjórnarliða í dauðans ofboði vegna þess að þetta mál skal klárast í dag. Þá er reynt að bjarga einhverjum hagsmunum til eða frá og vonandi er það gert með það í huga að reyna að bjarga hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Svona eru vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er enn ein birtingarmyndin af vinnubrögðunum hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta eru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við tillögum rannsóknarnefndarinnar og annarra þeirra aðila sem kallað hafa eftir faglegum vinnubrögðum á þessum vettvangi. Þetta eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar að hv. stjórnarliðar hlaupa hér á milli herbergja í baktjaldamakki um undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Þetta er svarið. Það vita allir. Það veit hver einasti hv. þingmaður að svona er unnið í þessu máli. Það veit hver einasti starfsmaður hér sem og fjölmiðlamaður sem fylgist með framvindunni. Þetta eru vinnubrögðin. Núna, klukkan sjö mínútur yfir eitt á laugardegi, gæti eitthvað mikið verið að breytast í þessu frumvarpi.

Þetta er svo skýr birtingarmynd af vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. Hún verður ekki skýrari. Svona vinnur þessi ríkisstjórn. Núna er það hvorki meira né minna en undirstöðuatvinnuvegur íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, á morgun verður það eitthvað annað.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, forustumenn í þessum flokkum og landgönguliðar, skulu aldrei — aldrei — segja að þessir flokkar vinni faglega að málum vegna þess að það eru hrein og klár ósannindi.

Ef við ætlum að fylgjast með því hvað er að gerast í þessu máli ættum við að setja upp sjónvarpsskjái þar sem helstu aðilum stjórnarliðsins er fylgt og það tekið upp hvað þeir eru að makka í hliðarherbergjum. Þá mundum við vita hvað er á ferðinni nákvæmlega núna því að ekki er unnið með hefðbundnum hætti eins og á að gera þegar menn vinna faglega að málum.

Virðulegi forseti. Það er alvarleiki málsins. Hér er ekki um eitt smámál að ræða. Þetta eru sjávarútvegsmálin.



[13:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að menn sitja hér víða, m.a. í sófa og hornum, og eru heilmikið að tala. Ég veit reyndar ekki um hvað þeir eru að tala en stundum heyri ég orðaslitur, tonn, 1.500, 300 o.s.frv. Ég veit ekki hvað þeir eru að gera en ég hugsa að þessi ágiskun hv. þingmanns gæti verið rétt.

Hann sagði áðan að menn væru að makka um ýmsa hagsmuni, vonandi hagsmuni þjóðarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Getur hann útskýrt fyrir mér um hvaða hagsmuni þjóðarinnar menn þurfa að makka? Ef það eru hagsmunir þjóðarinnar, tala menn ekki um þá í ræðustólnum? Geta menn einhvern tímann makkað um einhverja hagsmuni sem tengjast hagsmunum þjóðarinnar? Eru menn ekki alltaf að makka um einhverja sérhagsmuni sem eru öndverðir við hagsmuni þjóðarinnar? Þegar einhverjum einum er hleypt fram fyrir í röðina er einhver annar sem líður, þ.e. heildin líður fyrir það.

Ég hjó eftir þessu orðalagi og varð dálítið hvumsa við og ósáttur vegna þess að ég hef alltaf talið að sérhverjir sérhagsmunir skaði heildarhagsmunina.



[13:10]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er auðvitað spurning hvort hægt sé að makka um hagsmuni þjóðarinnar í hliðarherbergjum. Ég veit það ekki, ég veit hins vegar að ég hef mjög miklar áhyggjur af því hvernig mál þróast á þinginu og þá ekki síst í þessu máli. Það er ekkert leyndarmál að ástæðan fyrir því að ég lagði mesta áherslu á vinnubrögð í þessu máli er sú að ég er að vekja athygli á þeim. Við hv. þingmaður sem komum í þetta andsvar erum ekki hér í bakherbergjum að makka um þetta frumvarp. Hugmyndin er ekki sú að þannig sé unnið. Hugmyndin er sú að það sé talað fyrir máli. Ástæðan fyrir því að við erum með lokadag 1. apríl er að það á að vera tryggt að við höfum nægan tíma ef við ætlum að klára mál að vori að það fái efnislega umfjöllun.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur lýst því yfir að ekki hafi farið fram efnisleg umræða í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um þetta mikilvæga mál. Hvað þýðir það? Það þýðir að það hefur ekki verið rætt. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þetta sagði hv. þm. Björn Valur Gíslason við fjölmiðla. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þá verða menn að eiga í því innan stjórnarliðsins ef þeir eru ósammála þar. (Gripið fram í.) Ég fullyrði hins vegar að hér er ekki unnið faglega þegar menn eru á hlaupum að bjarga einhverju fyrir horn. Umræðan fer minnst fram í þingsalnum, hún fer fram einhvers staðar annars staðar og það vita allir sem vilja vita. Ég vona að niðurstaðan verði í þágu þjóðarinnar en ég er ansi hræddur um að það verði langt frá því, sérstaklega ef þetta verður samþykkt eins og það lítur út núna.



[13:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Ég spurði hann um hvaða hagsmuni þjóðarinnar þyrfti að makka í bakherbergjum. Ég get ekki séð fyrir mér neina hagsmuni þjóðarinnar sem þola ekki dagsljósið í ræðustól vegna þess að kjósendur hljóta almennt að vera hlynntir þeim og það þarf ekki að fara í neinn feluleik með það.

Ég skil það þannig að þegar menn eru að makka í bakherbergjum til að ná í tonn hér og tonn þar í þessa og hina hagsmunina, til atkvæðakaupa í heimabyggð og annað slíkt, séu þeir að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ég fullyrði að sérhvert makk í bakherbergjum er gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ef það eru hagsmunir þjóðarinnar getur maður bara sagt þjóðinni: Ég er að vinna fyrir þig í þessu máli.



[13:13]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum ég er kominn í vörn fyrir þessi vinnubrögð hérna. Öll ræða mín gekk út á að gagnrýna þau og mér finnst það vægast sagt ósanngjarnt að hv. þm. Pétur H. Blöndal ætli að gera mig ábyrgan fyrir þeim. Það er mesta óréttlæti sem ég hef heyrt um mjög lengi.

Stóra einstaka málið er að ekki er verið að vinna þannig að það sé tryggt að haldið sé utan um hagsmuni þjóðarinnar. Það er bara staðreynd. Það getur enginn haldið því fram sem fer yfir vinnulagið í þessu máli, ekki nokkur maður, að þetta sé eins og við viljum sjá unnið að málum, í það minnsta í orði kveðnu. Það getur vel verið að menn geti sagt að í einhverju máli fyrir fimm árum, sjö árum, tíu árum, fimmtán árum, hafi þetta verið gert en það var þá heldur ekki til fyrirmyndar.

Virðulegi forseti. (BVG: … heilbrigðisráðherrann …) Við erum núna í þeirri stöðu að við ákveðum — t.d. er hæstv. utanríkisráðherra lykilmaður í að ákveða það hvernig vinnubrögð verða í þessu máli. (Utanrrh.: Get ég það?) Hv. stjórnarliðar hafa enn þá tækifæri til að sjá að sér og gera hið augljósa, þ.e. draga þetta mál til baka og vinna það almennilega. Síðan er hinn valkosturinn að halda áfram með það vinnulag sem hér er og klára málið. Sá möguleiki er til staðar. En þá liggur alveg fyrir enn ein staðfestingin á því hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn starfar. (Forseti hringir.)