139. löggjafarþing — 160. fundur
 8. september 2011.
álver í Helguvík.

[11:02]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu marga fundi ég hef setið með hæstv. iðnaðarráðherra eða hversu oft við höfum átt orðastað úr þessum ræðustól um málefni álversins í Helguvík. Það eru orðnir nokkuð margir fundir og nokkuð margar ræður þar sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðfastlega fullyrt að það standi ekkert upp á stjórnvöld varðandi byggingu álvers í Helguvík, þarna sé um að ræða samninga sem varða tvö einkafyrirtæki sem þurfa að ná saman um orkuverð.

Það hafa verið settir á laggirnar samráðshópar að frumkvæði hæstv. ráðherra og ég verð að segja henni til hróss að hún hefur beitt sér með jákvæðum hætti fyrir því að menn ræði saman og komi þessu máli áfram.

Nú er fullyrt í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag, og gögn sögð á bak við það, gögn sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur óskað eftir að þingmenn fái, og tek ég undir þá ósk, að fjármálaráðherra hafi beinlínis haft aðkomu að þessu máli. Í drögum að rammasamkomulagi er gerð krafa um að fyrirtæki eigi að auka fjölbreytni í viðskiptavinahóp sínum, þá væntanlega í því skyni að selja orkuna í önnur verkefni en til álvers í Helguvík sem þó var með fjárfestingarsamning og samning um orkusölu í það verkefni til Norðuráls. Morgunblaðið orðaði það í þessari fyrrnefndu grein svo að þetta hefði beinlínis verið hugsað til höfuðs álverkefni Norðuráls og Century Aluminium.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað henni finnist um þær fullyrðingar sem byggðar eru á umræddum gögnum. Vissi ráðherrann af þessu baktjaldamakki hæstv. fjármálaráðherra eða starfsmanna hans? Telur hæstv. iðnaðarráðherra þetta eðlileg afskipti stjórnvalda og getur hún enn þá fullyrt (Forseti hringir.) að ekkert standi upp á stjórnvöld í þessu verkefni?



[11:04]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar að klukkan er í ólagi þannig að tíminn telur upp en ekki niður.



[11:04]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get fullyrt að það stendur ekkert upp á stjórnvöld í þessu máli. Þarna er vísað til draga að rammasamningi þar sem menn voru að vinna með hugmyndir um þá stöðu sem gæti komið upp og var fyrir opnum tjöldum, var ekki í neinu baktjaldamakki, ef af því yrði að ríkið kæmi inn í sem meðeigandi að þessu fyrirtæki ásamt sveitarfélögum og lífeyrissjóðum. Þetta vita allir sem fylgdust með fjölmiðlaumræðu á þessum tíma að var raunverulega til umræðu. Drögin að rammasamkomulaginu eins og ég þekkti þau fjölluðu um það. Það er ekki óeðlilegt að menn setji fram einhverja framtíðarsýn með hugsanlegum meðeigendum í fyrirtæki inn í lengri framtíð. Framtíðarsýn þarf ekki að vera til höfuðs nútíðinni. Það er aldrei þannig.

Því er líka haldið fram í þessari blaðagrein að það að samið hafi verið af hálfu HS Orku við kísilverið í Helguvík um orkukaup og hvernig barist var fyrir því verkefni sé enn ein sönnun þess að menn hafi ætlað sér að taka orku frá álverinu í Helguvík. Þetta er heldur ekki rétt og það þarf ekki mikla rannsóknarblaðamennsku til að komast að því. Landsvirkjun er aðili að þessum samningi og á vefsíðu fyrirtækisins segir um þetta samkomulag við kísilverið í Helguvík að í samningnum sé gert ráð fyrir því að Landsvirkjun sinni allri raforkuþörf verksmiðjunnar frá 1. janúar 2016. HS Orka er eingöngu komin þarna að til að brúa bil af því að hún á þá orku til reiðu.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að í þessari ágætu samantekt í Morgunblaðinu í dag séu dregnar rangar ályktanir af þessum minnisblöðum sem ég held að enginn skammist sín fyrir að líti dagsins ljós. Ef menn ætla að fara að skoða þessi gögn er ekkert óeðlilegt að þeir skoði samhliða þeim lestri fjölmiðlaumræðuna sem átti sér stað.



[11:06]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi svör. Ég get ekki ráðið annað en að hún sé bara tiltölulega sátt við aðkomu hæstv. fjármálaráðherra að þessu.

Ef hvatt er til orkusölu í annað verkefni en það sem fyrir liggur og er búið að gera samning um, m.a. af hæstv. iðnaðarráðherra, fer sú orka ekki til þess verkefnis sem búið er að gera samning um. Það liggur klárt fyrir og það er vísað til fjölmiðlaumræðu en umræðan í fjölmiðlum snerist á sama tíma öll um það af hálfu flokks hæstv. fjármálaráðherra að reyna að draga úr því að til væri næg orka á Reykjanesi og koma í veg fyrir það með öðrum hætti að hún yrði rannsökuð til hlítar.

Á meðan orkan er seld eitthvað annað fer hún sem sagt ekki í þetta verkefni. Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Fyrst þetta er að áliti ráðherrans ekki óeðlileg stjórnsýsla, mun hún þá beita sér fyrir því að orka komi annars staðar að til álvers í Helguvík? Mun hæstv. iðnaðarráðherra beita sér fyrir því að Landsvirkjun komi þar inn í? Við erum með rammaáætlun þar sem neðri hluti Þjórsár er samþykktur í nýtingarflokk. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að sú orka komi í álver í Helguvík?



[11:08]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur leggur hv. þingmaður út af röngum ályktunum sem dregnar eru af þessum minnisblöðum. Það sem þetta snerist um var að menn tóku mjög alvarlega þá skoðun hvort hægt væri að ná saman hópi opinberra og innlendra aðila, eins og lífeyrissjóða sveitarfélaga og ríkis, til að tryggja að þetta fyrirtæki færi ekki í meirihlutaeigu erlendra aðila. Það vita allir hvernig það endaði. Það var ekki grundvöllur fyrir því og þess vegna féllu um sjálf sig drögin að rammasamkomulaginu sem hv. þingmaður gerir hér svo hátt undir höfði. Þau voru ekki til neinnar annarrar umræðu en í tengslum við þá vinnu.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki til þess að fjármálaráðherra hafi einhver tök á HS Orku til að gefa mönnum fyrirmæli um það sem hv. þingmaður er að fjalla um. Fyrirtækið HS Orka sem er í einkaeigu er með sín mál gagnvart Norðuráli fyrir gerðardómi og ríkið á enga aðkomu að því. Það er einfaldlega viðskiptagjörningur sem hefur farið þá leið.

Ég held að menn verði að ræða þetta mál með gögnin fyrir framan sig til að sjá samhengið en ekki snúa út úr málum, (Forseti hringir.) taka þau úr því samhengi sem þau voru í á sínum tíma og setja inn í samhengi núna sem þau eiga engan veginn heima í.



[11:10]
Þráinn Bertelsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kann því heldur illa að vera áminntur um að gæta orða minna og þess vegna ætla ég að finna orðum mínum stað. Ég sagði um ræðu starfandi menntamálaráðherra sem stendur hér, nýbúin að slátra Kvikmyndaskóla Íslands, (Forseti hringir.) og talar um að … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Ég bið þig um að ræða fundarstjórn forseta, ekki efnislega um það sem hér hefur farið fram.)

Virðulegi forseti. …

(Forseti (RR): Hv. þingmaður var áminntur vegna þeirra orða sem hann lét falla í garð hæstv. menntamálaráðherra á meðan menntamálaráðherra talaði og við það stendur forseti.)

Virðulegi forseti. Ég er að finna orðum mínum stað.

(Forseti (RR): Um fundarstjórn forseta.)

Um fundarstjórn forseta, um þau orð sem forseti lét falla í minn garð. Ég er að reyna að útskýra fyrir þingheimi að þessi orð hafi verið hárrétt og síst ofmælt. Það er réttur minn sem þingmanns. Ég má bera af mér sakir.



[11:11]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Virðulegur þingmaður bað um orðið til að ræða fundarstjórn forseta, ekki til að bera af sér sakir. Nú er ræðutími þingmannsins liðinn og forseti biður þingmanninn að víkja úr stól en stendur við þau orð sem forseti lét falla hér. (ÞrB: Forseti. Ég bið um orðið til að bera af mér sakir.) Forseti telur ekki ástæðu til að veita þingmanninum ræðutíma til að bera af sér sakir. (ÞrB: Ég mótmæli þessari óstjórn forseta.) Hv. þingmaður getur gert það.