139. löggjafarþing — 163. fundur
 14. september 2011.
umræður utan dagskrár.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:42]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa smáhlé á umræðu um stjórnarráðsfrumvarp hæstv. forsætisráðherra til að ræða önnur og brýnni mál.

Umræður um stöðu og skuldir íslenskra heimila hafa nú staðið í um það bil þrjú ár en ávinningurinn af þeim umræðum hefur því miður ekki orðið sem skyldi, ekki hvað síst vegna þess að þar hafa menn ekki, sama hversu mikið hefur verið rætt um málið, verið reiðubúnir að hlusta á rök og staðreyndir.

Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rekja sögu glataðra tækifæra í þessum málaflokki en ég vil þó leggja áherslu á að ástæðan fyrir því að ótal tækifæri kunna að hafa glatast og mörg hver hafa örugglega glatast með verulegum kostnaði fyrir íslensk heimili og íslenska ríkið er ekki hvað síst sú að málin fengust ekki rædd út frá staðreyndum. Ég vonast því til að nú geti menn metið þá stöðu sem uppi er og skoðað hvort staðreyndirnar eins og þær liggja fyrir veiti ekki tækifæri til þess að taka á málinu.

Nýlega kom fram í tilkynningu frá fjármálafyrirtækjum að afskriftir á undanförnum tveimur árum hefðu numið tugum og hundruðum milljarða króna. Þegar betur var að gáð var þar fyrst og fremst um að ræða afskriftir til fyrirtækja og þá líklega helst fjárfestingarfyrirtækja sem höfðu farið illa út úr efnahagshruninu en einnig afskriftir vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæt myntkörfulán. Annars konar almenn leiðrétting á skuldum heimilanna, einkum og sér í lagi verðtryggðum fasteignaskuldum, er hins vegar ekki umtalsverð, nemur líklega nokkrum milljörðum. Að miklu leyti er þetta til komið vegna 110%-reglunnar svokölluðu en hún var niðurstaða maraþonfundahalda sem boðað var til í Þjóðmenningarhúsinu eftir mikil mótmæli síðastliðið haust. Niðurstaðan varð í samræmi við það sem bankarnir höfðu þá þegar gert ráð fyrir og boðist til að ráðast í þannig að aðkoma stjórnvalda og þessi miklu fundarhöld virtust skipta óskaplega litlu máli.

Til viðbótar við þessar tölur um afskriftir sjáum við hvað eftir annað ótrúlegar hagnaðartölur nýju bankanna, hagnaðartölur sem jafnast á við það sem var hér á árunum 2007 og fyrri part árs 2008. Að langmestu leyti er þetta til komið vegna þess að menn hafa verið að endurmeta þær eignir sem færðar voru í þessa nýju banka, meta verðmæti þeirra hærra. Og hvaða eignir eru þetta? Þetta eru skuldir, ekki hvað síst skuldir íslenskra heimila sem nýju bankarnir keyptu með verulegum afslætti en eru nú að færa upp í verðmæti, ætla sem sagt að innheimta meira en gert var ráð fyrir að innheimtist í upphafi og styrkja með því eiginfjárstöðu sína.

Er hæstv. velferðarráðherra sammála mér um það að bankarnir ættu að forgangsraða með öðrum hætti? Í stað þess að nota afskriftasvigrúm sitt til þess að auka eigið fé bankanna, ættu þeir að láta það ganga áfram til lántakenda og færa niður lán? Er hæstv. ráðherra sammála mér um að þannig væri þessu fjármagni vel varið eða þessu svigrúmi? Og munu stjórnvöld beita sér fyrir því að bankarnir nýti svigrúmið til að ráðast í almenna lánaleiðréttingu, einkum og sér í lagi með það að markmiði að draga úr áhrifum af ófyrirsjáanlegum verðbólguskotum í kjölfar hrunsins?

Stjórnvöld hafa ýmis ráð til þess að fá bankana í lið með sér hvað þetta varðar hafi þau áhuga á því. Eitt er auðvitað að skapa einhverja framtíðarsýn og útskýra mikilvægi þess að allir leggist á eitt við það að koma hér efnahagslífinu af stað. Það er bönkunum sjálfum ekki í hag að stór hluti íslenskra heimila sé ekki gjaldfær, sé ekki fær um að taka þátt í samfélaginu og staðan sé jafnvel þannig að fólk telji sér ekki fært að ráða sig í vinnu vegna þess að ef það auki tekjur sínar þurfi það að fara að borga af lánum sem það á ekki fyrir.

Annað sem stjórnvöld gætu gert væri að veita bönkunum einhvers konar fyrirheit í skattamálum um einhvern stöðugleika til að skapa hvata til að þeir láti það svigrúm sem þeir hafa ganga áfram til almennings. Munu stjórnvöld beita sér fyrir því að bankarnir láti svigrúm sitt til afskrifta ganga áfram og hvaða aðferðir sjá stjórnvöld fyrir sér í því efni?



[15:47]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu um skuldastöðuna og afgreiðslu á lánamálum heimila. Það er í rauninni dapurlegt að þurfa að horfa til baka og horfa á þá kollsteypu sem átti sér stað hér haustið 2008 í boði þáverandi stjórnvalda með tilstyrk örgjaldmiðilsins íslensku krónunnar.

Ég sem er kominn á sjötugsaldur, eins og það heitir, er að fara í gegnum það í þriðja skipti að tapa meira og minna þeim eignum sem ég átti. Það er umhugsunarefni hvernig á því hefur staðið og hvernig við ætlum að bregðast við því til langs tíma að við lendum í þessu reglulega.

Við buðum upp á að menn gætu fengið allt að 90% lán og margir bankanna buðu meira að segja upp á 100% lán og upp í 110% því að þeir lánuðu 90%, lánuðu síðan fyrir útborguninni og jafnvel fyrir breytingum á íbúðinni. Á sama tíma hafði það gerst á árunum 2004–2007 að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði hækkað um allt að 50% og af því að búið var að opna lánamarkaðinn gátu menn þá fengið 90% lán af þessari verðmætaaukningu þannig að þeir skuldsettu sig enn frekar. Nú er ég að tala um ákveðna hópa en alls ekki heildina.

Síðan fáum við 20% verðbólguskot og höfuðstóllinn hækkar, greiðslur af lánum hækka líka og í þessari ótrúlegu stöðu stöndum við svo eftir hrun. Stjórnvöld völdu á sínum tíma að fara sértækar leiðir. Því var síðan breytt yfir í það að blanda saman bæði sértækum og almennum leiðum. Það má svo á hverjum tíma deila um hvernig til hafi tekist og hversu langt við erum komin, hvort við náum að endurstilla samfélagið, en einhvers staðar verðum við að setja mörk, eins og hér hefur oft komið fram, einfaldlega vegna þess að þau úrræði sem við buðum síðast upp á eins og 110%-leiðin hafa oft gagnast mest þeim sem í raunveruleikanum hafa ekki tekið á lausnunum heldur frestað greiðslum o.s.frv.

Við skulum átta okkur á því líka, bara af því að við þurfum að ræða út frá staðreyndum, að í fyrsta lagi kom það fram að 30% af þeim sem eiga húsnæði skulduðu ekkert í húsnæði sínu í desember sl., í öðru lagi voru 16% af íslensku þjóðinni í vanskilum með lán sín og áttu í erfiðleikum fyrir hrun. Ég held að þetta sé vert að hafa í huga.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, hvort nýta ætti þær afskriftir á húsnæðislánum sem bankarnir fengu við færslu á milli gömlu og nýju bankanna, er svar mitt afdráttarlaust: Já, ég ætlast til þess að bankarnir skili því til þeirra sem eiga þau lán.

Á hinn bóginn eru það nýjar upplýsingar fyrir mér ef í ljós hefur komið að hagnaður bankanna sé vegna uppfærslu á íbúðalánum. Ég bið hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson að skýra það betur út fyrir mér ef hann hefur þær upplýsingar. Það er nýtt í málinu af því að við tölum hér um að ræða út frá staðreyndum.

Hvernig sem við beitum okkur í framhaldinu er ljóst að niðurfellingin hefur orðið umtalsverð, við getum deilt um hversu mikil. Niðurfellingin er 144 milljarðar og þó að menn geri lítið úr því vegna þess að í þeirri tölu séu ólögmætu gengistryggðu lánin skiptir auðvitað líka gríðarlega miklu máli í hreinsuninni að þau séu tekin út. Lán hafa verið færð niður samkvæmt 110%-leiðinni um nokkra tugi milljarða. Síðan hafa verið settar inn endurgreiðslur á vaxtabótum sem nema 30%. Regluverkinu, sem var því miður svo gjörsamlega fjandsamlegt þeim sem skulduðu fyrir hrun, hefur verið breytt heilmikið. Við eigum í erfiðleikum með fullt af lagfæringum eins og varðandi ábyrgðarskuldbindingar þar sem bankarnir hafa gengið býsna hart fram í því að ganga að ábyrgðarmönnum, einnig þar sem hafa verið lánsveð. Við í ríkisstjórninni höfum reynt að breyta þessu aftur í tímann, við höfum því miður verið rekin til baka með það af dómstólum með tilvísun í stjórnarskrána. Mörg ljót dæmi koma fram í þessari skuldahreinsun.

Varðandi það að fara að stuðla að skattafslætti til banka, eins og hv. þingmaður nefndi, verð ég að viðurkenna að mér hefur ekki hugnast það, mér hefur ekki dottið það í hug. Ég hefði frekar viljað skattleggja þá meira þannig að þeir kæmu betur til móts við fólk í þeim úrræðum sem enn eru óframkvæmd. Það er heilmikið eftir, þ.e. þau mál sem eru hjá umboðsmanni skuldara, þau mál sem eiga eftir að klárast varðandi 110%-leiðina og margt af því sem þar hefur verið kynnt og er í gangi. Við skulum skoða hvernig staðan verður eftir það. Þessi mál þyrftu auðvitað (Forseti hringir.) mjög langan tíma. Það verður forvitnilegt að skoða stöðuna síðar.

Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni og fæ að koma hingað í lokin til að við getum rætt aðeins betur það sem fram kemur.



[15:53]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Mér fannst ekki sanngjarnt af hæstv. velferðarráðherra að gagnrýna fyrri ríkisstjórn þar sem hæstv. forsætisráðherra var einmitt fyrirrennari hans í embætti, Jóhanna Sigurðardóttir, en hún sat nefnilega í hrunstjórninni og nokkur ár þar á undan.

Það sem ég sakna mest og skil ekki af hverju hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert neitt í er að kanna stöðu heimilanna. Það liggja fyrir tvö frumvörp í hv. efnahags- og skattanefnd frá því í nóvember í fyrra og ekkert gert með þau, annað er meira að segja frá hæstv. ríkisstjórn. Menn tala hér stöðugt og vita ekki hvað þeir eru að gera og hvernig staðan er. Það finnst mér eiginlega verst.

Það sem mér finnst næstverst er allur þessi hægagangur. Þegar lögin voru sett um umboðsmann skuldara, sem ég vann ansi mikið í í hv. félagsmálanefnd, vildi ég hafa ferilinn einfaldan, ekki óska eftir skattframtölum sem liggja fyrir á netinu, ekki óska eftir þessum og hinum gögnunum og láta fólk hlaupa fram og til baka með miklum kostnaði til að afla gagna sem liggja fyrir. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með framkvæmdina á þessum sértæku aðgerðum til að leysa vanda heimilanna. Hún gengur of hægt.

Eins varð ég fyrir miklum vonbrigðum með hvað bankarnir hafa dregið lappirnar í því að gera upp við heimilin þó að það sé kannski kominn ákveðinn gangur í það núna, en það eru liðin þrjú ár frá hruni, frú forseti, og þessi ríkisstjórn hefur starfað í tvö og hálft ár. Þetta gengur allt, allt of hægt.



[15:55]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal auglýsir eftir könnun á stöðu heimilanna. Ég vil halda því fram að sú könnun sé óþörf því að hérna hef ég í höndum mynd sem segir meira en þúsund orð og hundrað kannanir. Hún birtist í Fréttablaðinu í gær og er eftir snilldarteiknarann Halldór Baldursson. Með leyfi forseta, langar mig til að sýna þessa mynd.

Hérna er venjulegt fólk, hjónin Jóna Jónsdóttir og maðurinn hennar Jón Jónsson, og þau velta á undan sér snjóbolta, ansi þungum þó fyrir þau, sem er eignamyndun á fasteignamarkaði. Á eftir þeim kemur rúllandi margfalt stærri snjóbolti sem er skuldamyndun á fasteignamarkaði og mun innan skamms kremja þessi ágætu hjón til dauðs. Svoleiðis er það. (Gripið fram í.) Það þarf enga könnun til að athuga þetta. (PHB: Hvað gerir ríkisstjórnin?) Ekki spyrja mig hvað ríkisstjórnin gerir, Pétur, spurðu einhvern annan að því.

Það sem hefur gerst hjá venjulegu fólki (Gripið fram í.) er að kaupmáttur launa þeirra hefur lækkað og verðmæti eigna þeirra hefur minnkað. Aðeins einn hlutur hefur haldið verðgildi sínu, aðeins einn hlutur er verðtryggður á Íslandi og það er lánsfjármagn. Það er óhæfa, óréttlæti, brot á mannréttindum, brot á jafnræðisreglu, það er brot á heilbrigðri skynsemi og öllu siðferði. Þetta verður að koma í veg fyrir áður en öll hjón á landinu sem hafa reynt að standa í skilum við bankana kremjast til dauðs eins og þau Jón og Jóna munu gera.

Bankarnir á Íslandi eiga sinn hlut í þessu. Þeir koma fram af fullkominni óbilgirni við venjulegt fólk. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Megnið af þeim lánum sem hefur verið afskrifað hefur verið hjá lögaðilum, fyrirtækjum, aðeins örlítið brot hefur tilheyrt einstaklingum. Ég sjálfur, (Forseti hringir.) sem er fyrirmyndarviðskiptavinur og hef aldrei lent í vanskilum, hef farið til míns viðskiptabanka, sem er Arion banki, (Forseti hringir.) og beðið þann banka um að ákveða hvort hann sé þjónustustofnun eða blóðsugubanki (Forseti hringir.) og ræningjabæli. (Forseti hringir.) Þið getið ímyndað ykkur niðurstöðuna.



[15:58]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill hvetja hv. þingmann til þess að ávarpa aðra þingmenn með fullu nafni.



[15:58]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það er sárt að búa á Íslandi í dag. Á hverjum degi horfum við upp á vaxandi misskiptingu í samfélaginu, réttlætið er fótumtroðið.

Forseti. Ég vil vekja athygli á því að þegar bankarnir voru endurreistir voru lánasöfn hinna föllnu banka færð yfir í nýju bankana á hálfvirði. Þetta er lykilatriði. Það þýðir að nýju bankarnir hafa ekki verið að afskrifa neitt. Afskriftirnar fóru fram árið 2009 en þær hafa bara ekki gengið áfram til heimilanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þess í stað skila bankarnir ofurhagnaði.

Þessi atburðarás er á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar sem þó hefur boðið upp á ýmis sértæk og mannaflsfrek, hreinlega atvinnuskapandi úrræði sem henta þó fáum. Ég hef talsvert skipt mér af þessum málaflokki og margir hafa leitað til mín, bæði eftir ráðum en eins til að deila reynslu sinni. Reynsla raunverulegs fólks er að Ísland er óréttlátt. Meðferð skulda er tilviljanakennd, eins konar happdrætti djöfulsins. Það skiptir t.d. máli hvar fólk er í viðskiptum hvernig 110%-leiðin er útfærð, hvort það er í viðskiptum hjá Íbúðalánasjóði, sem er í eigu ríkisins, eða í ríkisbankanum Landsbankanum. Stenst þetta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Verst er staða þeirra sem skulda þrotabúum sem engan hag hafa af áframhaldandi viðskiptum, en best er staða þeirra sem skuldsettu sig sem mest og hafa minnst greitt. Bankarnir bjóða þeim mestu afskriftirnar, bara ef þeir fara að greiða aftur. Þetta kerfi, eða ættum við kannski að kalla þetta frumskóg, er ógagnsætt, ósanngjarnt og óverjandi.

Forseti. Hinar raunverulegu afskriftir fóru fram árið 2009, þær hafa bara ekki gengið til heimilanna. Því verðum við að breyta. Það er svigrúm fyrir réttlæti. (Gripið fram í: Heyr, Heyr!)



[16:00]
Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Í stað þess að reisa skjaldborg um heimilin eins og norræna velferðarstjórnin lofaði var reistur Berlínarmúr um fjármagnseigendur og banka. (Gripið fram í: Rétt.) Skattgreiðendur voru látnir taka á sig fulla innstæðutryggingu til að bjarga fjármagnseigendum og bankar voru endurreistir á grunni ofmetinna eignasafna og eignaupptaka leyfð hjá skuldsettum heimilum til að tryggja milljarða hagnað bankanna á hverju ári. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrðir að bankarnir hafi afskrifað um rúma 500 milljarða á árunum 2009 og 2010. Afskriftir sem ekki finnast í uppgjöri bankanna, enda notaðir til að tryggja hagnað kröfuhafa.

Frú forseti. Eignaupptakan hjá heimilunum fer fram í gegnum verðtrygginguna sem býr til okurvexti, sértækar afskriftir tapaðra skulda niður í aðeins 110% skuldsetningu og gjaldþrot of skuldsettra heimila með syndaaflausn eftir tvö ár. Eignarhlutur heimila sem tóku 70% lán og hafa greitt samviskusamlega af lánum sínum er að hverfa. Sífellt fleiri íhuga að hætta að borga vegna þess að þeim misbýður milljarða afskriftir bankanna hjá vildarvinum þeirra.

Frú forseti. Norræna velferðarstjórnin hefur ekki einu sinni haft rænu á að tryggja þeim þak yfir höfuðið sem missa nú húsnæði sitt til bankanna og geta ekki greitt markaðsleigu. Hvar er húsnæðisöryggið og norræna húsnæðiskerfið með eignarleigu- og búseturéttaríbúðum sem hin norræna velferðarstjórn lofaði í samstarfsyfirlýsingu sinni? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:03]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég væri tilbúin til að standa hér margar nætur og mörg kvöld til að ræða það málefni sem er á dagskrá. Það eru þessi málefni sem skipta þjóðina máli, frú forseti, en ekki þau málefni sem hæstv. ríkisstjórn ber á borð fyrir alþingismenn nú um stundir.

Það er einnig athyglisvert að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki vera í salnum. Hvers vegna er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki viðstaddur þessa umræðu til að svara fyrir þær spurningar sem koma fram þar sem hann ber ábyrgð á málaflokknum? (Gripið fram í.) Hæstv. velferðarráðherra er í staðinn og það er gott að einhver ráðherra vilji standa hér og svara fyrir það umræðuefni sem er á dagskrá, þ.e. afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

Hæstv. forsætisráðherra situr hér og hlustar. Hæstv. forsætisráðherra var talsmaður þess að afnema verðtryggingu þau rúmu 30 ár sem hún var óbreyttur þingmaður. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra verið í ríkisstjórn í rúm fjögur ár og sat meira að segja í hrunstjórninni ásamt núverandi hæstv. utanríkisráðherra. Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra gert á þessum árum sem hún hefur setið í ríkisstjórninni í þá átt að afnema verðtryggingu á lánum? (Forsrh.: Mjög margt.) Ekki nokkurn hlut, (Forsrh.: Mjög margt.) frú forseti, ekki nokkurn hlut. Svona geta hlutirnir snúist í höndum hæstv. forsætisráðherra, sjálfri guðmóður þingsins og þeirri baráttumanneskju fyrir [Hlátur í þingsal.] þeim aðilum sem minna mega sín. Svona snúast málin í höndunum. En ég skora á hæstv. forsætisráðherra að láta nú til sín taka til að vinna með heimilum og fjölskyldum.

Hæstv. velferðarráðherra gagnrýndi 90%-leiðina sem var farin á sínum tíma. Ekki ætla ég að verja hana, en þessi ríkisstjórn leggur til ásamt bönkunum 110% skuldsetningu. Það vita allir hvernig það endar. Ætlar ríkisstjórnin að taka sig saman í andlitinu og fara að sinna því sem máli skiptir, fjölskyldunum og heimilunum í landinu, og byggja upp atvinnu, eða ætlar hún að láta allt saman renna út í sandinn?



[16:05]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill taka fram að hv. málshefjandi óskaði sérstaklega eftir því að ræða þetta mál við hæstv. velferðarráðherra. En svo háttar til að hann er einnig starfandi efnahags- og viðskiptaráðherra nú um stundir.



[16:05]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum um skuldavanda heimilanna og afskriftir bankanna á skuldum heimila. Hæstv. velferðarráðherra fór ágætlega yfir afstöðu okkar til þeirra mála. Það er staðreynd að heimilin á Íslandi eru skuldsettari en víða gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar. Þar kemur til að Íslendingar eru tiltölulega ung þjóð og þar af leiðandi eru meiri skuldir hjá okkur en öðrum þjóðum. En fleira kemur til og vil ég þar sérstaklega nefna þá séreignarstefnu sem hér hefur ríkt í húsnæðismálum. Hún hefur valdið því að almenningur hefur þurft að taka þá áhættu sem fylgir fasteignaviðskiptum til að öðlast húsnæðisöryggi. Í húsnæðisstefnu stjórnvalda sem hefur verið unnin í víðtæku samráði í valdatíð hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, er lagt til að almennur leigumarkaður verði stórefldur til að koma sem valkostur við séreignarstefnuna og einnig að vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið verði aðlöguð hvort að öðru svo að opinber húsnæðisstuðningur ívilni ekki sérstaklega þeim sem eru tilbúnir til að taka áhættu sem fylgir fasteignaviðskiptum.

Ég get fullvissað hv. þingmenn um að unnið er að þessu af fullu kappi, að koma þessum markmiðum í framkvæmd, en samtímis er líka verið að vinna að því að auka framboð lána með frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu um heimild til Íbúðalánasjóðs að veita óverðtryggð lán. Það er til þess að heimilin hafi frekari valkosti. Það sést að þau hafa verið að velja óverðtryggð lán hjá bönkunum. En mikilvægt er að Íbúðalánasjóður fái þessa heimild sem á að gæta hagsmuna almennings í útlánum sínum og horfa til þess að heimilin þurfi ekki að taka óhóflega áhættu.



[16:08]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög mikilvægt mál, þ.e. afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Nú eru þrjú ár frá því bankarnir féllu. Við höfum átt umræðu sem þessa í þingsal reglulega frá því ég tók sæti á þingi og hún hljóðar alltaf á sama veg: „Það er mikill vandi hér. Það er ekki verið að taka rétt á honum.“ Það er hálfgerður æsingur í umræðunni vegna þess að mönnum er mikið niðri fyrir. Öll þekkjum við fjölskyldur sem eru í miklum vanda.

Ég gæti haldið enn eina ræðuna um að ríkisstjórnin sé ekki að standa sig vel og að henni hafi ekki tekist að taka utan um þennan vanda, með mikilli reiði gæti ég staðið hér. Ég nenni því bara einfaldlega ekki lengur. Við höfum vissulega samþykkt úrræði. Við höfum öll tekið þátt í því í félagsmálanefnd að vinna að úrræðum. Þau hafa hins vegar reynst hægvirk og ekki til þess fallin að fækka þeim sem lenda í vanda. Ég held við eigum bara öll að viðurkenna það. Okkur hefur ekki tekist að ná utan um vandann. Við verðum hins vegar að líta á verkefnið eins og það liggur fyrir í dag og reyna að finna út úr því hvað er til ráða.

Vissulega er það ágætt að til standi að efla leigumarkað og breyta vaxtabótakerfinu og húsaleigubótakerfinu, en er það það sem tekur á vandanum eins og hann liggur fyrir í dag? Eru það ekki frekar framtíðarlausnir? Verðum við ekki að ræða um hvort verið sé að gera nóg í dag, eins og staðan er, eða ekki?

Ég tel og hef sagt það áður í þessum ræðustól að bankarnir hafi ekki gert nóg, þeir hafi ekki komið nægjanlega til móts við heimilin. Ég hef sagt það áður að stjórnvöld ættu að leggja enn meiri pressu, beita sér fyrir því að bankarnir komi í enn ríkari mæli til móts við skuldsett heimili. Það hefði átt að grípa til þess fyrr og fylgja því fastar eftir. Vandinn við verklagið frá upphafi var að upplýsingar voru ekki fyrir hendi. Stjórnvöld voru ekki með fullnægjandi upplýsingar um hver vandinn var. Og þar liggur hundurinn grafinn að mínu mati. Það var ekki hægt að fylgja þeirri kröfu fastar eftir vegna þess að okkur skorti upplýsingar.

Upplýsingar í þessu máli sem öllum öðrum eru lykillinn að því að við náum árangri. (Forseti hringir.) Því miður hefur okkur ekki gefist tóm til að fara í að afla þeirra.

Hins vegar ítreka ég enn og aftur, það er ekki of seint fyrir okkur, fulltrúa allra flokka, að setjast niður (Forseti hringir.) og reyna í sameiningu að finna lausn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Ekkert ríki í Vestur-Evrópu hefur gripið til jafnvíðtækra aðgerða til hjálpar skuldugum heimilum og gert hefur verið hér á landi. Það er fjórða hver króna sem landsmenn greiða í vexti af húsnæðislánum sínum endurgreidd úr ríkissjóði. Samkomulag milli ríkisins og lánastofnana um lækkun skulda heimila hefur hjálpað þúsundum heimila og á annað hundrað milljarðar hafa verið afskrifaðir af skuldum heimila í kjölfar þessa. Þúsundir heimila hafa nýtt sér allar þær leiðir sem boðið hefur verið upp á hingað til til skuldalækkunar og leiðréttinga. Reglum Íbúðalánasjóðs var breytt til að lækka greiðslubyrði skuldara. Nú stendur til að bjóða óverðtryggð lán og er unnið að því. Dráttarvextir hafa verið lækkaðir. Greiðslujöfnun íbúða- og bílalána lækkaði greiðslubyrði heimila umtalsvert. Sértæk skuldaaðlögun lækkaði greiðslubyrði verulega. Heimilum stóð til boða að frysta lán á meðan reynt var að leysa úr vanda þeirra. Gjaldþrotalögum hefur verið breytt. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 4,5% á tveimur árum. Svo segja menn að ekkert hafi verið gert. Menn geta ekki talað svona.

Í kjölfar kreppunnar hefur eigið fé heimila rýrnað mikið, líkt og í fyrirtækjum í landinu. Kreppan bitnar á okkur öllum sem þjóð. Við getum ekki horft fram hjá því. Erfiðleikar hafa verið miklir hjá heimilum og fjölskyldum landsins við að glíma við erfiða skuldastöðu. Við skulum ekki gleyma því að mikill árangur hefur náðst sem ekki er sjálfgefinn. Áfram verður unnið að bættri stöðu heimila í landinu. Við erum á réttri leið þótt alltaf sé hægt að segja að ekki sé nóg að gert.



[16:12]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Á hverjum degi fæ ég að heyra um veruleika þeirra sem ná ekki utan um skuldir, eiga ekki fyrir mat, eiga ekki fyrir lyfjunum sínum, þurfa jafnvel að láta svæfa gæludýrin sín af því þeir hafa ekki efni á að gefa þeim að borða eða veita þeim nægilega umhirðu. (VigH: Hvað með börnin?) Fólk þarf sem betur fer ekki að svæfa börnin hinum langa dauða, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

Ég heyri á hverjum degi mjög erfiðar sögur. Mig langar að nota tækifærið fyrst ég er hérna til að þakka fólki kærlega fyrir að hafa hugrekki til þess að senda þingmönnum bréf. Ég heyri allt of oft að þingmenn svari ekki því fólki, ekki nokkur maður, nema örfáir þingmenn Hreyfingarinnar og (Gripið fram í.) einstöku sinnum aðrir. (Gripið fram í.) Einstöku sinnum aðrir. Við getum sýnt ykkur öll bréfin sem við fáum þar sem fólk kvartar yfir því að þingmenn svari ekki. Það eru einstaka þingmenn hérna inni sem svara, svo sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hv. þm. Þráinn Bertelsson, en mjög oft eru það heilu flokkarnir sem svara ekki. Það er bara þannig, en ég ætla ekki að fara að eyða tíma í þetta.

Mig langar að benda á því að ég sá svo skýra mynd fyrir mér þegar hv. þm. Þráinn Bertelsson talaði um blóðsugubankana, að ég skil ekki hvernig hægt er fyrir þessa ágætu ríkisstjórn að sitja undir því að vera norræn velferðarstjórn en leyfa á sama tíma bönkunum að vera blóðsugur á heimilum landsins, sjúga til sín allar eigur heimilanna og bjóða þeim svo upp á að leigja þær. Þetta er alveg ótrúlegt. Því miður eru Írar að taka upp sama kerfi og við. Við skulum sannarlega reyna að vera ekki svo slæm fyrirmynd að aðrar þjóðir taki upp svona aðferðir. Ég skora á ríkisstjórnina að stoppa þetta og sýna bönkunum klærnar. Hún hefur alveg dug og hugrekki til að gera það. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að fara að standa meira með heimilunum í landinu.



[16:15]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna athugasemda hæstv. forseta áðan er rétt að fram komi að ég bað upprunalega um að umræðan færi fram við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, en hæstv. velferðarráðherra bauðst til að hlaupa í skarðið. Ég þakka honum kærlega fyrir það.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir margt sem kom fram í ræðu hans. Ég er sammála honum um að staða ábyrgðarmanna er mikið vandamál sem þarf að finna lausn á.

Það sem ég hef hins vegar helst áhyggjur af vegna svara hæstv. ráðherra er að ekki er að heyra að ríkisstjórnin ætli að grípa til neinna aðgerða. Þetta snýst allt um að vonast til þess að bankarnir breyti allt í einu um stefnu. Hvað gefur til kynna að menn eigi að binda vonir við það í ljósi þess að þeir færa umtalsverðan hagnað, milljarða og tugmilljarða hagnað á bækur sínar í stað þess að nýta svigrúmið til að færa niður skuldir? Hvað gefur stjórnvöldum tilefni til að ætla að bankarnir taki upp á því hjá sjálfum sér að færa skuldir meira niður en orðið er? Þurfa stjórnvöld ekki að koma að þessu á einhvern hátt?

Ég nefndi í fyrri ræðu minni hugmyndir um hvernig stjórnvöld gætu haft áhrif á bankana, þó að þau séu ekki í jafngóðri stöðu til þess núna og þau voru fyrir tveimur árum. Ætla stjórnvöld ekki að hafa frumkvæði að því að koma frekar að skipulagningu skuldamála eða stuðla að því að skuldir verða færðar niður? Telja stjórnvöld að hlutverki sínu sé lokið í þessu efni? Og ef svo er finnst mér það vera verulegt áhyggjuefni, því að víða í heiminum eru menn farnir að gera sér grein fyrir því að ekki verði snúið við þróun efnahagsmála nema að taka á skuldamálunum og ekki hvað síst hjá heimilunum.

Nóbelsverðlaunahagfræðingar hafa fjallað ítarlega um þetta að undanförnu og meira að segja nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, lagði áherslu á það í ræðu nýverið. (Forseti hringir.)

Ef íslensk stjórnvöld, sem standa frammi fyrir jafnvel mestu reynslunni hvað þetta varðar og á margan hátt einum stærsta vandanum, (Forseti hringir.) ætla ekki að grípa til frekari aðgerða er það verulegt áhyggjuefni.



[16:17]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og margt hefur komið fram þó að tíminn sé býsna naumur.

Ég get tekið undir það að í ákvarðanatöku og umræðu vantar oft upplýsingar. Frumvarp liggur fyrir sem er óafgreitt en nefndin hefur ekki séð sér fært að afgreiða það.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að ástandið er að mörgu leyti alveg ótrúlegt. Því miður eru mörg fórnardýr þess ástands sem við höfum verið að ganga í gegnum. Það er fátækt fólk á Íslandi og fólk sem er í miklum vandræðum. Það er auðvitað verkefni okkar allra og þess sem hér stendur að reyna að gera eins vel og hægt er til að liðsinna fólki út úr þeim vanda.

Ég tek heils hugar undir með málshefjanda. Það er einmitt í þessari lotu núna sem á auðvitað að hreinsa út eins mikið og hægt er þannig að skuldir hangi ekki á fólki umfram það sem eðlilegt má teljast.

Það er ágreiningur um hversu mikið var fært á milli. Ég hef heyrt töluna 70% hvað varðar íbúðalán. Hér eru tölur nefndar allt að 50%. Þetta er hluti af því sem þyrfti kannski að fá skýrar fram. Bankarnir hafa sagt 72% varðandi íbúðalán, enda hafa þau verið hvað öflugustu lánin.

Það er svolítið merkilegt í umræðunni þegar maður skoðar tölur, að ég er núna að senda svar til hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um hvað húsnæði kostar, þ.e. hvað kostar að búa, hvað eyðum við stórum hluta af ráðstöfunartekjum í húsnæði. Þar kemur í ljós að árið 2010 er Ísland ekki með nema 21% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað, sem er annað lægsta á Norðurlöndunum. Þetta er reiknað út samkvæmt samræmdri aðferð. Það eru ýmsar svona misvísandi upplýsingar eins og ég sagði áðan. Það er fullt af fólki skuldlaust og það er fullt af fólki í miklum vandræðum.

Það er okkar að finna út hvernig við getum komist þannig frá málinu að við leysum það þeim til hagsbóta sem á því þurfa að halda. Það munum við að sjálfsögðu gera áfram. Málinu lýkur aldrei, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einfaldlega vegna þess að við verðum alltaf að bregðast við og hjálpa því fólki sem á í erfiðleikum á hverjum tíma.