139. löggjafarþing — 160. fundur
 8. september 2011.
um fundarstjórn.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:32]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hvorugur forustumaður ríkisstjórnarinnar er við fyrirspurnatíma í dag. Ég geri alvarlega athugasemd við það að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki verið við fyrirspurnatíma í þessari viku, ekki á mánudaginn og ekki heldur núna. (Gripið fram í: Ekki um …) Hæstv. forsætisráðherra hefur sem sagt ekki svarað fyrirspurnum þingmanna á þessu haustþingi, hefur einungis komið hingað einu sinni til að ræða skýrslu um efnahagsmál og það er veruleg ástæða til að taka upp einstaka þætti sem hún hélt fram í þeirri skýrslu og spyrja hana sérstaklega um þá.

Ég bið virðulegan forseta að koma því á framfæri við hæstv. forsætisráðherra að hún komi til þings og svari brýnum spurningum þingmanna án tafar. Það er algjörlega óþolandi að hæstv. forsætisráðherra hunsi ítrekað þingið í fyrirspurnatíma eins og við sáum svo oft síðasta vetur. Ef þetta er það sem koma skal í vetur er ekki von á góðu.



[10:33]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti getur upplýst hv. þingmann og þingheim um að í það minnsta í dag og í gær hefur hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sinnt þeim opinberu störfum að taka á móti erlendum gestum.



[10:33]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir þær upplýsingar að hæstv. forsætisráðherra skuli sjá sér fært að hitta erlenda gesti. Það hefur ekki alltaf gengið jafn vel að koma slíkum fundum á. Ég þakka líka þeim hæstv. ráðherrum sem sjá sér fært að vera við þessa fyrirspurnatíma en þegar ég lít á tómt sæti hæstv. forsætisráðherra dettur mér stundum í hug bókin Hvar er Valli? sem þingmenn muna væntanlega eftir. Það er barnabók þar sem maður átti að finna týndan karl [Hlátur í þingsal.] og það gekk misvel.

Ég spyr: Hvar er Jóhanna? Af hverju kemur ekki Jóhanna til að svara spurningum þingmanna? Fyrirgefðu, frú forseti, ég á að segja: Hæstv. forsætisráðherra. Hvar er hæstv. forsætisráðherra þegar við þurfum að ræða við hana?

Ég mæli eindregið með því að í næstu viku verði gefinn góður tími til umræðna við hæstv. forsætisráðherra. Þrátt fyrir að hafa ýmsum skyldustörfum að gegna hefur hæstv. ráðherra líka skyldur gagnvart þinginu og þingmönnum. Hæstv. ráðherra ber að virða þær.



[10:34]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Mér er eiginlega óskiljanleg þessi mikla óþreyja í hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar þar sem þetta er annar dagur á þessu stutta þingi þar sem eru óundirbúnar fyrirspurnir. Við höfum tvo daga til viðbótar í næstu viku til að fara í þennan dagskrárlið, óundirbúnar fyrirspurnir, og það er ekki fyrirséð hvaða ráðherrar verða þá til svara.

Ráðherrum er skipt á ráðherrabekki í óundirbúnum fyrirspurnum eftir því sem þeir geta verið við. Þeir sem ekki eru hér hafa gilda ástæðu fyrir því og svo hefur alltaf verið. Þessi verkaskipting hefur viðgengist í mörg ár og er engin nýlunda að ráðherrar séu ekki allir til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ég bið hv. þingmenn (Forseti hringir.) að bíða rólegir til næstu viku.



[10:35]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það gleður mig sérstaklega að það fyrsta sem þingmenn stjórnarandstöðunnar gera á hverjum morgni sé að aðgæta hvort Jóhanna Sigurðardóttir, sennilega iðnasti þingmaður sem nokkurn tíma hefur setið á Alþingi Íslendinga, [Kliður í þingsal.] sé mætt á svæðið. Eins og ég segi vekur það mér sérstaka gleði að hv. þingmenn skuli vera svona uppteknir af að líta sérstaklega eftir því hvort þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna séu mættir á svæðið.

Ég get fullvissað ykkur um að hæstv. forsætisráðherra er að sinna mjög mikilvægum skyldustörfum en ég mun að sjálfsögðu koma þeim skilaboðum til hennar að hv. þingmenn hafi sérstakan áhuga á að eiga við hana orðastað og geri fastlega ráð fyrir því að hún muni sitja hér og svara spurningum í næstu viku. Þannig mun hin eðlilega verkaskipting milli ráðherra hafa sinn gang.



[10:37]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrirbyggja misskilning og segja að ég held að enginn haldi því fram hér að hæstv. forsætisráðherra sé ekki iðinn þingmaður. Það er ekki það sem haldið var hér fram. Það sem við í stjórnarandstöðunni gerðum athugasemdir við var það sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ólöf Nordal, benti á, að við þingmenn höfum ekki haft tækifæri til þess síðan í júní að eiga beinan orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Það er það sem er óeðlilegt í þessu máli.

Vegna orða hv. þm. Þuríðar Backman um að þetta sé verkaskipting á milli ráðherra og að við eigum ekki að vera með þessa óþreyju vil ég segja að óþreyjan felst ekki síst í því að venjan hefur verið sú að formenn og oddvitar stjórnarflokkanna hafa skipst á að vera hér eftir fremsta megni. Því hefði verið mjög eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sem talaði ekki minnst um skort á verkstjórn í eina tíð (Forseti hringir.) kæmi sjálfur sem verkstjóri og ætti orðastað við þingheim um leið og þing kæmi saman.



[10:38]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að róa hv. varaformann þingflokks Samfylkingarinnar, það er ekki fyrsta verk þingmanna að gá hvort hæstv. forsætisráðherra sé mættur hérna. Hins vegar bregður manni yfirleitt frekar við þegar hæstv. forsætisráðherra sést á ráðherrabekknum.

Það þing sem við erum núna stödd á, þessi hluti af þessu þingi, stendur í hálfan mánuð. Það hefur ekki þótt til mikils mælst af hæstv. forsætisráðherra að ráðherrann sæi sér fært að sitja hér og svara fyrir ýmsa hluti sem eðlilegt er að þingmenn stjórnarandstöðunnar og aðrir þingmenn kynnu að vilja beina til hennar.

Það kann að vera og auðvitað er hæstv. forsætisráðherra að sinna embættisskyldum en það er ekki frambærilegt að vísa til þess að um sé að ræða heimsóknir erlendra sendimanna. Það hefði verið auðvelt að hnika til þeirri dagskrá þannig að hæstv. ráðherra hefði getað verið stödd í þingsalnum í svo sem eins og hálftíma. Það er ekki annað sem verið er að fara fram á. Þetta er virðingarleysi (Forseti hringir.) gagnvart þinginu og þeirri þinglegu skyldu sem hæstv. forsætisráðherra hefur.



[10:40]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert athugavert við það að þingmenn stjórnarandstöðunnar geri athugasemdir við það þegar hæstv. forsætisráðherra mætir ekki í fyrirspurnatíma og svarar spurningum sem þingmenn vilja bera fram við hæstv. forsætisráðherra. Það er sérstaklega eðlilegt í ljósi þess að á síðasta þingi var hæstv. forsætisráðherra býsna oft fjarverandi í þessum fyrirspurnatímum. Það er mjög eðlilegt að gerðar séu athugasemdir við það að hæstv. forsætisráðherra svari ekki spurningum sem snúa að þeirri ríkisstjórn sem hún er í forustu fyrir.

Það er enginn að óska eftir því að allir ráðherrarnir séu viðstaddir fyrirspurnatíma á mánudögum og fimmtudögum. Við óskum bara eftir því að á þessum tímum mæti hæstv. forsætisráðherra og svari spurningum sem við höfum fram að færa. Það er mikið að gerast í þessu landi og mörgum spurningum ósvarað, og ekki bara í atvinnumálum og málefnum heimilanna í landinu. Það ber svo við að forseti Íslands hefur nýverið (Forseti hringir.) skensað ríkisstjórnina og ætla mætti að hæstv. forsætisráðherra hefði einhverja skoðun á ummælum hans.



[10:41]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar það sem forseti tók fram áðan um hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er ekki til svara í dag.



[10:41]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er kominn kunnuglegur mórall í þingsalinn, þessi mórall sem maður finnur stundum í illa öguðum skólastofum á efri stigum grunnskóla einhvers staðar. (GÞÞ: Ekki skamma þá sem eru mættir.)

Það er fráleitt að halda því fram og gefa það í skyn að forsætisráðherra sé með einhverjum hætti að svíkjast undan starfsskyldum sínum með því að vera ekki í salnum. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir segir að henni sé ekki of gott að eiga hér orðastað við þingmenn. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Var ekki fyrsta verk forsætisráðherra þegar þingi var fram haldið eftir hlé að gefa þinginu skýrslu? Ég veit ekki betur en að það hafi verið fyrsta umræðuefnið á þessu háa Alþingi okkar eftir að við komum saman eftir þinghlé. Þó að forsætisráðherra sé ekki komin í þingsalinn í öðrum fyrirspurnatíma á þessum stutta hauststubbi (Forseti hringir.) er það ekkert til að tala um. Menn ættu að nýta tímann betur en að standa í málþófi hér.



[10:42]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég velti svolítið fyrir mér þegar ég heyri þessa umræðu í þinginu hvort flokkarnir sem hér komu upp, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafi ekki áttað sig á því að það eru öðruvísi stjórnarhættir en þegar foringjaræði þessara flokka var og menn máttu aldrei koma í sal öðruvísi en að þeir vissu hvaða boðskap þeir ættu að bera. (Gripið fram í.) Ég er til dæmis búinn að sitja í fyrirspurnatíma eftir fyrirspurnatíma og við ráðherrarnir ræðum oft um að ef hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra eru mættir þurfum við ekkert að vera hér. (Gripið fram í: Æ, æ.) Menn spyrja einfaldlega þá eins og þeir eigi að svara fyrir alla málaflokka. Það er bara ekki þannig. Ég bið ykkur að nýta tækifærið, spyrja þá ráðherra sem hér eru sem fara með 3/4 af þeim málaflokkum sem eru undir ríkinu, jafnvel meira, (Gripið fram í.) og ef það dugir ykkur ekki megið þið líka vita að við höfum síma, við hittum ykkur líka á göngum og erum til viðtals. Það þarf ekki endilega að vera í sýningarglugganum hér sem við ræðum við ykkur, hv. þingmenn. Ég bið ykkur um að nýta samskiptin í þinginu til að koma á framfæri þeim skoðunum sem þið hafið. Við eigum að geta átt venjuleg orðaskipti, við getum gjarnan gert það hér en að vera í þeim leik (Forseti hringir.) að kalla eftir fólki þegar þið vitið að hæstv. forsætisráðherra hefur verið í hverri einustu viku (Forseti hringir.) allt síðasta þing í öðrum hvorum tímanum — (Gripið fram í: Nei.) Jú, það er nánast þannig. (Gripið fram í: Nei.)



[10:44]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar enn og aftur að skýring er á því af hverju hæstv. forsætisráðherra er ekki í salnum.



[10:44]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Sem áður fellur allt í ljúfa löð eftir að gamli skólastjórinn kemur hingað og agar bekkinn sinn. (Gripið fram í: Skólameistarinn.) Skólastjórinn, skólameistarinn. Mig langar samt til að gera athugasemd við orð hæstv. velferðarráðherra. Hann kvartar undan því að við spyrjum hann ekki nóg en þá get ég upplýst ráðherrann um að við höfum rætt það á vettvangi þingflokksformanna að breyta fyrirspurnatímum vegna einmitt þessa og hafa sérstaka fyrirspurnatíma fyrir hæstv. forsætisráðherra. Sá ráðherra ber sannarlega ábyrgð á ríkisstjórninni sem verkstjóri og þess vegna gefst oft ekki tækifæri til að spyrja alla hina um málefni þeirra í skömmtuðum tíma.

Hins vegar hlýt ég að gera athugasemd við það að ráðherra í ríkisstjórn Íslands kalli þennan stól og þennan sal sýningarglugga. Er það umræðustjórnmálahefð Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) að verki sem kallar lýðræðislegt samtal stjórnar og stjórnarandstöðu Alþingi, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, (Forseti hringir.) það að standa í sýningarglugga? Það finnst mér mjög ósmekklegt.



[10:46]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar að verið er að ræða fundarstjórn forseta og beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna og ráðherra að þeir beini orðum sínum til hæstv. forseta.



[10:46]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á orðum hv. þm. Ólínar Þorvarðardóttur mátti skilja að úr því að hæstv. forsætisráðherra hefði komið og flutt þinginu skýrslu væri hún búin að búa sér til eins konar fjarvistarleyfi frá því að sitja fyrir svörum gagnvart þingmönnum í þessari viku. Þetta er mjög athyglisverð nálgun á málið en það er einfaldlega ekki svona. Þessi septemberstubbur stendur í tvær vikur. Nú er fyrri vikunni að ljúka. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki gefið færi á því að sitja fyrir svörum eins og við höfðum gert ráð fyrir. Það var nánast orðin regla að hæstv. forsætisráðherra væri hér að minnsta kosti í öðrum hvorum tíma, þó að hún hafi að vísu ekki alveg virt það.

Hæstv. velferðarráðherra sagði síðan að hægt væri að nota alls konar önnur samskiptaform nútímafjarskiptatækni. Á hæstv. velferðarráðherra þá við að við ættum að fara að senda hæstv. forsætisráðherra SMS? Ég vil þá beina orðum mínum til hæstv. forseta og biðja um að farsímanúmeri hæstv. forsætisráðherra verði dreift til þingmanna þannig að við getum að minnsta kosti sent SMS-spurningar til hæstv. ráðherra.