139. löggjafarþing — 161. fundur
 12. september 2011.
lengd þingfundar.

[11:22]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. þingskapa, um lengd þingfunda, er það tillaga forseta að þingfundir geti staðið lengur í dag en þingsköp kveða á um. Er óskað eftir atkvæðagreiðslu um þessa tillögu forseta?

Óskað er eftir atkvæðagreiðslu um tillögu forseta.



[11:22]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða þessa atkvæðagreiðslu. Nú er nýlokið fundi þingflokksformanna þar sem staðan er óbreytt hvað varðar fyrirkomulag þingstarfanna eins og var hér í síðustu viku, á fimmtudaginn þegar við greiddum síðast atkvæði um lengd þingfunda.

Þessi svokallaði septemberstubbur var ætlaður til að ljúka málum sem vinna þyrfti betur í yfir sumarið eða þyrftu meiri tíma til afgreiðslu, ekki til að klára öll mál sem stjórnarmeirihluta hvers tíma dytti í hug að langa til að klára. Þá hefði septemberstubburinn verið lengri en níu þingdagar.

Hér eru á dagskrá 32 mál, sum samkomulagsmál, önnur sem meiri ágreiningur er um. Nú kalla ég eftir því, hæstv. forseti, að það verði einmitt gert sem þarf að gera, þ.e. forgangsraðað hvaða málum er ætlað að ljúka hér og hvaða málum er ekki ætlað að ljúka. Þangað til mun ég greiða atkvæði gegn því að þingfundir verði hér lengri og vísa ábyrgðinni (Forseti hringir.) á þessari óstjórn þingsins — í mestu vinsemd — til hæstv. forseta.



[11:24]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru komnar upp gamalkunnar aðstæður í þinginu, við erum farin að greiða atkvæði um lengda fundi, kvöldfundi, til að keppast við að ljúka málum sem nánast væri ógerningur að ljúka á svo stuttum tíma þótt allir legðu sig fram.

Á þeirri dagskrá sem við höfum í dag, og veit ég þó að fleiri mál eiga eftir að bætast þar á, má sjá mál sem munu augljóslega þurfa umræðu þó að ekki sé ágreiningur um þau. Ég nefni að við eigum eftir að fara aftur í 3. umr. um vatnalög, við eigum eftir að tala um sveitarstjórnarlög, hér er frumvarp um áfengislöggjöfina, upplýsingalög o.s.frv. Við erum enn þá að ræða Stjórnarráðið, mál sem alveg er ljóst að himinn og haf eru á milli þeirra sem vilja ganga alla leið í því máli og hinna sem eru ósáttir við sérstaklega ákveðna hluti þar í.

Þegar málum er þannig stillt upp í þinginu er ekki hægt (Forseti hringir.) annað en að gagnrýna hvernig haldið er á málum, frú forseti, í mestu vinsemd eins og hér var sagt, þegar hlutunum er stillt upp með þessum hætti. Hér er eingöngu um óstjórn að ræða, ekkert annað.



[11:25]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum komin inn á gamalkunnar slóðir og tími hrossakaupa um þingmál er hafinn. Þetta er dæmi um fráleitt skipulag á þingstörfum. Þingflokksformenn stjórnarflokkanna hafa enn ekki komið sér saman um einhvern lista yfir forgangsmál sem á að afgreiða. Til stefnu eru þrír og hálfur þingdagur og 32 mál á dagskrá þingsins í dag.

Það er dapurlegt að verða vitni að þessu. Við sáum ein hrossakaupin í seinustu viku og nú situr þjóðin uppi með hálfan Árósasamning vegna þess að menn hótuðu hér málþófi. Það verður fróðlegt að sjá endalokin á þeim málum sem liggja fyrir þinginu núna, það er ekki víst að þau verði endilega mjög beysin.



[11:26]
Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel alveg ljósa þörf á kvöldfundum þessa fjóra daga sem við höfum til þinghaldsins í þessari viku. Ég minni þingheim á að þegar við lukum hér störfum í vor voru fjölmörg mál samkomulagsmál, tilbúin til afgreiðslu og var vísað yfir á septemberstubbinn. (Gripið fram í.)

Vissulega eru hér mál sem þarf að ræða. Við þurfum að fara yfir þau en við eigum að sameinast um að afgreiða þau mál sem við höfum náð samkomulagi um, hvort sem það var í vor eða núna, og láta það ekki gerast að fullræddum málum sé vísað yfir í októberþing, málum sem fullt samkomulag er um.

Ég tel fulla þörf á þessum kvöldfundum eins og málin standa. Vissulega þurfa þau nokkur frekari umræðu en þó ekki nema fáein.



[11:27]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við ræddum á fimmtudaginn dálítið um skólabrag og þingbrag og rætt var um að til þess að góður bragur væri í stofnunum væri nauðsynlegt að gott samstarf næðist um mál. Til að samstarf náist verða allir að leggja sitt af mörkum. Ég legg til að við gerum það af fullri einurð. Stærstur hluti málanna á þessari dagskrá 32 mála hefur verið unninn í fullu samstarfi, (Gripið fram í.) um önnur mál hefur að sjálfsögðu ekki verið eins náið samstarf. Um þau mál náum við samkomulagi og röðum þeim upp en nýtum vel þá daga sem við höfum. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að við verðum að (Forseti hringir.) funda fram á kvöld í kvöld.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:30]

Afbrigði um 4. mgr. 10. gr. þingskapa, um lengd þingfundar,  samþ. með 31:19 atkv. og sögðu

  já:  ALE,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BirgJ,  BjörgvS,  BVG,  GLG,  GStein,  HHj,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KLM,  LGeir,  MSch,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  AtlG,  ÁsbÓ,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GBS,  JónG,  LMós,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SKK,  TÞH,  UBK,  VigH,  ÞKG.
2 þm. (MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
11 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  GuðbH,  GÞÞ,  HöskÞ,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  ÓN,  SIJ,  SF) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:29]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef áður kvartað undan skipulagsvanda þingsins. Það sem við ræðum hér er ekkert annað en vandi við að skipuleggja verk. Þetta er ekki nógu vel skipulagt á þinginu og ég hef lagt til áður að forsætisnefnd ráði til sín verkfræðinga sem setji upp verkferla.

Þá er þetta líka spurning um samráðsleysi. (Gripið fram í.) Það er núna fyrst sem samráðið hefst í málum sem menn hafa haft hálft ár til að hafa samráð um, jafnt við stjórnarandstöðu sem aðra í þjóðfélaginu. Svo snýr þetta líka að fjölskyldunum. (Gripið fram í: Já!) Margir þingmenn eiga lítil börn og það er óhæfa, frú forseti, að hegða sér svona gagnvart fjölskyldunum. Ég segi nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)