139. löggjafarþing — 167. fundur
 17. september 2011.
Stjórnarráð Íslands, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 674. mál (heildarlög). — Þskj. 1935, frhnál. 1949, brtt. 1858, 1905 og 1974.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:17]

Brtt. 1858,2, 4.b og 8 kölluð aftur.

Brtt. 1905 kölluð aftur.

Brtt. 1974 samþ. með 25 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BirgJ,  BVG,  DSt,  GuðbH,  GLG,  HLÞ,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  LGeir,  MSch,  MÁ,  ÓÞ,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
14 þm. (AtlG,  ÁsbÓ,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  EyH,  GBS,  LMós,  ÓN,  REÁ,  RR,  SDG,  TÞH,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
24 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  BjörgvS,  EKG,  GÞÞ,  GStein,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  MT,  OH,  PHB,  SER,  SIJ,  SF,  SkH,  SJS,  UBK,  VigH,  ÞSa) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:18]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil geta þess um þá grein sem nú liggur fyrir og þá mynd af 2. gr. að þetta er niðurstaða málamiðlunar sem náðist eftir langa umræðu í þinginu sem var kannski lengri en við hefðum velflest viljað. Grunnur þeirrar sáttar sem náðist í þessu máli kom nokkuð snemma fram, undir síðustu helgi, og hefði verið betra að við hefðum getað sameinast um hana þá strax.

Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur sérstaklega fyrir hennar aðkomu á þeim tímapunkti í þessu máli vegna þess að tillaga hennar var lausnamiðuð. Við hefðum vel getað fellt okkur við hana og lýstum því reyndar yfir. Ég kann vel að meta jafnmálefnaleg vinnubrögð og hún sýndi í þessu máli og vil geta þess sérstaklega og þakka kærlega fyrir það.



Frv., svo breytt, samþ. með 28:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BirgJ,  BVG,  DSt,  GuðbH,  GLG,  HLÞ,  JóhS,  JRG,  KLM,  LGeir,  MSch,  MÁ,  ÓÞ,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞSa,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  AtlG,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  GBS,  LMós,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  TÞH,  UBK,  ÞKG.
2 þm. (EyH,  JBjarn) greiddu ekki atkv.
19 þm. (ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BjörgvS,  EKG,  GÞÞ,  GStein,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KaJúl,  KÞJ,  MT,  OH,  SER,  SIJ,  SF,  VigH) fjarstaddir.
10 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeim breytingum sem hafa orðið á þessu frumvarpi, sérstaklega breytingunni á 2. gr. þar sem valdið er aftur fært til Alþingis um ákvörðun á skipan ráðuneyta og Stjórnarráðsins. Flokkist það undir afdalamennsku að vilja standa á bak við lýðræðið, þingræðið og rétt þingsins er ég bara stoltur af því.

Frumvarpið í heild sinni er hins vegar með þeim hætti að ég get ekki stutt það en mun sitja hjá. Ég fagna þó þeim góðu breytingum sem hafa margar orðið á því.



[16:20]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna sérstaklega þeirri miklu samstöðu sem hefur orðið um að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, þótt ég hefði í mörgum atriðum viljað ganga nokkuð lengra. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa frumkvæði að því að færa þetta mál inn í þingið og ég hlýt við þessa afgreiðslu að segja að andstaðan við þetta frumvarp var stórlega ofmetin því að mest hafa þær greinar sem um hefur verið fjallað fengið hér 16 mótatkvæði og mér sýnist frumvarpið í heild munu verða samþykkt með miklum meiri hluta.

Flest atkvæði hlaut greinin um málstefnuna, 34, en fæst atkvæði greinin um hljóðritanir á fundum, 29, en 31–32 atkvæði allar aðrar greinar í frumvarpinu. Það er mjög ánægjulegt.



[16:22]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð ekki þetta mál og greiði atkvæði gegn því og vek enn og aftur athygli á því vegna þess framhaldsnefndarálits sem kom frá meiri hluta allsherjarnefndar, að hér er ekki gerð nein tilraun til að koma til móts við þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á kaflann sem varðar stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra sem eru þau atriði sem voru gagnrýnd hvað mest í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og síðan í skýrslu þingmannanefndarinnar. Það er því ekki hægt að segja að hér sé verið að bregðast við þeim athugasemdum sem þar koma fram. Það er ekki gerð tilraun til þess, heldur er einfaldlega um einhvers konar sýndarmennsku að ræða.



[16:23]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Kannski fer ekki stór kafli í stjórnmálasögunni í að rekja sögu þessa máls en hún gæti orðið áhugaverð neðanmálsgrein.

Ég held að þetta mál sýni mikilvægi þess að þingið standi fast á sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar framkvæmdarvaldið, hver svo sem situr í ríkisstjórn, reynir að seilast inn á svið þingsins og taka til sín verkefni sem eiga heima í þinginu.

Í þessu máli hefur sem betur fer náðst sú niðurstaða að skipan ráðuneyta í landinu verður áfram hjá þinginu. Málið er engu að síður gallað að mörgu leyti og greiði ég því atkvæði gegn því.



[16:24]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikilsverðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands ná nú fram að ganga. Djúpstæður ágreiningur var í þinginu, sérstaklega um 2. gr. frumvarpsins. Málamiðlun náðist í því ágreiningsefni og ég fagna því.

Hins vegar hlýt ég að segja þá skoðun mína að það kunni ekki góðri lukku að stýra að skipta okkur í þinginu í lið sigurvegara og tapara þegar málamiðlun næst í ágreiningsmálum. Ég furða mig á þeirri áherslu sem þeir sem flytja fréttir héðan úr þinginu leggja á þetta atriði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég var með fyrirvara í nefndaráliti vegna þess að ég er ekki hlynnt því að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir og það hefur ekkert breyst í þeim efnum þó að þessar upptökur hefjist ekki fyrr en 1. janúar 2012.



[16:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við erum að afgreiða sem lög er forsætisráðherravæðing Stjórnarráðsins og ekkert annað. Það er einn maður eða ein kona sem á að ráða öllu í Stjórnarráðinu, setja reglur, úrskurða o.s.frv. (Gripið fram í.) Þetta á reyndar að leggja fyrir Alþingi en engu að síður á forsætisráðherra að ákveða allt, úrskurða og setja reglur. (Gripið fram í.) Það er talað um eðlislík málefni. Skyldu ekki öll málefni sem snúa að Evrópusambandinu vera eðlislík? Þau eru eðlislík öllsömul, (Gripið fram í: Nei.) þau snúa að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Það er mjög eðlislíkt, það eru utanríkismál og snýr að umsókninni að Evrópusambandinu.

Ég er mjög hræddur við þetta frumvarp, ég vona að það rætist ekki sem ég er hræddur við, en við skulum ímynda okkur (Forseti hringir.) að það geti komið aðrir forsætisráðherrar í landinu. [Kliður í þingsal.]



[16:26]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það mál sem við greiðum nú atkvæði um er dæmi um mál sem sýnir ranga forgangsröðun hjá ríkisstjórninni. Þetta er mál sem enginn er að kalla eftir. Þegar aðalmálin í dag snúa að vanda heimilanna og fyrirtækjanna eða að efnahagsmálum berst ríkisstjórnin fyrir því að færa völd frá þinginu til forsætisráðherra. Það stefndi í það á tímabili að forsætisráðherrann fengi að ráða fjölda ráðuneyta, gæti ráðið jafnframt fjölda ráðherranna, jafnvel sett fleiri en einn í hvert ráðuneyti — það er reyndar búið að fresta gildistöku þess ákvæðis — og forsætisráðherrann gat gert hvort tveggja án þess að eiga nokkurt einasta samráð við þingið. Þetta er dæmigert mál um ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en sem betur fer hefur veigamesta atriðinu í þessu frumvarpi verið breytt á þann veg að þingið heldur áfram þeim völdum sem það hefur haft. Það er gríðarlega mikilvæg niðurstaða.

Eftir stendur gallað mál sem ég get ekki stutt.



[16:27]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta frumvarp og undanfarar þess hafa átt langan og furðulegan feril í þinginu. Málinu hefur hins vegar verið þokað áfram, m.a. með alls konar hrossakaupum sem birtust í furðulegri atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar lögðust gegn því að sérstaklega væri bókuð afstaða þeirra í öllum málum með þeim rökum að ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald. Þetta voru gild rök. Ég var sammála því mati. Sama fólk greiddi hins vegar stuttu síðar atkvæði með því að allt sem sagt væri á fundunum yrði hljóðritað, það mátti ekki skrifa niður afstöðu allra ráðherra en það mátti hljóðrita allt heila klabbið. Þetta er afleiðing af því hvernig þetta mál hefur verið unnið eins og svo margt annað undarlegt í framgangi þessa frumvarps. Tilrauninni til að taka vald af þinginu og færa til framkvæmdarvaldsins var hrundið svo í eðli sínu er málið orðið allt öðruvísi en lagt var upp með.

Í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) er líka eitt og annað gott, reyndar mörg atriði sem horfa til betri vegar, en á því eru engu að síður enn þá mjög stórir gallar og það hvernig að þessu máli hefur verið staðið í þinginu leiðir til þess (Forseti hringir.) að ég get ekki stutt það.



[16:29]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því að þeir sem hafa undanfarna daga lagst í fremur ómálefnalegan leiðangur í þeim eina tilgangi að drepa þetta mál, koma í veg fyrir að það fengi lýðræðislega afgreiðslu hér hafa ekki haft erindi sem erfiði. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hér er komið af sanngirni til móts við það eina sem ég hef komið auga á að hafi verið efnislegt í umræðum um þetta mál að undanförnu, þ.e. spurninguna um það hvort Alþingi sjálft eigi að koma að einhverju leyti að ákvörðunum um meiri háttar breytingar á verkskipulagi innan Stjórnarráðsins. Með sanngjörnum hætti er fundin leið til að mæta því sjónarmiði á miðri leið með breytingartillögu. Af slíkri sanngjarnri niðurstöðu vaxa allir sem að henni standa nema þeir einir sem reyna að slá sig til riddara á kostnað hinna sem sýndu þeim sanngirni. Það eru litlu mennirnir í svona aðstæðum. [Kliður í þingsal.]

Ég óska hæstv. forsætisráðherra sérstaklega til hamingju. Hún hefur sýnt mikla staðfestu í (Forseti hringir.) að leiða þetta mál til lykta og sá sem hér talar hefur reyndar ekki verið langt undan. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í sal.)



[16:31]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að lögfesta umfangsmestu úrbætur í Stjórnarráðinu sem gerðar hafa verið frá 1969 sem ástæða er til að fagna sérstaklega. Þær gera okkur kleift að taka enn betur til eftir hrunið í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar en þegar hefur verið gert og þær auðvelda okkur allar breytingar á ráðuneytum eða flutningi verkefna á milli ráðuneyta sem við teljum til bóta og hagræðingar með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Ég þakka, virðulegi forseti, öllum sem lagt hafa sitt af mörkum til að ná þessu mikilvæga máli í höfn.