139. löggjafarþing — 159. fundur
 7. september 2011.
fullnusta refsinga, 2. umræða.
stjfrv., 727. mál (rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta). — Þskj. 1251, nál. 1649, brtt. 1650.

[22:01]
Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um fullnustu refsinga.

Það nýmæli er í þessu frumvarpi að með því er Fangelsismálastofnun gefin heimild til þess að leyfa fanga að ljúka afplánun hluta refsingar utan fangelsis, þ.e. 12 mánaða óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu eða lengri, enda hafi hann á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að úrræðið er ætlað til þess að aðlaga fanga að samfélaginu á ný eftir dvöl í fangelsi og er því ekki talin þörf á að það eigi við um dómþola með skemmri refsingu en í 12 mánuði. Þeir sem uppfylla skilyrði þess að dveljast á áfangaheimili Verndar og afplána refsingu undir rafrænu eftirliti í kjölfarið geta því farið þangað allt að átta mánuðum fyrr en áður. Þannig getur sá er situr í fangelsi í 12 mánuði farið 30 dögum fyrr á Vernd og 30 dögum fyrr út úr fangelsi en áður og er þá undir rafrænu eftirliti í 30 daga við lok afplánunar en fer síðan á reynslulausn.

Nefndin fékk athugasemdir um að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um að afplánun undir rafrænu eftirliti gæti verið 30 dagar hið minnsta eins og fram kemur í skýringum. Nefndin telur rétt að taka fram að ekki er ætlunin að fram fari eitthvert mat á þessum tíma því að þegar um 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu er að ræða á afplánun undir rafrænu eftirliti að vera 30 dagar. Nefndin leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að þetta verði skýrt tekið fram.

Ég ætla ekki að fara mjög náið yfir helstu atriði þessa máls. Ég vil bara geta þess að verið er að boða þá nýjung að fangar geti afplánað hluta refsingar sinnar eins og áður með samfélagsþjónustu en líka með rafrænum búnaði.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki þyki rétt að ákveða fyrir fram hvernig búnaður verður notaður en að um geti verið að ræða rafrænan búnað, ökklaband eða annan viðlíka búnað sem fullnægir skilyrðum ákvæðisins, t.d. farsíma sem búinn er myndavél og staðsetningartæki. Samkvæmt frumvarpinu er það lagt í hendur Fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvers konar búnaður kemur til greina og mæla fyrir um eftirlitið að öðru leyti. Annars staðar á Norðurlöndum er algengast að notast sé við svokölluð ökklabönd en slíkt eftirlit er mjög kostnaðarsamt þar sem tækjabúnaðurinn er mjög dýr og stofnkostnaður því hár. Þá kemur einnig fram í greinargerð það mat fangelsisyfirvalda að í ljósi smæðar samfélagsins og reynslunnar af þeim föngum sem dvelja á Vernd sé unnt að hafa eftirlitið einfaldara hér á landi. Lagt er til að þeir sem fá að nýta úrræðið verði með farsíma með innbyggðum staðsetningarbúnaði og myndavél sem taki lifandi myndir af viðmælanda og sendi til þeirra sem sjá um eftirlitið.

Ég vil fjalla örlítið um þá heimild Fangelsismálastofnunar sem felur í sér að hluti af ólaunuðu samfélagsþjónustunni geti falist í viðtalsmeðferð eða viðurkenndu námskeiði, enda nemi sá hluti aldrei meira en einum fimmta samfélagsþjónustunnar að jafnaði. Í nefndinni kom fram að þessi námskeið þurfi að vera uppbyggjandi fyrir fanga og t.d. til þess fallin að aðstoða við vandamál tengd geðrænum erfiðleikum. Nefndin telur eðlilegt að miðað sé við það að verið sé að vinna að betrun fanga með þessu og undirbúa þátttöku þeirra í samfélaginu og að áhersla verði lögð á að aðstoða fanga við að vinna úr persónulegum vandamálum, t.d. andlegum erfiðleikum, eða aðstoða þá við að leysa úr áfengis- eða fíkniefnavanda.

Nefndin fékk upplýsingar um að annars staðar á Norðurlöndum væri verið að skoða að setja þak á þær sektarfjárhæðir sem unnt er að afplána með samfélagsþjónustu og telur nefndin eðlilegt að það verði skoðað enda óeðlilegt að unnt sé að afplána með ólaunaðri samfélagsþjónustu í tiltölulega stuttan tíma tugmilljóna sektarkröfur.

Ég staldra við þetta vegna þess að ég tel það afar mikilvægt og kannski sérstaklega sú áhersla sem lögð er á betrun fangelsisvistarinnar. Sérstaklega er tiltekið að ef fangar eða brotamenn eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða geti hluti af refsingunni verið tekinn út í meðferð við slíku. Ég held að það sé mjög jákvætt. Ég held reyndar líka að hugmyndafræðin á bak við þá breytingu sem hér er boðuð í heild sé mjög jákvæð vegna þess að við erum að stíga skref í þá átt að leggja aukna áherslu á að skila föngum sem betri manneskjum út í samfélagið aftur. Ég held að allir hljóti að geta verið sammála um að til lengri tíma litið sé það mjög jákvætt, ekki bara vegna hamingju þeirra einstaklinga sem þar um ræðir heldur líka vegna þess að það minnkar líkurnar á því að þeir fremji brot að nýju og valdi þar með samfélaginu skaða og kostnaði sem hlýst af fangelsisvist.

Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að huga að í auknum mæli, sérstaklega þegar um er að ræða mjög unga einstaklinga sem brjóta af sér í fyrsta sinn. Við heyrum reglulega fréttir af ungu fólki sem hefur í dómgreindarleysi og í mjög mörgum tilfellum langt leitt af fíkniefnaneyslu tekið að sér að gerast burðardýr fyrir harðsvíraða glæpamenn sem passa sig á því að vera í bakgrunninum þegar um slíkt framferði er að ræða. Ungmennin eru síðan vistuð í sjö eða átta ár í fangelsi. Ég held að það sé skelfilegt. Ég get ekki ímyndað mér að 18, 19, 20 ára gömul ungmenni bíði þess nokkurn tíma bætur að vera lokuð inni í svo langan tíma. Ég tel miklu eðlilegra að leita annarra leiða, reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir þessara ungmenna og endurhæfa þau, t.d. með meðferðarúrræðum sem fælu í sér að þeim yrði gert kleift að leita sér menntunar og vera þátttakendur í samfélaginu en þyrftu kannski að sæta einhvers konar eftirliti eða vikulegum prófum þar sem neysla væri athuguð. Ef þau héldu sig á beinu brautinni væri hægt að hafa þau úti í samfélaginu og reyna eftir fremsta megni að gera þau að þátttakendum.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Ég legg einfaldlega áherslu á það sem ég hef áður sagt, að um er að ræða framfaraskref. Verið er að rýmka reglur um fullnustu dóma utan fangelsa, lögfesta nýtt fullnustuúrræði, þ.e. rafrænt eftirlit með dómþolum sem afplána óskilorðsbundna refsingu, og hækka þá hámarksrefsingu sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu.

Undir það nefndarálit sem ég mæli fyrir rituðu auk undirritaðs hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari og Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara öll, en jafnframt hv. þm. Mörður Árnason.



[22:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall, framsögumanni allsherjarnefndar í þessu máli, fyrir ágæta yfirferð.

Ég ætlaði ekkert að tefja þetta mál, það er orðið ansi framorðið. Mér finnst málið vera mikið til bóta. Þetta er mannúðlegt mál og nálgast kannski það sem við viljum hafa fangelsin, eða sum okkar, sem betrunarhús, þ.e. að menn komi betri út en þeir fóru inn. En það sem gleymist í þessu og hefur ekki verið nefnt eru ættingjarnir. Ættingjar sakamanns hafa yfirleitt ekkert til saka unnið en eru dæmdir og líða fyrir það, stundum eiginlega meira en hinn sakfelldi sem hverfur inn í fangelsið og er laus við slíkt umhverfi. Ættingjarnir; konur, börn, eiginmenn o.s.frv., líða fyrir. Það hefur ekkert verið rætt um það en þetta úrræði gagnast þeim hvað mest að mér sýnist.

Ég er með eina spurningu: Hvað telur hv. þingmaður að þetta geti haft áhrif á marga fanga? Hins vegar er mjög langur biðlisti eftir því að komast í fangelsi og það getur verið allt að því harmleikur þegar maður er búinn að vinna sig upp og sýna góða hegðun í þrjú eða fjögur ár kannski að þá skuli hann allt í einu settur í fangelsi. Það ferli getur jafnvel eyðilagt allan bata. Býst hv. þingmaður við að þetta stytti þennan biðtíma sem er ekki beint æskilegur?



[22:12]
Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á, að auðvitað auðveldar þetta í mjög mörgum tilfellum föngum að vera í nánari samskiptum við sína nánustu og það er gríðarlega mikilvægt í því skyni að hafa afplánun manneskjulegri ef svo má að orði komast.

Ég er ekki með tölur um það hversu mörgum þetta mun gagnast eins og staðan er. Við fjölluðum eitthvað um fjölda fanga þegar við tókum þetta fyrir og úr nefnd. Ég get aflað upplýsinga um það með skjótum hætti. Við tókum þetta úr nefnd í vor þannig að ég er ekki með það í kollinum. En það er alveg ljóst að það hafa verið langir biðlistar eftir því að geta hafið afplánun og mjög margir eru eiginlega með líf sitt í óþægilegri biðstöðu og geta ekki gert neinar ráðstafanir vegna þess að þeir bíða þess að hefja afplánun sem þeir vita ekki nákvæmlega hvenær getur hafist. Hér er vissulega verið að fjölga þeim úrræðum sem Fangelsismálastofnun hefur yfir að ráða og óneitanlega stytta biðtímann og er það vel.



[22:14]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess að ég er einn þeirra þingmanna sem rita undir það nefndarálit sem hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, hefur að mestu leyti gert grein fyrir. Ég undirritaði álitið með fyrirvara og mig langaði að nota tækifærið í þessari ræðu til að víkja að þeim þáttum sem ég var hugsi yfir við meðferð þessa máls.

Það liggur í hlutarins eðli að þingmaður sem undirritar nefndarálit er almennt jákvæður gagnvart efni frumvarpsins. Þó vil ég nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli í tengslum við þetta frumvarp um breyting á lögum um fullnustu refsinga og snýr fyrst og fremst að rafrænu eftirliti annars vegar og hins vegar að samfélagsþjónustu.

Í nefndarálitinu segir að með frumvarpinu sé lagt til að reglur um fullnustu dóma utan fangelsa verði rýmkaðar. Þar er í fyrsta lagi lagt til að lögfest verði nýtt fullnustuúrræði, rafrænt eftirlit, með dómþolum sem afplána óskilorðsbundna refsingu, og í öðru lagi að hækkuð verði sú hámarksrefsing sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er ánægður með að verið sé að fella inn í lög um fullnustu refsinga þetta nýja fullnustuúrræði sem snýr að rafrænu eftirliti. Ég tel að það sé góð viðbót við þau úrræði sem fyrir eru í lögum. Ágætlega er gert grein fyrir þessu úrræði í nefndarálitinu, það er að segja því sem snýr að rafræna eftirlitinu.

Í nefndarstarfinu var nokkuð fjallað um þann búnað sem hægt væri að nota við rafrænt eftirlit. Í greinargerð með frumvarpinu, eins og segir í nefndaráliti, kemur fram að ekki þyki rétt að ákveða fyrir fram hvernig búnaður verði notaður en að um geti verið að ræða rafrænan búnað, ökklaband eða annan viðlíka búnað sem fullnægi skilyrðum ákvæðisins, t.d. farsíma sem búinn er myndavél og staðsetningartæki. Samkvæmt frumvarpinu er það lagt í hendur Fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvers konar búnaður kemur til greina og mæla fyrir um eftirlitið að öðru leyti.

Þá segir að á Norðurlöndunum sé algengast að notast sé við ökklaband en slíkt eftirlit sé mjög kostnaðarsamt þar sem tækjabúnaðurinn er mjög dýr og stofnkostnaðurinn því hár. Þá kemur einnig fram í greinargerð það mat fangelsisyfirvalda að í ljósi smæðar samfélagsins og reynslunnar af þeim föngum sem dvelja á Vernd sé unnt að hafa eftirlitið einfaldara hér á landi. Lagt er að til að þeir sem fá að nýta úrræðið verði með farsíma með innbyggðum staðsetningarbúnaði og myndavél sem taki lifandi myndir af viðmælanda og sendi til þeirra sem sjá um eftirlitið.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hef ég verið talsmaður þess að tekið sé upp rafrænt eftirlit í stað annarra úrræða. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það snúi ekki eingöngu að þeim sem hafa hlotið dóma fyrir refsivert athæfi, þeim sem hafa hlotið óskilorðsbundna dóma, heldur hef ég talið að skynsamlegt væri að beita einnig rafrænu eftirliti á fyrri stigum máls, sem eins konar millibili milli gæsluvarðhalds og farbanns. Farbannsúrræðið er ágætt sem slíkt en að mínu mati væri það í mörgum tilfellum árangursríkara að láta menn sæta rafrænu eftirliti við rannsókn mála til að koma í veg fyrir að þeir flýi land áður en mál þeirra kemur til efnislegrar umfjöllunar fyrir dómstólum.

Efasemdir mínar hvað þennan þátt málsins varðar sneru að búnaðinum. Ég játa að ég er enginn sérfræðingur á því sviði. Ökklaböndin hafa reynst vel, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum, eins og komið hefur fram í þeim skýrslum sem liggja fyrir og getið er um í nefndarálitinu. Ég þekki bara ekki nákvæmlega hver framkvæmdin hefur verið á því að láta við það sitja að dæmdur maður gangi um með farsíma og geri grein fyrir sér með myndatökum af sjálfum sér. Í þessum heimi er það þannig að þeir sem eru á Vernd eru viðkvæmir fyrir. Ef þeir fara út af þeirri línu sem þeim er ætlað að vera á fara þeir oft í félagsskap þar sem eru einstaklingar sem tilbúnir eru að taka að sér viðvik fyrir lítið sem gæti þá gagnast viðkomandi. En í nefndinni var upplýst um að þessi búnaður ætti að vera nægjanlegur til að tryggja að sá árangur sem að er stefnt með frumvarpinu næðist.

Fyrirvari minn lýtur að því að ég hef ekki þekkingu til að meta hvort sú tæknilega útfærsla sem kemur fram í frumvarpinu sé sú heppilegasta. En ég er þó í grundvallaratriðum fylgjandi því að þetta úrræði verði fellt inn í lögin.

Hitt atriðið, sem ég vildi nefna í ræðu minni og umfjöllun um þetta mál, snýr að samfélagsþjónustu. Í nefndarálitinu, á bls. 4, segir að nefndin hafi einnig fjallað um þá tillögu sem frumvarpið felur í sér, um rýmkun heimilda til að afplána refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Samkvæmt frumvarpinu verði lagt til, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta allt að tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi með ólaunaðri samfélagsþjónustu í minnst 40 klst. og mest 480 klst. Í gildandi lögum er úrræðið miðað við sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi þannig að um verulega rýmkun er að ræða.

Fram komu athugasemdir við meðferð málsins frá Dómarafélagi Íslands varðandi þessa breytingu, um að það sé hlutverk dómstóla að skera endanlega úr um réttindi og skyldur í einkarétti svo og um refsiverða háttsemi og ákvarða viðurlög við brotum. Dómarafélagið bendir á að samfélagsþjónusta er þekkt viðurlagategund víða um heim. Við setningu laga um samfélagsþjónustu á Íslandi, nr. 55/1994, hafi verið litið til og að nokkru leyti byggt á reynslu þeirra Norðurlanda sem tekið höfðu úrræðið upp. Lögin séu þó frábrugðin lögum nágrannaríkjanna að því leyti að ákvörðun um samfélagsþjónustu er hér í höndum framkvæmdarvaldsins en ekki dómsvaldsins, það er að segja Fangelsismálastofnunar. Dómstólar á Íslandi geta því ekki dæmt einstakling til samfélagsþjónustu heldur er það stofnun á vegum stjórnvalda, Fangelsismálastofnun, sem fer með þetta úrræði. Þannig er framkvæmdarvaldinu heimilt að taka upp refsiákvarðanir dómstóla og ákveða einstaklingum önnur viðurlög en dómstólar hafa gert.

Dómarafélagið bendir á að ákvörðun um samfélagsþjónustu sé í eðli sínu dómsathöfn og að skilgreina beri hana sem tegund refsingar. Félagið tekur fram að reynslan af samfélagsþjónustu hér á landi sé almennt talin góð og ekki verði annað séð en að Fangelsismálastofnun hafi farist vel úr hendi að sjá um framkvæmd mála. Félagið telur þó að það breyti því ekki að efasemdir hafi komið fram um að núverandi fyrirkomulag standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð og þá staðreynd að ákvörðun um refsingu sé í eðli sínu dómsathöfn en ekki athöfn framkvæmdarvaldsins.

Það kemur fram í nefndarálitinu að meiri hluti nefndarinnar taki þessar athugasemdir, og reyndar fleiri athugasemdir Dómarafélagsins, alvarlega og það tel ég að sé mikilsvert. Í nefndarálitinu segir að nefndin telji nauðsynlegt að skoða hvort rétt sé að gera breytingar á lögum hvað þetta atriði varðar og raunar fleiri.

Í breytingartillögum er reyndar mælt fyrir því að í stað þess að miða við tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi sé viðmiðið fært niður í níu mánuði og ég tel að það sé skynsamleg breyting. En ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt í fyllingu tímans, eftir að þetta frumvarp, svo breytt, hefur verið samþykkt og reynsla er komin á framkvæmdina, að menn setjist yfir það hvort ástæða sé til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Færa má rök fyrir því að það sé eðlilegt að Fangelsismálastofnun taki ákvarðanir eins og þær sem hér um ræðir, meðal annars vegna þess að starfsmenn Fangelsismálastofnunar eru í geysilega góðu sambandi við þá aðila sem hér um ræðir, þekkja hagi þeirra og hvar þeir eru staddir í lífinu á hverjum tíma, á meðan dómararnir sjálfir eru það ekki endilega. Fyrirvari minn við nefndarálitið laut að öðru leyti að þessu atriði.

Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég tel að í grunninn sé það ljómandi fínt en tel ástæðu til að gera grein fyrir þessum tveimur fyrirvörum.



[22:26]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þeir fyrirvarar sem ég gerði við frumvarpið eru í öllum atriðum samhljóða þeim sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, gerði grein fyrir og þarf ég ekki að fjalla nánar um þau atriði. Ég vildi þó segja, eins og hv. þingmaður, að ég held að þær breytingar sem eru í frumvarpinu séu til bóta. Ég held að það sé eðlilegt, þegar við veltum fyrir okkur fullnustu refsinga, að við skoðum og reynum nýjar leiðir eins og hið svokallaða rafræna eftirlit um leið og við stígum ákveðið skref í að víkka út skilyrði samfélagsþjónustu, sem ég tel að góð reynsla sé af.

Að sönnu er ekki gengið jafnlangt, miðað við breytingartillögur nefndarinnar, og gert var í upphaflegu frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra. Það er með öðrum orðum samhljóða niðurstaða nefndarinnar að stíga varfærnara skref en hæstv. innanríkisráðherra lagði til í upphafi. En þetta úrræði og útfærsla þess hlýtur áfram að vera til skoðunar. Ég styð það skref sem hér er stigið með þeirri breytingu sem hv. allsherjarnefnd hefur komist að en tel að við þurfum jafnframt að huga að fyrirkomulagi þessara mála.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði grein fyrir þeim mismunandi sjónarmiðum sem snúa að ákvörðun um samfélagsþjónustu, hvort hún eigi að liggja hjá stofnun framkvæmdarvaldsins, þ.e. hjá Fangelsismálastofnun, eða hjá dómstólum. Eins og hann rakti má færa rök fyrir hvoru tveggja. Nefndin er á þessu stigi ekki tilbúin að fara í róttæka breytingu á þessu þó að tillögur hafi komið fram um það frá umsagnaraðilum. Hins vegar held ég að mikilvægt sé að sú umræða fari fram áfram. Það eru ákveðin lögfræðileg rök sem hníga að þeirri leið sem Dómarafélagið leggur meðal annars til, þ.e. að ákvörðun um samfélagsþjónustu verði tekin af dómstólum en ekki af stofnun framkvæmdarvaldsins. Á móti koma hagkvæmnisrök og ákveðin reynslurök sem tengjast því að hafa óbreytt fyrirkomulag. Það er því ekki verið að gera róttækar breytingar í þessum efnum en ég tek fram að ég er tilbúinn í áframhaldandi umræður um þetta sem hugsanlega geta leitt til breytinga þegar fram líða stundir.

Fullnusta refsinga er viðkvæmur málaflokkur eins og bæði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og formaður hv. allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, hafa gert grein fyrir. Það er mikilvægt að við höfum fjölbreytt úrræði sem geta nýst einstaklingum sem búa við mjög mismunandi aðstæður. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er skref í áttina að því að auka möguleikana í því sambandi og er þar af leiðandi jákvætt.

Þó að það tengist ekki efni þessa frumvarps með beinum hætti vil ég ekki láta hjá líða að nefna að þrátt fyrir að frumvarpið nái fram að ganga, og muni væntanlega nýtast einhverjum hópi sem hlotið hefur, eða á eftir að hljóta, refsingu fyrir dómstólum, þá breytir það ekki því að ástand fangelsismála hér á landi er ekki nægilega gott. Við því þarf að bregðast og ég er þeirrar skoðunar að bregðast þurfi hratt við. Þar er ég að vísa til þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr er óhjákvæmilegt að fjölga fangelsisrýmum í landinu. Við þurfum að fjölga bæði gæsluvarðhaldsrýmum og eins vistunarrýmum til lengri tíma. Það er afar mikilvægt að þingmenn séu meðvitaðir um að hjá því verður ekki komist. Þá ætla ég ekki að svo stöddu að blanda mér í deilur um það hvar nýtt fangelsi á að rísa eða hvernig standa eigi að þeirri framkvæmd að öðru leyti. Ég vildi árétta það sjónarmið að því miður er staðan sú að þörf er á fjölgun fangelsisrýma og við því þurfum við að bregðast. Það er staðreynd sem er ekki ánægjuleg á neinn hátt en undan því verður, að mínu mati, ekki vikist.