139. löggjafarþing — 166. fundur
 17. september 2011.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins.

[09:33]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna dagskrár þessa fundar. Ég sé að það eru horfin út nokkur þjóðþrifamál sem hér voru á dagskrá í gær, m.a. lögfesting mengunarbótareglunnar. Ég óska hins vegar eftir því að hæstv. forseti skýri þingheimi frá því af hverju mál frá hv. viðskiptanefnd um vátryggingar ökutækja er ekki á dagskrá þessa fundar.

Þetta er mikilvægt mál, frú forseti. Ekki aðeins er hér um að ræða innleiðingu á tilskipun sem er komin fimm mánuði fram yfir síðasta frest heldur er um að ræða mikilvægt öryggismál fyrir alla vegfarendur í þessu landi. Sjö þúsund ökutæki eru óvátryggð og þar með óskoðuð í umferð hér á landi og þau eru stórhættuleg. Mestur hluti vinnu nefndarinnar hefur einmitt farið í að tryggja umgjörð og verklag til að koma þessum hættulegu ökutækjum annaðhvort úr umferð eða í tryggingu og skoðun. Það er grafalvarlegt, frú forseti, ef Alþingi fær ekki tóm til að ljúka þessu máli og kallar á skýringu frá hæstv. forseta.



[09:34]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að vekja athygli á því að hér vantar mál á dagskrána án þess að nokkur skýring hafi verið sett fram um það. Þar á meðal er þingmál um umhverfisábyrgð, stjórnarfrumvarp frá umhverfisráðherra, mikilvægt mál sem mundi lögfesta mengunarbótaregluna eða greiðslureglu umhverfisréttarins í íslenskri löggjöf og var kominn tími til fyrir löngu eins og við sjáum á ýmsum mengunarslysum undanfarin missiri. Ég óska eftir því að fá að vita af hverju þetta er og hvort það sé rétt að tiltekinn stjórnmálaflokkur hér á þinginu hafi sérstaklega óskað eftir því að þetta mál yrði tekið út af dagskrá og þá af hvaða völdum.



[09:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi annað þeirra mála sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi sem snertir ökutækjatryggingar þá fengum við þær upplýsingar að einhverjir nefndarmenn teldu málið vanbúið og það hefði verið tekið of skart úr nefndinni. Athugasemdir hefðu komið um það leyti sem verið var að taka það úr nefndinni og þess vegna hefði ekki verið sátt um málið þar. Hins vegar er ekki gott ef mikilvægir þættir í svona frumvörpum ná ekki fram að ganga. Ef eitthvað annað er í þeim sem stoppar þau ætti einfaldlega að breyta þeim eða gera þau þannig að mögulegt sé að taka þau til afgreiðslu.



[09:36]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Varðandi ökutækjatryggingarnar þá fékk ég sennilega ekki réttar upplýsingar um alvarleika málsins, ef þetta fer ekki í gegn, og dreg til baka ósk mína um að þetta fari ekki á dagskrá.



[09:36]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að þetta mál hafi verið vanbúið, það er alls ekki rétt. Málið var tilbúið í nefndinni og mjög mikið rætt. Á hinn bóginn er það mitt mat, sem stangast á við ákveðið álit formanns nefndarinnar, að það sé ekki mikill skaði að því að fresta þessu máli í einhverjar vikur. Ég get samþykkt að það frestist í viku eða fram á næsta þing og verði þá tekið strax. Á hinn bóginn mótmæli ég því harðlega að þetta frumvarp sé vanbúið til afgreiðslu og endurtek það. Málið er tilbúið en kannski vill einhver bæta einhverju í það og ég tel að við höfum þá tíma til þess, en það er ekki vanbúið.



[09:37]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég var á fundi annars staðar í húsinu en mér skilst að hér hafi komið nokkuð til umræðu dagskrá fundarins og að einhver mál sem sett hefðu verið á dagskrá í gær væru ekki á dagskrá í dag. Ég þekki ekki söguna á bak við það allt saman. Hins vegar var vikið að frumvarpi um umhverfisábyrgð sem vissulega hefur verið afgreitt úr umhverfisnefnd en ljóst var að ágreiningur var um. Ég hygg að það megi rekja hann til mín og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni a.m.k. Við höfðum komið ábendingum á framfæri um að þarna væri um að ræða mál sem mundi krefjast töluverðrar umræðu áður en það yrði afgreitt á þingi, og af þeim sökum hafi forseti hugsanlega tekið það út.



[09:39]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir þær vangaveltur sem komið hafa fram varðandi dagskrá dagsins. Hér er verið að ræða það hvort ökutækjatryggingamálið hefði átt að fara út af dagskrá, mál sem nefndarmenn eru þó sammála um að sé mjög vel rætt, fullbúið mál og brýnt mál þar að auki. Það er merkilegt að bera það saman við annað mál sem ekki er fullrætt og eiginlega mjög lítið rætt í þinginu og það er staðgöngumæðrunin. Það er á dagskrá þingsins í dag. Ég er ein af meðflutningsmönnum þess máls en tel að það mál þurfi þó mun meiri umræðu áður en hægt er að taka það á dagskrá eða til einhvers konar meðhöndlunar í þinginu og síst af öllu á síðasta degi þingsins sem er algerlega fráleitt og ekki sambærilegt við t.d. þetta mál sem við erum að ræða um núna sem er búið að ýta út af dagskránni.



[09:40]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir það að hér hefur komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn því að frumvarpið um umhverfisábyrgð væri rætt á þinginu að þessu sinni. Ástæðurnar eru klénar því að málið var í umræðu í umhverfisnefnd á öllum fundum í ágúst. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku með einhverjum hætti þátt í þeirri umræðu þó að aðstæður þeirra væru líklega erfiðar.

Það komu ekki fram neinar efnislegar athugasemdir eða litlar við afgreiðslu meiri hlutans á þessu máli. Það er svo með svona mál að auðvitað verður að sæta því að það bíði þá fram í október að þessu sinni og verði væntanlega endurflutt, þá af umhverfisráðherra.

Ástæðurnar voru sagðar tvær, annars vegar að það væri ágreiningur um málið og hins vegar að það krefðist langrar umræðu, en hvað (Forseti hringir.) með mál 20, af hverju er það á dagskrá? Um það er ágreiningur, um það verður mikil umræða.



[09:41]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Eftir að hafa hlýtt á mál manna vil ég hvetja hæstv. forseta til að taka vátryggingamálið á dagskrá síðar í dag á nýjum fundi (Gripið fram í.) — ökutækjatryggingarnar. Mér sýnist ljóst af þessari umræðu að Framsóknarflokkurinn hafi beitt neitunarvaldi í umræðunni um dagskrá þingsins á því sem ég vil segja og fullyrða að sé á fölskum forsendum, sem sagt því að málið sé vanbúið, illa unnið og ekki tækt til afgreiðslu. Ég mótmæli því og tek undir mótmæli annarra.

Ég ítreka að það er grafalvarlegt að hér skuli vera svo mörg þúsund ökutæki óvátryggð og óskoðuð í umferð. Það er skylda löggjafans að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma þessum stórhættulegum ökutækjum af götunum og í tryggingu.



[09:42]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara bæta við það sem ég sagði áðan að það var skilningur minn í hv. umhverfisnefnd þegar meiri hluti hennar ákvað að afgreiða út frumvarp um umhverfisábyrgð að það væri gert vegna þess að meiri hlutinn teldi umfjöllun um málið lokið en engin vissa væri fyrir því að málið yrði afgreitt á haustþingi og það yrði að ráðast. Það var einhvern veginn minn skilningur á þessu máli.

Ég vildi síðan geta þess almennt, ég þekki ekki önnur mál sem hér hafa verið rædd eða forsögu þeirra, að auðvitað er það svo að á fáum dögum á haustþingi í september geta hv. þingmenn og hv. nefndarmenn í einstökum nefndum ekkert endilega vænst þess að unnt sé að ljúka öllum þeim málum sem þeir hafa hug á. (Forseti hringir.) Það hlýtur alltaf að vera einhvers konar samkomulag um það hvernig forgangsröðunin er ákveðin þó að hún kunni auðvitað að vera umdeild.



[09:44]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræddum hér í fjóra daga það mál sem kemur til afgreiðslu um Stjórnarráð Íslands. Það fór mikill tími í þá umræðu og eðlilega minnkaði sá umræðutími sem ætlaður var i önnur mál. Það er grafalvarleg staða þegar við lendum á síðasta degi þingsins í afgreiðslu á málum sem skoðanaágreiningur er um og allir viðurkenna að þurfi umræðu.

Það er líka alvarlegt ef mál eru tekin af dagskrá hugsanlega vegna misskilnings, eins og ég tel að eigi við um ökutækjatryggingafrumvarpið, að það hafi verið tekið út af vegna misskilnings, þar sem ekki hafi þurft langa umræðu til að afgreiða það.

Það mál sem ég tel síst rætt og þurfi lengsta umræðu af öllum og lengri en Stjórnarráðið, (Forseti hringir.) er mál nr. 20 um staðgöngumæðrun. Það er heitt mál, tilfinningaríkt mál, og það þarf umræðu.



[09:45]
Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Mig langar að skora á hæstv. forseta og flutningsmenn máls númer 20 sem er á dagskrá í dag að sammælast um að það verði einfaldlega tekið af dagskrá. Þetta er gríðarlega mikið ágreiningsmál. Það eru risastórar siðferðilegar spurningar uppi um málið úti um allt. Ég held að ekki sé til ein einasta fræðigrein í akademíunni sem er sammála um staðgöngumæðrun.

Þingið mun ekki klárast í dag og sennilega ekki á morgun og ekki hinn ef á að fara að ræða staðgöngumæðrun. Þetta er þannig mál að lítið mál er að koma því fyrir fljótlega á næsta þingi. Fyrstu dagar nýs þings eru yfirleitt frekar rólegir og það væri miklu skaplegra að taka málið á dagskrá strax í upphafi næsta þings til að þingstörfum geti lokið með einhverjum sóma í dag.



[09:46]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að forseti ákveður dagskrá í samráði við þingflokksformenn á fundi með þeim og þetta varð niðurstaðan á þeim fundi.