139. löggjafarþing — 164. fundur
 15. september 2011.
Heilsustofnunin í Hveragerði.

[11:01]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kem upp í þessum fyrirspurnatíma til að eiga orðastað við hæstv. velferðarráðherra um málefni Heilsustofnunarinnar í Hveragerði. Málefni hennar hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga vegna þess að þar hefur verið tekin ákvörðun um að segja upp öllum starfsmönnum stofnunarinnar frá og með næstu áramótum vegna þess að þjónustusamningur við ríkið rennur út um áramót og að engar raunverulegar viðræður séu í gangi við ráðuneytið um áframhaldandi samning.

Mér finnst mjög miður að heyra þetta. Ég tel að á þeirri stofnun sé rekin mjög góð og mikilvæg heilbrigðisþjónusta, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta. Þarna er um að ræða starfsemi sem heldur fólki fyrir utan bráðastofnanir með endurhæfingu og forvörnum, starfsemi sem er óumræðilega að spara heilbrigðiskerfinu verulega fjármuni að þessu leyti.

Í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að 4. júlí sl. hafi ráðherra fundað með forsvarsmönnum Heilsustofnunarinnar og gert grein fyrir afstöðu sinni. Einnig kemur fram af hálfu ráðuneytisins að það hafi komið á óvart að stofnunin telji nauðsynlegt að grípa til hópuppsagna við þær aðstæður sem nú eru. En mér finnst skiljanlegt að stofnunin, sem ekki hefur samning eftir áramótin og ef rétt er að engar viðræður séu í gangi, telji sig knúna til að grípa til slíkra varúðarráðstafana.

Ég vil því spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort ráðherrann geti upplýst um hvaða fundi hann hefur átt og hvenær hann fundaði síðast með Heilsustofnuninni. Hvort hann geti veitt fyrirheit um að ekki standi annað til en að endurnýja þjónustusamning við Heilsustofnunina og hvort hann geti ekki veitt fyrirheit um að hin mikilvæga heilbrigðisstarfsemi verði tryggð sem og starfsöryggi starfsmanna.



[11:03]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að málefni Heilsustofnunarinnar í Hveragerði hafa verið töluvert í brennidepli í fjölmiðlum. Einhverra hluta vegna er það þannig með einstakar stofnanir sem eru sjálfseignarstofnanir og eru reknar sjálfstætt, að það vill gjarnan fara í fjölmiðla þegar eitthvað bjátar á og það virðist þurfa koma fyrst og fremst fram þar.

Málið er að stofnunin hefur verið rædd á undanförnum árum í sambandi við fjárlagagerðina og þar hefur þurft að taka á málum alveg eins og annars staðar í heilbrigðiskerfinu í sambandi við hagræðingu. Heilsustofnunin hefur gert það með myndarbrag og staðið við skuldbindingar sínar þar. Samningurinn við stofnunina rennur út um áramót og þess vegna hefur verið umræða um með hvaða hætti framlengja eigi þann samning. Það hefur verið rætt ítrekað í ráðuneytinu, tvisvar eða þrisvar sinnum af mér en síðast 4. júlí eins og kom fram hjá hv. málshefjanda. Þar var á fundi sem var að frumkvæði þingmanna óskað eftir því að ráðuneytið gæfi einhverjar yfirlýsingar eða skoðað yrði hvernig ætti að taka á málefnum stofnunarinnar. Þar sagði ég mjög skýrt að engin áform væru um að breyta samningum við Heilsustofnunina í Hveragerði og að ganga ætti til samninga við hana. Við mundum hugsanlega fara þar með einhverjar skýrari línur um í hverju verkefnið væri falið, þ.e. hvaða verkefni stofnunin hefði innan kerfisins. Þær forsendur mundum við vinna og ég gaf þá yfirlýsingu líka að stofnunin mætti ekki eiga von á neinni annarri meðferð en aðrar heilbrigðisstofnanir, þ.e. lækkun um 2–3% sem talað hefur verið um.

Þetta hefur alveg legið fyrir. Þess vegna kom mér það mjög á óvart að menn skulu vera að fara í uppsagnir á starfsfólki því það er ekkert í pípunum annað en að þessi stofnun verði starfandi áfram. Mér finnst það ekki sæmandi að beita uppsögnum með þessum hætti til að pressa á samninga. Þetta verður auðvitað að hafa sitt ferli. Búið er að vinna þessi gögn núna um hvernig eigi að fara í samningana. Það eru Sjúkratryggingar Íslands sem vinna samningagerðina við Náttúrulækningafélagið en ekki ráðherra.



[11:05]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu ráðherrans en ég vil að gefnu tilefni — vegna þess að í umræðunni hefur nokkuð verið talað um það hvort hér sé raunveruleg heilbrigðisstarfsemi á ferðinni, ég hef séð það í ýmsum frásögnum og fréttum — spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þar sé heilbrigðisþjónusta veitt. Ég þekki starfsemina að því að þar er lögð áhersla á endurhæfingu eftir sjúkdómsmeðferðir, stuðning vegna andlegra veikinda, öldrunarmeðferð og almenna heilsueflingu og forvarnir. Það er í mínum huga skýr heilbrigðisstarfsemi. Ég vil fá staðfestingu frá hæstv. ráðherra um að hann sé sama sinnis og jafnframt hvetja hann til að vinda bráðan bug að því að eyða allri óvissu um þá starfsemi því að hópuppsagnir starfsmanna byggjast á því að samningar eru ekki fyrir hendi. Það er bersýnilegt að forsvarsmenn þeirrar stofnunar sjá það ekki alveg gerast á næstunni að slíkir samningar náist og þess vegna eru þeir að grípa til þessara varúðarráðstafana.

Ég heiti á hæstv. velferðarráðherra að taka af allan vafa í þessu efni.



[11:07]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Heilsustofnunin í Hveragerði hefur verið skilgreind sem heilbrigðisstofnun og er það í fjárlögum og nýtur stuðnings sem slík. Þar er að vísu rekin borgandi starfsemi líka, þ.e. starfsemi þar sem aðilar borga þjónustuna að fullu. Hún hefur verið notuð sem hvíldarúrræði og hefur ekki verið flokkuð sem heilbrigðisþáttur. Það er auðvitað hluti af samningagerðinni að við erum að kaupa þá þjónustu sem snýr að heilbrigðiskerfinu og þá þjónustu sem snýr að endurhæfingu, taka við sjúklingum sem hafa verið í aðgerðum á Landspítala o.s.frv. og það er hluti af því sem þarf að fara fram í viðræðunum við viðkomandi aðila.

Aftur á móti væri það undarlegt ef ég sem ráðherra gæfi út fyrir fram að það muni verða gengið frá samningum. Það er jafnfáránlegt að viðkomandi aðilar sem hafa fengið yfirlýsingu ráðherra beint í votta viðurvist skuli gefa sér að ólíklegt sé að samningar náist. Hvaða stofnun á Íslandi hefur verið sett út á klakann fyrirvaralaust með breytingum? Það hefur bara aldrei gerst og það stendur ekki til. Því þarf ekki að beita uppsögnum varðandi þetta mál og það kemur mér mjög á óvart og ég harma það. En þessi stofnun mun lifa áfram og við munum ná samningum en það er auðvitað ekki alveg óháð því hvaða kröfur menn gera.