139. löggjafarþing — 153. fundur
 11. júní 2011.
stjórn fiskveiða, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 826. mál (strandveiðar, aflamark, veiðigjald o.fl.). — Þskj. 1474, nál. 1692, 1709 og 1710, frhnál. 1761, brtt. 1693, 1762 og 1797.

[16:33]
Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við breytingartillögur á þskj. 1762, um stjórn fiskveiða, á þskj. 1797. Þetta er 826. mál. Umræddar breytingartillögur eru frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Ólínu Þorvarðardóttur, Birni Val Gíslasyni, Róberti Marshall og Helga Hjörvar og eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Við 3. tölul.

a. Við bætist ný málsgrein sem verði 2. efnismgr. (4. mgr. 8. gr. laganna), svohljóðandi:

Við frádrátt skv. 1. málsl. 3. mgr. skal tekið mið af sérstakri tilgreiningu eigenda veiðiskipa á þeim tegundum sem hlutfall skv. 1. málsl. 3. mgr. skal dregið frá. Slíkt er þó aðeins heimilt að því leyti sem samanlögð þorskígildi aflaheimilda sérstaklega tilgreindra tegunda eru jöfn samanlögðum þorskígildum frádreginna aflaheimilda skv. 1. málsl. 3. mgr. Aðeins er heimilt að tilgreina skv. 1. málsl. ýsu, ufsa, þorsk og steinbít.

b. Orðin „og/eða samtökum í sjávarútvegi“ í 2. málsl. 3. efnismgr. falli brott.

c. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæða greinarinnar í reglugerð.

2. Í stað orðsins „skal“ í fyrri málslið 2. efnismgr. 7. tölul. komi: er heimilt að.

3. Í stað efnismálsgreina d-liðar 8. tölul. komi ein málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna skulu frádráttarliðir samkvæmt þeirri málsgrein eins og þeir voru fyrir gildistöku 3. gr. laga þessara koma til frádráttar að 3/4 hlutum frá leyfðum heildarafla á fiskveiðiárinu 2011/2012. Skal frádráttarhlutfall skv. 3. mgr. 8. gr. laganna á því fiskveiðiári aðeins koma til frádráttar svo nemi fjórðungi þess. Skal aflamagni samkvæmt þessari málsgrein ráðstafað skv. 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna.“



[16:37]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hlýddi á mál hv. framsögumanns þar sem hún kom með breytingartillögur við breytingartillögur sem voru aðrar breytingartillögur frá hv. meiri hluta og ég verð að segja eins og er að ég skildi varla orð. Það skiptir kannski ekki máli. Það er ein allsherjarsorgarsaga hvernig starfið í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur verið, að hér skuli koma breytingartillaga eftir breytingartillögu og breytingartillögur við breytingartillögur. (LRM: Ertu á móti breytingum?) Ég er ekki á móti breytingum á sjávarútvegskerfinu ef þær eru skynsamlegar en ég er ansi hræddur um að breytingartillögur sem gerast með þvílíkum hraða og þar sem menn togast á um hagsmunina í bakherbergjum séu ekki endilega gæfulegar fyrir þjóðina.

Af þessum breytingartillögum eru nokkrar til bóta. Til dæmis er búið að skipa út litlu skeljunum undir 3 tonnum, menn féllust á að þetta væri stórhættuleg aðgerð. 3. gr. fellur út eins og hún leggur sig og þar sem allt frumvarpið var mjög slæmt er vissulega til bóta að eitthvað falli niður.

Í 5. gr. er mikil einföldun. Auðlindarskatturinn er lækkaður úr 16,2% í 13,3% og b-liðurinn fellur burtu þar sem ráðherrann átti að ráðstafa hinu og þessu. Það voru geysilegar heimildir til ráðherrans og það er líka til bóta ef eitthvað fellur niður.

Það eru ekki lengur markaðir tekjustofnar til sveitarfélaga þar sem sumir fá og sumir ekki. Mosfellsbær átti til dæmis ekki að fá neitt en Reykjavík átti að fá eitthvað. Ég veit ekki með Kópavog svo ég tali um sveitarfélögin í nágrenni við mitt kjördæmi. Svo átti að setja þetta inn í fjárlög með orðinu „skal“ sem nú er búið að taka í burtu og þá heitir það „heimilt að“, þ.e. nú hefur fjárlaganefnd að minnsta kosti einhverja heimild til að gera eitt og annað. Hún getur sett 14% í staðinn fyrir 15% ef henni sýnist. Það er sem sagt til bóta að milda þessa mörkuðu tekjustofna.

Í 7. gr. er verið að hræra í pottum og satt best að segja átta ég mig ekki alveg á því hvort breytingartillögurnar séu til bóta eða ekki. Ég er á móti þessu öllu saman, það er mjög einfalt, vegna þess að ég er á móti frumvarpinu í heild sinni. Frumvarpið er slæmt og jafnvel þótt breytingartillögur séu góðar í þeim skilningi að þær fækka göllunum á frumvarpinu er ég á móti því.

Við erum að tala um rómantík. Hv. þm. Lilja Rafney er ekki við — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Lilja Rafney Magnúsdóttir.)

Ég var truflaður af síma í salnum, frú forseti.

Hv. þingmaður sagði að strandveiðar hefðu verið upphaf fiskveiða á Íslandi. Það er rétt en ég get ekki sagt að þjóðin hafi verið sérstaklega rík á þeim tíma. Margur maðurinn missti líka lífið þannig að ég held að það sé ekki æskilegt að hverfa til þess að setja árabáta í allan flotann og veiða allan fisk þannig. (Gripið fram í.)

Þessi rómantík kostar heilmikið. Við getum hugsað okkur að landbúnaðarnefnd kæmist að þeirri niðurstöðu að við ættum að heyja með orfi og ljá og þá kæmi aldeilis líf í sveitirnar, það er ekki spurning, en ég er ansi hræddur um að lambakjötið yrði dálítið dýrt. Það slæma í þessu er kannski að menn eru farnir að hunsa og tala niður til arðsemi. Hún er orðin allt að því slæm og markaður og annað slíkt er ljótt. Ég tel þetta mjög skaðlega þróun.

Ég spyr: Ef þessar strandveiðar og allt þetta dót sem á að fá kvótann ókeypis er svona arðbært, af hverju getur það fólk ekki keypt sér kvóta eins og aðrir? Af hverju þarf það gjafakvóta? — Ég veit að ég á að flýta mér, frú forseti.

Það eru heilmiklar hömlur á sölu á kvóta. Þær eru í fyrsta lagi að menn verða að veiða helminginn af þeim kvóta sem þeir hafa en geta selt eða framselt hinn helminginn. Svo eru pólitískar hömlur, menn óttast alltaf að ef þeir ganga of langt í því að framselja kvóta komi ríkisvaldið eins og með skötuselinn og taki bara af þeim kvótann. Það er það sem útgerðin óttast, jafnvel þeir útgerðarmenn sem hafa keypt kvótann fullu verði sem flestir hafa gert. Síðan er félagslegur þrýstingur. Þeir eru úthrópaðir sem kvótagreifar liggjandi á flatsængum í vellystingum í Suðurhöfum meðan fátækir sjómenn veiða kvótann þeirra. (Gripið fram í: Fljúga líka á þyrlum.) Já, svo fljúga þeir um á þyrlum líka. Svo er byggðaþrýstingur, það má ekki selja kvóta úr byggðarlaginu. Allt þetta minnkar arðsemi kerfisins og gerir það óhagkvæmara.

Afleiðingin af þessum takmörkunum á framsali er að það er minni leigukvóti til leigu, verðið á honum helst hátt og færri geta byrjað nýliðun af því að þeir byrja á því að leigja sér kvóta. Öðruvísi gerist það ekki. Menn hafa yfirleitt ekki efni á að kaupa kvóta fullu verði, a.m.k. ekki fólk sem er ekki þeim mun auðugra. Síðan er greinilega einhver skekkja í framsalinu vegna þess að stundum er verð á leigukvóta hærra en framleiðnin af fiskinum þannig að það er mikil skekkja í þessum kvóta, kvótamarkaðurinn er allt of lítill, allt of takmarkaður og verðið allt of hátt. Og menn ætla sem sagt að auka það enn frekar, taka hluta af þessum kvóta og gefa öðru fólki til að veiða.

Ég hef nefnt það að arðsemi sjávarútvegsins er undirstaða arðsemi hluta íslensks atvinnulífs og sú arðsemi er undirstaða velferðarkerfis sem er nokkuð sem við viljum halda í þannig að þegar menn koma með svona hugmyndir eru þeir að ráðast að rótum velferðarkerfisins. Ég er eindregið á móti því, ég vil nefnilega hafa gott velferðarkerfi, frú forseti.



[16:44]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að tjá mig fyrir hönd okkar framsóknarmanna í þessu flókna máli. Mig undrar ekki að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ekki er í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd komi upp og finnist erfitt að henda reiður á öllum þeim breytingartillögum og þeim minni hlutum sem skýra frá nefndarálitum sínum. Fyrir okkur sem sitjum í nefndinni er það býsna flókið líka. Margar af þeim breytingartillögum sem hér hafa verið unnar, hvort sem þær hafa átt uppruna sinn í bakherbergjum eða í því að menn séu að reyna að ná samkomulagi á vitrænum grunni, eru til bóta og margar þær tillögur sem fram voru komnar áður eru einnig til bóta. Það er þó á þeim sá ágalli að við höfum ekki haft tíma til að ígrunda þær sjálfar, hvað þær þýða nákvæmlega, hvorki efnahagsleg né hagfræðileg áhrif, hvorki á þjóðarbú, byggðarlög né einstök fyrirtæki, og það er mjög erfitt að vinna undir þessari pressu um þingfrestun.

Það er alveg sama í hvaða máli það væri en það er ekki síst erfitt þegar við erum að fjalla um svona mikilvæga atvinnugrein. Sjávarklasinn veltir um 300 milljörðum, 25 þús. manns í landinu koma að greininni með einum eða öðrum hætti og útflutningstekjur þjóðarinnar eru að 1/4 úr þessari atvinnugrein. Þess vegna ættum við að leggja miklu meiri vinnu í að vanda okkur og ég ítreka þá tillögu okkar framsóknarmanna sem ég lagði fram í nefndaráliti seint í gærkvöldi þar sem við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég vona svo sannarlega að það verði gert. Það mundi einfalda lífið á þinginu og flýta fyrir því að ná fram þeirri þingfrestun sem varð samkomulag um. Ef það gengur ekki munum við greiða atkvæði um einstakar greinar. Þar sem þetta mál er stjórnarinnar sem þarf að bera ábyrgð á því munum við greiða atkvæði með því að fella út greinar sem eru greinilega ólánsgreinar en sitja hjá að mestu leyti. Í Framsóknarflokknum er þó fullkomið frelsi til að greiða atkvæði eins og menn vilja í einstökum greinum, kjósi þeir að fylgja sannfæringu sinni og hún sé það sterk að þeir telji (Gripið fram í.) að þeir hafi getað myndað sér skoðun á málinu þrátt fyrir að hér hafi enginn þingmaður, ekki þeir sem sitja í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hvað þá aðrir, haft tíma eða möguleika á að gaumgæfa afleiðingar þessa frumvarps.



[16:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda margt búið að segja. Farið hefur verið yfir efnisatriði málsins og síðan hefur tilraun verið gerð til að fara yfir þessar nýjustu breytingartillögur. Það sem ég vildi segja í örfáum orðum er að lýsa andstöðu minni við þau vinnubrögð sem við höfum verið að upplifa síðustu daga og ég vona svo sannarlega að við lærum eitthvað af þeim.

Við höfum setið í þingskapanefnd, sérnefnd um endurskoðun á þingsköpum, mál sem við þurfum að ræða sem síðasta mál á þessu þingi, þar sem við höfum lagt okkur öll fram og náðum undir góðri stjórn og forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að afgreiða það mál í sátt með einu nefndaráliti þar sem markmiðið var að breyta vinnubrögðum á þinginu. Þar var eitt lykilatriði, seinasta atriðið, sem við náðum sátt um og komum inn í það frumvarp og snýr að því að viðurlög skuli vera við því að leggja frumvörp fram of seint á þinginu. Það held ég að sé mesti gallinn á þessu máli. (Utanrrh.: Setja bara í fangelsi.) Við leggjum ekki til fangelsisvist, hæstv. utanríkisráðherra, en það mætti alveg koma með breytingartillögu, ég vísa hæstv. utanríkisráðherra á það. En það er nákvæmlega það sem fór með þetta mál fyrir utan ósamkomulagið í ríkisstjórninni, forustuleysið og allt það sem ég gæti talað um og haldið mjög langa ræðu. Þetta mál kemur inn tveimur mánuðum eftir frestinn, átta dögum fyrir þinglok, af því að við áttum að vera farin heim samkvæmt starfsáætlun fyrir tveimur dögum.

Við erum ekki að tala um nein smámál. Við erum að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Við sem störfum á þingi skuldum þeirri grein, hvað sem okkur finnst um það kerfi sem var lögfest á þessu sama Alþingi, að sýna henni þá virðingu að vera ekki að rótast með hana og henda henni hingað fram og til baka. Það er rétt sem fram hefur komið, það ástand sem hefur verið hér síðustu tvo sólarhringa er þannig að verið er að henda breytingartillögum fram og til baka í bakherbergjum. Það er orðið þannig að nú er komin niðurstaða í málið en það hefur farið í 150 hringi og ég efast um að nokkur maður sé með endanlega yfirsýn yfir hvað við munum á endanum greiða atkvæði um í dag. Það er það sem er alvarlegt í málinu vegna þess að það eru ekki bara einhverjar tölur á blaði sem eru skrifaðar aftan á umslag, það er fólk á bak við þær tölur. Það eru byggðarlög, það eru fyrirtæki, það er lífsafkoma fólks úti um allt land sem er undir. Við megum ekki og eigum ekki að koma svona fram við það fólk. Lærum af þessu.

Nú skulum við nota það tækifæri sem hefur skapast með því að stóra kvótamálið, sem svo er kallað, er farið út af borðinu á þessu þingi. Komum okkur nú saman um að vinna það betur þannig að við getum þá komið með tillögur byggðar á sátt. Við vitum það öll sem erum búin að vera að semja hingað og þangað, hvort sem það er í þingskapanefnd eða um þetta mál, að sáttin felst ekki í því að aðeins einn fái en hinn ekki. Þess vegna þurfum við að gefa eftir í einhverjum málum til að lenda þessu. En höfum í huga grundvallarprinsippið, sem er að skapa þessari mikilvægu atvinnugrein traust og öruggt rekstrarumhverfi sem nýtist ekki bara þeim einstaklingum, þeim fyrirtækjum, þeim byggðarlögum sem þessi fyrirtæki gera út frá, heldur okkur öllum sem Íslendingum. Þetta er stórmál. Ég vona að við getum öll tekið höndum saman um að ljúka málinu á næsta þingi í betri og meiri sátt en við erum að gera núna.



[16:52]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður setti fram það nýstárlega sjónarmið að ef handhafar framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnin, leggja fram frumvarp sem kemur of seint miðað við það sem lög kveða á um og er auðvitað ekki lagt fram nema vegna þess að þingið samþykkir það með meiri hluta, þá leggur hv. þingmaður til að sett verði einhvers konar viðurlög til að koma í veg fyrir að hinir vondu menn og konur sem þessum embættum gegna geri það aftur. Þetta hef ég aldrei heyrt áður en mér finnst það fróðlegt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvers konar viðurlög? Á að setja ráðherra í fangelsi eða á að sekta þá eða hvaða hugmyndir gerir Sjálfstæðisflokkurinn sér um það?



[16:53]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú erum við komin í umræðu um næsta dagskrármál og ég skal biðjast afsökunar á þeirri orðnotkun sem stafar af því að við erum búin að ræða svo mikið um þetta í þingskapanefndinni undir þessu viðurlaganafni. Auðvitað er það ekki þannig.

Það sem við náðum samkomulagi um og vorum sammála um var að hver ríkisstjórn og hver þingmeirihluti hefur að sjálfsögðu þann rétt að geta lagt fram þau mál sem hann kýs á Alþingi. Við höfum ákveðinn framlagningarfrest sem heimilt er að veita afbrigði frá. Við sjáum að það fer að verða meiri regla en undantekning að framlagningarfresturinn er ekki virtur. Til að koma málum þannig fyrir að þau komi fyrr inn í þingið svo að við höfum meiri tíma og meira ráðrúm til að klára þau þá erum við með tillögu um að mál sem kemur of seint fram þurfi að liggja í fimm daga áður en það verður tekið á dagskrá í 1. umr. (Gripið fram í: Gapastokkurinn er næsta …)



[16:55]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var athyglisvert að heyra hv. þingmann lýsa reynsluheimi sínum undanfarna daga í þinginu. Ég er hingað komin til að lýsa því yfir að maður hefur skynjað það undanfarna sólarhringa að mjög erfitt hefur verið að leiða til lykta þetta erfiða deilumál innan þingsins. Það hefur þurft sterk bein og staðfestu til að sigla þessu fleyi í höfn fram hjá öllum þeim boðum og skerjum sem hagsmunaaðilar af öllum toga hafa lagt í leið hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég vil þakka forustu þeirrar nefndar og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, og öðrum þeim sem hafa komið að því, hv. varaformanni líka, fyrir að hafa siglt þessu máli svo langt sem komið er. Við erum á byrjunarreit og við munum væntanlega halda áfram, því að þinginu er ekki lokið, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, að vinna stóra frumvarpið það sem eftir lifir þings fram á haust.



[16:56]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem fram hefur komið hjá hv. málshefjanda að öllu máli skiptir að vinna þetta áfram á sáttaleið og ég vil spyrja hvort það sé ekki grundvallaratriðið.

Það mál sem nú er að sigla inn í þingsalinn er ekkert fley á leið í höfn. Það er því miður línuflækjufótur, krókalaus … (Gripið fram í: Vestmannaeyjaferjan.) (Gripið fram í: Við förum að leysa það …) Nei, þið kunnið ekkert að leysa það og síst af öllu hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Miklu skiptir að það sé afgreitt á þann hátt í framhaldinu að sáttaleiðin sé farin, ekki að verið sé að egna saman þingmönnum, þingmönnum gegn þingmönnum, þingmönnum gegn fólkinu í byggðum landsins. Það hefur hæstv. ríkisstjórn gert í þeirri vegferð sem hún hefur verið og því þarf að ljúka. Það eru ekki boðleg vinnubrögð á því herrans ári sem nú er.



[16:57]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það virðist sjá fyrir endann á umræðum um sjávarútvegsmál núna fyrir vorið í það minnsta. Ég vil í stuttri ræðu, frú forseti, taka undir þau orð sem hér hafa fallið um vinnubrögð við frumvarpið. Það getur vel verið að hægt sé að finna dæmi um slík vinnubrögð einhvers staðar annars staðar eða áður og allt það en það er þá ekki til eftirbreytni.

Ég held að við hljótum að sjá að þegar við fjöllum um helstu atvinnugrein þjóðarinnar sé betra að gera það í sem bestri sátt. Það verður aldrei alger sátt um þetta frekar en annað þegar verið er að stýra sókn í takmarkaðar auðlindir, við vitum það. Það er bara þannig. En við þurfum að reyna að vinna að því að ná sem bestri sátt og við þurfum líka að sammælast um að setja málin í ferli sem er þá líklegt til þess að skila niðurstöðu þar sem færri en fleiri eru ósáttir. Það er það sem ég vil draga fram.

Við höfum að sjálfsögðu hvert okkar skoðanir á þessum málum. Það er eflaust þannig með flesta í landinu. Fyrir mörg okkar sem erum í meiri nálægð en aðrir, og er ég ekki að gera lítið úr öðrum, þá þekkjum við það að sjávarútvegurinn skiptir gríðarlega miklu máli á mörgum stöðum í kringum landið. Við erum öll vonandi að hugsa um atvinnuöryggi þess fólks þegar við fjöllum um þau mál. Það er það sem mér finnst mestu skipta um það frumvarp sem hér um ræðir og hvernig við tökum á málunum í framtíðinni, að við verðum að huga að þessu. Ég get ekki túlkað þetta frumvarp og þær breytingar sem verið er að leggja fram sem lið í því að tryggja atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi, því miður.

Mikið hefur verið rætt um 2. gr. frumvarpsins sem lýtur að bótum eða pottum. Því miður hefur ekki tekist að ganga í það réttlætisverk að jafna milli útgerðaraðila eða jafna milli þeirra sem leggja til í þá potta. Enn er það þannig og nú segi ég það óábyrgt, frú forseti, að um 400 aðilar gætu verið að leggja í þessa potta í dag meðan slagurinn síðustu klukkustundir og daga hefur verið um það hvort fimm, sex, eða sjö stórfyrirtæki eiga að leggja í þá eða ekki.

Hér er komin ákveðin breytingartillaga sem mörgum okkar finnst ekki ganga nógu langt í að jafna þetta. Það er þá verkefni næstu mánaða, næsta þings væntanlega, að reyna að ná þeim jöfnuði. Ég trúi því að innst inni sjái þingmenn sem horfa á málið að þetta er réttlætismál. Það er réttlætismál að ganga þann veg.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mikil umræða hefur verið um málið og hún mun að sjálfsögðu verða áfram. En ég bið þingmenn, hæstv. forseta og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að tryggja það að við tölum sjávarútveginn upp en ekki niður og að við sammælumst um að þær breytingar sem kunna að verða gerðar verði gerðar í víðtæku samráði. Ég skora á hæstv. ráðherra að lýsa því yfir.



[17:02]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú dregur að lokum 2. umr. um þetta frumvarp og fyrir alla þá sem fylgst hafa með umræðunni og gangi málsins í gegnum þingið, hvernig því hefur verið tekið af umsagnaraðilum og hversu sterklega er mælt með því að því verði breytt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er öllum augljóst að hér hefur ekki verið vandað mjög til verka í aðdraganda og við undirbúning frumvarpsins. Langflest sjónarmið eru þegar komin fram um efnislegar athugasemdir en í þessari umræðu vil ég sérstaklega vekja athygli á einu. Það stefnir í að meiri hlutinn á þinginu taki ákvörðun um að bæta um það bil 4.500 tonnum í strandveiðar og byggðatengdar aðgerðir. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin boðað að áfram verði unnið að heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og í því felst m.a. að svo kunni að fara að áfram verði haldið á þeirri braut.

Í upphafi þess kjörtímabils sem nú er hálfnað voru í þessum byggðatengdu aðgerðum um það bil 12 þúsund tonn. Gangi þetta eftir sýnist mér að hæstv. sjávarútvegsráðherra takist með þessu, ásamt því sem áður hefur verið ákveðið á þessu kjörtímabili, að því sem næst tvöfalda þessa fjárhæð. Ráðherrann hefur fengið til sín a.m.k. 10 þúsund tonn til úthlutunar eftir þessum aðferðum til viðbótar við það sem áður gilti. Það er því sem næst tvöföldun. Því er síðan fylgt eftir með þeim skilaboðum að menn séu ekki hættir. Uppi eru hugmyndir um að búa til leigupotta. Frumvarpið sjálft bar það með sér að ráðuneytið óskaði eftir því að fá mörgum þúsundum tonna rýmri heimildir til að ráðskast með. Það er alveg gríðarlega óheillavænleg þróun. Það er þróun sem er öll í átt til aukinnar miðstýringar. Það er þróun í átt til aukinnar óhagkvæmni. Ég hef tekið eftir því að þeir sem mælt hafa fyrir þessu máli og mæla sérstaklega fyrir þessum tillögum mæta ákaflega sjaldan í ræðustól til að færa fram rök fyrir því hvaða sanngirni það er að taka þessar heimildir af þeim sem eru í hlutdeildarkerfinu.

Hver er sú réttlæting? Er það vegna þess að þeir hafa það svo óskaplega gott? Eða máttu þeir vita það þegar þeir sóttu til sín heimildir, keyptu þær til sín, að þær yrðu af þeim teknar án bóta og þeir mundu sæta skerðingum í framtíðinni? Eru það skilaboð til þeirra? Mér finnst menn skulda útgerðarmönnum sem eru inni í kerfinu í dag skýringar á því. Það er oft látið að því liggja að þetta sé vegna þess að ráðherrann þurfi að hugsa um hinar dreifðu byggðir, landsbyggðin standi svo höllum fæti. En af hverjum er verið að taka? Hvar eru heimildirnar sem við erum að fjalla um? Skyldu menn hafa áttað sig á því að hartnær 9 af hverjum 10 kg eru úti á landsbyggðinni þannig að menn hræra bara heimildum frá einum stað til annars. Það er verið að færa heimildir til ráðherrans til að taka tonn frá einni byggð og færa yfir í einhverja aðra, frá einni útgerð yfir í einhverja aðra. Mér finnst það ekki ósanngjörn krafa þegar menn eru beðnir um að færa fyrir því einhverja réttlætingu, að menn líka undirgangist það og viðurkenni að þetta er ekki til aukinnar hagræðingar fyrir greinina. Það blasir svo við að með þessu er verið að troða mönnum um tær sem eru inni í kerfinu í dag og valda þeim óvissu og því finnst mér stjórnarliðar skulda þeim frekari skýringar en hér hafa komið fram, ég verð að segja það. Ég verð líka að lýsa miklum áhyggjum af því að sú stefna sem stjórnarflokkarnir reka og birtist okkur í stærra frumvarpinu, sem verður ekki gert að lögum á þessu löggjafarþingi, er í sömu átt, það á að halda áfram á sömu braut. Af því hef ég miklar áhyggjur.

Ég vil taka það fram að gefnu tilefni vegna þess að því er alltaf beint til okkar í Sjálfstæðisflokknum að þegar við tölum um útgerðina séum við að tala um fá stór fyrirtæki. Ég er að tala um litlu og stóru fyrirtækin. Ég er að tala um einyrkjana í þessum bransa. Ég er að tala um alla sem eru inni í kerfinu. Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir þetta frumvarp, þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera blasir áfram óvissa við öllum þessum aðilum, við útgerðinni í landinu. Það er það sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á á þessu kjörtímabili. Hún lagði af stað inn í kjörtímabilið með stjórnarsáttmála þar sem boðuð var innköllun allra aflaheimilda. Frá þeim tíma hefur ríkt fullkomin óvissa í greininni.

Nú eru liðin tvö ár frá því að stjórnarsáttmálinn var settur saman. Hvar erum við stödd? Búið er að boða frumvarp í haust, við vitum ekki hvað í því felst. Við vitum bara að síðast þegar ríkisstjórnin kom fram með slíkt frumvarp, það sem nú liggur inni á þinginu, hélt hún því hjá sér í átta mánuði án þess að hleypa hagsmunaaðilum að, án þess að hleypa öðrum þingflokkum að og hún mun eflaust vinna það þannig aftur, sitja með það í fanginu á sér, reyna að hnoða saman einhverju frumvarpi sem fáir útvaldir úr þingflokkum beggja stjórnarflokkanna fá að koma að. Áfram gildir því óvissan, áfram lifir hún. Það dregur úr fjárfestingu og allt veldur það skaða fyrir heildina. Ég tala fyrir heildarhagsmunum okkar Íslendinga. Heildarhagsmunir okkar liggja með útgerðaraðilum í þessu landi, með því að menn geti fengið að stunda útgerðina í friði, að menn hafi einhverja vissu fyrir því hver umgjörðin er, að menn séu með tryggt umhverfi og séu tilbúnir að fjárfesta vegna þess að þeir vita hvað framtíðin ber í skauti sér, að þeir búi ekki við það ástand að hér sé ríkisstjórn í landinu sem sé með sífelldar yfirlýsingar og með hótanir um að kippa forsendum rekstrarins undan mönnum. Það er óskaplega dapurlegt, ekki síst þegar haft er í huga að menn hafa gengið í gegnum mjög erfiða tíma til að gangast undir nauðsynlega hagræðingu, við erum farin að sjá bjartari tíma og stofnarnir eru í vexti, góð tíðindi fyrir heildina og fyrirtækin ganga svo sem ágætlega. Nei, þá á að fara aftur í gamla farið og láta ráðherrann hafa heimildir og kippa undan aflahlutdeildarkerfinu, kerfinu sem við höfum náð þessum árangri með.

Það stefnir sem sagt í að ríkisstjórnin vilji halda áfram á þessari braut. Ég boða hér með mjög harða andstöðu af okkar hálfu við frekari áform af þessum toga. Ég skora á menn nú þegar umræðunni er að ljúka að koma upp í ræðustól, á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem getur ekki varist brosi undir þessari ræðu eða hæstv. ráðherra sem mér sýnist ætla að fara í andsvar. Ég skora á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að tala til þeirra sem sæta þessum skerðingum. Frú forseti. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmenn til að koma hingað upp og tala sérstaklega til þeirra sem keypt hafa sér aflaheimildir fullu verði — nóg hafa þeir talað til hinna — og útskýri fyrir þeim hvers vegna það er svo ómögulegt að þeir séu í útgerð, hvers vegna nauðsynlegt sé að taka heimildir af þeim og ráðstafa þeim eitthvert annað í gegnum ráðuneytið. Ég mundi gjarnan vilja fá menn hingað upp til að staðfesta það sem ég er að segja, að heimildirnar eru nú þegar meira eða minna allar úti á landi. Það er bara verið að hræra í þessu og færa frá einum stað til annars.

Það er það sem stendur upp úr í lok þessarar umræðu. Tekist hefur verið á um fjölmörg ákvæði þessa frumvarps. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að fara ofan í ýmsar efnisgreinar. Ég sé að það er ætlun nefndarinnar að leggja til fjölmargar breytingartillögur sem draga úr tjóninu á þessu máli en þetta er stóra samhengið. Meiri pottar, meiri miðstýring, minni hagkvæmni og troðið á þeim sem hafa í góðri trú og á grundvelli gildandi laga sótt til sín heimildir og reynt að byggja upp fyrirtæki sín. Þeir fá fyrirvaralaust kveðjur frá ríkisstjórninni, ráðherranum og stjórnarmeirihlutanum um að þeir séu óheppilegir til að halda áfram á sömu forsendum, aðrir eigi nú að komast að. Það sé nýliðunin sem nú gildir. Það gera of fáir út á Íslandi. Það eru skilaboðin.

Þetta læt ég duga.



[17:14]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjaldgæft að forustumaður í Sjálfstæðisflokknum birtist með svo nöktum hætti sem talsmaður útgerðarinnar í landinu. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði bara fyrir hagsmunum útgerðarinnar. Ég skal svara hv. þingmanni fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna hvernig stendur á því að við höfum stutt það síðustu tvö árin að stærra hlutfall hafi farið í fyrsta lagi til strandveiðanna og í öðru lagi í það sem hann kallar byggðapotta. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að kvótakerfið hefur að mörgu leyti reynst ágætlega og það hefur ýtt undir hagkvæmni í greininni.

Ég hef alltaf haldið til haga þeirri skoðun minni, og ég hélt að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru því sammála líka, að kvótakerfið hefur skuggahliðar. Þær birtast í því að þegar sú staða kemur upp að til dæmis einstakir stórir kvótaeigendur selja af einhverjum ástæðum kvóta í þeim mæli að stoðum er slegið undan heilum byggðarlögum þarf samfélagið með einhverjum hætti að koma inn í það. Um það hélt ég að væri samþykki millum þingmanna. Ég ætla að nefna einn stað sem hugsanlega hefur eitthvert endurkast í hjarta hv. þingmanns, Flateyri.

Í annan stað ætti formaður Sjálfstæðisflokksins að vita af því að það liggur fyrir álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem er þess eðlis að við þurfum að svara því með einhverjum hætti. Ég er að minnsta kosti fyrir mína parta viljugur til að auka hlut strandveiðanna til að svara því áliti.



[17:16]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa staðfest hagkvæmni kvótakerfisins. Ég veit að hann hefur fylgst nógu lengi með til að muna þá tíma þegar aðgangurinn var frjálsari en nú gildir, þegar fjárfestingin var allt of mikil og þegar bæjarútgerðirnar voru allar á hausnum, og útgerðin almennt, og þegar aflahlutdeildin var býsna lítils virði, rétturinn til að fara til veiða vegna þess að það hafði enginn neitt upp úr þessu, þegar menn settu lögin árið 1990 til að takmarka aðganginn, reyna að draga úr fjárfestingunni og auka hagkvæmnina. Er verið að halda því fram að menn hafi þá ekki gert sér grein fyrir því að kerfið hefði skuggahliðar? Þvert á móti. Hér stóð þáverandi sjávarútvegsráðherra og sagði: Það er grundvallaratriði og afar mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir margar byggðir. Hagsmunir heildarinnar réttlæta þetta, þeir hagsmunir okkar allra að sækjast eftir meiri arðsemi veiðanna. Það var réttlætingin við frjálst framsal, og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra voru þá í þingsal og greiddu atkvæði með frjálsa framsalinu vitandi að það mundi hafa alvarlegar afleiðingar.

Hvar eru heimildirnar í dag? Þær eru í byggðunum. Er það óheppileg afleiðing og nokkuð sem við þurfum að takast á við í þingsal til að bregðast við þegar aflaheimildir fara jafnvel í heilu lagi frá einu byggðarlagi? Að sjálfsögðu. En eru strandveiðarnar svarið við því? Nei, því fer svo fjarri.

Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. utanríkisráðherra að kynna sér aðeins hvernig atkvæði féllu í þessari nefnd Sameinuðu þjóðanna sem hann vísar til. Þeir sem hafa eitthvert vit á og reynslu af fiskveiðum í þeirri nefnd voru á okkar bandi. Hinir sem eru einhvers staðar inni í miðri Afríku (Forseti hringir.) og annars staðar og hafa ekki hundsvit á fiskveiðum voru í einhverjum mannréttindaleik. Við erum ekki bundin af þessari niðurstöðu.



[17:18]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fróðlegt að heyra hvernig hv. þingmaður talar um íbúa í heilli álfu þar sem er fullt af ríkjum sem hafa vissulega atvinnu af og þekkingu á fiskveiðum. Látum það þó vera.

Það er eitt annað sem ég ætla að segja við hv. formann Sjálfstæðisflokksins sem talar bara um hagsmuni útgerðarinnar, talar ekkert um hagsmuni íbúanna á stöðum eins og Flateyri. Á síðustu árum hefur byggst upp mikið óþol með stjórnkerfi fiskveiða út af þessari skuggahlið, út af atburðarás sem við höfum séð sums staðar fara sem eld um byggðarlög. Sjálfstæðisflokkurinn kemur núna hingað og talar um að þessi ríkisstjórn hafi skapað svo mikla óvissu um kerfið. Þetta óþol sem hefur byggst upp hefur skapað óvissuna vegna þess að meira að segja útgerðin veit að það þarf með einhverjum hætti að svara því. Hv. þingmaður fór fyrir þeim sem komu í veg fyrir það, og hans flokkur hér fyrir nokkrum árum, t.d. þegar hv. þingmaður var í forustu fyrir þeim sem í fyrsta lagi eyðilögðu möguleika á því að þingið sameinaðist um að taka í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar. (BjarnB: Ósatt.) Í öðru lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn árum saman slegist fyrir hagsmunum stórútgerðarinnar í þessum sölum með því annaðhvort (Gripið fram í.) að koma í veg fyrir hækkun á veiðigjaldinu eða hreinlega stundum leggja fram tillögur um að lækka það. Ef þetta tvennt hefði gerst, ákvæðið hefði verið tekið inn í stjórnarskrá og veiðigjaldið hækkað dálítið hressilega, hugsa ég að það óþol sem menn eru að svara núna væri ekki til staðar. Staðan hjá útgerðinni væri kannski miklu tryggari þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo sannarlega kastað eldivið á þennan bálköst sem formaður Sjálfstæðisflokksins segir að sé núna í ljósum logum.



[17:20]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Staðreynd máls er að formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins lögðu fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni til að gera þetta sem hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) vill ekki kannast við. (Gripið fram í.) Það er bara staðreynd málsins (Forseti hringir.) og það hefur ekki verið efnislegur ágreiningur —

(Forseti (ÁRJ): Hafa hljóð.) (Gripið fram í.)

— um að vel mætti koma slíku ákvæði fyrir í stjórnarskránni heldur um orðalag í raun og veru og meira að segja okkar færustu lögfræðingar hafa ekki allir verið á einu máli þar um. Ég hef margoft lýst mig reiðubúinn að vinna að því að slíkt ákvæði gæti farið í stjórnarskrána en mér er ekki sama hvernig það lítur út.

Hæstv. utanríkisráðherra heldur því fram að hagsmunir útgerðarinnar séu með einhverjum hætti andstæðir hagsmunum almennings í landinu eða fólksins í byggðunum. Ég er hér til að reyna að opna augu ráðherrans og annarra fyrir því að þeir fara saman. Ef útgerðinni gengur illa gengur byggðunum illa, þá tapar fólk vinnu og launin verða lág. Þegar útgerðinni gengur betur getur hún ráðið til sín fólk, borgað hærri laun, skilað hærri sköttum til ríkisins og samfélagið blómstrað. Þetta er það sem við sjáum. Gamli tíminn var þessi sem hæstv. ráðherra virðist ekki lengur muna. Við höfum færst inn í nýja tíma þar sem útgerðin stendur nokkuð traustum fótum. Þegar (Gripið fram í.) málin eru skoðuð af sanngirni sjá menn auðvitað að í því kerfi sem hér hefur gilt undanfarna áratugi hafa verið ýmis úrræði í lögum og ég rakti það í ræðu minni, 12 þús. tonn í ýmsar aðgerðir fyrir sjávarútvegsráðherra til að koma til móts við tímabundinn vanda í einstökum byggðarlögum. Að sjálfsögðu þarf að hafa slíkt svigrúm í löggjöfinni. Ég er ekki að mæla gegn því. Mér finnst ráðherrann ganga allt of langt, hann er að tvöfalda heimildirnar. Þetta er allt of mikið (Forseti hringir.) og hefur ekki verið réttlætt hér.



[17:22]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get stytt andsvar mitt með því að taka undir ýmis orð hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í: Stórútgerðina.) ágæt orð sem hann notaði um um ýmsar skuggahliðar á núverandi kvótakerfi. Þær gerði hv. þingmaður meðal annars að umræðuefni hér, þær skuggahliðar þegar ungir menn þurfa að kaupa sér kvóta fyrir mikla peninga, þurfa svo að sæta skerðingu vegna samdráttar (Gripið fram í.) nokkrum mánuðum seinna, þurfa að skuldsetja sig upp fyrir haus til þess og út úr því fara þeir sem seldu með fulla rassvasa af peningum. Þetta eru skuggahliðarnar sem við þurfum að lagfæra. (Gripið fram í: Ég vona að þú sért með …) Ég hlusta ekki á svona frammígjamm.

Mér fannst hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, tala eins og það væri verið að tala tungum tveim. Í endurskoðunarnefndinni skrifar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins upp á það að mæla með því að aflaheimildum verði skipt í potta þar sem annars vegar verða aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, svo sem byggðakvóti, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir. Upp á þetta skrifar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Er hv. þingmaður ekki sammála því sem hér kom fram í endurskoðunarnefnd? Hvað er formaður Sjálfstæðisflokksins að fara með þessu? Ég hélt, virðulegi forseti, að hér væri verið að nefna það sem þarf, m.a. sem lið í að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar út af þessu kerfi sem er deiluefni hér í dag.



[17:24]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók fram í fyrri ræðu minni að ég stend ekki hér til að mæla gegn byggðakvótum eða sértækum úrræðum. (KLM: Gott.) Ég hef vakið máls á því oftar en einu sinni í dag að slík úrræði hafa lengi verið í löggjöfinni og ég hygg að byggðakvótanum hafi verið komið á í stjórnartíð okkar á sínum tíma. (Gripið fram í.) Þess vegna er ekki óeðlilegt að fulltrúi okkar í sáttanefndinni hafi skrifað upp á það. Hann var líka með sína sérstöku bókun, ég vek athygli á því, þar sem áhersla var lögð á að þessu þyrfti öllu að stilla í hóf.

Inntak ræðu minnar áðan var að menn ganga allt of langt. Allt of hátt hlutfall heimildanna fer inn í miðstýringarvald í gegnum sjávarútvegsráðuneytið og það skortir alla réttlætingu á því að ganga á hlut þeirra sem eru í kerfinu.

Menn tala um skuggahliðar. Það kemur í ljós þegar þessi tvö frumvörp koma frá ríkisstjórninni að stjórnarflokkarnir eru að reyna að ná til sín pólitískum ávinningi á forsendum þeirrar óánægju sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Hvernig gekk? Til hamingju með árangurinn. Frábærar viðtökur, ekki satt, við báðum frumvörpunum? Ekki einn einasti aðili í útgerð í landinu mælti með þessu, ekki ASÍ, ekki SA. Hver er núna að hrópa húrra fyrir ykkur? Það er nefnilega dálítið auðvelt að standa upp á fundum og tala um óréttlætið þegar verið er að skapa reglur til nýtingar á takmarkaðri auðlind, en þegar á að útfæra það, búa það í frumvarpsform og útskýra fyrir þeim sem eru í kerfinu í dag og hafa lagt nótt við dag til að koma þar undir sig fótunum og fjárfest mikið að þeir þurfi nú að víkja til hliðar vandast málið, ekki satt? Er ekki nógur (Forseti hringir.) vitnisburður það sem hefur gerst eftir að þessi tvö frumvörp komu fram?



[17:26]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að ungir menn sem vilja hefja útgerð gætu byrjað í útgerð þannig að þeir gætu fengið nýtingarheimildir og afnotasamninga að hinni sameiginlegu auðlind sem við eigum og borgað fyrir það sanngjarnt leigugjald til eigandans í staðinn fyrir að kaupa veiðiheimildir fyrir milljarða, taka til þess lán og vera skuldsettir upp fyrir haus í 20–30 ár. Þá fyrst getur fjárfesting viðkomandi farið að skila einhverjum arði. Ég vildi óska þess að þetta væri og miðað við tillögur endurskoðunarnefndarinnar heyrist mér sem Sjálfstæðisflokkurinn skrifi upp á þetta. Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að í stuttu andsvari í umræðunni staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins að hann stæði við það sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skrifaði upp á í endurskoðunarnefndinni. Kemur nú fulltrúinn í salinn til að gefa komment um það sem skrifað var upp á. Það er gott.

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir að skoðanaskiptin eru um það hversu mikið eigi að vera í þessum samfélagslegu pottum sem mér finnst vera ágætisnafn á þetta kerfi. Það verður deiluefnið, átökin eða skiptu skoðanirnar. (Gripið fram í: Fyrirvararnir …) En ég ætla bara að minna á, virðulegi forseti, að það er fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins sem til dæmis línuívilnunin var tekin upp. Hún var tekin þannig upp að hún var bara fyrir þá sem beittu í landi en ekki notuð í nútímatækni við beitingu úti á sjó. Það var eins og það hefði átt að taka upp hjólbörur í staðinn fyrir færibönd. Þetta er verk Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst dapurlegt að þurfa að fara í andsvar við hv. þingmann um þessi mál núna vegna þess að verkefnið fram undan er að skapa þá sátt sem hægt er að skapa í þjóðfélaginu um framtíðarstjórnkerfi fiskveiða. Það er verkefni á Alþingi og okkar alþingismanna (Forseti hringir.) á næstu mánuðum.



[17:28]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við viljum mjög gjarnan fá að taka þátt í því verkefni að skapa sátt um fiskveiðar á Íslandi. Við höfum unnið að því í marga áratugi. Sú aðferðafræði sem ríkisstjórnin beitir, að búa til súperþingmannanefnd átta manna eða sex manna eða hvað það var, halda málinu hjá sér, vera með það í fanginu í átta mánuði, hunsa samráðið sem áður var gert, mun ekki leiða til neinnar sáttar.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að í öllum umsögnum um þetta frumvarp kemur fram að stóra markmiðið sem hann er að gera að umtalsefni, nýliðunin, næst ekki með þessu frumvarpi. Það kemur fram í umsögnum smábátaútgerðarmanna og annarra. Það vinnur gegn nýliðun sem verið er að gera hér. Það er verið að stórauka félagsleg einkenni kerfisins með þeim breytingum sem er verið að innleiða hér með þessu frumvarpi og því sem boðað er. Það er mjög miður. Það er meira að segja verið að leggja það til í stóra frumvarpinu að varanlegt framsal verði bannað með öllu. Allir þeir sem um þessi mál fjalla af einhverri þekkingu, prófessorar í hagfræði og þeir sem hafa varið starfsævi sinni í að setja sig inn í hin ólíku kerfi, hafa sagt um framsalið að þetta sé eitt mikilvægasta framlag okkar Íslendinga til þróunar á fiskveiðistjórn í heiminum. Þess vegna eru aðrar þjóðir að fara að taka það upp. Nei, þá er íslenska ríkisstjórnin að fara í hina áttina, banna framsalið, auka félagsleg úrræði.

Hér er talað um ungt fólk í útgerð. Ég bið hv. þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu að beina orðum sínum til þeirra ungu manna sem eru í útgerð, og þeir eru úti um allt land, sem hafa skuldsett sig og farið inn í greinina. Nú á að fara að taka af þeim heimildir. (Forseti hringir.) Talið til þessara manna sem eru með fjölskyldur, börn og fjárfestingu. Talið til þeirra og útskýrið fyrir þeim hvers vegna hátt í 10% af öllum aflaheimildum þeirra í bolfiski eiga að fara í félagsleg úrræði (Forseti hringir.) vegna þess að einhverjir aðrir ungir menn eigi frekar að komast að. (Gripið fram í.)



[17:31]Útbýting:

[17:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta verða aðeins nokkur orð af minni hálfu. Menn töluðu áðan um ófriðar- og ágreiningsbál og ég ætla að vona að mér takist að flytja stutta tölu án þess að kveikja mikla elda.

Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með að vel horfir með afgreiðslu þessa litla frumvarps. Ég tel það mjög mikilvægt og ég þakka hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ekki síst formanni hennar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir að leiða það starf.

Ég tel að þær lagfæringar sem hér er verið að gera, breytingartillögur og nýjar breytingartillögur séu skynsamlegar og til mildunar á þeim aðgerðum sem í frumvarpinu felast án þess þó að horfið sé frá þeim grundvallarmarkmiðum sem því voru sett og ég tel að séu skynsamleg. Ég nefni sérstaklega það sem ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að telja í rétta átt, að allar kvótabundnar tegundir og útgerðir almennt í landinu leggi með einhverjum hætti sameiginlega í sjóð vegna þeirra hliðarráðstafana sem gerðar eru utan við hefðbundna aflamarkskerfið.

Nú horfir sem betur fer vænlega með aflaaukningu í þorski á komandi árum og þá held ég að réttlætanlegt sé að taka lítinn hluta þeirrar aukningar, eins og þetta litla frumvarp gengur út á og verður ekki af því nema um aflaaukningu verði að ræða, til að styrkja þær aðgerðir í kerfinu sem snúa t.d. að strandveiðum til eflingar byggðar og mannlífs, sérstaklega í litlu sjávarplássunum vítt og breitt á ströndinni og sömuleiðis hafa meira í forða til að geta gripið til byggðatengdra ráðstafana.

Ég held að menn ættu að minnast þess að þetta kerfi hefur frá upphafi aldrei gengið öðruvísi en þannig að unnt væri að bregðast við aðstæðum og mæta hlutum sem koma upp í tengslum við áföll eða röskun sem kerfið sjálft hefur í för með sér. Menn vitna mikið til breytinganna 1991 og þá er rétt að minna á að samhliða því sem þá var ákveðið, að opna fyrir framsal veiðiheimilda og var ekki auðveld fæðing, átti að leggja mun meira í hliðarráðstafanir vegna þess að allir gerðu sér grein fyrir því, eins og vitnað var til þáverandi sjávarútvegsráðherra, að það mundi hafa víðtæk áhrif, ekki síst í byggðalegu tilliti. Því var ætlunin að mæta með mun umfangsmeiri hliðarráðstöfunum en síðan var staðið við. Þessu geta menn flett upp.

Það er ekki nýtt af nálinni að menn átti sig á þeim pólitíska og byggðalega veruleika að ekki er hægt að keyra einfalt aflamarkaðskerfi með frjálsu framsali án þess að taka tillit til annarra hluta eins og atvinnuöryggis og byggðafestu í landinu og það hefur ekki verið reynt undanfarna áratugi. Spurningin er þá bara hvað þarf til, hvernig má útfæra það svo að sæmilegur friður geti orðið. Ég vona að það sem einmitt er verið að gera hér geti skapað meiri frið um að menn leggi sameiginlega af mörkum á grundvelli sanngjarnra reglna. Þær þarf áfram að fara betur yfir og útfæra til að þessar hliðarráðstafanir séu til staðar því að mínum dómi munu menn lengi þurfa á slíkum ráðstöfunum að halda.

Ég tel líka að það sem hér er opnað á sé skynsamlegt og ég styð það í prinsippinu, að ef svo vel gengur á komandi árum að umtalsvert meiri auðlindarenta kemur úr greininni til hins opinbera fái sveitarfélög eða sjávarbyggðir einhverja hlutdeild í því með tilteknum hætti. Mér finnst eðlilegt að horfa til þess að nærumhverfið fái að njóta góðs af því í einhverjum mæli. Þá þurfa að sjálfsögðu samskipti þessara aðila að skoðast betur í því ljósi.

Ég lít svo á að við stöndum öll frammi fyrir mikilli áskorun, allir flokkar sem eru í stjórnmálum í landinu og sjávarútvegurinn sjálfur; að reyna að leiða þessi mál áfram til farsællar niðurstöðu. Því verður ekki neitað að öllum hefur verið til stórtjóns hversu illa hefur gengið að ná fram betri friði um grundvallarfyrirkomulag í þessari grein. Það er engum til góðs að þannig haldi áfram. Má ég minna á að allir viðurkenna að gera þurfi breytingar á kerfinu eins og það hefur verið undanfarin ár, þar með talið LÍÚ. Allir viðurkenna að tilteknir hlutir eru þarna á ferð sem við þurfum að takast á við og gera breytingar á. Er þá ekki rétt að fara í það? Mér finnst menn vera fullverkkvíðnir og hræddir við að halda því starfi áfram sem er augljóslega fram undan. Ef menn bregðast alltaf þannig við þegar hugmyndir og tillögur koma fram að byrja á því að skjóta þær allar niður, hvert komast menn þá? Þó viðurkenna menn um leið að ástandið er ekki gott að ýmsu leyti.

Segja má að aflamarkskerfið hafi um sumt heppnast vel en aðeins um sumt. Það hefur vissulega falið í sér möguleika til hagræðingar í greininni en það hefur ekki verið án sársauka. Eins og sú hagræðing kemur út leggur hún um leið byrðar á sjávarútveginn sjálfan. Er það ekki þannig að drjúgur hluti skulda sjávarútvegsins er vegna þess að menn borga með reglubundnum hætti aðilum sem fara út úr greininni og þeir sem halda áfram skuldsetja sig á móti? Þetta er eðli kvótakerfa þar sem aðgöngumiðinn að takmarkaðri auðlind eða takmörkuðum stuðningi frá ríkinu tekur á sig verðgildi og ekki er gott til frambúðar að hreyfing í greininni þurfi alltaf jafnóðum að kosta skuldsetningu á þá sem eftir er. Auðvitað viðurkenna menn þetta, að minnsta kosti í tveggja manna tali. Það hefur aldeilis ekki verið án fórna eða var ekki þegar kvótaverðið fór í hæstu hæðir.

Ég lít því svo á, frú forseti, að ágætis áfangi sé að ná afgreiðslu á þessu litla máli og gera þær tímabundnu ráðstafanir sem þar eru á ferðinni á þessu fiskveiðiári og hinu næsta. Ég tel að búið sé að vinna vel í að útfæra þær og laga þannig að allir eigi að geta setið sæmilega sáttir við. Síðan heldur verkið áfram.



[17:38]
Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á það með hæstv. fjármálaráðherra að ekki hafi verið hugað að byggðamálum í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfið. Ég ætla að taka það dæmi sem er auðvitað stærst og gleggst, sú ákvörðun sem var tekin á sínum tíma um það að byggja upp sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi fyrir minni báta við hliðina á hinu hefðbundna aflamarkskerfi. Það var gert í byggðalegum tilgangi.

Sem betur fer hefur það kerfi þróast þannig að þar hafa menn líka tækifæri til að hagræða. Við sjáum auðvitað glæsileg dæmi um það þar sem eru öflugir bátar sem geta núna staðið undir hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu allt árið um kring. Það hefur auðvitað skotið nýjum stoðum undir fiskvinnslufyrirtæki víða um landið. Við viðurkennum almennt að hin félagslegu úrræði þurfa auðvitað að vera til staðar í fiskveiðistjórnarkerfinu en við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að ekki er hægt að ganga endalaust fram í þeim efnum. 90% af kvótanum er á landsbyggðinni. Slíkar félagslegar tilfærslur fela þess vegna eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst í sér tilfærslur milli byggðarlaga. Ég held því að við ættum að reyna að horfa á þetta í einhverju samhengi. Reynsla síðustu daga þar sem við höfum tekist á um mjög erfiða hluti sem m.a. birtast í hinni umtöluðu 2. gr., færir að mínu mati okkur heim sanninn um það hversu mikla erfiðleika við erum komin í í þessu máli. Við þurfum að fara að nálgast þetta með öðrum hætti.

Það er út af fyrir sig fagnaðarefni ef það er mat hæstv. ríkisstjórnar að hagræðingin í sjávarútveginum og staða sjávarútvegsins sé þannig að hún beri hærra veiðileyfagjald. Það er út af fyrir sig viðurkenning á því sem þar er að gerast. Hins vegar verð ég að segja að þó við getum reiknað út að sjávarútvegurinn þoli eitthvað hærra veiðigjald mun það koma misjafnt niður. Þeir sem skuldugastir eru þurfa á allri sinni framlegð að halda til að standa undir skuldunum og það eru nú óvart mestan part einyrkjarnir og nýliðarnir í greininni.



[17:41]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni hefur misheyrst. Ég sagði einmitt ekki að ekki hefði verið horft til byggðaþátta í þessum málum. Ég var í raun og veru að rökstyðja hið gagnstæða, að það væri löngu uppgert mál að menn gætu ekki keyrt fiskveiðistjórnarkerfið, hvort sem er nákvæmlega í núverandi mynd eða einhverri annarri, öðruvísi en hafa einhver úrræði tiltæk til að mæta öðrum gildum mikilvægum sjónarmiðum eins og félagslegum og byggðalegum þáttum. Það var það sem ég var að segja og vitnaði til ársins 1991 í þeim efnum. Deila má svo um hversu hönduglega mönnum hefur tekist til. Það er dálítið annað. Það er ekkert draumafyrirkomulag í þessu ef ég mætti ráða.

Ég hefði miklu frekar séð það fyrir mér, sérstaklega vegna minnstu staðanna, að strandveiðar og einhvers konar byggðaheimildir sem betra væri kannski að kalla vinnsluheimildir og útfæra þannig, væru til staðar til að tryggja visst lágmarksöryggi og vissan grunn vegna þess að ég sætti mig svo illa við, og ég held að ég muni aldrei gera það, að það geti gerst endurtekið og aftur að allt í einu sé hlutunum kippt undan heilum byggðum sem hafa byggst upp og þróast og eru það sem þær eru vegna þess að þær lágu vel við fengsælum miðum. Það verður alltaf að vera einhver grunnur, einhverjir möguleikar til að menn geti byggt sig upp aftur á einhverjum lágmarksgrunni. En síðan þurfa þessi kerfi auðvitað að þróast eins og öll önnur og engum dettur í hug að hægt sé að hafa hlutina óumbreytilega um aldur og ævi, við erum ekki að tala um það hér.

Varðandi arðinn eða framlegðina eru aðstæður náttúrlega óvenjuhagstæðar fyrir greinina, því verður ekki á móti mælt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ef ekki væri fyrir skuldirnar væri greiðslugeta útvegsins núna gríðarleg, bæði miðað við gengisstig og afurðaverð, framlegðin gríðarleg og eðlilegt að þjóðin fengi hluta af því í auðlindarentu.



[17:43]
Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sjávarútvegurinn er skuldugur en skuldirnar eru þó mun minni heldur en menn hafa haldið fram. Nettóskuldir sjávarútvegsins eru á bilinu 400–450 milljarðar kr. sem er óravegu frá því sem menn voru að segja. Það sem ríkisstjórnin er í raun að segja núna er að sjávarútvegurinn stendur undir þessum skuldum og getur þess vegna lagt meira af mörkum í ríkissjóð.

Af hverju stafa þessar skuldir? Það er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í þeim efnum. Sjávarútvegurinn hefur nefnilega sjálfur staðið undir hagræðingunni. Þessu er öfugt farið í flestum öðrum löndum. Nægir t.d. að nefna lönd Evrópusambandsins. Innan Evrópusambandsins er hellt milljarðahundruðum í að minnka flotann og draga úr afkastagetu hans. Við höfum farið aðra leið. Við höfum sagt: Sjávarútvegurinn veskú á að standa undir þessu. Hann á sjálfur að borga fyrir sína hagræðingu og standa síðan undir þeim skuldum sem af því hljótast. Við getum auðvitað ekki í einu orðinu sagt: Sjávarútvegurinn er svo skuldugur af því að hann fór út í að kaupa aðra menn út úr greininni og segja síðan eitthvað annað um það. Þetta er staðreyndin. Sjávarútvegurinn tók á sig skuldbindingar sem leiddu til hagræðingar í greininni og með þeim árangri sem við sjáum.

Hæstv. ráðherra nefndi strandveiðarnar. Við skulum ekki taka mikla umræðu um það en strandveiðar eru stundum réttlættar í þingsal vegna þess að þær séu svo sérstaklega góðar fyrir Vestfirði. Þá verð ég enn og einu sinni úr þessum ræðustóli að minna á það að strandveiðar standa fjóra mánuði á ári. Svo vel hefur tekist til hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann hefur tekið pólitíska ákvörðun um að úthluta aflaheimildum til framtíðar þannig að bátar sem m.a. róa frá Vestfjörðum mega róa 5 daga á ári í mánuði hverjum. Þetta eru öll ósköpin á meðan önnur svæði hafa aðra möguleika. Mér hefur því fundist dálítið ósanngjarnt að reyna að réttlæta strandveiðarnar með sérstakri skírskotun til Vestfjarða.



[17:45]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af hvaða ástæðum sem skuldir sjávarútvegsins eru miklar eða hvort sem þær eru mjög miklar eða ekki eins miklar eins og hv. þingmaður segir þá eru þær staðreynd, það er alveg ljóst. Enginn horfir fram hjá þeim. Til viðbótar þeim þarf að sjálfsögðu að hafa að leiðarljósi fullgild sanngirnis- og meðalhófssjónarmið þegar breytingar eru innleiddar. Ekki er verið að tala um annað en að gera það með eðlilegu tilliti til þess sem gerst hefur á lögmætum grundvelli í greininni árin á undan. Þannig hlýtur það alltaf að þurfa að vera. Spurningin er bara hvar mörkin liggja. [Kliður í þingsal.]

Varðandi strandveiðar vil ég segja eitt, frú forseti, af því að mér er málið pínulítið skylt. Í mínum huga er mjög mikilvægt að menn tali um þær eins og þær eru og eiga að verða. Þær eru bara staðganga þess sem var og gerði staðina að því sem þeir voru á árum og áratugum áður þær snúast um að hægt sé að stunda sjó yfir vor-, sumar- og haustmánuðina á litlum bátum á miðunum næst ströndinni. Það væru að mínu mati mikil mistök ef talað væri um þær sem nokkurt annað. Þær eiga að vera afmarkað lokalag neðst í greininni sem snýst bara um þetta. Það var a.m.k. mín hugsun þegar ég setti þetta af stað.



[17:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að þræta við hæstv. ráðherra um sjávarútvegsmál. Við munum örugglega hafa tíma til þess síðar.

Við þekkjum öll þá vinnu sem unnin var í svokallaðri sáttanefnd eða nefnd sem skilaði tillögum um breytingar á sjávarútvegskerfinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti fallist á það með mér að það sé mikilvægt að við þá vinnu sem fram undan er verði sett af stað ferli þar sem leitast verði við að sem flestir komi að málum og reynt verði að skapa sem víðtækastan stuðning á bak við þær tillögur sem þaðan kunna að koma.



[17:48]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frumvörpin og stóra frumvarpið sem nú er til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd byggist að sjálfsögðu á grunninum sem lagður var með störfum stóru nefndarinnar eða sáttanefndarinnar. Það er sú meginniðurstaða sem þar teiknaðist upp að horfa til þess möguleika að ganga frá málinu í formi nýtingarsamninga til afmarkaðs tíma og búa um hliðarráðstafanir kerfisins í pottum. Þetta er grundvallarnálgunin sem frumvarpið byggist á og ég tel að ekki þurfi að endurtaka þá vinnu. Þess tel ég ekki að þurfi.

Þetta er orðið viðfangsefni sem snýr að útfærslunni og það eru þrjú til fjögur stór lykilatriði sem hafa þar mest áhrif á. Það eru hlutir eins og lengd og endurnýjunarákvæði nýtingarsamninganna, það eru hlutföll milli samningshlutans og potta, það er upphæð veiðigjalds. Þessir þættir spila augljóslega saman því að allir hafa þeir tiltekin áhrif, rekstrarleg eða afkomuleg áhrif, eða varða starfsgrundvöllinn er greinin mun byggja á. Það þarf því að vega og meta allt saman og það er heildarútkoman sem ræður för.

Frumvarpið er hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og verður þar í sumar og fram á haust og fer út til umsagnar ef ég veit rétt. Úr þeim má þá vinna. Það held ég að sé augljóst næsta skref í þessu máli og þá eiga allir flokkar sjálfkrafa aðild að því í gegnum nefndina.



[17:49]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski vandinn við þau frumvörp sem við ræðum hér, og þessa umræðu alla, að mörg okkar telja að ekki sé verið að fara eftir þeim megintillögum sem lagðar voru til í sáttanefndinni svokölluðu. Það er hægt að fullyrða að ramminn utan um sé hugsaður á svipaðan hátt en innihaldið byggist að litlu leyti á þeim tillögum, að mati þess sem hér stendur.

Ég er ekki að leggja til að sáttanefndin verði sett af stað aftur, ég er alls ekki að leggja slíkt til. Það er hins vegar mjög mikilvægt, ég hef reyndar saknað þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki taka af skarið með það, að það komist á hreint hvort ríkisstjórninni eða hæstv. fjármálaráðherra hugnist samráð og samstarf um að finna varanlega lausn eða varanlegar breytingar sem breyta frumvörpunum og skapa sjávarútvegskerfi sem flestir geta sætt sig við.

Ég verð því miður að segja, frú forseti, að ég gat ekki skynjað það af andsvari hæstv. ráðherra að það væri tónninn sem ætti að gefa. Mér finnst það sorglegt ef svo er.



[17:51]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það lá ekkert í mínu máli sem gefur hv. þingmanni tilefni til að álykta sem svo að ég hafi verið að hafna samstarfi eða samstöðu eða slíkri vinnu í þessum efnum. Að sjálfsögðu held ég að allir sanngjarnir menn hljóti að fagna því ef mönnum tækist að verða sem mest samferða í þessu. Eins og ég segi og legg áherslu á er það sem eftir er í mínum huga miklu meira útfærsluatriði en grundvallarstefnumótunin sjálf af því að því verður ekki á móti mælt að það er byggt á þeirri línu sem varð út úr sáttastarfinu, að menn hættu rifrildinu um eignarhald og gengju út frá því að um aðgang að sameiginlegri auðlind væri að ræða og þann aðgang fengju menn þá eftir atvikum í gegnum nýtingarsamninga, afnotasamninga til afmarkaðs tíma og greiddu eðlilegt gjald fyrir.

Hvert er þá viðfangsefnið, til dæmis í því tilviki? Það er að átta sig á því til hve langs tíma þeir samningar eiga að vera eða þurfa að vera og hvernig búa eigi um eftir atvikum framlengingarákvæði en það verður örugglega torsótt að ná sáttum við alla um slíkt. Eftir því sem ég man best voru hugmyndir manna, til dæmis um lengd nýtingarsamninganna, einhvers staðar á bilinu frá 5 árum upp í 65 ár, var það ekki? Þá þarf að finna út úr því hvar, væntanlega þarna á milli, hinn gullni meðalvegur liggur. Hvað er sanngjarnt og/eða vel undirbyggt þegar það er greint hvað þarf til, hvað þarf að vera mikil festa eða mikið öryggi í þessu til að greinin hafi nægjanlega traust starfsskilyrði, geti horft það langt fram í tímann að það sé grundvöllur fjárfestinga og annað í þeim dúr. Það er útfærsluatriði sem að lokum verður að setja niður og væntanlega á hinu háa Alþingi. Það er ekki eitthvað sem þú semur um og nærð fram samstöðu um við alla þegar svo langt bil er á milli hugmynda eins og raun ber vitni.