139. löggjafarþing — 166. fundur
 17. september 2011.
greiðsluþjónusta, 2. umræða.
stjfrv., 673. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 1190, nál. 1842, brtt. 1843.

[11:39]
Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta viðskiptanefndar ber ég fram nefndarálit nefndarinnar um frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.

Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum verði innleidd í íslenskan rétt. Með tilskipuninni er nokkrum fyrri tilskipunum breytt og ein tilskipun afnumin. Viðskiptaráðherra skipaði nefnd helstu hagsmunaaðila sem hafði það hlutverk á sínum tíma, í nóvember 2008, að aðstoða við innleiðingu tilskipunarinnar og skilaði hún ráðherra tillögum sínum. Markmið tilskipunarinnar er að skapa heildstætt, samstætt og nútímalegt regluverk um greiðsluþjónustu innan EES-svæðisins.

Í 4. gr. frumvarpsins er talið upp í nokkrum töluliðum hvað það er sem felst í greiðsluþjónustu, en nærtækasta dæmið í hugum almennings er kannski sú bakvinnsla sem snertir greiðslukort. Sem dæmi um það sem fellur undir hugtakið má nefna hefðbundin banka- og kortaviðskipti, svo sem það að leggja reiðufé inn á greiðslureikning og taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt aðgerðum sem eru nauðsynlegar vegna rekstrar greiðslureikninga, millifærslur fjármuna o.fl. Þá heyrir útgáfa greiðslumiðla og færsluhirðing undir greiðsluþjónustu, og þar með lög þessi. Með greiðslumiðli, en það hugtak er skilgreint í lögunum, er átt við debet- og kreditkort og jafnvel síma eins og tækniþróun vindur fram. Svokölluð færsluhirðing telst einnig til greiðsluþjónustu en í henni felst að veita seljanda vöru eða þjónustu heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við kortafærslum og greiða síðan seljanda út þegar handhafi korts greiðir reikninginn. Þá heyra peningasendingar undir greiðsluþjónustu en með því er átt við það þegar tekið er við fjármunum frá sendanda og þeir sendir viðtakanda án þess að sérstakur reikningur sé stofnaður. Í athugasemdum við greinina kemur fram að ganga verði út frá því að greiðsluþjónusta muni þróast og að erlendis sé slík þjónusta fjölbreytilegri en hér á landi.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sameiginlegt heildarregluverk um greiðsluþjónustu en fram að þessu hefur þetta svið aðeins heyrt undir ákvæði á víð og dreif í lögum, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um neytendalán. Við umfjöllun um málið kom fram í máli gesta að frumvarpið styrkti til muna réttarstöðu neytenda og að það byggðist að mörgu leyti á þeim venjum sem hefðu viðgengist á þessu sviði.

Eitt af markmiðum tilskipunarinnar er sem sagt að efla réttarstöðu neytenda. Í III. kafla eru til að mynda ítarleg ákvæði um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu. Í C-lið kaflans eru sérákvæði um rammasamninga sem eru samningar um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni sem fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings. Kveðið er á um að ekki sé heimilt að krefjast gjalds fyrir upplýsingar sem veittar eru. Í IV. kafla eru ákvæði um réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu.

Með frumvarpinu er starfsemi þeirra fyrirtækja sem undir lögin heyra sérgreind, þ.e. aðgreint er hvers konar starfsemi heimilt er að stunda. Í 19. gr. er kveðið á um að greiðslustofnun sé heimilt að stunda aðra starfsemi auk greiðsluþjónustu en slíkum heimildum eru þó sett takmörk í ákvæðinu.

Meiri hluti viðskiptanefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Lögð er til lagfæring á skilgreiningu a-liðar 14. tölul. 7. gr.

Í 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að banna greiðslustofnun að stunda aðra starfsemi en veitingu greiðsluþjónustu. Í 19. gr. er kveðið á um heimildir greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi en þar sem í 15. gr. felast heimildir Fjármálaeftirlitsins til afturköllunar starfsleyfis telur meiri hlutinn að heimild eftirlitsins til að banna greiðslustofnun að stunda aðra starfsemi eigi fremur heima í 19. gr.

Í 2. mgr. 16. gr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti sett reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur. Í III. og IV. kafla eru ítarlegar reglur um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu og um réttindi og skyldur aðila í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu. Meiri hlutinn telur ákvæðið óþarft enda tekur 1. mgr. 16. gr. við þar sem ákvæðum III. og IV. kafla sleppir en þar er kveðið á um að greiðslustofnun skuli viðhafa heilbrigða viðskiptahætti og venjur.

Í 17. gr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá yfir greiðslustofnanir sem er ný tegund þjónustuveitenda á sviði fjármálaþjónustu en við umfjöllun um málið var bent á að skráin ætti einnig að ná yfir greiðsluþjónustuveitendur. 17. gr. er í II. kafla frumvarpsins en sá kafli gildir aðeins um greiðslustofnanir og peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Meiri hlutinn leggur því til að 17. gr. falli brott en að við I. kafla bætist ákvæði þess efnis að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur og almenningur skuli hafa aðgang að þeirri skrá.

Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að efnahags- og viðskiptaráðuneytið er að vinna að drögum að reglugerð um varðveislu greiðslustofnana á fjármunum. Meiri hlutinn telur þess vegna tilefni til að breyta 18. gr. svo hún verði ítarlegri og nái einnig til greiðsluþjónustuveitenda en að ráðherra hafi auk þess heimild til að setja reglugerð um varðveislu fjármuna.

Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um heimild greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi en greiðsluþjónustu. Í 2. mgr. sömu greinar er greiðslustofnun veitt heimild til að sinna rekstrarþjónustu og nátengdri stoðþjónustu auk þess sem greiðslustofnun verður heimilt að starfrækja greiðslukerfi. Við umfjöllun um málið í nefndinni voru rök færð fyrir því að heimildir greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi væru ekki eins víðtækar og kveðið er á um í tilskipuninni og leggur meiri hlutinn því til að 1. og 2. mgr. verði sameinaðar og orðalagi lítillega breytt. Í 6. mgr. 19. gr. er greiðslustofnun veitt heimild til að veita „minni háttar“ lán. Bent var á við umfjöllun um málið að líklega væri um þýðingarvillu að ræða úr tilskipuninni og leggur meiri hlutinn því til að orðið minni háttar falli brott. Þær lánveitingar sem hér um ræðir skulu samkvæmt greininni vera veittar í tengslum við veitingu greiðsluþjónustu, samanber nánari tilvísun til töluliða 4. gr. þar sem hugtakið greiðsluþjónusta er skilgreint.

Í 4. mgr. 23. gr. er lögð skylda á lögbær yfirvöld annarra ríkja til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um ákveðin atriði. Meiri hlutinn leggur til breytt orðalag málsgreinarinnar.

Í 2. mgr. 64. gr. er vísað til 67. gr. um það hvenær fjármunir séu til reiðu fyrir viðtakanda greiðslu. Í 2. málslið 1. mgr. 67. gr. er kveðið á um að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skuli tryggja að fjárhæð greiðslu sé viðtakanda til ráðstöfunar þegar í stað eftir að hún hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að það hefði tíðkast áratugum saman hér á landi að seljendur vöru eða þjónustu gerðu upp mánaðarlega við greiðslukortafyrirtæki og að óbreytt frumvarp gæti raskað slíkum samningum. Meiri hlutinn leggur því til viðbót við 2. mgr. 64. gr. þess efnis að tímafrestur samkvæmt 67. gr. eigi ekki við sé um annað samið, þ.e. að seljendur vöru og þjónustu geti að óbreyttu samið um breytt fyrirkomulag.

Í 74. gr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Fram kom við umfjöllun um málið að efni greinarinnar væri of víðtækt, enda heyrði það t.d. ekki til verkefna eftirlitsins að hafa eftirlit með póstrekendum og seðlabönkum annarra ríkja, samanber tilvísun í II. kafla frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur því til að tilvísun í þá aðila sem Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með verði skilgreint betur og að Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa eftirlit með póstrekendum með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu.

Í 75. gr. er kveðið á um að Seðlabanki Íslands hafi eftirlit með framkvæmd 6. gr. en hún fjallar um þátttöku í greiðslukerfum. Bent var á við umfjöllun um málið að eftirlit af þessu tagi samræmdist ekki lögbundnum verkefnum bankans enda beinir hann einkum sjónum sínum að hinu þjóðhagslega umhverfi fjármálakerfisins og kerfinu í heild. Leggur meiri hlutinn því til að ákvæðið verði umorðað á þann veg að um aðgengi greiðsluþjónustuveitenda að greiðslukerfum fari samkvæmt samkeppnislögum.

Meiri hlutinn leggur auk þess til að lögin öðlist gildi 1. desember 2011, en það er breyting.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem ég hef hér reifað og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita Álfheiður Ingadóttir formaður, Magnús Orri Schram framsögumaður, Valgerður Bjarnadóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir, Skúli Helgason, Guðlaugur Þór Þórðarson, með fyrirvara, Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara.



[11:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um greiðsluþjónustu sem má líkja við blóðrásina í mannslíkamanum þar sem greiðsluþjónustan flytur orku og fjármuni á milli landa og einstaklinga og er afskaplega þróuð á Íslandi. En um leið og hún verður svona mikilvæg og veitir svo góða þjónustu þá verður þjóðfélagið líka mjög viðkvæmt fyrir því ef hún bilar. Við hrun stóðum við nærri því frammi fyrir þeirri staðreynd að þetta kerfi mundi stoppa svipað og þegar blóðrásin stöðvast í líkamanum.

Spurningin er: Var þetta rætt í nefndinni og var hugleitt hvað hægt væri að gera til að reyna að koma í veg fyrir slíkt að fenginni dýrri reynslu í hruninu? Með neyðarlögunum og með því að stofna nýja banka tókst að viðhalda greiðsluþjónustunni og ég hef sagt að það sé allt að því kraftaverk. Ég vildi spyrja hvort þetta hefði verið rætt og um áhættuna.

Síðan vildi ég spyrja annarrar spurningar um Tobin-skattinn, sem menn eru að tala um að leggja á erlendis, hvort hann komi inn í þessar færslur með greiðsluþjónustunni.

Í þriðja lagi vil ég spyrja að því hvort nefndin hafi fjallað um það merkilega fyrirbæri að sá sem notar eða pantar þjónustuna og greiðir með kerditkorti greiðir hana ekki, þ.e. notandinn greiðir ekki umsýslukostnað heldur verslunin sem selur honum — hún neyðist til þess þannig að þetta er þvinguð greiðsla. Ég hef margoft nefnt það, sérstaklega á fyrri stigum þegar kreditkort voru tekin upp, hvort nefndin hafi rætt um þessa gjaldtöku sem þriðji aðili greiðir en ekki fyrirtækið sjálft eða notandinn.



[11:50]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og áhuga á málefninu. Það má eiginlega segja að í nefndinni hafi áhættan og það mikla álag sem greiðslukerfin voru undir á sínum tíma vetrarmánuðina 2008–2009 óbeint verið rætt. En helsti snertiflötur þessa frumvarps er að setja ein heildarlög yfir greiðsluþjónustuna, þessa blóðrás eins og hv. þm. orðaði svo skemmtilega. Þetta viðfangsefni er sett í einn lagabálk sem skýrir ekki bara málið í heild heldur líka ábyrgðina. Um leið verður eftirlit og vöktun með því sem er í gangi og með hvaða hætti því er framfylgt miklu skýrara af hálfu löggjafans og eftirlitsaðila sem fylgist með því að hlutirnir séu rétt framkvæmdir.

Tobin-skattur var ekkert sérstaklega ræddur í nefndinni. Hins vegar tel ég að þingmenn séu margir áhugasamir um þróun umræðunnar í Evrópu enda hlýtur það að vera fýsilegur kostur að minnka áhættu í bankakerfinu okkur öllum til heilla. Ef skattlagning getur verið hluti af þeirri leið er það a.m.k. umræðunnar virði ef ekki meira.

En sú mismunun sem hv. þingmaður ræddi um, að ódýrara væri fyrir neytandann að láta seljanda vöru og þjónustu bera kostnaðinn, tengist kannski líka þeirri víðtæku umræðu sem við ættum að hafa í samfélaginu um að ódýrara er í raun og veru fyrir neytandann að nota kreditkort en debetkort. Það er þess vegna hagstæðara að fresta greiðslu og taka lán fyrir (Forseti hringir.) eyðslunni. Ég mun koma betur inn á það í seinna andsvari.



[11:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að þakka mér áhuga á málinu. Þetta er mál sem eiginlega allir þingmenn ættu að hafa áhuga á og hver einasti borgari. Hvað ef kreditkortin virkuðu ekki? Ég bið hv. þingmann og aðra áheyrendur að hugleiða hvað mundi gerast ef menn gætu ekki borgað með kreditkortunum sínum. Eftir tvær vikur yrðu menn svangir af því að það væri ekki hægt að kaupa neitt. Eftir þrjár, fjórar vikur yrðum við komin í verulega slæm mál, hungursneyð. Við verðum sífellt háðari þessu kerfi. Eftir því sem rammi bankaþjónustu og greiðsluþjónustu verður betri og kerfið þjálla þeim mun háðari verðum við því. Þetta eru hlutir sem menn þurfa að ræða. Við getum séð fyrir okkur tölvuárás, við getum séð fyrir okkur stríð, við getum séð fyrir okkur hryðjuverk eða eitthvað slíkt. Menn þurfa að vera undir það búnir og ekki voðalega hissa þegar það gerist.

Tobin-skatturinn minnkar ekki áhættu en hann hægir á ferlunum. Þar sem þessar færslur eru nánast ókeypis á milli landa fljúga gífurlegir fjármunir fram og til baka yfir Atlantshafið og milli landa, þvílíkt magn af fjármunum að menn geta ekki ímyndað sér það. Tobin-skatturinn mundi hægja á því þannig að ferlarnir yrðu dálítið hægari og sveiflurnar ekki eins miklar.

Varðandi kostnaðinn er merkilegt að þegar ég nota krítarkortið mitt í verslun í staðinn fyrir að borga með peningum þá borga ég ekki kostnaðinn heldur verslunin. Það er athyglisvert. Þetta er líka á öðrum stað í hagkerfinu. Þegar kröfuhafi sendir kröfu í innheimtu þá borgar skuldarinn kröfuna en ekki sá sem biður um innheimtuna. Á báðum sviðum þarf að gæta þess að innheimtan verði ekki of mikil eða kostnaðurinn of mikill.



[11:54]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti, Já, ég held að þetta gæti orðið mjög athyglisverð umræða. Það er áhugavert fyrir t.d. viðskiptanefnd eða velferðarnefnd hins nýja þings að ræða það sérstaklega með hvaða hætti staðið er skil á kostnaði og gjöldum hvað snertir kreditkort, debetkort, seðla o.s.frv. og hvar kostnaðurinn kemur fram og hvort hentugt sé að láta raunkostnað kerfisins ekki koma fram við notkun.

Ég held að við hv. þingmaður séum þá sammála um að það sé hentugasta kerfið til að leiða til framþróunar að fólk átti sig á því hver borgar á endanum og með hvaða hætti því að að sjálfsögðu eru neytendur að greiða fyrir það ef seljendur vöru og þjónustu taka á sig fjármagnskostnað. (PHB: Það borga allir.) Við borgum öll en ekki bara þeir sem kaupa tiltekna vöru. Í raun eru neytendur í heild að borga fyrir aukinn fjármagnskostnað verslunar í landinu. Það er þess vegna spurning hvort ekki væri hægt að búa til sterkari hvata í kerfinu þannig að fólk sæi sér hag í því að staðgreiða vöru með seðlum eða debetkorti þannig að við frestuðum ekki greiðslum um 30 daga. Smátt og smátt höfum við Íslendingar vanist á þetta kerfi og væntanlega verður erfitt fyrir okkur að vinda ofan af því en við hljótum að vilja skoða það hvort við ættum ekki að færa kostnaðinn þangað sem hann á heima til að við áttum okkur betur á því hver hann er og hvernig við getum brugðist við honum.