139. löggjafarþing — 166. fundur
 17. september 2011.
Þjóðminjasafn Íslands, 3. umræða.
stjfrv., 648. mál (heildarlög). — Þskj. 1941.

[10:02]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar bara örstutt að reifa þann fyrirvara sem ég hef á þessu máli. Ég er á nefndarálitinu með fyrirvara og er nánast að öllu leyti sammála niðurstöðu meiri hlutans. Það eina sem ég hef athugasemd við er 2. gr. þessa frumvarps sem ber yfirskriftina þjóðminjavörður og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar forstöðumann Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjavörð …“

Það er í raun og veru þetta með þjóðminjavörð sem ég geri athugasemd við. Mér finnst við vera svolítið föst í gömlu fari. Þjóðminjavörður er mjög virðulegt heiti en í ljósi þess að við erum að breyta safnalögum og skilgreina þrjú höfuðsöfn, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, þar sem yfir bæði Listasafninu og Náttúruminjasafninu eru forstöðumenn sem heita forstöðumaður Listasafns Íslands og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands fannst mér við hafa mjög gott tækifæri til að samræma þessi embættisheiti þannig að þjóðminjavörður Þjóðminjasafns Íslands yrði einfaldlega forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands.

Þetta á ekki síður við í ljósi þess að í sumum umsagnanna með frumvarpinu var bent á að það gæti orðið ákveðinn ruglingur á gegnsæi verkaskiptingar þar sem við erum vonandi næsta vetur að fara að stofna nýja stofnun, stjórnsýslustofnun með menningarminjum, Minjastofnun Íslands. Það er stór spurning hvort verði eðlilegra að forstöðumaður safnsins sem hefur með höndum að varðveita menningarminjar okkar kallist þjóðminjavörður eða hvort hann geti hugsanlega alveg eins verið forstöðumaður þeirrar stjórnsýslustofnunar.

Til að koma í veg fyrir togstreitu og leiðrétta allan misskilning og hafa gegnsæi málsins í fullu lagi hefði mér fundist þetta vera gott tækifæri til að hætta að nota hið fallega orð þjóðminjavörður vegna þess að mikil hætta er á að það valdi misskilningi. Við verðum að gera ráð fyrir því að tungumálið þróist og hugtakanotkun sömuleiðis. Við höfum áður lent í hálfgerðu baksi í afgreiðslu þingsins þegar við höfum viljað halda fast í gömul embættisheiti. Þótt mér finnist hugtakið fallegt er ég mjög hugsi yfir því.

Eftir sem áður finnst mér þetta ekki vera efnislegt atriði málsins. Ég er mjög ánægð með frumvarpið og þess vegna sé ég enga ástæðu til annars en að greiða ávallt atkvæði með því. Ég vek bara máls á því að Þjóðminjasafn Íslands er eitt höfuðsafnanna og því er mjög eðlilegt að forstöðumaður þess beri ekkert sérstakt embættisheiti frekar en forstöðumenn annarra höfuðsafna.



[10:05]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem aðeins upp til að lýsa því yfir að ég er að mörgu leyti efnislega sammála málflutningi hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur varðandi þetta atriði. Nefndin fjallaði nokkuð ítarlega um hvort rétt væri að viðhalda heitinu þjóðminjavörður í lögum um Þjóðminjasafn Íslands eða fella það brott í ljósi þess að það má færa fyrir því rök að hugtakið sé ekki eins lýsandi og tæmandi og það kannski var fyrr á árum með þeirri breytingu sem er að verða á stjórnsýslu minja- og safnamála í landinu.

Þau rök sem réðu hins vegar á endanum afstöðu nefndarinnar voru að það væri eðlilegt að samræmi væri á milli þess nafns sem Þjóðminjasafn Íslands hefur borið í 100 ár og heitis þjóðminjavarðar þannig að ef gerð væri breyting á heiti þjóðminjavarðar væri eðlilegt að það yrði rætt í samhengi við hugsanlega nafnabreytingu á safninu sjálfu. Það töldu menn svo viðurhlutamikið að lengri meðgöngutíma þyrfti til að stíga svo róttækt skref þó að vissulega megi halda því fram að eðlilegt sé að taka til endurskoðunar þessi heiti í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á málaflokknum.