139. löggjafarþing — 160. fundur
 8. september 2011.
um fundarstjórn.

viðvera nefndarmanna í umræðum.

[19:33]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Rétt áðan ræddum við nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum og ég óskaði eftir því að þeir sem skrifa undir nefndarálitið væru við umræðuna af því að ég ætlaði að bera fram nokkrar spurningar sem ég og gerði. Ég varð ekki var við að neinn svaraði þessum spurningum, frú forseti.

Þetta er mjög stór lagabálkur og þó að það sé almenn sátt um hann finnst mér engu að síður að menn þurfi að ræða einstakar greinar og einstök atriði í frumvarpinu. Ef ekki er meiningin að ræða hlutina breytist skilningur minn á Alþingi ansi mikið. Ég sakna þess að hafa ekki heyrt svör við spurningum mínum og geri þess vegna athugasemd við stjórn fundarins.



[19:34]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vekur athygli á því að umræða um vatnalögin hófst á Alþingi fyrir hádegi í dag og stóð í allmarga klukkutíma. Umræðunni er lokið. Við umræðuna komu fram ítrekaðar óskir um að málið færi til nefndar á milli umræðna og verður væntanlega orðið við því þannig að það er ekki eins og að ekki muni gefast tækifæri til að ræða málið frekar. (PHB: Ég er ekki í nefndinni.)