139. löggjafarþing — 163. fundur
 14. september 2011.
Stjórnarráð Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 674. mál (heildarlög). — Þskj. 1191, nál. 1857, 1887 og 1892, brtt. 1858, 1861 og 1905.

[20:22]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Er málþóf í gangi? Miklar umræður spunnust um það hér fyrr í dag hvort málþóf væri í gangi um þetta mál og hver skilgreiningin væri á málþófi og annað í þeim dúr. Áður en ég fjalla efnislega um málið má ég til — sérstaklega í ljósi þess að sá sem mælti fyrir þessu máli upphaflega á þingi er hæstv. forsætisráðherra og ef einhver er drottning í einhverju hefur hún verið málþófsdrottningin — að vitna til fréttaskýringar frá því að hæstv. forsætisráðherra var óbreyttur þingmaður. Mig langar að lesa úr fréttaskýringu sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 19. maí 1998. Þar er verið að fjalla um umræður á þingi þegar hæstv. forsætisráðherra, sem þá var þingmaður, hafði haldið ræðu í tíu til tólf klukkustundir. Tilvitnun í þessa grein byrjar, með leyfi forseta:

„Til snarprar orðasennu kom á þingfundi Alþingis síðdegis á laugardag eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki jafnaðarmanna, gerði að umtalsefni ummæli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í fjölmiðlum fyrr um daginn. Þar hafði hann m.a. sagt að umræðurnar á Alþingi undanfarnar vikur væru þinginu til skammar og því næst hefði hann boðað breytingar á þingsköpum Alþingis í vor eða haust í þeim tilgangi að takmarka ræðutíma þingmanna.“

Frú forseti. Það hefur vissulega komið upp í umræðunni í dag að það þurfi enn frekar að takmarka ræðutíma þingmanna en orðið er. Ég ætla að halda áfram með þessa tilvitnun:

„Jóhanna sagði m.a. í upphafi umræðunnar um þetta mál að forsætisráðherra gerði það sem í hans valdi stæði til að stilla því upp sem málþófi þegar stjórnarandstæðingar ræddu ítarlega um sveitarstjórnarfrumvarpið, frumvarpið um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu og húsnæðisfrumvarpið. Hún vísaði því á bug að um málþóf væri að ræða og sagði að stjórnarandstaðan hefði lýðræðislegan rétt á því að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Forsætisráðherra kvaðst þess hins vegar fullviss að þjóðinni léki mikil forvitni á því að vita hvenær Jóhanna hæfi málþóf ef yfir tíu tíma ræða væri það ekki.“

Frú forseti. Sá sem hér stendur hefur haldið eina 40 mínútna ræðu og er nú í annarri ræðu sem tekur 20 mínútur. Þetta er stórt og viðamikið mál. Í ljósi þess hve lengi forsætisráðherra talaði á sínum tíma á sá sem hér stendur enn þá eftir rúmlega níu klukkutíma.

Mig langar að halda aðeins áfram að lesa upp úr þessari grein, með leyfi forseta:

„Síðar í umræðunni fjallaði ráðherra um þann tíma sem það hefði tekið alþingismenn að ræða um fyrrnefnd þrjú frumvörp auk þjóðlendufrumvarpsins og sagði að þær umræður hefðu tekið samtals um 120 klukkustundir. Þrátt fyrir það horfði Jóhanna framan í þjóðina og segði að hún hefði ekki verið í málþófi.

Jóhanna svaraði þessu með því að gagnrýna ráðherra fyrir það að telja mínúturnar og klukkutímana sem það tæki þingmenn að ræða mikilvæg mál.“ — Hver kannast ekki við það hér úr umræðunni að taldar séu mínúturnar og klukkutímarnir? — „Á sama tíma hefði hann ekkert að segja við það fólk sem hundruðum saman yrði án öryggis í húsnæðismálum þegar frumvarp félagsmálaráðherra um húsnæðismál næði fram að ganga. Sagði hún það til skammar að forsætisráðherra hefði engin skilaboð til þjóðarinnar önnur en þau hvað það tæki stjórnarandstöðuna langan tíma að ræða um þau mál sem henni lægju á hjarta.“

(Gripið fram í: Ertu að mæla málþófinu bót?) Alls ekki. Nú spyr maður sig, frú forseti, og sérstaklega í lok niðurlags þessarar fréttaskýringar hvort hæstv. forsætisráðherra sé búin að gleyma því sem hún sagði þarna og stjórnarþingmenn úr hennar flokki. Þarna fjallaði hæstv. forsætisráðherra einmitt um fólkið í landinu, fólkið sem væri að tapa húsnæðinu. Það er einmitt það sem brennur á fólki í dag. Fólk er að reyna að ná endum saman. Það er þess vegna, frú forseti, sem umræða hefur verið um að breyta dagskrá þingsins. Ég held að það væri mjög jákvætt ef það væri mögulegt.

Áður en við höldum lengra vil ég segja að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum breytingar á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili. Það virðist vera sem stjórnarráðsbreytingar séu eitt helsta gælumál Jóhönnu Sigurðardóttur. Fátt annað virðist komast að. Þetta virðist öll mál eiga að leysa.

Mig langar að lesa upp úr minnihlutaáliti hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þar sem hún rekur mjög vel hversu mikill hringlandaháttur hefur verið á þessum málum það sem af er kjörtímabilinu, með leyfi forseta:

„Nokkur hundruð sjálfstæðar lagabreytingar hafa verið gerðar á kjörtímabilinu, með tilheyrandi kostnaði, á lögum til að innleiða ný nöfn ráðuneyta og þess eru mörg dæmi að sömu stjórnarmálefni hafi á innan við þremur árum heyrt undir ráðuneyti með þremur mismunandi ráðuneytisheitum. Þannig tilheyrðu löggæslumál fyrst dómsmálaráðuneyti, síðan dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og frá síðustu áramótum innanríkisráðuneyti og í frumvarpi því sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi er lagt til að afnema nafn innanríkisráðuneytisins sem og annarra ráðuneyta.“

Þetta er því fjórða breytingin á þessum málaflokki það sem af er kjörtímabilinu, frú forseti. Er nema von þegar þingmenn og allir aðrir hafa fylgst með þeim hringlandahætti sem er búinn að vera á þessum málum, frú forseti, að menn hafi efasemdir um það hvort óhætt sé að veita forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn það vald sem Alþingi hefur þegar haft. Menn eru sammála um að það er ekki jákvætt að vera með þennan gríðarlega hringlandahátt á þessum málaflokki.

Til að varpa ljósi á óákveðni ríkisstjórnarinnar í þessu efni má til gamans geta að á síðasta þingi voru gerðar 193 lagabreytingar til að innleiða orðið innanríkisráðuneyti og innanríkisráðherra. Nú nokkrum mánuðum síðar á að gera 193 lagabreytingar til að afnema þær lagabreytingar sem voru framkvæmda fyrir ekki svo löngu síðan. (Gripið fram í: Atvinnusköpun.) Atvinnusköpun fyrir þingmenn og embættismenn en, frú forseti, það hefur ekkert að gera með aukna verðmætasköpun í landinu.

Það hefur verið mikill ágreiningur um þessi mál og maður hefði ekki talið ósennilegt, hefði verið leitað þverpólitískt eftir því strax að afloknum kosningum með svipuðum hætti og gert var í þingmannanefndinni varðandi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og annað, að menn hefðu getað tekið markvissa umræðu um það hvert bæri að stefna í þessum málum hvað Stjórnarráðið snertir. Menn eru þegar öllu er á botninn hvolft allir sammála um, eða því vil ég í það minnsta trúa, hvað þessi mál snertir að það eigi að vera hægt að vinna þau í mikilli sátt og á breiðari grunni en gert hefur verið.

Frú forseti. Stundum hefur verið talað um að Bjarni Benediktsson eldri hafi verið mjög ákveðinn og ráðríkur maður, en hann gerði sér grein fyrir því á sínum tíma hversu mikilvægt væri að ná víðtækri sátt um þennan málaflokk. Í greinargerð með þingsályktunartillögu sem lögð var fram fyrir um 50 árum síðan er þetta skýrt mjög vel út. Verið var að fjalla um hvernig ætti að koma skipulagi og endurskipulagningu á Stjórnarráðið. Þá var fjallað um hversu mikilvægt það væri að ná víðtækri sátt og að ólíkir stjórnmálaflokkar kæmu að vinnu sem þessari. Það er grunnurinn að öllu starfinu. Þeir sem ráða í dag geta verið komnir í stjórnarandstöðu á morgun. Jafnvel þótt langt sé síðan þetta var þá hefur því verið haldið fram reglubundið síðan hversu mikilvægt er að ná víðtækri sátt um það hvernig við vinnum öll málefni sem tengjast Stjórnarráðinu. Í staðinn fyrir að vinna þetta með þeim hætti er komið fram með tillögur, sem fyrir fram eru í ágreiningi í ríkisstjórn þar sem tveir hæstv. ráðherrar eru hugsanlega andvígir þeim breytingum, til þingflokkanna og þingsins. Svo virðist vera, frú forseti, í málum þar sem auðséð er að eigi að vinna í samvinnu að ríkisstjórnin velji ekki friðinn ef mikill ófriður er í boði. (Gripið fram í: Rétt.) Það er mjög alvarlegt í málum eins og þessu. Það er einmitt þess vegna sem við stöndum í þessum sporum nú og gerðum líka síðast þegar þessi mál voru rædd. Þetta virðist vera hjartans mál hæstv. forsætisráðherra og hún heldur því svo þétt að sér að menn fá ekki að koma að þeirri vinnu, ekki á frumstigum. Hver ætlar að mæla í mót því að skipulag Stjórnarráðsins eigi að vinna á víðari grunni og fleiri eigi að koma því?

Það hafa verið nokkrar umræður, frú forseti, um þetta mál. Ég vil koma aðeins inn á breytingartillögu sem hefur verið lögð fram í þinginu af því að ég hygg að ákveðnir stjórnarliðar muni spyrja út í hana í andsvörum á eftir. Lögð hefur verið fram breytingartillaga til að koma að einhverju leyti til móts við þetta, að því er sagt er, en sú breytingartillaga er á margan hátt mjög gölluð og tekur ekki á stóra vandanum í málinu. Í fyrsta lagi er óvíst hvort hún taki á vandanum. Síðan er það tillagan sjálf, það er mjög óeðlilegt að hún komi fram með þessum hætti, að henni sé hent inn í þingið án þess að hún sé send út til umsagnar án þess að búið sé að ræða hana neitt í nefnd sem einhvers konar heildarlausn á þessum vanda. Ef við skoðum tillöguna sjálfa þá er staðreynd málsins sú að hún felur í sér að það getur komið fram þingsályktunartillaga sem kveður á um ráðuneytaskipanina og málefnaflokkana, þó það sé nokkuð óljóst orðað, og sú tillaga fengi einungis eina umræðu hér í þinginu. Í dag eru þrjár umræður: Málið kemur fram sem lagafrumvarp, það fer í 1. umr., síðan fer málið út til umsagnar, því næst í 2. umr. og 3. umr. Með þessum hætti er ekkert umsagnarferli um þessar breytingar, frú forseti, umsagnaraðilar hafa ekkert um það að segja hvernig ráðuneytaskipan verður háttað.

Frú forseti. Reynslan á þessu kjörtímabili hefur sýnt okkur að þörf hefur verið á því að veita umsögn um þessi mál. Það er mikilvægt fyrir þennan málaflokk, Stjórnarráð Íslands, að það sé mögulegt að veita umsögn um það hvernig Stjórnarráðið sé skipulagt. Við þurfum ekki einu sinni að fara aftur fyrir síðustu kosningar til að rifja upp þegar þingið gerði breytingar á frumvarpi forsætisráðherra um Stjórnarráðið og felldi úr frumvarpinu það sem hæstv. forsætisráðherra hafði lagt til, þ.e. að stofna svokallað atvinnuvegaráðuneyti. Af hverju var það gert? Meðal annars vegna þess að það barst fjöldi umsagna um málið. Fjöldi hagsmunaaðila og fleiri, jafnvel flokksráð annars stjórnarflokksins, lögðust gegn þessum breytingum. Með leyfi forseta, langar mig að lesa upp þá sem lögðust gegn þessu frumvarpi — ég veit ekki hvort þetta er tæmandi listi:

Samtök ungra bænda lögðust gegn sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í atvinnuvegaráðuneyti, aðalfundur Landssambands kúabænda, aðalfundur Landssambands sauðfjárbænda, búnaðarþing 2010, Búnaðarsamband Austurlands, Félag ungra bænda á Austurlandi, Félag ungra bænda á Norðurlandi, stjórn Landssambands smábátaeigenda, flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, annars stjórnarflokksins, sveitarstjórn Skagastrandar, sveitarstjórn Skagafjarðar, Búnaðarsamband Skagfirðinga, Vesturlands, Vestfjarða, Kjalarness, Húnaþings og Stranda, stjórn Bændasamtaka Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband stangveiðifélaga, Landssamband veiðifélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök fiskvinnslustöðva, Sjómannasamband Íslands, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Þetta eru aðilar sem veittu umsögn um stjórnarráðsbreytingar. En ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að veita umsögn um þingsályktunartillöguna í breytingartillögu 1905, sem virðist vera vanhugsuð á mjög margan hátt.

Við skulum gefa okkur það að hæstv. forsætisráðherra sé enn á þeirri skoðun að það þurfi að búa til atvinnuvegaráðuneyti, þá getur hún gert það með frumvarpinu eins og það er óbreytt án þess að ræða við þingið og án þess að ræða við nokkurn þeirra aðila sem höfðu þetta um málið að segja á sínum tíma. Með þessari breytingartillögu getur hún vissulega gert það, hún getur borið það undir þingið í einni umræðu án þess að haft sé samráð við nokkurn utan veggja Alþingis. Er það stefnan, frú forseti? Ég vil í það minnsta ekki stefna þangað. Það kann að vera að hæstv. forsætisráðherra vilji stefna þangað í þessu máli, en ég er ekki tilbúinn að stefna í þá átt að hægt sé að ráðast í breytingar sem auðsjáanlega hafa á þessu kjörtímabili notið mikillar andstöðu hjá öðrum stjórnarflokknum meðal annarra, án þess að nokkur utan veggja Alþingis geti veitt umsögn um málið.

Maður hlýtur að spyrja sig, frú forseti, hvort þetta hafi verið ætlunin og hvort sé með einhverjum hætti hægt að laga þessa breytingartillögu. Það er hægt að laga þessa breytingartillögu með því að láta það gilda að Alþingi þurfi með lagafrumvörpum að fjalla um þessi mál eins og verið hefur. Ég skil ekki af hverju hæstv. forsætisráðherra og núverandi stjórnarmeirihluti sækir það svo fast að fá þessu breytt. Af hverju er svona hættulegt að spyrja Alþingi og fólk utan veggja Alþingis hvernig skipan Stjórnarráðsins á að vera háttað?

Þá kem ég að því af hverju ég vitnaði í frétt frá árinu 1998 áðan þar sem hæstv. forsætisráðherra virðist hafa talið, ef maður les þessa grein, framkvæmdarvaldið hafa beitt sig miklum órétti. En hvað gerist svo? Þegar hæstv. forsætisráðherra er komin í ríkisstjórn, sú sem stóð hér fyrir tíu til tólf árum og gagnrýndi þetta gríðarlega, þegar hún er kominn hinum megin við borðið gerir hún nákvæmlega það sama og hugsar með sama hætti og þeir sem hún gagnrýndi öll þessi ár. Ég held að það sé okkar stærsti vandi við að breyta störfum og venjum á Alþingi að þau sem eru í forustu í ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hafa verið í áratugi á Alþingi og hafa upplifað nákvæmlega það sama og þau eru að gera núna.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Til þess að ná þessu máli (Forseti hringir.) í einhvern annan farveg verðum við einfaldlega að byrja (Forseti hringir.) alveg frá grunni, vinna það á víðari grundvelli og allir (Forseti hringir.) þingflokkar verða að koma að því frá fyrsta degi.



[20:43]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna þess að fram hefur komið að mjög mikið ósamræmi er í skoðunum hv. þingmanna Framsóknarflokks í þessu máli: Hvernig var vinnulagi í þessu máli háttað innan þingflokks Framsóknarflokksins? Ræddu menn ekki saman um tillöguflutning? Er það svo að menn leggi fram breytingartillögur í þinginu án þess að hafa rætt saman og svo kemur bara í ljós í þingsalnum hvort þingmenn Framsóknarflokksins eru sammála eða ekki? Við höfum heyrt af því tíðindi að formaður Framsóknarflokksins borði núna ekkert annað en íslenskan mat en svo virðist að þeir sem ekki eru sammála honum eigi helst að éta það sem úti frýs.



[20:44]
Forseti (Þuríður Backman):

Vegna þessara orða og fleiri sem hafa fallið í dag vill forseti minna hv. þingmenn á að gæta orða sinna í einu og öllu.



[20:44]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt vinnulag í þingflokki framsóknarmanna. Þar eru haldnir reglulegir þingflokksfundir og málin eru rædd. Ég hygg að það sé ekkert við það að athuga. Ég hef ekki orðið var við það þann skamma tíma sem ég hef verið í Framsóknarflokknum.

En úr því að hv. þingmaður spyr út í það hvernig vinnulagið er og hvort menn geti ekki komið fram sem ein heild og annað þá er öllum frjálst að flytja tillögur. Það væri kannski rétt að hv. formaður allsherjarnefndar, úr því að hann er kominn út í það hvernig vinnulag er í þessu máli, rifjaði upp hvernig atkvæðagreiðslan var þegar taka átti þetta mál út úr allsherjarnefnd á sínum tíma og það var fellt í allsherjarnefnd.



[20:45]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti það heldur skrýtin röksemdafærsla hjá hv. þingmanni að réttlæta málþófið í dag með því að vísa í hvernig hlutirnir voru gerðir í gamla daga. Ég er reyndar ekki alveg jafnupptekinn af fortíðinni og gömlu vinnuháttum og hv. þingmaður, ég tel að breyta eigi vinnubrögðum á Alþingi, þjóðin á skilið ný vinnubrögð hér, og þess vegna eigi ekki alltaf að vísa í fortíðina til að sækja sér röksemdir.

Þá þótti mér einnig athugavert að heyra andstöðu hans við sameiningu ráðuneyta sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Hann hefur áhyggjur af 18 starfsmönnum iðnaðarráðuneytisins, að þeir muni tröllríða öllu starfi sjávarútvegs og landbúnaðar, en þarna munu verða á milli 60 og 70 starfsmenn þegar ráðuneytin verða sameinuð.

Mín skoðun er sú að auka þurfi samvinnu milli greina, þvert á greinar. Við sjáum fyrir okkur stórkostlega möguleika þegar nýsköpunarmál, matvæli og ferðaþjónusta, Byggðastofnun, málefni ferðamála og landbúnaðar verða á sama vettvangi. Ég held að þar séu stórkostleg tækifæri fyrir landbúnaðinn, sjávarútveginn og iðnaðinn, ferðaþjónustu, (Forseti hringir.) byggðamál og fleira í sameinuðu sterku ráðuneyti.



[20:46]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að vitna í Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, fyrir að segja að hér færi fram málþóf. Ég var að vitna til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma, að menn hefðu lýðræðislegan rétt til að ræða málin og fara yfir málin. Ég gerði það mjög vel í ræðu minni áðan og náði reyndar ekki að klára allt sem ég ætlaði að fara yfir.

Ég hjó reyndar eftir því þegar hv. þingmaður sagði áðan „þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verður sameinað iðnaðarráðuneytinu og til verður atvinnuvegaráðuneyti“. Þetta er akkúrat andinn sem er í gangi. Í dag er ekki búið að sameina þessi ráðuneyti vegna þess að Alþingi Íslendinga tók þetta út úr frumvarpinu á sínum tíma en hæstv. forsætisráðherra og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar sættir sig ekki við þá niðurstöðu og þess vegna kemur þetta frumvarp fram. Það er einmitt vegna þess að hugsunarhátturinn er sá: þegar þetta verður sameinað. Því miður er ekki vilji til þess í dag á Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) og þess vegna þarf hæstv. forsætisráðherra að fá þetta vald. Þetta skýrir mjög vel (Forseti hringir.) af hverju hv. þingmaður styður málið svo mjög.



[20:48]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir mjög fína ræðu þar sem hann fór vel yfir þetta mál og rakti meðal annars ástæður þess af hverju við erum sammála, ég og hann, um að það sé ekki vænlegt að flytja valdið um skipan Stjórnarráðsins frá Alþingi til forsætisráðherra.

Eins og þingmaðurinn sagði snýst þetta um að hafa tækifæri til að hlusta á umsagnir, bæði á þinginu og frá umsagnaraðilum, og það er mjög mikilvægt að hlusta á þetta allt. Einnig rakti hann vel hversu miklar breytingar hafa verið gerðar í gegnum tíðina þrátt fyrir að ríkisstjórnir hvers tíma hafi þurft (Forseti hringir.) að koma hingað og fá leyfi frá Alþingi. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Hvort telur hann að þessar breytingar, verði þær samþykktar, (Forseti hringir.) feli í sér lausung eða formfestu?



[20:49]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í ljósi þess hversu áhugasamur hæstv. forsætisráðherra hefur verið um að hringla í Stjórnarráðinu í tíma og ótíma og í ljósi þess hversu miklar breytingar hafa verið gerðar, ómarkvissar, óskýrar og með litla framtíðarsýn, hef ég sannfærst enn meira um að það sé beinlínis hættulegt að hæstv. forsætisráðherra fái það vald að geta hringlað með þetta allt saman hægri og vinstri án þess að bera það undir Alþingi, án þess að bera það undir nokkurn utan Stjórnarráðsins. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur, einkum og sér í lagi meðan þessi hæstv. forsætisráðherra er starfandi, að það er hættulegt. Það á einnig við um alla sem eiga eftir að (Forseti hringir.) koma á eftir henni.



[20:50]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti biður hv. þingmenn að ávarpa þingmenn og ráðherra með réttum hætti.



[20:50]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil það á svari hv. þingmanns að honum finnist ekki felast í þessu mikil aukning á formfestu en það var akkúrat gagnrýnt mest í kjölfar hrunsins. Það var ekki það að það vantaði meiri sveigjanleika og meira vald til forsætisráðherra, heldur að skortur á formfestu í stjórnsýslunni hefði verið meðal þess sem kom okkur í koll.

Vegna orða hv. þingmanns um núverandi forsætisráðherra, við þurfum reyndar ekki að ræða þetta út frá einum forsætisráðherra, skulum við hugsa okkur að þetta væri komið á og þá spyr ég: Telur hv. þingmaður að einhver ríkisstjórn sem komin væri með þetta vald mundi einhvern tímann gefa það frá sér? Telur þingmaðurinn einhverjar líkur á því að Alþingi (Forseti hringir.) mundi endurheimta þetta vald (Forseti hringir.) sem frá því yrði tekið með þessari lagabreytingu?



[20:52]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að áætla hvað framtíðin ber í skauti sér en ég hefði verulegar áhyggjur af því að ríkisstjórn sem væri komin með þetta vald mundi ekki láta það frá sér aftur.

Skortur á formfestu hefur einmitt verið gagnrýndur mjög mikið, m.a. af nokkrum fulltrúum úr þingmannanefndinni. Hv. þm. Atli Gíslason talaði um það við 1. umr. málsins, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson líka. Þetta hefur komið fram hjá flestum þessara þingmanna. Einu þingmennirnir sem voru í þingmannanefndinni og hafa ekki talað svona eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar — og voru að loka dyrunum hér til hliðar af því að þeim líkaði ekki að horfast í augu við staðreyndir.



[20:53]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er búinn að svara fyrri spurningunni sem ég ætlaði að beina til hans, hvort það sé rétt sem getur um bæði í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans að þetta frumvarp sé byggt á skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. Það sem mig langar þá til að spyrja hv. þingmann er um það sem kemur fram á síðu 15 í greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Það að einstakir ráðherra sitji í skjóli forsætisráðherra birtist í því að forsætisráðherra hefur stjórnskipulegt vald til að gera tillögu til forseta um að einstakir ráðherrar verði leystir frá embætti. Tillögu um slíkt þarf þó fyrst að bera upp í ríkisstjórn eins og önnur málefni sem bera þarf undir forseta til staðfestingar. Forsætisráðherra er þó ekki bundinn af afstöðu ríkisstjórnar til tillögunnar en þarf þó jafnan að gæta að því að ákvörðun kann að hafa áhrif á afstöðu Alþingis til ríkisstjórnarinnar …“

Það sem hér er verið að segja, frú forseti, er að forsætisráðherra getur tekið einstök málefni eins og Evrópusambandið undan landbúnaðarráðuneytinu, tekið það til sín í forsætisráðuneytið og tekið svo ákvörðun sjálfur.



[20:54]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt mjög við þetta frumvarp. Það eru ekki einungis málefni sem tengjast Evrópusambandinu. Við getum tekið málefni sem hefur verið ágreiningur um, til að mynda kaup jarðarinnar Grímsstaðir á Fjöllum. Hvernig færi með þá ákvörðun þar sem hæstv. innanríkisráðherra ber ábyrgð á þeim málaflokki? Ef hæstv. forsætisráðherra er honum andsnúinn, getur hún þá tekið þennan málaflokk undan? Er hægt að gera þetta í fleiri málum? Það eina sem virðist hamla þessu er að ríkisstjórnin verður að njóta áfram meirihlutastuðnings á Alþingi.

Það er gríðarlegt áhyggjuefni að við skulum vera að stíga þetta skref. Þetta mun leiða til þess að allir ráðherrar sitji í skjóli forsætisráðherra og forsætisráðherra verði eins konar yfirmaður með litla þjóna í kringum sig sem (Forseti hringir.) standa og sitja eins og hann vill.



[20:55]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur svaraði hv. þingmaður spurningu minni fyrir fram. Ég ætlaði að spyrja hvort það yrði þá ekki þannig að allir ráðherrar aðrir en forsætisráðherra væru undir ógnarstjórn þar sem hann getur hvenær sem er vikið þeim úr embætti, tekið frá þeim verkefni og ef þeir ekki haga sér nákvæmlega eins og hann vill missa þeir viðkomandi verkefni til annarra ráðherra, til forsætisráðherra sjálfs eða verða leystir frá störfum. Verður þetta ekki til þess að hér verður byggð upp ákveðin ógnarstjórn? Mér finnst að þeir stjórnarþingmenn sem styðja þetta frumvarp þurfi að svara þessari spurningu en ekki hv. þingmaður. Hann er stjórnarandstæðingur eins og kunnugt er.



[20:56]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni með að það væri mjög fróðlegt að fleiri sem eru fylgjandi þessu máli og tala um mikilvægi þess að það verði samþykkt tækju þátt í þessari umræðu og færu meðal annars yfir þau atriði sem hafa verið gagnrýnd. Hver er hugmyndafræðin á bak við þetta? Telja menn eðlilegt að færa einni manneskju, hvort sem það er núverandi hæstv. forsætisráðherra eða einhver sem á eftir kann að koma, allt þetta vald? Það kann að vera að hv. þingmaður verði orðinn forsætisráðherra að einhverjum árum liðnum. Telja menn eðlilegt að einn maður hafi þetta vald, hvort sem það er hv. þingmaður, núverandi hæstv. forsætisráðherra eða einhver annar? Ekki ég. Og mér finnst með ólíkindum að menn ætli í blindni að samþykkja þetta.



[20:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og þau nefndarálit sem dreift hefur verið frá meiri hluta og tveimur minni hlutum í hv. allsherjarnefnd.

Eins og ég hef margoft sagt og vil undirstrika það að margt í frumvarpinu er til bóta. Verið er að skerpa á vinnuferlum, verið er að tryggja skráningar o.s.frv., margt af því sem hefur farið úrskeiðis. Svo ætla menn að auka sveigjanleika. Menn ætla að auka sveigjanleikann, ég er líka hlynntur því. Ég er hlynntur því að sveigjanleikinn sé aukinn, en menn ganga hættulega langt. Ég er næstum fullviss um að menn hafi ekki áttað sig á því hvað þeir eru í rauninni að gera. Ég fullyrði það.

Ég hef beðið menn um að máta þetta frumvarp við sterka einstaklinga sem við þekkjum úr fortíðinni, ákveðna einstaklinga, og athuga hvernig þeir mundu bregðast við. Þá var kallað frammí á sínum tíma þegar ég hélt ræðuna að þetta hefði nú verið gert engu að síður. En í hvaða stöðu er Alþingi ef menn eru með einræðistilburði með stuðningi í lögum, frú forseti? Mér líst illa á það.

Þegar frumvarpið er lesið, maður þarf ekki að lesa nema fyrstu greinarnar sem eru ekkert voðalega langar, eru í því skýr skilaboð um að forsætisráðherra, hver sem hann verður í framtíðinni — mér finnst stundum eins og menn séu að vinna hérna með einhverja skammtíma- eða bráðabirgðalög. Þetta er frumvarp sem á að gilda í 30, 40 ár, kannski 100 ár. Allir þeir einstaklingar sem munu verða forsætisráðherrar á þeim tíma fá með frumvarpi þessu, ef að lögum verður, ómæld völd. Og það sem meira er, þeir fá valdastuðning til að hóta og kúga. Ég er ekki viss um að menn hafi áttað sig á því hvað þetta þýðir.

Ég er ánægður að sjá að hér eru fleiri stjórnarliðar mættir og fá þá kannski að heyra eitthvað annað. Ég bíð mjög spenntur eftir því að heyra í hv. þm. Atla Gíslasyni sem hér talar á eftir. Ég bíð verulega spenntur eftir því vegna þess að í frumvarpinu er margoft vitnað til þess að þetta byggi á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 7 stendur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að niðurstöður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru áfellisdómur yfir stjórnsýslu efnahagsmála í landinu. Hrunið og atburðarásin í aðdraganda þess reyndi mjög á getu stjórnsýslunnar til viðbragða, samhæfingar, eftirlits, stefnumótunar og skynsamlegrar ákvörðunartöku. Við slíkar aðstæður er viðbúið að veikustu hlekkirnir í keðjunni gefi sig. Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má ráða að helsti veikleiki íslenskar stjórnsýslu hafi verið skortur á samhæfingu þeirra stjórnvalda sem störfuðu að skyldum verkefnum á sviði efnahagsmála.“

Síðan segir að þessi skýrsla „nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands, Samhent stjórnsýsla, er byggð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu starfshóps forsætisráðherra og skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Núna bíð ég mjög spenntur eftir því hvort formaður þingmannanefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar geti staðfest það að frumvarpið sé í samræmi við og byggt á því starfi. Vegna þess að sú nefnd sagði að Alþingi væri allt of veikt og framkvæmdarvaldið væri of sterkt og foringjaræðið væri of mikið. Það kom fram í nefndinni.

Þess vegna bíð ég mjög spenntur eftir því vegna þess að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var reyndar í þingmannanefndinni, hefur talað hér og sagt að þetta sé ekki í samræmi við niðurstöðu þingmannanefndarinnar og þetta auki vald framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis, öfugt við það sem þingmannanefndin lagði til og var samþykkt hér þingsályktun, 63:0, af Alþingi.

Ég fór í gegnum þessi atriði. Ég vildi gjarnan að hv. þingmenn læsu fyrstu tíu greinarnar. Ég skora á hv. þingmenn að lesa þær. Þetta er ein síða í smáu broti. Það stendur alls staðar að það skuli vera forsætisráðherra sem fari til forseta, þ.e. „fjöldi ráðuneyta innan þeirra marka skal ákveðinn með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“ Forsætisráðherra ákveði sem sagt fjölda ráðuneyta hvenær sem er. Hann gæti bara skipt því út — þetta er mjög mikill sveigjanleiki. En það er forsætisráðherra sem ræður þessu. Hver einasti ráðherra í ráðuneyti hans veit að þetta vald hefur forsætisráðherra hverju sinni. Það er þá eins gott að vera hlýðinn og góður við forsætisráðherra.

Þetta frumvarp er eins konar — í hundaskóla mundi maður, frú forseti, ég ætla nú ekki að líkja þessu saman, en þetta er svona hlýðniákvæði, frú forseti.

Síðan er 4. gr., hún er nú öllu verri því að þar stendur — það er reyndar búið að breyta henni með breytingartillögum, maður þarf því dálítið að vara sig. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti“ — þetta heyrir undir ráðuneyti, mundi ég segja á íslensku — „eftir ákvæðum forsetaúrskurðar“ — forsetinn úrskurðar — „sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Sem sagt, forsætisráðherra þarf aðeins að gera sér ferð til forsetans og biðja hann um að kveða upp forsetaúrskurð, sem hann gerir að sjálfsögðu því að honum ber að gera það samkvæmt stjórnarskránni, um að flytja ákveðið málefni frá ákveðnu ráðuneyti, þ.e. ráðherrar vita það hér með, eftir samþykkt þessa frumvarps, að ef þeir eru eitthvað óþekkir eða í einstökum málum kemur upp deila milli þeirra og forsætisráðherra þá er það forsætisráðherra sem alltaf ræður. Þá er bara eins gott að vera hlýðinn strax í byrjun.

Ég hef nefnt hérna Evrópusambandið, þ.e. afstöðu hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til Evrópusambandsins og ég nefndi jörðina sem verið er að selja á Norðausturlandi. Hægt er að hugsa sér mörg tilfelli þar sem forsætisráðherra þarf ekki nema eitt símtal til viðkomandi ráðherra og segja: Ef þú gerir þetta ekki eins og ég vil hafa það tek ég málefnin frá þér með þessu ákvæði.

Það sem meira er, frú forseti, í 5. gr. er þessi þvingun ítrekuð með því að segja: „Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.“ Ef einhver er með eitthvert múður, einhver ráðherra í einhverju einu máli, hvort sem það er Evrópusambandið eða jörðin fyrir norðan, fangelsið eða hvað sem er, og forsætisráðherra er ekki sáttur við það segir hann: Nú ætla ég að flytja það og hinn ráðherrann sem tekur við því afgreiðir málið, hann klárar það samkvæmt 5. gr. Ef forsætisráðherra finnur ekki nógu hlýðinn ráðherra í ráðuneyti sínu flytur hann það til sjálfs sín á meðan hann úrskurðar, svo flytur hann aftur til baka.

Ég held að hv. þingmenn sem standa að frumvarpinu og styðja það — ég vil sérstaklega höfða til hv. þm. Róberts Marshalls sem hlýðir á mál mitt — verði að svara því hvort þetta eigi virkilega að vera svona, hvort sveigjanleikinn eigi að vera þannig að ein persóna, forsætisráðherra, ráði öllu í ríkisstjórninni. Öllu. Hvort þetta sé virkilega þannig að þetta eigi að vera eins manns ráðuneyti og engin önnur sjónarmið komist að en sjónarmið hæstv. forsætisráðherra. Ég hef spurt um þetta en ég hef ekki enn fengið svar við því, hv. þingmaður hefur ekki svarað þessu.

Sú breytingartillaga sem fram hefur komið lagar þetta að einhverju leyti, en bara með því að hafa eina umræðu, þannig að það er engin umræða í þjóðfélaginu. Það eru engar umsagnir, engir gestir og málinu ekki vísað til nefndar. Þetta verður því mjög fátækleg umræða og verður allt of lítil.

Ég held að menn ættu að reyna að finna einhvern flöt á því að leysa málið einhvern veginn, t.d. með því að hafa meiri umræðu, umsagnir og svoleiðis, þannig að forsætisráðherra geti ekki gert þetta upp á sitt einsdæmi.



[21:08]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú liggur ljóst fyrir að frumvarpið felur í sér flutning á valdi sem í dag er hjá Alþingi yfir til hæstv. forsætisráðherra. Það er sú gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi neitað því, en hún hefur þó viðurkennt það með því að segja að verið sé að koma til móts við þetta með ákveðinni breytingartillögu sem hins vegar gengur ekki upp eins og ég rakti í ræðu minni áðan.

Það sem mig langar að beina til hv. þingmanns er hvað hann telji að valdi því að hæstv. forsætisráðherra skuli sækja það svo stíft að ná í gegn á Alþingi Íslendinga árið 2011 tillögu sem felur í sér þennan gríðarlega valdaflutning frá Alþingi til hennar sjálfrar? Hvað er það sem býr þarna að baki?



[21:09]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér og ég trúi því varla að sú niðurstaða sé rétt sem ég kemst að. Hún er sú að menn ætla að flýta umsókninni um Evrópusambandið með því að taka það málefni frá þeim óþekka, óþæga ráðherra sem með það fer og flytja það yfir til forsætisráðuneytisins eða til efnahagsráðuneytisins, þar sem eru ráðherrar sem hafa mikinn áhuga á því máli.

Það sem ég held að þetta frumvarp endurspegli númer eitt, tvö og þrjú er að núverandi ríkisstjórn er ekki með eina stefnu. Hún er ekki starfhæf, hún er með tvær stefnur fyrir þjóðina. Þess vegna gengur okkur svona óskaplega illa hér á landi. Annar hluti ríkisstjórnarinnar vill ganga í Evrópusambandið og hinn vill það alls ekki og vill gera eitthvað allt annað. Það endurspeglast í frumvarpinu, að menn ætla sér að keyra svona breytingar í gegn þrátt fyrir að (Forseti hringir.) stór hluti þingsins sé á móti þeim.



[21:10]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, þá höfum við, ég og hv. þingmaður, báðir velt því fyrir okkur hvað búi þarna að baki. Hver er hugsunin á bak við það að flytja slíkt vald frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra? Það hlýtur að vera eitthvað í áttina við það sem hv. þingmaður nefnir, að flytja málaflokka frá ákveðnum ráðherrum til ráðherra sem eru sammála hæstv. forsætisráðherra. Það kann vel að vera. Eftir það sem á undan er gengið síðustu tvö ár, þá trúir maður því, því miður. En það er orðið mjög alvarlegt ástand þegar svo er komið að hæstv. forsætisráðherra finnist það sjálfsagður hlutur að flytja vald frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess sem á undan er gengið og ef maður skoðar forsögu hæstv. forsætisráðherra, hvernig hún hefur talað (Forseti hringir.) í gegnum tíðina.



[21:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef upplifað ýmislegt í tíð hæstv. ríkisstjórnar, eins og t.d. samþykkt umsóknarferlisins um Evrópusambandið. Það var ótrúleg samþykkt. Þær ræður sem hæstv. ráðherrar héldu, ráðherra Vinstri grænna sérstaklega, eru ótrúlegar aflestrar. Það var samt samþykkt. Þá komst á hið fræga hugtak „kattasmölun“. Sama er með samþykkt á Icesave-samningunum í tvígang. Í tvígang fékk ríkisstjórnin samþykktar hugmyndir sínar um lausn á Icesave sem þjóðin kastaði fyrir róða sem betur fer, en hefðu kostað óhemjufé í öllum niðurskurðinum, í öllum skattahækkununum. Og þá hefði staða ríkissjóðs verið miklu, miklu verri í dag ef vilji stjórnarflokkanna hefði gengið í gegn, en það var líka samþykkt í tvígang.



[21:12]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans.

Í 27. gr. frumvarpsins stendur að lögin öðlist þegar gildi og að ráða megi aðstoðarmenn eftir næstu kosningar. Í breytingartillögum meiri hlutans er þetta hins vegar fellt á brott. Því er gert er ráð fyrir að fjölga megi aðstoðarmönnum strax.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar: Telur þingmaðurinn við hæfi þegar verið er að spara útgjöld ríkisins — jafnvel þó að þörf sé á því að styrkja framkvæmdarvaldið að einhverju leyti en ekki síður Alþingi, sem er nú enn meiri þörf á að gera — að auka á einu bretti, með samþykkt frumvarpsins ef af verður, útgjöld ríkissjóðs um 100 millj. kr. að lágmarki?



[21:13]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er svo umhugað um ríkissjóð að mér finnst það alls ekki koma til greina að menn auki útgjöld ríkissjóðs með þessum hætti núna þegar verið er að skera niður. Þá mundi þurfa að segja upp fleira fólki og hækka skatta enn frekar. Ef þetta frumvarp á að gefa merki um að nú eigi að fara að gusa út 100 milljónum á sama tíma þá finnst mér það ekki við hæfi.



[21:14]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ekki við hæfi eins og málum er háttað í dag. Það virðist hins vegar vera ákveðinn og einbeittur vilji meiri hlutans að ná því í gegn að mega ráða til sín fleiri aðstoðarmenn sem kosta um 100 milljónir í viðbót samkvæmt því mati sem fjármálaráðuneytið gerir. Hins vegar hafa verið uppi vangaveltur um hvort sú tala sé hærri en þarna er nefnd.

Við höfum stundum verið að setja hlutina í samhengi. Ef ég man rétt væri hægt að tryggja Kvikmyndaskólann og rekstur hans fyrir 60–70 milljónir, en hér er verið að tala um 100 milljónir. Hvað ætli sé hægt að minnka og lækka þann niðurskurð sem er áætlaður t.d. hjá Heilbrigðisstofnuninni á Húsavík ef þessar 100 milljónir færu nú þangað en ekki inn í framkvæmdarvaldið? Það er allt í lagi að setja hlutina í þetta samhengi til að sjá hvers konar firra er í gangi með þessu frumvarpi.



[21:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sit í nefnd um breytingu á almannatryggingalögum og þar er sífellt verið að segja: Breytingin má ekki leiða til útgjalda. Hún má ekki leiða til útgjalda til handa öryrkjum og öldruðum. Þess vegna skýtur það skökku við, frú forseti, að lesa tillögur um að auka útgjöldin um 100 milljónir á sama tíma og sagt er út um allt: Það eru ekki til peningar. Það eru ekki til peningar í þetta og það eru ekki til peningar í hitt. En með þessu er verið að auka pólitískt vægi í ráðuneytunum, ekki faglegt, heldur pólitískt vægi, því að aðstoðarmenn ráðherra verða væntanlega allir stjórnmálasinnaðir og með sömu stefnu og ráðherrann, og koma og fara með ráðherrum um alla framtíð.



[21:16]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er gamall rekstrarmaður og mig langar til að spyrja hann út frá því: Teldi hann eðlilegt að í stjórn fyrirtækis sem glímir við aðsteðjandi vanda þyrfti að kalla til hluthafafundar í hvert skipti sem hún skipti með sér verkum og vildi breyta starfsháttum sínum eða laga sig að verkefnum sem upp kunna að koma, stofna nýjar skrifstofur o.s.frv.? Ætti þá í hvert skipti í fyrirtækinu að kalla til hluthafafundar til þess að fá atkvæðagreiðslu um þær breytingar? Eða mundi ekki duga fyrir stjórnina og forstjóra fyrirtækisins í þessu ímyndaða dæmi að hafa vitneskju um það að hann væri með meiri hluta hluthafa á bak við sig?



[21:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var sérstaklega skemmtilegt dæmi. Það er nefnilega þannig að stjórnin er kosin af hluthafafundi. Henni verður ekki breytt nema með nýjum félagsfundi. Hér er verið að segja að einn aðili — það er eins og ef hluthafafundur mundi ráða einn mann og hann verði stjórnarformaður og hann mundi bara ráða restina af stjórninni, mundi síðan reka fyrirtækið eins og honum dytti í hug án nokkurra reglna eða nokkurra fyrirmæla frá hluthafafundi. Þetta er nefnilega akkúrat það sem hluthafafundur gerir. Hann ræður heila stjórn og hann setur henni meira að segja ákveðnar reglur, t.d. um útborgun launa og annað slíkt. Þetta er mjög góð samlíking. Þetta er einmitt það sem ætti að gera, að hluthafafundurinn, Alþingi, ætti að hafa meiri völd.

Hins vegar er ég alveg sammála því sem er frumvarpinu, þ.e. meiningin er að auka sveigjanleikann, en ég vil líka koma á „teamwork“ hjá ríkisstjórninni þannig að hún sé með eina stefnu en ekki þrjár eða fjórar.



[21:18]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Svo ég skýri spurninguna, hv. forseti, fyrir hv. þingmanni. Verkaskipting innan fyrirtækisins — ætti hún að fara í atkvæðagreiðslu á hluthafafundi?



[21:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Já, það er einmitt það sem gerist að þegar fyrirtæki ætlar t.d. að stofna ný hlutafélög eða gera eitthvað annað, meiri háttar hluti, þá fer það fyrir hluthafafund. Þannig vinna menn yfirleitt. Stjórn í fyrirtæki mundi aldrei voga sér að gera eitthvað sem hluthafafundurinn væri ekki sáttur við (Gripið fram í: Akkúrat.) vegna þess að hluthafafundurinn er hinn endanlegi aðili sem ræður. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Það er einmitt þess vegna sem við viljum að Alþingi komi að þessum stóru línum, hversu margir ráðherrar eru, hversu margir eru í stjórn t.d. (Gripið fram í: Það er búið að bjóða það.) Það er búið að bjóða það, já, en það er enn þá of fátæklegt. Það má vel vera að menn finni á þessu lausn, ég er ekki að segja það.

Ég segi enn og aftur: Það er margt gott í frumvarpinu. Ákveðinn sveigjanleiki er tekinn upp. Margt er gott, en menn mega ekki búa til svona einræði, frú forseti. Við getum ekki ráðið einn mann á hluthafafundi og hann bara geri það sem honum dettur í hug, hefur tíu, fimm eða þrjá stjórnarmenn og stofnar fyrirtæki (Forseti hringir.) á hinn veginn.



[21:20]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að heyra viðhorf þingmannsins til þeirrar 180° breytingar sem orðið hefur á stefnu Framsóknarflokksins í málinu. Skýrsla stjórnarráðsnefndar flokksins lagði fram þær tillögur um að ríkisstjórnin ætti sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn, að unnt væri að breyta samsetningu og fjölda og heitum ráðuneyta og að samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta væri ekki bundinn í lögum.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru sammála þessari túlkun stjórnarráðsnefndar flokksins sem kemur úr grasrótinni og er samþykkt í stofnunum flokksins, en stór hluti þingflokksins víkur algerlega af stefnunni.

Er hv. þingmaður ekki sammála þeirri skoðun minni að þetta sýni það og opinberi í raun og veru stefnuleysi Framsóknarflokksins í málinu þegar þingflokkurinn ákveður að svíkja grasrótina með jafnglögglegum hætti og hér hefur átt sér stað?



[21:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var undarleg spurning. Ég hef aldrei verið í Framsóknarflokknum og ætla mér ekki að ganga í hann. (Gripið fram í: Nú?) Mér kemur eiginlega ekkert við hvaða stefnu þeir hafa. Ég hef frekar grun um að hv. þingmaður hafi spurt mig þessarar spurningar til að koma þessu að án þess að Framsóknarflokkurinn gæti svarað. Mér þætti miklu eðlilegra að hv. þingmaður spyrði framsóknarmenn að þessu eða formann þingflokksins þegar hann fer í ræðustól sem ég reikna með að verði fljótlega. (Gripið fram í: Hvað finnst þér um þetta?) Ég á ekki að hafa neina skoðun á því frekar en ég hafi skoðun á Samfylkingunni. Ég ætla að vona að menn vilji ekki heyra skoðun mína á Samfylkingunni því að hún mundi jafnvel valda hérna bjölluhljómi. (Gripið fram í: Þú hefur …) Það mundi valda bjölluhljómi.

Ég sakna þess hins vegar að heyra í hv. þingmönnum Vinstri grænna. Það heyrist allt of lítið í þeim. Ég vildi gjarnan heyra sérstaklega hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, þann hv. þingmann segja skoðun sína á frumvarpinu.



[21:22]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil segja við hv. þm. Magnús Orra Schram að ég mun svara þeim spurningum sem hann mun sjálfsagt spyrja mig um í andsvari, og öllum öðrum spurningum er lúta að Framsóknarflokknum, með glöðu geði á eftir.

Ég vil þó segja eitt, frú forseti, að efnisinnihald frumvarpsins verður sífellt sérkennilegra þegar maður fer að lesa það saman við eldri lögin. Maður sér að verið er að breyta orðalagi, og setja nýja merkingu í greinarnar. Ég vil meina að það sé kannski svolítið verið að reyna að svindla ákveðnum hlutum fram hjá okkur. Í þeim lögum sem í gildi eru í dag stendur í 14. gr., með leyfi forseta:

„Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta.“

Í þeim er nefnilega gert ráð fyrir því að annað fyrirkomulag sé á því en í þessu frumvarpi, þar stendur bara:

„Nú eru stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta.“

Þetta þýðir að það er væntanlega búið að gera ráð fyrir því að einn einstaklingur hafi meira um þetta að segja eða geti jafnvel flutt málin þarna á milli.

Ég vil ítreka það sem ég kom inn á í andsvari áðan, að mér finnst skjóta skökku við að sækjast eftir auknum fjárútlátum til framkvæmdarvaldsins, um 100 millj. kr., þegar alls staðar vantar fjármuni, alls staðar vantar peninga. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði frá reynslu sinni í endurskoðunarnefnd almannatrygginga þar sem ekki er hægt að auka fjárútlát vegna þess að fjármuni vantar. Svo er kveðið á um það í þessu frumvarpi að framkvæmdarvaldið geti tekið til sín 100 milljónir extra til að fjármagna aðstoðarmenn. Þá er ég ekki að gagnrýna að hugsanlega þurfi að fjölga aðstoðarmönnum í ráðuneytum. Það er svolítið kitlandi hugmynd sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér að aðstoðarmenn og ákveðnir aðilar í Stjórnarráðinu fari bara með ráðherrum inn og út aftur. Mér finnst við þurfa að velta því fyrir okkur hvort það sé heppilegt fyrirkomulag á Íslandi. Ekki slá það út af borðinu, alls ekki.

Ég geld mikinn varhuga við þeirri miklu áherslu og offorsi við að ná þessu í gegnum þingið, og það setur okkur að sjálfsögðu í ákveðnar stellingar, þegar það hefur nákvæmlega enga þýðingu í raun fyrir þau verkefni sem við erum að fást við í dag á Alþingi eða hjá framkvæmdarvaldinu. Þetta snertir ekki heimilin, stöðu þeirra, eða fyrirtækin á nokkurn einasta hátt, kemur því ekki neitt við. Það er verið að auka völd forsætisráðherra. Verið er að draga úr formfestu þegar þarf að auka hana, og auka sveigjanleika. Það getur vel verið að nauðsynlegt sé að auka sveigjanleikann, en er þá ekki rétt að gera það öðruvísi en með því að færa einum ráðherra, sama hver það er á hverjum tíma, allt þetta vald?

Ég ætla að fara yfir í annað, frú forseti, þannig að ég brenni ekki inni á tíma með það. Menn hafa rætt hér töluvert um Framsóknarflokkinn og stefnu hans. Það er alveg rétt að árin 2005–2007 fór vinnuhópur sem skipaður hafði verið, yfir hvað Framsóknarflokkurinn vildi leggja til varðandi breytingar á Stjórnarráðinu. Sá hópur skilaði af sér fyrir árið 2007, að mig minnir. Hluti af þeim tillögum, einungis hluti, áttum okkur á því, rataði svo inn í stefnuskrá á flokksþingi 2009. Það er hins vegar þannig, frú forseti, að árið 2011 er aftur flokksþing í Framsóknarflokknum. Þá er samþykkt ný stefna. Ég bið hv. þingmenn að hlusta á þetta: Árið 2011 er samþykkt ný stefna. Í allri þeirri stefnuskrá er hvergi minnst einu orði á Stjórnarráðið, ekki einu orði. Því miður er sá misskilningur uppi, bæði meðal ákveðinna þingmanna Framsóknarflokksins og stjórnarliða, að sú stefna gildi enn.

Ég ætla að lesa hérna, frú forseti, upp úr dagblaði. Það er verið að vitna í flokksþing Framsóknarflokksins:

„Flokksþingið skorar á ríkisstjórn og Alþingi að styðja með hagkvæmum lánum og á annan hátt aukningu og endurbyggingu ullariðnaðarins í landinu og telur jafnframt sjálfsagt að Samband íslenskra samvinnufélaga hafi áfram forustu í framkvæmdum þessa iðnaðar.“

Þetta hefur aldrei verið afnumið úr samþykktum Framsóknarflokksins. Dettur einhverjum í hug að þetta gildi enn? Dettur einhverjum í hug að samþykkt frá 1946 sé í gildi af því hún var ekki afnumin sérstaklega?

Svo stendur hér. Þetta er nefnilega svolítið áhugavert í ljósi aðstæðna í dag:

„Að hafa öflugt eftirlit með gjaldeyrisversluninni og reisa skorður gegn fjárflótta.“

Í dag eru gjaldeyrishöft. Dettur einhverjum í hug að Framsóknarflokkurinn sé með sömu stefnu þegar kemur að gjaldeyrishöftum? Hafa menn heyrt það hér? Hafa menn heyrt það í þingræðum? Ég bið nú bara hv. þingmenn að vera ekki að núa fólki upp úr hlutum sem eru klárlega misskilningur.

Hér hefur líka verið spurt um hvernig þingflokksfundir Framsóknarflokksins fari fram. Þeir fara fram þannig að málin eru rædd. Það breytir því þó ekki, frú forseti, að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa stjórnarskrárbundinn rétt til að flytja þingmál. Þessi tillaga var ekki rædd í þingflokki framsóknarmanna, því miður, hún var bara flutt hér og það er réttur þeirra sem flytja tillöguna. Við höfum ýmsar skoðanir á henni. Það er nú ekki eins og að sama skoðun hafi verið hér hjá öllum flokkum á Alþingi síðan við komum á þing. Það er bara þannig.

Og að halda því fram að stuðningur við ullariðnaðinn frá 1946 eigi sér enn stoð í stefnuskrá Framsóknarflokksins af því hann var ekki sérstaklega afnuminn, er algjörlega snargalið. Ég segi það nú bara.

En hins vegar samþykkti Framsóknarflokkurinn nýja stefnuskrá á síðasta flokksþingi sem mikið hefur verið fjallað um og mikið tekið eftir. Þar varð mikil grundvallarbreyting í einu stærsta málinu. Ég hugsa að það sé hvað mest að pirra þá samfylkingarþingmenn sem hér draga upp ranga mynd af því sem er að gerast hjá framsóknarmönnum, að við breyttum um stefnu í Evrópusambandsmálum. Við breyttum um stefnu. Framsóknarflokkurinn ályktaði að Íslandi væri best borgið utan Evrópusambandsins. Algjör viðsnúningur varð í þeirri stefnu hjá Framsóknarflokknum. Það er kannski að pirra hv. þingmenn Samfylkingarinnar þegar þeir ræða þessi mál. En ég skal með glöðu geði svara fleiri spurningum sem spretta af þessari miklu umhyggju fyrir Framsóknarflokkinn.

Ég er svo sem ekkert hissa á því að stjórnarliðar reyni að höggva í Framsóknarflokkinn sem hefur vaxið með hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri sem við höfum séð. Það er svo komið að Framsóknarflokkurinn er aftur orðinn stærri heldur en Vinstri græn eða gamla Alþýðubandalagið og mun sjálfsagt verða það áfram. Samfylkingin á vitanlega í mikilli vök að verjast eins og við sjáum líka. Það er eðlilegt að menn taki út reiði sína og bræði á öðrum hér í ræðustól.

Varðandi þetta frumvarp er alveg ljóst að miklu meira þarf að fjalla um það en gert hefur verið. Alltaf eru að koma upp nýjar hliðar og ný atriði í því. Ég vil á þessum síðustu mínútum, frú forseti, koma inn á 18. gr. Ég hef aðeins minnst á hana áður og ég held að það sé mikilvægt að fá skýringar á henni. Ég óska eftir því að hv. þingmenn stjórnarliðsins sem eru í salnum og flytja hér ræður eða koma í andsvör hjálpi nú til og svari einhverjum af þeim spurningum sem beint er til þeirra. Hvað þýðir 18. gr. nákvæmlega? Hvernig á að setja aðstoðarmanni ráðherra embættisbréf þegar starf aðstoðarmanns ráðherra felst í nánast öllu því sem ráðherrann segir honum að gera? Það er nánast þannig, ég segi ekki að aðstoðarmaður mundi gera hvað sem er, en svo opið er starfið, nótt sem dag. Þess vegna þarf að skýra þetta og það hefur ekki verið gert. Fleiri þáttum þurfum við að kalla eftir.

Ég vil þó taka fram, frú forseti, vegna þeirrar tillögu sem hefur líka verið til umræðu hér, að það er ágætisviðleitni að leggja hana fram. Að mati þess sem hér stendur og margra fleiri, og það hefur komið fram, gengur hún hins vegar ekki nærri nógu langt til að þessu máli megi ljúka. Viðleitnin er ágæt en ekki er gengið nærri því nógu langt. Til að ljúka málinu og nú tala ég eingöngu fyrir sjálfan mig, ekki fyrir hönd Framsóknarflokksins, tel ég að það þurfi að halda sömu meiningu og er í lögunum í dag í 2., 3., 4. og 5. gr., sérstaklega 2., 4. og 5. gr., þessa frumvarps. Þá er möguleiki á því að nálgast eða ná niðurstöðu um málið.

Ég get hins vegar ekki farið héðan, frú forseti, eftir þessa 10 mínútna ræðu, án þess að nefna að vitanlega er stórundarlegt að þetta skuli vera áherslumál ríkisstjórnarinnar. Hér er atvinnulífið lamað. Heimilin eru að kikna undan byrðunum. Það þarf að setja lög um gjaldeyrishöft. En þá er áherslumálið að forsætisráðherra fái meiri völd. Það er stóra málið til að ljúka þessu 139. þingi. Það finnst mér sérkennileg forgangsröðun.



[21:33]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sýndi okkur glögglega með dæmum hversu úr sér gengin og gölluð stefna Framsóknarflokksins er í fjölmörgum málum. Ég þakka honum fyrir dæmin. Það kom mér svo sem ekki mikið á óvart hvað snertir mörg mál en það breytir því hins vegar ekki, eins og sýnt var fram á í þingræðu í dag, að afstaða þingflokks Framsóknarflokksins í þessu tiltekna máli gengur þvert gegn því sem grasrót flokksins hefur nýverið samþykkt þar sem segir að ríkisstjórn eigi sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn, að unnt eigi að vera að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta og það sé ekki bundið í lögum.

Það er sárt til þess að hugsa að Framsóknarflokkurinn, jafnágætur og sá flokkur er að mörgu leyti, geti ekki tekið undir með tveimur þingmönnum í sínum hópi sem eru tilbúnir að fallast á þá málamiðlunartillögu sem hér liggur frammi og að þessu máli verði lokið í sátt og samlyndi (Forseti hringir.) allra flokka, enda er hér um að ræða mikilvægt framfaramál.



[21:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að biðja hv. þingmann að hlusta núna á það sem ég segi. Grasrót Framsóknarflokksins samþykkti í apríl 2011 nýja stefnuskrá, nýja stefnu flokksins sem gildir til næstu tveggja ára. Þar með er búið að breyta þeirri stefnu sem var í gildi árið 2009. Hv. þingmaður, ég ætla að biðja þig að hlusta á það sem ég er að segja. Í þeirri stefnu sem grasrótin samþykkti nú er hvergi minnst á þetta.

Við getum alveg talað um annað mál. Hv. þingmaður kannski veit ekki af því en á sama ári, 2007, lét Framsóknarflokkurinn gera skýrslu um gjaldeyrismál. Er það þá virkilega þannig að hún gildi enn þrátt fyrir að flokkurinn hafi til dæmis búið til nýja stefnu í Evrópumálum? Gildir þá sú stefna sem þar var viðruð? Ég velti því fyrir mér. Það getur ekki verið frekar en að ullariðnaðurinn sé enn í gildi hjá okkur.



[21:35]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég árétta að þögn Framsóknarflokksins um stjórnarráðsmálið árið 2011 strokar ekki út það sem ákveðið var 2007. Það að flokkurinn hafi ekki treyst sér til að álykta um þetta mál á nýlegu flokksþingi sýnir bara að flokkurinn hefur verið sáttur við þá stefnu sem hann markaði áður í málinu.



[21:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur það komið fram hér í ræðum að þegar Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu með sér meiri hluta árið 2007 var það krafa Samfylkingarinnar að í samningnum um stjórnarsamstarfið væri kveðið á um að útrásinni skyldi haldið áfram. Það hefur komið fram hér og samfylkingarmenn hafa staðfest það. Er það þá enn stefna Samfylkingarinnar að styðja við útrásina?



[21:36]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að það er þannig í Samfylkingunni að sé samin ályktun um tiltekið málefni stendur hún þar til henni hefur verið breytt. Var ályktun Framsóknarflokksins í þessum efnum um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og skipan ráðuneyta breytt?



[21:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að lesa fyrir hv. þingmann:

Innflutningur verði frjáls á þeim vörum sem þjóðin getur leyft sér að kaupa ótakmarkað.

Þetta samþykkti Framsóknarflokkurinn árið 1946. Ætlar hv. þingmaður að halda því fram að þetta sé þá enn í gildi?



[21:37]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur mér heyrst, já.



[21:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Þetta er ákaflega skemmtileg umræða. Ég ætla að gefa hv. þingmanni þessa blaðsíðu sem ég er með því að margt fleira skemmtilegt kemur fram hér sem Framsóknarflokkurinn ályktaði um árið 1946, margt sem Samfylkingin gæti hreinlega lært af í dag. Það er svo fyndið að margt af því sem maður les og var ályktað um á enn við. Ég skoðaði meðal annars ályktanir frá því þegar Framsóknarflokkurinn barðist við kratana, sem svo voru kallaðir á þeim tíma, í landhelgismálinu. Það var skemmtilegt. Það var líka þá sem kratarnir vildu selja Ísland undir alþjóðlegt yfirvald. Það hefur ekkert breyst í því, það er náttúrlega stefna þeirra enn þá.



[21:38]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni hugmyndir um að fjölga stórlega aðstoðarmönnum ráðherra. Ég vek athygli á því að það er ýmislegt fleira sem menn þurfa að skoða í þessu samhengi, m.a. það að líka er verið að gera tvær aðrar breytingar sem verður að skoða í samhengi við þetta sem ég nefndi um aðstoðarmennina. Í fyrsta lagi er tekin um það ákvörðun að hverfa frá því sem var í frumvarpinu um hámarksfjölda ráðherra. Nú segir meiri hluti allsherjarnefndar að það hafi verið stjórnarskrárbrot hjá hæstv. forsætisráðherra að setja fram svoleiðis hugmyndir. Í öðru lagi er líka gert ráð fyrir því að það megi skipta upp ráðuneytum. Nú sýnist manni að staðan geti verið sú að þessir 23 aðstoðarmenn geti, a.m.k. teorískt, deilt út á 23 ráðuneyti og 23 ráðherra. Verðum við ekki að skoða þetta mál í þessu samhengi? Með öðrum orðum er verið að fjölga aðstoðarmönnunum, líka til þess að búa í haginn fyrir það að mögulega (Forseti hringir.) kunni að koma til þess að ráðuneytum og ráðherrum verði fjölgað frá því sem nú er.



[21:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Þetta kemur með aðeins nýja sýn á þetta mál. Það kann að vera að þetta hangi allt saman, að ríkisstjórnin sé hreinlega búin að gefast upp á því að vera með svona fá ráðuneyti, vilji fjölga aðstoðarmönnum til að geta skipt þeim svo á milli ráðuneytanna aftur eða svona eftir því sem hæstv. forsætisráðherra þóknast eins og ég skil þetta frumvarp.

Það kann líka að vera að ríkisstjórnin sé búin að átta sig á því að velferðarráðuneytið er einfaldlega of stórt, að það þurfi að bæta þar við mannskap til að hæstv. ráðherra komist yfir alla vinnuna, eins ágætur ráðherra og hann er. Það kann að vera að menn séu búnir að átta sig á því að það þarf fleira fólk til að sinna öllum duttlungum ríkisstjórnarinnar.

Ég held þó að málið snúist í rauninni um annað, það sé verið að reyna að auka vald framkvæmdarvaldsins, styrkja framkvæmdarvaldið til að geta enn þá betur ráðið við hið óþekka Alþingi.



[21:40]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið sagt úr þessum ræðustóli í dag og undanfarna daga að verið sé að auka vald framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis. Hæstv. forsætisráðherra lætur þetta greinilega fara mjög í taugarnar á sér, ég tók eftir því í sjónvarpsfréttunum í kvöld að hæstv. ráðherra reyndi að bera þetta til baka. Nú ætla ég að fullyrða eitt, þrátt fyrir allt sem sagt hefur verið um greind okkar þingmanna úr ræðustóli Alþingis fyrr í dag held ég að við séum öll nokkurn veginn svipað læs. Það liggur alveg fyrir að við kunnum öll að lesa og getum þess vegna lesið það sem stendur skrifað. Í frumvarpinu segir einfaldlega að nú eigi framkvæmdarvaldið að fara með það vald hvernig ráðuneytum er skipað en áður hefur Alþingi haft þetta vald og þannig er það í dag. Þetta er algjörlega óumdeilt.

Hugsunin með þessu frumvarpi er sögð sú að auka sveigjanleika. Með þessum hugmyndum er mögulega verið að fjölga ráðuneytum og ráðherrum vegna þess að það er talið hluti af sveigjanleikanum sem þurfi að vera til staðar ef verkefnum er ójafnt dreift. Þessi (Forseti hringir.) tilgáta mín er sú að mögulega verði hér stórfjölgun ráðuneyta og ráðherra og þar með aðstoðarmanna sem dreifist um þessi ráðuneyti. Hún er alveg í samræmi við þá hugsun (Forseti hringir.) sem … meiri hluta allsherjarnefndar.



[21:42]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um þetta. Ég vil hins vegar koma því á framfæri að mér finnst mjög óeðlilegt að leggja upp með frumvörp á þessum tímum þegar við erum búin að ganga í gegnum þetta hrun sem mikið er talað um. Það er búið að skrifa sérstaka rannsóknarskýrslu. Þingmannahópur hefur skrifað skýrslu og leggur til að formfesta verði aukin. Það er ekki talað um að auka sveigjanleikann, a.m.k. ekki á kostnað löggjafans, á kostnað eftirlitsins. Alþingi er með eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Með þessu frumvarpi er ekki alveg verið að skera á en samt draga úr því eftirliti. Eins og þetta er í dag kemur þingmál inn í þingið og fer til umsagnar. Við sáum til dæmis í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar upptalninguna á þeim sem hafa áhuga á þessu (Forseti hringir.) máli.



[21:43]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á breytingartillögu meiri hlutans, þá breytingu á frumvarpinu að það sé hægt að fjölga aðstoðarmönnunum strax við gildistöku laganna, en gert var ráð fyrir að það mundi kosta á annað hundrað milljónir að fjölga þeim að afloknum næstu alþingiskosningum. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fengið svör við eða áttað sig á því hvað þetta þýði mikla aukningu. Ég átta mig ekki alveg á hvað þeir eru margir í dag, það er búið að setja aðstoðarmenn og pólitískt ráðna aðila sem einhverja skrifstofustjóra og sérfræðinga inn í ráðuneytin, en ég hef hlerað að 10–11 manns mundu bætast við strax við gildistöku laganna. Það þýddi þá 70–80 milljónir.

Finnst hv. þingmanni ekki skjóta skökku við að auka pólitískt vald framkvæmdarvaldsins á sama tíma og gengið var hart gegn heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki (Forseti hringir.) á þessu ári í fjárlögum, að skera þá niður þar og reka konurnar út af spítalanum en ráða pólitíska ráðgjafa inn í ráðuneytin?



[21:44]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætissamlíking. Auðvitað notar maður ekki sömu peningana tvisvar. Samkvæmt frumvarpinu kostar þetta að mati fjármálaráðuneytisins um 100 milljónir. Það er hægt að gera býsna mikið fyrir þann pening á heilbrigðsstofnuninni á Sauðárkróki, svo notað sé dæmi hv. þingmanns. Það má líka spyrja sig hvort heilbrigðisstofnunin á Húsavík, sem er í kjördæmi hæstv. forseta er nú situr í forsetastól, gæti ekki notað þessa fjármuni sem stjórnarmeirihlutinn vill setja í aðstoðarmenn.

Það er enginn að segja að ekki geti verið þörf á aðstoðarmönnum en það er hins vegar líka þörf á að auka fjármuni til sjúkrahúsanna. Það kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að í nefnd um endurskoðun almannatrygginga er ekki hægt að gera ákveðna hluti af því að þeir kosta peninga. Kvikmyndaskóli Íslands fær ekki fjármuni, en það er hægt að auka peninga til aðstoðarmannanna. Þessi sýn sem ríkisstjórnin er að reyna (Forseti hringir.) að teikna upp gengur ekki upp, að finna eitthvert norrænt velferðarkerfi og allt þetta, meðan þetta snýst bara um að auka völd.



[21:45]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir og þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við sáum þá aðför sem var gerð að heilbrigðisstofnunum úti á landsbyggðinni við gerð síðustu fjárlaga en henni var hrundið að stærstum hluta. Ég verð þó að minna hv. þingmenn á að sú vá vofir enn yfir, það mál liggur ekki alveg klárt fyrir. Hluta af þeirri hagræðingarkröfu var frestað og til viðbótar því sem var umfram 50 milljónir þannig að það hangir í loftinu mikil óvissa gagnvart til að mynda þessum heilbrigðisstofnunum, bæði á Húsavík og Sauðárkróki. Ég hef verulegar áhyggjur af því og við hv. þingmaður deilum þeim.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það komi þá alveg skýrt fram í forgangsröðuninni hjá ríkisstjórninni hvar á setja einhverja peninga og hvar á að skera niður. Það sýnir sig með öllum þessum innihaldslausu frösum, til að mynda um kynjaða fjárlagagerð og svoleiðis, að á sama tíma og mokað er inn í ráðuneytin tugum milljóna til að gera einhverja svoleiðis vinnu er verið að reka konurnar út af sjúkrahúsunum (Forseti hringir.) og öldrunarstofnunum. Síðan tala menn um kynjaða fjárlagagerð og þetta eru afleiðingarnar af því.



[21:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er þetta rétt sem hv. þingmaður segir, í þessu samhengi er mjög sérstakt að það sé verið að setja meiri fjármuni þarna. Það er líka mjög sérstakt að þetta mál skuli vera forgangsmálið í þinginu í septembermánuði, þessum stubbi sem við köllum svo, þegar það er ljóst að önnur mál bíða. Maður saknar þess að þær tillögur sem við höfum lagt fram til að bæta hag heimila og fyrirtækja komast ekki á dagskrá. Það er ekki verið að ræða þær þó að þær liggi enn þá í númeraðri röð á Alþingi og sé hægt að taka fyrir. Ef það væri einhver vilji til þess væri það gert.

Ég hygg að sú upphæð sem hér um ræðir sem framkvæmdarvaldið, forsætisráðherra, vill fá til að fjölga aðstoðarmönnum sé mjög nálægt því að vera sú sama og á að skera í næstu fjárlögum hjá heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Miðað við þær tölur sem maður heyrir gæti þetta verið nánast sama talan. Þá hljóta landsbyggðarmenn að spyrja sig alls staðar úti á landi þar sem verið er að skera niður: Er réttlætanlegt (Forseti hringir.) að færa forsætisráðherra aukin völd og 100 milljónir sem einhvers staðar eru teknar? Nei.



[21:48]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í andsvör við flokksbróður minn, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, en ég bendi á að samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er aukakostnaðurinn við alla þessa aðstoðarmenn og ráðgjafa um 100 milljónir. Samkvæmt breytingartillögu frá meiri hluta allsherjarnefndar er þó heldur betur búið að auka það og fjölga aðstoðarmönnum í 23, þannig að nú liggur fyrir að það kostar 130 milljónir á ári að hafa aðstoðarmenn og ráðgjafa, ekki bara 100 milljónir. Ég tek því undir áhyggjur þingmanna sem talað hafa hér að það er sífellt verið að færa meiri peninga og völd til Reykjavíkur. Ég er þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður en ég er líka þingmaður fyrir landið allt. Eyðsla framkvæmdarvaldsins sem birtist í mörgum frumvörpum er til háborinnar skammar.

Ég hef farið yfir það áður að í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og því síðasta — nú er þessu þingi brátt að ljúka — er gert ráð fyrir endalausum kostnaðarauka. Þá er ég aðallega að vísa í þær tilskipanir og reglugerðir sem við þurfum að taka upp vegna þess að naumur meiri hluti Alþingis gekk svo langt að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu, sumir kalla það aðlögunarferli. Þá þarf að uppfylla ýmsar kröfur Evrópusambandsins með lögleiðingu reglugerða og tilskipana. Oftar en ekki hefur það í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð og fjölgun starfa, ekki þó á hinum almenna vinnumarkaði heldur í opinbera geiranum. Verið er að kratavæða Stjórnarráðið og stjórnsýsluna, tvö til fjögur stöðugildi bætast við við hverja frumvarpssamþykkt og fara beint inn í undirstofnanir ríkisins, sem þýðir það eitt að ríkissjóður er að þenjast út.

Ég sló á tölu um daginn hver kostnaðarauki ríkissjóðs væri vegna umsóknarinnar, þá taldi ég með lögleiðingu á þróunarsjóði EFTA sem var samningsbundinn áður en á einum næturfundinum fyrir jólin var viðauki við EES-samninginn samþykktur sem hafði í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð upp á 7 milljarða á sex ára tímabili. Það var lögleitt í þinginu eins og að drekka vatn og komu ekki miklar mótbárur gegn því.

Svo er það allur kostnaðurinn við umsóknarferlið. Af því hlýst ferða- og embættiskostnaður þannig að að lokum er aðildarumsóknin farin að hlaupa á tugum milljarða á meðan ekkert er gert fyrir fólkið sem skapar skatttekjurnar, fólkið sem er á hinum almenna vinnumarkaði. Ekki hlúð að atvinnusköpun eða skapað hér umhverfi til þess að almenni vinnumarkaðurinn geti tekið við sér. Skatttekjur opinberra starfsmanna fara í hringrás innan kerfisins og skila ekki raunverulega þeim hagvexti sem við bíðum eftir að verði með aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á atvinnumál.

Framsóknarflokkurinn hefur skýra atvinnumálastefnu. Við höfum lagt fram tillögur varðandi atvinnumál en því miður er þinginu stjórnað af samfylkingarfólki og eins og allir vita kemur forseti Alþingis úr ríkisstjórnarliðinu þannig að framkvæmdarvaldið hefur fullt vald á Alþingi og ræður því hvaða mál koma á dagskrá.

Hin einföldustu þjóðþrifamál sem við framsóknarmenn leggjum fram og viljum knýja í framkvæmd fást ekki rædd í þinginu, ekki frekar en þau góðu mál sem við höfum lagt til til bjargar heimilunum.

Ég fann það í dag eftir utandagskrárumræður sem haldnar voru að frumkvæði formanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að það komu mikil viðbrögð við þeirri umræðu. Hún fjallaði um niðurfellingu skulda heimila hjá fjármálastofnunum. Ég fékk óteljandi tölvupósta og SMS-skilaboð þar sem við vorum hvött til að halda þeirri baráttu okkar áfram að reyna að koma skuldugum heimilum til hjálpar. Þar gafst hálftími til að ræða þetta þjóðþrifamál — hálftími var náðarsamlegast veittur af tíma Alþingis frá þessu óþurftarmáli, stjórnarráðsfrumvarpi sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að koma í gegnum þingið í stað þess að sýna það í verki að hún geti hugsanlega unnið fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fjármálastofnanir og banka. Það er sorgleg staðreynd, herra forseti.

Ég kalla eftir forgangsröðun einu sinni enn hjá þessari ríkisstjórn. Það mál sem nú er til umræðu er algjörlega óþarft og væri eins hægt að pakka því saman og nú geyma til októberþingsins.

Það má heldur ekki gleyma því í umræðunni að bera saman Stjórnarráðið og Alþingi, því að í þeim skýrslum sem vísað er til í frumvarpinu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar, er klifað á því að styrkja Stjórnarráðið. Hinn helmingurinn í skýrslunum er ekki notaður. Þá er ég að tala um að fram kemur með afgerandi hætti að fyrst og fremst skuli styrkja stoðir Alþingis því að hér byrja öll mál með lagasetningu. Sú lagasetning á að sjálfsögðu að vera eins vönduð og kostur er en því miður er því skrefi sleppt í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, hlaupið er yfir styrkingu Alþingis og peningum dælt í Stjórnarráðið, beint undir framkvæmdarvaldið, eins og það hafi ekki nóg fyrir.

Mér finnst við hæfi að minnast á það aftur að Stjórnarráðið tekur til sín 6 þús. milljónir á ári í rekstur ráðuneytanna á meðan Alþingi hefur eitt þúsund milljónir.

Það eru sláandi staðreyndir, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn Stjórnarráðsins eru rétt rúmlega 500 talsins. Það er mikill rekstrarkostnaður og enn skal gefið í, enn skal bætt við aðstoðarmönnum og ráðgjöfum.

Ég ætla líka að minna á eitt til að taka upp hanskann fyrir landsbyggðina; sameining minni kjördæma í gríðarstór þrjú kjördæmi á landsbyggðinni hafði í för með sér mjög mikinn sparnað þegar þessi velferðarstjórn tók við. Til dæmis voru þeir aðstoðarmenn sem landsbyggðarþingmenn höfðu skornir niður. Hvers lags ójafnvægi er hjá þessari stjórn? Það sjá það allir að það gengur ekki upp.

Hæstv. forsætisráðherra hefur komið af og til inn í umræðurnar og byrst sig og farið með fleipur oft og tíðum. Við þekkjum stjórnunarstílinn. Hv. forsætisráðherra var einu sinni félagsmálaráðherra í ákveðinni ríkisstjórn og þá hugsaði hún um eitthvað annað en fjármagnseigendur, þá hugsaði hún um þá umbjóðendur sem hún vann fyrir, þá sem eiga bágt í samfélaginu. Þessi sami ráðherra beitti sér mjög þegar hún var óbreyttur þingmaður fyrir því að verðtrygging á skuldum yrði afnumin. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, er nú búin að vera forsætisráðherra í rúmlega tvö ár, hún hefur setið í ríkisstjórn í rúmlega fjögur ár. Það er eins og þessi atriði hafi þurrkast úr minni hennar þann dag sem hún steig í forsætisráðherrastól.

Ég vil að þingmenn og landsmenn muni það með mér að hæstv. ráðherra hefur haft rúm fjögur ár til að beita sér í þeim málum sem hún var baráttukona fyrir áður fyrr.

En svona gerist þetta nú gjarnan, fólk skiptir um skoðun um leið og það sest á þá stóla sem eru í beinni röð fyrir aftan mig.

Það er líka rétt að benda á það einu sinni enn því að það virðist falla í gleymskunnar dá að hæstv. forsætisráðherra gegndi mjög ábyrgðarmiklu ráðherraembætti á haustdögum 2008 þegar allt hrundi. Ég verð líka að minnast á að hæstv. utanríkisráðherra sat í þessari sömu hrunstjórn 2008. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra eru forsvarsmenn okkar út á við. Vantar ekki eitthvert traust á alþjóðavettvangi á þeim sem eru til endurbrúks í þessari velferðarríkisstjórn? Ég bara spyr.

Það er áhugavert að það skuli vera með þessum hætti en það skýrir kannski að hér er engin framþróun og að hér er enginn vilji til að forgangsraða eða vinna fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Forgangsröðunin verður að vera skýr. Við verðum að leggja áfram áherslu á málefni heimilanna og fjölskyldnanna. Við verðum að fara að byggja upp atvinnu. Við verðum að hætta karpi um tilgangslaus mál. Það er í hendi hæstv. forsætisráðherra, það er einungis hennar í valdi. Hún ætti að pakka saman þrjósku sinni og fara (Forseti hringir.) að ræða mál sem skipta máli.



[21:58]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir það sem hún sagði í lok ræðu sinnar um forgangsröðunina hjá hæstv. ríkisstjórn, að á meðan engin atvinnuuppbygging á sér stað, fólk flytur úr landi eða gengur um atvinnulaust og búið er að eyða um 80–90 milljörðum í atvinnuleysisbætur ræðum við svona gæluverkefni hæstv. forsætisráðherra.

Hv. þingmaður kom inn á það í upphafi ræðu sinnar út af orðaskiptum okkar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að það hefði komið fram eða hún mæti það svo að kostnaður við þetta yrði um 130 milljónir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um vinnubrögðin við frumvarpið. Nú leggur hv. allsherjarnefnd til breytingartillögu um að lögin taki strax gildi gagnvart ákvæðinu um aðstoðarmennina þar sem þeim verður fjölgað, en það kemur ekki fram í tillögunni hvað þetta muni þýða. Það er því ekki gott fyrir hv. þingmenn sem ekki eiga sæti í allsherjarnefnd að átta sig á kostnaðinum. Mér finnst þetta enn ein staðfestingin á því að í raun sé engin virðing borin fyrir kostnaðinum. Á sama tíma og verið er að segja upp fólki í heilbrigðisstofnunum, Landspítala og fleiri stöðum, er eins og þetta skipti engu máli.

Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann um eitt þar sem hv. þingmaður nefndi réttilega þann mikla kostnað sem er við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það hefur komið fram á fundum hv. fjárlaganefndar og í andsvörum og fyrirspurnum að það er eins og að aldrei megi ræða um þennan kostnað, það er alltaf verið að reyna að fela hann, það má ekki segja þjóðinni hvað hann er mikill. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það, hvort hún deili þeirri skoðun með mér að verið sé að fela kostnaðinn í stjórnkerfinu, kostnaðinn við aðildarumsókn að Evrópusambandinu, af því að ekki megi segja þjóðinni hvað verið er að eyða og bruðla peningum í á meðan (Forseti hringir.) skorið er niður alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu.



[22:01]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð hjá þingmanninum um að hér vanti forgangsröðun og það sé ekki verið að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið til að það geti farið að blómstra á ný og að fólk flytji úr landi. Fólk er farið að taka út séreignarsparnaðinn sinn sem á að vera heilagur. Allur lífeyrissjóður á að vera heilagur af því að hann er óaðfararhæfur en nú er ríkisstjórnin að opna enn frekar á það að fólk taki út séreignarsparnaðinn í daglega neyslu sem er mjög alvarlegur hlutur. Það er verið að færa vandamál framtíðarinnar enn framar af því að fólk sem tæmir lífeyrissjóðina sína lendir náttúrlega fyrst og fremst á ríkinu fyrir rest. Við erum jafnvel farin að horfa fram á það að nú þegar sé orðinn nokkurs konar vísir að gegnumstreymiskerfi vegna þessa, sérstaklega líka út af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur á lífeyriseign landsmanna sem eign ríkisins í bókhaldi sínu.

Varðandi vinnubrögðin við frumvarpið þá þarf ég náttúrlega ekki að rifja það upp með þingmanninum að það var fellt í allsherjarnefnd, það náðist ekki út úr nefndinni nema vílað og dílað væri við stjórnarþingmenn um ákveðin atriði. Ég spurði sérstaklega í allsherjarnefnd um kostnaðinn við að bæta við aðstoðarmönnum og þá var sagt að hann yrði kannski 30 milljónir í viðbót. Þetta er allt svona kannski og kannski. Það er getið um 100 milljónir í frumvarpinu og áætlaður kostnaður vegna þessara aðila sem koma aukalega er 30 milljónir.

Varðandi ESB-umsóknina þá er það alveg klárt og hefur komið fram á þessum þingvetri að kostnaður við ESB-aðlögunarferlið er algjörlega hulinn. Þess vegna sendi ég inn í hvert einasta ráðuneyti spurningar um verktakagreiðslur sem dæmi, því að verktakar koma ekki fram á launaskrá ríkisins. Ég sendi inn fyrirspurn í hvert einasta ráðuneyti um ferðir starfsmanna vegna umsóknarinnar. Þarna er kominn einhver kostnaður sem ég er að reyna að halda utan um. Alvarlegasti hluturinn er sá að stjórnsýslan var látin bera vinnuna við þetta aðlögunarferli og fækka lítillega starfsfólki en það kemur ekki (Forseti hringir.) fram í ríkisreikningnum að þetta sé akkúrat ESB-kostnaður. Á meðan liggur íslenska stjórnsýslan niðri og út af því gengur (Forseti hringir.) endurreisnin svona ofurhægt að starfsfólkið er upptekið í öðru.



[22:03]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir erum algjörlega sammála um að það er óþolandi hvað verið er að fela kostnaðinn við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það hefur líka komið fram á fundum fjárlaganefndar þar sem forustumenn einstakra ráðuneyta hafa upplýst það að kostnaðurinn við umsóknina skiptir tugum milljóna, eins og hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um 50–60 milljónir til að dekka þau verkefni sem á að vinna þar. Það er ekki fært á kostnað heldur, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, er fólk látið vinna þetta en kostnaðurinn ekki færður rétt. Það er grafalvarlegt mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnar spurningar, af því að hún nefndi að gerðir hefðu verið samningar við stjórnarþingmenn til að ná málinu út úr allsherjarnefnd, þar á meðal um hljóðupptökur sem á að opinbera eftir 30 ár, þar sem hv. þingmaður er löglærð: Er eitthvað því til fyrirstöðu, til að mynda eftir þrjú ár skulum við segja, að ný ríkisstjórn í landinu gæti breytt þessu ákvæði, sagt sem svo að hún vilji breyta þessu (Forseti hringir.) ákvæði í lögunum og opinbera upptökurnar strax, er eitthvað sem kemur í veg fyrir það?



[22:04]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessa spurningu því að þetta er mjög mikilvæg spurning sem hann bar fram í lokin. Gert var samkomulag við stjórnarliða um þessa 30 ára reglu því að annars náðist málið ekki út úr allsherjarnefnd, það var klárt.

Varðandi 30 ára regluna þá eru margir stjórnarliðar með fyrirvara í nefndarálitinu á þeim breytingartillögum sem þar liggja fyrir þannig að þetta er ein blekkingin. Þessi breytingartillaga um 30 ára regluna var lögð inn í þingið en svo ætla þeir stjórnarliðar sem eru t.d. með fyrirvara á álitinu ekki að greiða atkvæði með reglunni. Þannig að 30 ára reglan fellur örugglega í atkvæðagreiðslu nái þetta frumvarp fram.

Varðandi það hvort sífellt sé hægt að breyta lögum, og af því að þingmaðurinn minntist á að hér yrði kannski starfhæf ríkisstjórn eftir þrjú ár, þá er endalaust hægt að breyta þessu. Það er í valdi meiri hluta þingsins hverju sinni að breyta lögum. Til þess er jú löggjafinn. En ég vara við því, talandi (Forseti hringir.) um þessa ríkisstjórnarfundi og að svipta hulunni af þeim, að ríkisstjórnarfundir flytjist í (Forseti hringir.) annað hús ef þetta á að vera svona afgerandi.



[22:06]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gagnrýndi mjög harðlega það fyrirkomulag sem verið er að boða í frumvarpinu þar sem kveðið er á um að ráða 23 aðstoðarmenn, þrír þeirra verða eins konar flakkarar sem eiga að geta farið á milli. Nú ætla ég að bregða af vana mínum og verja hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það verði að setja þetta mál í ákveðið samhengi. Hæstv. forsætisráðherra skrifaði tímamótagrein í eitt dagblaðanna á dögunum og sagði frá því að fram undan væri að hér yrðu til 14.000 störf. Við sjáum að hæstv. ráðherra er byrjuð þó að í litlu sé og það eru 23 störf þannig að nú standa bara eftir 13.977. Við skulum síðan fylgjast með hvernig þetta verður talið niður.

Í þessari umræðu hefur mikið verið spurt um það hvort verið sé að veikja Alþingi eða styrkja það með frumvarpi til nýrra stjórnarráðslaga. Ég hef einfaldlega sagt hérna að við séum örugglega álíka læs, hv. þingmenn, þó að sagt hafi verið við okkur hér í dag að við séum misjafnlega greind. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann sem situr í allsherjarnefnd: Var reynt að leggja mat á það í starfi allsherjarnefndar hvort þetta mundi leiða til þess að þingið yrði veikara eða sterkara?

Eins og ég les út úr 2. gr. er alveg augljóst mál að það sem fram að þessu hefur verið ákvörðunarvald Alþingis verður núna ákvörðunarvald framkvæmdarvaldsins, einkanlega hæstv. forsætisráðherra. Eins og ég hef getað skilið þetta er augljóst að með því að taka verkefni og völd frá Alþingi og færa til framkvæmdarvaldsins veikir það Alþingi og styrkir framkvæmdarvaldið. Er þetta ekki svo að mati hv. þingmanns?

Að lokum vil ég spyrja: Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á því hvað liggi svona á? Ég sé að það eru engar dagsetningar í þessu frumvarpi, það er ekkert slíkt sem kallar á. Hvað gerir það að verkum að hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra rekur svona (Forseti hringir.) hratt trippin og vill endilega ljúka málinu á þessum dögum?



[22:08]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einstaklega skemmtileg tala 13.977 störf sem á eftir að skapa, einstaklega gaman að koma því hér að, en hún lækkar líklega strax um tvö því að mér skilst að það hafi skapast tvö störf á Suðurnesjum þegar ríkisstjórnin fór þangað og hélt þar opinn fund. Víst var það eins fyrir vestan, hv. þingmaður veit kannski betur um það. Ég held að það hafi verið lofað þremur störfum þar. Þannig að það saxast á 14.000 störfin.

Það er alveg ljóst, og sama hvað hæstv. forsætisráðherra segir, að í fyrsta lagi er verið að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið með þessu frumvarpi og að sjálfsögðu er verið að kippa lagastoðinni sem að þessu snýr undan Alþingi. Það sér hvert mannsbarn. Það sjá allir sem eru læsir að þetta er með þeim hætti og það er ekkert um það að tala meir, sama hvað hæstv. forsætisráðherra lemur hér í borðið og telur að svo sé ekki.

Það er nú þannig, þrátt fyrir langa þingreynslu ráðherrans sem er búin að starfa hér í rúm 30 ár, að nýtt fólk er komið inn í þingið og það þýðir ekki að beita þeim gömlu vinnubrögðum sem voru hér við lýði fyrir 25 árum, að láta eins og þingmenn viti ekki neitt og geti ekki náð sér í upplýsingar úti í þjóðfélaginu. Það sem þessir öldnu hæstv. ráðherrar eiga svo erfitt með að átta sig á er að það er ekki lengur hægt að mata hvorki þingmenn né þjóðina á röngum upplýsingum. Það sjá allir í gegnum það.

Hvað liggur á með þetta mál? Ég hef einungis eina skýringu og hún er sú að það liggur inni umsókn að Evrópusambandinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mikill ljár í þúfu þessarar ríkisstjórnar og það er einfaldlega verið að setja það í lög að leggja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra niður með þeim hætti að ráðuneyti hans verður sameinað iðnaðarráðuneytinu og búið til nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Ég hef eiginlega orðið enn þá sannfærðari um það síðustu daga að það sé ástæðan vegna þeirrar hörku (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin keyrir þetta mál áfram á, því að það er engin ástæða til að keyra það áfram með þessum hætti.



[22:10]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði hér. Það blasir við og þarf í raun og veru ekki að vera deiluefni og er alveg með ólíkindum að það skuli hafa orðið deiluefni hvort verið sé að veikja Alþingi eða styrkja framkvæmdarvaldið, það blasir svo við. Það kunna svo að vera einhver rök fyrir því. Sumir hafa sagt að betra sé að hafa sterkt framkvæmdarvald, það auki skilvirknina, það auki sveigjanleika. Ég tók eftir því þegar ég las í gegnum markmiðslýsingu sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar að þar er talað um ýmsa hluti í því sambandi. Þar er m.a. talað um skilvirknina, þar er m.a. talað um sveigjanleikann, en það sem vekur mesta athygli er það sem ekki er sagt þar. Í þessari markmiðslýsingu er ekki sagt eitt einasta orð um neitt sem lýtur að lýðræðislegum spurningum. Við höfum verið að benda á það einmitt núna að það kunni að vera jákvætt markmið í sjálfu sér að hafa sveigjanlegt og skilvirkt framkvæmdarvald en það má ekki gerast með þeim hætti að við göngum fram yfir einhverja línu sem lýtur að lýðræðislegu valdi og lýðræðislegum (Forseti hringir.) spurningum. Það er auðvitað það sem við höfum gagnrýnt hér á undanförnum sólarhringum.



[22:11]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum bara kalla þetta réttum nöfnum. Eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn hefur hún lagt ofurkapp á að kratavæða lagasafn Alþingis og þá á ég við að færa vald frá Alþingi undir framkvæmdarvaldið. Og eins og ég hef minnst á er þessi reglugerðarvæðing, að færa lagasetningarvald frá Alþingi inn í reglugerðir sem settar eru í ráðuneytum af embættismönnum, endurspeglun af lagaþróun og lagasetningu í Evrópusambandinu. Samfylkingin er því fljót að læra af herrum sínum úti í Brussel.

Varðandi sveigjanleikann sem þingmaðurinn kom inn á og boðaður er í frumvarpinu, þá gengur sveigjanleikinn út á það að forsætisráðherra hverju sinni getur tekið verkefni frá einum ráðherra og ráðuneyti og jafnvel ráðherra og fært á annan stað í stjórnsýslunni. Tökum sem dæmi: Væri slíkt ástand uppi núna væri hægt að taka sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin undan þeim ráðherra (Forseti hringir.) og færa hæstv. utanríkisráðherra það vald. Það er það sem verið er að fara með þessu frumvarpi.



[22:13]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hélt ágæta ræðu. Ég vil gjarnan spyrja hana um hugmyndir hennar um lagaskrifstofu og hvort þær séu í anda þess sem ég nefndi hér í gærkvöldi, að Alþingi mundi semja og ritstýra öllum frumvörpum sem hér eru afgreidd sem lög, þ.e. nefndir Alþingis, hvort það væri í takt, hvort það væri í rauninni sama hugmyndin.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann, af því að hún nefndi hér að frumvarpið væri flutt til að losa út ákveðinn ráðherra. Nú man ég það frá fornri tíð að hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir, tíðkuðu það iðulega að kalla eftir ráðherrum um miðja nótt. Ég man eftir því að einu sinni var kallað á Geir H. Haarde um miðja nótt, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra ef ég man rétt. Hann var kallaður hingað um miðja nótt, um þrjúleytið eða fjögurleytið, til að hlýða á mál manna. Er ekki eðlilegt að þessir menn, eins og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason, sem menn hafa efasemdir um að styðji frumvarpið yfirleitt, kæmu hér og hlýddu á mál manna og helst tjáðu sig um málið? Því það virðist vera að ríkisstjórnin sé … (Gripið fram í.) Ég er að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki eðlilegt, ég þarf að vita hvort það sé eðlileg hugsun hjá mér, (Gripið fram í.) það er orðið svo langt liðið á kvöldið að ég verð að fá stuðning við það (Gripið fram í.) sem ég er að hugsa — ef ég fengi frið, herra forseti, fyrir frammíköllum hv. þingmanns, hann á svo bágt. Er ekki eðlilegt að kalla til þessa tvo hæstv. ráðherra sem hafa sett efasemdir og spurningarmerki við þetta frumvarp yfirleitt af því að þetta á að heita ríkisstjórnarfrumvarp? Þetta er mjög sérstakt. Og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra Jón Bjarnason, af því að hann er hérna frammi í (Forseti hringir.) kaffistofu, komi og tjái sig um þetta mál.



[22:15]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Vissulega er það svo að á meðan Alþingishúsið er opið og hér fara fram umræður á hér að vera þéttskipaður salur. Ég tala nú ekki um þegar málefnin snerta Stjórnarráðið og við sitjum hér um hánótt með tóma bekki. Ég ber virðingu fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skuli þó alla vega vera í húsinu, hann sýnir þá málinu einhvern áhuga, en það sama er ekki hægt að segja um hina ráðherrana. Auðvitað eiga allir þessir aðilar að koma hér og taka þátt í umræðum með okkur þingmönnum um svo mikilvæg mál, að sjálfsögðu. Ég hvet þingmanninn til að fara hér upp undir liðnum fundarstjórn forseta á eftir og kalla eftir ráðherrunum og þótt ekki væri nema kannski forustumönnum stjórnarflokkanna.

Það var einstaklega gaman að hv. þingmaður minntist á lagaskrifstofu Alþingis, því að eins og allir vita er það mitt hjartans mál að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis með einhverju sniði, að hér verði öflug aðstoð við þingmenn sem hafa það hlutverk að semja og leggja fram frumvörp, sem fari í gegnum frumvörpin, sem leggi á það mat hvort frumvörpin standist lög og stjórnarskrá og sé eins öflugt batterí og þjóðþing annarra Norðurlanda hafa. Það vantar inn í ferilinn hjá okkur. Það er lífsnauðsynlegt ef við ætlum að koma málum af stað á nýjan leik í þjóðfélaginu að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis og Alþingi verði styrkt bæði fjárhagslega og faglega. Því að á meðan þessi mál eru með þeim hætti að þingmenn þurfa sjálfir að ræða hér lagatæknilega hliðar á hverju einasta frumvarpi sem kemur úr Stjórnarráðinu og frá þingmönnum líka er tíma Alþingis illa varið. Við eigum fyrst og fremst að tala um efnislega hluta frumvarpanna, (Forseti hringir.) ekki þessar lagatæknilegu flækjur eins og t.d. það að þetta frumvarp stenst ekki stjórnarskrá að mínu mati.



[22:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði hjá hv. þingmanni hugsun sem ég heyri allt of oft og á ekki rétt á sér, þ.e. að Alþingi verði styrkt. Við eigum miklu frekar að segja að Alþingi styrki sig sjálft vegna þess að Alþingi hefur fjárveitingavald og það gæti mjög léttilega flutt allt það fólk úr ráðuneytunum sem er núna að semja frumvörp inn á nefndasvið, við getum kallað það lagaskrifstofu, og þar semji það frumvörp undir ritstjórn nefnda þingsins. Út á það gekk hugsun mín að ráðuneytin mundu snúa sér til viðkomandi nefndar þingsins og óska eftir því að flutt yrðu frumvörp í þessa og þessa veru til að laga þennan og þennan agnúa á framkvæmd ákveðinna laga, t.d. barnaverndarlaga eða eitthvað slíkt. Síðan mundu nefndir þingsins semja viðkomandi frumvarp og senda til ráðuneytisins á eftir til umsagnar, hvort hægt sé að framkvæma það. Það er þessi hugsun sem ég spurði um. Og varðandi ráðherrana, ég er nú bara að læra af gamalli reynslu, mjög gamalli.



[22:18]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sýnir best einræðistakta hæstv. forsætisráðherra að þegar frumvarp mitt og fleiri var komið fram í þinginu, frumvarpið um lagaskrifstofu Alþingis, brást hæstv. forsætisráðherra við með þeim hætti að hún stofnaði lagaskrifstofu Stjórnarráðsins. Það var ekki innihald frumvarpsins. Varðandi þá hugmynd sem þingmaðurinn reifar, að við fáum lögfræðiteymi ráðuneytanna allra hingað til að vinna á lagaskrifstofu Alþingis, þá er það að sjálfsögðu hægt, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi hefur fjárlagavaldið og ætti að hafa þetta í hendi sér. En Alþingi er kúgað af framkvæmdarvaldinu og það hefur oft komið fram.

Þetta er góð hugmynd og ég treysti því að þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ásamt kannski einhverjum fleiri flokkum fara í ríkisstjórn verði það forgangsmál að styrkja Alþingi og leggja til þess meira fjármagn og veikja um leið lagaskrifstofu Stjórnarráðsins.

Ég fagna því að hæstv. (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er sestur í salinn og ég óska þess innilega að hæstv. ráðherra komi hér upp og tjái sinn hug því að hann er á (Forseti hringir.) móti frumvarpinu.



[22:20]
Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að ég talaði síðast úr þessum ræðustól en það verður að segjast eins og er að það var allt að því hlýlegt að verða vitni að því í dag að fátt hefur breyst á þeim tíma sem ég hef verið fjarri. Enn er verið að ræða um álverið í Helguvík og hversu mjög það hefur dregist og enn er verið að ræða hér inn í nóttina mikilvæg og merkileg mál sem skipta heilmiklu þegar til lengri tíma er litið. Það má auðvitað margt segja um þau vinnubrögð sem eru fólgin í því að standa þannig að málum af hálfu ríkisstjórnar að við þurfum að ræða mál með þessum hætti eins og ég hef orðið vitni að hér í dag um þetta frumvarp um Stjórnarráð Íslands.

Ég mun í ræðu minni ræða almennt um frumvarpið. Ég geymi mér það þar til síðar að fara í sérstakar greinar, en ég vil byrja á því að segja að ég hef vissa samúð með þessu frumvarpi. Ég játa að ég hafði leitt hugann að mörgu í því fyrir margt löngu og hvort það væri ástæða til að gera svipaðar breytingar og þær sem rætt er um í frumvarpinu. Þegar ég starfaði sem aðstoðarmaður forsætisráðherra gerði ég mér ferð til Danmerkur til að skoða sérstaklega þetta fyrirkomulag og velta því fyrir mér og átti þar fund með dönskum embættismönnum og stjórnmálamönnum til að reyna að átta mig á því fyrirkomulagi sem þar er við lýði. Kosturinn við það fyrirkomulag sem ég skoðaði þar var sá að það var aukinn möguleiki á því að binda saman stjórnarstefnu og skipulag Stjórnarráðsins. Það er hægt að finna marga góða kosti við þá hugsun. Vandinn er nefnilega oft sá að þegar búið er að skipa ráðherra yfir einstaka málaflokka getur verið ansi snúið og erfitt að færa til verkefni vegna þess að mönnum verða verkefnin kær; má ég leyfa mér að segja, herra forseti, völdin kær. Því getur einmitt orðið erfitt fyrir forsætisráðherra eða aðra að breyta verkefnum á milli ráðherra, leggja niður ráðuneyti eða hvað það nú er.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu og gerði það fyrir margt löngu, áður en þessi umræða hér hófst, að það væri veruleg hætta hjá okkur að sú þróun sem leiddi til þess að breytingar voru gerðar á þessum málum hjá okkur með lögum nr. 73/1969 mundi einfaldlega endurtaka sig, það yrði lausung í þessu fyrirkomulagi okkar og það væri nauðsynlegt að hafa töluverða formfestu um það hvernig verkefnum Stjórnarráðsins væri skipað og það væri eðlilegt að Alþingi stæði þar að baki.

Ef við erum að leita að lausn í þessu máli og um hvað væri hægt að ná sátt bendi ég á að í athugasemdum um frumvarpið er á bls. 17 fjallað um það fyrirkomulag sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Ef ég má grípa hér niður, með leyfi forseta:

„Í Finnlandi eru stjórnarmálefni hins vegar jafnan flutt á milli ráðuneyta með lögum enda á sú framkvæmd sér beina stoð í finnsku stjórnarskránni og eru frumvörp um slíkt jafnan á meðal fyrstu þingmála hverrar ríkisstjórnar.“

Þetta segir mér að það er hægt að ná fram því sem ég tel að sé hugsunin á bak við til dæmis danska fyrirkomulagið, að hnýta ágætlega saman þessa leið, að það sé sveigjanleiki og hægt að láta verkaskiptingu milli ráðuneytanna endurspegla stjórnarstefnuna. Það kallar á að þegar ríkisstjórn tekur við völdum séu meðal fyrstu málanna sem hún leggur fram breytingar á störfum Stjórnarráðsins en það sé þingsins að ákveða þessa hluti, það verði ekki gert án þess að samþykki þingsins liggi fyrir.

Ég held að það væri vel að við skoðuðum betur þá aðferð sem Finnarnir hafa í þessum málum. Hún gæti hentað okkur ágætlega, hún er millibilsleið í þessu máli. Hún er kannski frekari breyting á hefðum og hugsun en ekki endilega formbreyting frá því sem nú er, þ.e. áfram ætti þingið að stýra þessum málum en ríkisstjórnin gerði það að venju sinni þegar málefnasamningur lægi fyrir að um leið yrði þessum verkum skipað og lagt fram frumvarp þar að lútandi.

Þannig er í athugasemdum um frumvarpið á bls. 7 bent á að þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu grundvallist á núgildandi stjórnarskrá. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa eftirfarandi:

„Efnisákvæði frumvarpsins ráðast í veigamestu atriðunum, rétt eins og ákvæði núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands, af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, enda grundvallast staða Stjórnarráðsins, þ.e. ráðherra og ráðuneyta þeirra, sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins í landinu á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Við vinnslu frumvarpsins var þess gætt í hvívetna að ákvæði þess væru í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og óskráðar stjórnskipunarreglur.“

Þetta gefur augaleið, svona verður auðvitað á að halda.

Töluverð umræða hefur verið um það að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og er skemmst að minnast þess að sett var á laggirnar stjórnlagaráð, ætla ég ekki að eyða tíma mínum í að ræða hvernig til þess var stofnað, en það skilaði frá sér tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Margir þingmenn, einkum stjórnarliðar, hafa mér sýnst á opinberum vettvangi lýsa yfir heilmikilli ánægju með bæði þá vinnu og þær hugmyndir sem þar hafa komið fram. Það er því áhugavert, herra forseti, að bera saman þær hugmyndir sem koma frá stjórnlagaráðinu um þau málefni sem hér er verið að ræða, m.a. um stöðu ráðherra, verkefni þeirra, stöðu ríkisstjórnar og aðra þá þætti, við það frumvarp sem hér er um að ræða. Hér er frumvarp hæstv. forsætisráðherra sem leggur þar með línurnar og þær áherslur og það sem hæstv. forsætisráðherra telur skynsamlegast í málinu.

Ég vil byrja á því að velta hér upp að í 87. gr. draganna að nýrri stjórnarskrá stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.“

Með öðrum orðum er talað um ríkisstjórnina sem fjölskipað stjórnvald, þ.e. að ráðherrarnir komi saman til ráðherrafunda og séu samábyrgir um þá ákvarðanatöku sem þar fer fram. Reyndar er um það fjallað í 95. gr., með leyfi herra forseta:

„Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum.“

Það er rétt að bera þær áherslur sem koma fram hjá stjórnlagaráðinu saman við þær niðurstöður sem eru í því frumvarpi sem hér er um að ræða. Hér er allt önnur áhersla, hér er ekki lagt upp með að ríkisstjórnin skuli vera fjölskipað stjórnvald, að það skuli vera sameiginleg ábyrgð ráðherra á þessum málaflokkum. Með öðrum orðum eru flytjendur og stuðningsmenn þessarar tillögu þá ósammála þeirri áherslu sem kemur fram hjá stjórnlagaráðinu. Ég hef skoðað ágætlega þessar tillögur, tel margt þar mjög athugunarvert en tel að ýmislegt í þeim tillögum verði erfitt að láta ganga saman. Það er rétt að vekja athygli á því að með því að leggja fram það frumvarp sem hér liggur fyrir er í raun verið að segja að hugmyndir stjórnlagaráðs njóti ekki stuðnings þeirra sem leggja fram þetta mál hér.

Það er rétt að geta þess og það skiptir máli í þessum samanburði að í 90. gr. í tillögum um nýja stjórnarskrá er sérstaklega sagt, með leyfi herra forseta:

„Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.“

Þetta er í ágætissamhljómi við þær tillögur sem koma hér fram frá hæstv. forsætisráðherra. Reyndar vekur það athygli mína að í tillögunum um nýja stjórnarskrá skuli vera kveðið á um nákvæmlega tíu ráðuneyti, væntanlega er það bara tilviljun en fjöldinn kallast á við tillögurnar frá forsætisráðherra. Ég gef mér að tillögurnar frá stjórnlagaráðinu hafi verið komnar fram fyrr og að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið mið af þeim.

Það er samt sem áður augljóst að það er ekki tekið mið af öllum tillögum stjórnlagaráðs vegna þess að ef þær eru áfram skoðaðar má í 90. gr. sjá sérstaklega kveðið á um það að forsætisráðherra skipi aðra ráðherra og veiti þeim lausn. Þetta er ólíkt því sem lagt er upp með í því frumvarpi sem hér er um ræða því að í 3. gr. segir, með leyfi herra forseta:

„Forseti Íslands veitir forsætisráðherra og ráðuneyti hans sem og einstökum ráðherrum lausn frá embætti samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Ég vildi gera þetta að umræðuefni enn og aftur til að árétta og benda á að flutningsmenn þessa frumvarps eru greinilega í mjög veigamiklum atriðum ósammála þeim tillögum sem koma frá stjórnlagaráði hvað þessa þætti varða þó að einnig sé hægt að benda á samstofna og sameiginleg atriði.

Nú skulum við hugsa okkur að það frumvarp sem hér er um að ræða verði samþykkt og jafnframt skulum við velta fyrir okkur hvað gerðist ef farin yrði sú leið sem ýmsir hafa mælt fyrir, að þau drög að nýrri stjórnarskrá sem liggja fyrir af hálfu stjórnlagaráðsins yrðu send til þjóðarinnar og Alþingi samþykkti þau óbreytt. Þá sjá menn hvaða staða er komin upp. Ég mæli ekki með þeirri málsmeðferð en ég tel í ljósi þessarar umræðu að það hefði verið skynsamlegt að við hefðum fyrst gengið með vönduðum og ábyggilegum hætti frá þeim hugmyndum sem við viljum koma fram á Alþingi um breytingar á stjórnarskrá og á þeim grunni ynnum við síðan breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég held að það væri eðlilegri og skynsamlegri röð verka.

Vil ég þá, herra forseti, víkja aðeins að stöðu þingsins. Ég tel og er sammála mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað að í þessu frumvarpi felist ótvírætt valdaafsal þingsins til framkvæmdarvaldsins. Ég hef í gegnum tíðina haft ákveðna samúð með þeirri hugsun og það er vel hægt að færa fyrir henni rök, rétt eins og við sjáum til dæmis hvernig Danir standa að sínum málum, að menn hafi annað fyrirkomulag en við. Ég tel enn og aftur að reynsla okkar af því fyrirkomulagi hafi einmitt sannað að við þurfum á meiri festu að halda.

Í stjórnmálum og stjórnmálalífi flestra nágrannaþjóða okkar, sérstaklega Skandinavanna auðvitað, er rík hefð fyrir minnihlutastjórnum og hreint út sagt öðruvísi stjórnmálamenningu og stjórnmálahefðum sem gera það að verkum að mínu mati að það er auðveldara að vera með þá leið, þá aðferð og þá aðferðafræði sem er beitt í Danmörku.

Það er ekki bara að hér sé um að ræða ákveðið valdaframsal frá þinginu til framkvæmdarvaldsins og hættu á því að það verði lausung og losarabragur á þessum málum, ég tel líka mjög mikilvægt, herra forseti, að við hugum vel að því að í umræðunni um stöðu þings og framkvæmdarvalds er því oft ruglað saman þegar sagt er að framkvæmdarvaldið kúgi löggjafarvaldið og gangi yfir það. Í raun erum við að segja að meiri hlutinn á þinginu gangi yfir minni hlutann. Það er þingræði á Íslandi og þegar okkur finnst verið að valta yfir þingið er það í raun og veru vilji meiri hlutans á þinginu að þannig sé farið með mál. Það er nefnilega Alþingi sem hefur lokaorðið um allar fjárveitingar til framkvæmdarvaldsins. Alþingi ákveður hversu mikla fjármuni það sjálft hefur og ef Alþingi kvartar yfir því að það skorti fjármuni snýr sú umræða og umkvörtun ekki að framkvæmdarvaldinu, heldur Alþingi sjálfu.

Með því að þetta frumvarp verði að lögum gerist til dæmis eitt. Þá fjölgar pólitískum aðstoðarmönnum ráðherranna umtalsvert. Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað styrkingu framkvæmdarvaldsins þannig að pólitísk staða framkvæmdarvaldsins styrkist og þá um leið pólitísk staða meiri hlutans á Alþingi. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Ég var hér að ræða tillögur stjórnlagaráðs og vek athygli á að þar er gert ráð fyrir því að ráðherrar víki af þingi og að ef ráðherrarnir eru þingmenn komi varamenn þeirra í staðinn til þings. Þetta mun valda því, og það er enginn vafi í mínum huga hvað það varðar, að staða meiri hlutans styrkist enn frekar vegna þess að þar með fjölgar þeim stjórnmálamönnum sem styðja meiri hlutann og eru í fullri vinnu í stjórnmálabaráttunni. Það að ráðherrar hafi ekki fullt málfrelsi í þingsalnum, sitji ekki hér sem þingmenn, er ekki það sem skiptir höfuðmáli. Það er styrkur meiri hlutans, fjöldi þeirra að baki honum, bæði hvað varðar þingstyrkinn sjálfan og eins líka þann pólitíska styrk sem felst í því að hafa sem flesta starfandi og virka stjórnmálamenn í stjórnmálaátökunum.

Síðan er hitt að það er alveg augljóst að þessi fjölgun aðstoðarmanna mun auðvitað kosta sitt, eins og hér hefur verið bent á. Það er svolítið merkilegt að horfa á hversu auðvelt það virðist vera að leggja til aukinn kostnað vegna þess að það þurfi að fjölga aðstoðarmönnum eða bæta við sérfræðiaðstoð fyrir framkvæmdarvaldið og bera það til dæmis saman við það þegar rætt var á Alþingi um að fjölga aðstoðarmönnum eða búa til aðstoð fyrir alþingismenn. Þá var hugmyndin sú að aðstoðarmenn kæmu sérstaklega fyrir landsbyggðarþingmennina sem mundu deila með sér aðstoðarmönnum vegna þess að alþingismenn úti á landsbyggðinni væru í stórum kjördæmum sem væri erfitt að sinna og þá þyrftu þeir til þess aðstoð. Síðan var það dregið til baka vegna kostnaðar. Ég held að áður en farið verður í að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra megi alveg ræða hvort ekki sé frekar ráð að nota þessa peninga til að styrkja þingið eins og lagt var upp með. Ég geld varhuga við því, herra forseti, að það sé verið að færa enn og aftur völd frá þingi með þessum hætti og á sama tíma styrkja framkvæmdarvaldið pólitískt með því að fjölga aðstoðarmönnunum, en gera ekkert til að tryggja að staða minni hlutans á þinginu styrkist.

Ég vil í þessari umræðu líka taka það fram þó að ég hafi ekki lagt mig nægilega vel eftir því, ég hef einfaldlega ekki haft tíma til þess að rannsaka það alveg ofan í kjölinn, að ég held að þær breytingar sem hér standa fyrir dyrum á nefndakerfi þingsins muni ekki breyta neinu í valdahlutföllunum á þinginu þegar upp verður staðið. Þær munu ekki breyta því að meiri hlutinn nær sínu fram þegar hann vill gera það, það er svo sem hið eðlilega þingræði, en ég held að það verði engin merkjanleg styrking á stöðu stjórnarandstöðunnar. Það er nokkuð sem ég vil eiga betri kost á að skoða í framhaldinu, herra forseti, en ég nefni það hér sem hluta af þessari umræðu um stöðu minni hlutans gagnvart meiri hlutanum á þinginu.

Síðan, herra forseti, án þess að ég ætli að fara ofan í einstakar greinar með einhverjum afgerandi hætti eru auðvitað nokkur atriði hérna sem ég vildi gjarnan velta upp.

Það er til umhugsunar hvers vegna í upphafi hafi verið lagt til að festa fjölda ráðuneytanna við tíu. Í áliti meiri hlutans hefur verið lagt til að breyta því og afnema þetta hámark. Ég er sammála þeirri niðurstöðu vegna þess að ef við á annað borð erum þeirrar skoðunar að forsætisráðherra eigi að fara með þetta vald og það eigi að vera möguleiki á því að færa til verkefni, fjölga og fækka ráðuneytum, tel ég enga ástæðu til að segja um leið að við treystum viðkomandi forsætisráðherra þó ekki meira en svo að þau megi aldrei vera fleiri en tíu. Við teljum með öðrum orðum líklegt að það verði vilji til þess að fjölga umfram tíu og það verði gert í einhvers konar bríaríi og án þess að hafa fyrir því sterk stjórnskipuleg rök, þess vegna þurfi að setja slíkt hámark. Til dæmis er í dönsku stjórnskipuninni ekkert slíkt hámark enda stenst það ekki og er í raun í þversögn við ákvæði 15. gr. stjórnarskrárinnar hvað þessa hluti varðar. Ég styð þá breytingu, ég held að hún sé skynsamleg að því gefnu að menn fari þessa leið.

Síðan er annað sem mér þykir mjög áhugavert að skuli hafa gengið þannig fram, að ein af þeim kröfum sem komu fram í meðförum nefndarinnar hafi verið sú að það verði ákveðið að hljóðrita fundi ríkisstjórnarinnar. Ég held, herra forseti, að þetta sé ekki mjög skynsamlegt. Rökin fyrir þessu eru væntanlega þau að sagnfræðingar, stjórnmálafræðingar og almenningur allur geti að 30 árum liðnum kynnt sér nákvæmlega hvað fór fram á bak við hinar luktu dyr á ríkisstjórnarfundum í forsætisráðuneytinu. En ég óttast að ef þetta gengur fram muni umræður og aðdragandi ákvarðanatöku fara fram annars staðar. Það sem mun gerast í ríkisstjórnarherberginu er að ráðherrarnir munu lesa upp stílana sína, undirbúnar yfirlýsingar frá aðstoðarmönnum sínum, en ræði sín á milli annars staðar fyrir fundina um það síðan að hvaða niðurstöðu menn komist. Ég óttast að menn verði sér mjög meðvitaðir um að það er verið að hljóðrita. Og ákvæðinu um að þetta verði ekki opnað fyrr en eftir 30 ár má breyta mjög auðveldlega með lögum. Þetta er ekki ákvæði í stjórnarskrá heldur í lögum og menn mega þá búast við því, eða það er möguleiki á því, að sú staða komi upp eftir kosningar þegar það kemur ríkisstjórn sem er mynduð gegn og þvert á þá ríkisstjórn sem er í landinu fyrir að hún taki ákvörðun um það vegna þjóðarheilla, mikilvægra hagsmuna o.s.frv. að opna bara strax fyrir birtingu á þeim umræðum sem höfðu farið fram í þeirri væntanlega þá vondu ríkisstjórn sem var fyrir kosningar. Um þetta getum við ekkert búið tryggilega nema þá að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá þannig að það sé ekki hægt að breyta árafjöldanum nema í gegnum stjórnarskrána.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég óttast að það geti orðið of mikil freisting einhvern daginn fyrir nýjan þingmeirihluta að grípa til slíkra ráða og það muni enn ýta undir það að umræður á ríkisstjórnarfundum endurspegli ekki ákvarðanatökuna, hún hafi í raun farið fram annars staðar.

Það þýðir líka að það verður minni festa í stjórnarathöfnum öllum ef þessi verður raunin. Ef ákvarðanatakan og umræðan fer fram utan ríkisstjórnarherbergisins vegna þess að menn hafa áhyggjur af slíkum hljóðritunum dregur það úr allri stjórnarfestu. Ég held þess vegna að það sé ástæða fyrir okkur til að skoða þetta atriði. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er niðurstaðan úr kaupum á milli stjórnarmeirihlutans og einstakra annarra þingmanna í þinginu og er einhvers konar samkomulag þar á milli, en það samkomulag bindur ekki þingið, bindur ekki almenna þingmenn. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að við felldum þetta ákvæði út, að það verði ekki samþykkt í atkvæðagreiðslu þegar til þess kemur.

Herra forseti. Ég held að það megi líka sjá af þeim umræðum sem hér hafa orðið að það er vissulega nauðsynlegt að íhuga vel breytingar á Stjórnarráðinu. Það er nokkuð sem við eigum að vera með í stanslausri skoðun en ég er þess jafnfullviss að það stendur ekki síður upp á okkur alþingismenn að skoða vel okkar gang og hvernig við högum okkar störfum hér. Allt leikur þetta saman.

Mér þykir málatilbúnaðurinn núna á þessum svokallaða stubbi með eindæmum vondur. Það er vont fyrir þingið og það er vont fyrir þjóðina að við skulum núna, þegar allir þeir efnahagsörðugleikar sem við blasa eru að magnast og verða okkur erfiðari og þyngri með hverjum deginum sem líður, standa í þeirri stöðu hér á Alþingi að skipulag verklagsins sé þannig að við sitjum föst, að við náum ekki samkomulagi um þessa hluti, það sé ekki hægt að leysa þá.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar tel ég að það eigi að vera hægt að ná ágætisniðurstöðu með því meðal annars að skoða finnsku leiðina sem ég kalla svo, sem ég gat um í upphafi ræðu minnar. Það kallar bara á að við breytum svolítið um stjórnmálamenningu og aðferðir, það kallar ekki á stórar lagabreytingar. Það þýðir að ný ríkisstjórn sem kemur til valda eftir kosningar leggur fram frumvarp um þær breytingar sem hún vill gera á verkefnum Stjórnarráðsins. Ég tel að þar með náum við þeim markmiðum sem eru sett fram í þessu frumvarpi og er verið að reyna að leita eftir án þess að taka þá áhættu að sá losarabragur og sú lausung sem leiddi til þess að lögunum var breytt árið 1969 að frumkvæði dr. Bjarna Benediktssonar endurtaki sig.

Með öðrum orðum er til ágætislausn á þessu máli. Ég held að það hvíli svo mjög á Alþingi Íslendinga að leysa þau fjölmörgu vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna að það væri einnar messu virði að sjá hvort forustumenn stjórnmálaflokkanna gætu ekki sest niður og rætt sig að einhverri slíkri lausn. Ég held að það væri mjög skynsamlegt.

Þegar við horfum til baka og veltum fyrir okkur þegar ákvörðun var tekin um þá breytingu á þingsköpunum þegar stubburinn svokallaði var tekinn upp, þ.e. þessi þingbiti hérna í septembermánuði, sjáum við að við hefðum þurft að hugsa aðeins betur hvernig nákvæmlega við mundum framkvæma hann. Eitt er hvaða ramma við setjum, hvaða kerfi og hvaða lög, annað er síðan hvernig við fylgjum því eftir. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að hafa það þannig hvað þetta kerfi varðar og þetta fyrirkomulag að það hefði þurft að liggja fyrir við þinghlé að vori samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um nákvæmlega hvaða mál yrðu tekin fyrir á þessu hálfs mánaðar tímabili í september þannig að búið væri að ganga frá slíku samkomulagi og þingið gæti gengið til þeirra verka og klárað þau.

Það er enginn bragur á því að við skulum vera með fjölda mála, mörg þeirra mjög mikilvæg, og við náum ekki að láta þau ganga fram vegna þess að við erum í þessari deilu.

Sama gildir um það fyrirkomulag sem við setjum um Stjórnarráðið. Eitt er það fyrirkomulag sem við setjum upp, annað hvernig við framkvæmum það, hvaða hugsun liggur að baki og hvaða hefðir síðan láta kerfið virka.

Þess vegna held ég enn á ný að ef það næðist um það góð sátt á milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi að við færum þá leið sem Finnarnir hafa lagt upp með, að strax í upphafi nýs tíma hjá ríkisstjórn liggi fyrir hugmyndir ríkisstjórnarinnar um verkaskiptinguna, gætum við náð þessari samstöðu. Þá næðum við fram því sem hæstv. forsætisráðherra kallar eftir sem ég get enn á ný sagt að margt er vel athugunar virði. Með sumu hef ég ágæta samúð. Ég tel þó að það sé um leið svo mikilvægt að varðveita þá festu sem nauðsynleg er, að við missum ekki stjórn á þessu eins og gerðist hér. Ef okkur tekst raunverulega að sameina þetta tvennt, festuna og um leið þann sveigjanleika sem fylgir þessu kerfi, er auðvitað árangri náð. Um þetta ættum við að geta náð ágætri sátt.

Hitt er síðan umhugsunar virði í þingstörfunum að forgangur mála skiptir miklu máli, hvaða mál við tökum fyrir og í hvaða röð. Ég held að það dyljist engum og ég held að enginn alþingismaður hafi það sem einhverja einkaskoðun eða hafi uppgötvað einhvern stóran sannleika í því að hin stóra og ríka krafa þjóðarinnar á hv. Alþingi er að við röðum þannig málum og göngum þannig frá þeim að það sem skiptir mestu máli um þessar mundir nái að ganga hratt og örugglega fram. Núna eru þannig tímar að það er þörf, frú forseti, á betri sátt.

Ég ætla að leyfa mér að segja að þegar ég kom til þings í dag varð mér nokkuð brugðið við að fylgjast með þeim átökum og þeirri hörku sem ég varð vitni að í þingsalnum. Ég held að þetta sé alvarlegt mál. Ég held að það sé vont ef stjórnmálin á Íslandi þróast í þá átt að menn geti varla talað saman. Það sem ég fylgdist með í þingsalnum í dag voru ekki samræður, ekki rökræður, heldur eitthvað allt annað.

Ég get ekki tekið undir það sem ég heyri stundum sagt, að virðing Alþingis sé svo lítil að það sé varla upp á hana lappandi. Það er langt því frá. Ég tel að besta leiðin til að þjóðin sé sátt við sitt Alþingi sé sú að við náum saman um þá þætti sem hægt er að ná saman um og deilum síðan, frú forseti, af virðingu um það sem við erum ósammála um.

Þess vegna ítreka ég: Hví ekki að skoða þá leið sem ég hef lagt hér áherslu á? Hví ekki að skoða þá leið sem Finnarnir hafa farið? Hví ekki að velta því hér upp að ná víðtækri pólitískri sátt um eitthvað slíkt? Ég held að sú krafa sé uppi.

Síðan er hitt líka að þegar ég horfi núna á þá umræðu sem verið hefur hér þennan dag sem ég hef tekið þátt í þingstörfunum, þegar fyrir liggur að nú hafa til dæmis orðið þær breytingar í efnahagsmálunum okkar að við erum hætt í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hefði ég haldið að okkar tími hér þessa dagana ætti að fara í að ræða nákvæmlega hvernig við ætlum að leggja upp nýja efnahagsáætlun fyrir Ísland. Mér finnst, frú forseti, sem við fljúgum eiginlega blindflug án blindflugstækja, við séum að keyra áfram efnahagsstjórnina án þess að vita hvert við ætlum, þaðan af síður hvernig við ætlum að komast þangað sem þó kannski einhverjir telji sig hafa hugmynd um. Sú krafa hlýtur að vera á okkur að við náum einhverri sæmilegri lendingu í svona máli, ýtum því frá, og ef ekki er hægt að ná lendingu í það sætti menn sig við að ekki sé sátt um það. Það liggur ekki nein reiðinnar ósköp á þessu máli. Ekkert í þessu máli kallar á að við klárum það einn, tveir og þrír. Það eru fjöldamörg önnur mál, frú forseti, sem skiptir verulega miklu máli að við klárum.

Ef það er nú alvara í þeirri hugsun, frú forseti, að við ætlum að gera tilraun til að breyta stjórnarskránni, hví þá ekki að fara þá leið að klára þá vinnu og á grundvelli þeirrar stjórnarskrár, þegar liggur fyrir hvort við ætlum til dæmis að hafa ríkisstjórnina fjölskipað stjórnvald eða ekki, þegar liggur fyrir hvernig við viljum haga þeim málum, að taka þá til við að smíða endanlegt frumvarp og samþykkja lög um Stjórnarráð Íslands. Ég held að það væri miklu betri bragur á því. Það þýðir að ríkisstjórnin þyrfti að gefa eftir í þessu máli hvað varðar tímann, en hún þarf ekki að líta svo á að hún sé að gefa eftir efnislega. Hún þarf ekki að líta svo á vegna þess að það er raunverulega bara verið að fresta ákvarðanatöku í máli sem er í lagi að fresta. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem er tímabundið. Enn og aftur, það hangir líka mjög saman við breytingar á stjórnarskrá.

Það er þess vegna þetta tvennt sem ég vildi, frú forseti, leggja áherslu á, annars vegar þetta með að það eru fordæmi annars staðar á Norðurlöndum sem við getum skoðað sem ná þeirri niðurstöðu sem við erum að leita eftir og tíminn núna er ekki réttur til að deila um þetta mál. Það er hægt að setja það til hliðar.

Við eigum eftir, frú forseti, á þessum fáu þingdögum sem eftir eru að leysa til dæmis umræðuna um gjaldeyrishöftin sem er sennilega eitthvert almikilvægasta málið sem nú liggur fyrir þinginu, alveg gríðarlega brýnt að okkur takist að ná skynsamlegri lendingu í því máli. Það mun taka í, frú forseti. Það eru skiptar skoðanir um það mál og þar er svo sannarlega tímasetning sem við verðum að standa við. Þar höfum við ekki neinn möguleika.

Ég held að ábyrgir þingmenn og ábyrgir ráðherrar hljóti að geta fallist á að það sé hægt að setja þetta mál til hliðar með þeim hætti sem ég hef lagt hér upp með.

Þetta eru helstu atriðin, frú forseti, sem ég vildi segja í þessari fyrstu ræðu minni um þetta mál. Ég á eftir að fara nokkuð dýpra ofan í einstakar greinar frumvarpsins. Ef við tækjum þá ákvörðun að geyma frumvarpið í einhvern tíma yrði enginn skaði skeður.



[22:57]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst óska 3. þm. Reykjavíkur norður til hamingju með að hafa haldið tvær ræður í fyrstu umferð, 40 mínútur hvora, og þannig talað í 80 mínútur og lagt það til mála að greiða ætti fyrir þingstörfum og koma á þeirri ábyrgð í þingsalnum sem hann óskaði svo sárlega eftir.

Ég vil svo fagna því að auki, forseti, að hér kemur maður sem hefur farið í sérstaka rannsóknarferð til Norðurlanda, annarra norrænna ríkja, Danmerkur, að kynna sér hvernig þessum málum er háttað þar. Mér finnst nokkuð rýr sá árangur af för hans að það sé á móti hinu danska, sænska og norska fyrirkomulagi sem lagt er til með 2. gr., að ráðherrum hætti til að vera þaulsetnir í stólum sínum, ef ég hef skilið þingmanninn rétt. Ég hef haft á tilfinningunni að sú hneigð ráðherra sé við lýði burt séð frá því hvaða kerfi er haft á skipan stjórnarráðs í viðkomandi löndum. Ef hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vildi vera hljóður bið ég hv. þingmann að skýra þetta betur eða segja okkur með hvaða öðrum hætti hann telur að danska, sænska og norska kerfið sé forkastanlegt og ekki hafandi á Íslandi.



[22:59]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að þessi kerfi séu forkastanleg. Ég held að þau hafi margt sér til ágætis. En það er alveg rétt, og ég get tekið undir það með þingmanninum, að eitt af vandamálunum í þessu öllu er hve ráðherrar geta oft verið þaulsetnir.

Það sem ég átti við er þetta. Það skiptir máli að búið sé að taka ákvarðanir um fyrirkomulag ráðuneytanna og verkaskiptingu þeirra áður en ráðherrarnir eru skipaðir til sinna starfa. Það liggi fyrir áður en einstaklingarnir eru skipaðir í ráðherrastöðurnar hvaða ráðuneyti eigi að vera og hvaða verkefni þau hafi og þannig tekið á því. Það var það sem ég átti við varðandi ráðherrana.

Hitt er alveg rétt sem hv. þm. Mörður Árnason benti á og ég fór yfir í ræðu minni, að ég gerði mér far um að skoða þetta kerfi. Ég hef haft áhuga á þessu. Niðurstaða mín var sú að það væri það mikil áhætta á því að hjá okkur yrði sú lausung sem einmitt leiddi til löggjafarinnar 1969, að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því.

Annað sem ég lagði áherslu á í ræðu minni var að með því að horfa til Norðurlandanna, til Finnlands, fyndist lausn á málinu, sú lausn að sameina í raun og veru þessar tvær leiðir. Það verði bara komið á þeirri stjórnmálavenju að hver ríkisstjórn taki þessar ákvarðanir um hvernig verkaskiptingin verður o.s.frv., áður en ráðherrarnir eru skipaðir, gangi frá því í stjórnarsáttmála og beri það síðan strax fram á þingi sem fyrsta þingmál eða eitt af fyrstu þingmálum, sem Alþingi fjalli síðan um og gangi frá. Þar með náum við báðum markmiðum. Ég held að þetta gæti verið ágætisleið að lausn í þessu máli.



[23:01]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég sé ekki betur en finnska leiðin sé við lýði hér á landi. Það er ekkert öðruvísi að lögum. Ég kann að vísu ekki finnsk lög mjög vendilega, en það er ekkert öðruvísi að lögum en hér þannig að hér er ekki verið að benda á nýja leið. Það er verið að benda á breytta menningu, breyttan brag, breyttan kúltúr. Við eigum sameinast um það, ég og hv. þingmaður, að standa fyrir því. En það sem hér er um að ræða eru tvær leiðir, annars vegar norska, sænska og danska leiðin og hins vegar sú finnsk-íslenska með kostum sínum og göllum.

Ég kem satt að segja ekki auga á þá lausung í stjórnarfari í Noregi, Danmörku og Svíþjóð sem þingmaðurinn ræðir um. Ég óska nánari skýringa á því hvernig sú lausung kemur fram í samskiptum þings og ríkisstjórnar í þeim samfélögum.



[23:02]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ákveðna samúð með þingmanninum hvað varðar finnsk lög. Þetta er auðvitað allt á finnsku, þannig að við erum væntanlega jafnilla settir í því vandamáli.

Hvað varðar reynslu Dana og annarra, og einmitt öðruvísi menningu, þá er náttúrlega löng hefð fyrir t.d. minnihlutastjórnum í norrænum stjórnmálum. Þar liggur auðvitað að baki annar stjórnmálakúltúr, m.a. varðandi samskipti meiri hluta og minni hluta.

En það sem ég er einmitt að segja um finnsku leiðina er að við þurfum ekki að gera neinar stórtækar breytingar á lögunum. Við þurfum að breyta því hvernig við vinnum málin, hvernig við hugsum þetta í staðinn fyrir að gera þetta eins og gert hefur verið og við höfum síðan verið að vandræðast með, eins og við höfum séð í umræðu um stöðu einstakra ráðherra. Það ætti að fara þessa leið strax í upphafi, sem ég nefndi, áður en menn eru búnir að ganga frá allri skipan, áður en ráðherrarnir eru skipaðir til sinna verka. Auðvitað þarf síðan að ganga frá öllu saman þegar þing kemur saman, en það eru leiðir til að nálgast þetta og útfæra þannig að góð sátt náist um.



[23:03]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni kærlega fyrir ræðu hans og býð hann velkominn til starfa eftir árs hlé. Það var athyglisvert sem þingmaðurinn minntist á í upphafi máls síns að eftir árs leyfi væru enn sömu málefnin á dagskrá, hér væri enn verið að kljást um Helguvík og fleiri mál sem hann fór yfir, sem sýnir fullkomna stöðnun hjá ríkisstjórninni. Hér hefur ekkert gerst síðasta ár og því miður, frú forseti, ekkert gerst síðan ríkisstjórnin tók við. Það endurspeglast svona í upplifun þingmannsins að það var eins og hann hefði farið heim og lagt sig eina nótt og þegar hann kemur aftur eru sömu málin á dagskrá. (Gripið fram í: Og enn er lofað 6 þús. störfum.) Og enn er lofað 14 þús. störfum, hv. þm. Pétur Blöndal.

Hv. þingmaður fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig fyrirkomulagið væri á Norðurlöndum í samanburði við hér, og hefur kynnt sér það mjög vel. Ég hef gjarnan gert slíkan samanburð. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort honum þyki það ekki mikið hálmstrá hjá ríkisstjórnarflokkunum að bera það eitt saman hvernig ráðherraskipan er á hinum Norðurlöndunum, vegna þess, eins og þingmaðurinn fór yfir í andsvari sínu áðan, að þar er hefð fyrir minnihlutastjórnum en ekki hér. Á Norðurlöndunum er líka mikil hefð fyrir því að reka öflugar lagaskrifstofur sem sortera út svona ruslfrumvörp eins og þetta frumvarp hér hjá okkur á Alþingi og þar eru svona frumvörp hreinlega sett í pappírstætarann því að þar eru öflugir prófessorar í lögum sem hleypa svona málum ekki inn í þingið. Þess vegna er svo sorglegt að við íslenskir þingmenn skulum sífellt vera að þræta um lagatæknileg atriði.

Í frumvarpinu er kynntur til sögunnar mikill sveigjanleiki sem hæstv. forsætisráðherra getur nýtt. Ég vil spyrja þingmanninn: Býður þetta ekki upp á mikla hættu á því að þegar ráðherra lendir kannski í andstöðu við meiri hluta ríkisstjórnar, þá geti hæstv. forsætisráðherra hæglega gripið inn í, tekið málaflokkinn frá ráðherranum og sett málaflokkinn til ráðherra sem er (Forseti hringir.) forsætisráðherra að skapi?



[23:05]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar upplifun mína á því að vera aftur kominn til þings eftir nærri því eitt og hálft ár þá verður mér svolítið hugsað til ágætrar kvikmyndar sem ég sá í gamla daga og heitir Ground Hog Day. Sú mynd fjallar um mann sem vaknar á hverjum morgni og upplifir sama daginn aftur og aftur. Ég vona að upplifun mín verði nú ekki þannig, það væri slæmt, enda má ætla að hér séu fjölbreyttari verkefni en hjá þeim vesalings manni. Ef ég man rétt var hann veðurfréttamaður.

Hvað varðar fullyrðingar hv. þingmanns um stöðu efnahagsmála og annarra framfaramála er ég hjartanlega sammála þingmanninum að við sitjum því miður föst og það er engin ástæða til að sitja föst. Tækifærin eru næg, það eru nægir möguleikar til að koma hlutunum af stað en því miður hefur það ekki tekist. Hluti af því er kannski stjórnmálamenning okkar og hvernig við störfum. Þar geta allir litið í sinn barm. En ábyrgðin hlýtur auðvitað að liggja hjá þeirri ríkisstjórn sem er í landinu, þar er frumkvæðisskyldan og þar má margt betur fara.

Hvað varðar spurningarnar um stjórnskipun á Norðurlöndum þá vil ég nú ekki gefa mig út fyrir að vera einhver sérstakur sérfræðingur í þeim málum þó ég hafi reynt að leggja mig eftir þessu, en já, ég mundi hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem gæti myndast þegar forsætisráðherra þyrfti að ýta til óþægilegum ráðherra, ef niðurstaðan yrði ekki sú að ýta bara ráðherranum út, sem ég held að væri eðlilegast. Ef niðurstaðan yrði frekar sú að menn færðu verkefni til vegna andstöðu einstakra ráðherra, væri auðvitað mjög alvarlegur vandi á ferðinni. Þá byrjar hringekja þar sem menn halda ráðherranum inni þrátt fyrir andstöðu hans. Það er reyndar svolítið svipað og ég hef reyndar séð hjá þessu stjórnlagaráði, það leggur til að menn geti sagt sig frá ábyrgð og ákvörðunum með bókunum sem mér finnst skrýtin hugmynd. Það er auðvitað miklu hreinlegra að vísa bara þeim ráðherra úr ríkisstjórninni sem setur sig upp gegn stjórnarstefnunni heldur en að fara að hreyfa til verkefni innan Stjórnarráðsins, það gefur augaleið.



[23:08]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hreinskilin svör en því miður, með þessum gríðarlega sveigjanleika sem forsætisráðherra getur nýtt samkvæmt frumvarpinu, er forsætisráðherra einum gert kleift að færa bæði menn og málefni til að eigin ósk. Við skulum átta okkur á því. Ríkisstjórnin leggur þetta frumvarp til. Það er ekki eins og landsmenn óski eftir því að ríkisstjórnin sitji lengi. Hér getur komið meiri einræðisherra en hæstv. forsætisráðherra er sem starfar nú þannig að það er hættulegt lýðræðinu, að mínu mati, að færa með þessu frumvarpi vald á hendur eins aðila sem á raunverulega að sitja í 10–12 mánaða skjóli og í samstarfi við það fólk.

Ég segi eins og þingmaðurinn. Ég kalla eftir forgangsröðun. Ég kalla (Forseti hringir.) eftir málum sem skipta máli fyrir samfélagið allt og (Forseti hringir.) mundi óska þess að hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra mundi (Forseti hringir.) átta sig á því, út á hvað (Forseti hringir.) landsmálin ganga. (Forseti hringir.)



[23:09]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt sem einkennir auðvitað stjórnmálalíf okkar eru samsteypustjórnir. Samsteypustjórnum fylgir sá vandi að forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn á nokkuð bágt með að hlutast til um hverjir sitja sem ráðherrar fyrir samstarfsflokkinn. Sú regla er auðvitað ekki skrifuð en hún er hinn pólitíski raunveruleiki. Reyndar höfum við kannski orðið vitni að slíkum hlutum undanfarið. Ég held reyndar að vald forsætisráðherrans temprist alltaf að því leyti, þó að þetta yrði að lögum, þetta er alltaf sá pólitíski ómöguleiki sem fylgir samsteypustjórnum.

Ég hef í raun og veru miklu meiri áhyggjur af þeim þætti sem hv. þingmaður benti á sem er tilfærsla verkefna til þess eins að losa sig við erfiðan ráðherra eða losa um tök hans á málaflokki. Ég hef áhyggjur af því. Hitt læt ég mig minna varða hvort einum og einum ráðherra sé hent út úr ríkisstjórninni eða ekki, það er eins og gengur. (Forseti hringir.)



[23:11]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Þingmaðurinn fór vel yfir helstu atriðin í þessu frumvarpi og hvað það er sem þarf að breyta í því þannig að það sé óhætt að það verði að lögum.

Það kom fram hjá hv. þingmanni og er að verða nokkuð viðurkennt að í þessu felist mikið valdaafsal frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins og hæstv. forsætisráðherra. Hv. þingmaður nefnir að með þessu geti hæstv. forsætisráðherra flutt heilu málaflokkana milli ráðherra án þess að löggjafarvaldið sem hefur haft um þetta að segja hingað til geti nokkuð um málið sagt.

Þetta er að verða viðurkennt, stjórnarliðar hafa viðurkennt það hér í umræðunni og eru að reyna að koma með tillögur til þess að bæta það, draga úr því og breiða yfir þetta með einhverjum hætti og í því ljósi langar mig að velta upp við hv. þingmann þessari spurningu: Hvað drífur hæstv. ríkisstjórn áfram í þessum breytingum? Hvaða hugmyndafræði og hvaða hugsun býr að baki því að menn leggi svona gríðarlega áherslu á það núna, árið 2011, að færa völd frá Alþingi til framkvæmdarvalds, einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra? Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á þetta og hvað hann telji að búi þarna að baki.



[23:12]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ekki auðveld spurning. Í þann tíma sem ég hef verið fjarri þingstörfum hef ég því miður ekki þróað með mér skyggnigáfu eða einhvers konar slíka hæfileika til að rýna í hugarheim þeirra sem hér um véla og verð því einungis að giska. Auðvitað blasa við mér eins og öðrum þau vandamál sem eru uppi í núverandi ríkisstjórn. Sá vandi sem fylgir einmitt samsteypustjórn er að þá á forsætisráðherra mjög erfitt með að gera eitthvað í því ef til dæmis ráðherra úr samstarfsflokki er óþægur ljár í þúfu. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af því og velta því upp hvort sú mikla áhersla sem er lögð á að klára þetta mál núna, á sama tíma og mjög mikilvæg efnahagsmál bíða, geti verið — auðvitað vona ég og eiginlega treysti því að það sé ekki, það væri alveg óþolandi fyrir þingið að fást við þessi mál með þeim formerkjum. Maður treystir því að það sé ekki þannig, að menn horfi til þess að leysa vandamál í ríkisstjórninni sem uppi eru núna akkúrat þessa dagana. Ég bara neita að trúa því.

Ég vil nota tækifærið til að árétta annan svolítið áhugaverðan punkt í allri þessari umræðu, þ.e. það álit á þeim hugmyndum og breytingum sem stjórnlagaráðið og stjórnlaganefnd lögðu fram á dögunum sem kemur fram í frumvarpi forsætisráðherra. Það er alveg greinilegt að forsætisráðherrann hefur allt aðra skoðun á þessum hlutum. Þó að ákveðin atriði séu eins eru líka fjölmörg allt öðruvísi. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér, frú forseti, þeim skilaboðum sem eru send með þessu frumvarpi til þeirra sem unnu það verkefni.



[23:15]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Auðvitað höfum við ekki skyggnigáfu en hv. þingmaður talaði í kringum það sem einmitt flestir eru búnir að koma auga á, að svo virðist sem meginhugmyndir þessa frumvarps séu fyrst og fremst lagðar fram í þeim tilgangi að gera forsætisráðherra kleift að takast á við innri vandamál í ríkisstjórninni. Er það ekki svolítið sérstakt á þessum tímum að þetta sé gert svona, að við þurfum að horfa upp á að verið sé að færa völd frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins til að takast á við innri vandamál ríkisstjórnarinnar? Og er ekki veruleg hætta á því að þetta muni í auknum mæli verða á fleiri sviðum? Það getur orðið á fleiri sviðum að hæstv. forsætisráðherra sjái hag sínum betur borgið í því að færa aukið vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins.



[23:16]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum þætti málsins. Ég vil ekkert fullyrða um það en þetta er það sem blasir við. Ég get tekið undir þau orð hv. þingmanns.

Ég held að vandinn sé raunverulega víðtækari. Þegar jafnveik stjórn er við völd og núna sem reiðir sig á meiri hluta eins þingmanns er einmitt hætta á því að þær málamiðlanir sem þarf að gera í ríkisstjórninni til að halda henni saman kosti mjög mikið, geri það að verkum að ríkisstjórnin verði vart starfhæf og þurfi síðan að teygja sig mjög langt og jafnvel jafnlangt og við sjáum í þessu frumvarpi. Það má færa fyrir því sterk rök að það sé verið að gera þessar breytingar til að auðvelda síðan breytingar innan ríkisstjórnarinnar til að leysa vandamál dagsins í dag. Það er mjög alvarleg staða bæði fyrir þingið og þjóðina. Þess vegna skiptir máli, frú forseti, og ég get ímyndað mér að frú forseti taki undir með mér í því að það þurfi að skipta um ríkisstjórn sem fyrst.



[23:17]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Á löngum ferli mínum á hv. Alþingi, sumir segja of löngum, hef ég kynnst mörgum ræðumönnum og þar á meðal hæstv. ráðherrum Ögmundi Jónassyni, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeir kenndu mér að þegar menn ræða einhver málefni á Alþingi eigi að krefjast þess að ráðherrar séu viðstaddir. Nú veit ég að það mál sem við ræðum hér er í höndum þingsins en það fjallar um ráðuneytin, um ráðherrana. Það er mjög undarlegt að ráðherrarnir séu ekki viðstaddir, alveg sérstaklega vegna þess að tveir þeirra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, hafa lýst efasemdum um þetta. Það er ekki einu sinni víst að þeir styðji það þótt þeir séu í ríkisstjórn og við séum að ræða stjórnarfrumvarp.

Þess vegna óska ég eftir því, frú forseti, að því verði beint til þessara hæstv. ráðherra að þeir mæti hérna og ræði með okkur þetta frumvarp og taki þátt í umræðunni, helst sem fyrst. Ég legg til að þeir fái strax orðið þegar þar að kemur.



[23:18]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, ráðherrar voru þingmenn hér í stjórnarandstöðu á árum áður og beittu ýmsum brögðum til að fá menn í hús. Við ætlum ekki að gera það, hins vegar er málefnaleg krafa okkar og ástæða fyrir því að við biðjum um þessa tvo ráðherra það sem kom fram við bókun á ríkisstjórnarfundi fyrr á þessu ári þar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bókaði sérstaklega andstöðu við þetta frumvarp. Hvað gerði hæstv. innanríkisráðherra? Hann setti fyrirvara við frumvarpið.

Ég held að það skipti miklu máli, ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem hafa verið í dag um svonefnda tillögu ákveðinna þingmanna í Framsóknarflokknum og Hreyfingunni, að við fáum viðhorf þessara hæstv. ráðherra til þeirra tillagna þannig að við getum rætt þær við þá og hvort þeir taki ekki undir með okkur í stjórnarandstöðunni með það að við getum geymt þetta mál — ég er ekki að tala um að slátra málinu eins og sumir mundu kalla það hér — meðan það er rætt betur manna á meðal þannig að (Forseti hringir.) það verði hægt að fara í þessi mál sem allir eru að kalla á (Forseti hringir.) að Alþingi afgreiði, eins og málefni (Forseti hringir.) heimilanna. Ég hefði haldið að þessir menn sem hafa sett (Forseti hringir.) fyrirvara og bókað afstöðu (Forseti hringir.) í ríkisstjórn (Forseti hringir.) sæju sóma sinn í (Forseti hringir.) að mæta (Forseti hringir.) í þingið.

(Forseti (ÁI): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. innanríkisráðherra getur komið til fundarins. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hér í húsi og hefur verið meira og minna í allan dag og hlýtt á umræðu sem og þrír aðrir hæstv. ráðherrar sem eru nú í húsi.)



[23:20]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ítreka beiðni þeirra þingmanna sem töluðu á undan mér, en nú hefur forseti upplýst að kalla eigi til þingfundar hæstv. innanríkisráðherra og er það vel. Í framhaldi af því langar mig til þess úr því að hér sitja þrír hæstv. ráðherrar einhvers staðar í hliðarsölum að forseti fari fram á það við (Forseti hringir.) þá að þeir sitji í þingsal. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Athygli skal vakin á því að það er hægt að fylgjast með umræðum úr þingsal, annars staðar í húsinu og af skrifstofum þingmanna. Hæstvirtir ráðherrar eru í húsi og hlýða á mál þingmanna.)

Frú forseti. Ég veit vel að þingmenn hafa skrifstofur úti í Austurstræti og hinum megin við Austurvöll, en það (Forseti hringir.) hafa ráðherrar því miður ekki. Þess vegna er það sjálfsögð krafa — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Hæstv. ráðherrar sem hér hafa verið nefndir eru í húsi, einir fjórir, og ráðstafanir verða gerðar til þess að kalla til þann ráðherra sem óskað hefur verið eftir.)

Ég þakka fyrir það, (Forseti hringir.) frú forseti. Að vísu fór tími minn í útskýringar forseta þannig að mér er líklega gert að hverfa úr ræðustóli. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Það er rétt, hv. þingmaður.)

Ég fagna því ef hæstv. innanríkisráðherra verður kvaddur í salinn.



[23:22]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú erum við búin að ræða þetta mál talsvert lengi og um það eru mjög skiptar skoðanir. Það liggur fyrir að málið er engan veginn klárt til afgreiðslu eins og það er og það væri beinlínis hættulegt ef málið yrði samþykkt í núverandi mynd. Því langar mig að beina því til hæstv. forseta að skoðaður verði sá möguleiki að hliðra til dagskrá fundarins, taka önnur og brýnni mál á dagskrá, til að mynda mál sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt mikla áherslu á á sínum pólitíska ferli og snýr að afnámi verðtryggingarinnar. Eitt mál því tengt bíður á dagskránni.

Það er raunar með ólíkindum, frú forseti, að þetta skuli ekki vera skoðað og enn ótrúlegra að formenn þingflokka hafi ekki fundað hér síðan á mánudag til að ræða skipulag (Forseti hringir.) þingstarfa, hvernig við getum komið hér að málum sem meira máli skipta fyrir heimilin (Forseti hringir.) í landinu.



[23:24]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og ég benti á áðan eru það ekki bara þessir tveir hæstv. ráðherrar sem málið varðar. Maður getur til dæmis hugsað sér að hæstv. umhverfisráðherra sem oft tekur mjög afdrifaríkar og umdeildar ákvarðanir í umhverfismálum missi verkefni sín allt í einu, bara fyrir hádegi, að hæstv. forsætisráðherra taki ákvörðun um það. Ég er ansi hræddur um að mönnum kunni að bregða þegar farið verður að beita því ákvæði í lögunum að flytja verkefni og málefni frá einum ráðherra til annars.



[23:24]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær upplýsingar að það sé verið að kalla hæstv. innanríkisráðherra í hús. Ég held að það muni liðka mjög fyrir öllum þingstörfum að fá hann hingað, og skoðanir hans, til að ræða við þingheim allan enda talar hann iðulega um að það skipti máli að halda uppi virðingu þingsins. Hann hefur meðal annars gert fyrirvara við það mál sem um ræðir hér vegna þess að það er svo mikið valdaframsal frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins.

Ég veit líka að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðnar skoðanir á mörgum málum. Hann setur þær iðulega fram nokkuð tæpitungulaust úr ræðustóli þannig að velflestir skilja. Ég held að það væri ráð að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segði hug sinn, m.a. gagnvart þeirri tillögu sem liggur hér fyrir og þeirri tillögu okkar í stjórnarandstöðunni að við bíðum með að ræða þetta mál og hleypum að mikilvægari málum, málum sem eru í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.



[23:26]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera alvarlega athugasemd við fundarstjórn forseta. Í dag hefur kristallast í fundarstjórn forseta sú alvarlega staða sem er á Alþingi Íslendinga, sú mismunun sem þingmenn stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins eru beittir. Hér á Alþingi féllu í dag mjög móðgandi ummæli um til dæmis forseta Íslands og eina ráðið sem forseti Alþingis, samstarfsaðili í ríkisstjórnarflokki, beitti var að ávíta þingmanninn. Hann var samt ekki ávíttur persónulega heldur voru allir þingmenn ávíttir og viðkomandi þingmaður sem lét þessi ummæli falla var ekki ávíttur sérstaklega. Svo kemur hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hingað og segir að allir stjórnarandstæðingar hafi greindarvísitölu undir miðlungi. Ekki var hv. þingmaður ávíttur í það sinn. (Forseti hringir.) Svo glymur hér bjallan eins og (Forseti hringir.) enginn sé (Forseti hringir.) morgundagurinn þegar (Forseti hringir.) stjórnarandstæðingar (Forseti hringir.) tala. Ég geri athugasemd (Forseti hringir.) við þessa fundarstjórn forseta.



[23:27]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna þingmenn stjórnarandstöðunnar kalla svo mjög eftir því að það sé beðið með þessa umræðu. Ég hef skilið það á máli þeirra að hér sé um að ræða stórt og umfangsmikið mál sem mörg sjónarmið séu um af þeirra hálfu og full ástæða til að þeir hafi tækifæri til að færa þau sjónarmið fram. Það skyldi þó aldrei vera að sjónarmið þeirra í málinu séu að mestu leyti tæmd, enda hefur málið verið rætt í eina þrjá daga. Ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að halda þeirri umræðu áfram, reyna að ljúka umfjöllun um málið og sinna með þeim hætti störfum okkar í stað þess að standa hér gapandi um fundarstjórn forseta svo nemur hundruðum skipta.



[23:28]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka líkt og aðrir fyrir að verið sé að ná í hæstvirta ráðherra. Það er mjög mikilvægt, eins og komið hefur fram, að hæstv. ráðherrar mæti til umræðunnar, sérstaklega þeir sem hafa lýst fyrirvara við málið, eins og hæstv. innanríkisráðherra sem talaði um að meðal annars efni þessa frumvarps sýndi í engu leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju. Þar talar maður með reynslu sem var, eins og hefur komið fram, hent út úr ríkisstjórn fyrir það eitt að ætla að greiða öðruvísi atkvæði en forusta síns eigin flokks í Icesave-málinu. Ég held, frú forseti, að það sé mjög mikilvægt að við getum fengið nákvæmari upplýsingar um það hvenær hæstv. innanríkisráðherra er væntanlegur í hús þannig að menn geti skipulagt hvenær þeir muni tala og annað. Ég hafði til dæmis í hyggju að ræða málefni sem tengjast ummælum hæstv. innanríkisráðherra, bókunum hans og fyrirvörum við þetta mál. Ef það væri mögulegt að fá einhverjar frekari tímasetningar á því hvenær hæstv. innanríkisráðherra er kominn í hús (Forseti hringir.) væri það mjög gott.



[23:29]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í upphafi ítreka ég sjónarmið sem hér hafa komið fram um að það væri heppilegra fyrir framgang mála á síðustu dögum þingsins að taka fyrir þau mál sem samkomulag er um eða sem með einhverjum hætti eru tengd einhverjum sérstökum dagsetningum, ræða þau og afgreiða, komast að niðurstöðu í þeim og geyma ágreiningsmál, jafnvel stór ágreiningsmál eins og það sem hér er á dagskrá, mál sem hvorki er samkomulagsmál né tengt nokkurri sérstakri dagsetningu. Það er alveg rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, stjórnarandstæðingar í þinginu telja nauðsynlegt að ræða þetta mál mikið. Það er reyndar ekki svo að þeir hafi eingöngu áhuga á að heyra eigin sjónarmið. Til dæmis er ég alveg sannfærður um að margir hv. þingmenn hefðu mjög gaman og jafnvel gott af því að heyra sjónarmið hv. þm. Helga Hjörvars í þessu máli en hann hefur, a.m.k. fram til þessa, reynt að þegja sig í gegnum þessa umræðu.



[23:31]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa óskað eftir því að hæstv. ráðherrar verði við þessa umræðu, enda virðist um að ræða eitt helsta áhugamál og eina mál stjórnarinnar á þessu hausti þrátt fyrir að mörg önnur aðsteðjandi vandamál blasi við okkur öllum sem að minnsta kosti viljum sjá þau.

Ég beini því til frú forseta að hún tryggi það að meðal annars hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddur þessa umræðu og komi til hennar. Ég var að undirbúa mína ræðu, hef ekki haldið neina ræðu um þetta mál, einungis farið í örfá andsvör, og rak þá augun í það að kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er gjörsamlega, ég ætla ekki að segja handónýt en hún er ekki nægjanlega vel unnin. Það kemur til að mynda engin upphæð fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að koma og vera viðstaddur þessa umræðu og ég vil að frú forseti tryggi að svo verði. Ég hef ekki séð aðra eins kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu í háa herrans tíð. (Gripið fram í.)



[23:32]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti upplýsir að boðum hefur verið komið til hæstv. innanríkisráðherra um að nærveru hans sé óskað í þingsal. Hæstv. fjármálaráðherra er í húsi, hlýðir á mál þingmanna og hefur gert hér í allan dag.

Vegna orða og ummæla þingmanna um fundarstjórn forseta er einnig rétt að taka fram að enn óska fjölmargir þingmenn eftir því að ræða þetta mál, einir 16 þingmenn eru nú á mælendaskrá, þar af nokkrir sem ekki hafa áður tjáð sig um málið en einnig nokkrir sem vilja ræða það í þriðja sinn og einn hv. þingmaður hefur óskað eftir að taka í fjórða sinn til máls. Það er greinilega mikill áhugi á því að ræða þetta mál og verður því nú haldið áfram um sinn.



[23:33]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég skil mætavel að margir hv. þingmenn óski eftir því að ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands þannig að það er eðlilegt að það sé kallað eftir einstökum ráðherrum. Mér finnst að vísu sérkennilegt og veit ekki hvers þeir eiga að gjalda sem ekki hafa sérstaklega verið nefndir til sögunnar, eins og hæstv. utanríkisráðherra. Það hefur hvorki verið kallað eftir honum, hæstv. iðnaðarráðherra né hæstv. menntamálaráðherra. Mér finnst það synd, virðulegur forseti, að ekki skuli vera beðið um þá. Mér finnst að jafnframt eigi að óska eftir því að allir fyrrverandi ráðherrar séu kallaðir til þessarar umræðu, a.m.k. þeir sem eiga sæti á Alþingi og hafa setið í ríkisstjórn og geta tekið þátt í þessari umræðu. Jafnframt, virðulegur forseti, ættu allir verðandi ráðherrar að vera viðstaddir þessa umræðu. (Gripið fram í: Við erum öll … ráðherrar.)



[23:34]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að taka undir beiðni hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að kalla til umræðunnar þá ráðherra sem hann nefndi. Ég fagna því að það virðist vera að nást aukin samstaða um það hvernig við eigum að haga umræðunni hér, það sé nauðsynlegt að allir ráðherrar séu viðstaddir hana. Ég beini því til frú forseta að hún hagi fundarstjórn sinni með þeim hætti að þeir ráðherrar sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi verði kallaðir til þessarar umræðu. Það væri mjög fróðlegt að heyra akkúrat innlegg til að mynda hæstv. utanríkisráðherra til þessa máls.

Ég nefndi það að kostnaðarmat fjármálaráðherra um þetta frumvarp hefði verið alls kostar ófullnægjandi. Það er eins og að ríkissjóður eigi nú mikla og digra sjóði, þannig leit það að minnsta kosti út í Icesave-málinu þegar við ræddum það, þ.e. að við hefðum efni á því að greiða þar háa vexti. Ég held að væri gagnlegt fyrir okkur öll hér að fá þessa hæstv. ráðherra til umræðunnar.



[23:35]
Ásbjörn Óttarsson (S):

(BVG: Verðandi ráðherra.) Virðulegi forseti. Ég kem ekki upp undir liðnum fundarstjórn forseta heldur ætla ég að halda nokkuð merkilega ræðu, sérstaklega fyrir hv. þm. Björn Val Gíslason sem kallar fram í.

Ég vil byrja á að ræða það sem barst í tal undir fundarstjórn forseta, um kostnaðarmat á frumvarpinu. Nú kemur fram í kostnaðarmati á frumvarpinu að reiknað er með að það kosti um 100 millj. kr. Það er líka gert ráð fyrir því í ákvæði laganna um að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra í tvo sem geta síðan orðið allt að 23 að hægt verði að ráða sérstaklega þrjá til viðbótar því að talað er um í frumvarpinu að ráðuneyti séu um tíu og þá gætu þrír verið ráðnir í Stjórnarráðið á álagstímum. Ég hef sagt það í fyrri ræðum mínum að ég tel þetta mjög skynsamlegt að því leyti að tryggt sé að þegar verið er að ráða pólitíska ráðgjafa og aðstoðarmenn inn í ráðuneytin þá komi þeir með ráðherrunum og fari með ráðherrunum.

Síðan kemur breytingartillaga frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar sem felur í sér að þetta ákvæði taki strax gildi um leið og lögin verða samþykkt, þ.e. að heimildin verði veitt. Ég kallaði sérstaklega eftir skýringum á því í fyrstu ræðu minni hvað þetta þýddi í raun og veru. Ég hef ekki fengið skýr svör við því hvað þetta þýðir miðað við stöðuna nú. Ég þekki til í sumum ráðuneytum, öðrum ekki. Ég veit til að mynda að í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hafa þrír pólitískir ráðgjafar verið ráðnir. Þýðir þetta að einn þeirra fer út eða verða þeir áfram eða er búið að koma þeim fyrir í einhverjar stöður? Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hver er niðurstaðan?

Ég gerði mér grein fyrir því að eftir næstu kosningar þegar þetta yrði gert, eins og upprunalega var lagt upp með í frumvarpinu, mundi það þýða að þessir aðstoðarmenn færu út með viðkomandi ráðherrum og þá kæmu hugsanlega nýir inn eftir þessum lögum eins og þau voru upprunalega sett fram áður en breytingartillaga frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar tók gildi. Ég hef ekki fengið þau svör sem ég hef kallað eftir. Ég hef reyndar fengið svör frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem telur að það hafi komið fram á fundum hv. allsherjarnefndar að þetta væru um 130 millj. kr. Ég verð að gagnrýna mjög alvarlega að ekki skuli koma fram með breytingartillögunni frá hv. allsherjarnefnd neitt um það hvað þetta þýðir miðað við stöðuna í dag. Ég veit að það er búið að setja einstaka aðstoðarmenn inn í ráðuneytin sem sérfræðinga, skrifstofustjóra og þar fram eftir götunum en mér finnst að það þurfi að koma fram í frumvarpinu eða a.m.k. í umræðunni til að hv. þingmenn geti áttað sig á því hvað þetta þýðir í útgjöldum fyrir ríkissjóð núna og á næsta ári. Það er mjög mikilvægt.

Ef kostnaðurinn, eins og haldið var fram í dag sem ég þekki ekki af því að ég á ekki sæti í hv. allsherjarnefnd, er um 130 millj. kr. og hann er til viðbótar þeim pólitísku ráðningum sem þegar hafa átt sér stað þá finnst mér þetta gersamlega óviðunandi miðað við þær aðstæður sem uppi eru núna, enda er þess sérstaklega getið í frumvarpinu að vegna stöðunnar í efnahagsmálum sé lagt til að þetta taki gildi eftir næstu kosningar. Það er ekki hægt á þeim tímum sem við lifum núna, þar sem er verið að skera niður í heilbrigðisþjónustu, í velferðarmálum og öllum þessum viðkvæmu málaflokkum sem ég fullyrði að enginn hv. þingmaður er sáttur við að gera en verður samt að gera út af nauðsynlegum aðstæðum í ríkisfjármálunum, að leggja á sama tíma fram aukakostnað upp á um 130 millj. kr. — ef sú tala er rétt. Þess vegna óska ég eftir því að þeir hv. þingmenn sem sitja í allsherjarnefnd og koma hugsanlega í andsvör við mig upplýsi mig um þetta. (Gripið fram í: Um hvað?) Það er ekki hægt að bjóða upp á það að reka starfsfólk af heilbrigðisstofnunum landsins á sama tíma og ráðið er enn frekar í ráðuneytin.

Ég minni á að við sameiningu ráðuneyta, bæði undir innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti, var minni hagræðingarkrafa gerð á þau en önnur ráðuneyti, annars vegar 3% á innanríkisráðuneytið og hins vegar 4% á velferðarráðuneytið, samt var verið að sameina tvö ráðuneyti. Þó svo að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafi gefið út að það ætti að vera 9% niðurskurður í stjórnsýslunni varð ekki svo. Hvar er öll hagræðingin við þessar sameiningar? Það er oft og tíðum verið að fela kostnaðinn. Mér þykir dapurlegt að á sama tíma þurfi að fara í erfiðar aðgerðir við að skera niður á heilbrigðisstofnunum. Það segja tölurnar sem við fáum. Ég tel að mörgum hv. þingmönnum hafi brugðið þegar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson spurði um stöðugildi sem hefði fækkað því að þá kom í ljós að nánast öll þau stöðugildi sem hafði fækkað í ríkiskerfinu var hægt að rekja til Landspítalans, megnið af þeim, en annars staðar í stjórnsýslunni hafði þeim fjölgað. Þar hafði stöðugildum fækkað um 348 frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2010 og þar af eru 318 konur, 30 karlar. Á sama tíma og konurnar eru reknar af heilbrigðisstofnunum stæra einstaka hv. þingmenn, sem þykjast vera svokallaðir femínistar, sig á því að leggja grunn að kynjaðri fjárlagagerð. Í það er hægt að eyða tugum milljóna (Gripið fram í.) og setja óheyrilega peninga inn í ráðuneytin. Menn geta farið í svona stefnumörkun í ráðuneytunum, kynjaða fjárlagagerð og hvað þetta heitir nú allt saman, þegar við höfum efni á því. En þessi boðskapur um kynjaða fjárlagagerð hefur ekki mikinn tilgang að mínu viti þegar konurnar eru síðan reknar af heilbrigðisstofnunum og sérfræðingar ráðnir í ráðuneytin. Það kalla ég ekki skynsamlega ráðstöfun peninga.

Mér hefði fundist að það ætti að vinna þetta betur þar sem kæmi alveg skýrt fram hver hinn eiginlegi kostnaður er við að fara í þessar breytingar. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan og hef sagt í fyrri ræðum mínum, að ég er hlynntur því að menn stígi skref í þá átt að gera þetta ef skilyrðið er alveg skýrt, þ.e. að menn muni þá ekki koma pólitískt ráðnum aðstoðarmönnum eða ráðgjöfum fyrir í ráðuneytunum í einhver störf áður en þeir fara sjálfir þaðan út. Þetta gildir hvort sem þessi hæstv. ríkisstjórn er við völd eða einhver önnur. Pólitískir aðstoðarmenn verða að koma og fara með ráðherrunum.

Eitt sem mig langar að nefna í lok ræðu minnar. Þegar ég fer yfir dagskrá þingsins er búið að setja inn tvö frumvörp, 34. og 35. mál sem döguðu uppi í gær, Farsýslan og Vegagerðin, þ.e. sameining þeirra stofnana. Ég vil að það komi skýrt fram að þar var held ég samdóma álit allra hv. þingmanna sem eiga sæti í samgöngunefnd og kemur meira að segja fram í meirihlutaáliti nefndarinnar að skynsamlegra væri að stíga stærri skref í þeirri sameiningu. Áætlað var að sameina fjórar stofnanir en það varð samdóma álit hv. samgöngunefndar að við ættum að stíga stærri skref. Fram kemur í meirihlutaálitinu að menn töldu ekki fært að færa á milli ráðuneyta við núverandi aðstæður vegna girðinganna þar á milli. Ég sagði þá og ég segi nú að þær breytingar sem verða þegar við erum búin að ná niðurstöðu um þetta frumvarp, eins og ég skil það, munu lækka girðingarnar. Einn af kostunum við þetta frumvarp, því það eru ekki bara gallar í því, er sá að við lækkum þessa múra og reynum að rífa þá niður þannig að við getum farið í skynsamlegar sameiningar á stofnunum þvert á ráðuneyti til að ná fram þeirri hagræðingu sem nauðsynlegt er á þeim tímum sem nú eru uppi.



[23:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar þetta frumvarp verður að lögum gerist einmitt það sem hv. þingmaður talar um, girðingarnar á milli ráðuneyta minnka, fara vonandi burtu og það verður auðveldara að sameina stofnanir, meira að segja karlastofnanir og fækka þar þá vonandi og hagræða.

Hvað varðar aðstoðarmennina heldur þingmaðurinn því fram að hæstv. landbúnaðarráðherra sé með þrjá aðstoðarmenn. Ég veit ekki til þess. Ég held að hann sé með einn aðstoðarmann. Þannig er að núna mega ráðherrar hafa einn aðstoðarmann. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir megi hafa tvo aðstoðarmenn, sem aðstoðarmenn ráðherra. Síðan er stormsveit þriggja aðstoðarmanna sem hægt er að ráða í sérstök álagsverkefni. Það er ekkert flóknara en það.

Ef það er einhver maður í skrifstofustjórastöðu einhvers staðar í ráðuneyti sem kýs VG getur það ekki verið neitt alvarlegt. Ég held til dæmis að undanfarin ár hafi margir (Forseti hringir.) starfsmenn ríkisins kosið Sjálfstæðisflokkinn í þau 18 ár sem (Forseti hringir.) hann var hér við völd.



[23:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið. Það er nú samt sem áður þannig að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir erum að mörgu leyti sammála um margt í þessu frumvarpi, þar á meðal það sem ég benti á í fyrri ræðu minni, að við hefðum átt að stíga lengra og ráða inn í Stjórnarráðið. Ég geri ekki athugasemdir við það hvað stjórnsýslan og þeir sem sinna henni í ráðuneytunum kjósa, hvaða flokk, það skiptir mig engu máli. Ég vil bara hafa faglega stjórnsýslu, sama hvar fólkið er og það er ekkert síður faglegt fólk í ráðuneytunum, sama hvaða flokk það kýs.

Ég nefndi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagðist ekki vera með neinn aðstoðarmann að sinni, en eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við er hann búinn að ráða upplýsingafulltrúa, hann var með aðstoðarmann og hann hefur líka ráðið ráðgjafa, reyndar á verktakasamningi, útgerðarfélag, þannig að þá tel ég þrjá. Þess vegna vantar mig og vil fá yfirsýn yfir það hvað þessi útgjaldaaukning þýðir verði frumvarpið að veruleika. Mér finnst að hv. allsherjarnefnd hefði átt að leggja kostnaðarmat fram með breytingartillögu sinni. Hvað þýðir það að samþykkja þessi lög?



[23:48]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Ég er búin að svara hv. þingmanni. Það þýðir að ráðherrar mega í stað eins aðstoðarmanns hafa tvo og svo er þriggja manna stormsveit sem er hægt að setja í álagsverkefni.



[23:48]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig alveg á því og það stendur skýrt í frumvarpinu, það eru 20 aðstoðarmenn og þrír aðstoðarmenn sem hægt er að ráða inn í ráðuneytin komi upp ákveðin verkefni. Það er alveg hárrétt. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan.

En hvað þýðir það miðað við stöðuna í dag? Það er það sem ég átta mig ekki á. Ég hef ekki þær upplýsingar, því miður. Ég á ekki sæti í hv. allsherjarnefnd. Mér finnst þetta mjög mikilvægt því að það hefur komið fram í andsvari í dag hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hún teldi það hafa komið fram í allsherjarnefnd að þetta þýddi um 130 millj. kr. útgjaldaaukningu. Ég veit það ekki og þess vegna er ég að kalla eftir þessum upplýsingum. (Gripið fram í.) Ég sit ekki í hv. allsherjarnefnd, hv. þm. Mörður Árnason. (Gripið fram í.) Ég veit það bara ekki. Þess vegna er ég að kalla eftir því — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að vera ekki með tveggja manna tal heldur leyfa ræðumanni að nota sjálfur þann stutta tíma sem hann hefur til að svara andsvörum.)

Takk, virðulegi forseti. Það væri mjög æskilegt að hv. þm. Mörður Árnason kæmi í andsvör, hann gæti þá upplýst mig um kostnaðaraukninguna af þessu frumvarpi sem við komum til með að samþykkja á þessu þingi.



[23:50]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa leiðbeiningu. Ég ætlaði einmitt að spyrja um þessa tölu, 130 milljónir, sem þingmaðurinn hefur haldið fram í þessu púlti. Hvaðan er hún komin og hver er heimildin fyrir henni? Það svar er komið og ég þakka fyrir það, það er Vigdís Hauksdóttir.

Ég veit ekki — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmann að virða reglur.)

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, gleymdi ég því?

Ég veit satt að segja ekki hvað aðstoðarmaður hefur í laun, en mér sýnist að ef hann hefur til dæmis þingmannslaun dugi þessar 130 milljónir fyrir — þetta er mánaðartala, er það ekki? (VigH: Á mánuði?) (Gripið fram í: Á ári.) (Gripið fram í: Veistu ekki …?) Á ári? (VigH: Á ári.) Ég bara bið hv. þingmann að skýra fyrir mér hvað er gert ráð fyrir að fjölgunin sé mikil fyrir þessar 130 milljónir og hvernig þessi tala er fengin út. Ef hann hirðir hana eftir hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hlýtur hún að gera það með einhverri heimildarrýni sem er rétt að komi fram í þingsalnum. (VigH: Það kom fram í allsherjarnefnd frá ráðgjöfum forsætisráðuneytisins.)



[23:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í umsögn frumvarpsins að það er lagt til að það mundi kosta aukalega um 100 milljónir. Þá er spurningin sem mér finnst þurfa að svara og mér finnst að hv. allsherjarnefnd hefði þurft að skoða sérstaklega: Með því að samþykkja þetta frumvarp núna, hvað þýðir það í útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð? Hver er staðan núna? Hvað eru margir aðstoðarmenn? Eru þeir 15? Eru þeir 12? Eru þeir 18? Eru þeir 10? Ég veit það ekki. Það eru þessar upplýsingar sem ég er að kalla eftir. Það er mjög lítil virðing fyrir fjárlögum eða fjármagni á þessum erfiðu tímum ef þetta liggur ekki fyrir. Af hverju gerir það það ekki? Það er sérkennilegt að upplifa það að ég þurfi að svara því og í rauninni giska á þetta. Þetta hefur komið fram í umræðum, þess vegna kalla ég eftir þessum upplýsingum. Mér finnst (Gripið fram í.) mjög mikilvægt að það komi fram hver hinn raunverulegi kostnaður er. Mér fyndist að hv. allsherjarnefnd hefði átt að kynna útgjaldaaukninguna með breytingartillögunni af því að hún leggur til þá breytingu að þetta ákvæði í frumvarpinu taki strax gildi en ekki eftir næstu kosningar.



[23:52]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þetta er mjög athyglisvert sem við sjáum hér, að menn eru að velta því fyrir sér í ræðu hver kostnaðurinn kunni að verða af þessu frumvarpi. Hleypur hann á 100 milljónum? 150 milljónum? 200 milljónum? Við höfum nú séð margt, m.a. Sjóvá og Icesave. Við höfum séð ótrúlega mikil fjárútlát hjá þessari ríkisstjórn án þess að menn viti raunverulega um hvaða upphæðir er að ræða og í hvað þær fara. (VigH: ESB.) ESB-umsóknina og svona mætti áfram telja.

Hvað telur hv. þingmaður, er ekki einfaldlega þörf á því að reikna á nýjan leik út allan kostnað við þetta frumvarp? Er ekki ótækt hjá Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarp með þessum hætti á sama tíma og skorið er niður til heilbrigðismála, menntamála og velferðarmála, að þá sé lagt fram stjórnarráðsfrumvarp og breytingartillögur við það án þess að menn hafi nokkra hugmynd um hver kostnaðurinn verður við þessari breytingar?



[23:54]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er það sem ég er búinn að kalla eftir í þessari umræðu, búinn að halda hér þrjár ræður og kallaði töluvert eftir þessu í fyrstu ræðu minni. Auðvitað snýst spurningin um fjölda aðstoðarmanna í dag. Það er það sem ég veit ekki. Það hlýtur að vera hægt að fá þær upplýsingar innan úr Stjórnarráðinu, hvað þetta þýði í útgjöldum.

Það er mjög mikilvægt að mínu viti að menn viti þá, og hv. þingmenn sem koma til með að samþykkja þetta, hvað þetta þýðir. Það liggur fyrir að það er búið að fara í mjög erfiðar og sársaukafullar aðgerðir. Þetta finnst mér snúast um forgangsröðun eins og ég benti á í ræðu minni áðan. Það er hægt að bruðla með peninga í alls konar gæluverkefni. Ég hélt að sá tími væri liðinn, að menn yrðu að hugsa nánast um hverja einustu krónu. Það er tekist á í þinginu við afgreiðslu fjárlaga um kannski 100 þús. kalla, 500 þús. kalla, en svo þegar stóru tölurnar koma, hvort það eru 100 milljónir eða milljarðar, er bara ekkert fjallað um það og það er algjört aukaatriði að koma þeim upplýsingum inn í þingið. Það er óviðunandi að mínu mati.



[23:55]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er sannarlega dapurlegt eða alvarlegt að við skerum niður til einmitt þessara stóru málaflokka sem skipta okkur öll svo miklu máli. Við upplifðum það á síðasta ári að gengið var mjög harkalega að eða átti að ganga mjög nærri heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Það var dregið til baka að einhverju leyti, en nú er að kvisast út að fjárlögin fyrir næsta ár kunni að fela í sér áframhaldandi harkalegan niðurskurð á heilbrigðisþjónustu, m.a. á landsbyggðinni. Þá tek ég undir með hv. þingmanni, það er með ólíkindum í fyrsta lagi að menn skuli ekki hafa það nákvæmlega á hreinu hvaða kostnaður fylgir svona gæluverkefnum. Í annan stað er með ólíkindum að menn skuli ætla að setja gríðarlegar upphæðir í svona lagað á sama tíma og verið er að segja upp fólki í heilbrigðiskerfinu allt í kringum landið.



[23:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður er að segja hér. Það er akkúrat það sem ég fór yfir í ræðu minni áðan, ég notaði hana nánast alla til að fara yfir þetta virðingarleysi og skeytingarleysi gagnvart fjármunum. Við horfum upp á það að það er hægt að setja inn í stjórnsýsluna helling af peningum á sama tíma og verið er að skera niður á heilbrigðisstofnunum. Það er mjög sláandi sem kemur þar fram. Þess vegna hélt ég að þingið eða framkvæmdarvaldið mundi vakna við þær upplýsingar sem hafa komið fram, tölulegar upplýsingar um hvað þetta hefur þýtt. Það virðist bara ekki skipta neinu máli, enda sjáum við það í meðförum Alþingis. Það hefur vakið mína mestu undrun frá því ég kom inn á þing. Þegar verið er að ræða fjáraukalög, fjárlög, ríkisreikning eða lokafjárlög, þar sem verið er að færa til jafnvel tugi milljarða, tæmist salurinn nánast um leið og byrjað er að tala, örfáir hv. þingmenn taka þátt í umræðunni og hinir setja sig ekkert inn í málin. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Það verður að ná agaðri fjármálastjórn og það er akkúrat það sem við erum að reyna að vinna núna í hv. fjárlaganefnd, það er ágætissamstaða um það og (Forseti hringir.) ég ber þá von í brjósti að við náum einmitt að breyta þessu og fjalla (Forseti hringir.) um þetta af þeirri ábyrgð sem okkur ber skylda (Forseti hringir.) til að gera.



[23:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í því að fara í gegnum þessi gögn og er alltaf að rekast á eitthvað nýtt sem maður veltir fyrir sér. Reyndar væri gott ef hv. þingmenn Hreyfingarinnar yrðu hér á morgun og svöruðu þessum spurningum sem ég ætla reyndar að beina til hv. þingmanns. Við erum með breytingartillögu frá Hreyfingunni við þetta frumvarp. Ég velti fyrir mér hvað það þýðir þegar hér er lögð fram tillaga þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ráðuneytisstjórum er skylt að mótmæla eða koma að athugasemdum telji þeir gjörðir ráðherra ekki samræmast lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum. Samsvarandi skylda hvílir einnig á skrifstofustjórum …“

Gefum okkur að það verði sett í lög að ráðuneytisstjórum, starfsmönnum ráðuneytanna, sé skylt að koma að mótmælum ef þeir sjá eitthvað sem þeir vilja gera athugasemdir við hjá ráðherranum. Ef þeir gera það ekki, er mögulegt að þeir séu að baka sér einhverja skaðabótaskyldu eða gerast samsekir um eitthvað?



[23:59]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einn af þeim hlutum sem menn verða að ræða vel og fara efnislega yfir, til að mynda það sem kemur fram í frumvarpinu þar sem hæstv. ráðherrum hverjum og einum er skylt að fara yfir öll atriði á ríkisstjórnarfundum sem gætu komið til úrskurðar í stjórnsýslunni, og þá velti ég oft fyrir mér að það er í fyrsta lagi huglægt mat hvað er mikilvægt og gæti hugsanlega komið. Reyndar tel ég að flestallt geti komið sem varðar einstaka hæstv. ráðherra til ákvarðanatöku í stjórnsýslunni. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta sé með þeim hætti að einstakir hæstv. ráðherrar munu fara inn á ríkisstjórnarfund og lesa upp allt sem er að gerast í ráðuneytinu alveg frá A–Ö til að vera tryggir á því að komi upp eitthvað seinna muni það hafa verið tilkynnt til ríkisstjórnar. Þetta eru ákveðnir hlutir sem menn verða að fara betur yfir og ræða hvernig muni virka. Það er huglægt mat sem kemur þarna fram. Ég átta mig ekki alveg á því hvar mörkin eru. Það er voðalega vont að hafa texta sem er huglægur af því að það er mismunandi hvernig einstakir hæstv. ráðherrar munu túlka hann.



[00:00]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þetta. Í fyrri breytingartillögunni frá hv. þingmönnum Hreyfingarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Haga skal fundargerð með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverju því sem tekið er fyrir á ríkisstjórnarfundi. Bókuð sé afstaða hvers ráðherra til mála.“

Það kann vel að vera að þetta sé liður í því að formgera hlutina, gera þá fastari, en ég held að við þurfum hins vegar að fá ákveðnar skýringar á því hvað er nákvæmlega meint með þessu. Ef ráðherra er á fundi, segjum bara á stórum fundi einhvers staðar úti í bæ, og þar koma í ljós einhverjar athugasemdir eða hugmyndir sem ráðherra vill gjarnan nýta sér í sínu embætti, þarf þá að færa til bókar hver hafi varpað þessu fram? Má þá ætla að ráðherrann gangi erinda viðkomandi þó að ráðherrann telji þetta einfaldlega mjög góða tillögu eða hugmynd?



[00:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður spyr um þessi atriði er eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu dálítið vont að hafa svona huglægt mat. Ég vil þó segja að það koma líka ágætisbreytingartillögur frá hv. allsherjarnefnd, til að mynda að það eigi að færa sérstaka skrá um samskipti og alla fundi milli ráðuneyta, Stjórnarráðsins og aðila fyrir utan það. Það tel ég til hins betra og hefði þurft að vera gert miklu fyrr. Í raun og veru eru í þessu frumvarpi ákveðin atriði til bóta. Eftir stendur þessi mikli ágreiningur um 2. gr. sem við þekkjum öll og ég ætla ekki að ræða hana neitt efnislega, það er búið að fara mjög vel yfir framsal valds frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins.

Ég kom inn á það í ræðu minni núna að þá yrðu lækkaðir múrarnir þannig að við gætum farið í skynsamlegri sameiningu en við hefðum getað farið í þannig að það er sumt (Forseti hringir.) auðvitað til bóta við frumvarpið.



[00:03]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg magnað að vinnubrögðin þurfi að vera með þessum hætti á þinginu, eins og ég hef áður komið að í þessari umræðu. Þetta á rætur að rekja til þess að hæstv. forsætisráðherra kýs að koma með mikil ágreiningsmál inn í þingið á síðustu metrum þess. Þetta upplifðum við í vor og skapaði mikla pressu þar sem tugir mála voru á dagskrá þingsins en að lokum tókst ekki að ljúka nema fáum þeirra og einhverjum var frestað til þessara haustdaga núna og þá upplifum við þetta aftur, hér koma mál sem ekki eru fullbúin í raun eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni og mikil óeining er um og það er reynt að keyra þetta í gegn með valdi.

Þetta er nokkuð sem hæstv. ríkisstjórn á ekki að gera, það á ekki að bjóða þinginu upp á þessi vinnubrögð, um þessi mál á að geta verið miklu meiri samstaða og vinnubrögðin vandaðri en raun ber hér vitni. Eins og fram hefur komið er mikil andstaða við þetta mál, ekki aðeins á það við að það sé ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur er málið þannig vaxið að það kom ekki einu sinni út úr ríkisstjórn með öllum greiddum atkvæðum, þar voru fyrirvarar við málið og hreinlega andstaða. Síðan er það þannig í ríkisstjórnarflokkunum að um þetta eru mjög skiptar skoðanir og kannski meira en borið hefur á hér í umræðunni.

Mál sem þessi sem fjalla um Stjórnarráðið eiga auðvitað að hljóta miklu vandaðri undirbúning og um þau er mikilvægt að náist mikil samstaða. Það er ekki eins og ekki hafi eitthvað verið gert á þessum vettvangi vegna þess að frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við völdum í febrúar 2009 hefur lögum um Stjórnarráðið verið breytt þrisvar sinnum.

Það hefur ekki farið fram nein skipulögð eða markviss úttekt á áhrifum þessara breytinga á skipulag og starfshætti Stjórnarráðsins. Það hefur ekki verið skoðað hvaða hagræðing hefur fengist af þessum skipulagsbreytingum og ég fullyrti í ræðu sem ég hélt hér í gær um þetta mál að staðan væri einfaldlega þannig að sennilega væri kostnaðurinn meiri við þessi ráðuneyti eftir breytingarnar en hann var áður. Þá spyr maður sig: Hvers vegna er verið að gera þetta við þær erfiðu aðstæður sem eru í okkar samfélagi? Af hverju erum við að stíga þessi skref? Er verið að breyta bara breytinganna vegna? Hér þarf að forgangsraða í þágu þeirra erfiðu tíma sem við stöndum frammi fyrir, í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og karp eins og við horfum fram á hér á ekki að eiga sér stað, allra síst á svona erfiðum tímum.

Málið var einnig fellt í allsherjarnefnd þingsins sem eru ekki mörg dæmi um. Formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, ætlaði að afgreiða málið út úr nefnd en hafði ekki til þess meiri hluta í nefndinni þannig að það er ekki hægt að segja annað en að málið hafi verið fellt og þá hófust einhver hrossakaup og inn komu atriði eins og það að upptaka skyldi fara fram á ríkisstjórnarfundum og við getum rætt um það lengi hvaða afleiðingar það mun hafa. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni þegar hann ræddi það hér áðan, þetta verður auðvitað til þess að á ríkisstjórnarfundum verður umræðan takmörkuð, ákvarðanir og umræður munu fara fram utan formlegra ríkisstjórnarfunda og síðan verða ríkisstjórnarfundirnir einhvers konar afgreiðslufundir.

Er þetta heppileg þróun? Ég held að við séum flest sammála um að þetta er vitleysa. Þetta er afturför en samt skal þetta keyrt í gegn til að mæta duttlungum einhverra örfárra þingmanna sem á þetta leggja áherslu. Allt til þess að koma þessu máli í gegn. Við erum að eyða mikilvægum tíma í þras sem er þinginu ekki til sóma og kallar á gagnrýni alls staðar um svokallað málþóf.

Í ræðu minni í þinginu í gær fór ég yfir hvað málþóf er og þeim ummælum mínum hefur verið velt hér upp í umræðunni í dag. Þegar um er að ræða málþóf eða lengri umræður eins og nú þýðir það ekki endilega að hér séu haldnar innihaldslausar ræður, alls ekki. Hér hafa verið fluttar mjög málefnalegar ræður og margir vilja tjá sig um þetta mál, en það hefur algjörlega skort á málefnalega umræðu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hv. þingmanna þeirra, í ræðustól Alþingis. Þeir hafa komið hér fram með ómálefnalega gagnrýni, gífuryrði, talað niður til þingmanna, talað um að þeir séu greindarskertir, þeir séu geðklofa og síðan talað niður til forseta Íslands. Þetta komast hv. þingmenn upp með nánast átölulaust frá forseta þingsins. Það er ámælisvert. Á þessu ber að taka af festu af virðulegum forseta á öllum tímum gagnvart öllum þingmönnum. Við eigum ekki að innleiða svona málflutning eða heimila hann í þinginu, við eigum að víta málflutning sem þennan.

Málþóf eða svona langar umræður eru auðvitað þekktar og þetta er eina verkfærið sem við í stjórnarandstöðunni höfum til að koma ríkisstjórninni að samningaborðinu. Okkur hefur tekist það ágætlega á þessu kjörtímabili og þannig hefur það verið, en þetta er leiðindaaðferð og okkur ber að reyna að uppræta hana. Okkur ber að reyna að ná meiri samstöðu um hvernig mál fara í gegnum þingið þannig að til þessa þurfi ekki að koma. Það gengur ekki öðruvísi en að tekið verði meira tillit til aðstæðna og fulltrúa minni hlutans á hverjum tíma.

Veigamestu breytingarnar sem hér eru lagðar til eru þær að lagt er til að í stað þess að Alþingi ákveði með lögum hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu verði ákvörðun um það tekin með forsetaúrskurði. Með þessu er valdið í þessum efnum fært frá Alþingi til ríkisstjórnar og þá auðvitað fyrst og fremst til forsætisráðherra. Um þetta stendur kannski megindeilan, að taka vald frá þinginu og færa það til framkvæmdarvaldsins. Þetta gengur þvert á alla þá umræðu sem hefur verið rauði þráðurinn frá hruni þar sem kallað hefur verið eftir aukinni valddreifingu og alls ekki því að vald verði of miðstýrt. Það má nefna þar skýrslu stjórnlaganefndar, það má nefna þjóðfundinn sem haldinn var, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og alls staðar kemur fram rauði þráðurinn, krafan er aukin valddreifing. Og reyndar meira vald til þingsins, að þingstarfið verði eflt, Alþingi verði eflt, og þá á kostnað framkvæmdarvaldsins. Hér er farið gegn því. Það er í raun verið að snúa hlutunum algjörlega á hvolf þegar hæstv. forsætisráðherra talar um að hún fylgi hér eftir niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það stenst enga skoðun og er í raun alveg undarlegur málflutningur. Þetta held ég að allir séu sammála um, þetta hefur komið fram ítrekað hjá nefndarmönnum sem unnu þessa skýrslu á vegum þingsins á sínum tíma og skilningur þeirra er algjörlega skýr í þessu máli. Ef aukið vald er fært til framkvæmdarvaldsins býður það líka heim meiri misbeitingu á valdi. Við höfum orðið vör við það hjá hæstv. ríkisstjórn að menn hika ekki við að misbeita valdi sínu. Hér hefur verið nokkur umræða um það, virðulegi forseti, undanfarna daga hver aðkoma ríkisvaldsins hefur verið að svokölluðu Magma-máli. Hæstv. fjármálaráðherra var á fundi iðnaðarnefndar í morgun til að fara yfir þau mál. Þar kemur skýrt fram í þeim gögnum sem ég hef og koma að afskiptum fjármálaráðuneytisins að þar er hæstv. fjármálaráðherra án nokkurs vafa að mínu mati að misbeita valdi sínu. Þar kemur fram að ekki sé hægt að skilja hlutina öðruvísi en að hæstv. fjármálaráðherra sé á sama tíma og ríkisstjórnin er að láta nefnd um erlendar fjárfestingar fara yfir þá möguleika jafnvel að þjóðnýta þetta fyrirtæki eða taka það til baka með einhverjum hætti að gera, að manni getur skilist, a.m.k. munnlegt samkomulag við Ross Beaty, forstjóra Magma. Það kemur fram í minnisblaði um fund í fjármálaráðuneytinu með þessum fulltrúum að Íslandsbanki óski eftir því að fá staðfestingu á því samkomulagi sem fjármálaráðherra og Ross Beaty gerðu með sér um að Magma mætti eiga allt að 50% hlut í HS Orku á móti innlendum aðila. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra um þetta atriði á fundinum í morgun sagði hann hreinlega að þetta hefði verið ofmat eða oftúlkun hjá þeim embættismanni sem þetta skrifaði. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra að því hvað ráðuneytið hefði gert til að leiðrétta þennan misskilning og þessa oftúlkun embættismannsins var ekkert um svör. Það hafði ekkert verið gert til að leiðrétta þetta.

Svona er þessi skýrsla og þessi gögn, þau eru full af dæmum um þetta. Það kemur einnig fram í þessu að á sama tíma og ríkisstjórnin talar hér við aðila vinnumarkaðarins, Suðurnesjamenn og landsmenn alla, að öll áhersla verði lögð á það að álver rísi í Helguvík, á sama tíma er hér í samningsdrögum frá fjármálaráðuneytinu sem fara til Magma yfirlýsing um að Magma muni leita víðtækari kaupendahópa sem sérstaklega hefur umhverfisvænan iðnað að starfsemi. Þetta gerist á sama tíma og verið er að fullyrða hér við alla aðila, þingið og þjóðina að ríkisstjórnin sé heils hugar í því að greiða leið þessara framkvæmda á Suðurnesjum.

Þetta kalla ég að misbeita því valdi sem menn hafa og fara á skjön við það. Svo var það rúsínan í pylsuendanum í morgun sem er í raun alveg táknrænt fyrir starfsemi eða framkomu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að þegar ég lagði til í hv. iðnaðarnefnd eftir þennan fund að iðnaðarnefnd mundi sameinast um að láta fara fram rannsókn eða óska eftir því að fram færi rannsókn á þessum þætti þannig að það mætti hreinsa allt sem hér er út af borðinu, það mætti leggja hér skýrar línur, þá var það ekki til umræðu, ekki frekar en aðrar rannsóknir á störfum ríkisstjórnarinnar. Ég hef allan vara á því að færa aukið vald frá þinginu til hæstv. ríkisstjórnar. Og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn er við völd, ég held að það gæti orðið erfitt að vinda ofan af þessu ákvæði ef við værum komin með það inn. Það er kannski ekki líklegt að einhverjar ríkisstjórnir fari að draga úr valdi sínu aftur eða færa vald sitt aftur til þingsins með breytingu á þessum lögum.

Það sem er fyrirferðarmest í aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið eru málefni atvinnuveganna. Margir halda því fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu einmitt til höfuðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, þar eigi annaðhvort að sameina ráðuneyti og mynda svokallað atvinnuvegaráðuneyti eða að færa verkefni frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, verkefni sem eru ríkisstjórninni ljár í þúfu að hafa þar í dag.

Það er mikið hættuspil sem við værum að leika með því að gefa það vald til forsætisráðherra. Ég hef setið marga fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem að mínu mati eru dálítið skýrt dæmi um það sem getur gerst í þessum efnum. Á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins eru á áttunda tug ríkja með sína fulltrúa. Flest þau ríki sem eru andstæðingar hvalveiða, þessi hópur skiptist um það bil til helminga, hvort menn eru fylgjandi eða andvígir hvalveiðum, en í flestum þeirra ríkja sem eru andvíg hvalveiðum heyra þessi mál undir umhverfisráðuneyti viðkomandi landa, eins og hvalveiðar hafi eitthvað með umhverfismál að gera. Mér er minnisstætt þegar sendinefnd þýska þingsins kom til okkar í fyrra í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þ.e. sú nefnd sem hefur með sjávarútvegsmál að gera þar, og við ræddum meðal annars hvalveiðar. Þá var ákveðinn skilningur í þeirri nefnd fyrir hvalveiðum okkar en þeir sögðu bara: Ja, þetta er bara ekki á okkar vettvangi, þetta er hjá umhverfisnefndinni.

Við getum öll séð hver staðan væri ef hæstv. umhverfisráðherra hefði með hvalveiðar að gera núna, hver staðan væri í þeim málum. Það sama gæti átt við um aðildarviðræður að Evrópusambandinu, hvort það væri ekki einfaldasta málið fyrir hæstv. forsætisráðherra að færa þau verkefni frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til einhverra annarra sem eru auðveldari í taumi í þeim efnum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þessu máli sé gefinn meiri tíma og það sé reynt að setjast yfir þessi mál af einhverri yfirvegun og ná um þetta víðtækari sátt en orðin er. Það er miklu mikilvægara fyrir þetta þing í öllu tilliti og ekki síst í þeirri viðleitni að efla virðingu þingsins að við snúum okkur að mikilvægari málum en við ræðum hér nú og eyðum öllum þessum tíma í. Það er erfitt ástand í samfélaginu, atvinnuleysið er vaxandi, við erum að sjá haustuppsagnirnar dynja á okkur núna eftir sæmilegt eða heldur betra ástand í sumar en var í fyrravetur. Við lesum orðið um uppsagnir aftur í blöðum og heyrum af þeim um allan bæ. Á meðan eyðum við tíma okkar í þessi mál. Ég hefði kosið að við værum að reyna að vinna að frekari fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, við værum að skoða hér til dæmis og ræða það sem stendur í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar sem er mjög áhugavert plagg og ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér til hlítar. Í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar, ef hún gengi eftir, en til að svo verði þarf að taka ákvarðanir sem þessi ríkisstjórn virðist ekki vera bær til að taka, það þarf að taka ákvarðanir um næstu virkjanaframkvæmdir. En ef það gengi eftir má áætla að árið 2012 verði heildartekjur ásamt fjárfestingu í iðnaði um 35 milljarðar og 2013 64 milljarðar. Áætluð áhrif á uppsafnaðan hagvöxt eru 2,5–3% árið 2012 og yfir 4% 2013. Þetta eru engar smátölur sem við erum að ræða hér.

Það má reikna með að áhrif orku- og iðnaðarfjárfestinga á fjölda starfa árið 2012 gætu verið um 2.000 störf eða rúmlega það og nálægt 3.000 störfum árið 2013. Það eina sem þarf að gera hér er að ræða þessi mál og taka skynsamlegar ákvarðanir en það er ekki hægt vegna þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að það verði ekki gert fyrr en vinnu við rammaáætlun er lokið. Það gæti orðið ár í það eða meira jafnvel. Það er mikill ágreiningur um rammaáætlun. Á meðan verða engar ákvarðanir teknar, á meðan hjökkum við áfram í sama farinu og eyðum tíma okkar í mál sem þau sem við erum að ræða hér nú.

Þetta er að mínu mati, virðulegi forseti, ekki boðlegt og málið er náttúrlega eins og fram hefur komið algjörlega vanbúið. Það var áhugavert að hlusta hér á hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fara yfir kostnaðarhluta þessa frumvarps. Á meðan við stöndum í sársaukafullum niðurskurði og heyrum af því að það þurfi að fara enn dýpra í þau verk við næstu fjárlagagerð, fyrir fjárlagagerð næsta árs, er komið með frumvarp inn í þingið þar sem kostnaðargreining fjármálaráðuneytisins er algjörlega opin án þess að sýna nokkrar tölur og (Forseti hringir.) upplýsingar hafa komið fram í hv. allsherjarnefnd um að þetta geti kostað 130 milljónir. Það munar víða um þá peninga, virðulegi forseti. Við getum ekki (Forseti hringir.) staðið svona að málum. Við verðum að breyta hér vinnubrögðum.



[00:24]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Í upphafi ræðunnar fjallaði hann um meginmarkmið laganna, þ.e. að færa valdsvið um skiptingu ráðuneyta frá þinginu til forsætisráðherra. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar var fjallað um þessi mál. Meginniðurstöður nefndarinnar varðandi Alþingi voru þær að það þyrfti að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og leggja meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku og undirbúning löggjafar. Þingmannanefndin taldi brýnt að Alþingi tæki starfshætti sína til endurskoðunar, verði og styrkti sjálfstæði sitt og markaði skýr skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Alþingi ætti ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þær meginniðurstöður sem þingmannanefndin komst að og setti í skýrslu sína, og í þingsályktunartillögu sem síðan var samþykkt samhljóða á þingi, að meginmarkmið laganna, þ.e. að færa vald frá Alþingi og til forsætisráðherra, samrýmist niðurstöðunum á einhvern hátt. (Forseti hringir.) Stefnir það kannski í þveröfuga átt? Það væri áhugavert að heyra álit þingmannsins á því.



[00:26]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að frumvarpið sé í algjörri andstöðu við það sem er rauði þráðurinn í allri gagnrýni og úttekt sem við höfum farið í gegnum frá hruni. Ég tel að hlutum sé snúið algjörlega á hvolf þegar hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að það sé fyllilega í samræmi við niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og að við þurfum miklu frekar að efla þingið með einhverjum hætti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherrar geti ráðið sér enn fleiri aðstoðarmenn. Ég minni á að um það leyti sem hrunið varð var búið að hrinda í framkvæmd ráðningum á aðstoðarmönnum þingmanna á landsbyggðinni. Við vitum að kjördæmin úti á landi eru mjög stór og það er mjög erfitt fyrir þingmenn að sinna skyldum sínum þar svo vel sé. Það er mikil vinna. Þetta eru víðfeðm kjördæmi og þarf víða að fara. Það var í rauninni ekkert óeðlilegt við að þingmönnum væri gert það kleift að hafa aðstoðarmenn í hlutastarfi til að hjálpa sér við þau störf. Þessi ríkisstjórn skar það af en svo ætlar hún að efla framkvæmdarvaldið. Það er ekki vandamál. Þá skipta peningarnir ekki máli. Er eitthvert samræmi í því? Er eitthvað tekið mark á allri þeirri gagnrýni sem við höfum fengið og því sem við höfum öll verið sammála um, að það þurfi að efla Alþingi, starfsemi þess og eftirlitshlutverk á kostnað framkvæmdarvaldsins? Það ætti frekar að færa (Forseti hringir.) verkefni til þingsins frá framkvæmdarvaldinu en það fer í þveröfuga átt.



[00:28]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að skoðun hv. þingmanns á þessu hafi komið nokkuð skýrt fram.

Annað meginmarkmið þessa lagafrumvarps kemur fram í 4. gr. þar sem lagt er til að forsætisráðherra geti með forsetaúrskurði komið með tillögu um að færa til ákveðna málaflokka. Í breytingartillögum meiri hlutans er það ekki lengur heilt ráðuneyti sem hægt er að færa til heldur einstök málasvið. Finnst þingmanninum líklegt að það leiði til meiri formfestu að forsætisráðherra geti tekið einstök mál af ráðherrum og fært til annarra, í ljósi þess sem væntanlega er ástæðan fyrir því að við fjöllum um þetta mál, þ.e. efnahagshrunið, bankahrunið, stjórnsýsluhrunið, í ljósi Glitnishelgarinnar svokölluðu þegar þáverandi viðskiptaráðherra var hafður afsíðis og mál tengd ráðuneyti hans færð til annarra ráðherra? Telur þingmaður að það leiði til þess að ábyrgð hvers og eins ráðherra, ráðuneytis, ráðuneytisstjóra og embættismanna í ráðuneytunum, verði skýrari þegar valdið er ekki lengur formfest á löggjafarsamkundunni, heldur geti forsætisráðherra lagt fram slíka tillögu á hverjum tíma? Finnst þingmanninum líklegt að með því verði öllum ljóst, eftirlitsaðilum þings, fjölmiðlum og öðrum, hvar eigi að (Forseti hringir.) fylgjast með og hvar mörkin liggja á milli einstakra ráðuneyta og ábyrgðarsviða þeirra?



[00:31]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt mergurinn málsins. Hér er verið að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, og ekki bara framkvæmdarvalds, heldur fyrst og fremst til eins ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, sem fær með þessu mjög víðtæk völd til að gera breytingar og færa til verkefni innan ríkisstjórnarinnar. Við getum séð það fyrir okkur hvað það þýðir. Hvernig verður það í þeim málum sem ágreiningur er um í ríkisstjórn og menn þurfa að ná samkomulagi um á þeim bæ? Hvaða áhrif mun það hafa á störf viðkomandi ráðherra? Þora þeir að standa fast í lappirnar? Verkefnin verða bara tekin frá þeim ef þeir hlýða ekki duttlungum hæstv. forsætisráðherra, hverju sinni.

Ég held því að við séum í mjög varasömum farvegi hvað það varðar og að afleiðingar séu ekki fyrirséðar. Þær fara auðvitað mjög mikið eftir því fólki sem hefur þá ábyrgð á hverjum tíma, þeim einstaklingi sem hefur þá ábyrgð. Ég held að við séum öll sammála um það og ekki síst eftir efnahagshrunið. Það er lærdómur sem við eigum að draga af því að við viljum auka valddreifingu. Við viljum ekki auka á miðstýringu valds. Það á alveg við um ríkisstjórnina eins og annars staðar. Hér eru einum aðila færð mjög aukin völd. Ég skil hreinlega ekki hvernig (Forseti hringir.) hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna geta hugsað sér að styðja slíkt. (Forseti hringir.) Mörgum þeirra er það örugglega þvert um geð.



[00:33]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég ætlaði að vera á svipuðum nótum í fyrirspurnum mínum til hans og kom fram í síðasta andsvari, það er þetta gríðarlega valdaafsal. Mig langar að ræða við hv. þingmann um einmitt þann möguleika sem felst í þessu frumvarpi að mögulegt sé að flytja málefni einhliða frá einu ráðuneyti til annars.

Hv. þingmaður kom inn á hvalveiðar og nú eru hvalveiðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en eins og hv. þingmaður benti á flokkast hvalveiðar víða í kringum okkur undir umhverfisráðuneyti. Ekki alls fyrir löngu eða strax þegar þing kom saman var boðaður sameiginlegur fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd til að ræða stöðu hvalveiða. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í það minnsta hingað til fylgt stefnu Alþingis, stefnu Íslendinga, um að okkur beri að stunda sjálfbærar hvalveiðar eða halda því áfram. Á þeim fundi hefur kvisast út og birst opinberlega mikil reiði þeirra sem eru hliðhollir Evrópusambandsaðild í garð embættismanna ráðuneytisins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég veit að hv. þingmaður hefur góða þekkingu á málefnum sem tengjast hvalveiðum — telur hann ekki raunverulega hættu fólgna í því, nái þetta frumvarp fram að ganga í þeirri mynd sem það er núna, að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) muni í nafni ESB-umsóknarinnar eða í þeim tilgangi einfaldlega að flytja þennan málaflokk úr (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og að þá hefði Alþingi Íslendinga ekkert um það að segja lengur?



[00:35]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hræðist þetta og ekki bara í hvalveiðimálinu þótt það sé nokkuð augljóst hver þrýstingurinn yrði innan ríkisstjórnarflokkanna sem nú eru á Alþingi. Þar er andstaða hjá mörgum við hvalveiðar þótt margir séu þeim fylgjandi, þessir flokkar eru skiptir, en það yrði alveg örugglega verulegur þrýstingur á að t.d. þessi málaflokkur yrði færður frá sjávarútvegsráðherra. Röksemdirnar yrðu eflaust þær að hér væri mál sem víða annars staðar, eins og t.d. víðast hvar í Evrópusambandinu, fellur undir umhverfismál og við þyrftum að samræma það eins og annað sem að því kemur.

Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi virðist öllu fórnandi á altari aðildarumsóknar að ESB. Við vitum að þetta á við í mörgum málaflokkum. Við vitum hvernig það er varðandi uppbyggingu í atvinnulífinu hér. Við vitum um hug margra þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem stefnir í allt aðra átt en ríkisstjórnin er að fara. Þingmenn tjá sig á torgum úti í bæ um að það þurfi að fara í aðgerðir, það þurfi að gera hitt og þetta en er síðan smalað inn í þingið með skottið á milli lappanna, vil ég segja, þar sem þeir styðja ríkisstjórnina áfram. Þannig er þetta. Það er öllu fórnað í þágu aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, jafnvel mjög veigamiklum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig mundi ég óttast að færi um þetta mál. Og ég mundi óttast líka, eins og staðan er núna á ríkisstjórnarheimilinu, að þeirri vinnu sem á að fara fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vegna aðildarumsóknarinnar yrði komið með einhverjum hætti í burtu og undan þeim ráðherra sem stendur hvað fastast í lappirnar í þeim málum. (Forseti hringir.) Það er veruleg hætta á slíku á hverjum tíma, ekki bara í þessari ríkisstjórn heldur hjá öllum ríkisstjórnum sem á eftir koma.



[00:38]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta valdaafsal sem mönnum er svo tíðrætt um og er búið að vera í umræðunni er rauði þráðurinn í þessu frumvarpi og í rauninni það sem mest hefur verið gagnrýnt. Nú virðist frumvarpið einkum og sér í lagi hafa verið lagt fram vegna þess. Það er stóra hryggjarstykkið. Ef maður skoðar þróunina eða réttara sagt hverju hæstv. forsætisráðherra hefur verið að reyna að ná fram varðandi stjórnarráðsbreytingar, tilflutning á málaflokkum og öðru slíku, þá hefur einfaldlega ekki gengið að koma því í gegnum þingið, löggjafarvaldið eða Alþingi hefur sýnt mjög sjálfstæða skoðun hvað það snertir. Hæstv. forsætisráðherra bregst við með þessum hætti.

Erum við ekki á verulega hættulegri braut þegar hæstv. forsætisráðherra nær ekki málum í gegnum Alþingi Íslendinga og grípur til þess ráðs að taka einfaldlega völdin frá Alþingi og færa yfir til framkvæmdarvaldsins? Er það ekki verulega hættulegur hugsunarháttur hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar að telja það sjálfsagðan hlut að koma fram með frumvarp á Alþingi árið 2011 sem felur það í sér að færa vald frá Alþingi einungis vegna þess að þeir hafa ekki komið málum í gegnum Alþingi vegna meirihlutaandstöðu við þau? Hvaða hugsun býr þarna að baki? (Forseti hringir.) Er það ekki hættulegur hugsunarháttur?



[00:40]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög hættuleg vegferð. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Af hverju skyldum við vera komin í þessa stöðu? Það er umhugsunarefni af hverju svo er. Það er mikill ágreiningur á ríkisstjórnarheimilinu í mjög mörgum málum. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tekist að halda hjörð sinni saman svo vel sé. Eru þetta þá ekki tilburðir til að auka vald hæstv. forsætisráðherra, herða tökin þannig að ráðherranum sé mögulegt að setja meiri þrýsting á aðra ráðherra í ríkisstjórninni og á þingmenn ríkisstjórnarflokkanna? Ég held að það sé ástæðan fyrir því að þetta kemur fram og það eigi að keyra það í gegn með slíku offorsi sem raun ber vitni.

Af hverju skyldu þingmenn þessara flokka vera sammála þessu? Hver er ástæðan fyrir því? Hver er ástæðan fyrir því að þingmenn Vinstri grænna, sem hafa í dag talað algjörlega þvert á fyrri málflutning sinn um sambærileg mál, hafa skipt um skoðun? Og hver er ástæðan fyrir því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru svo áfram um þetta núna?

Við komum alltaf að sama punktinum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, sem er rótin að öllu: Það er þessi blessaða aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það skal öllu fórnað á því altari — öllu. Og þingmenn eru tilbúnir að láta það ganga yfir sig jafnvel þótt það sé þeim þvert um geð til þess að halda lífi í ríkisstjórninni sem er í raun ekki orðið annað en hræðslubandalag (Forseti hringir.) af því hún getur ekki lengur horfst í augu við veruleikann og þjóð sína.



[00:43]
Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Enn efnir hæstv. forsætisráðherra til deilna og setur störf Alþingis í uppnám á lokadögum þessa þings, sambærilegt við það sem gerðist í vor og hefur gerst áður, og það án fulls stuðnings ráðherra í ríkisstjórninni og jafnvel í stjórnarliðinu og vegna málefnis sem er fjarri því að vera forgangsmál í þeim vanda sem þjóðin glímir við, málefnis sem var fyrirséð að mundi valda miklum deilum og yrði mjög umdeilt. Miklu veldur sá er upphafinu veldur.

Minn tími kemur, sagði hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma eins og fleygt varð. Hennar tími kom, en hann kom án nokkurra breytinga á þeirri stjórnmálamenningu liðinna áratuga sem gagnrýnd var svo harkalega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í 8. bindi skýrslunnar er á bls. 179 fjallað um íslenska stjórnmálamenningu sem hæstv. forsætisráðherra hefur hrærst í um áratugaskeið og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þau dæmi sem tekin hafa verið hér að framan um viðbrögð og verklag í íslensku stjórnkerfi eru til marks um ákveðna stjórnmálamenningu. Eitt einkenni hennar er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. Um það segir íslenskur stjórnmálamaður með langan feril úr pólitíkinni: „Auðvitað er það svo að flokksræðið nánast í öllum stjórnmálaflokkunum hefur þróast í ofurvald foringjans og klíkunnar. Þess vegna er lýðræðið okkar svona brothætt og veikt og ég velti því fyrir mér hvort í rauninni þurfi ekki að stíga mörg sterk skref vegna þessarar reynslu til að tryggja sterkari stjórnmálamenn og minna foringjaræði.“ Stjórnmálamenn draga hins vegar ávallt dám af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í. Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. Í foringjaræði verður hlutur löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hópi lykilmanna. Þannig gegnir þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið eru vanrækt.“

Svo mörg voru þau orð. Á sömu bls. 179 segir um hina lýðræðislegu umræðu, með leyfi herra forseta:

„Hugtakið samræðustjórnmál á rætur sínar í þessari hugsjón um þingið sem vettvang rökræðu sem tekur öðru fremur mið af almannahagsmunum. Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni; því verður hún að byggjast á upplýsingum um staðreyndir mála og sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist. Gildi stjórnmálarökræðunnar er meðal annars fólgið í því að láta andstæð sjónarmið takast á og það er hlutverk stjórnarandstöðu að láta reyna á málflutning stjórnarliða til að skerpa röksemdir. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast í samræmi við þessa hugsjón lýðræðisins. Þau hafa þvert á móti oft einkennst af kappræðu og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áheyrendur, burt séð frá því hvort það þjóni best almannahagsmunum og sé í samræmi við bestu upplýsingar. Í kappræðum skipast þingmenn í sveitir eftir fyrir fram gefnum flokkslínum fremur en eftir málefnum.“

Síðar segir á bls. 180 annað athyglisvert sem skiptir máli varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu. Tilvitnunin er svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Skyldi maður geta mátað þessar niðurstöður rannsóknarskýrslunnar við þetta frumvarp? Já. Það held ég að sé, og það hafa margir hv. þingmenn rökstutt afar málefnalega í ræðum um þetta mál, með því frumvarpi sem einbeittur vilji hæstv. forsætisráðherra stendur til að koma í gegnum þingið þótt önnur og brýnni mál séu á dagskrá. Það er að mínu mati í anda þeirrar stjórnmálamenningar sem ég hef rakið og rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýnir svo harðlega. Staðreyndin er sú hvað sem tautar og raular að það er verið að færa aukin völd til forsætisráðherra. Í því felst framsal á löggjafarvaldi, atriðum sem nú er skipað með lögum sem ítarlega hafa verið rökstudd eins og ég sagði áðan.

Í meginniðurstöðum og ályktunum þingmannanefndarinnar er tekið undir niðurstöður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslu þingmannanefndarinnar segir orðrétt um Alþingi á bls. 5, með leyfi herra forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki [að] vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Má spegla þetta frumvarp í þessu? Ég segi já við því. Framgangur þessa frumvarps er ekki með þeim hætti sem þarna er lýst og komið hefur fram réttmæt gagnrýni á að hér hafi ekki verið skipst á skoðunum. Hér hefur ekki verið svarað spurningum ýmissa hv. þingmanna og leitast við að upplýsa málið. Málið hefur ekki verið unnið með þeim faglega hætti sem til að mynda einkennir undirbúning lagafrumvarpa annars staðar á Norðurlöndum.

Á bls. 15 í skýrslu þingmannanefndarinnar er að finna tillögu til þingsályktunar sem Alþingi afgreiddi fyrir hartnær ári með 63 greiddum atkvæðum. Eitt atriði í því er orðrétt svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Þetta gildir auðvitað um Alþingi jafnt og ríkisstjórn á hverjum tíma enda er hún skipuð alþingismönnum yfirleitt.

Frá því að ég settist á þing vorið 2007 hef ég gengið í gegnum einar fimm umræður um stjórnarráðsbreytingar, fyrst á haustþingi 2007, og í raun hefur ekkert breyst á þessum tíma. Nei, ekki alveg rétt, það hafa orðið stjórnarskipti. Skipt hefur verið um hlutverk, Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu en Vinstri hreyfingin – grænt framboð í stjórn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gagnrýndi harkalega stjórnarráðsbreytingar árið 2007 og nú er Sjálfstæðisflokkurinn tekinn við, flokkur sem varði breytingarnar 2007 og aðfinnsluverð vinnubrögð við þær og undirbúning. En vel að merkja, Sjálfstæðisflokkurinn hefur það sér þó til málsbóta í þessum efnum að í millitíðinni kom fram skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og síðan skýrsla þingmannanefndarinnar þar sem ályktað var og afstaða tekin til niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég hef ekki hvikað frá sjónarmiðum sem ég hef flutt fram um stjórnarráðsbreytingar úr þessum ræðustóli frá árinu 2007. Ég vísa meðal annars til ræðna sem ég flutti á haustþingi 2007 og til ræðu 4. maí sl. um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Á haustþingi 2007 eyddi ég miklum tíma í að ræða ófaglegan og óvandaðan undirbúning slíkra frumvarpa. Það er illt að Alþingi lendi í gíslingu deilna um jafnmikilvæg mál og þetta sem jafnmikill og -réttmætur ágreiningur er um af því að þetta snýst um grundvallaratriði, snýst um sjálfstæði þingsins, framsal á löggjafarvaldi, oddvitaræði, að okkur þingmönnum skuli stillt upp við hver þinglok með þessum hætti. Það er óþolandi.

Þetta gerist í málum sem unnt er að ná bærilegri sátt um. Það heyrðist ágætlega úr ræðustóli í dag, það komu fram ýmsar hugmyndir en þær hafa bara ekki verið unnar fram. Þessi sátt átti að nást í meginatriðum með vandaðri undirbúningsvinnu áður en frumvarpið var lagt fram. Virðing Alþingis er í húfi og sjálfstæði þess gegn ofurvaldi framkvæmdarvaldsins, ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum. Það eru nokkur mál sem er enn brýnna að ná samstöðu um en önnur, það er deginum ljósara. Það þarf að tryggja formfestu og stöðugleika og ég hygg að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hafi tilgreint þau í ræðum um stjórnarráðsbreytingarnar á haustþingi 2007. Hver skyldu þá þessi mál vera sem við verðum að ná samstöðu um? Þetta eru ekki augnabliksmál, ekki málefni líðandi stundar. Þetta eru ekki málefni sem eiga að bjarga okkur í gegnum eitt ár, tvö eða þrjú. Þetta eru mál sem verða grundvallaratriði í stjórnskipun okkar og stjórnarfari varðandi Alþingi o.fl. Hver eru þessi mál sem ég hygg að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafi nefnt? Jú, hann nefndi auðvitað stjórnskipunina, stjórnarskrána. (Gripið fram í: Greindur maður.) Hann nefndi stjórnarfarsreglur, grundvöll stjórnsýslunnar, þar með talin lög um Stjórnarráðið. Hann nefndi eðlilega lög um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipan. Hann nefndi eðlilega þingsköp og þar verð ég að hrósa forsetum Alþingis og þinginu. Við höfum nýlega gengið í gegnum það að breyta þingsköpum Alþingis akkúrat í þeim anda sátta sem þarf til í þessum grundvallarmálum og gengum frá því borði með sóma.

Viljum við upplifa það að með hverri nýrri ríkisstjórn sé krukkað í þessar grundvallarreglur? Vilja menn að hver ný ríkisstjórn taki sig til og breyti þessum grundvallarreglum? Nei, það held ég ekki. Þetta eru mál sem varða fleiri en eina ríkisstjórn og löggjöf sem er sett til langs tíma og verður eðlilega að lúta formfestu og fastri stefnu í meginatriðum. Ekki er ég að tala á móti breytingum, að sjálfsögðu ekki, en grundvallarbreytingar í þessum efnum verða að nást fram með bærilegri sátt.

Þetta hefur því miður ekki verið raunin og eins og ég sagði áðan var fyrirséð að um það frumvarp sem hér er til umræðu yrði djúpstæður ágreiningur. Það er málefnalegur djúpstæður ágreiningur eins og hér hefur ágætlega verið rökstutt. Samt skal það þvingað í gegn á lokadögum þingsins, og gríðarlega mikilvægum málum eins og sjá má af málalista dagskrárinnar í dag er fórnað til að koma fram þessu máli sem ekki er brýnt. Verði sú raunin að næstu ríkisstjórnir vilji krukka í þetta fer sama hringekja af stað að frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnir eru ekki eilífar, þær koma og fara.

Ég nefndi fyrr í ræðu minni að með frumvarpinu sé löggjafarvald flutt til framkvæmdarvaldsins, þ.e. forsætisráðherra. Það hefur verið ítarlega rökstutt, bæði varðandi heiti ráðuneyta og verkefnaflutning. Forsætisráðherra fær meiri völd, oddvitaræðið er styrkt. Málum verður ekki skipað með lögum með sama hætti og nú er. Að mínu mati er það alls ekki í anda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstaðna og ályktana þingmannanefndarinnar. Þetta er að mínu mati öfug þróun og gengur gegn niðurstöðum þessara nefnda um formfestu og rýrir enn hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er á sama tíma og allir hv. þingmenn sem ég hef heyrt tala á þinginu kalla eftir auknu sjálfstæði þingsins, (BJJ: Rétt.) nákvæmlega á sama tíma, að því sé ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu eins og niðurröðun dagskrár í dag og fleirsinnis bendir sterklega til. Hver varð niðurstaða þingmannanefndarinnar um stjórnsýsluna? Á bls. 11 í skýrslu þingmannanefndarinnar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.“

Síðar segir í þessum ályktunum um stjórnsýsluna, með leyfi herra forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.“

Það vald sem fært er til hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma með þessu frumvarpi er óásættanlegt. Frumvarpið felur ekki í sér aukna formfestu og stöðugleika hvað varðar valdframsal til forsætisráðherra. Það eflir oddvitaræðið sem aðgreint er með faglegum og sterkum rökum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sem þingmannanefndin tók einhuga undir. Hún var sammála um þetta. Það sem verra er er að frumvarpið opnar fyrir geðþóttaákvarðanir þótt ég ætli ekki núverandi hæstv. forsætisráðherra það.

Við þetta vil ég bæta því að umboðsmaður Alþingis skilar Alþingi á ári hverju skýrslu um störf sín. Í hverri einustu skýrslu sem ég hef kynnt mér frá því að ég settist á þing, og reyndar fyrr, hefur umboðsmaðurinn ítrekað kallað eftir aukinni festu og stöðugleika í stjórnsýslunni, þar með talið í ráðuneytunum. Ég vil ekki gera hér að umtalsefni margar ræður þingmanna sem hafa verið upp til hópa málefnalegar að mínu mati og komið inn á kjarna þessa máls en ég verð þó að vísa til þess að ég tek heils hugar undir ræður hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún fjallaði um niðurstöður þingmannanefndarinnar og ekki síður þá gagnrýni sem hún setti fram á núverandi hæstv. forsætisráðherra. Verum minnug þess að Alþingi setti á stofn rannsóknarnefnd Alþingis og það var Alþingi sem ákvað að setja á fót sérstaka þingmannanefnd til að lesa úr niðurstöðum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og gefa álit sitt á þeim sem þingmannanefndin gerði.

Á sama tíma og það gerist og skýrslan kemur út skipar hæstv. forsætisráðherra sérstakan starfshóp sem hún fól hlutverk sem skaraðist um ýmis atriði við hlutverk þingmannanefndarinnar. (VigH: Rétt.) Þetta voru afskipti af löggjafarvaldinu. Þetta vakti kurr meðal ýmissa í þingmannanefndinni og gerði henni um margt erfiðara fyrir. Þetta var inngrip í sjálfstæði Alþingis og afskipti framkvæmdarvaldsins af því sem kom þá mjög berlega í ljós.

Ég hef gert grein fyrir ákveðnum þáttum í þessu frumvarpi sem eru mér þyrnir í augum, þ.e. valdframsalinu og auknu valdi framkvæmdarvaldsins. Það er þó ekki svo að ég finni þessu frumvarpi allt til foráttu, þvert á móti. Það eru ýmis ágætisnýmæli í því og margt vel unnið en ég hygg að þessi þáttur um valdframsalið sé afar óheppilegur, svo ekki sé meira sagt, og í þversögn við vilja allra hv. þingmanna sem ég hef heyrt tala um að styrkja sjálfstæði Alþingis eins og ég hef sagt áður.

Í upphafi ræðu minnar talaði ég um undarlega forgangsröðun hvað þetta mál varðar og ég hef sagt að hæstv. forsætisráðherra keyri málið áfram á kostnað brýnna mála sem bíða úrlausnar. Nefndi ég þar gjaldeyrishöftin og þann fjölda annarra mála sem er á dagskrá þingsins. Fjöldi hv. þingmanna hefur réttilega gagnrýnt þessa forgangsröðun og rökstutt vandlega. Ég get tekið undir þá gagnrýni. Ég ætla þó að nefna mál sem mér brennur á hjarta og hefur valdið mér þyngstum áhyggjum í stjórnmálalífi mínu og einkalífi, mál sem átti að vera forgangsmál okkar númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og áfram, auðvitað baráttan gegn atvinnuleysinu, baráttan gegn því mikla böli og þeim afleiðingum sem því fylgja.

Þúsundir Íslendinga eru atvinnulausar. Þúsundir Íslendinga hafa flutt af landi brott og leitað vinnu annars staðar. Það eru líka þúsundir Íslendinga, og það er sjaldnar nefnt, sem eru án atvinnu, eru vinnufærar en sækja ekki um og taka ekki atvinnuleysisbætur. Það er stór hópur líka.

Í þessari ömurlegu stöðu sem mér finnst, í þessu ömurlega atvinnuleysi, er ESB-umsóknin forgangsmál ríkisstjórnarinnar og afleidd mál beint og óbeint tengd umsókninni, m.a. mikil fjölgun innleiðinga ESB-tilskipana. (VigH: Rétt.) Öll ráðuneytin eru á kafi í þessari umsóknarvinnu á kostnað skylduverkanna og hundruðum milljóna er varið til umsóknarinnar. Þegar ráðuneytin eru bundin á klafa þessarar umsóknar og það hriktir í stoðum þeirra sumra vegna mikils vinnuálags á svo í ofanálag að hræra í Stjórnarráðinu og skapa hugsanlega óvissu meðal starfsmanna. Svo sannarlega færi betur á því að orka ríkisstjórnar og ráðuneyta færi í að vinna bug á alvarlegu atvinnuleysi og brottflutningi af landinu. Tíma þingsins væri betur varið í að leysa alvarlegan vanda atvinnuleysis og það alvarlega böl sem því fylgir.

Hæstv. forsætisráðherra hefur, eins og ég sagði áðan, stefnt störfum Alþingis í þá gíslingu sem þingið er í nú og það án þess að hafa stuðning allra ráðherra og jafnvel stjórnarliða að baki sér. Eins og ég sagði áðan var fullkomlega fyrirséð að þetta yrði raunin sem hefur orðið í dag, nákvæmlega með sama hætti og það var fyrirséð með stóra fiskveiðistjórnarfrumvarpið uns því var breytt og lagt fram í maí í vor. Það var fyrirséð að það mundi valda verulegum deilum og þá var ekki reynt til þrautar með sættir.

Mér hefur stundum orðið hugsað til ævisögu séra Árna Þórarinssonar í þessu sambandi þegar ég hugleiði þessi vinnubrögð. Hann sagði um sveitunga sína á Snæfellsnesi, frændur mína, að þeir tækju ekki frið þegar góður ófriður væri í boði. Þessi setning úr þeirri ágætu ævisögu hefur oft hvarflað að mér. Það er afar brýnt verkefni þingsins að koma í veg fyrir að það lendi í þessari stöðu í framtíðinni og það kallar á meira sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá er það sérstaklega brýnt í málum sem varða grundvöll stjórnskipunar og stjórnsýslu, kosningar, kjördæmaskipan og fleira. Það er verkefni okkar þingmanna að finna leiðir til að við lendum ekki í þessari stöðu aftur og aftur og svo sannarlega gildir það sama og miklum mun fremur um ríkisstjórnir á hverjum tíma. Virðing Alþingis er í húfi, herra forseti.



[01:15]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir afar einlæga ræðu. Við skulum minnast þess að hv. þm. Atli Gíslason fór fyrir þingmannanefndinni sem var falið að lesa úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þannig að hér er um þungavigtarþingmann að ræða í þessari umræðu. Við skulum ekki gleyma því.

Hann fjallaði um að hæstv. forsætisráðherra hefði skipað aðra nefnd strax eftir að þingmannanefnd var skipuð til að gera lítið úr þingmannanefndinni. Hann sagði sjálfur að það hefði valdið titringi innan þingmannanefndarinnar. Vissulega benti hann á þá staðreynd að hæstv. forsætisráðherra velur ófrið þegar friður er í boði en það er nokkuð sem hæstv. forsætisráðherra hefur tamið sér. Hér í kvöld endurspeglast til dæmis sú meðvirkni með þeim aðila sem fer nú með ráðherradóm í forsætisráðuneytinu með því að hér titrar allt ef hún talar. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvers vegna leggur ríkisstjórnin svo mikla áherslu á að þetta stjórnarráðsfrumvarp verði klárað á þessu þingi?



[01:16]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði í kvöld mun það svar ekki geta byggt á öðru en ágiskunum, en þó ágiskunum en ekki samsæriskenningum. Ég hef oft hugleitt hvort það sé ESB-umsóknin og það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli fara jafnheiðarlega eftir þingsályktun sem Alþingi samþykkti um að sækja um aðild að ESB. Það hefur löngum hvarflað að mér og hugsanlega það að hæstv. forsætisráðherra tíðkar oddvitaræði.



[01:17]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni kærlega fyrir svarið. Við skulum líka minnast þess að þessi sami þingmaður hefur yfirgefið ríkisstjórnarflokkana og það kom líklega fram í máli hans hér í kvöld hvers vegna hann tók þá ákvörðun að ganga út úr ríkisstjórninni. Hann fór yfir það sem kemur fram í frumvarpi þessu og varað var við í rannsóknarskýrslu Alþingis og af þingmannanefndinni og í fleiri skýrslum, að hér ríkti foringjaræði, en nú er það gert að skilyrði í frumvarpinu að færa allt vald undir forsætisráðherra. Það er ekki nóg með það, heldur á líka að færa forsætisráðherra löggjafarvald. Þetta er mjög alvarlegt. Hér liggur ESB-umræðan undir. Það er alveg greinilegt og þingmaðurinn er sammála mér í því. Þegar hv. þingmaður minntist á ESB ókyrrðust meira að segja þingmenn Samfylkingarinnar allverulega og báðu um að fá að koma í andsvör. Það var því miður búið að fylla kvótann en þetta er greinilega mjög viðkvæmt mál hjá Samfylkingunni.

Hvers vegna heldur þingmaðurinn (Forseti hringir.) að hér sé farið gegn rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar með svo afgerandi hætti þar sem Samfylkingin (Forseti hringir.) lagði á það ofuráherslu í kosningabaráttunni að hér ætti allt að vera opið og gegnsætt (Forseti hringir.) og foringjaræði aflagt?



[01:18]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Aftur eru það ágiskanir af minni hálfu. Ég tek fram að ég hef með rökstuddum hætti, eins og hv. þingmaður nefndi, yfirgefið þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það rökstuddum við hv. þm. Lilja Mósesdóttir afar ítarlega.

Hvað varðar hæstv. forsætisráðherra má kannski segja að hún, eins og ég sagði í ræðunni, hafi lifað og hrærst í stjórnmálamenningu sem gefin var falleinkunn í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Að mínu mati hefur hún ekki tamið sér nýja breytni í ljósi þeirra niðurstaðna og að mínu mati er alrangt að hægt sé að leita röksemda í niðurstöðum þingmannanefndarinnar (Forseti hringir.) fyrir þessu frumvarpi.



[01:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hann hvort eftirfarandi tilvitnun sem er úr greinargerðinni með frumvarpinu sé rétt og sannleikanum samkvæm, með leyfi herra forseta:

„Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands, Samhent stjórnsýsla, er byggð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu starfshóps forsætisráðherra og skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Enn fremur:

„Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru í öllum meginatriðum grundvallaðar á þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunni.“



[01:20]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Að mínu mati er þessi staðhæfing í greinargerðinni bæði rétt og röng. Hún er röng varðandi það sem ég gerði að meginmáli í ræðu minni, þ.e. um framsal löggjafarvalds og skerðingu á sjálfstæði þingsins og það að geta flutt málefni að geðþótta milli ráðherra. Ég nefndi þó líka á hinn bóginn að ýmislegt í þessu frumvarpi væri til mikilla bóta og það á sér samsvörun í ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöðum þingmannanefndarinnar.



[01:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari tilvitnun er staðhæft að þær úrbætur sem hér eru lagðar til, þær breytingar sem eru lagðar til með frumvarpinu, séu í öllum meginatriðum grundvallaðar á þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslu þingmannanefndarinnar sem byggði á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Svo langar mig til að spyrja út í nefndarálit meiri hluta hv. allsherjarnefndar en þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Frumvarpið byggist á tillögum úr skýrslunni Samhent stjórnsýsla en þar var fjallað um það hvernig unnt væri að bregðast við tillögum og ábendingunum í þessum skýrslum.“ — Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. — „Nefndin fjallaði m.a. um það hvort nægilega langt væri gengið í frumvarpinu við að fylgja eftir ábendingum og tillögum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar og hvort breytingarnar í frumvarpinu séu til þess fallnar að styrkja stjórnkerfið, skýra ábyrgð og verkaskiptingu innan þess. Fyrir nefndinni kom fram (Forseti hringir.) að markmiðið með breytingunum er að auka sveigjanleika innan ráðuneyta og stofnana og að verkaskipting verði skýr og enn fremur ábyrgð á verkefnum.“

Er þetta rétt?



[01:23]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Almennt nei. Sérstaklega hefur verið nefnt að það þurfi sveigjanleika. Það kemur skýrt fram í niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem þingmannanefndin tók undir að hér sé þörf á formfestu og gagnsæi og að það sé full ástæða til að vinna gegn því sem þar er nefnt oddvitaræði. Þetta frumvarp nær því ekki að þessu leyti. Það opnar fyrir geðþóttaákvarðanir þó að ég hafi sagt að ég ætlaði ekki hæstv. núverandi forsætisráðherra það. Ég tek ekki svo stórt upp í mig.

Hvað varðar skýrslu þingmannanefndarinnar er misheppnað að sækja þangað röksemdir fyrir (Forseti hringir.) þessu frumvarpi um þau gagnrýnisatriði sem ég hef reifað.



[01:24]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Að gefnu tilefni langar mig að segja að ég tel að hér hafi verið flutt tímamótaræða í umræðu um þetta frumvarp, ákaflega málefnaleg og rökföst ræða hjá hv. þm. Atla Gíslasyni enda bjóst ég svo sem ekki við öðru. Í þingsályktunartillögunni sem þingmannanefndin var með og var samþykkt af þinginu öllu er lagt til að endurskoða fullt af lögum og gera stjórnsýsluúttektir á nokkrum stofnunum, lífeyrissjóðum, sparisjóðum, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka. Einnig er á bls. 6 fjallað um nauðsyn þess að Alþingi setji skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða og hér er líka lagt til að stofna sjálfstæða ríkisstofnun. Enn fremur er lagt til að (Forseti hringir.) fá verkefninu ákveðna þingnefnd til að fylgja úrbótunum eftir.

Af því að þingmaðurinn (Forseti hringir.) kom inn á forgangsröðun verkefna langar mig að spyrja hv. þingmann hvaða önnur verkefni (Forseti hringir.) hann hefði tekið fram yfir þetta stjórnarráðsfrumvarp og hvort (Forseti hringir.) stjórnarráðsfrumvarpið megi ekki bíða.

(Forseti (KLM): Ég minni hv. þingmenn á að gæta að ræðutíma.)



[01:26]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er fjarri því að vera brýnasta málið sem er uppi. Ég held að ef góðir menn hefðu komið saman hefði verið hægt að sníða af þessu frumvarpi alla þá annmarka sem á því eru. Það hafa komið fram ýmsar tillögur um það. Ég tel að þær tillögur sem komu fram um sátt hafi ekki gengið nægilega langt og það eru fleiri atriði í frumvarpinu sem væri hægt að vinna. Þetta frumvarp er langt frá því að vera forgangsverkefni. Ég gæti talið upp fjöldamörg verkefni önnur í því sambandi en læt það vera á þessu stigi.



[01:27]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að af þeim verkefnum sem ég taldi þarna upp séu fjölmörg óunnin og óljóst hver og hvar eigi að vinna þau. Í mínum huga eru þau mun brýnni en þetta verkefni.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að eitt af þeim verkefnum sem þinginu var falið af sjálfu sér, af þingmannanefndinni, og samþykkt af öllu þinginu var að endurskoða lög um þingsköp. Það var gert í samráði allra. Það var unnið þannig að þegar umræða um það fór fram á vorþinginu rann það ljúflega í gegn þrátt fyrir alla þá spennu og tímaleysi sem þá réði vegna þess að þá var líka verið að troða átakamálum í gegnum þingið.

Það hefur auðvitað komið fram að efnahagshrunið breytti hér ýmsu og margt af því sem menn áður töldu og hv. þingmaður kom inn á í umræðum um fyrri breytingar á frumvarpi um Stjórnarráðið hafði einmitt þær afleiðingar að menn voru ávallt í þessu átakaferli. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið skynsamlegt (Forseti hringir.) að setja þetta frumvarp inn í sama ferlið (Forseti hringir.) og þingskapaferlið.



[01:28]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er alveg sammála því. Mér fannst vinnan við þingskapafrumvarpið til fyrirmyndar og það á við um fleiri frumvörp á þinginu.

Við lögðum til að með bráðabirgðaákvæði við þingsköpin yrði stofnuð sérstök eftirlitsnefnd strax í haust svo við þyrftum ekki að bíða fram á vor eftir að eftirlitsnefnd kæmi fram og það olli mér sem formanni þingmannanefndarinnar vonbrigðum að það skyldi ekki verða. Sú eftirlitsnefnd átti þegar frá haustdögum, frá nýju þingi í október sl., að fylgjast með því að fylgt yrði eftir ábendingum þingmannanefndarinnar og þingsályktuninni sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum. Það urðu mér vonbrigði að við skyldum missa þennan tíma úr, þennan vetur, og ég hygg að slík eftirlitsnefnd hefði getað kafað ofan í það hvort þetta frumvarp samrýmdist ályktunum og niðurstöðum þingmannanefndarinnar.



[01:29]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessa ræðu hefði verið hollt fyrir fulltrúa stjórnarliðsins að hlýða á (Gripið fram í: Jæja.) og alveg sérstaklega fyrir forustu ríkisstjórnarinnar sem ber meginábyrgð á því frumvarpi sem við höfum verið að ræða. Ég tel að eftir þessa öflugu, yfirgripsmiklu og málefnalegu ræðu liggi fyrir að veigamestu þættir frumvarpsins eru í algjörum tætlum (VigH: Rétt.) og það er óhjákvæmilegt fyrir ríkisstjórnina við þessar aðstæður að stíga nú fram og lýsa því yfir að skynsamlegast sé að leggja þetta mál til hliðar og vinna það með þeim hætti sem hv. þingmaður mælti fyrir um og stakk upp á, að ná mönnum saman til að ná einhverri sátt um þetta mikilvæga mál.

Kjarni málsins er sá sem hv. þingmaður sagði áðan, frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands er ekki augnabliksmál. Það er ekki mál af því tagi sem við erum að breyta frá degi til dags. (Gripið fram í: Ekki átakamál.) Þetta á ekki að vera átakamál en það er hins vegar búið að gera þetta að átakamáli með vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar er þess vegna öll í þessu máli.



[01:31]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hlý orð andmælenda í minn garð, þar á meðal þess sem síðastur flutti ræðu, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar.

Hér kom ekki fram bein spurning en hann gaf mér samt tilefni til að minnast þess að ég hef dvalið í Noregi við nám og fylgst með lagasmíð þar. Hún er til muna ólíkt vandaðri en hér og þetta segi ég vegna þess að það hefur verið minnst á Noreg sem fyrirmynd þessa frumvarps. Þar vinna menn það sem þeir kalla NOU eða „Norges offentlige utredninger“. Það er mjög vönduð vinna þar sem vandamál eru greind. Þetta eru nefndir skipaðar af þingi eða stjórnum og þær vinna upp slíkar skýrslur og benda í þeim á þau atriði sem betur mættu fara í löggjöf. Slík fagleg undirbúningsvinna með fullu samráði við alla hagsmunaaðila og aðra leiðir síðan til þess að upp úr slíkri skýrslu er unnið faglegt, gott frumvarp. Ég hefði gjarnan viljað sjá þau vinnubrögð tíðkuð varðandi stjórnarráðsfrumvarpið.



[01:32]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar fletti ofan af mjög alvarlegum blekkingaleik. Við höfum tekið eftir því í þessari umræðu að það hefur verið þrástagast á því að frumvarpið byggi annars vegar á vinnu rannsóknarnefndar Alþingis og hins vegar vinnu þingmannanefndarinnar sem síðar var kosin. Nú hefur hv. þingmaður sýnt fram á það með algjörlega óyggjandi hætti að svo er ekki. Þess vegna er mikið alvörumál og ábyrgðarhluti þegar það kemur nú í ljós, m.a. og ekki síst vegna ræðu hv. þingmanns, formanns þingmannanefndarinnar, að hér hafa í öllum veigamestu atriðum verið sniðgengnar þær ábendingar sem þingmannanefndin og rannsóknarnefndin hafa haft fram að færa á þessu sviði. Með öðrum orðum virðist blasa við að það hafi átt að keyra þetta mál áfram með blekkingum og hreinlega ósannindum þar sem því var skrökvað upp á þingmannanefndina og rannsóknarnefndina að tillögur þeirra lægju til grundvallar þessu frumvarpi.



[01:33]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fyrr í kvöld óskaði ég eftir því að nokkrir hæstv. ráðherrar yrðu viðstaddir umræðuna. Ég vil benda hæstv. forseta á 56. gr. þingskapa Alþingis. Þar stendur í 1. mgr., með leyfi frú forseta:

„Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli, og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á …“

Þessi umræða hefur verið steingeld, frú forseti, vegna þess að við erum alltaf að tala á aðra hliðina. Það kemur ekkert á móti, við fáum ekki svör frá framsögumanni eða ráðherrum. Ég sætti mig ekki við þetta, ég vil hafa almennilega umræðu og ekkert málþóf.

(Forseti (ÁI): Forseti verður að upplýsa vanmátt sinn í þeim efnum að geta ekki raðað hv. þingmönnum inn á mælendaskrá sem ekki hafa beðið um orðið.)



[01:34]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég inna hæstv. forseta eftir því hversu lengi við megum gera ráð fyrir að þessi þingfundur standi. Nú vantar klukkuna 25 mínútur í tvö og það eru nefndarfundir í fyrramálið þannig að það væri ágætt að heyra frá hæstv. forseta hver hennar hugur er til þess.

Í öðru lagi vil ég benda hæstv. forseta á að ég á ræðu mína eftir. Ég hef ekki talað í þessu mikilvæga máli í ræðuformi. Ég hef farið í eitt og eitt andsvar, sem ekki er orð á hafandi. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að hæstv. forsætisráðherra verði viðstaddur þegar ég flyt ræðu mína, ég hef nokkrar fyrirspurnir sem ég vil beina til hennar. Ég vil einnig fara fram á að hinn forustumaður stjórnarflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, verði viðstaddur þessa umræðu. Ég tel mjög brýnt að það ágæta fólk sem stendur að þessu máli verði viðstatt umræðuna og svari þeim spurningum sem ég ætla að leggja fram í ræðu minni á eftir.

(Forseti (ÁI): Forseti vill upplýsa að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru í húsinu og hlýða á orð þingmanna. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er á mælendaskrá en á undan honum eru einir þrír hv. þingmenn þannig að tíminn er nægur.)



[01:36]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er gott að þær upplýsingar hafa komið fram að hæstv. forustumenn ríkisstjórnarinnar séu staddir í húsi. Þeir hafa þá augljóslega heyrt ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Þá ræðu sem leiddi til þess að málið er gerbreytt. Það sannaðist í ræðu þingmannsins að farið hefur verið fram með þetta mál af miklum blekkingum Vísað er til heimilda sem hv. þingmaður hrakti með afgerandi hætti. Þingheimi og landsmönnum öllum er sagt að frumvarpið sé reist á stoðum rannsóknarskýrslu Alþingis og síðar starfi þingmannanefndarinnar en hv. þm. Atli Gíslason hrakti það allt saman. Hann benti á að frumvarpið væri byggt á sérpantaðri útkomu nefndar sem hæstv. forsætisráðherra skipaði á vordögum um leið og þingmannanefndin var skipuð.

Það verður því, frú forseti, að draga frumvarpið til baka, senda það til ríkisstjórnarinnar til að vinna það upp á nýtt og í samstarfi við alla flokka á þingi.



[01:37]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu í húsi en ákjósanlegt væri að þeir ágætu ráðherrar kæmu hingað og tækju þátt í umræðunni og svöruðu kannski einhverjum af þeim spurningum sem til þeirra er beint.

Fyrr í kvöld óskaði ég eftir að aðrir hæstv. ráðherrar væru hér, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra, sem báðir hafa lýst efasemdum um málið, og ég hygg að séu á margan hátt sammála hv. þm. Atla Gíslasyni miðað við það sem haft hefur verið eftir þeim. Ég óska eftir upplýsingum um það hvenær hæstv. innanríkisráðherra er væntanlegur í hús. Frú forseti ætlaði, að ég hygg, að kanna það.



[01:38]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Það skal upplýst vegna orða hv. þingmanns að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er í húsi og boðum hefur verið komið til hæstv. innanríkisráðherra.



[01:39]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að hér var flutt tímamótaræða í þessu máli, ræða hv. þm. Atla Gíslasonar, sem er kannski betur að sér í þeim skýrslum sem unnar hafa verið en mörg okkar. Hann flutti mjög sterk rök fyrir máli sínu. Ég held að allt of fáir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafi heyrt þessa ræðu. Ég held að það væri ráð fyrir forustumenn þeirra flokka og þessa þingmenn að kalla saman þingflokksfund og spila ræðuna, hlusta á hana og fara yfir stöðu málsins í kjölfarið og sjá hvaða vitleysa er á ferðinni. Það væri þeim öllum hollt.

Ég hefði gjarnan viljað hvetja þá sem voru hér og hlýddu á ræðuna til að óska eftir leyfi hjá virðulegum forseta til að mega koma í ræðustól núna og svara þeim málflutningi sem þar kom fram og koma með rök sín á móti því sem hér hefur verið flutt. (Forseti hringir.) Fróðlegt væri að hlýða á þann málflutning.



[01:40]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er einn þeirra sem hlustuðu á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, gerði það á skrifstofu minni handan vallarins og fannst hún um margt ágæt, ágætt innlegg í umræðu sem er orðin dálítið staglkennd. Það er því mjög ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður blandar sér í umræðuna.

Ég er ekki sammála niðurstöðu hans að mörgu leyti en þó kannski fyrst og fremst út frá sömu forsendu og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rakti í ræðu sinni í dag. Hún spurði: Er betra að einn stakur ráðherra geti haft örlög og öll mál ríkisstjórnarinnar í hendi sér? Annar ráðherra en forsætisráðherra sem þó hefur verið falið forustuhlutverk? Er skárra að einn ráðherra í ríkisstjórninni geti ráðið örlögum hennar og framgangi einstakra mála?



[01:42]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég óska enn eftir því að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, sem hér áður fyrr krafðist þess ítrekað að ráðherrar væru viðstaddir mikilvæga umræðu, mæti við umræðuna og taki þátt í henni. Ég skora auk þess á hv. framsögumann nefndarálits meiri hlutans að taka til máls og ræða þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, alveg sérstaklega þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni sem veitti forstöðu þeirri nefnd sem vann þá vinnu sem sagt er að frumvarpið byggist á. Hv. þingmaður segir að það sé ekki rétt. Mér finnst það afskaplega alvarlegt þegar formaður þingmannanefndar Alþingis segir að grundvöllur frumvarpsins sé ekki réttur. Í greinargerð með frumvarpinu stendur að það byggi á starfi þingmannanefndarinnar en svo kemur formaðurinn hingað og segir að það sé ekki rétt. (Gripið fram í: Flest rétt.)



[01:43]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti mun ítreka þau boð sem þegar hafa verið borin hæstv. innanríkisráðherra um að nærveru hans sé óskað í þingsal.



[01:43]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum staðið hér í ræðustól í tugi klukkutíma að verða og talað um þetta mál. Við höfum ítrekað fengið að heyra, við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu, að verið sé að endurtaka hlutina hvað eftir annað, umræðan sé staglkennd og annað slíkt.

Síðasta ræða, ræða hv. þm. Atla Gíslasonar, brá nýjum svip á málið. Því hefur verið haldið fram að frumvarpið byggi á þeirri miklu vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis vann en hv. þingmaður hefur sýnt mjög rækilega fram á að það er ekki rétt og fyrir það ber að þakka honum. Jafnframt ber að benda stjórnarliðum á að það er rangt hjá þeim, sem þeir hafa stöðugt haldið fram, að hér sé staglkennd umræða, innantóm, (Forseti hringir.) vegna þess að hér eru að koma fram nýir hlutir þrátt fyrir að klukkan sé að verða tvö um nótt.



[01:45]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætlaði að beina máli mínu til frú forseta og fara fram á það í mestu vinsemd að forseti beini því til þingmanna sem koma hér upp, til að mynda forsvarsmanns meiri hluta allsherjarnefndar sem fer upp og ræðir efnislega um mál, að það sé miklu auðveldara fyrir hv. þingmann að setja sig á mælendaskrá og geta þá rökstutt mál sitt á lengri tíma en þeirri mínútu sem við höfum til að ræða um fundarstjórn forseta.

Þar fyrir utan langaði mig til að segja og bera það undir frú forseta hvort þessi umræða og sá tími sem við erum að ræða þetta mál, um miðja nótt, sé ekki dæmi um það sem við erum öll að gagnrýna í efnislegu umræðunni að sjálfstæði þingsins sé ekkert. Mig langar að spyrja frú forseta: Hver stjórnar því að við sitjum hér og ræðum þetta mál dag eftir dag og endalaust og hvenær lýkur þessari umræðu? (Forseti hringir.) Hvenær lýkur þessum septemberstubbi sem átti að ljúka á morgun?



[01:46]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég ætlaði að nefna. Annars vegar er ég í sömu stöðu og hv. þm. Birkir Jón Jónsson að ég er boðaður á fund snemma í fyrramálið og því væri gott að vita hvort þingfundi verður lokið áður en nefndafundir hefjast í fyrramálið vegna þess að við höfum ekki fengið miklar upplýsingar um hversu lengi þingfundur á að standa.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er það sama og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan að forseti hefur ákveðið svigrúm til að hleypa bæði hæstv. ráðherrum og t.d. hv. framsögumanni meirihlutaálits að í þessari umræðu og víkja frá mælendaskrá kjósi þeir að biðja um orðið. Ég heyrði á hæstv. forseta áðan að hún var öll af vilja gerð en hafði bara ekki fengið beiðni frá þessum hv. þingmönnum og ráðherrum en ég skora á hana að taka því vel þegar hv. þingmenn biðja um orðið, t.d. þm. Róbert Marshall, sem hlýtur að vilja svara með málefnalegum hætti ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar.



[01:47]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn fara fram á það við virðulegan forseta að við fáum einhverjar hugmyndir um það hversu lengi standi til að halda fundinum áfram inn í nóttina. Komið hefur fram að nefndafundir byrja í fyrramálið hjá einhverjum þingmönnum og væntanlega langur þingfundadagur aftur á morgun. Mér finnst því alveg lágmarkskurteisi gagnvart þingmönnum að gefnar séu einhverjar hugmyndir um það hversu lengi verður haldið áfram.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér að hv. þm. Róberti Marshall verði hleypt í ræðustól til að gera grein fyrir máli sínu. Það kom fram einmitt hjá honum, það mátti lesa úr orðum hans áðan af hverju þetta frumvarp þarf að keyrast í gegn, þ.e. hvort það væri betra að valdið væri hjá einum ráðherra (Forseti hringir.) í ríkisstjórninni frekar en þeim sem sæti í forsæti. Það er nákvæmlega (Forseti hringir.) það sem þetta fjallar um, valddreifingu (Forseti hringir.) eða miðstýringu valds.



[01:49]
Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem einstaka hv. þingmenn hafa beint til hv. þm. Róberts Marshalls, að koma í umræðuna eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem var afskaplega yfirgripsmikil og góð, og svara henni á málefnalegan hátt. Hv. þingmaður sagði áðan að hann væri ekki sammála öllu sem þar hefði komið fram og það væri mjög áhugavert að heyra sjónarmið hans og þær athugasemdir sem hann gerir við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég hlustaði á með mikilli athygli.

Eins vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forseta í mikilli vinsemd: Hvenær hyggst hæstv. forseti slíta þingfundi? Það væri mjög gott ef hægt væri að fá þær upplýsingar. Ég hef reyndar ekki skilið af hverju ekki er hægt að koma þeim upplýsingum á framfæri án þess að þurfa að kalla eftir því mjög oft hvenær hæstv. forseti hyggist slíta fundi. Ég hef verið hér síðan fyrir kl. 7 í morgun, ég þurfti að undirbúa mig fyrir nefndarfund sem var í morgun, og það væri því afskaplega gott að vita hvenær þingfundi muni ljúka, virðulegi forseti.



[01:50]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill geta þess að ef marka má mælendaskrá og þá dagskrá sem fyrir þessum fundi liggur er ljóst að hann getur staðið eitthvað fram í nóttina.



[01:51]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur töluvert verið minnst á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns þingmannanefndarinnar, þar sem hann gagnrýndi mjög þetta frumvarp, tilurð þess, með hvaða hætti það er lagt fram. Hann fór yfir það að hér væri í húfi sjálfstæði þingsins gegn ofurvaldi framkvæmdarvaldsins, svo ég noti þau orð sem hv. þingmaður notaði sjálfur.

Hann fór jafnframt yfir það hver skoðun hæstv. fjármálaráðherra hefði verið á þessu máli árið 2007 og að þeir hefðu þá staðið hér saman og talað fyrir sjónarmiðum sem ættu fullkomlega rétt á sér enn þá í dag. Ég vil í ljósi þessa óska eftir því við frú forseta að ræða hv. þm. Atla Gíslasonar verði sett í prentun strax þannig að hv. þingmenn, bæði þeir sem eru í salnum og aðrir, geti kynnt sér hana strax. Ég held að það væri rétt að í það minnsta að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra fengju þessa ræðu til yfirlestrar, því að það er sitthvað (Forseti hringir.) í þessari ræðu sem væri gott fyrir þá að lesa.

(Forseti (ÁI): Forseti vill árétta að undir þessum dagskrárlið ber að ræða fundarstjórn forseta.)



[01:52]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta að koma þeim skilaboðum til forseta þingsins, ef hæstv. sitjandi forseti ætlar ekki að gera það sjálf, að funda með þingflokksformönnum — það hefur ekki verið gert um langa hríð — til að fara yfir stöðu mála í þinginu, hvernig gangurinn á að vera og hvernig dagskráin á morgun verður o.s.frv. Það er hefð fyrir því að funda með þingflokksformönnum til að fara yfir hlutina.

En úr því að hér var verið að ræða ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem var að enda sína ræðu vil ég hvetja ... (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill í fullri vinsemd hvetja hv. þingmann til að ræða fundarstjórn forseta en ekki ræður þingmanna.)

Nei, ég er nefnilega að koma að því sem snýr að fundarstjórninni, forseti, í þessu, að hvetja forseta til að láta hv. þingmann fá ræðutíma til að endurtaka ræðuna, hún var mjög góð. [Hlátrasköll í þingsal.]



[01:53]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vissulega er það freistandi að taka til máls hér eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sérstaklega í ljósi þess hversu uppnumin stjórnarandstaðan virðist vera yfir þeim skilaboðum sem komu frá hv. þingmanni. Öðruvísi mér áður brá. Ekki voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins jafnuppnumdir og hrifnæmir yfir niðurstöðu þingmannanefndarinnar á sínum tíma. (Gripið fram í: Alltaf jafnmálefnalegur.) Er þetta ómálefnalegt? (Gripið fram í: Já.) Ekki voru þeir jafnuppnumdir yfir niðurstöðu þingmannanefndarinnar á sínum tíma, sérstaklega dómnum yfir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, en batnandi mönnum er best að lifa.

Ég ætla að bíða þess að fleiri tali í þessu máli og mun svo svara fjölmörgum spurningum sem til mín og nefndarmanna hefur verið beint. En ég geri ráð fyrir því að mér gefist tóm til að koma mér á mælendaskrá án þess að njóta sérstakrar aðstoðar stjórnarandstöðunnar til þess.



[01:54]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

(Forseti (ÁI): Forseti vill árétta að undir þessum dagskrárlið ber að ræða fundarstjórn forseta.)

Virðulegi forseti. Ég kem náttúrlega ekki upp undir þessum dagskrárlið nema til að ræða fundarstjórn forseta. Hvernig dettur forseta annað eins í hug? Ég er t.d. að koma hér til að ræða fundarstjórn forseta til að fá skýringar á því hvað hæstv. forseti á við með því að hér verði talað eitthvað inn í nóttina. Hvað er klukkan þegar sá tími er komin að talað er inn í nóttina? Nú vantar klukkuna fimm mínútur í tvö, frú forseti. Getur frú forseti gefið betri skilgreiningar á þessari tímasetningu? (Gripið fram í.)

Komið hefur fram að það séu fundir í þingnefndum í fyrramálið. Hér er skyndilega margt fólk í húsinu, margir ráðherrar komnir hingað inn. Hvað á þessi fundur að standa lengi, frú forseti? Ég vil jafnframt koma inn á það varðandi fundarstjórn forseta sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni í kvöld undir þessum dagskrárlið, að ég hvet þá forseta sem sitja í stjórnarmeirihlutanum að ávíta sitt fólk þegar þeir koma sífellt upp og gera lítið úr þingmönnum stjórnarandstöðunnar.



[01:56]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að það er farið að líða ansi langt inn í nóttina. Mig langaði í fyrsta lagi til að spyrja virðulegan forseta sirka hvað klukkan væri þegar langt væri liðið inn í nóttina, þannig að maður geti farið að búa sig undir það að tygja sig heim og fara að sofa til að geta mætt kátur og hress á þingfund á morgun. Ég vil spyrja forseta í mestu vinsemd og með mikilli virðingu: Hvenær áætlar virðulegur forseti að þessum þingfundi verði lokið?



[01:57]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að sá forseti sem nú situr á forsetastóli mætir yfirleitt hér til leiks rétt þegar fer að halla í miðnætti og virðist hafa það hlutverk sérstaklega að svara út úr þegar spurt er eftir því hvernig þingfundum verður háttað. Ég þekki söguna um véfréttina frá Delfí, og margir gera það, þar sem véfréttin svaraði spurningum með mjög óljósum hætti og allir beygðu sig og hlustuðu og sögðu: Hér er talað af miklu hyggjuviti. Hæstv. forseti sem nú situr á forsetastóli virðist vera að tileinka sér þetta fyrirkomulag við stjórn fundarins, að tala með óljósum hætti og án þess að nokkur einasti maður skilji hvað hæstv. forseti er að meina.

Hvað þýðir það að tala inn í nóttina? Hæstv. forseti verður auðvitað að svara skýrt þegar spurt er einfaldra spurninga eins og þeirra hversu lengi þessi fundur eigi að standa. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að boða á til nefndafunda í fyrramálið og ef ætlunin er að halda hér áfram öllu lengur er augljóst að það verður að fara að afboða þá fundi. Það gengur auðvitað ekki að vinna með þessum hætti langt fram eftir nóttu og ætlast síðan til þess að menn komi hér á (Forseti hringir.) mikilvæga fundi í morgunsárið.



[01:58]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem upp og ítreka þá fyrirspurn mína hverjir stjórni þinginu og hver sé ástæða (Gripið fram í: Foringjaræðið.) þess að það sé ekki skýrt fyrir okkur þingmönnum hversu lengi fundur standi í þinginu og hvaða mál eigi að afgreiða. Fyrir fram, í starfsáætlun þingsins, frú forseti, var fyrirhugað að þinginu mundi ljúka á morgun. Ég býst við að margir þingmenn hafi planað líf sitt, fundi og önnur störf samkvæmt því, störf úti í kjördæmum til að mynda, og það er auðvitað algerlega forkastanlegt, frú forseti, að við séum hér í tilgangslausri umræðu þar sem forustumenn stjórnarflokkanna taka ekki þátt í henni. Það getur vel verið að þeir séu í húsi og það getur vel verið að hv. stjórnarliðar séu að hlusta en þeir taka ekki þátt í umræðunni, alveg sama hvað nýtt kemur fram. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur, frú forseti, að vita innan hvaða tímaramma við vinnum og hvenær við ætlum að ljúka störfum því að annars verður enginn árangur af störfum okkar.



[01:59]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég beindi mjög einfaldri spurningu til frú forseta áðan um það hversu lengi þingfundur mundi standa í nótt. Er einhver möguleiki að fá svar við þeirri spurningu?

Maður veltir því fyrir sér hvort hæstv. forseti ætli í raun og veru ekki að svara þessari spurningu. Við þurfum að sjálfsögðu að skipuleggja vinnutíma okkar á morgun. Það er langur og strangur dagur fram undan. Ég ætla svo sem ekkert að kveinka mér undan því að vera hér þess vegna í alla nótt, ég get talað hér. Ég er á mælendaskrá milli kl. 4 og 5. Ég vil einfaldlega fá að vita hvort þingfundur muni standa þá? Er hægt að fá svar við þeirri spurningu, frú forseti? (Gripið fram í.) Ég held að það sé mjög brýnt að frú forseti svari þessum spurningum.



[02:01]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti hefur svarað því til, þeim spurningum sem beint hefur verið til forseta varðandi lengd þingfundar, að ef marka má mælendaskrá og þann áhuga sem þingmenn sýna því að ræða þetta mál, að ekki sé nefnd sú dagskrá sem fyrir þessum fundi liggur, er sýnt að þingfundur þarf að standa enn um hríð eitthvað inn í nóttina, eins og forseti sagði hér fyrr. Hvenær lýkur því? Nú, þá fer væntanlega að halla í morgun. (BJJ: Nú fer þetta að skýrast.) [Hlátrasköll í þingsal.]



[02:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er allt að þokast í rétta átt. Nú erum við farin aðeins fram á veginn, það er ekki lengur inn í nóttina heldur farið að halla í morgun þegar frú forseti sér fyrir sér að ljúka þingfundi.

Virðulegur forseti. Þá er mér verulegur vandi á höndum, því að eins og hæstv. forseti veit mætavel sem hv. formaður Þingvallanefndar þá hefur hæstv. forseti boðað fund í þeirri ágætu nefnd, ég mundi segja snemma morguns, t.d. kl. hálfníu, og ef ég á að vera hér þangað til hallar verulega í morgun og á svo eftir að keyra heim til mín til Keflavíkur og til baka get ég ekki séð, frú forseti, að þetta gangi hreinlega upp. (BJJ: Nei, þetta gengur ekki upp.) Þetta gengur bara ekki upp, það er rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Ég bið frú forseta að láta svo lítið að segja okkur kannski hver skilgreiningin á því er þegar halla fer í morgun svo við getum skipulagt Þingvallanefndarfundinn t.d. í fyrramálið.



[02:03]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseta, sem er reyndur stjórnmála- og félagsmálamaður, ætti að vera ljóst að málin eru í ákveðnum hnút. Eins og staðan er eru tvær leiðir fyrir hendi fyrir hæstv. forseta: Annaðhvort að leysa með einhverjum hætti úr þessum hnút eða berja höfðinu við steininn, jafnvel stinga höfðinu í steininn, [Hlátrasköll í þingsal.] svo notuð sé líking sem orðið hefur fleyg á síðustu dögum. Ég treysti því að hæstv. forseti finni leið til að leysa úr hnútnum frekar en að velja hina leiðina.

Það er auðvitað svo og engin deila um það að fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins sem mikilvægt er að ræða. Ekkert þeirra hygg ég að versni þó að þau verði rædd á morgun ef út í það er farið. En varðandi það mál sem hér er á dagskrá þá er fyrir hendi einhver hnútur í því og hæstv. forseti ætti auðvitað að beita sér fyrir því að það verði einhvern veginn tekið til hliðar á meðan við ræðum þau mál sem við ættum þó að geta komist eitthvað áleiðis með.



[02:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína áðan um það hvort hæstv. forseti geti verið eilítið nákvæmari hvað eitthvað inn í nóttina merkir og hvernig hæstv. forseti skilgreinir það hvenær morgunn byrjar. Síðan vil ég beina því í mikilli vinsemd til hæstv. forseta að taka það upp á næsta forsætisnefndarfundi, af því að ég er mjög umhverfissinnaður maður, að biðja hæstv. forseta þingsins að gefa ekki út starfsáætlun. Ég held að það sé mikilvægt bara til að spara pappír, því að það er ekkert farið eftir henni hvort sem er. Það lá fyrir að þing ætti að standa til 15. september og það er ekkert farið eftir því. Ég hvet hæstv. forseta til að taka það sérstaklega upp á fundi forsætisnefndar að vera ekki að eyða pappír í það heldur væri miklu skynsamlegra að fá tölvupóst beint úr forsætisráðuneytinu um hvernig þingfundum verði hagað. Þá þyrftum við ekki að prenta þetta út og það mundi kannski vera í anda núverandi hæstv. ríkisstjórnar að vera einhvers staðar umhverfisvæn.



[02:06]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér á Alþingi sat einu sinni þingmaður sem margir þekkja, sem hafði gjarnan á orði þegar hann var að gera sitt ýtrasta til þess að hamla framgangi þingsins að hann væri að greiða fyrir þingstörfum. Mér finnst þetta vera að birtast okkur núna, með svörum hæstv. forseta við eðlilegum spurningum okkar þingmanna um hvernig hæstv. forseti sæi fyrir sér að þinginu yndi fram á þessum sólarhring. Ég er farinn að hafa svolitlar efasemdir um það hvort maður eigi að ganga harðar eftir svari, því hæstv. forseti virðist frekar færast í aukana. Fyrsta svarið við spurningunni var að það yrði inn í nóttina, þegar útskýringa var síðan leitað á þessu var brugðið á nýtt orðalag sem var eitthvað inn í morguninn. Þess vegna ætla ég að spara það að spyrja enn eftir þessu, vegna þess að mér finnst ekkert ólíklegt að hæstv. forseti yfirbjóði sjálfa sig og greini okkur frá því að fundurinn verði haldinn eitthvað enn þá lengur.

Sömuleiðis vil ég segja að mér finnst að sérkennileg viðbrögð stjórnarliða, ekki síst þeirra sem bera með einhverjum hætti ábyrgð á málinu, m.a. í gegnum hv. allsherjarnefnd, hafi ekki verið beinlínis til þess fallin að greiða fyrir því að málið yrði leitt til lykta og umræðunni lokið. Hér höfum við hvað eftir annað innt eftir svörum við tilteknum spurningum við efnisatriði frumvarpsins en að því hefur ekki verið hugað. Þetta er t.d. mín þriðja ræða, hygg ég, og andsvör þeirra sem hafa tekið til máls í þessu hafa byggst á því að hv. þingmenn hafa beðið um orðið áður en t.d. efnisleg umræða hefur hafist af minni hálfu og þess í stað hafa þeir farið að ræða um allt aðra hluti, gjarnan óskylda hluti, án þess að svara efnislegum spurningum sem settar hafa verið fram. (Gripið fram í: Þetta er engin umræða.)

Til dæmis hef ég mjög velt því fyrir mér hvers vegna svona mikil áhersla er lögð á að ljúka málinu núna á þessum fáu dögum. Það hefur verið rakið mjög ítarlega, m.a. í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan og hjá fjölmörgum öðrum, að ekki sé mjög skynsamlegt að afgreiða mál af þessu tagi eins og lögin um Stjórnarráð Íslands sannarlega eru, í miklum ágreiningi, í miklu hasti, án þess að menn reyni að leita lausna eða leiða til þess að komast út úr því öngþveiti sem greinilega er að skapast í kringum málið. Það öngþveiti hefur fylgt því algjörlega frá upphafi, frá fyrsta degi sem það var lagt inn í ríkisstjórn og það er enn í miklu öngstræti.

Þess vegna finnst mér mjög brýnt að fá því svarað hvað það er sem gerir það að verkum að menn telja svo mikilvægt að afgreiða málið þrátt fyrir þennan mikla ágreining og þrátt fyrir að í umræðunni hafi hvað eftir annað verið imprað á ýmsum möguleikum sem hægt væri að skoða til þess að reyna að freista þess að ná meiri sátt um það.

Ég vek líka athygli á því sem mér finnst vera stór tíðindi í þessu máli. Frumvarpið var á sínum tíma lagt fram með áformum um að hámarksfjöldi ráðuneyta skyldi vera tíu. Það er út af fyrir sig alveg stefna og sjónarmið. Við vitum að í gildandi lögum eru ráðuneytin talin upp og gert ráð fyrir því að ef menn hyggja á breytingar í þeim efnum þurfi að leggja málið fyrir Alþingi að nýju. Í frumvarpinu var eins og allir vita horfið frá því sjónarmiði en þess í stað sagt að þak yrði á fjölda ráðuneyta. Breytingartillaga hv. meiri hluta allsherjarnefndar gengur hins vegar út á að hverfa frá þessu. Fyrir því eru færð síðan mjög skýr rök. Efnislega eru rökin þau að með því fyrirkomulagi sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir og rökstuddi ítarlega í greinargerð með frumvarpinu og ræðu sinni þegar málinu var fylgt úr hlaði, sé verið að brjóta stjórnarskrá, hvorki meira né minna.

Ég kallaði eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra sem sat nú raunar ekki í sæti sínu þegar ég flutti ræðu mína. Ég gerði mér vonir um að hæstv. ráðherra hefði hlýtt á ræðu mína, vegna þess að mér finnst að þetta atriði sé af þeim toga að það geti ekki legið hér og því sé ósvarað alla umræðuna. Það verður auðvitað að bregðast við þessu. Var málið svo illa undirbúið af hálfu hæstv. forsætisráðherra að ekki var hugað að því hvort þetta stóra atriði væri í samræmi við stjórnarskrá að mati hæstv. forsætisráðherra? Auðvitað hlýtur hæstv. forsætisráðherra að hafa gengið út frá því að frumvarpið sem hún lagði fram væri í samræmi við stjórnarskrá. Ég ætla engum annað en að hafa reynt að hugsa það þannig. Síðan gerist það að meiri hluti hv. allsherjarnefndar kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki, þetta sé stjórnarskrárbrot. Það eru gríðarlega mikil tíðindi og maður hlýtur að kalla eftir því frá hæstv. forsætisráðherra sérstaklega hvort ekki hafi verið hugað að þessu við undirbúning málsins.

Tíminn líður hratt. Mig langar að koma inn á eitt atriði. Það hefur verið mjög mikið rætt um þetta pólitíska aðstoðarmannakerfi upp á 23 aðstoðarmenn. Fyrir því hafa verið færð tiltekin rök. Í fyrsta lagi hefur verið sagt að með því móti væri hægt að draga úr því sem menn hafa kallað pólitískar ráðningar. En er það þannig? Mun tilkoma 23 aðstoðarmanna, þar af þriggja sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kallar með smekklegum hætti „stormsveitina“, þegar búið er að setja 23 pólitíska aðstoðarmenn inn í ráðuneytin, hverfi algjörlega freistingin til pólitískra ráðninga í öllu kerfinu? Þessi spurning svarar sér sjálf. Auðvitað er það ekki þannig. Þetta er í sjálfu sér ekki innlegg í það. Þó að sett séu á fót embætti 23 aðstoðarmanna, þar af þriggja stormsveitarmanna, svo ég noti nú orðalag hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, þó að mér finnist það nú mjög ósmekklegt í sjálfu sér, mun það auðvitað ekki hafa nein áhrif á slíkt.

Í öðru lagi er það misskilningur hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þegar hún sagði áðan að gert væri ráð fyrir því að 20 aðstoðarmenn dreifðust á ráðuneytin og tveir aðstoðarmenn væru í hverju ráðuneyti. Það er ekki þannig. Breytingartillögur meiri hluta hv. allsherjarnefndar kveða nefnilega á um að hámarksfjöldi ráðuneyta, sem í frumvarpinu sagði að ættu að vera tíu, hverfur. Enginn mun vita hversu mörg þessi ráðuneyti eiga að vera í framtíðinni, þau geta verið fimm, þau geta verið fimmtán eða raunar hvað sem er. Þetta er því mikill misskilningur. Vonandi er hugsunin ekki þannig að ef ráðuneytum verður fjölgað verði talan mun hærri en 23. Þetta rekur sig allt saman hvað á annars horn.

Menn verða auðvitað að skoða þessi mál í einhverju samhengi. Gleymum því ekki að á sínum tíma var hér flutt frumvarp um að sameina nokkur ráðuneyti. Eins og allir vita var horfið frá því að nokkru leyti. Horfið var frá sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins, en rökin fyrir því að ganga í það að sameina ráðuneyti voru m.a. þau að spara peninga. Nú er hins vegar lögð fram breytingartillaga sem felur í sér fjölgun aðstoðarmanna. Ég verð að segja, og tek undir orð margra annarra, að greinilegt er að þetta mál hefur verið unnið í miklum flýti. Það hefur ekki einu sinni verið hugað að því að skoða kostnaðinn af þessu eða virkni þessa eða nokkuð annað. Þetta er eitthvað sem fæðist í nefndinni og hefur greinilega ekki fengið þá umræðu sem það verðskuldar.

Ég er ekki að tala gegn því að ráðherrar hafi aukinn styrk af aðstoðarmönnum til pólitískrar stefnumótunar, það er í sjálfu sér ekki skökk hugsun, en í fyrsta lagi verða menn að skoða þetta í öðru samhengi, í samhengi við styrk Alþingis sem hér hefur verið mjög hafður á orði. Í öðru lagi hljóta menn að gera þá einföldu kröfu að menn hugsi svona mál til enda, geri sér grein fyrir því að um leið og búið er að opna á að fjölga ráðuneytum og líka að skipta ráðuneytum og búa til einhvers konar undirráðuneyti eða hliðarráðuneyti, eins og boðað er í frumvarpinu, þá er öll þessi hugmyndafræði orðin mjög sérkennileg og gengur ekki upp eins og blasir við öllum. (Forseti hringir.)



[02:16]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Eins og allir vita hefur hv. þingmaður marga fjöruna sopið í stjórnmálum, búinn að vera hér lengur en margur, setið í ríkisstjórnum o.s.frv. Ég hef heyrt í mörgum öðrum reyndum þingmönnum og fáum hefði dottið í hug að sækjast eftir þeim heimildum sem hér er verið að gera. Þegar horft er til sögu íslenskra stjórnmála og þeirra aðstæðna sem við höfum búið við, af því að gjarnan er verið að vitna og leita til annarra landa, man hv. þingmaður einhvern tíma eftir því að í hans stjórnartíð hafi komið til greina að ganga jafnlangt og verið er að gera hér — ég geri mér grein fyrir því að stjórnarráðslögunum var breytt meðan hv. þingmaður var á þingi — (Forseti hringir.) að sækjast eftir svo miklu valdi?



[02:18]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að á sínum tíma, árið 2007, var með umdeildum hætti breytt lögunum um Stjórnarráð Íslands. Gefin var út heimild til að sameina ráðuneyti með forsetaúrskurði. Þá var ekki gengið eins lagt og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, hvað þá jafnlangt og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hluta hv. allsherjarnefndar. Engu að síður var hugmyndum um að sameina mætti ráðuneyti með forsetaúrskurði mætt af mikilli hörku. Þar gengu fremstir í flokki þingmenn VG sem fundu því allt til foráttu en virðast nú engu að síður ætla að standa að frumvarpi þar sem gengið er miklu lengra. Það er alveg augljóst mál að hv. þingmenn hafa skipt um skoðun án þess að hafa gert grein fyrir því hvað hafi valdið stefnubreytingunni (Forseti hringir.) og skoðanaskiptunum.



[02:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að einstakt er að fara í þá vegferð sem hér er verið að fara. Þá hlýtur maður að spyrja sig hver markmiðin séu með því að gera hlutina svona. Hér er talað um sveigjanleika og það kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar að það sem síst þyrfti akkúrat núna væri meiri sveigjanleiki heldur þyrftum við formfestu og yfirvegun og einhverja skynsemi í stjórnmálin. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmenn og aðrir sem mögulega eru enn á fótum og heyra þetta taki sig til og hlusti á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar því að hún var allt í senn fræðileg yfirferð og söguleg.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi það í ræðu sinni að hann hefði áhyggjur af málefnunum (Forseti hringir.) og slíku. Mig langar að biðja hv. þingmann um að draga upp þá mynd sem gæti orðið ef forsætisráðherra fengi heimild til að draga málefnin frá einhverju ráðuneyti bara sisvona.



[02:20]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég hafi hugmyndaflug til að svara þessari spurningu. Auðvitað eru möguleikarnir endalausir þegar það blasir við að hverfa frá því að hafa hámarksfjölda ráðuneyta, hverfa frá því að tilgreina ráðuneytin í löggjöfinni og opna síðan á möguleika á því að taka út einstaka málaflokka og búa til sérstök ráðuneyti utan um tiltekna málaflokka.

Ég held að hér sé verið að stíga miklu stærra skref en jafnvel var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. Ég hef margoft vakið á því athygli að árið 1969 höfðu menn fengið sig fullkeypta af þeirri lausung sem hafði ríkt í þessum efnum og þess vegna hurfu þeir frá þessu og vildu setja meiri formfestu í fyrirkomulagið. Það má vel vera að menn vilji skoða þetta en ég tel að í þessum efnum, eins og frumvarpið liggur fyrir og ég tala nú ekki um breytingartillögurnar, sé gengið allt of langt (Forseti hringir.) og hættan sé sú að það verði lausung í þessum mikilvæga málaflokki sem þarf á öllu öðru að halda.



[02:21]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rifjum aðeins upp upphaf þessa máls. Eftir að út kom skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skipaði forsætisráðherra nefnd til að fara yfir það sem úrskeiðis fór í stjórnsýslunni. Hún gaf út skýrslu sem heitir Samhent stjórnsýsla og á niðurstöðum þeirrar skýrslu er þetta frumvarp byggt. Það kom síðan hingað inn í þing og fór til allsherjarnefndar sem tók m.a. mið af ályktun þingmannanefndarinnar og gerði margháttaðar breytingar á málinu eins og hv. þingmaður rakti ágætlega í máli sínu.

Stjórnarandstöðuþingmenn koma hingað upp trekk í trekk og halda því fram að um sé að ræða eitthvert sérstakt gæluverkefni forsætisráðherra til að færa til sín eins mikil völd og mögulegt er. Hins vegar gerir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mikið úr þeim breytingum sem þarna er verið að gera og hvernig þær fara gegn hugmyndum forsætisráðherra. Ég vil spyrja því hv. þingmann: Hvernig fer þetta tvennt saman?



[02:22]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hljóti að fara að verða augljóst mál öllum sem hafa farið í þessa umræðu og fylgst með henni að það sem verið er að gera hér er a.m.k. í veigamestu atriðum hvorki í samræmi við tillögur rannsóknarnefndar Alþingis né þingmannanefndarinnar. Hins vegar skipaði hæstv. forsætisráðherra sérstaka nefnd sem lagði til það fyrirkomulag sem við erum svo mjög búin að ræða hér um.

Ég vakti athygli á því sem mér finnst skipta miklu máli og sæta heilmiklum tíðindum, að meiri hluti hv. allsherjarnefndar komst að þeirri niðurstöðu að frumvarpið eins og það var lagt fram upphaflega, með því að tilgreina fjölda ráðuneyta, stangaðist á við stjórnarskrá. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað fá svör frá hæstv. forsætisráðherra um það með hvaða hætti þetta sérstaka atriði hefði verið undirbúið og hvort skoðað hefði verið sérstaklega að það (Forseti hringir.) kynni að stangast á við stjórnarskrá. Ég held að það geri það ekki, en mér finnst það vera þess eðlis að gott væri að hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra svaraði því fyrir mig.



[02:24]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar líka til þess að spyrja hv. þingmann út í skoðun hans á þeim hæfisnefndum sem ætlunin er að taka upp við ráðningar inn í stjórnsýsluna.



[02:24]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að hæfisnefndir geti alveg átt rétt á sér og það kann að vera að það sé skynsamlegt að mörgu leyti að hafa hæfisnefndir. Það leysir menn hins vegar ekkert undan vandanum.

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur, sem starfaði á Alþingi um árabil, hefur skrifað um þetta mál mjög athyglisverða grein þar sem hann hefur m.a. vakið athygli á því að slíkar hæfisnefndir hafi líka sína ágalla, þær hafi haft tilhneigingu til að gera minna úr formlegum atriðum eins og menntun og reynslu og byggi meira á viðtölum við einstaka umsækjendur með afleiðingum sem höfundur greinarinnar, Haukur Arnþórsson, útlistar síðan með margvíslegum hætti.

Þetta kann að eiga rétt á sér í ýmsum tilvikum en menn mega ekki líta svo á að þar með séu þeir lausir undan ábyrgð eða að þetta leysi allan vanda.



[02:25]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að inna hv. þm. Einar K. Guðfinnsson eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem var formaður þingmannanefndarinnar og sá sem hér stendur sat reyndar í. Mér fannst ræða hv. þm. Atla Gíslasonar afar áhugaverð, málefnaleg og rökföst. Mig langaði að inna þingmanninn eftir því hvort honum fyndist það pólitískt og þar af leiðandi eitt af markmiðum meiri hlutans að gera alla hluti sveigjanlega þar sem það er gegnumgangandi lausnarorð í frumvarpinu á móti orðinu formfesta í skýrslum þingmannanefndar og rannsóknarnefndar Alþingis, sem eftir mínum kokkabókum er andstæðan við sveigjanleika. Er pólitískt markmið að hafa sveigjanleika þrátt fyrir að (Forseti hringir.) formfesta hafi komið fram í skýrslunum? Hvað þá um þann rökstuðning að frumvarpið sé byggt á skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og (Forseti hringir.) þingmannaskýrslunni þar sem formfestan er aðalatriðið?



[02:27]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar að hann lagði einmitt áherslu á að tillögur nefndanna sem við höfum svo mjög rætt hérna um hafi gengið út á það að auka formfestu og formfesta í þessum skilningi væri þá andstæðan við sveigjanleika. Við skulum viðurkenna að auðvitað þarf stjórnsýslan okkar að vera sveigjanleg en hún þarf hins vegar að lúta tilteknum almennum reglum og lögmálum sem hún á að fara eftir.

Það sem mér hefur fundist þegar ég skoða þetta og velti fyrir mér hugtakinu sveigjanleiki, sem er eiginlega notað til að afsaka alla hluti í þessu frumvarpi, er að fyrst og fremst sé verið að vísa til þess að frumvarpið dugi til að sveigja og beygja Alþingi vegna þess að það er verið að taka völd sem Alþingi sannarlega hefur haft í gegnum löggjöfina og færa þau til framkvæmdarvaldsins. Það finnst mér vond þróun.



[02:28]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það og reyndar margt fleira sem fram kom í máli þingmannsins í ræðu hans áðan.

Varðandi annað atriði, sem kom reyndar fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og þingmaðurinn verður að virða það við mig að ég spyrji hann en ekki stjórnarliða sem gefa ekki kost á sér í þessa umræðu til að svara fyrir það, þá kom það mjög skýrt fram hjá hv. þingmanni í ræðu hans að oddvitaræðið, sem menn töldu hluta af því böli sem við höfum lifað við í stjórnmálamenningu fyrri tíma, kæmi hér inn margfaldað og ein af ástæðum þess væri sú að núverandi forsætisráðherra, sem leggur frumvarpið fram, væri frá þeim tíma og kæmist ekki út úr honum, ég held að hann hafi notað orðin „minn tími mun koma“ en sá tími sé tími fortíðarinnar.

Hvað finnst (Forseti hringir.) þingmönnum um að við séum föst í þeirri fortíðarstjórnmálamenningu sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar taldi (Forseti hringir.) alveg forkastanlega og að við yrðum að breyta, (Forseti hringir.) ekki síst hvað varðaði oddvita- og foringjaræði?



[02:29]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta frumvarp sækir sér fyrirmyndir til fortíðar þá er það ekki til nýliðinnar fortíðar, ekki til undanfarinna tíu ára, ekki tuttugu ára, ekki þrjátíu ára, ekki fjörutíu ára heldur miklu lengra aftur í tímann.

Eins og ég hef áður vakið athygli á kusu menn að breyta stjórnarráðslögunum árið 1969 eftir að hafa haft bitra reynslu í 30 ár af þáverandi fyrirkomulagi, sem nú er verið að innleiða kannski í ýktari mynd, og töldu menn að það hefði gengið sér til húðar. Hafi menn verið að líta til fortíðar til að endurspegla einhvers konar pólitíska fortíð er það fyrst og fremst sú tíð sem var á árunum 1938–1969 áður en menn formfestu stjórnarráðslöggjöfina með þeim hætti sem allir vita að gerðist á árinu 1969.



[02:30]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt atriði sem hefur verið talsvert til umræðu hér í dag og snýr að upptökum á ríkisstjórnarfundum. Sitt sýnist hverjum um þá tillögu og raunar hefur það komið fram í máli einhverra þingmanna sem hyggjast styðja þetta mál að þeir styðji ekki það ákveðna ákvæði.

Hv. þingmaður hefur mjög langa þingreynslu og hefur verið ráðherra en ekki geta margir sem hafa tekið þátt í umræðunum talað af þeirri reynslu að hafa verið ráðherrar líka. Það hefði verið fróðlegt að fá hæstv. ráðherra til að fjalla um einmitt þessa tillögu. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi reynslu hans hvaða áhrif hann telur að það hafi ef hljóðritun á ríkisstjórnarfundum, eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögum, nær fram að ganga.



[02:31]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef skilið þetta ákvæði gengur það út á að gefa út samtöl sem eiga sér stað á ríkisstjórnarfundum á eins konar hljóðbók, sem verður kannski varðveitt í segulbandasafni Ríkisútvarpsins, og við fáum að hlusta á eftir 30 ár.

Nú verð ég að játa það að miðað við þær skrautlegu æfingar sem eru milli ráðherra og innan stjórnarliðsins utan ríkisstjórnarherbergisins er ég fullur tilhlökkunar satt að segja að fá að hlusta á samtölin á ríkisstjórnarfundunum. Ég er að vísu kominn vel yfir fimmtugt þannig að ég verð á níræðisaldri þegar upptökurnar verða gefnar út, (Gripið fram í.) ef guð lofar, þannig að ég er auðvitað ekki viss að eiga þess kost að hlusta á þær en það er augljóst mál að þessi aðferð mun hafa þau áhrif að ýmis samtöl sem nú eiga sér stað á ríkisstjórnarfundum munu fara fram utan ríkisstjórnarherbergisins.



[02:32]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á hv. þingmaður í raun og veru við það, sem hefur kannski legið svolítið undir í umræðunni í dag, að hugsanlega færu ríkisstjórnarfundir fram fyrir ríkisstjórnarfundina og ríkisstjórnarfundirnir yrðu þá eins konar blaðamannafundir sem þó yrðu ekki gerðir opinberir fyrri en 30 árum síðar?

Nú bý ég ekki yfir sömu reynslu og hv. þingmaður, að hafa starfað í ríkisstjórn, (Gripið fram í: Ekki enn þá.) ekki enn þá. Mun það ekki gera starf ríkisstjórnarinnar töluvert erfiðara að ríkisstjórnin geti ekki sest niður og rætt opinskátt um málin því að sumt á kannski ekki erindi í hljóðupptökur? Er ekki hætta á því að menn fari hugsanlega að halda ríkisstjórnarfundi fyrir ríkisstjórnarfundina og hver er þá tilgangurinn með þessari tillögu? (Gripið fram í.)



[02:34]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki miklu við það að bæta sem mjög margir hafa bent á og hv. þingmaður vakti athygli á, að þetta gæti auðvitað leitt til þess að umræður sem ella færu fram á hefðbundnum ríkisstjórnarfundum ættu sér stað einhvers staðar annars staðar.

Ég tók eftir því að þegar var verið að rökstyðja þetta var það gert m.a. með því að ef menn vissu að ríkisstjórnarfundirnir væru hljóðritaðir yrðu fundargerðirnar ítarlegri, nákvæmari og ættu — eins og kemur raunar fram í lagatextanum — að endurspegla umræður á ríkisstjórnarfundunum. Samkvæmt frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir því að þessar fundargerðir, sem þá verða orðnar miklu nákvæmari, verði gerðar opinberar eftir eitt ár þannig að þá verður væntanlega búið að ljóstra upp flestum þeim leyndarmálum sem fara fram á ríkisstjórnarfundum. Sé tilgangurinn sá, eins og hefur verið nefnt m.a. af flutningsmönnum þessara tillagna, að búa til nákvæmari fundargerðir finnst mér þetta stangast svolítið hvort á annars horn, annars vegar fundargerðir sem endurspegla umræðurnar (Forseti hringir.) og koma út ári síðar og hins vegar hljóðbækurnar sjálfar eftir 30 ár.



[02:35]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mikið gleðiefni að sjá að hv. þm. Kristján L. Möller sitji hér sem hæstv. forseti. Hæstv. forseti er frá Siglufirði eins og ég og Siglfirðingar þykja úrræðagóðir á mörgum sviðum. Nú er mikilvægt að í stólnum sitji úrræðagóður einstaklingur eins og hæstv. forseti.

Við höfum verið að reyna að fá það fram hjá þeim forsetum sem setið hafa hér í kvöld hvenær ljúka eigi þessum þingfundi. Það er heilmikill óróleiki í fólki og óöryggi sem stafar af því að síðasti hæstv. forseti sem sat á forsetastóli sagði að við ættum ef til vill von á því að funda fram til morguns og jafnvel fram að þeim tíma sem nefndafundir hefjast. Ég vil því spyrja hæstv. forseta í mikilli einlægni hvað hann ætli sér að halda fundinum lengi áfram þannig að við getum skipulag tíma okkar og störf á morgun því að nú vantar klukkuna 20 mínútur í þrjú og mikilvægt fyrir okkur að fá þessa hluti á hreint. Ég er þess fullviss að hæstv. forseti mun (Forseti hringir.) svara þessum spurningum skýrt og greinilega.



[02:36]
Forseti (Kristján L. Möller):

Það gerðist oft á Siglufirði á miklum vertíðum að menn þurftu að vaka allan sólarhringinn.



[02:37]
Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hæstv. forseti sagði áðan er ég nú búinn að vera margar vertíðir til sjós um ævina en enga eins og þá sem stendur yfir. Það er eins og maður viti ekki í hvaða bát maður á að fara á morgnana.

Klukkuna vantar 20 mínútur í þrjú að nóttu og fyrrverandi hæstv. forseti svaraði því til að þingfundur yrði eitthvað inn í nóttina en yrði væntanlega lokið fyrir morguninn. Ég spyr eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson: Gæti hæstv. forseti verið svo vinsamlegur að svara því hvað hann hyggst halda þingfundi lengi áfram þannig að hv. þingmenn geti skipulagt tíma sinn eins og þeir þurfa eðlilega að gera?

Eins vil ég beina því til hæstv. forseta, af því að hann nefndi vertíðirnar á Siglufirði, að það væri kannski ráð ef þetta vinnulag heldur áfram á hinu háa Alþingi að hæstv. forseti mundi beita sér fyrir því að settar verði kojur í þingflokksherbergin.



[02:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður Siglfirðinga um vertíðir eða annað enda hittumst við Skagfirðingar og Siglfirðingar yfirleitt í Ketilási þegar á þarf að halda.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. forseta þeirrar spurningar hvort eitthvað hafi gerst varðandi þá beiðni mína, sem reyndar var beint til annars forseta, að þingflokksformenn setjist niður með forseta og reyni að átta sig á planinu og skipulaginu á þingstörfunum. Einn hv. þingmaður orðaði það svo að þegar ríkisstjórnin var búin að fara suður á Suðurnes og vestur á firði og eitthvert annað að boða einhver úrræði, að það væri eins og hringleikahús sem færi hringinn í kringum landið og skemmti fólki. Það er þá ágætt ef færa á það til bókar og spila það í útvarpsleikriti seinna meir, eins og mér heyrist að menn hafi verið að ræða hér.

Herra forseti. Það er mikilvægt að það sé festa í þingstörfunum sem er ekki í dag og hefur ekki verið undanfarið. Það er líka mikilvægt að þingmenn fái svör við þeim spurningum sem þeir beina til forseta, ekki síst varðandi framhald á fundinum.



[02:39]
Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að minnast á það þegar klukkan er langt gengin í þrjú að nóttu að þingmenn eru ekki vélar. Þingmenn eru mannlegir og þeir þurfa að hvíla sig eins og aðrir Íslendingar og aðrar mannlegar skepnur. Starfsfólk þingsins hefur afleysingarsystem en þingmenn hafa ekki afleysingarmenn til að leysa sig af í fyrramálið.

Hér er ég klædd og við erum í útsendingu allan sólarhringinn. Þarf ég að vera í þessum fötum aftur á morgun? Er möguleiki á því að ég komist heim í sturtu og skipta um föt og laga á mér hárið? Getur forseti upplýst okkur um hvenær þessum þingfundi lýkur því að ég á að mæta á fund í umhverfisnefnd klukkan hálfníu í fyrramálið, eftir örfáar klukkustundir? (BJJ: Já.) Ég bið hæstv. forseta að svara því hvenær þessum fundi lýkur.



[02:40]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig það er á vertíð í Siglufirði en eftir áætlun hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að dæma gerir hún ráð fyrir því að Siglfirðingar fari aldrei í bað og heldur aldrei heim að leggja sig.

Þetta er að verða svolítið furðuleg fundarstjórn hjá hæstv. forseta og væri mjög gott að fá nákvæmari tímaáætlun; mun hann standa eitthvað inn í nóttina, verður honum lokið fyrir morgun, er hann eins og vertíð á Siglufirði sem gengur allan sólarhringinn? Gerir hæstv. forseti ráð fyrir því að ljúka fundi klukkan þrjú? Maður skyldi ætla að eftir þrjú værum við hætt að tala inn í nóttina og værum byrjuð að tala út úr nóttinni. Er það klukkan fjögur, fimm, sex? Það væri gott að fá aðeins nákvæmari tímasetningu á því þannig að menn geti gert (Forseti hringir.) lágmarksáætlanir.



[02:42]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrr í kvöld lýsti ég áhyggjum mínum af fundarstjórn forseta. Ég vil af umhyggju fyrir hæstv. forseta ítreka þær áhyggjur mínar af fundarstjórn þar sem hæstv. forseti virðist eiga bágt með að svara spurningum sem að honum er beint. Hann svarar þeim með einkennilegum og óljósum hætti eða vísar til lífsreynslu sinnar á Siglufirði um einhverja hluti sem eru alveg ótengdir því sem forseti starfar nú við í fundarstjórn.

Ég hygg að hæstv. forseti verði að fara að útskýra fyrir þingheimi hvað átt er við þegar sagt er að tala eigi inn í nóttina. Nú er klukkan að halla í þrjú. Hæstv. forseti hlýtur að geta svarað því með einföldum hætti hvort til standi að halda áfram fundi fram yfir klukkan þrjú.

Ég ítreka enn og aftur að ég varpa þessum spurningum fram til virðulegs forseta af einskærri umhyggju fyrir fundarstjórn hans til að hann geti svarað okkur með skilmerkilegum hætti.



[02:43]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, já, við þekkjum þetta nokkur úr sauðburði líka. (Gripið fram í.)

Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa með virðulegum forseta í iðnaðarnefnd sem hann veitir forsæti. Ég vil hrósa hv. þm. Kristjáni Möller fyrir afburðagóða fundarstjórn þar og fyrir að vera maður sátta og fyrir að leita allra leiða til að ná samkomulagi við þá sem þar eru, enda hygg ég að störf gangi ekki betur í öðrum nefndum en í hv. iðnaðarnefnd.

Nú höfða ég til þess drengs sem ég veit að virðulegur forseti hefur að geyma og ég veit að hann skilur vel þær spurningar sem fyrir hann eru lagðar. Ég veit að hann áttar sig á því að þær eru alveg eðlilegar. Nú bið ég hann um að taka ofan þann hatt sem hann hefur sett upp hér (Forseti hringir.) og setja upp hatt formanns hv. iðnaðarnefndar og koma með einhver svör til þingheims við þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar.



[02:44]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Að því loknu vil ég síðan gera alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Ég held að það skilji það ekki nokkur maður að ekki sé hægt að svara okkur þingmönnum með einföldum og skýrum hætti um hversu lengi áætlað sé að tala í þessari fundarlotu í kvöld. Í nótt? Til morguns?

Fyrr í kvöld spurði hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir um áætlaðan Þingvallanefndarfund en þá sat í forsetastól sá hv. þingmaður sem er í forsvari fyrir Þingvallanefnd og er nú horfinn af vettvangi. Er meiningin að við, almennir þingmenn í þeirri nefnd, eigum að vera hér til morguns. Hvernig eigum við að koma undirbúnir til þess fundar sem þá verður haldinn?

Það er óskiljanlegt fyrir alla þá sem á horfa (Forseti hringir.) að við fáum ekki skýr svör um hvenær þessum fundi lýkur.



[02:46]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess sem fram hefur komið um áður boðaða nefndafundi í fyrramálið í fleiri en einni og sennilega fleiri en tveimur nefndum tel ég einboðið að hæstv. forseti láti þau boð út ganga til formanna þeirra nefnda að vegna þess að forseti hafi ákveðið að hafa þingfund fram á morgun sé ekki unnt að halda þá nefndafundi. Ég held að hæstv. forseti verði að gera það.

Varðandi skipulag fundarins að öðru leyti veit ég að ég kann að hljóma í eyrum sumra eins og biluð plata en sú hugsun hlýtur að læðast að hæstv. forseta að það sé hægt að skipuleggja þetta betur, [Hlátur í þingsal.] taka út það mál sem veldur mestum ágreiningi og ekkert liggur á og ganga til þeirra verka sem við ættum öll að geta unnið hér í sameiningu.



[02:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni og ég treysti því og trúi að hæstv. forseti sjái að það hlýtur að vera hægt að gera þetta örlítið betur þegar hann skoðar málið grannt og veitir því alla þá athygli sem hann hefur að geyma.

Ég vil líka nefna annað atriði í þessu samhengi. Eins og hér hefur komið fram er komið langt fram yfir miðja nótt og nú er það þannig að sum okkar, m.a. sú er hér stendur, þurfa að ferðast um langan veg til að komast heim til þess að rétt skipta um föt og koma aftur á fund Þingvallanefndar í fyrramálið eins og hér hefur komið fram. Þá er það spurningin um umferðaröryggi sem ég veit að hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra er mjög mikill áhugamaður um. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forseti geri ekki allt sem í hans valdi stendur (Forseti hringir.) til að tryggja öryggi á vegum landsins með því að fara að slíta þessum fundi hér.

(Forseti (KLM): Forseti er nokkuð viss um að það er lítil umferð á Reykjanesbrautinni um þessar mundir.)



[02:48]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil afstöðu herra forseta mjög vel. Hann stýrir þessum fundi ágætlega, það átti að ræða hérna inn í nóttina og ég skil ekki þessar umkvartanir þingmanna. Ég hef verið í síld og það er ekkert mál að vaka pínulítið. Hugsunin skerpist við hverja ræðuna á fætur annarri og ég hlakka til framhaldsins. Ég er númer sjö í röðinni og ég hlakka til að heyra öll þau sjónarmið sem munu kom fram þangað til að ég held mína ræðu. Mér líst vel á þetta allt saman og þakka herra forseta fyrir ágæta fundarstjórn.

Menn tala um að í kvöld hafi verið sagt að það yrði talað inn í nóttina — en það var ekki sagt hvaða nótt. [Hlátur í þingsal.]



[02:49]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þér hafið talað mikið um að menn þurfi stundum að vinna lengi og nefnt til sögunnar reynslu yðar frá Siglufirði. En ég geri ráð fyrir því að á Siglufirði hafi menn þó verið að vinna til að ná einhverju markmiði og skapa verðmæti. (PHB: Hér …) Hér virðist hins vegar skorta allt verksvit eins og hv. þingmaður úr Vestmannaeyjum, Árni Johnsen, mundi segja. [Hlátur í þingsal.] Nú ætlast hæstv. forseti til þess að menn ræði hér mál og reyni að útskýra hina ýmsu galla sem á því máli eru án þess að það fólk sem ber ábyrgð á málinu og þarf að laga þá galla sé til staðar.

Ég hvet því hæstv. forseta til þess, ætli hann að láta fund standa hér áfram, að fá á staðinn og í umræðuna það fólk sem fyrir þessu öllu stendur svoleiðis að umræðan megi verða til þess að bæta málið.



[02:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Okkur, þessum nýju í þinginu, hefur verið sagt frá þeirri hefð sem hefur líka verið praktíseruð frá því að við komum hingað að fundað sé með þingflokksformönnum um dagskrá þingsins og þess háttar. Nú hefur ekki verið fundað með þingflokksformönnum síðan á mánudag og ég geri ráð fyrir að það sé kominn fimmtudagur ef ég er ekki alveg orðinn ruglaður í dögunum. Maður veltir fyrir sér hvort nýja stefnan sé þá að fara eftir því frumvarpi sem hér er verið að ræða og vera bara með einhvers konar þingforsetaræði.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Við erum að tala um mál sem ekki hefur fengist nokkur einasta skýring á af hverju liggur svona á að klára. Hvorki nokkur óbreyttur stjórnarþingmaður né ráðherra hefur komið hér upp og útskýrt fyrir okkur af hverju þetta er áherslumál ríkisstjórnarinnar á þessum svokallaða septemberstubbi. Við hljótum mörg að velta vöngum yfir því þegar við sjáum öll önnur mál sem eru á listanum. Við vitum að heimildir um gjaldeyrishöft (Forseti hringir.) renna út um næstu mánaðamót en við erum ekki að ræða það hér. Við erum að ræða (Forseti hringir.) algjört aukamál.



[02:52]
Forseti (Kristján L. Möller):

Nú eru enn fjórir sem hafa óskað eftir að taka til máls um fundarstjórn forseta en forseti hefur verið spurður hvað við ætlum að halda hér lengi áfram. Forseti hafði hugsað sér að gefa fleirum tækifæri til að tala í þessu máli, það eru enn 11 á mælendaskrá og ég held að það sé ágætt að fleiri geti þess vegna tjáð sig.



[02:53]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta voru greinargóð svör hjá hæstv. forseta, það eru 11 á mælendaskrá. Ég spurði áðan hvort til stæði að þingfundur stæði til klukkan þrjú, fjögur, fimm, sex eða jafnvel til klukkan sjö.

Það er ekkert að því að ræða þetta mál hér áfram og ekkert að því að ræða önnur mál líka ef því er að skipta. En það er alveg með ólíkindum að við getum ekki með nokkru móti fengið fram neinar tímasetningar hjá hæstv. forseta og það er enn ótrúlegra að þingflokksformenn hafi ekki fundað síðan á mánudag. Þetta er algjört hneyksli.

Ég trúi því ekki að jafngóðir menn og Siglfirðingar láti þessa óreiðu viðgangast. Siglfirðingar eru almennt mjög nákvæmir, hefur mér skilist, og stundvísir og ég trúi því ekki að þeir (Forseti hringir.) Siglfirðingar sem hér eru geti ekki tekið höndum saman og komist að niðurstöðu um það hvenær ætlunin er að slíta þingfundi.

(Forseti (KLM): Eins og forseti sagði áðan hyggst hann gefa fleirum orðið og eftir því sem styttri tími fer í þennan lið, fundarstjórn forseta, þeim mun fyrr lýkur fundi.)



[02:55]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég bað um það fyrr í kvöld að hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson yrði viðstaddur umræðuna og tæki þátt í henni. Hann er vaskur maður og ég þekki hann að því að hafa getað vakað lengi og ég trúi því ekki að hann geti það ekki lengur. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra verði kallaður til fundarins vegna þess að hann hefur einhverjar efasemdir um þetta frumvarp. (BJJ: Já, já.) Ég vildi gjarnan heyra þær efasemdir (BJJ: Ég líka.) vegna þess að sá hæstv. ráðherra er hluti af ríkisstjórn Íslands. Þetta er ríkisstjórnarfrumvarp sem við ræðum og það er mjög mikilvægt að vita hvort það sé einhver stuðningur á bak við það. Ef það er ekki stuðningur þurfum við ekkert að ræða það. Þar fyrir utan hefur komið í ljós að sá grundvöllur frumvarpsins — og það ætla ég að ræða um í næstu ræðu, herra forseti — að það byggi á skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar er ekki til staðar eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Frumvarpið byggir á misskilningi og það er ekki stuðningur á bak við það. (Gripið fram í.)



[02:56]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með fundarstjórn herra forseta þar sem hann neitar að gefa okkur upp þann tíma hvenær hann hyggist ljúka hér fundi. Ég er hingað kominn til að taka undir beiðni formanns þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, um að þingflokksformenn verði kallaðir saman á fund forseta til að fara yfir skipulag þessa þingfundar sem og starfa í nótt og næstu daga.

Það er ótrúlegt að þingflokksformenn hafi ekki komið saman síðan á mánudag. Ég held að það þurfi að leita einhverja áratugi aftur í tímann til að finna að á lokadögum þingsins hafi formenn þingflokka ekki hist dögum saman. Þvílíkt verklag. Það skýrir kannski af hverju hér bíða mál sem snerta almannahagsmuni á meðan við erum látin ræða eitthvert einkamálefni hæstv. forsætisráðherra. Hafi oddvitaræðið einhvern tíma verið skýrt er það í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum líka að fá hæstv. forsætisráðherra í salinn til að eiga orðastað við okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (KLM): Eins og forseti hefur sagt hyggst hann ganga aðeins á þennan mælendalista sem telur enn 11 hv. þingmenn og ítrekar að því fyrr sem við komumst í það getum við lokið þessum fundi. Forseti hyggst taka tvo ræðumenn í viðbót.)



[02:58]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að fara að lýsa því yfir að ég botnaði ekkert í skýringum hæstv. forseta á því hvernig halda ætti áfram hér með þingstörfin í kvöld. Mér þykir nokkur bragarbót hafa orðið á fundarstjórn forseta (BJJ: Glæsileg.) ef það stendur til að klára tvo ræðumenn áður en við ljúkum störfum hér í kvöld. Ég geri þá ráð fyrir að við munum ljúka störfum innan klukkutíma og menn komist þá til síns heima og geti hvílt sig. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa eftir nokkuð langan tíma loksins sagt okkur hvað hann hyggist fyrir með stjórn fundarins.



[02:59]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forseta fyrir að sýna ákveðna stjórnvisku þó að seint sé. Þegar hæstv. forseti fékk næði til að hugsa sitt ráð komst hann að niðurstöðu sem leysti pínulítinn hnút hérna og er það kannski forsmekkurinn að því sem síðar kann að koma ef sömu stjórnvisku er beitt í málinu í heild.

Ég ætla, hæstv. forseti, að biðjast afsökunar á orðum sem ég lét falla í ræðu upp úr hádegi í dag. Ég gekk fulllangt í því að segja að ég hefði borið fram fjölmargar spurningar en engin svör fengið. Ég vil taka það fram að nokkur atriði af þeim sem ég hef getið um hér í ræðum mínum hafa orðið tilefni til svara af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna og þá vil ég einkum nefna til sögunnar hv. þingmenn Álfheiði Ingadóttur og Valgerði Bjarnadóttur, sem hafa fylgst vel með umræðum og blandað sér í þær, reyndar ekki nú um nokkurt skeið en á fyrri stigum komu frá þeim svör við ákveðnum spurningum. Rétt er að geta þess sem vel er gert, þær svöruðu ákveðnum spurningum sem ég hef varpað fram í þessum umræðum og vil ég þakka fyrir það.

Ég vildi hins vegar nefna það aftur sem ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag, eða í gær raunar, að fyrir utan 2. gr. frumvarpsins, sem er sú grein sem mest hefur verið rætt um og hefur valdið hvað hörðustum deilum, eru fjölmörg önnur atriði í frumvarpinu sem krefjast nánari skoðunar. Ég rakti í síðustu ræðu minni 12 önnur atriði í frumvarpinu sem ég teldi að þyrftu nánari skoðunar við. Þar er bæði um að ræða efnisþætti sem ég tel að séu ýmist gallaðir eða þarfnist að minnsta kosti frekari skýringa áður en ákvæðin eru lögleidd. Ég vildi, vegna þess að ég er ekki viss um að ég hafi gert það áður í þessari umræðu, greina hæstv. forseta frá því að í ljósi þess mun ég, ljúki þessari 2. umr. einhvern tímann, óska eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. Þannig að þeirri ósk sé komið skýrt á framfæri.

Það er að mínu mati nauðsynlegt að taka þessi 12 atriði fyrir. Kannski hafa fleiri þingmenn efnisatriði þar um sem þeir vildu nefna og taka fyrir. Þetta eru atriði sem bæði eiga sér rót í upphaflegu frumvarpi og eins sem rekja má til breytingartillagna meiri hluta allsherjarnefndar. Ég get til upprifjunar nefnt þessar greinar. Ég næ náttúrlega ekki í stuttri ræðu að fara ofan í athugasemdir mínar við þær einstöku greinar en ég hef nefnt 2. mgr. 4. gr. sérstaklega, 6. gr., 7. gr., einkum þó breytingartillöguna um hljóðritun ríkisstjórnarfunda, 8. gr., þ.e. spurninguna um afskipti forsætisráðherra af málefnum einstakra ráðherra, 11. gr., þar sem ég hef ákveðnar áhyggjur af orðalagi, 12. gr., þar sem ég tel að óljóst sé hvað óbindandi álit á að þýða, 13. gr., sem varðar eftirlit með sjálfstæðum stjórnvöldum — og ég minni hv. þingmenn meðal annars á athugasemdir sem hafa komið fram frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hvað það varðar og 14. gr. tengist því — 18. gr., varðandi ráðningarmál og fyrirsvar við ráðningar þar sem ég tel að þurfi að skýra hlutina þó að ég geri ekki efnislegar athugasemdir við þá hugsun sem ég hygg að sé í breytingartillögu meiri hlutans en tel að gera þyrfti lagatextann skýrari. Nú síðan nefndi ég 20. gr. og 22. gr., sem hefur reyndar fengið nokkra umræðu síðan ég gerði athugasemd við hana en engu að síður þarf að skýra hana örlítið nánar, einkum þó að því leyti hver eigi að skera úr um hvernig skipa eigi aðstoðarmönnum á einstaka ráðherra því að það er ekki ljóst af breytingartillögum hv. meiri hluta allsherjarnefndar. Að lokum vildi ég nefna 25. gr. þar sem ég vildi aðeins velta því upp hvort þörf væri á að breyta orðalagi varðandi samhæfingarnefnd um siðferðisleg viðmið, sem hún heitir, og samráð við Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis sem þarf að undirstrika, eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, að eru sjálfstæðar stofnanir sem starfa á vegum Alþingis og heyra ekki með neinum hætti undir Stjórnarráðið eða einstök ráðuneyti.

Allt eru þetta atriði, hæstv. forseti, sem ég tel að þurfi að taka til nánari skoðunar til viðbótar við 2. gr., stóra ágreiningsmálið. Ég hygg að í mörgum tilvikum þurfi ekki endilega miklar umræður eða miklar breytingar til að ná saman um þessi ákvæði. En ég teldi hins vegar ótækt að málið næði fram að ganga og greinarnar yrðu samþykktar eins og þær liggja fyrir án þess að um frekari skýringar væri að ræða, án þess að orðalag væri skýrt og meiri hlutinn í allsherjarnefnd og meiri hluti þingsins gerði ljóst með skýrari hætti hvað verið er að fara með þeim breytingum sem lagðar eru til.

Hæstv. forseti. Fyrr í þessum umræðum beindi ég ákveðnum spurningum til hv. þm. Róberts Marshalls, framsögumanns og formanns allsherjarnefndar. Ég veit að ég get ekki knúið hann, og hæstv. forseti ekki heldur, til að svara þeim spurningum. Hann hefur lýst því yfir að hann muni gera það áður en yfir lýkur. En ég vil bara minna á að spurningum hefur verið beint til hv. þm. Róberts Marshalls og ég vonast til þess að hann sjái sér fært að svara þeim þegar lengra líður. Hann hefur fylgst vel með umræðunni og ábyggilega tekið niður þær spurningar sem til hans hefur verið beint og önnur þau sjónarmið sem hann telur sér skylt að svara. Ég bíð bara spenntur eftir að heyra svör hans við því, hvenær svo sem hann telur ástæðu til að koma inn í umræðuna með efnislegum hætti.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég geta þess að mér er kunnugt um að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu. Ég hef nefnt það fyrr í þessari umræðu að ég vildi beina ákveðnum spurningum til hennar. Nú þykist ég vita að hæstv. forsætisráðherra fylgist með umræðunni og ræðu minni og því ætla ég að láta spurninguna flakka þó að ég sjái hana ekki í augnablikinu. (Gripið fram í.) En ég held að það væri nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra útskýrði fyrir þingheimi hvaða áform hún hefur um að nýta sér þær heimildir sem embætti hennar eru færðar í frumvarpinu. Ég held það væri mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra sýndi spilin í þeim efnum. Einhverja áætlun hlýtur hún að hafa og það væri mjög óeðlilegt ef hún greindi ekki þinginu frá því, hafi hún slíka áætlun, þegar málið er til umræðu. Það væri verulega óeðlilegt ef forsætisráðherra hefði einhverja áætlun um að nýta heimildir sem í frumvarpinu felast en segði þinginu ekki frá því. Þó að ég ætlist ekki til að hæstv. forsætisráðherra hlaupi til og svari mér í hvelli árétta ég að það er nauðsynlegt að forsætisráðherra greini frá áformum sínum um nýtingu þeirra heimilda sem henni eru færðar í frumvarpinu áður en þessari umræðu lýkur.



[03:09]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók niður spurningarnar sem hv. þingmaður bar fram í ræðu sinni í dag og hyggst gera athugasemdir við þær. Ég geri ekki ráð fyrir að fólk hafi mikinn áhuga á að heyra þær akkúrat núna þannig að ég mun setja mig á mælendaskrá á morgun.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það verði ekki mikill vandi að ná saman um þær athugasemdir sem hann gerði í ræðu sinni í dag.

Varðandi síðasta atriðið, sem ég held að sé athugasemd við 25. gr., um samhæfingu Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis, þá er sú grein tekin beint upp úr lögum sem voru samþykkt vorið 2010, um siðareglur. Hún er orðrétt upp úr þeim lögum, ég man ekki númer hvað þau eru, og hv. þm. Birgir Ármannsson greiddi atkvæði með þeim breytingum, alla vega eftir því sem ég fletti upp í þingtíðindum.



[03:11]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði það að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur ekki tíma til að fara efnislega yfir alla þá þætti sem ég nefndi í ræðu minni í stuttu andsvari. Ég bíð bara spenntur eftir því að heyra það sem hún hefur fram að færa varðandi þessi atriði.

Það er alveg rétt að meðal þeirra atriða sem ég nefndi í upptalningu minni, meðal þessara 12 greina sem ég tel að þurfi nánari skoðunar við, fyrir utan 2. gr., eru sum atriði léttvæg, ef við getum orðað það svo, eða tæknileg atriði sem lítið mál á að vera að leysa en önnur atriði eru flóknari og kostar ef til vill meiri pólitíska vinnu að komast að niðurstöðu um. Þetta eru bæði stór atriði og smá en ég tel að þeim þurfi öllum að gefa gaum áður en málið verður afgreitt.

Ég verð að játa það, hæstv. forseti, að ég man ekki alveg hvernig ég greiddi atkvæði um þá breytingu á stjórnarráðslögunum sem afgreidd var hér. (VBj: Ekki stjórnarráðslögunum … siðareglur.) Það varð breyting á stjórnarráðslögunum þegar heimildin til að setja siðareglur var sett inn í þau, þá fylgdi það ákvæði með sem hv. þingmaður vitnar til. Ég ætla ekki að deila um það en auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur þegar við förum yfir þennan lagatexta og þetta frumvarp núna hvort orðalagið sé með öllu gott. Hafi ég tekið þátt í því að afgreiða þetta í einhverju ógáti á síðasta þingi þá lít ég svo á að við höfum tækifæri til að laga það núna.



[03:13]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að varðveita næturró hv. þingmanns og passa upp á að hann komist örugglega í háttinn og sofni vil ég fullvissa hann um að ég mun taka aftur til máls í umræðu um þetta mál á síðari stigum umræðunnar sem ég veit ekki hvort við erum komin á. Það er þess vegna sem ég hef ekki sett mig á mælendaskrá en það eru mörg atriði sem nefnd hafa verið sem ég vildi gjarnan koma betur inn á í ræðu minni. Ég ítreka og róa hv. þingmann hvað það varðar að ég hef í hyggju að taka aftur til máls í þessari umræðu.



[03:14]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var kannski ekki orðinn mjög órólegur út af þessu enda tel ég að við eigum töluvert eftir af þessari umræðu. Ég hafði ekki áhyggjur af því að umræðunni væri að ljúka akkúrat á þessari stundu. Ég vildi aðeins árétta það, fyrst ég fékk tækifæri til þess hér í ræðustól, að ég hefði beint ákveðnum spurningum til hv. þingmanns og eins hefðu komið fram ákveðin sjónarmið sem ég teldi að hann sem formaður nefndarinnar þyrfti að svara.

Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður hyggst taka til máls í þessari umræðu aftur og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, væntanlega gagnrökum gagnvart fjölmörgum röksemdum stjórnarandstæðinga sem hér hafa komið fram. Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann á þeim forsendum og vonast til að hann fari efnislega yfir þá þætti sem athugasemdir hafa verið gerðar við. Er ég þá ekki bara að hugsa um þær ræður sem ég hef flutt í þessu máli heldur til dæmis líka prýðilega ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í kvöld sem var afar málefnaleg, rökföst og skipti, eins og aðrir þingmenn hafa bent á, verulegu máli í þessari umræðu.



[03:15]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um það að jafnvel kemur til greina í mínum huga að fara í atkvæðaskýringu þegar og ef þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu. Þá mun ég gera grein fyrir skoðunum mínum á einstökum atriðum málsins.



[03:16]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þakkarvert ef hv. þingmaður ætlar að fara í atkvæðaskýringu og gera á einni mínútu grein fyrir afstöðu sinni til einstakra þátta. Þó að ég geti að sjálfsögðu ekki gefið hv. þm. Róberti Marshall nokkur fyrirmæli um það hvernig hann á að haga afskiptum sínum af þessari umræðu vildi ég engu að síður koma á framfæri þeirri ósk til hans, sem formanns nefndarinnar og framsögumanns meirihlutaálits, að hann gefi sér kannski ívið meiri tíma en gefst í atkvæðaskýringum til að koma rökstuðningi sínum á framfæri og hugsanlega til þess að útskýra einstaka þætti málsins sem valdið hafa töluverðum umræðum í þingsal.



[03:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á mörg þau atriði sem ég gat um í fyrri ræðu minni í gærkvöldi og er ekki enn búið að svara. Stefna hv. þm. Róberts Marshalls, sem er framsögumaður meirihlutaálits, er lítilsvirðing við Alþingi. Hann ætlar að svara öllum þessum spurningum og öllum þessum sjónarmiðum í atkvæðaskýringu. Það er algjör lítilsvirðing. Og það að hæstv. forsætisráðherra, sem flytur málið, skuli ekki láta svo lítið að koma hingað og svara þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram. Mér finnst þetta vera lítilsvirðing.

Ég spyr hv. þingmann sem kom nefnilega inn á mjög mikilvægt atriði: Hvernig verður þessum lögum beitt þegar búið er að samþykkja þau? Hvað gerist þá? Það hefur ekkert verið rætt. Ekki hefur hv. framsögumaður sagt mér hvað gerist þegar búið er að samþykkja þetta sem lög. Það hefur enginn sagt mér það. Ekki hefur hæstv. forsætisráðherra komið hingað eða hæstv. innanríkisráðherra sem er á móti málinu og ekki heldur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann hefur ekki sagt mér hvað gerist þegar búið er að samþykkja frumvarpið og hvernig lögunum verði beitt.

Það er verið að fara á bak við Alþingi. Ég vil fá að vita hvað gerist með þetta frumvarp þegar búið er að samþykkja það. Ég skora á hv. þm. Birgi Ármannsson að krefjast þess með mér að framsögumaður meiri hlutans svari þessum spurningum og að hæstv. forsætisráðherra, innanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra segi okkur hvað verður gert. Heimildirnar eru botnlausar og það stendur til að gera eitthvað, annars gæti málið beðið fram í október.



[03:19]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég ekki að svara fyrir hv. formann allsherjarnefndar eða þá hæstv. ráðherra sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Ég er sammála honum um að það er mikilvægt að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geri grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir umræðuna. Ég tel að það væri gagn af því að það gerðist sem fyrst í þessari umræðu. Hugsanlega væri það til þess fallið að (Gripið fram í.) stytta umræðuna ef góðar skýringar kæmu fram af hálfu þessara hv. þingmanna og hæstv. ráðherra. Það gæti hjálpað til við afgreiðslu málsins.

Hver beiting þeirra ákvæða sem ætlunin er að setja í stjórnarráðslög verður, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, er lykilspurning. Hv. þingmaður heyrði til mín í ræðu minni áðan þegar ég sagði að ég teldi gríðarlega mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra greindi frá því hvaða áform hún hefði um beitingu þeirra heimilda til breytinga á Stjórnarráðinu sem frumvarpið felur í sér. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um það að einhver áætlun, einhver áform, hljóti að vera fyrir hendi hjá hæstv. forsætisráðherra og þeim hv. þingmönnum sem styðja hana í þessu máli. Einhver áætlun hlýtur að vera fyrir hendi, annars væri ekki þessi asi í sambandi við afgreiðslu málsins. Það er engin rökleg skýring á því að við séum að keppast við að klára þetta mál á örfáum dögum í tímahraki (Forseti hringir.) ef það eru engin áform uppi um að nýta þær heimildir sem felast í frumvarpinu.



[03:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að ætla að berjast með mér í því að reyna að fá þessar upplýsingar fram, kreista út úr hæstv. forsætisráðherra hvað hún hyggst fyrir þegar búið verður að samþykkja frumvarpið. Stjórnarmeirihlutinn þarf líka að vita það því að ég efast um að hann hafi spáð í hvað kemur út úr þessu. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta stjórnarþingmann svara því hvað gerist þegar forsætisráðherra fær slíkt alræðisvald, núverandi forsætisráðherra og ráðherrar framtíðarinnar sem geta verið allt annarrar gerðar.

Það er verið að gefa þarna gífurlegt vald. Það getur til dæmis bara verið eitt ráðuneyti, það er ekkert sem útilokar það, eða tvö, annað fyrir hæstv. fjármálaráðherra og hitt fyrir hæstv. forsætisráðherra. Þannig gæti ríkisstjórnin litið út í framtíðinni. Ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á því og hvernig flokksræðið og foringjaræðið verður algert.



[03:22]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að hnykkja aðeins á því að einhver áætlun hljóti að vera fyrir hendi þá er auðvitað svo. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu eru engar dagsetningar innbyggðar í frumvarpið sem gera kröfu til þess að það sé afgreitt í september frekar en í október eða nóvember, svo að dæmi sé tekið. Það eru engar dagsetningar í þessu frumvarpi. Mér er ekki kunnugt um að það séu neinar ytri aðstæður, aðstæður í þjóðfélaginu eða neitt slíkt, sem gera kröfu til þess að þetta sé afgreitt á morgun eða hinn frekar en um miðjan október eða í byrjun nóvember, ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ástæðuna fyrir þeim asa sem er á afgreiðslu málsins á þessum lokaspretti haustþings hlýtur að mega rekja til þess að einhver áætlun sé fyrir hendi, einhver áform um breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar á ráðuneytum, tilflutning verkefna eða eitthvað slíkt. Það er eitthvað svoleiðis held ég hljóti að vera. (Forseti hringir.) Og það væri, eins og hv. þingmaður segir, ekki heiðarlegt ef þingið yrði leynt því hver þau áform eru.



[03:24]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég og fleiri þingmenn bentum hæstv. forseta á fyrr í kvöld skiptir máli að umræðan hér verði til gagns. Til að svo geti orðið verða þeir sem að málinu öllu standa og leggja slíka ofuráherslu á að knýja það í gegn, að vera til staðar til þess að hlýða á umræðuna, þær ábendingar sem þar koma fram og þær viðvaranir sem menn reifa.

Ef hæstv. forsætisráðherra tekur ekki þátt í umræðunni, hlustar ekki einu sinni á hana, hver er þá tilgangurinn með því að koma slíkum ábendingum á framfæri? Það hlýtur að vekja upp spurningar í huga hæstv. forseta um hvort ekki skapist hætta á því að menn neyðist til þess að endurflytja sömu ræðurnar til að reyna að koma þeim til hæstv. forsætisráðherra í þeirri von að hún átti sig á göllum eigin frumvarps og geti þá gert á því lagfæringar.

Jafnframt er ástæða til að taka undir þær vangaveltur og áhyggjur sem birtust í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og andsvörum hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan. Menn hljóta að spyrja sig að því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra leggi slíkt ofurkapp á að koma þessu máli í gegn akkúrat núna þegar það væri allt eins gott að taka málið fyrir í október eða nóvember, hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er tilbúinn til að taka tugi annarra mála, sín eigin mál, í gíslingu til að knýja á um að þetta mál komist í gegn. Ekki er hægt að álykta annað en að hæstv. forsætisráðherra ætli sér sem allra fyrst að beita því mikla valdi sem hæstv. forsætisráðherra vill tryggja sér með frumvarpinu, ætli að beita því mjög fljótlega og væntanlega með afgerandi hætti, miðað við hversu mikil áhersla er lögð á að knýja það strax í gegn.

Þetta eru spurningar sem við hljótum að velta fyrir okkur en eftir umræður kvöldsins hljótum við umfram allt að velta fyrir okkur ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Með henni féll í rauninni svo að segja allur málflutningur stjórnarliða og þeirra sem að frumvarpinu hafa staðið og hafa haldið því fram að tilgangur þess og tilurð byggðist á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vinnu þingmannanefndarinnar. En hér kom sjálfur formaður þingmannanefndarinnar og útskýrði að þessu væri í rauninni þveröfugt farið, að með frumvarpinu væri gengið gegn því sem menn ætluðu sér með vinnu rannsóknarnefndarinnar og úrvinnslu þingmannanefndarinnar.

Þetta eru stórar spurningar til að velta fyrir sér og líklega gefst ekki mjög langur tími til að velta þeim fyrir sér því farið er að styttast í að umræður hefjist að nýju. Ég hvet því þingmenn til að nota tímann áður en þeir leggjast til svefns í kvöld og hugleiða þessar spurningar svo að þeir verði tilbúnir til að taka þátt í umræðunni á morgun.



[03:27]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að bera upp spurningu til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, vegna þessarar mjög óvæntu stuttu ræðu hans, hvernig hann sjái fyrir sér afgreiðslu á tillögum þingmanna Framsóknarflokksins, sem eru lausnamiðaðar eins og þeir hafa orðað það og lagðar hafa verið fram til að reyna að ná lendingu í málinu og leysa það. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að restin af þingflokki Framsóknarflokksins muni … (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur Blöndal vill kannski orða spurningarnar fyrir mig og fær tækifæri til þess í andsvari hér á eftir. Hvernig sér hann fyrir sér að þingflokkurinn muni afgreiða það mál, hver verður afstaða þingmannanna til þessara tillagna?

Því verður ekki haldið fram að mikið foringjaræði sé í þingflokki Framsóknarflokksins, mér finnst reyndar ekki vera nokkurt foringjaræði þar, ef marka má tíðindin af vettvangi dagsins í þinginu. Þess vegna leikur mér hugur á að fá að vita hvernig þingflokkurinn muni afgreiða þetta mál og hvort hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjái fyrir sér frekari tíðindi af vettvangi Framsóknarflokksins, fleiri þingmenn muni yfirgefa flokkinn í kjölfar afgreiðslu flokksins á tillögunum.



[03:29]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið því að hv. þingmaður hefur á undanförnum dögum, sérstaklega kvöldum, fengið hjá okkur viðurnefnið skylmingaþrællinn, hann hefur verið hér á vaktinni og komið með athugasemdir sem stundum hafa virkað svolítið eins og þær væru til þess ætlaðar að koma illu til leiðar, einhverjum leiðindum.

En hér kemur hv. þingmaður í kjölfar umræðu um hættuna sem fylgi foringjaræði og gefur okkur framsóknarmönnum í raun heilbrigðisvottorð hvað það varðar. Ég þakka fyrir það. Hvað varðar spurninguna um afstöðu þingmanna flokksins hefur sú afstaða birst mjög skýrt í ræðum að undanförnu (Gripið fram í.) og ég geri ráð fyrir því að menn muni greiða atkvæði í samræmi við það.



[03:30]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar hv. þingmanns rímar mjög illa við þá kröfu sem er mjög hávær í þingsölum um skýr svör í umræðu um málið. Þetta var afskaplega óskýrt svar. (Gripið fram í: Þetta var óskýr spurning.) Hver er afstaða þingflokks Framsóknarflokksins til þeirra lausnamiðuðu tillagna sem lagðar hafa verið fram, m.a. af tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins? Er það dónaskapur eða einhver skylmingaþrælamennska að krefja menn svara við þeirri spurningu? Hefur annað eins ekki verið gert af hálfu stjórnarandstöðunnar og þingmanna Framsóknarflokksins í garð ríkisstjórnarinnar? Getum við ekki gert þá kröfu, eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar gera til ríkisstjórnarflokkanna, að forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna svari spurningum? Aktar Framsóknarflokkurinn á þingi eins og einn flokkur eða eins og sundruð hjörð? Þetta er afskaplega einföld spurning, (Gripið fram í.) mér leikur hugur á að fá að vita svarið við henni. (Gripið fram í.) Ég mundi gjarnan vilja … Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, eru þetta viðkvæmar spurningar sem hér eru bornar fram? (Gripið fram í: Ég heyri bara illa.) Þú situr nógu nálægt til að geta heyrt það sem ég ber hér fram. (Gripið fram í: Þetta er mjög óskýrt.) Ég vona að þú leggir við hlustirnar þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svarar þessum spurningum. (Gripið fram í.)



[03:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki verður annað sagt en að við hv. þingmenn höfum fyrr í kvöld varað hæstv. forseta við þeirri hættu sem fylgir því að láta þingfund standa langt fram á nótt. Menn verða þreyttir og hálfdofnir eins og birtist í andsvari hv. þm. Róberts Marshalls. Ég var búinn að gera honum grein fyrir því, eins og hann mátti reyndar segja sér sjálfur, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins væru búnir að koma upp í ræður, sumir hverjir nokkrum sinnum, og ótal andsvör og gera grein fyrir afstöðu sinni. Samt þarf hann að biðja mig aftur um að útskýra fyrir sér afstöðu þessara þingmanna. Þetta hefur allt komið fram í umræðum og ég var reyndar búinn að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni í fyrra andsvari mínu. Þetta er, virðulegur forseti, hættan sem fylgir því að halda svona á skipulagi þingsins og láta menn vaka langt fram á nótt, svoleiðis að þeir verða dofnir og geta ekki með góðu móti tekið þátt í umræðum.



[03:33]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins gerir athugasemd við það að ég fari í andsvar við ræðu hv. formanns Framsóknarflokksins, fell ég frá orðinu.



[03:34]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta er nú óháð þeim orðaskiptum sem áttu sér stað áðan milli hv. formanns Framsóknarflokksins og hv. formanns allsherjarnefndar en varðar þó svör við spurningum.

Ég vil bara árétta það, hæstv. forseti, að hafi hæstv. forsætisráðherra ekki orðið var við að ég beindi fyrirspurnum til hennar í ræðu minni óska ég eftir að skilaboðum þar að lútandi verði komið til hæstv. forsætisráðherra. Eins og hæstv. forseti hefur tekið eftir hef ég ekki gert neinar sérstakar kröfur um að hæstv. forsætisráðherra kæmi í salinn, hlustaði á mál mitt eða svaraði jafnóðum. En ég árétta það að ég tel mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra svari þeim spurningum áður en umræðunni lýkur. Hafi það af einhverjum ástæðum farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að þeim spurningum var beint til hennar óska ég eftir því að henni verði gert viðvart um það.



[03:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við hvernig forseti stýrir fundi núna. Ég vil hins vegar segja að ég geri ekki athugasemd við það að hv. þm. Björn Valur Gíslason fari í andsvar við formann Framsóknarflokksins. (BVG: Þú gerðir það víst.) En hins vegar kom sú beiðni eftir að ræðunni lauk. (BVG: Nei.) (RM: … stýra fundinum.) Það er það sem ég er að gera athugasemdir við. — Hv. þm. Róbert Marshall stýrir ekki fundi.

Ég vil segja það við hæstv. forseta …

(Forseti (KLM): Forseti vill taka fram að hann mat það þannig að tvær beiðnir væru komnar fram um andsvar áður en ræðunni lauk.)

Ég geri athugasemd við fundarstjórn forseta. Það kom fram beiðni um andsvar eftir að ræðu lauk og ég óska eftir því að forseti boði til fundar á morgun með þingflokksformönnum þar sem farið verði yfir upptöku af þessum fundi þar sem kom glögglega fram að forseti er ekki að fara að þingsköpum og það er mjög alvarlegt mál.



[03:36]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þeim skemmtilega dagskrárlið á þinginu sem heitir um fundarstjórn forseta, sem er þó skemmtilegri en margar ræðurnar sem hér eru haldnar. Ég hef ekki farið í mörg andsvör, þó einhver, í þeirri umræðu á þeim dögum sem hún hefur staðið. Ég taldi mig hafa beðið um að fá að fara í andsvar við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson með samþykki forseta.

Mér kom það verulega á óvart að þingflokksformaður Framsóknarflokksins skyldi reyna að hafa áhrif og hafði áhrif á störf þingsins með því að efast um réttmæti þess að ég gæti farið í þá umræðu. Það finnst mér ekki góður bragur á af hálfu þingflokksformanns Framsóknarflokksins, að hann skyldi reyna að hefta eðlilega umræðu um það mál sem verið er að ræða um, fyrst að kvarta yfir því að fundur standi lengi, síðan að óska eftir því að málið verði rætt til þrautar og síðar að kvarta yfir því að þingmenn fari í andsvör við formann flokksins. Þetta er algerlega fáheyrt, virðulegi forseti, og þingflokksformanni til skammar.



[03:38]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta sekúnduspursmál sem hér er til umræðu. Ég ætla hins vegar að gera athugasemd við það að við hv. stjórnarandstæðingar erum vændir um málþóf. Við komum hingað og spyrjum spurninga, við komum hingað og gerum athugasemdir, við komum hingað og gerum athugasemdir við breytingartillögur frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar en við fáum engin svör. Það er spurt aftur og aftur vegna þess að við fáum ekki svör.

Svo kemur hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, og spyr Framsóknarflokkinn um einhverjar deilur innan þess flokks sem koma málinu ekkert við, í stað þess að svara öllum þeim sjónarmiðum og spurningum sem hér hafa komið upp í allri þessari umræðu. (Gripið fram í.) Það hefur ekki komið eitt einasta orð sem svar við því og umræðan tefst og tefst.



[03:39]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér hefur gerst sá fáheyrði atburður að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson neitar að taka við andsvörum frá þingmönnum eftir ræðu sína (Gripið fram í: Hefur hann neitað því?) Hann segir við hæstv. forseta að beiðni um að koma í andsvar hafi borist of seint (SDG: Allt of seint.) og tekur einhvern veginn að sér stjórn fundarins af forseta eða gerir tilraun til þess, og þingflokksformaðurinn varnar þingmönnum því að fara í andsvör við hv. formann Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: … sem þingflokksformaðurinn …) Þetta er svo undarleg leiksýning sem frekast getur orðið. Ég verð að taka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að greinilegt er að það er viðsjárvert að láta fund standa svona lengi. Menn verða vissulega dofnir í hausnum.



[03:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í dag hafa þingmenn stjórnarflokkanna komið fram með orð eins og að stjórnarandstöðuþingmenn séu í raun vitgrannir, eins og einn hv. þingmaður kom fram með í ræðu. Annar sagði að einhver væri geðklofa og síðan var forsetinn kallaður ræfill. (BVG: Það er rangt.) Ég held að forseti þingsins ætti að skoða vandlega hvernig stjórnarflokkarnir haga málflutningi sínum. Ég vil þó segja eitt að ég hef að sjálfsögðu sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins ekkert um það að segja hvaða þingmenn koma hér upp og fara í andsvör. Það er ekki valdsvið þingflokksformanns Framsóknarflokksins að banna hv. þm. Birni Val Gíslasyni að fara í andsvar.

Ég geri hins vegar alvarlega athugasemd við fundarstjórn forseta því að að mínu viti var ræðu þingmannsins klárlega lokið þegar beiðni um andsvar kom. Eftir því sem ég best veit eru (Forseti hringir.) þingsköp þannig að andsvarsbeiðni skuli koma fram áður en ræðu er lokið. Það hefur ekkert með það að gera að hv. þingmaður megi tala eða tala ekki. (Forseti hringir.) En forseti brást að mínu viti hlutverki sínu og það þarf að fá á hreint.



[03:41]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti vill taka skýrt fram að hann hefði ekkert haft á móti því þó að umræðu væri lokið. Mitt mat var það að þessar beiðnir hafi verið komnar fram áður en ræðunni lauk og má taka undir það, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi áðan, að það sé eitthvert sekúndustríð.



[03:42]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Að samþykktu þessu frumvarpi vil ég fá að vita hvað gerist. Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra sem flutti þetta frumvarp hefur ekki tekið þátt í umræðunni í dag, í gær reyndar, vil ég, herra forseti, koma þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort hún hyggist beita þessu frumvarpi og þá hvernig þegar það er orðið að lögum. Hvernig hyggst hæstv. forsætisráðherra beita þessu frumvarpi?

Þá vil ég að þeirri spurningu verði komið til hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hvort hann telji að eftir samþykkt frumvarpsins verði embætti hans lagt niður og einhverjir aðrir semji um aðild að Evrópusambandinu.

Síðan er ein spurning til hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, um hvort hann styðji frumvarpið yfirleitt.

Ég óska eftir að herra forseti komi þessum spurningum áleiðis vegna þess að umræðan á sér ekki stað.



[03:43]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Svo það komi fram spurði ég hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Framsóknarflokksins, áður en ég fór í andsvar hvort hann gerði athugasemd við að ég færi í andsvar. Hann kvað já við, hann gerði athugasemd við það, svo því sé haldið til haga. Ég ætla að vona að hv. þingmaður gangist því. Það finnst mér mjög aumt, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður kemur síðan í ræðustól og vill fá að rannsaka hljóðupptökur af fundinum til að athuga hvort beðið hafi verið um andsvar sekúndunni áður en formaður flokksins náði að hlaupa úr ræðustólnum, til að reyna að forðast andsvör skiljanlega, eða ekki. Og ég spyr: Á að setja í þetta sérstaka nefnd? Hvernig fer slík rannsókn fram?

Virðulegi forseti. Ég held að það sé langt síðan þingmenn hafi lagst jafn lágt í þingsal í ræðum sínum og málflutningi og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði fyrir hönd þess hluta Framsóknarflokksins sem er í kringum hann í það minnsta, virðulegi forseti.



[03:44]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef gert ítrekað athugasemdir við fundarstjórn forseta í kvöld og bent á að ekki sé gáfulegt að taka þátt í umræðu á þessum tíma án þess að hafa hugmynd um til hvers hún sé, hvenær hún muni enda og annað.

Hér hafa menn látið þvílík orð sér um munn fara í dag að reginhneyksli er. (ÁI: Það er rétt.) Og þegar einn hv. þingmaður kemur hingað upp og talar um lágkúru, þá veit ég svo sem ekki annað en að skynsamlegast væri að vísa því beint til föðurhúsanna. (BVG: Heyrirðu það, Gunnar?) Hérna á ég við hv. þm. Björn Val Gíslason, svo ekki sé vafi á því, og eins hv. þm. Mörð Árnason líka.

Varðandi hljóðupptökur veit ég ekki betur en að meiri hluti allsherjarnefndar leggi það til að hljóðupptökur séu af ríkisstjórnarfundum. Þær á reyndar ekki að birta fyrr en eftir 30 ár, en þær eru til að upplýsa (Forseti hringir.) hvað gerist. En hér er lagt til að hljóðupptaka verði nýtt til að lýsa upp mál einn, tveir og þrír til að skýra hvort farið sé að þingsköpum eður ei. Herra forseti, (Forseti hringir.) ég held að skynsamlegast sé að slíta þessum fundi.