139. löggjafarþing — 164. fundur
 15. september 2011.
umræður utan dagskrár.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[11:58]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða utan dagskrár mál sem hefur verið nokkuð í umræðunni en það hefur ekki hjálpað umræðunni að sama leyndarhyggjan virðist vera yfir þessu máli og mörgum öðrum sem tengjast þessari ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra. Þess vegna er fyrsta spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra sú hvenær hann ætli að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra á viðskiptanefndarfundi 17. ágúst sl., fyrir mánuði. Hæstv. ráðherra kom á fund nefndarinnar, gat ekki svarað þeim spurningum sem þar voru bornar upp þannig að hv. viðskiptanefnd sendi hæstv. ráðherra spurningarnar og nú, mánuði seinna, erum við ekki enn búin að fá svör við spurningunum.

Ég er síðan með fjórar aðrar spurningar sem ég sendi hæstv. ráðherra á þriðjudagskvöldið. Ég ætla ekki að lesa þær upp vegna þess að ég hef þær ekki, þær eru á borðinu mínu en í örstuttu máli ganga þær út á það hvað varð um það eigið fé sem var í ársreikningum beggja þessara sparisjóða árið 2008, ársreikningum sem enginn hefur vefengt. Ég vek athygli á því að gengið var frá þeim ársreikningum í lok mars 2009. Þá átti að vera búið að taka tillit til afleiðinga hrunsins, falls krónunnar o.s.frv.

Á sama hátt, virðulegi forseti, er spurt sérstaklega um eiginfjárhlutfallið, af hverju sjóðirnir hafi starfað án þess að uppfylla lögbundið hlutfall um eiginfjárstöðu. Það var bæði þegar gömlu bankarnir störfuðu og líka þeir nýju.

Síðan er hin einfalda spurning hvernig það gat skeð að tíu mánuðum eftir að nýju bankarnir voru settir á laggirnar voru þeir komnir í þrot. Þetta er ekki lítið mál. Til að skoða einhverjar tölur í þessu samhengi telur Viðskiptablaðið að eignir Byrs sparisjóðs hafi rýrnað um 113 milljarða á tveimur árum. Þrátt fyrir að við höfum samþykkt hér lög um Bankasýslu sem er stofnun sem á að halda utan um eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefur það komið afdráttarlaust fram að það var fjármálaráðuneytið sem gerði það í þessu tilviki, höldum því til haga, og þess vegna er engum vafa undirorpið hver ber ábyrgð í því máli.

Nú gæti einhver spurt: Skiptir þetta einhverju máli? Skiptir einhverju máli að menn uppfylli ekki skilyrði um eiginfjárhlutfall, svo dæmi sé tekið? Menn setja reglur sem þessar til að vernda viðskiptavini bankanna. Frá því að menn fóru í þessa vegferð eftir hrun eru þessir sparisjóðir búnir að starfa núna í samkeppni við önnur fyrirtæki, samkeppni um að taka á móti innlánum og öðru slíku, við stofnanir sem þurftu ekki bara að vera með eiginfjárhlutfall upp á 8% eins og lög gera ráð fyrir, og þar af leiðandi hærra eiginfjárhlutfall en þessar stofnanir, heldur 16% en krafa um það hlutfall var gerð af Fjármálaeftirlitinu til þeirra stofnana sem höfðu fengið fyrirgreiðslu.

Allt bendir til þess, virðulegi forseti, að út af því hvernig á málum var haldið hafi orðið hér mikil eignarýrnun og menn hafi ekki getað nýtt þá stöðu sem var uppi með þeim hætti að hér væri hægt að hámarka vernd á eignum sem voru inni í þessum sparisjóðum. Þar af leiðandi verður reikningurinn sendur á skattgreiðendur í mun meira mæli en ástæða var til.

Stóra einstaka málið er þetta: Hvenær fáum við að vita hvað gerðist? Og af hverju leyfir hæstv. fjármálaráðherra sér að svara ekki mánaðargömlum spurningum frá hv. (Forseti hringir.) viðskiptanefnd?



[12:03]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði að reyna að halda mig við að ræða þetta mál málefnalega þrátt fyrir heldur leirkennt upplegg af hálfu hv. fyrirspyrjanda. (Gripið fram í.) Svarið við fyrstu spurningunni er að innan fárra daga verða tilbúin þessi svör við einum 16 spurningum hv. þingmanns sem lögð voru fram í gegnum þingnefnd. Ástæðan fyrir því að það hefur tekið nokkurn tíma að vinna svörin er að í vissum tilvikum þarf að sannreyna upplýsingar eða bera þær undir aðila utan ráðuneytisins og það hefur tekið tímann sinn. Að öðru leyti koma svör mín fram í því sem hér fer á eftir.

Þegar starfsemi Sparisjóðsins Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur komst í þrot varð niðurstaðan og talið rétt að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur í formi sparisjóðs, en um Byr var stofnaður viðskiptabanki, þ.e. hlutafélag. Rökin voru aðallega þau hvað varðar SpKef að það var eini stóri sparisjóðurinn á svæði sem spannaði stóran hluta landsins og var viðskiptabanki atvinnustarfseminnar og almennings. Umsvif hans voru langmest af þeim sparisjóðum sem eftir voru starfandi og vonir stóðu til að hann hefði burði til að vera kjölfesta í endurreistu sparisjóðakerfi.

Í tilviki Byrs var hins vegar talið að það yrði einfaldara að vinna úr málinu með því að hafa hann í hlutafélagaformi og það yki líkurnar á því að aðrir aðilar en ríkið fengjust til samstarfs um að endurfjármagna starfsemina.

Sparisjóður Keflavíkur var stofnaður af fjármálaráðuneytinu 22. apríl 2010 samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 125/2008, um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Hann var stofnaður, eins og áður hefur verið gert í hliðstæðum tilvikum, til þess að taka við eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðs Keflavíkur og samkvæmt ákvörðun FME þar um. Því voru eignir hans og innstæður færðar yfir í SpKef. Fjármálaráðuneytið lagði fram þann eignarhlut og hófst síðan ferli sem miðaði að fjárhagslegri endurskipulagningu hans eins og gerst hefur í fjölmörgum fyrri tilvikum.

Því miður reyndist efnahagur Sparisjóðs Keflavíkur langtum veikari en áður hafði verið talið. Það kom í ljós að eignasafn sparisjóðsins var ofmetið og að sparisjóðurinn hefði ekki þá burði sem vonir stóðu til að hann hefði til að vera kjölfesta í sparisjóðakerfi. Ástandið á stórum hlutum starfssvæðis sparisjóðsins er mjög erfitt eins og kunnugt er og margt fleira kemur til. Það var því knýjandi að finna rekstri sparisjóðsins nýjan og varanlegan farveg. Miðað við mat stjórnenda sparisjóðsins, sem kemur fram í bréfi þeirra 25. febrúar 2010, var eigið fé hans neikvætt um áramótin um 11,2 milljarða og samtals vantaði því 19,4 milljarða upp á að hann uppfyllti kröfur FME um lágmarks eigið fé.

Að auki átti Sparisjóður Keflavíkur við varanlegan og mjög mikinn lausafjárvanda að etja og hafði átt lengi. Voru viðskipti hans við Seðlabanka Íslands því bundin því skilyrði að ábyrgðir af hálfu ríkisins kæmu til vegna innstæðna. Með öðrum orðum voru rekstur og möguleikar SpKef til að standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum og öðrum viðskiptamönnum í raun alfarið háðir beinum stuðningi og ábyrgð af hálfu ríkisins. Það leiddi til þess að það varð að lokum sameiginlegt mat fjármálaráðuneytisins og Bankasýslunnar að endurreisn SpKef yrði of kostnaðarsöm aðgerð sem alls óvíst væri að mundi skila ríkissjóði ásættanlegri niðurstöðu og þjóna þeim markmiðum sem upphaflega voru höfð í huga. Því varð niðurstaðan sú að fara með málið í þann farveg viðræðna við Landsbankann sem raun ber vitni.

Um Byr er það að segja að hann var stofnaður með nákvæmlega sama hætti til að taka við eignum og innstæðum í Byr sparisjóði á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sama dag, 22. apríl 2010. Samningar við kröfuhafa hans leiddu ekki til niðurstöðu, ríkið lagði fram upphafsféð, síðan var stofnefnahagsreikningur unninn af PricewaterhouseCoopers og ákveðnar niðurstöður komu út úr því. Samkomulag tókst um fjármögnun og kröfuhafar breyttu kröfum sínum þannig í hlutafé að þeir eignuðust 95% hlut í bankanum. Þetta dugði síðan ekki til og þá var sparisjóðurinn settur í söluferli.

Varðandi uppgjör fjármálastofnana er auðvitað það að segja, og ætti ekki að þurfa að kynna hv. þingmönnum, að þau eru gerð samkvæmt mati og á ábyrgð stjórnenda, stjórna og endurskoðenda fyrirtækja. Það er algjörlega á þeirra ábyrgð og kemur stjórnvöldum ekki við, hvorki núverandi né fyrrverandi. Það er ekki á ábyrgðarsviði þeirra að lögaðilar geri upp reikninga sína. Og það kemur á daginn að veikleikarnir í ársreikningum þessara fjármálafyrirtækja, Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur, eru algjörlega hliðstæðir við veikleikann í ársreikningum stóru bankanna. Voru þeir ekki býsna glæsilegir í árslok 2007 en fóru allir samt á hausinn á árinu 2008? (Forseti hringir.) Þess vegna þarf ekki að koma neinum á óvart sem þekkir þetta ferli að því miður reynist svona í pottinn búið þegar betur er að gáð.

Meðferð þessara mála (Forseti hringir.) varðandi Sparisjóð Keflavíkur og Byr er algerlega hliðstæð því sem gert var með stóru bankana, byggir á sömu (Forseti hringir.) lagaheimildum, er hluti af sömu aðgerðum og hluti af sömu yfirlýsingu stjórnvalda um að bjarga öllum innstæðum í landinu í skjól.



[12:08]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hæstv. ráðherra að virða ræðutímann.



[12:09]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann sé búinn að standa í rústabjörgun á íslenskum fjármálamarkaði. En það er þannig að þegar maður er að vinna að björgunarstörfum getur verið hætta á því, ef maður veit ekki hvert maður stefnir eða hvað maður er að gera, að maður endi bara með því að grafa sig sífellt dýpra niður. Það getur verið ráðlegt að horfa aðeins upp og velta fyrir sér hvert maður stefnir og hver tilgangurinn sé með öllum þessum mokstri.

Það var ástæðan fyrir því að að frumkvæði okkar þingmanna í viðskiptanefnd var sett ákvæði í lög um fjármálafyrirtæki um að skipuð yrði nefnd sem mundi einmitt segja okkur hvert við stefndum, að það lægi fyrir pólitísk stefnumörkun um það hvers konar fjármálamarkað við vildum hafa á Íslandi. Sú nefnd tók nýlega til starfa en á sama tíma heldur hæstv. fjármálaráðherra áfram að grafa sig dýpra.

Fyrrverandi starfsmaður Fjármálaeftirlitsins hefur sagt að hún telji ekki hafa verið lagastoð fyrir stofnun hins nýja SpKef. Ég sjálf hef líka bent á að ég telji skorta lagastoð fyrir sölunni á hinum nýja Byr. Ég hef kallað eftir því, og fékk því miður ekki tækifæri á fundi viðskiptanefndar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um söluna á nýja Byr, hvort við sæjum ekki hérna á þessu haustþingi, þessum stutta haustbúti, frumvarp frá fjármálaráðherra sambærilegt lögum nr. 138/2009, um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., til að heimila söluna á eignarhlut ríkisins á Byr. Þá hljótum við, um leið og þetta frumvarp kemur fram, að fá upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að sölunni, hvort að baki liggi einhverjar ríkisábyrgðir og hvert söluverðið er.

Fjármálaráðherra taldi að vísu þau lög líka ónauðsynleg enda hefur ítrekað komið fram sú skoðun hæstv. ráðherra að það sé kannski ekki ástæða til að trufla Alþingi allt of mikið með sölu á nokkrum bönkum.



[12:11]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að ráðherra hafi á fundum viðskiptanefndar og hér í umræðu í dag skýrt ítarlega út stöðu mála í málefnum Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur og langar því að beina athyglinni annað. Ég kalla eftir nánu samstarf allra flokka á Alþingi um að greina og skoða framtíðarþróun í íslensku bankakerfi. Þar eru margar aðkallandi spurningar. Er fýsilegt að stefna að því að hafa einn banka í ríkiseigu? Hvað ber að gera við eignarhluti ríkisins í öðrum stórum bönkum? Ber að stefna að sölu á þessum hlutum og hvernig á að standa að þeirri sölu? Ber að stefna að dreifðri eignaraðild og hvernig á að tryggja hana? Á að skrá þá eignarhluti á markaði og ber að stefna að aðskilnaði fjárfestingarbankastarfsemi og einkabankastarfsemi?

Ég tel einsýnt að hér eigi Alþingi að taka frumkvæðið. Mín tillaga er sú að ný efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, sem tekur til starfa 1. október nk., skipi starfshóp sem rýni í stöðu bankakerfisins og leggi fram skýrslu á Alþingi. Í stað þess að menn læsi sig niður í afstöðu og að við eigum hér á hættu málþóf eða aðrar fundaæfingar tel ég þessa leið skynsamlega vegna þess að það er mikilvægt að við vöndum okkur við skrefin fram undan og ekki síður að við stefnum að mjög ítarlegri umræðu meðal þingheims og jafnframt hjá almenningi, háskólasamfélagi og öðrum aðilum.

Það getur farið svo að stjórnmálaflokkar séu ekki sammála um hvaða leiðir beri að fara og það er þá bara þannig en ég tel ágætt að áherslumunurinn kristallist skýrt og að skoðanaskipti eigi sér farveg. Valkostirnir eru þá skýrir fyrir almenningi.

Ég legg því til, frú forseti, að þingmenn allra flokka sameinist á vettvangi þingnefndar, að skipaður verði starfshópur sem greini þessa stöðu, greini valkosti sem eru á borðinu og þannig verði þess freistað að ná samtali og ekki síður sátt um hvernig farið verður með þær bankastofnanir sem nú eru í eigu ríkisins. Hér á Alþingi að hafa frumkvæði að gerð nokkurs konar hvítbókar um bankakerfið og framtíðarþróun þess. Óska ég eftir stuðningi þingmanna við þá tillögu.



[12:13]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það hefur verið sagt um efnahagshrun að menn læri aldrei af síðasta hruni. Það er langt á milli hrunanna og núna fyrir 2008 vorum við búin að gleyma heimskreppunni miklu. Í hugum margra var óhugsandi að það sama gæti komið fyrir okkur og gerðist þá.

Það er erfitt að læra af einhverju sem gerðist fyrir 80, 100 eða 200 árum en það er lágmark að reyna að læra af því sem hefur gerst á síðustu árum. Byr og SpKef eru því miður ekki einu fjármálafyrirtækin sem hafa farið á hausinn á Íslandi síðustu þrjú árin. Við eigum rannsóknarskýrslu í níu bindum um hvernig hrunið varð, hvernig fyrirtækin fóru á hausinn, hvað gerðist og hvernig þau voru reist upp. Við verðum að læra af þeirri reynslu.

Í skýrslunni kemur fram að það vantaði alla formfestu og það er kannski skiljanlegt í hruninu sjálfu en það vantaði formfestu í stjórnsýsluna. Það er nauðsynlegt að hafa skýrar leikreglur. Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að hafa þetta og við verðum að vinna faglega.

Allt um gjaldþrot Byrs og SpKef, hvernig þau eru reist upp aftur og öll sú súpa, hefur mér fundist eins og rassvasabókhald hjá ráðherranum. Við stofnuðum Bankasýslu ríkisins, það voru ekki allir sammála um að það skyldi gera, og hún er hugsuð fyrir fallin fjármálafyrirtæki til að halda utan um eignarhlut ríkisins. Það er ekki ætlast til þess að fjármálaráðherra sé með þetta á sinni könnu. Við verðum að læra af fortíðinni. Þótt við getum ekki lært af því sem gerðist fyrir 100 árum hljótum við að geta lært af því sem við höfum sjálf upplifað hér síðustu þrjú árin.



[12:15]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við höfum lítið sem ekkert lært af hruninu. Það varð 2008, neyðarlögin voru sett og í ljós kom að bankarnir átu sig að innan. Það sem við ræðum gerðist 2010. Menn hafa ekki skoðað og ekki velt fyrir sér þegar gengið var í endurfjármögnun þessara tveggja stofnana hvernig standi á því að ársreikningurinn 2008 sem birtur var 2009 hafi að geyma 16 milljarða jákvætt eigið fé Byrs og 5,4 milljarða í jákvæðu eigin fé Sparisjóðs Keflavíkur. Í febrúar 2010 er allt horfið og meira til. Hvernig stendur á því að við reisum banka á nýjan leik eða fjármálastofnanir eins og þessar tvær sem eru undir lögbundnum eiginfjármörkum þegar það var verulega gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Höfum við virkilega ekki, frú forseti, skoðað þá þætti sem okkur var bent á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en hefðum átt að skoða árið 2010 við endurreisn þessara fjármálafyrirtækja? Í mínum huga er alveg ljóst að þeir voru ekki skoðaðir.

Ég held að sá millileikur að Fjármálaeftirlitið yfirtók þessar stofnanir og stofnuð voru tvö ný fyrirtæki, sem nú eru á leiðinni annað, hafi einfaldlega með þátttöku Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins með lágmarksstofnfjárframlagi til beggja stofnana verið íslenskum skattgreiðendum of kostnaðarsamur.

Hæstv. fjármálaráðherra er þátttakandi í þessu sérkennilega ferli og hann hlýtur því líka stundum að þurfa að líta í eigin barm sem núverandi fjármálaráðherra en ekki benda alltaf á hvernig einhverjir aðrir unnu vinnuna. Millileikurinn sem Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðherra lögðu til er íslenskum skattborgurum of kostnaðarsamur. Það sýnir sig nú.



[12:17]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Stjórnvöld lofuðu því í hruninu og margoft síðan að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum skyldu tryggðar. Og það var engin undantekning gerð þar vegna Sparisjóðs Keflavíkur eða vegna Byrs. Við þetta hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur staðið.

Allar innstæður sem menn áttu í Sparisjóði Keflavíkur, og í SpKef núna, eru tryggðar í Landsbankanum og allar innstæður sparifjáreigenda í Byr eru tryggðar í Byr hf. Þetta er nú allur glæpurinn.

Markmiðið með neyðarlögum og með aðkomu ríkissjóðs að málefnum þessara félaga var að lágmarka þann skaða sem glæfralegar fjárfestingar og útlán stjórnenda sparisjóðanna valda skattgreiðendum, ríkissjóði og sparifjáreigendum. Ég endurtek: Það er allur glæpurinn. Það verður samt nógu dýrt, nógu kostnaðarsamt eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði.

Við höfum farið yfir það vandlega á fundum viðskiptanefndar hver vandi sparisjóðanna er. Hann er mikill og hann er vel þekktur og hann er nákvæmlega sá sami og hjá stóru bönkunum. Þegar ríkissjóður fékk þessi tvö fjármálafyrirtæki í fangið var ljóst að þau voru einfaldlega gjaldþrota.

Sparisjóður Keflavíkur átti ekki fyrir glæfralegum útlánum til vildarvina og stjórnenda og eignir sjóðsins nægðu ekki til að tryggja innstæður viðskiptavina. Auðvitað er ólíkt mat seljenda og kaupenda ekkert nýtt í viðskiptum og það er ekki ástæða til að fjúka um koll vegna slíkra deilna, en það er hins vegar ábyrgðarhluti að gera því skóna að þeir sem áttu innstæður í þessum fjármálastofnunum geti tapað fjármunum og eins og hér er gefið í skyn sérstaklega vegna aðkomu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Það er klámhögg, frú forseti, en slík klámhögg víla pólitískar andstæðingar ekki fyrir sér að veita hér á haustdögum 2011. Ég get ekki annað, hæstv. forseti, en nefnt ársreikninga. (Forseti hringir.) Ársreikningar félaga eru mikilvægir en ársreikningar hv. alþingismanna og stjórnmálamanna um fjárreiður sínar (Forseti hringir.) og kosningaskuldir eru líka mikilvægir og ég kalla eftir þeim.



[12:20]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann.



[12:20]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Á síðasta ári var ákveðið að stofna nýjan viðskiptabanka og sparisjóð í kringum skuldir og eignir Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur sem voru í eigu ríkisins. Fljótlega kom í ljós að virði eignasafna Byrs og SpKef var ofmetið og að ríkissjóður þyrfti að auka verulega eiginfjárframlag sitt til þeirra. Á þeim tímapunkti létu stjórnvöld Byr og SpKef renna inn í Byr hf. og Landsbankann eins og fram hefur komið án heimilda frá Alþingi.

Frú forseti. Staðan í dag er sú að það er búið að einkavæða allt bankakerfið á nýjan leik og þar hafa hagsmunir fjármagnseigenda verið tryggðir algerlega. Það hefur verið gert án þess að skuldsett heimili hafi fengið sanngjarna leiðréttingu, án þess að skuldsett heimili hafi fengið þá leiðréttingu sem þeim bar og þau þurftu sannarlega á að halda. Þetta er orðið viðurkennt.

Það er því nokkuð sérstakt í ljósi þess sem lagt var upp með á sínum tíma að bankarnir hafi verið endurreistir á grunni þessara ofmetnu eigna og stjórnvöld hafi þar með blessað eignaupptöku hjá skuldurum til að tryggja hærra virði bankanna. Þetta sjáum í reikningum bankanna en á sama tíma og þetta er gert virðist það eina sem farið er í þrot vera sparisjóðakerfið. Það var einmitt það eina sem lagt var upp með að ætti að bjarga áður en lagt var af stað.



[12:22]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur hafa margar hliðar. Alþingi skipaði fyrir nokkru nefnd sem leita á sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi. Nefndin mun einnig gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum. Fram undan er því ítarleg rannsókn þar sem varpað verður ljósi meðal annars á þá atburði sem leiddu til falls Sparisjóðs Keflavíkur. Sparisjóðurinn í Keflavík starfaði í 103 ár og lengst af var almannahagur aðalatriði hjá sjóðnum, að styðja við atvinnu og menningu og ávaxta sparifé almennings. Hann hafði hins vegar fjarlægst þetta hlutverk sitt síðustu starfsárin, hlutverk sem sumir treystu á og studdu, og eins konar sýndarveruleiki virðist hafa tekið við. Við fall sparisjóðsins töpuðu margir miklum fjármunum, flestir þeirra gerðu sér vonir um að við uppgjör ætti bankinn eignir sem skiluðu sér til kröfuhafa. Ólíklegt er að svo muni verða, sjóðurinn virðist standa strípaður eftir fallið og greiða þarf milljarða króna úr ríkissjóði til að bjarga almennum innstæðum Suðurnesjamanna.

Virðulegi forseti. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig standi á þessum ósköpum. Hvers vegna var fall Sparisjóðs Keflavíkur svo hátt? Voru það ákvarðanir stjórnenda bankans sem gerðu fallið svo stórkostlegt eða voru það kannski ákvarðanir stjórnarmanna sem mestum usla ollu? Voru það þeir sem bankinn lánaði peninga sem ekki voru traustsins verðir? Yfir þessu velta Suðurnesjamenn vöngum sem margir höfðu notað sparifé sitt til að fjárfesta í stofnbréfum banka sem þeir töldu að stæði vel og urðu fyrir gríðarlegu tjóni. Sumir tóku meira að segja erlent lán vegna þess að þeim var sagt að það borgaði sig að setja það í þennan stönduga banka. Áhættan var miklu meiri en þeim hafði verið talin trú um.

Með rannsókn Alþingis á falli sparisjóðanna munu getgátur væntanlega víkja fyrir staðreyndum og málinu (Forseti hringir.) verða vísað í réttan farveg.



[12:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þetta kallar á meiri umræðu í ljósi þess sérstaklega, sem ekki þarf að koma á óvart, að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunum. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra getur reynt að skjóta sér undan flestu en hann getur ekki skotið sér undan því að nýju bankarnir, eftir að þeir voru stofnaðir, störfuðu undir lögbundnum eiginfjármörkum samkvæmt íslenskum lögum.

Hæstv. ráðherra vissi, eins og hér hefur komið fram, nákvæmlega eftir hrunið hvað hafði gerst. Hann kemur hingað upp og segir að þetta sé allt saman ábyrgð stjórnvalda og segir að ársreikningarnir hafi verið með nákvæmlega sömu veikleika og hjá stóru bönkunum fyrir hrun — þetta gerist eftir hrun, virðulegi forseti. Og hvað vildi hann gera? Fyrir hverju beitti hann sér sérstaklega gagnvart þeim hæstv. ráðherrum sem hann taldi að hefðu átt að vita um veikleika í ársreikningum bankanna fyrir hrun? Hvað gerði hann, virðulegi forseti? Hann beitti sér fyrir því að þeir yrðu dregnir fyrir landsdóm, hvorki meira né minna. Hann taldi að þessir aðilar hefðu átt að vita þetta allt saman. Núna hefur yfir 100 millj. kr. af skattfé almennings verið varið til að koma Geir H. Haarde í fangelsi. En hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni tókst ekki að koma fyrirrennara sínum, hæstv. fyrrverandi ráðherra Árna Mathiesen, Björgvini G. Sigurðssyni o.fl. í slíka stöðu.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í mars 2009 að erfiðleikum á íslenskum fjármálamarkaði væri lokið og það væri sannfæring ríkisstjórnar að ekki kæmi til frekari lokana íslenskra innlánsstofnana. Síðan eru átta innlánsstofnanir búnar að falla og hæstv. ráðherra ber nákvæmlega enga ábyrgð. (Forseti hringir.)



[12:27]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmönnum ætti öllum að vera kunnugt liggur það alveg fyrir nú að sú mynd sem birtist í ársreikningum stóru íslensku bankanna var stórkostlega fegruð, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, enda fóru þeir á hausinn. Ársreikningar Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur virðast ekkert frábrugðnir ársreikningum Landsbankans, Glitnis eða Kaupþings að því leyti. Var það ekki svo að Alþingi setti á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á því hvernig þessi ósköp gátu gerst? Nú hefur Alþingi sömuleiðis ákveðið að setja á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka það hvernig þessi sömu ósköp gátu gerst í tilviki sparisjóðanna.

Byr og Sparisjóður Keflavíkur sem sparisjóðir voru starfandi fjármálastofnanir með starfsleyfi. Þeir sóttu á vormánuðum 2009 um eiginfjárframlag á grundvelli neyðarlaga. Það mál var sett í algjörlega eðlilegan farveg og byrjað á því að óska eftir hlutlausri úttekt á eignasafninu til að undirbúa að þeim yrði lagt lið með eiginfjárframlögum, væru fyrir því forsendur, til þess að koma þeim fyrir vind. Síðan kemur í ljós að staðan er verri eins og hér hefur verið farið yfir.

Viðræður voru reyndar við kröfuhafa um endurfjármögnun stofnananna með sama hætti og í tilviki stóru bankanna. Viðræðurnar leiddu ekki til niðurstöðu þó að vissulega hafi Byr hf. að uppistöðu til verið fjármagnaður með því að kröfuhafar þar breyttu kröfum í eigið fé (Gripið fram í.) og eru síðan seljendur að stærstum hluta til á móti hinum litla hlut ríkisins.

Nýju stofnanirnar störfuðu á nákvæmlega sama grunni, á grundvelli upphafsfjármögnunar, og stóru bankarnir gerðu eiginlega allt árið 2009, frá því í október 2008 (Gripið fram í.) og fram eftir árinu 2009, með lágmarks eigið fé sem lagt var fram meðan unnið var að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra og endurfjármögnun með nákvæmlega sama hætti, með 900 millj. kr. framlagi. Landsbankinn, Íslandsbanki og (Forseti hringir.) Arion banki, bankar sem síðan fengu þau nöfn, störfuðu á nákvæmlega sömu forsendum með heimild frá Fjármálaeftirlitinu (Forseti hringir.) stærstan hluta ársins 2009. Þetta veit hv. þingmaður.

Það er rétt hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að það verður óskað eftir heimild frá Alþingi (Forseti hringir.) eins og ég hef þegar upplýst, lagastoðin fyrir þessum aðgerðum er ótvíræð 1. gr. neyðarlaganna.